Real Madríd mætir á Anfield

Real Madríd var valið lið síðustu aldar og er í dag talið vera verðmætasta félagslið í heiminum. Þrátt fyrir öll Olíufélögin er það Real Madríd sem slær ítrekað metið yfir dýrustu leikmenn í sögunni, félagið er líklega stærsta félagslið í heiminum og eru þá allar íþróttagreinar þar með taldar. Þar fyrir utan kemur liðið frá Madríd, höfuðborg Spánar og því óhætt að segja að reglubundin Evrópu upphitun um Real Madríd yrði fljótlega að bók hvað lengd varðar.

Vinsældir félagsins má að hluta rekja til þess að þeir eru sigursælasta liðið í Evrópukeppni Meistaraliða frá upphafi. Tíunda titilinn unnu þeir á síðasta tímabili og við þann punkt ætla ég að stoppa. Titilinn sigursælasta lið Evrópu frá upphafi bera þeir frekar ódýrt að mínu mati þó þetta sé vissulega staðreynd. Þar er ég helst að horfa til fyrstu ára Evrópukeppni Meistaraliða og skjótan uppgang Real Madríd áður en sú keppni var sett á laggirnar, m.a. af Real Madríd og nokkrum fleiri félögum.

Real Madríd vann fyrstu fimm titlana í Evrópukeppni Meistaraliða, keppni sem þá var boðsmót í umsjá franska tímaritsins L´Équipe. Áður en ég skoða þessi fyrstu ár keppninnar verðum við að skoða hvað var að gerast á Spáni fram að því og hvernig það beintengdist Real Madríd.

Franco
– Hitler og Mussolini
Hlé var gert á knattspyrnu á Spáni árin 1936-1939 er Spænska borgarastyrjöldin gekk yfir. Fram að því hafði Real Madríd verið eitt af bestu liðum Spánar og annað hvort lent í fyrsta eða öðru sæti fimm árin á undan. La Liga var raunar sett á laggirnar tímabilið 1928/29 og frá þeim tíma hafði Real Madríd bara tvisvar ekki verið í efstu tveimur sætunum.

Eftir að borgarastyrjöldinni lauk árið 1939 var mótið sett á aftur og spilað þrátt fyrir seinni heimsstyrjöldina. Franco var einræðisherra á Spáni og án þess að fara djúpt ofan í hans sögu eða stjórnunarhætti almennt er ekki hægt annað en að skoða tengingu hans við fótboltann á Spáni og hvernig hann notfærði sér hann innanlands sem utan.

Franco var fasisti og einn af þremur helstu leiðtogum þeirrar hreyfingar í Evrópu, hinir voru Mussolini og Adolf Hitler og veittu þeir báðir Franco og mönnum hans mannafla og annarskonar stuðning í borgarastyrjöldinni árin 1936-39 sem skipti sköpum í baráttunni við vinstri sinnuð öfl á Spáni eins og Katalóníumanna sem nutu stuðnings Sovétmanna. Spánn var í molum er heimsstyjöldin braust út eftir þriggja ára borgarastyrjöld og var hlutlaust að nafninu til í seinni heimsstyjöldinni þó allir vissu af þeirra stuðningi við Öxulveldin.

Eftir árangurlausan fund Hitler og Franco 1941 þar sem Hitler reyndi að fá Spánverja með í heimsstyrjöldina er Hitler sagður hafa sagt Mussolini að frekar myndi hann láta draga úr sér tennurnar heldur en að funda aftur með hinum lævísa og grimma Franco. „Hlutleysi“ Spánverja bjargaði Franco eftir stríð því þegar samherjar hans í Evrópu misstu völdin tókst honum að halda velli þó Spánn hafi einangrast alveg frá samfélaginu eftir stríð. Árin eftir sigur hans í borgarastyrjöldinni bældi hann niður andstæðinga sína með mjög grimmilegum hætti í anda einmitt Hitler og Mussolini.

Hitler og Mussolini voru frumkvöðlar þegar kom að áróðri og nýttu báðir óspart íþróttir til að sýna glæsileika sinn og styrk þeirrar stefnu sem þeir boðuðu, jafnt innanlands og ekki síður utanlands. Mussolini eyðilagði HM 1934 gjörsamlega með einhverri svæsnustu spillingu sögunnar. Hitler hafði ekki nógu gott fótboltalið á þessum tíma og notaði í staðin Ólympíuleikana 1936 áður en hann innlimaði Austurríki 1938 og sameinaði landsliðin en Austurríki var eitt besta landslið þess tíma.

Hvorugur hafði áhuga á fótbolta fyrr en þeir sáu hvað íþróttin gat gert fyrir þá. Franco var nákvæmlega eins og tók þetta á næsta skref eftir að hann sá mátt knattspyrnunnar.

– Andspyrnuhreyfingin
Baskar og Katalóníumenn voru helstu andstæðingar fasista í borgarastríðinu og í tengslum við fótbolta gaus hatur Katalóníumanna enn frekar upp og þjóðerniskenndin magnaðist til muna er menn Franco myrtu forseta Barcelona árið 1936 en þá stóð yfir baráttan fyrir sjálfstæði Katalóníu (og stendur enn). Þessum þjóðflokkum var bannað að stofna til hópfunda, mótmæla eða vera með þesskonar and-félagslega hegðun, ásamt því að Franco bannaði tungumál og þjóðfána þeirra með lögum. Félagsliðin máttu ekki einu sinni spila í litum sinna félaga og nöfnum þeirra var breytt til að samræmast spænsku tungumáli.

Puyol, fyrirliði Barcelona fæddur og uppalinn í Katalóníu fagnar bikarmeistaratitli með Barcelona með fána Baska héraðanna vafinn utan um sig.

Almenningur á Spáni hafði ekki efni á eða tækifæri til að nýta sér hefðbundnar leiðir til að sýna andúð sína eins og t.d. í gegnum leiklist eða tónlist. Eini vettvangurinn þar sem þeir gátu sýnt mótmæli sín var á knattspyrnuleikjum. Knattspyrna var og er ennþá trúarbrögð á Spáni en fékk ennþá dýpri merkingu á árunum sem Franco ríkti, frá 1939-1975. Real Madríd var liðið hans Franco og með árunum hans helsta áróðursvél.

Stuðningur við Barcelona og Bilbao, „landslið“ Katalóníu og Baskahéraðanna var besti og oft eini vettvangurinn til að láta í ljós pólitískar skoðanir sínar. Fangelsisvist og barsmíðar biðu þeirra sem töluðu annað tungumál en hreina Castillian Spænsku, veifuðu fána sinna héraða eða efndu til hópfunda með fleiri en sjö manns. Í þessu samhengi urðu heimaleikir stærstu félagsliða andstæðinga Franco, Barcelona og Bilbao helsti vettvangur mótmæla án þess að þurfa að hljóta refsingu fyrir. Þar var hægt að tala sitt eigið móðurmál óttalaust.

Það að klæðast litum sinna héraða eða vera með fána þeirra var auðveldara að greina og voru margir handteknir fyrir slíkt á leikjum Barcelona og Bilbao en allir Spánverjar vissu að rauði og blái liturinn í búningi Barcelona kom í stað rauða og gula litar Katalóníu. Eins með Atletico Bilbao þá kom rauði og hvíti liturinn í stað rauða, græna og hvíta litar Baska héraðanna. Stuðningsmenn þessara liða klæddust því litum sinna liða og sýndu þannig stuðning sinn og líklega hafa sjaldan eða aldrei fundist ástríðufyllri og harðari stuðningsmenn sinna liða, sérstaklega þegar Real Madríd kom í heimsókn. Að öskra og baula á liðið hans Franco var líklega vinsælasta tegund af pólitískum mótmælum gegn einræðinu.

Atletico Bilbao var stærsta og besta lið Baska héraðanna og stuðningur við þá var gríðarlegur þar. En Bilbao varð einnig uppáhaldslið andstæðinga Franco út um allt land. Bilbao átti hundruði stuðningsmannaklúbba út um allt land, jafnvel harða stuðningsmenn sem höfðu aldrei komið til Baska héraðanna en sáu þar bæði sigursælt og vinalegt félag, Bilbao varð lið verkamannastéttarinnar á Spáni og öflugt andspyrnutákn.

Barcelona varð aldrei eins öflugt tákn utan Katalóníu vegna þess að stuðningsmenn þeirra voru flokkaðir meira millistéttarfólk. Meirihluti spænskra verkamanna sem fluttu til Katalóníu frá Murcia og Andalúsíu fundu meiri samleið með öðrum liðum Katalóna eins og Espanyol.

Kaldhæðni örlaganna og hluti af ástæðunni fyrir vinsældum Bilbao og Barcelona er sú að eftir að Franco komst til valda og fótboltinn byrjaði á ný þá voru það Baskarnir og Katalóníumennirnir sem tóku yfir fótboltann á Spáni. Real Madríd fór í gegnum sitt versta þurrkatímabil í sögunni og vann ekki titilinn í 18 ár eða fyrr en 1953/54. Fram að því hafði Franco notað kúganir og barið öll mótmæli niður en fór með tímanum að átta sig betur á mikilvægi fótboltans og hvernig hann gæti hjálpað honum. Hann var fyrsti maður til að stökkva á vagninn þegar gengi Real Madríd fór að skána.

Franco vildi afvegaleiða spænsku verkamannastéttina eins og hann gat frá pólitík, borgarastyrjöld eins og sú er kom honum til valda vildi hann ekki og eitt af þeim tólum sem hann notfærði sér markvisst var knattspyrna. Spánverjar voru og eru forfallnir fyrir en hann gerði í því að auka vægi hennar í fjölmiðlum og stýrði þeirri umfjöllun auðvitað sér í vil eins og hægt var. Til marks um áhuga Spánverja þá voru þrjú fótboltadagblöð starfandi í Barcelona, tvö í Bilbao og tvö í Madríd.

Meðan orkan og áhuginn fór í knattspyrnuliðin viðhélt Franco pólítísku sinnuleysi landsmanna. Eftir grimmilegar aðferðir og kúganir fyrsta áratuginn við völd fór fótboltinn að verða honum mikilvægari og eftir því sem tækninni fleygði fram fóru Franco og stuðningsmenn hans að verða mun sýnilegri á knattspyrnutengdum viðburðum. Sérstaklega hjá landsliðinu og Real Madríd. Afskipti stjórnarinnar og áhrif á fótboltann jukust í takti við það og var Franco engu betri en félagar sínir forðum, Hitler og Mussolini.

Franco notfærði sér einnig aðrar tegundir menningar til að drepa frítíma landsmanna en fótboltinn var lang vinsælastur og áhrifamestur. Spánverjar fóru meira að segja að sýna brasilíska fótboltann þegar enginn leikur var á Spáni, áhrif þess gæta líklega ennþá á Spáni.

Knattspyrna vann auðvitað bæði með honum og á móti því fótboltaleikir voru áfram helsti samkomustaður pólitískra andstæðinga og sá hópur stækkaði í takti við aukið aðgengi. Fyrstu árin eftir Borgarastyrjöldina hafði kaupmáttur Spánverja gjörsamlega hrunið og aðsókn á knattspyrnuleiki var töluvert minni en hún var fyrir hrun. Landsmenn voru að mestu að reyna berjast við hungur, atvinnuleysi og kúgun stjórnvalda.

Santiago Bernabeu Yeste
Hagur Real Madríd breyttist mikið þegar Santiago Bernabeu var kosinn forseti félagsins 1943. Félagið var þá eins og áður segir í eyðimerkurgöngu og það breyttist ekkert á einni nóttu en Bernabeu hafði stóra framtíðardrauma og var stundum líkt við Franco hvað stjórnunarhætti og persónuleika varðar.

Franco og Bernabeu á hátindi beggja.

Vinnuaflið var mjög ódýrt á Spáni á þessum tíma og Bernabeu sá framtíðarmöguleika þess að byggja nýjan og glæsilegan 75.000 manna heimavöll í miðborg Madríd og fékk fjármagn til þess. Völlurinn var opnaður 1947 og eftir því sem félagið varð sigursælla var nýrri hæð bætt ofan á stúkuna og tók völlurinn 125.000 manns í maí 1954. Þetta var ári áður en Evrópukeppni Meistaraliða var sett á laggirnar og hófu Real Madríd leik þar með stærsta heimavöll allra þáttökuliða.

Þarna var kominn vettvangur sem var öflugri en öll leikhús eða óperuhús, Franco, herforingjar hans og aðrir sem vildu vera í náðinni hjá honum kepptust við að láta sjá sig á heimavelli Real Madríd þar sem þeir studdu heimamenn gegn oftar en ekki mun veikari andstæðingum. Öll stjórnsýsla Spánar var miðstýrð frá Madríd og þar voru því allir helstu framámenn landsins vanalega staðsettir.

Real Madríd vann loksins deildina 1954 og aftur árið 1955. Árið eftir hófst Evrópukeppni Meistaraliða og hana notfærði Franco sér óspart til að auka hróður sinn bæði innanlands sem og utanlands. Real Madríd var tákn um getu og glæsileika Spánverja sem voru litnir hornauga alls staðar í Evrópu sem síðasta vígi fasista. Franco sá tækifæri í gegnum fótboltann til að bæta ímynd sína og Spánar og afvegaleiða umræðuna frá grimmilegri einræðisstjórn hans.

Völlurinn var seinna nefndur í höfuðið á þessum mikilvæga fyrrum forseta félagsins, Santiago Bernabeu.

– Alfredo Di Stefano, eitt mesta hneyksli í sögu knattspyrnunnar.
Real Madríd var líka rotið inn að beini og þeirra besti maður á þessum tíma og jafnvel allra tíma er gott dæmi um það, sjálfur Alfredo Di Stefano. Hann var búinn að skrifa undir samning við Barcelona árið 1952 og spilaði með þeim 2-3 æfingaleiki áður en Franco og hans menn létu til sín taka.

Þeir hótuðu forráðamönnum Barcelona sem sáu um kaupin á Di Stefano frá River Plate. Eignarhaldið á Di Stefano var örlítið flókið þar hann var ennþá í eigu River Plate en hafði komið til Spánar með kólumbíska liðinu Millenarios sem hann spilaði með í nokkur ár. Vandamálið var að kólumbíska deildin var ekki viðurkennd af FIFA og hann því enn löglega skráður leikmaður River Plate. Di Stefano hafði slegið í gegn í æfingamóti sem haldið var í Madríd í tilefni af 50 ára afmæli félagsins. Forráðamenn Barcelona voru fljótari að átta sig og semja við hann. Það gerðu þeir með því að semja við River Plate fljótt og örugglega (og löglega).

Þegar Real frétti af þessu var þeim bent á að reyna að kaupa Di Stefano beint af Kólumbíska liðinu sem þeir náðu samkomulagi við en FIFA samþykkti ekki.

Hótanir Real manna til forráðamanna Barcelona gengu ekki og eftir að FIFA samþykkti kaup Barcelona á Di Stefano voru sett ný lög á Spáni sem bönnuðu kaup á erlendum leikmönnum, Franco stjórnaði ekki FIFA en hann réði öllu á Spáni. Þetta var gert eingöngu til að hindra Barcelona í að kaupa Di Stefano. Ef þetta var ekki nægjanlega fáránlegt þá fór ríkið strax gegn þessum nýju lögum og lagði til sameiginlegt eignarhald Real og Barca yfir leikmanninum. Hann yrði hjá Real eitt tímabil og Barca árið eftir og svo koll af kolli. Kúgaður og undir hótunum var forseta Barcelona á endanum nauðugur sá afarkostur að selja sinn helmingshlut í Di Stefano til Real Madríd! Barcelona menn voru fullkomlega brjálaðir.

Þetta varð heldur betur afdrifaríkt því með Di Stefano náði Real loksins yfirhöndinni í baráttunni á Spáni. Di Stefano spilaði með Real gegn Barcelona mánuði eftir að hann gekk til liðs við þá og skoraði fjögur mörk. Real vann titilinn tveimur árum eftir að hann kom.

Di Stefano með fyrstu fimm Evrópumeistaratitla Real Madríd

Di Stefano er ennþá ein mesta goðsögn í sögu Real Madríd en hann skoraði 216 mörk í 282 deildarleikjum sem var met þar til Raul sló það rúmlega 40 árum seinna. Di Stefano fékk Spænskan ríkisborgararétt 1957 og var kosinn besti leikmaður Spánverja á 50 ára afmæli FIFA árið 2003 og var valinn fjórði í vali á besta leikmanni aldarinnar.

Þetta var svona afdrifarík ákvörðun og fyrir mér dregur þetta verulega úr glæsileika Real Madríd, raunar alveg enda er þetta bara eitt frægt dæmi frá þessum tíma, guð má vita hvað kom aldrei fram.

Tengsl Real Madríd og Franco voru þarna öllum ljós.

– Endalok Franco og Fasista á Spáni
Uppgangur Real Madríd kom á besta tíma fyrir þá, kaupmáttur Spánverja var aðeins að braggast og áttu fleiri kost á því að fara á völlinn, aðsókn fór að aukast verulega á ný ásamt því að Evrópukeppni Meistaraliða var sett á laggirnar á besta mögulega tíma fyrir Real Madríd, enda komu þeir að stofnun þeirrar keppni.

Með bættum fjárhag Spánverja var einnig uppgangur hjá hinum stóru liðunum á Spáni, Barcelona, Valencia og Atletico Madrid byggðu einnig nýja og glæsilega heimavelli og veittu Real aðhald bæði í deildinni heimafyrir sem og Evrópu.

Franco var að sjálfsögðu í forgrunni í öllum sigrum Spænskra liða, sérstaklega Real Madríd og aldrei meira en árið 1957 er Real Madríd vann keppnina á heimavelli. Franco notfærði sér sigra Real til að kynda undir þjóðernishyggju Spánverja en horfði á sama tíma framhjá því að bestu leikmenn þessa sigursæla liðs voru Di Stefano frá Argentínu, Puskas frá Ungverjalandi, Kopa frá Frakkalndi, Canario frá Brasilíu og Santamaria frá Úrúgvæ.

Real Madríd vann Evrópukeppni Meistaraliða sex sinnum á fyrstu 11 árum keppninnar og voru tvisvar í öðru sæti. Þeir fengu þáttökurétt fyrstu 15 ár keppninnar ýmist með að vinna heimafyrir eða í Evrópu. Franco nýtti sér þessa sigra til að sýna mikilfengleika Spánverja undir hans stjórn fyrir öðrum leiðtogum þess tíma.

Þegar yfirburðir Real Madríd fóru að minnka í Evrópu eftir því sem stjörnur liðsins urðu eldri sneri Franco sér meira að landsliðnu og til marks um það má geta þess að Argentínumaðurinn Di Stefano er gulldrengur Spánverja og meira að segja ungverska goðsögnin Puskas á nokkra landsleiki með Spánverjum, hrein tilviljun að þetta var sóknarlína Real Madríd.

Eftir að Franco dó fór fasistahreyfingin með honum og stjórnarfarið breyttist mikið á Spáni. Fótbolti hjálpaði honum m.a. að halda völdum á Spáni í 36 ár eða allt þar til hann lést árið 1975.

Barcelona og Real Madríd mættust 38 dögum eftir að Franco lést á troðfullum Bernabeu vellinum. Katalóníumenn voru heldur betur klárir í slaginn og smygluðu 700 fánum sem sýndu stuðning með Katalóníu og Barcelona inn á völlinn og líklega hefur 1-2 sigri Barcelona á Bernabeu aldrei verið fagnað eins innilega og þetta desemberkvöld, sigurmarkið kom á lokamínútu leiksins.

Franco var dauður.

Hér er frábær þáttur frá BBC um tengsl Fasista og fótbolta og tekur á þeim öllum, Mussolini, Hitler og Franco. Til að skilja betur áhrif þeirra á fótboltann á sínum tíma mæli ég sterklega með að horfa á þetta. Parturinn um Franco byrjar á 38. Mínútu.

Bilbao og Barcelona mega á ný klæðast sínum litum og flagga sínum þjóðfánum á leikjum. Þetta er auðvitað lengri og flóknari saga sem við köfum ekki dýpra í hérna. En með auknu lýðræði á Spáni og tímanum hefur hatrið snúist minna um stjórnvöld á Spáni á fótboltaleikjum, meira um ríg liðanna og helstu áhrifin fyrir Real Madríd voru þau að stimpillinn fór smám saman af þeim sem liðið hans Franco.

Það breytir því ekki að sá stimpill gjaldfellir verulega þessar fyrstu titla þeirra í Evrópukeppni Meistaraliða. Skoðum þessa fyrstu titla þeirra aðeins betur.

Fyrstu sex Evrópumeistaratitlar Real Madríd.
Spænska deildin hefur verið leikin í 83 tímabil, Real Madríd hefur unnið hana í 32 skipti og verið í öðru sæti í 21 skipti. Þeir hafa þvi barist um titilinn í 53 af 83 skiptum og það er án þess að taka tillit til þeirra sjö skipta sem liðið hafnaði í þriðja sæti.

Barcelona hefur unnið 22 titla og verið 24 skipti í öðru sæti eða 46 skipti af 83 tímabilum. Þetta segir allt sem þarf í raun um Spænsku deildina og áskrift þessara risavelda að Evrópukeppni meistaraliða. Það hafa raunar bara 9 lið unnið deildina á Spáni í sögunni, þrjú af þeim eiga einn titil hvert og eitt þeirra er með tvo titla.

Atletico Mardíd, Valencia og Atheltic Bilbao eru einu liðin sem hafa af og til blandað sér í baráttuna með samanlagt 24 titla. Deildin hefur á þessum tíma farið úr því að vera 10 liða yfir í 20 liða eins og hún er í dag.

1955/56
Santiago Bernebeu Yeste byggði nýjan völl sem önnur lið Evrópu öfunduðu Real Madríd af er Evrópukeppni Meistaraliða hófst 1955. Með bættum fjárhag Spánverja og aukinni aðsókn varð völlurinn gullkista og hjálp stjórnvalda með ýmsum hætti hjálpaði til að auki.

Real Madríd var því meira en tilbúið þegar Evrópukeppnin hófst en fyrsta árið samanstóð hún af 16 bestu liðum álfunnar sem höfðu þegið boð franska tímaritsins L’Équipe um að taka þátt, ritstjóri þeirra hafði árin á undan reynt að fá samþykki UEFA að koma á slíku móti.

Chelsea átti að vera fulltrúi Englands en FA bannaði þeim að taka þátt á þeirri forsendu að keppnin væri óþarfa auka álag frá deildarkeppninni.

Fyrsta einvígi Real Madríd var við Servette frá Sviss sem þeir unnu samanlagt 7-0. Næsta einvígi fór 4-3. Undanúrslitaeinvígið vann Real Madríd 5-4 og var þar með komið í úrslit gegn Reims sem þeir unnu 4-3.

Það er því ekki að undra að sóknarmenn þessa tíma hafi skorað mikið en það var skorað 4.38 mörk að meðaltali í leik í keppninni. Fyrir leikinn gegn Reims var Real búið að ganga frá kaupum á þeirra besta manni, Kopa fyrir næsta tímabil.

1956/57
Meistarar Real unnu Radid Vín 2-0 í aukaleik eftir að viðureignin fór samanlagt 5-5 í fyrstu umferð. Nice lágu samanlagt 6-2 í 8-liða úrslitum og Man Utd 5-3 í undanúrslitum. The Busby Babes voru fyrstu fulltrúar Englendinga í þessari keppni.

Úrslitaleikinn gegn Fiorentina unnu Real 2-0 á heimavelli með Franco fremstan í flokki í stúkunni.

1957/58
Enn á ný fór Real beint í 16-liða úrslitin sem sigurvegari og fyrsta fórnarlambið var Royal Antwerp frá Belgíu sem lágu 1-8 samanlagt. Sevilla lágu 10-2 samanlagt í næstu umferð. Vasas frá Ungverjalandi var klárað 4-2 í undanúrslitum og AC Milan 3-2 í framlengingu. 25 mörk skoruð í 7 leikjum Real í keppninni.

Mótið þetta árið handónýtt enda lést stór hluti af einu besta liði keppninnar þetta árið, Manchester United í flugslysi eftir millilendingu í Munchen á leiðinni heim frá Belgrade. United fékk Milan í næsta Evrópuleik þremur mánuðum eftir flugslysið og vann fyrri leikinn 2-1. Milan vann sinn heimaleik hinsvegar 4-0.

1958/59
Mótið stækkaði ár frá ári en alltaf byrjaði Real Madríd sem sigurvegari árið á undan í 16-liða úrslitum. Besiktas lá 3-1 í fyrsta einvígi gegn Real liði sem nú var búið að bæta Puskas við þegar óviðjafnanlega sóknarlínu. Næst var Austurrískt félag tekið 1-7 og nágrannarnir í Atletico Madríd voru teknir 2-1 í aukaleik um sæti í úrslitunum eftir að einvígi liðanna fór 2-2 samanlagt.
Reims beið aftur í úrslitum líkt og árið 1956 og aftur vann Real, núna 2-0.

1959/60
Fimmta árið í röð byrjaði Real Madríd í 16-liða úrslitum og lagði lið sem heitir Jeunesse Esch samanlagt 12-2. Nice lá 3-6 í 8-liða úrslitum og erkifjendurnir í Barcelona voru lagðir 6-2 samanlagt í undanúrslitum, slátrað af Di Stefano og Puskas.

Úrslitaleikurinn varð síðan sögulegur því hann er ennþá mesti markaleikur í sögu úrslitaleiks keppninnar. Frankfurt voru lagðir 7-3 það kvöld á Hampden Park.

Puskas og Di Stefano voru tveir markahæstumenn mótsins með samanlagt 20 mörk. Liðið skoraði allt 31 mark, í 7 leikjum!

Þar með lauk einokun Real Madríd á Evrópumeistaratitlinum, Eusebio kom upp með Benfica og vann tvisvar. Milan liðin unnu þrjá titla árin þar á eftir en Real spilaði til úrslita í tvö af þessum fimm skiptum. Þ.e. Real spilaði til úrslita í 7 af 10 fyrstu Evrópukeppnum meistaraliða.

Gullaldarlið Real Madríd 1955-60

1965/66
Enn á ný vann Real Madríd eftir áttunda úrslitaleikinn á fyrstu 11 árum keppninnar. Nú þurftu þeir að byrja í forkeppni þar sem þeir unnu Feyenoord 2-6 samanlagt til að komast í 16-liða úrslit, Puskas skoraði fimm af þessum sex mörkum. Kilmarnock var tekið 3-7 áður en Anderlect lá 4-3 í 8-liða úrslitum.

Real Madríd stöðvaði sigurgöngu Inter Milan í undanúrslitum með 2-1 samanlöðgum sigri en þeir höfðu unnið keppnina tvö árin á undan (með vafasömum hætti). Partizan Belgrade vann Man United í hinum leiknum en þessi lið voru þarna að mætast í fyrsta skipti aftur eftir flugslysið 8 árum áður.

Real lagði svo Partizan í úrslitum 2-1 á Heysel vellinum í Belgíu og var þetta svanasöngur Di Stefano, Puskas og félaga í gullaldarliði Real Madríd í þessari keppni.

Real Madríd spilaði ekki aftur til úrslita fyrr en 1981 og mætti þá í fyrsta skipti andstæðingum þeirra á miðvikudaginn. Liverpool vann þann leik 1-0 i París.

Niðurstaða
Eins og áður segir þá er það staðreynd að Real Madríd er sigursælasta lið Evrópu og enginn að mótmæla því. Það er hinsvegar erfitt að horfa framhjá því að það hvílir skuggi yfir þessum fyrstu sigrum þeirra undir verndarvæng einræðisherrans Franco sem sá beinan hag af því að Real Madríd gengi sem best og er sagður hafa hjálpað til við það með ýmsum hætti.
Þarna skapaði liðið sér þó nafn í boltanum og tók forystu sem þeir hafa eiginlega aldrei látið af hendi síðan. Þetta er þó auðvitað bara brot af sögu Real Madríd og stikklað á stóru yfir hana.

Liðið í dag.

Félagið vann Meistaradeildina annaðhvert ár frá 1998 til 2002 og bætti svo síðasta Evróputitlinum við núna í vor og eru því ríkjandi meistarar.

Deildarkeppnin byrjaði rólega en eftir tvo tapleiki í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins hafa þeir einfaldlega sett í fluggír og verið ógnvekjandi góðir.

Svona hafa síðustu leikir Real Madríd farið, Basel 5-1, Deportivo 8-2, Eiche 5-1, Villareal 2-0, Ludogorets 2-1, Athletic Bilbao 5-0 og núna um helgina Levante 5-0. Sjö sigurleikir í röð og liðið hefur skorað 32 mörk í þessum leikjum. Ronaldo er með 15 mörk í deildinn í 7 leikjum það sem af er tímabilinu og hann hefur skorað í báðum Meistaradeildarleikjunum. Hann er einfaldlega svindlkall í núverandi formi.

Það þarf ekkert að ræða frekar hópinn hjá Real Madríd, við erum vön því að sjá hálfgerða svindlhópa hjá Chelsea og Man City á Englandi en Real Madríd er á allt öðru leveli hvað þetta varðar og byrjunarliðið er með sóknargetu á við gullaldarliðið sem innihélt Di Stefano og Puskas.

Líklegt byrjunarlið Real verður líklega einhvernvegin svona:

Casillas

Carvajal – Pepe – Varane – Marcelo

Modric – Kroos – Isco

Rodriguez – Benzema – Ronaldo

Sagan segir að Gareth Bale sé frá vegna meiðsla. Þá eru ekki taldir með Khedira, Hernandez, Fábio Coentrão, Arbeloa, Nacho eða Illarramendi. Bekkurinn er kannski ekkert sá besti í sögunni þó hann sé ógnvekjandi fyrir því en byrjunarlið Real Madríd snýst öllum liðum snúning.

Casillas er undir smásjánni eftir nokkur mistök undanfarið og fær mikla samkeppni frá Keylor Navas. Varnarlínan ætti að velja sig sjálf þó Varane hafi reyndar verið veikur er Real lék gegn Levante og spilaði ekki þann leik, eins kom Arbeloa inná og spurning hvort hann vinni aftur sæti í byrjunarliðinu þegar hann hefur náð 100% leikformi.

Arbeloa er eini leikmaður Real Madríd sem fær klárlega mjög góðar móttökur á miðvikudaginn, hann var í frábæru viðtali við Guardian í dag sem sjá mér hér.

Xabi Alonso er blessunarlega farinn af miðjunni hjá þeim en Kroos kom bara í staðin frá Bayern. Alonso var hundfúll að vera farinn frá Real núna þegar þeir drógust gegn Liverpool, sá hefði fengið afar góðar móttökur.

Modric er búinn að stimpla sig inn sem lykilmaður á miðjunni hjá þeim og stjarna HM í fyrra. James Rodriguez kemur líklega inn úthvíldur aftur og Isco verður mögulega áfram á miðjunni þar sem Bale er meiddur.

Benzema var veikur um helgina eins og Varane og spilaði Javier Hernandez í hans stað, spái því að það breytist fyrir leikinn gegn okkar mönnum.

Þjálfari Real Madríd er öllum kunnur en hann hefur nokkrum sinnum mætt Liverpool á ferlinum. Hann var stjóri Chelsea árin 2009 – 2011 en ekki nógu góður fyrir Roman. Stuðningsmenn Liverpool muna þó betur eftir honum í þessum leik sem stjóra AC Milan (munum minna eftir sama leik árið 2007).

Carlo Ancelotti er einfaldlega eitt stærsta nafnið í boltanum í dag, stjórar Real Madríd eru það jafnan.

Liverpool.
Þetta yrði ekkert í fyrsta skipti sem dýrasta og besta lið Evrópu kæmi á Anfield Road og færi ekki með neitt til baka. Það er í svona leikjum sem Anfield Road skapaði helst nafn sitt utan Bretlandseyja og eftir fimm ára bið eru stuðningsmenn Liverpool svo sannarlega tilbúnir fyrir heimsókn Real Madríd og hafa verið það í nokkrar vikur, fundum það vel helgina sem við vorum úti og fórum á W.B.A leikinn. Ludogorets var bara upphitun fyrir þennan leik hvað stuðningsmenn Liverpool varðar. Með Real Madríd mæta Evrópukvöldin fyrir alvöru aftur á Anfield. Núna er bara að vona að liðið okkar sé tilbúið líka.

Anfield er tilbúinn í slaginn, vonandi er liðið það líka
Anfield er tilbúinn í slaginn, vonandi er liðið það líka

Við erum svolítið með bakið upp við vegg eftir afleit úrslit í Basel og megum illa við því að tapa stigum í þessum leik. Real Madríd er ekkert ósigrandi og rétt eins og þeir geta slátrað andstæðingum sínum þá geta okkar menn það alveg líka. Gerðum það ítrekað í fyrra og reyndar líka þegar þessi lið mættust síðast.

Þá vann Liverpool samanlagt 5-0. Góðum 1-0 útisigri var fylgt eftir með frábærum 4-0 sigri á Anfield. Það Liverpool lið var reyndar í svipuðu stuði þá og okkar menn voru á síðasta tímabili.

Þessi lið hafa aðeins mæst fjórum sinnum í sögunni sem verður að teljast nokkuð magnað og Liverpool hefur unnið alla leikina sem skiptu máli. Fyrsta viðureigning var eins og áður segir úrslitaleikurinn í París 1981 sem okkar menn unnu 1-0. Næsti leikur var vináttuleikur spilaður á Bernabeu eftir að tímabilið byrjaði 1989 eða þann 30 ágúst. Liverpool tapaði þeim leik 2-0. Hinar tvær viðureignirnar eru svo leikirnir árið 2009 sem okkar menn unnu báða.

Líklegt byrjunarlið okkar manna.
20.10.14 Liðið gegn Real

4-4-2 tígul miðja og Sterling frammi með Balotelli. Glen Johnson held ég að haldi sæti sínu í þessum leik frekar en Manquillo enda Johnson mun hærra skrifaður hjá þjálfarateymi Liverpool heldur en meðal margra stuðningsmanna. Skrtel og Lovren verða líklega á sínum stað og Moreno var vonandi bara hvíldur gegn QPR. Enrique var svo lélegur í síðasta leik að félagið hefur kallað Brad Smith til baka úr láni frá Swindon Town.

Gerrard verður að öllum líkindum aftur kominn í leikstjórnandahlutverkið enda ekkert eðlilega öflug miðjan hjá andstæðingum okkar í þessum leik. Henderson og Allen tippa ég á að verði saman á miðjunni og Coutinho spilaði sig jafnvel inn í liðið í síðasta leik meðan Lallana var alls ekki að því. Coutinho var einnig flottur í landsleik í síðustu viku og virðist því vera að ranka við sér.

Minnsta vandamálið á síðasta tímabili var sóknin en er orðið það mesta í dag. Balotelli er ennþá í náðinni hjá Rodgers sem hefur trú á honum og satt að segja er hann þrátt fyrir allt líklegastur af okkar leikmönnum til að hrökkva í gang í svona leik og klára hann einn síns liðs. Raheem Sterling hrökk í gang þegar Coutinho kom inná um helgina og þá fóru að koma hlaup á bak við varnarlínu andstæðinganna. Þetta verðum við að fá gegn Real Madríd og því tippa ég á að Rodgers prufi að hafa Sterling uppi á toppni með Balotelli í þessum leik og spili það leikkerfi sem kom okkur í meistaradeildina. Liverpool á ekki glætu gegn Real með því að pakka í vörn og rétt eins og gegn öðrum liðum sem sækja á okkar menn eru þar tækifæri okkar manna. Verst að Real er eitt besta skyndisóknarlið sögunnar.

Svona tippa ég á liðið í þessum leik. Til vara eigum við menn með reynslu af því að spila í Evrópukeppnum eins og Lucas, Can, Markovic og Sakho. (o.fl.)

Spá:
Aldrei nokkurntíma vanmeta Liverpool í Evrópukeppninni. Alveg sama hvernig gengi okkar manna er á þeim tíma og eins skiptir engu hver andstæðingurinn er, krafan er alltaf sigur á Anfield. Ég ætla að spá því að okkar menn komi mörgum á óvart og sigri gamla liðið hans Franco 2-1 í klassískum Evrópuleik á Anfield. Sterling og Gerrard setja mörkin.

Þið ykkar sem hafið ekki trú á okkar mönnum fyrir þennan leik munið að það getur allt gerst í fótbolta

Babú

77 Comments

  1. Í svona leik hefur Liverpool ekki efni á því að vera með farþega sem horfir bara á leikinn, Balotelli á bekkinn!
    Frábær upphitun sem fær tíu hjá mér????

  2. Frábær upphitun! Að venju 🙂

    Ég sá að Carra vill hafa þetta byrjunarlið, en setja Lallana inn fyrir Balotelli. Ég væri til í það! Það þarf ekki alltaf framherja til að skora og vinna!

  3. Balotelli á að hafa sagt ekki fyrir svo löngu að hann væri einn besti leikmaður í heimi….maður myndi halda að þetta væri leikur fyrir hann.

  4. Babu!

    Ég vona að þú sért að fá borgað fyrir þessa upphitun þar sem hún er algjört gull!!!

    Ég vona að Liverpool hrökkvi í stórliðsgírinn og taki þennan leik. Ég er þó ekki bjartsýnn og sérstaklega ekki með Mario fremstan. Ég vona samt að hann troði sokk upp í mig og setji hann, vonandi oft!

    Ég spái að leikurinn fari 2-2. Ronaldo og Benzema skora fyrir Real. Gerrard og Henderson skora fyrir okkur.

    En veit einhver hvað er að frétta af Moreno? Er að lesa fregnir að við séum að kalla Brad Smith úr láni og e-ð rugl? Einhver sem veit meira en ég?

  5. Flott upphitun Babú

    Ég vona að Balo verði settur á bekkinn ,, vill frekar hafa Borini þarna með sterling…. Svo litla trú hef ég á Balo eða Lató einsog ég er farinn að kalla hann………….. En Ef hann verður í liðinu sem ég reyndar held að verði pottþétt,, mikið vona ég þá að hann troði sokk í kokið á mér ………

  6. Búinn að lesa þessa frábæru upphitun en á eftir að þræða alla linkana.
    Þetta tekur nokkur kvöld.
    Maður þarf að passa sig að gleyma sér ekki og missa jafnvel af leiknum 🙂

    Nú veit ég hvers vegna mér hefur alltaf verið illa við RM.

    Þetta er spurningin um hugarfarið. Ef okkar menn koma brjálaðir inn í leikinn, physical í pressu, nokkrar hressar tæklingar og ná jafnvel marki á fyrstu 20 mín. þá er leiðin greið.
    YNWA

  7. Ég held að Mario geti ekki verið að fara byrja leikinn, það þarf að taka til í hausnum hans áður en eigngirnin hans og leti inná vellinum eyðileggur móralinn í liðinu, það sáust greinileg merki þess að það væri að fara gerast á sunnudaginn.

    Af hverju ekki að prufa Borini, hann virðist vilja spila, vill sanna sig og hefur aldrei spilað jafn illa og Mario gerði á sunnudaginn.

    Það þarf að senda Balo merki þess efnis að hann þarf að leggja sig fram og að sama skapi þarf að taka pressuna af honum ef það að hann virðist vera eini kosturinn þarna frammi veldur pressu á honum. Hann hlitur að skilja að þetta er síðasti séns hans á að vera alvöru framherji í stóru liði.

  8. Algjörlega gjörsamlega mögnuð upphitun Sör Babu! Þetta verður eitthvað miðvikudaginn.
    Miðað við típíska skitu af spilamennsku í gær væri það svo eitthvað Liverpoollegt að fara á kostum á miðvikudaginn. Veit ekki hversu oft maður hefur horft á þetta lið okkar spila svona illa í leik fyrir meistaradeildarleik. Virðist bara vera normið. En maður að verða spenntur fyrir þessarri geðveiki sem er framundan, farinn að máta frakkann og búinn að skerpa á sveðjunni. Leyfum fasistunum að koma þeir verða göttaðir. YNWA!!!

  9. Leyfum fasistunum að koma þeir verða göttaðir. YNWA!!!

    Hehe til að árétta er ég samt alls ekki að mála Real Madríd menn sem fasista, hvorki núna og alveg örugglega ekki þá heldur 🙂

  10. Er nu ekki vanur ad lesa svona langa texta um svona hluti, en thedda er nu bara meistaraverk, meirihattar upphitun!

  11. Babú þetta er ekki nema 5000 þúsund orð 🙂 Átt allavega nóg eftir fyrir seinni leikinn 🙂 Frábær upphitun.

  12. Þessi upphitun er svo góð að hægt er að nota hana sem heimild í sangfræðiritgerð. Takk kærlega fyrir þann tíma og metnað sem þú settir í þessa upphitun Babu, þetta er algjört meistaraverk.

  13. Þessi Upphitun, Maður fær bara vatn í munninn!

    Jæja, Með fullri virðingu fyrir Brendan Rodgers þá væri afskaplega gott að hafa Rafa Benitez í svona leik, enda Taktískur Snillingur og gerði það að gamni sínu að stríða Madrídigum. Hef samt bullandi trú á okkar Mönnum og Brendan er þar meðtalinn, Það er búinn að vera mikill stígandi í leik okkar síðan við fengum rothögg frá Basel.

    Mignolet er allur að koma til, þessi blessaða vörn okkar heldur samt áfram óförum sínum, Miðjan er búin að eiga sín ‘moment’ og svo er þetta týpískur Leikur þar sem Sóknin hrekkur í gang. Spái því að sá sem verði upp á topp hjá okkur á eftir að eiga stórleik, hvort sem það yrði Balotelli, LAMBERT, eða Sterling. Þessi Leikur er alltaf að fara henda í flugeldasýningu og þetta fer 4-2 þar sem Casillas og Vörn Liverpool munu keppast um það hvor eigi fleiri mistök.. Haha, YNWA.

  14. Frábær upphitun!

    Ég er sammála þér með tígulmiðju uppstillinguna, þétta miðjuna og freistast til að breika á þá. Væri til í að sjá liðið svona:

    Mignolet
    Manquillo – Skrtel – Lovren – Moreno
    Gerrard
    Henderson – Lallana
    Coutinho
    Balotelli – Sterling

    Langar rosalega að tippa á sigur okkar manna, en held að leikurinn fari 2-2 í spennandi leik þar sem Mignolet siglir inn stigi fyrir okkur!

  15. VÁÁÁ Meistaradeildin er mætt í öllu sínu BABU veldi. Gæti trúað að Babu væri prófessor í sagnfræði slíkur er metnaðurinn í þessum upphitunum.

    Varðandi leikinn sjálfan að þá er eitt sem hefur lengi einkennt þetta blessaða lið okkar að það spilar nánast alltaf á sama leveli og andstæðingurinn.
    Um helgina spiluðum við eins og QPR hefur verið að gera (og jafnvel aðeins verr) en ólíkt mörgum tímabilum þar á undan fengum við stiginn úr slíkum leik.
    Á miðvikudaginn spái ég að því komi allt annað Liverpool lið til leiks og nái óvæntum úrslitum og fari með öll stiginn inn í klefa að leik loknum.

    Þetta verður hvað sem öðru líður magnaður leikur og eftir þessa upphitun að þá get ég varla beðið.

    YNWA

  16. Frábær pistill !

    Maður horfir á Classico með öðrum augum eftir þennan sögufróðleik.

    Það getur allt gerst í fótbolta eins og Babu réttilega segir og LFC er búið að sýna það að dramatíkin húkir þar á fjósbita og þetta verður sko eitthvað !

    Hvaða eitthvað er hinsvegar ómögulegt að segja til um. Vonandi koma okkar menn brjálaðir í þennan leik og ná óvæntum úrslitum !!!!

    ??? YNWA ?????

  17. Gríðarlega vönduð upphitun hjá Babú. Hef fulla trú á að við fáum amk annað stigið úr þessum leik. Þó við höfum hreint ekki verið sannfærandi undanfarið má minna á að síðast þegar við kjöldrógum Real árið 2009 höfðu okkar menn nýlega steinlegið fyrir Middlesborough.

  18. Babú mættur á svæðið!!!

    Þvílíkur pistill!

    Vonandi mæta okkar menn af krafti!

  19. Ég er að taka þátt í lestrarátakinu – allir lesa. Ætli ég geti skráð þetta ?

    YNWA

  20. Þessi upphitun er 4756 orð. Það er svipað langt og 5-eininga lokaritgerð í háskólanámi. Babú ætti að prenta þetta út og geyma uppí Þjóðarbókhlöðu.

    Annars bara spenntur fyrir þessum leik. Já, á pappírnum bendir allt til þess að Evrópumeistararnir muni skóla okkur á morgun en eins og Babú bendir á í niðurlaginu getur allt gerst í fótbolta. Allt. Og ef Andrea Dossena gat skorað gegn Real getur Alberto Moreno það líka.

    Bring it on, hlakka til!

  21. Plís ekki Balotelli. Á ekki skili? a? byrja. Mó?gun og vanvir?ing vi? a?ra sem leggja sig fram. Getur ekki veri? gott fyrir móralinn.

  22. Bravó bravó fyrir þessa upphitun. Hún er frábær….

    Ég verð að játa að ég hef áhyggjur af mínum mönnum miðað við spilamennsku síðustu leikja. Ég á því mjög erfitt að spá þeim sigri. Mín spá er þannig að RM kafsigla okkar menn og klára þetta 0-4. Vona samt innilega að þessi spá rætist ekki.

    En þvílík upphitun..

  23. Frábær pistil ég segi eins og fleiri nú horfi ég allt öðruvisi á El classico takk kærlega fyrir mig þessi síða er í heimsklassa!

  24. Ef Carlsberg gerði upphitanir….

    Eins klikkað og það nú hljómar þá var ég stressaðari fyrir QPR og Hull leiknum en ég er fyrir Real Madrid. Auðvitað er þetta lið sem gæti jarðað okkur 0-4. En það er einhvernveginn þannig að Liverpool mætir nánast undantekningalaust í stóru leikina.

    Það væri alveg týpískt að Lovren og Skrtel myndu halda hreinu á morgun eftir að hafa verið jarðaðir gegn Austin og Zamora.

    Ætla að skjóta á 2-2 jafntefli, þar sem að Real skora, eftir hornspyrnu, í uppbótartíma.

    Bring it on!

  25. Myndi gera allt fyrir a? hafa einn Masche e?a gamla Lucas í svona leik.

  26. Svo er allveg klárt mál að leikmenn real verða með allavegna 30% af heilanum sínum við el classico sem er á laugardaginn verðum að vinna þennan leik því ef ekki þá verður real búnir að tryggja sér áfram þegar þeir mæta basel og ef basel nær stigi gegn þeim þá erum við útúr keppninni come one you fucking reds !

  27. Ég vill sjá Baló fá allavegana sénsinn í fyrri hálfleik, ekki á kostnað Sterling samt sem mér finnst ekki að eigi að rótera í svona leik.
    Borini er kosturinn með honum eða jafnvel Marco.
    Ef aftur á móti að Balotelli mætir til leiks eins og hestur í afmælisveislu þá vil ég sjá hann útaf í hálfleik og fá Lambert inn.
    Baló getur þetta, hann kom sér í færi á móti QPR og var í raun bara einum fyrisætudrætti frá því að vera með sjálfstraust til að klára.
    Þetta kemur hjá kallinum og það á morgun (held ég selji hann samt í Fantasy).

    Við erum mættir aftur í deild þeirra bestu, gleðilega hátíð.

  28. Ég, sjálfur sagnfræðingurinn, ætti ekki breik í Babu-upphitanir, þvílík snilld! Takk fyrir þetta!

    Sammála með byrjunarliðið. Er samt ansi hræddur við að uppleggið verði allt annað…

  29. Ég held að þetta sé fullkomin leikur fyrir Balotelli…. til að vera ekki í byrjunarliðinu. Það vilja allir spila þennan leik og ef hann hefur ekki fattað það áður þá fattar hann það þarna að hann verður að leggja sig fram í öllum leikjum, líka á móti QPR, til að geta spilað leiki sem þessa.

  30. Þetta er algerlega frábær upphitun!
    Ég hreinlega get ekki beðið eftir leiknum!

    Liverpool tekur þetta 3-2 þar sem Balo, Sterling og sjálfsmark sjá um mörkin fyrir okkar menn en Ramos skorar fyrir spanjólana. Bring it on!

  31. Ef að liðið mætir í þennan leik af sömu ástríðu og Hr. Babu leggur í þessa upphitun ætti þessi leikur að fara ca 5-0! #Forréttindi 🙂

  32. Svakalega vona ég að okkar menn match-i þessa mögnuðu upphitun og klári þetta svakalega lið, höfum gert það áður og núna er meik and breik hvort við eigum heima i þessari keppni á meðal þeirra bestu!! Takk Babu fyrir magnaða upphitun og takk strákar fyrir magnaða síðu og frábæra umræðu oftast tökum etta 3-1 ekkert kjaftæði YNWA!!

  33. ef að við töpum þessum erum við að fara að horfa uppá 1 sigurleik af mögulega 4 leikjum.. :S

  34. Sæll öll,
    geggjuð upphitun og maður er til í slaginn. Algjörlega sammála leikkerfinu en vil sjá Can í 1st 11 á kostnað Allen.

  35. Miðað við myndir af æfingum þá vona ég að “vestisreglan” sé ekki gildandi. Sterling er í öðruvísi vesti á meðan Hendo, Markovic, ROSSITER, Borini, Skrtel Lovren og meiri hlutinn af byrjunarliðinu eru samlitir. Sterling verður að vera inná.

  36. Smá athugasemd með búninga Barcelona og Athletic Bilbao. Þetta er ekki rétt að svona djúp hugsun hafi átt sér stað.
    Barcelona búningurinn er einfaldlega svissneski búningur Basel FC enda er liðið stofnað af Gamper nokkrum, svissneskum íbúa Barcelona.
    Athletic Bilbao búningarnir er Southampton búningurinn.
    Um þetta og margt fleira varðandi spánska knattspyrnu má lesa í bókinni Morbo e. Phil Ball.

  37. Frábær upphitun! Ég vona að liðið verði svona: Mignolet, Johnson, Skrtel, Lovren, Moreno, Lallana, Gerrard, Allen, Hendo, Coutinho, Sterling.

    Ég spái því að við töpum 2-0 þrátt fyrir að spila stórfenglega. Ég veit að maður á ekki að bera saman spilamennsku í PL sman við CL, en við heilluðum við ekki neinn með frammistöðunni gegn Ludogorets né Basel. Ég tel að Real Madrid sé alltof stór biti fyrir LFC þar sem þeir eru með besta leikmann í heimi og eru hreinlega komnir í gang eftir brösulega byrjun.

  38. Maður er orðin verulega spenntur fyrir morgundeginum og eg hef fulla tru a að okkar menn nai urslitum i þessum leik.

    Balotelli er allan dagin að fara skora a morgun lagmark 1 mark ef ekki 2.

    Spai 3-2 fyrir okkur i svakalega skemmtilegum leik.

  39. Babu Attenborough. Þvílíkt og annað eins. Þú ert ótrúlegur !

    Númer 1, 2 og 3 á morgun er að halda hreinu. Tölfræðin er ekki með okkur þar, en hvernig væri að byrja á að breyta henni aðeins á morgun. Ég spái þessum leik 2-1 fyrir LIVERPOOL !

    BALOTELLI treður tusku í alla gagnrýnendur og skorar bæði og fer úr að ofan eftir seinna mark sitt 🙂

    Góður draumur maður 🙂

  40. Andskotans! Konan á afmæli á morgun! Hverjar haldið þið að líkurnar séu á því að ég geti skotist úr matarboðinu og horft á leikinn eða kveikt á sjónvarpinu í boðinu?
    Var næstum búinn að sætta mig við að missa allavega af fyrrihálfleik en við þennan lestur frussaðist upp meistaradeildarfílíngur. Þvílíkt óréttlæti í þessum alheimi.

  41. Váááá enn ein þvílík snilldin maður minn. Að hafa aðgang að svona síðu eru þvílík forréttindi að það hálfa væri miklu meir en nó, bara þúsund þakkir snillingar sem skrifið hér.

    En að leiknum sjálfum þá er ekki laust við smá stress en hef samt trú á okkar mönnum

    En og aftur takk fyrir frábærann pistil( vantar svona share takka til að leifa öðrum að njóta 🙂 )

    Y.N.W.A.

  42. Anskotinn hvað ég er spenntur ég vona svo innilega að við sýnum okkar rétta andlit, drottin blessi okkur YNWA.

  43. The universal Upphitari hringdi og vill fá upphituna sýna til baka. Mother of all upphitun Babu!!!

    Miðað við formið á Liverpool í síðustu leikjum er það skrifað í skýinn að liðið kemur með einhverja fáránlega frammistöðu og rústi Real 3-0. En ef liðið hrekkur í hinn gírinn sem virðist vera algengur hjá okkur þessa dagana. Guð aðstoði Fowler í að blessa okkur!

  44. Bornini vill örugglega spila a morgun, ég væri lika til ì tad en vid erum bara ekki nogu godir til byrja inna:)

    Svo er Glen Johnson betri en Manqillo, eg veit ekki afhverju menn telja Manqillo betri kost

  45. ohh það spá of margir sigri, Liverpool tapar alltaf þegar við erum bjartsýnir… 5-0 fyrir Real 😉

  46. Sæl öll,
    eftir kvöldið í kvöld óttast ég hið versta og vona bara að Liverpool haldi andlitinu. Liverpool þarf að gíra sig upp um 4 gíra og komast á fulla ferð til þessu að eiga séns. Ef við verðum eitthvað í líkingu við síðustu leiki, verðum við kjöldregnir.

  47. #52
    Galdurinn er að vera með OZ appið í símanum….og nettann þráð í annað eyrað…..Tekur engin eftir því í afmælinu að þú sért með annað augað (og eyrað) á leiknum……
    :O)

  48. vá ég er svo spenntur fyrir leiknum að ég er kominn með fyrirtíðarspennu

  49. Þakka góð viðbrögð, málið með þessa upphitun er að þetta er eitthvað sem mig langaði að skoða betur sjálfur og þetta var fínt tækifæri, bæði áhrif Franco í fótboltanum á Spáni og eins fyrstu ár keppninnar. Þessi keppni byrjaði á eins góðum tíma fyrir Real Madríd og mögulegt var og þeir alltaf í úrslitum. Hvað lengd varðar þá er þetta bara úrdráttur úr miklu meira efni og raunar alls ekkert lengsta færsla síðunnar 🙂

    Nr. 47

    Ah ok ég hef mögulega lesið þetta aðeins vitlaust. Stuðningsmenn þessara liða máttu a.m.k. ekki flagga eða klæðast litum sinna héraða á leikjum og notuðu því liti félagsliðanna (Bilbao og Barca) til að sýna andstöðu sína og skilaboðin skiluðu sér alveg.

    Magnað annars þegar maður skoðar sögu flestra liða í Evrópu að búningar ákaflega margra liða eiga rætur sínar að rekja til annarra liða og oftast enskra liða. Þetta á ekki alveg við Real Madríd svo ég viti en þeir sem komu að stofnun félagsins voru margir menntaðir frá Oxford og Cambridge á Englandi árin á undan þar sem þeir kynntust íþróttinni.

  50. Mi?a? vi? formi? á Babu í þessari upphitun erum vi? a? fara a? vinna 4-0.

  51. Mögnuð upphitun, fyrir magnaðan leik!

    Ég væri mjög til í að sjá sóknarlínu með Sterling og Lallana fremsta , kútinn þar fyrir aftan og bara gefa Balo smá frí í kvöld.

    Það hafa lið vel unnið leiki án þess að hafa out and out striker og ég held að þessi lína með second wave af Hendó og eh öðrum af miðjunni gætu alveg skilað tuðrunni í netið.

  52. Eins gott að Sterling standi sig ekki vel, annars verður hann farinn yfir til Real í janúar.

  53. Frábær upphitun að vanda, nema þessi var “first class”. Vona að Baló byrji á bekknum með Sterling og Lallana fremsta, jafnvel Markowic. Baló kemur svo inná og setur 1 mark og Sterling 1. Ronaldo skorar síðan mark Real….

  54. Flott upphitun

    eg vona að við vinnum þennan leik en er ekkert voðalega bjartsýnn
    það verða allir sem einn að eiga topp leik hef ekki seð það í byrjun tímabils
    en vonandi að þeð gerist í kvöld

    eg vonast eftir 2-1 sigri

  55. Sæl öll.

    Þvílík upphitun ég sá þá félaga Mussolini,Franco og Hitler fyrir mér á fótboltaleik vera að plotta WWII ef við Poolarar erum ekki ofdekruð af góðum pistlum þá veit ég ekki hvað.

    Miðað við spilamennsku okkar manna í síðasta leik þá hefðu þeir varla unnið Ægir í Þorlákshöfn á góðum degi þeirra Ægismanna: En ég vona að botninum hafi verið náð og að nú liggi allar leiðir uppá við. Þeir fundu skotskóna þarna um daginn þegar ég fór og leitaði fyrir þá og markanefið og greinilega fundu þeir líka hann Own Goal vona bara að hann byrji inná í kvöld í stað Balotelli og skori að sjálfsögðu fyrir okkur.

    En svona án gríns þá er ég kvíðin fyrir kvöldinu og í gærkvöldi óskaði ég þess eins að við myndum bara tapa 1-0 mesta lagi 2-0 því ég óttast að sjá 7-0 eða eitthvað þaðan af verra og ég held að það yrði rosalegt áfall fyrir okkar drengi og þeir yrðu lengi að ná sér eftir það. En svo ákvað ég að hætta þessu væli og auðvita vinna mínir (okkar) menn þetta lið frá Spáni þó svo þeir heiti Real (Alvöru) Madrid okkar lið getur alveg heitið Real Liverpool og þeir munu koma snarvitlausir til leiks og sýna þessum Alvöru Madríd gaurum hvernig alvöru Liverpool menn spila fótbolta.

    Okkar menn munu vinna leikinn með því að skora fleiri mörk en andstæðingurinn.

    Þangað til næst
    YNWA

  56. Flott upphitun,

    Hvar er annars best að horfa á liverpool leiki í köben?

  57. Úff, ég varð að splæsa í óschedulaðan þvottadag til að hafa ákveðna Liverpool treyju klára í áhorfið. Verð greinilega að skipuleggja mig betur í þeim málum framvegis!

    Stórfengleg upphitun! Dekur Kopverja við íslenska Liverpool aðdáendur heldur áfram og fer vaxandi, ef eitthvað er. Takk fyrir þessa snilld, Babu.

    Liðið þarf að spila sem heild og lykilmenn á öllum cylendrum ef við eigum að fá eitthvað út úr þessum leik. Auðvitað þekkjum við samt öll hvernig lið mæta jafnan til leiks í akkúrat svona leiki. Nægir þar að nefna leiki okkar manna við Man Utd, Everton og fleiri lið, jafnvel á mögrum árum félagsins.

    Ég þori engu að spá, en fyrir fram myndi ég aldeilis þiggja jafntefli. Það myndi stórauka líkurnar á að komast upp úr riðlakeppninni. Koma svo, Liverpool!

  58. Sannið til, þetta verður leikurinn sem Mario Balotelli fer í gang og það með stæl…
    Áfram LIVERPOOL… YNWA…

  59. Loksins kláraði ég að lesa þessa snilld. Takk Babú.

    Eins og Balotelli hefur verið lélegur upp á síðkastið þá trúi ég ekki öðru en hann verði alltaf hættulegri en Borini og Lambert í þessum leik. Balo hefur reynslu af því að spila gegn góðum vörnum og nýtur sín oft best í þeim leikjum. Ef hann byrjar ekki þennan leik er ég hræddur um að hann fari í fílu og það taki hann bara enn lengri tíma að komast í gang.

    En eins og hefur komið fram þá þarf liðið að toppa sjálft sig í frammistöðu ef það ætlar að eiga séns á 3 stigum, ef Ludogorets gat strítt Madrid þá getum við það líka.

    Segjum 2-1.

  60. Við verðum að trúa því að allt sé mögulegt, þetta er nefnilega fótbolti.

    Áfram Liverpool

  61. Byrjunarliðin komin!

    Mignolet – Johnson, Lovren, Skrtel, Moreno – Gerrard, Allen, Henderson – Coutinho, Sterling, Balotelli.

    Casillas; Arbeloa, Varane, Pepe, Marcelo; Kroos, Modric; Rodriguez, Isco, C.Ronaldo; Benzema.

QPR 2 Liverpool 3

Liðið gegn Real Madrid