Líkt og fyrir ári síðan get ég bara skrifað þetta frá mínum sjónarhóli, einskonar dagbók. Ferðin að þessu sinni taldi fjórar nætur á Englandi.
Fimmtudagur
Það er ótrúlega lúmskt hversu mikil vinna liggur að baki því að smíða svona ferð. Maggi ásamt okkur hinum hefur verið sveittur við undirbúnig í nokkra mánuði og það var því ljúft er við gátum loksins lagt í hann saman til Keflavíkur. Þar lentum við reyndar strax í smá veseni því
flugbókunin hafði klikkað fyrir hluta hópsins! Úrval Útsýn reddaði því á nóinu en þetta gerði það að verkum að Maggi þurfti að fara með fjóra með sér með vél Icelandair hálftíma seinna og á annan flugvöll. Þetta reddaðist að hætti Íslendinga.
Fyrstu nóttina gistum við í Crawley sem er rétt hjá Gatwick flugvelli, þar er ágætur miðbær sem einhverjir náðu að taka aðeins út. Barþjónarnir á hótelinu sáu það tiltölulega snemma að réttast væri að hafa barinn opinn aðeins lengur en til 23:00 og þegar leið á kvöldið var mestallur hópurinn kominn á hótelbarinn þar sem við sátum til að verða tvö um nóttina.
Öfugt við hina náðum við Maggi ekki að koma því við að fá okkur að borða en það kom þó ekki að sök fyrir mig. Vigni fannst auglýsingin um samlokurnar úr The Hot Wending Machine alls ekki heillandi og sagðist kaupa handa mér samloku og “elda” hana ef ég myndi borða hana.
Eins og sjá má er samlokan jafnvel glæsilegri live heldur en á myndinni og hún var meira að segja næstum því heit alveg í gegn. Ég borðaði þetta a.m.k af bestu list. Takk aftur Vignir.
Háttatími hjá mér var um þrjú og ræs um átta um morguninn.
Föstudagur
Hópurinn byrjaði daginn á morgunmat á hótelinu áður en lagt var í hann til Liverpool klukkan 9:30. Rútuferðir milli London og Liverpool eru ekki málið en fyrir þessa ferð var það nauðsyn og vitað fyrirfram.
Ferðin til Liverpool gekk engu að síður ágætlega, rútan var fín með borði fyrir framan hvert sæti, kæli fremst og “mjög” rúmgóðu klósetti sem varð erfiðara að nota eftir hvern bjór. Við Maggi hlóðum í Pub Quiz til að stytta ferðina og heppnaðist það vel. Töluvert skárra að hafa Pub Quiz að morgni til heldur um um kvöldmatarleytið eins og við gerðum í fyrra yfir hóp sem var að mestu á felgunni (eða ekki á staðnum).
Rútan tók sinn tíma og umferðin í Englandi var hroðaleg, sérstaklega á hinum fræga M6 vegi. Mesti pirringurinn var reyndar aðallega hjá sjálfum mér og strax á leiðinni til Liverpool hófst undarleg þörf mín til að taka Frank “The Tank” á þetta alla leið…
Frábært kerfi bretar, er að íhuga að taka gott 100m streakin Árborg style til að létta lund í þessum hnút #kopferdin pic.twitter.com/TXJvd1MLOK
— Einar Matthías (@BabuEMK) October 3, 2014
Rútuferðin var líklega komin nálægt sex tímum þegar við lentum á hinu fáránlega flotta Titanic hóteli. Um er að ræða nýtt hótel í Liverpool borg sem hefur heldur betur slegið í gegn. Herbergin eru gríðarlega stór og rúmgóð en flest knattspyrnulið sem gista í Liverpool borg fyrir viðureignir gegn Liverpool eða Everton fara nú á þetta hótel. Húsið er ný uppgert en er þekkt í Liverpool borg sem romm og tóbaksverksmiðjan. Hentaði okkur fínt að gista í húsi með þannig sögu.
Sigurvegarar í Pub Quiz voru feðgarnir Guðni og Guðmundur og fengu þeir alsælir sitthvora 10.þúsund króna úttektina hjá ReAct.
Eftir að hafa tékkað sig inn kíktu flestir á miðbæinn en næsti hittingur var 19:30 í anddyri hótelsins. Við fararstjórarnir kíktum á meðan á Ron sem er einn af rekstraraðilum The Vines Pub (The Big House) en kappinn sá er mikill meistari þrátt fyrir að vera gallharður Everton maður. Líkt og árið áður var hann meira en til í að fá hópinn í morgunmat daginn eftir og jafnframt var hann mikið til í að útvega okkur lokaðan sal þá um kvöldið.
Því yfirgáfum við The Vines eingöngu til að ná í hópinn og fara þangað strax aftur. Þar vorum við í boði Úrval Útsýn sem bauð upp á fyrstu drykki og óhollt nasl með til að sparka kvöldinu í gang. Hópurinn var búinn að vera að mestu saman kvöldið áður og allan daginn þannig að það leið undarlega skammur tími frá því að við vorum í rólegum bjór þar til þessir þrír voru farnir að myrða hvert lagið á fætur öðru í karíokí.
Þar sem menn voru komnir í gír og farnir að myrða slagara var augljóslega tímabært að færa sig yfir á Bierkeller. Hann hefur verið líflegri en akkurat þarna, snemma á föstudagskvöldi en við gerðum engu að síður gott úr því og vel það.
Við Maggi fórum upp á hótel fljótlega eftir Bierkeller og líklega á það við um aðra í hópnum líka. Spenningur fyrir morgundeginum var farinn að magnast og flestir fóru því snemma í bælið. Miðana gætu menn nálgast milli 9 og 10 daginn eftir, eftir það værum við farnir af hótelinu.
Laugardagur
Allir mættu á fyrsta korterinu eftir níu nema eitt herbergi. Við prufuðum að hringja í hótelsímann en ekkert var að frétta. Ég stökk upp og barði hurðina næstum af hjörunum en ekki heyrðist múkk. Við grófum upp GSM númerin þeirra en þeir virtust hreinlega ekki vera á staðnum. Krakka andskotar.
Þegar klukkan var rúmlega tíu og við Maggi við það að fara í morgunmatinn á The Vines pubnum ákváðum við að reyna aftur að berja á hurðina og jafnvel díla við housekeeping um að opna. Þá loksins náðu bönkin hans Magga í gegn og Fjölnir kom til dyra. Sennilega sofnuðu menn ekki alveg um miðnættið!
Jóhannes vinur minn hefði hinsvegar ekki einu sinni rumskað þó Titanic Hótelið hefði sokkið líkt og skipið sem það er nefnt eftir. (Ég lofaði honum að hafa þessa með sem refsingu fyrir að vakna ekki í miðaafhendinguna 🙂
Hvað um það við náðum að koma miðunum á alla í hópnum og það sem meira er allir fengu (að ég held) sæti með sínum ferðafélaga. Það er alls ekki sjálfgefið á Anfield. Þeir einu sem ekki sátu saman á leiknum vorum við Maggi en ég kem að því síðar
Fyrir alla heimaleiki Liverpool er hægt að fara í morgunmat á The Vines og við hvetjum alla til að hjóla í það. Það er betra að bóka fyrirfram en þetta er úrvals upphitun fyrir stemminguna á The Park fyrir leik. Alan Kennedy var ræðumaður að þessu sinni og var stórskemmtilegur.
Tryggvi og Þórir voru mættir aftur (sjá síðustu ferð) og bætti Tryggvi nafni Alan Kennedy við sífellt meira impressive derhúfuna sína. Hann endar sem svona Pete Sampara karakter á leikdegi eftir nokkur ár.
Til að gæta sanngirnis fékk Kennedy mynd af sér með Magga líkt og Fairclough árið áður.
Þar með var ekkert að vanbúnaði, næsta stopp var skemmtilegasti bar í heiminum, The Park á leikdegi. Gott ef maður datt ekki óvart í flennigírinn.
Ekki nóg með þessa helvítis miða hjá Guðjóni og Andra þá var Andri (t.h.) í búning frá ca. aldarmótum með Heskey á bakinu líka! Team Cissokho verður væntanlega mætt með borða á Anfield ca. 2020.
Það urðu svo fagnaðar fundir með okkur Jóhannesi á Park en hann var heldur betur vaknaður og bjó að því að þurfa lítið sem ekkert að drekka til að verða hress aftur.
Það er annars gaman að sjá þá sem eru að mæta í fyrsta skipti á leik koma inn á barina fyrir leik. Það er oft litlu minni upplifun en að koma á völlinn sjálfan og stemmingin var fín fyrir þennan leik.
Þessi litli í hvíta bolnum er sá sem stjórnar söngvunum á Park um þessar mundir þó við sem þarna vorum vitum öll að raunar var það þessi…
…sem leiddi fjöldasönginn.
Það lag sem menn voru ennþá að raula eftir leik var hið ótrúlega Gary Macca lag, hér má sjá hvaða lag um ræðir og sá sem ég talaði um áðan leiðir sönginn, þetta er gangandi glymskratti á Liverpool lög. Já og líklega sá eini sem kann öll ca. 97 versin.
Bölvaður andskotinn var samt ekki til í að taka undir með Prins Aly Cissokho laginu okkar Magga sem við þó sungum fyrir hann.
Þegar allir sem við sáum úr okkar hópi voru farnir inn á Anfield skunduðum við fararstjórarnir inn á völlinn líka, þetta gekk allt saman vel og ég lét Magga fá miðann minn strax og við vorum komnir inn. Það voru mistök!
Á leiðinni upp stigann tók ég mynd og týndi Magga fullkomlega, þar sem það er alls ekki gott að vera miðalaus á Anfield laumaði ég mér efst og stóð þar án þess að “sessunautar” mínir hefðu hugmynd um að ég væri ekki á réttum stað. Ekkert gekk hjá okkur Magga að hringjast á og eftir smá stund ætlaði ég að skipta um sim kort (var með breskt númer). Það fór ekki betur en svo að ég missti Íslenska sim kortið mitt og týndi því. Þar með gafst ég upp á að reyna að ná í Magga og hélt bara mínum stað út allan leikinn án þess að fara á klósettið eða barinn, satt best að segja þurfti ég á hvorugu að halda.
Scouserarnir í kringum mig voru líka ljómandi hressir og stemmingin var fín á leiknum, eitt fannst mér þó skrítið en það var eins og ekkert lag væri klárað til enda, bagalegt fyrir mig enda búinn með nokkra bjóra og fékk aldrei memo-ið um að allir hinir væru hættir að syngja. Ég er mjög góður í hópsöng (plús 5000 manns), hræðilegur í einsöng.
Besti vinur minn í hálfleik var sá sem sat fyrir framan mig en hann fann sim kortið mitt og fékk að launum risastórt bjarnarknús alveg án þess að fara nokkurntíma fram á það.
Óli Haukur fór annars yfir leikinn sjálfan hérna á síðunni en eins og vanalega er gaman að sjá þetta með berum augum og upplifunin allt öðruvísi.
Það sem helst fór framhjá mér á leiknum var þegar dómarinn dæmdi vítið. Ég var alls ekki í línu við þetta atvik en var alveg pottþéttur að hann hafði dæmt aukaspyrnu, spáði ekki einu sinni í þetta og því kom það mjög flatt upp á mig þegar hann fór að búa sig undir að taka víti. Mikið djöfull var ég pirraður í stöðunni 1-1 og líklega fór ég yfir strikið (hjá nýja vini mínum við hliðina á mér) þegar við skoruðum annað markið. Gríðarlegur léttir. Bæði vegna þess að Liverpool verður að fara taka öll þrjú stigin úr deildarleikjunum og eins til að hópurinn fengi nú sigurleik.
Það er vert að geta þess að þessi þriðja Kop.is ferð fór eins og hinar tvær á undan, með sigri og er því 100% vinningshlutfall í þessum ferðum okkar. Einhver stakk upp á því að hafa bara Kop.is liða úti fram á vor til að hjálpa til við í stigasöfnun liðsins, við erum alveg til í að skoða það!!
En það urðu fagnaðarfundir hjá okkur Magga eftir leik sem og rest af hópnum en við fórum yfir leikinn á Park og leyfðum mestu umferðinni að deyja út áður en við stukkum upp í strætó niður í bæ.
Niðri í bæ fórum við Maggi á einhvern Ítalskan veitingastað þar sem ég hélt aðeins í gamlar hefðir og hallaði mér í örskamma stund meðan Maggi var í símanum. Kósý alltaf þessir Ítölsku staðir.
Á leiðinni upp á hótel tókum við örstutt stopp í Tesco til að sækja vistir til að hafa upp á herbergi meðan við græjuðum okkur aftur niður í bæ um kvöldið. Óskar og Dóri höfðu samband og við mæltum okkur mót við þá upp á herbergi.
Já þetta endaði fljótlega með því að nánast allur hópurinn og meira til var mættur inn á herbergi og við Maggi alveg óvart með hörku partý. Eins og þið munið þá eru þessi herbergi fáránlega stór. Eins og sjá má á myndinni gerðist þetta svo hratt að ég náði ekki einu sinni að skipta um föt og klikkaði því á dresscode-inu sem hinir þrír fóru greinilega allir eftir.
Þegar ég ætlaði svo í sakleysi mínu að fara í skyrtuna til að uppfylla dresscode skilyrðin gleymdi ég að herbergið var fullt af bjánum með snjallsíma, vanalega er ég sá sem tek myndirnar!
Helvítis snjallsímar! Blessunarlega tók ég ekki nakinn sprett um hótelið og satt að segja var ég bara í sakleysi mínu að skipta um föt inni á mínu hótelherbergi, en við Maggi máttum þakka fyrir að ná því áður en skarinn fór aftur niður í bæ. Niðurstaðan er engu að síður að ég tek að mér hlutverk Sverris í ár sem toppaði mig þó í síðustu ferð með því að rífa sig á kassann inni á troðfullum bar.
Fyrsta verk í miðbænum var að koma Óskari aftur á trommurnar á The Cavern Club, hann sló í gegn á þeim árið áður. Cavern er stórmerkilegur bar og fjölsóttur af ferðamönnum og þeir rukka því inn á hann. Ég fann leið til að komast framhjá því og notaði til þess kynþokkann… svona eiginlega.
Dyraverðir á Englandi eru jafnan með öllu húmorslausir og ég veit ekki hvernig þetta virkaði og hvað þá afhverju ég fór þessa leið en ég gaf þeim tvo kosti.
“Either I´ll pay and go streakin downstairs or I´ll go in for free, with my clothes on”.
Ég var rétt byrjaður að hneppa frá næst efstu tölunni þegar þeir hleyptu mér inn, frítt.
Óskari náðum við aftur á trommurnar og hann var jafnvel betri en árið áður.
Nú fer minnið að verða gloppóttara, veit ekki afhverju. Ég man að tveir drengir skildu við hópinn er þeir fóru inn á herramannaklúbb sem heitir Pink án þess að vita að einu gestir þess ágæta staðar væru einmitt allir af sama herramannakyninu og stoppuðu víst stutt. Einhverjir fóru á Bierkeller og ef ég man rétt var aðeins þremur úr hópnum hent út þaðan yfir helgina.
Við Maggi ásamt Óskari og Dóra tókum kráarrölt og vorum komnir snemma upp á hótel að því er ég best vissi. Klukkan var hinsvegar víst töluvert meira en snemma og það undarlega er að rétt áður en ég lagðist á koddann var bankað, voru þar tveir mættir úr miðbænum sem vildu hefna sín á okkur fyrir að hafa vakið þá með látum þá um morguninn, viðurkenni að það var vel spilað. Og Maggi var glaður með knúsið sem hann fékk frá þeim alveg upp í rúm!
Herbergið okkar var partýherbergi fram eftir kvöldi og Maggi hafði það ekki í sér að láta “housekeeping” koma að því þannig og tók því til áður en hann fór að sofa. Ég hafði það hinsvegar alveg í mér.
Sunnudagur
Gallinn við svona ferðir er að maður sefur ekki neitt, þá er ég að tala fyrir sjálfan mig því á meðan ég var búinn að sofa samanlagt rétt rúmlega tíu tíma voru aðrir búnir að ná því bara á þá um nóttina og nýta þetta hótel eins og á að gera það. Blessunarlega ræður hver og einn sínum hraða.
Helsta mál á dagskrá var skoðunarferð um Anfield sem stór hluti hópsins smellti sér í. Við höfðum gengið frá því að allur hópurinn komst saman í þá skoðunarferð sem var auðvitað vel heppnuð, slík ferð er auðvitað möst fyrir alla Liverpool aðdáendur, kíkja í ólík herbergi vallarins og snerta “This is Anfield” skiltið á leiðinni inn á völlinn. Já, og heyra Harry Kewell brandarann.
Bræðurnir Gunnar og Axel í sætum Brendan Rodgers og Colin Pascoe á meðan Fjölnir var hafður á varamannabekknum fyrir að brjóta útivistarbann kvöldið áður.
Við Maggi horfðum á fótbolta á meðan á The Park en U21 árs leik Everton og Liverpool sem átti að vera á Goodison var frestað. Því næst gerði ég hroðaleg mistök og fór niður bæ með Magga, hann ætlaði rétt aðeins að versla og þar sem við vorum hvort eð er að fara upp á hótel eftir það ákvað ég bara rölta bara með honum og bíða.
Til að stytta tímann live tweet-aði ég búðarferðinni
Ákveðinn hápunktur í H&M ferðinni þegar ég skipti um löpp til að stíga í!
Er btw búinn að týna Magga núna og rata ekki úr þessu helvíti
— Einar Matthías (@BabuEMK) October 5, 2014
Skipti aftur um löpp, þunginn er á hægri löppinni núna, H&M gleðin er gríðarleg.
— Einar Matthías (@BabuEMK) October 5, 2014
Dagurinn eftir þetta og kvöldið var bara í höndum hvers og eins enda flestir frekar þreyttir eftir átök helgarinnar. Sumir versluðu þó þeir hefðu ekki live-tweetað með því (vanmetið sko), aðrir röltu um miðbæinn eða kíktu á Albert Dock og inn í Bítlasafnið. Nú eða gláptu á meiri bolta á Sky.
Við Maggi hittum breskan félaga okkar og kíktum með honum í bæinn. Fyrsta bjórinn tókum við þó á hótel barnum en inni á veitingastaðnum var enginn annar en Rickie Lambert. Sindri sem átti áfmæli þennan dag hitti á kappann og fékk mynd af sér með honum.
Gísli pabbi Sindra var reyndar svo upp með sér þegar þeir hittu Lambert að hann var rétt búinn að taka selfie af sér í stað þess að taka þessa mynd 🙂
Við minnum á að við rákumst á Raheem Sterling í þessari ferð okkar í fyrra. Á þeim tíma var hann hægri bakvörður og sannarlega ekki að heilla okkur. Ef að Lambert fer nú að raða inn mörkunum, þá er það kop.is að þakka. You heard it first here!
Mánudagur
Mánudagurinn stóð svo heldur betur undir nafni og vel það, úff. Þá erum við ekki að tala um þynnku heldur varð ferðalagið heim ekki hápunktur ferðarinnar. Satt besta að segja er óhætt að fullyrða að þetta verður í síðasta skipti sem Kop.is ferð verður farin með heimferð frá London.
Heimferðin var engu að síður eitthvað sem við vissum fyrir ferðina en það sem við vissum ekki var hversu hroðalegt gatnakerfið er í Englandi, það er gjörsamlega sprungið og við vorum sérstaklega óheppin með umferðarhnúta.
Satt að segja var þessi helvíti langa rútuferð alveg í lagi þar til kom að flugvöllunum og í ljós kom að gríðarlega málglaður og hress bílstjórinn var ekkert nema kjafturinn. Vegna vandræða með bókun á flugferðum þurfti hluti hópsins aftur að fara frá Heathrow, það flug var áætlað klukkutíma seinna og því fundum við Maggi nokkra með okkur með skömmum fyrirvara sem voru til í að fara þá leið. Úrval Útsýn var með mann á Gatwick sem tók á móti hópnum.
Bílstjórinn var með navigation sem stóðst upp á mínútu inn á Heathrow og henti okkur úr þar, umferðin á flugvellinum var alveg í hnút og tafði okkur aðeins og gerði það að verkum að hann setti okkur úr við rangt Terminal, ekkert stórmál. Milli Heathrow og Gatwick er 30 mínútna akstur, max 50 mínútur sagði bílstjórinn. Þrátt fyrir smá tafir var þetta því ekkert stress.
Þarna slökkti Snjallmundur við stýrið alveg á hausnum og ofan á gríðarlega traffík, svo mikla að fullt af fólki missti af flugi frá Gatwick þennan dag þá rataði hann ekki á völlinn og keyrði á rangt Terminal, það þrátt fyrir mjög skýr fyrirmæli frá okkur fararstjórunum og eins tengilið Úrval Útsýn sem var í sambandi við hann.
Til að gera miklu lengri og töluvert meira stressandi sögu stutta þá varð rútuferðin um 8 tímar og Úrval Útsýn þurfti að fá WoW til að hafa innritunarborðið opið aðeins lengur. Þetta hafðist þó allt að lokum og allir komust heim á réttum tíma.
Svonalagað er pirrandi meðan á því stendur en gleymist með tíð og tíma, allir komust a.m.k. á leikinn og náðu flugi á réttum tíma, það er aðalatriði. En hópferð kop.is fer aldrei aftur heim frá London eftir helgi í Liverpool, það var reyndar vitað fyrir þessa ferð.
Heim á Selfoss var ég kominn um 01:00 og Maggi mætti á Hellissand ca. tveimur tímum síðar. Sá sem lengst þurfti að fara af hópnum var Gísli sem hugðist a.m.k. keyra alla leið í Hörgárdal fyrir norðan.
Vikan á eftir
Ég mæli alveg með því að eiga einn frídag eftir svona keyrslu, fjórir dagar á Englandi í svona ferð þýða fjórir dagar heima til að jafna sig. Smá þreyta er engu að síður örlítill fórnarkostnaður sem maður tekur glaður á sig eftir svona veislu.
Ferðafélögum okkar þökkum við kærlega fyrir ferðina, það voru sex manns í þessari ferð að fara í annað skipti með Kop.is og því segjum við bara sjáumst aftur næst. Auk þeirra þökkum við öllum hjá Úrval Útsýn fyrir að smíða þetta með okkur og eins ReAct sem sá um vinninga.
Einar (Babú) og Maggi
Èg þakka kærlega fyrir mig,þetta eru ógleymanlegar ferðir sem að èg hef farið í og èg à pottþètt eftir að fara í aðra.Þið eruð snillingar.
Enn og aftur, virkilega gaman að lesa ferðasögurnar frá ykkur. Maður fær það á tilfinninguna að þetta hafi verið alger rússíbani þess langa helgi hjá ykkur. Aðalatriðið var sigur og það hafðist 🙂 Hef samt mikinn skilning á pirringnum í rútunni, slíkt er eðlilegt sér í lagi heimferðin.
Takk kærlega fyrir mig, fararstjórar og ferðafélagar. Frábær ferð og skemmtilegur hópur.
Takk fyrir ferðina – frábær ferð í alla staði 🙂 Finn hvergi gjafabréfið – grunar þann gamla að vera búinn að stinga því undan 😉
Hress ferðasaga. Hef aldrei komið á Anfield og maður kemur svoleiðis pottþétt með í næstu Kop-ferð.
Er það ekki eðlilegt Guðni m.v. að hann svaraði spurningunum? Múhaha 🙂
https://www.youtube.com/watch?v=3IDZ6VzDZ5c
Virkilega skemmtilegur lestur…hvað kostar bjórinn í Liverpool annars? Ég veit að ég myndi fara á hausinn ef ég myndi fara á 4 daga bender hérna í London.
Það væri ein leiðin til að lýsa því Babú 😉
Er ekki byrjað að plana næstu ferð??? Ég mæti klárlega í hana.
Holy Crap! Ég varð næstu því þunnur á að lesa þetta 🙂
Sýnir enn og aftur að hópferð með Kop.is er eitthvað sem hver og einn á að fara í 🙂
Og þið segjið að það sé leiðinlegt í landsleikja hléinu.
Áfram Ísland!!!
Frábær lesning, mér klæjar í góminn að koma með í næstu ferð kop.is.
Hef sjálfur aldrei komið á anfield. Hvenær er næsta hópferð og hvað er svona pakki að kosta per manninn ? 🙂
Bestu kveðjur,
Hrein Mey
Frabær ferð. Flott hotel . Maggi og Babú hressir og flottir fararstjorar og hopurinn skemmtilegur. Toppurinn samt leikurinn og hrikalega goð tilfinning að labba utaf Andfield eftir sigurleik.
Eina sem eg skil ekki eftir ferðina er hatur Babu a Heineken.
Hinsvegar bestu þakkir til Oskars frænda að bjoða mer i þessa ferð
Rickie Lambert verður með Þrennu gegn QPR ef Hann spilar 45+ Mín.
Ein besta utanlandsferð sem ég hef tekið þátt í, ef ég mundi einhverntímann skoða tölvupóstinn minn væri ég löngu búinn að senda Magga einhverjar myndir, mögulega hefðu einhverjar ratað í söguna, allaveganna myndin af Babú þegar hann kemur til dyra klukkan 5 um morguninn þegar við félagarnir eru að koma heim og ég náði líka mynd af faðmlögum Jógannesar og Magga í rúminu, það var fallegt.
Takk fyrir ferðina fólk, sjáumst pottþétt aftur seinna.
Takk fyrir frábæra ferð. Gott að fá sigurleik. Mörg minnisverð atvik, nokkur okkar erum t.d. orðin sérfræðingar í ranghölum á Gatwikflugvellinum eftir furðuleg skilaboð um -gate- þegar allir voru hlaupandi að ná vélinni. Bara gaman að því öllu eftiá. Eftir stendur góð ferð sem hefur kostað þá félaga mikla ómælda vinnu að undirbúa og það þökkum við kærlega fyrir. Leikurinn frábær en sennilega var toppurinn að finna stemminguna á the Park fyrir leikinn. Svona gerist ekki bara af sjálfu sér. Aftur takk.
P.S. Ég er búin að finna verðlaun guttans svo við skellum okkur fljótlega og kíkjum á úrvalið.
Hvernig Heiniken er stórt nafn í bjór bransanum er mér fullkomlega ofviða að skilja.
Doremí, haha shit! Ekki viss um að það hefði komist í færsluna eftir að Maggi skólastjóraði hana duglega til 🙂 En það var vissulega fallegt moment.
Guðmundur, flott að þetta fannst nú og það er aldrei slæmt að vera vel að sér á þessum flugvöllum, varla annað við hæfi en að hringla aðeins með gate-ið líka eftir þessa rútferð.
Takk aftur sömuleiðis allir fyrir ferðina.
Þetta var snilldar ferð fyrir utan rútuferðina til baka, en ég er svekktur yfir því að myndin af okkur magga komst ekki þarna inn. Annars vil ég þakka ykkur fararstjórum fyrir frábæra ferð og ykkur hinum sem voruð með þarna. Sjáumst vonandi í næstu ferð 😀
p.s. Babú.. þessi mynd af mér átti ekki að rata í þennan pistil !! haha
Haha sorry Jóhannes, myndin klikkaði á twitter og eins og sjá má var ég aðeins í´ðí þegar ég lofaði að láta þessa fylgja með 🙂