Þegar Andriy Shevchenko staðfesti komu sína til Chelsea síðastliðið sumar lét ég hafa eftir mér á þessari vefsíðu að það væri ekki séns að stöðva Chelsea í ensku Úrvalsdeildinni. Ég hafði það á orði að breidd liðsins væri orðin svo ógnvænleg, og með komu Shevchenko og Ballack væri magn heimsklassamanna orðið þvílíkt, að ekkert annað en heimsendir gæti stöðvað Chelsea-liðið. Þegar ég hugsa til baka sé ég að yfirburðir Chelsea í Úrvalsdeildinni undanfarin tvö tímabil höfðu þau áhrif á hugsanagang minn síðasta sumar að ég var hreinlega ánægður með að vera bara níu stigum á eftir Mourinho-eldhnettinum óstöðvandi í fyrravor.
Nema hvað, svo gerðist svolítið skrýtið. Chelsea-liðið lenti í vandræðum. Þeir misstu menn í meiðsli, þjálfarinn reifst við eigandann, Sheva og Ballack stóðu engan veginn undir væntingum og skyndilega voru þeir í eltingarleik í deildinni. Þrátt fyrir góða frammistöðu á lokaspretti deildarinnar náðu þeir ekki að verja titil sinn. Eftir að hafa halað inn 95 stig og 91 stig á fyrstu tveimur tímabilum sínum sem stjóri Chelsea skilaði Jose Mourinho aðeins 83 stigum í hús núna. Í fyrra vann hann deildina á 91 stigum með átta stiga forskot á næsta lið en í ár endaði hann sex stigum á eftir sigurliðinu.
Þannig að ég (og fleiri) afsakaði Rafael Benítez í fyrra. Hann hafði bætt liðið stórlega í Úrvalsdeildinni frá því árið áður, sögðum við. Liðið var með flest stig allra liða í deildinni frá því í miðjum október og út tímabilið, sögðum við. Þetta er stórt skref fram á við og nú verður stefnan tekin á, ef ekki titilinn sem Chelsea myndi nær örugglega vinna, þá allavega að vera í skottinu á þeim alla leiktíðina. Menn voru vægast sagt bjartsýnir síðasta sumar, þrátt fyrir óárennilegt lið Chelsea.
Svo fór að lið frá Norður-Englandi stöðvaði sigurgöngu Chelsea í Úrvalsdeildinni þetta árið. En það lið var ekki Liverpool, fjarri því. Það lið heitir MANCHESTER UNITED.
Bíddu, hvað gerðist? Enduðu Chelsea með aðeins stigi meira í ár en við í fyrra, og við vorum ekki einu sinni nálægt þeim? Hvað varð um allar framfarirnar hjá Liverpool? Hvað með leikmennina sem komu til liðsins og styrktu það sl. sumar? Hvað gerðist eiginlega? Á þessu þriðja tímabili átti Rafa að vera með nær fullmótað lið og loksins vera búinn að “læra á” enska boltann (hvað sem það þýðir eiginlega). Hvað gerðist?
Áður en lengra er haldið finnst mér ég verða að taka fram að ég styð Rafa Benítez fyllilega sem stjóra Liverpool. Maðurinn er að skila okkur í annan úrslitaleik Meistaradeildarinnar á þremur árum og hefur auk þess komið okkur í úrslit bæði Deildar- og FA-bikarsins síðan hann tók við. Hann hefur endurnýjað leikmannahópinn og bætt stöðu liðsins verulega frá því á tímum Houllier í Úrvalsdeildinni. En áður en við hyllum hetjuna okkar frá Valencia og byrjum að telja niður dagana að úrslitaleiknum í Aþenu finnst mér við hæfi að við gerum upp Úrvalsdeildina á liðnu tímabili og horfumst í augu við hið augljósa: Rafael Benítez hefur ekki enn staðið undir væntingum í Úrvalsdeildinni.
Þannig er það nú bara. Auðvitað eru hlutirnir ekki svo svartir og hvítir og ég er manna fyrstur til að vilja hlýða á báðar hliðar máls. Liverpool-liðið lenti í vandræðum í vetur sem komu Rafa ekkert við; útileikjahrina liðsins í september og október var fáránlega erfið, leikmenn á borð við Bellamy og Gonzalez sem áttu að vera “síðasta púslið í heildina” ollu talsverðum vonbrigðum í vetur, og svo má ekki gleyma því að lykilmenn á borð við Pepe Reina, Jamie Carragher, Steven Gerrard, Xabi Alonso og Johnny Riise ákváðu að byrja ekki tímabilið hjá sér fyrr en í nóvember, en þá var vitaskuld orðið alltof seint að gera atlögu að titlinum.
En Rafa Benítez ber líka mikla sök. Þegar við lítum yfir þessi þrjú tímabil hans sem stjóri Liverpool getum við séð greinilega að hann getur lagað ýmislegt hjá sjálfum sér til að bæta frammistöðu liðsins í Úrvalsdeildinni. Eins frábær og maðurinn er í útsláttarkeppnum þá verðum við að muna að Houllier var það líka, en það nægði honum ekki og það eitt og sér mun ekki nægja Rafa. Maðurinn var ráðinn af því að Valencia-liðið hans var hjartnær ósigrandi í spænsku deildinni, af því að hann virtist vera þjálfari sem kunni að sigra í einni af toppdeildum Evrópu. Hann hefur einfaldlega ekki staðið undir því orðspori síðan hann kom til Englands, og hér eru nokkur af þeim atriðum sem ég tel að útskýri þau vonbrigði:
- Róteringar. Rafa hefur alltaf sagt að hann vilji nota allan leikmannahóp sinn framan af tímabili til að halda mönnum ferskum þegar líður á. Eftir þrjú tímabil í Úrvalsdeildinni með Liverpool held ég að við getum hins vegar sagt með fullri vissu að þetta bara virkar ekki. Sjáið bara síðasta tímabil; í fyrsta leik sínum valdi hann menn á borð við Robbie Fowler, Jan Kromkamp og Bolo Zenden í byrjunarliði sínu, þrátt fyrir að talsvert sterkari leikmenn væru heilir heilsu á bekknum og utan hóps. Niðurstaðan var jafntefli á útivelli við nýliða í deild. Og svona gengu fyrstu deildarleikirnir; Rafa róteraði leikmönnum og tapaði stigum í sumum heimaleikjum með jafnteflum og tapaði öllum útileikjum fram í nóvember. Þetta var fáránlega erfið leikjahrina, en Rafa gerði sér bara erfiðara fyrir með því að velja aldrei sama liðið tvisvar í röð.
- Leikkerfi. Einn sterkasti kostur Rafa er sá að hann er ekki með neitt fast leikkerfi, hvorki varnar- né sóknarlega. Hann er svo þaulskipulagður að hann býr lið sitt undir leik með andstæðinginn í huga og eru fá lið betri í dag en Liverpool að gera sterk sóknarlið að vængbrotnum sóknarliðum. Lið eins og Barcelona, Chelsea, Arsenal og PSV hafa fengið að finna fyrir þessu á yfirstandandi tímabili. En það er bara önnur hliðin á þessu. Eins gott og það er að spila taktísk 4-5-1 eða 4-3-3- eða 4-2-3-1 kerfi eða hvað þetta heitir gegn stórliðunum, þá finnst mér að Liverpool eigi að stilla upp sókndjörfu liði gegn minni liðunum í deildinni, hvort sem er á heima- eða útivelli. Það er engin tilviljun að Chelsea-liðið, sem sótti á gríðarsterkum kantmönnum sl. tvö ár, fór að tapa stigum í ár þegar þeir tóku vængmennina út, pökkuðu stórkörlum á miðjuna til að þétta hjá sér og skildu Drogba eftir einan frammi. Sjáið bara United í ár; þeir töpuðu kannski leikjum á móti Arsenal í deildinni, en þeir unnu nær alla leiki sína á útivelli gegn minni liðunum á því einu að kaffæra þá í sóknarþunga. Rafa á að hugsa sem svo að við erum Liverpool; tveir fljótir kantmenn, tveir gráðugir framherjar og Steven Gerrard í sóknarhlutverki á miðjunni eiga bara að vera skylda gegn minni liðum, heima og úti. Það þarf ekki að mæta Fulham eða Watford með Mascherano, Sissoko og Alonso á miðju, Gerrard og Riise á köntum og Kuyt einan frammi. Þetta eru ekki það sterkar miðjur sem við erum að spila gegn í svoleiðis leikjum.
- Steven Gerrard. Eitt af því besta sem gerðist í fyrra var að Rafa fann fyrirliðanum okkar sóknarhlutverk og hélt honum í því hlutverki. Í vetur klikkaði þetta aðeins og Gerrard fann sig eiginlega aldrei á sama leveli og í fyrra. Því er tvennu um að kenna; fyrst, þá var hann sýnilega þreyttur í haust eftir heimsmeistarakeppnina og langt tímabil árið áður og þurfti hreinlega fyrstu þrjá-fjóra mánuðina til að komast í gang. EN, það hjálpaði ekki heldur að Rafa virtist í vetur aldrei geta gert upp við sig hvort Gerrard ætti að spila á kantinum eða á miðjunni, og hann gekk meira að segja svo langt að nota hann á vinstri kanti gegn Chelsea á Stamford Bridge í haust. Gerrard er frábær leikmaður og fjölhæfur, en ef hann á að njóta sín best held ég að það sé klárt mál að hann verður að fá að spila eina stöðu og halda henni yfir tímabilið, nema þá með örfáum undantekningum. Ég styð það heilshugar að Rafa noti hann á kantinum, sé það besta lausnin fyrir liðið, en í gvöðanna bænum notaðu hann þá bara á kantinum og hættu að rúlla honum fram og til baka. Eins, ef hann á að vera á miðjunni, hafðu hann þá bara á miðjunni. Það gerir ekkert gagn að hafa einn besta leikmann heims í sínu liði og rugla hann í ríminu með því að gefa honum nýtt hlutverk nær vikulega.
- Leikirnir við stórliðin. Rafa hefur núna spilað, á þremur tímabilum, sex sinnum við Arsenal, Chelsea og Man U í deildinni. Hann hefur unnið Arsenal þrisvar á Anfield og tapað þrisvar á Highbury/Emirates, hann hefur unnið Chelsea einu sinni á Anfield og tapað fimm sinnum á Anfield/Stamford Bridge og hann hefur aldrei unnið United, gert eitt jafntefli á Anfield og tapað fimm sinnum á Anfield/Old Trafford. Þetta er einfaldlega skelfileg tölfræði. Það er sönn staðreynd að sigur á einu af toppliðunum skiptir engu máli ef menn tapa stigum í næsta leik fyrir liði neðarlega í deildinni, eins og Liverpool gerðu gegn Everton Newcastle í vor eftir sigurleik gegn Chelsea, en ef menn ætla sér að vinna meistaratitil þarf liðið að koma út úr tímabili með betri árangur gegn helstu andstæðingunum þremur, eða í öllu falli tveimur þeirra. Í ár tapaði United tveimur leikjum gegn Arsenal, sem voru langt frá titilbaráttunni, en þeir gerðu tvö jafntefli við Chelsea og unnu okkur tvisvar. Í fyrra unnu Chelsea okkur tvisvar, United einu sinni og gerðu eitt jafntefli og Arsenal tvisvar. Góð þumalputtaregla í þessum viðureignum er að vinna heimaleikinn og gera allavega jafntefli á útivelli, en Rafa hefur verið nánast andstæða þessarar reglu síðustu þrjú ár. Ef liðið á að eiga einhvern séns næsta vetur verður það að hætta að gefa United og Chelsea 4-6 stig í forgjöf.
- Markaskorun. Í ár var markatala Liverpool 57-27, í fyrra var hún 57-25. Í fyrra voru Chelsea með markatöluna 72-22, í ár voru United með markatöluna 83-27. Hvað segir þetta okkur? Jú, við erum með feykisterka vörn sem hefur verið að fá á sig svipað mörg mörk og meistaralið síðustu tveggja ára. Þar vantar ekkert uppá, auk þess sem Pepe Reina var annað árið í röð sá markvörður sem hélt oftast hreinu í Úrvalsdeildinni. Í fyrra, hins vegar, skoruðu Chelsea fimmtán mörkum meira en við í 38 leikjum og í ár skoruðu United heilum 26 mörkum meira. Tuttugu og sex! Í þrjátíu og átta leikjum! Átta menn sig á því hvað það er mikið? Það er næstum því eins og þeir skori einu marki meira en við í tveimur af hverjum þremur umferðum. Ég held að þetta tengist öðru atriðinu hér að ofan, þ.e. hvernig við leikum oft gegn lakari liðunum. Rafa er ótrúlega skipulagður þjálfari en hann mætti á stundum vera ögn ævintýragjarnari gegn liðum sem eiga að hafa lítið í okkar menn að segja á velli. Ef við lítum á leikjalistann í vetur sigrar liðið Tottenham 3-0 á Anfield, Wigan 4-0 á útivelli, Fulham 4-0 á Anfield, Charlton og Watford 3-0 á útivelli, Bolton 3-0 á Anfield, Sheffield United 4-0 á Anfield og loks Arsenal 4-0 á Anfield. Þetta eru átta leikir af þrjátíu og átta, þar sem liðið nær að vinna með meira en tveggja marka mun, og alls skoraði liðið meira en tvö mörk í aðeins níu leikjum í vetur. Framherjarnir og miðjumennirnir eiga hér allir sök, að mínu mati þýðir ekki að ræða einstaka leikmenn því staðreyndin er sú að allt liðið er að skora allt of lítið til að geta keppt um titilinn. Einnig, þá leikur liðið fáránlega oft án þess að skora mark, eða alls þrettán sinnum í 38 umferðum! Þetta bara verður að breytast á næsta tímabili. Liðið verður að skora fleiri mörk.
Það er ansi þýðingarmikið sumar framundan hjá Liverpool. Nokkrir leikmenn munu kveðja til viðbótar við Fowler og Dudek, sem þegar er ljóst að muni fara, og með auknu fjármagni frá nýjum eigendum er ljóst að Rafa Benítez mun kaupa hraustlega í sumar. Hvort hann kaupir fleiri menn eða færri veit enginn en það er ljóst að háar fjárhæðir verða greiddar fyrir leikmenn sem eru af þeim gæðaflokki að liðið á að geta stigið næsta skref uppávið í styrkleika. Að mínu mati er þetta tilefni til bjartsýni fyrir næsta tímabil, en þó er ljóst í mínum huga að nokkrir frábærir leikmenn munu ekki nægja til ef Rafael Benítez hefur ekki eftirfarandi í huga við upphaf næstu deildarkeppni:
- Veldu þinn sterkasta 12-13 manna hóp og haltu þig við hann í fyrstu umferðum deildarinnar. Leggðu alla áherslu á að vinna helst svona sex af fyrstu átta deildarleikjunum, og helst að tapa engum leikjum í ágúst og september, og þá geturðu byrjað að vinna með breiddina. Notaðu frekar breiddina í Meistaradeildinni ef þú þarft, menn fyrirgefa þér á næsta ári ef hún gengur illa vegna velgengninnar 2005 og aftur nú í vor. Komdu liðinu í stuð í Úrvalsdeildinni, gefðu mönnum smá þef af blóðlyktinni og þá munu menn stíga upp og halda liðinu á siglingu þótt þú farir að hvíla menn í einum og einum leik. En í gvöðanna bænum, stilltu upp þínu sterkasta liði strax í haust!
- Sóknarbolti gegn lakari liðunum, líka á útivelli. Mascherano og Sissoko mega alveg víkja fyrir öðrum framherjanum eða mönnum eins og Pennant eða Aurelio í svona leikjum. Gerrard og Alonso, okkar sókndjörfustu miðjumenn, geta alveg unnið baráttuna á miðjum vellinum gegn liðum eins og Fulham og Wigan upp á eigin spýtur. Sæktu til sigurs og einbeittu þér að því að skora meira en andstæðingurinn, í stað þess að reyna að fá á þig færri mörk en andstæðingurinn. Á því er grundvallarmunur, Rafa!
- Sestu niður í upphafi tímabils og leggðu mat á hópinn þinn. Sjáðu hvort við erum betur mannaðir á miðjunni eða úti á hægri kanti. Gerðu svo upp við þig hugann: “Steven Gerrard mun leika í stöðu ________ í vetur.” Taktu ákvörðunina og haltu þig við hana. Það er nánast sama hvar þú lætur hann spila, ef hann fær að spila þar reglulega og án truflana mun hann verðlauna þér margfalt!
- Segðu við sjálfan þig að deildarleikirnir gegn Chelsea og United séu í raun Meistaradeildarleikir. Reyndu að fá leikmennina til að trúa því líka. Þá mun ykkur ganga betur, þá getið þið kannski farið á Stamford Bridge án þess að tapa. Mér er sama þótt þú veljir átta miðjumenn í liðið í þessum leikjum og liggir í vörn, bara ekki fokking tapa á Stamford Bridge, Old Trafford og Emirates Stadium!
- Svo, þegar þú ert búinn að halda hreinu á þessum leikvöngum, viltu þá minna menn á það að þeir eigi að skora mörk í hinum leikjunum? Takk. Þrettán leikir án marks í vetur er ekki slæm tölfræði, það er skammarleg tölfræði. Þetta bara má ekki endurtaka sig.
Við gáfum Rafa ákveðinn séns og þolinmæði fyrstu tvö tímabil sín vegna þess að hann vann Meistaradeildina á sínu fyrsta tímabili og af því að Chelsea-liðið virtist illstöðvanlegt hvort eð er. Í vetur fór liðið tvö skref afturábak, eftir að hafa farið þrjú skref áfram árið áður, og þótt nýafstaðin deildarkeppni sé gagnrýnisverð og hreinlega mjög slæm hjá okkar mönnum dettur engum í hug að krefjast þess að Rafa Benítez hætti með liðið (ólíkt Arsenal-aðdáendum höfum við ekki gullfiskaminni). Hann á skilið tækifærið til að laga það sem aflaga fór í deildinni í vetur, hann á skilinn tíma til að sanna sig í Úrvalsdeildinni með Liverpool-liðinu.
En sá tími verður ekki endalaus. Nú eru komnir nýir eigendur og Rafa mun fá talsverða peninga til að eyða í leikmenn í sumar. Chelsea-liðið hefur verið afhjúpað sem mannlegt lið eins og hin liðin, United-liðið hefur sýnt að þetta er hægt og Rafa er að fara að hefja sitt fjórða tímabil á Englandi. Tíminn fyrir loforð er liðinn, það er komið að því að standa við stóru orðin og ef Rafa verður dottinn úr leik um Englandsmeistaratitilinn strax í haust, fjórða árið í röð, mun skella á honum flóðbylgja gagnrýni sem mun hreinlega eiga rétt á sér.
Rafa, tíminn er núna. Það vill ENGINN þurfa að horfa upp á þessar ímyndir aftur:
Verulega góð grein hjá þér og ég er þér að nær öllu leyti sammála. Við eigum að leggja alla áherslu á Úrvalsdeildina næsta vetur, vegna þess að það er kominn tími á að við vinnum hana. Við þurfum að vera miklu sókndjarfari, sérstaklega á móti lakari liðunum og það þarf að byggja aftur upp það “reputation” að lið séu skíthrædd við að koma á Anfield, það á að pressa þau alveg frá byrjun og slá þau strax út af laginu. Takk fyrir frábæra síðu, hún er alltaf fyrst í bloggrúntinum hjá mér.
Frábær pistill. Algjörlega sammála um langflest í þessu. Sérstaklega þetta með byrjunina á tímabilinu. Ég fokking höndla það ekki ef þetta verður búið í nóvember á næsta ári. Það er algjörlega ólíðandi.
algjörlega sammála..
bara ekki tapa fyrir smáliðum eins og wigan, sunderland og man city……
Frekar mikið sammála.
Nokkrir viðbótapunktar:
Kewellinn gæti hreinlega orðið nýtt sign fyrir okkur og þá fær hin magnaða 7a okkar það gildi sem hún á í huga okkar stuðningsmannanna.
Fyrir næsta vetur:
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
1. fá heimsklassa striker.
Það er ekki flókið.
Árni mæli með að þú takir orð þín til baka um Dalglish
BLASPHEMY!
Viðingarfyllst,
Frú Rafa
😉
Með betri pislum sem ég hef lesið.. ég er ekki sammála að eina lausnin sé að kaupa heimsklassa striker, þó að hann vanti alveg sko, bara málið er það er ekki hægt að kenna okkar blessuðu framherjum um þetta, þeir eru ekki guðir… þeir verða að fá hjálp, þá kemuru að kanntmönnum og hvar eru þeir Zenden,Riise,Garcia,Gerrard,Aurelío.Hvað eiga allir þessir menn sameiginlegt??? þeir eru ekki kanntmenn!!!
við eigum 2 ágæta kanntmenn þá pennant og kewell(sem var ekkert með). Ég vill líka kenna þessum kanntmönnum í liverpool um frammistöðu Gerrards, það kemur enginn almenileg ógnun frá könntunum, þess vegna þétta lið bara miðjuna hjá sér og stoppa gerrard, hversu mörg skot fær gerrard frítt fyrir utan? ekki mörg… hversu mörg fær t.d Carrik,lampard,fabregas,scholes svona 100% til 200% fleiri en Gerrard.
Chelsea og man utd unnu deildina því að þeir voru með bestu kanntmennina….
Chelsea losar(á bekkin) sig við þá og hvað gerist????
Ég segji í guðsbænum kaupum 2 heimsklassa kanntmenn sem geta tekið menn á og þá held ég að liverpool koma sterkir inn. Við erum með markvörslu,vörnina,miðjuna og kannski sókn (get ekki dæmt þá) í þetta en kanntmenn vantar svo mikið….
Takk fyrir mig
Frábær pistill!
Ég er mjög sammála næstum öllu sem kemur fram í honum. Ég held að það sé einmitt mjög gott að geta látið Gerrard spila í þremur stöðum – miðri miðjunni, hægri kant og fyrir aftan einn framherja – og sé ekki fyrir mér að það eigi að binda hann niður í eina stöðu.
Ef ég vildi festa hann í eitthvað skipulag þá mundi ég vilja sjá hann spila á miðri miðjunni gegn lélegri liðunum (4-4-2) og á móti betri liðunum á kantinum (4-4-2) eða fyrir aftan einn framherja (4-3-3 / 4-5-1).
Síðan er ég mjög sammála Óla þegar hann segir: “…ég er ekki sammála að eina lausnin sé að kaupa heimsklassa striker …. þá kemuru að kanntmönnum”.
Stór og áhrifamikil breyting, sem hafði mikil áhrif á þessu tímabili miðað við það síðasta, er sú að Harry nokkur Kewell meiddist sem og Luis Garcia. Það skýrir að einhverju leiti verra gengi okkar. Speedy olli vonbrigðum og Pennant var ekki nógu sterkur í byrjun en ég hef verið hrifin af honum upp á síðkastið. Ég held að með innkomu sinni núna um helgina sýndi Kewell hversu mikilvægir góðir kantmenn eru.
Við viljum heimsklassa kantmann í sumar fyrst og fremst!!
Ég held að ég deili aðdáun minni á 4-3-3 / 4-5-1 / 4-2-3-1 leikkerfinu með Rafa Benitez. Því komi hann til með að leggja áherslu á að kaupa framsækinn kantmann í sumar. Held að nýju kaupin, Lucas, komi til með að nýtast vel sem einn af þremur á miðri miðjunni.
Hjartanlega sammála… góður pistill !
Róteringarnar eru alls ekki að skila sér… núna er enginn keppni í sumar og því ættu menn að vera ferskir eftir sumarið og þá þýðir ekki að koma með afsakanir um að menn þurfa á hvíld að halda…. Hvernig hafa Scums (trúi ekki að birt hafi verið mynd af þeim fagnandi hér … betra hefði verið að setja link á myndina) og chels$i unnið deildina, jú, með sínu sterkasta liði uppstilltu í hverjum einasta leik…. ég vil sjá Reina, Carra, Agger, Xabi, Gerrard og “Kát” í ÖLLUM leikjum tímabilsins í deildinni (svo framarlega sem þeir eru ekki fótbrotnir eða þvíum verra)…. í stuttu þá vil ég STÖÐUGLEIKA
YNWA
Vandamál liðsins í vetur liggur ekki í róteringum, stöðu Gerrard á vellinum, eða Markaskorun. Liðinu hefur verið róterað jafnmikið á heima og útivöllum, Gerrard hefur spilað úti um allt bæði á heima og útivöllum og leikmennirnir hafa skorað grimmt á heimavelli… en ekki útivelli. Vandamál liðsins í vetur að mínu mati liggur í vanmætti Benitez til að mótivera liðið rétt fyrir útileiki og þora að taka áhættu þar.
Í vetur fáum við 1 stigi minna en manutd og 3 stigum meira en Chelsea á heimavelli, skorum 39 mörk í 19 leikjum, vissulega 7 mörkum minna en manutd en samt 2 fleiri en chelsea. Á útivelli er árangurinn hins vegar skelfilegur, 6 sigrar í 19 leikjum er afleitt og við skorum ekki nema 18 mörk og fáum á okkur 20. Við skorum minna en wigan og fulham sem voru 1 marki og 1 stigi frá því að falla! Munurinn á spilamennsku liðsins heima og úti er sláandi og það getur varla verið öðru en mótiveringu og leikáætlun að kenna. Benitez þarf nauðsynlega að vaxa smá bein í nefið á útivöllum og þora að sækja.
Manutd vann titilinn á því að koma tilbaka úr 2-0 stöðu gegn everton á útivelli og vinna leikinn á endanum sannfærandi. Það sama sé ég alveg gerast hjá Liverpool á heimavelli, minnkum muninn í 2-1 og allt liðið fer í sókn og heldur hreinlega umsátur um vítateig andstæðinganna þangað til eitthvað gefur eftir. Á útivöllum hins vegar er leikurinn tapaður um leið og við lendum undir, það virðist enginn í liðinu hafa trú á að hægt sé að bjarga einhverju úr leiknum. Þarna þarf mikla hugarfarsbreytingu og ég er farinn að efast um að Benitez geti kallað hana fram.
Ég vil ennþá trúa því að Benitez geti tekið síðasta skrefið til að gera okkur að meisturum og ég er mjög ánægður með árangurinn sem hann hefur náð í meistaradeildinni en ef liðið kemur til með að sýna sama andleysi á útivöllum á næsta tímabili held ég því miður að tími sé kominn til að skipta um mann í brúnni.
Frábær pistill Kristján og þú hittir nalgann á höfuðið líkt og endra nær.
Ennfremur er ég sammála þeim sem hafa skrifað hérna um að okkur vantar ekki einungis framherja heldur kantmenn sem geta
A) Skorað
B) Tekið leikmann á
C) Gefið almennilegar sendingar fyrir markið
Með svona kantmenn lítur miðlungs framherji út eins og Marco Van Basten. Ég tel ljóst að ef við gerum ekki almennilega atlögu að titlinum í Englandi þá mun Rafa hætta (sjálfsviljugur).
Takk fyrir frábæran pistil. Eg er að flestu leyti sammála því sem þar kemur fram. Ég er einn af þeim sem hefur verið mjög gagnrýninn á Benitez og hefur mörgum fundist það ómaklegt. Fór svo að lokum að
ég sættist á að hætta að gegnrýna kallinn í brúnni og gefa honum þetta tímabil.
En eins og kemur fram í pistlinum þá eru hveitibrauðsdagar Rafa á enda í ensku deildinni. Næsta tímabil mun skera endanlega úr um getu hans til að koma fram með sigurlið og þá taktík sem dugir til að landa meistaratitli. Það segir að hann verður að spila alla leiki til sigurs nema ef til vill á útivelli gegn hinum þremur stóru. Innkaup verða þar af leiðandi að vera í þeim klassa sem til þarf. Ég hlakka til næstu leiktíðar og reikna með að hún byrji betur en sú síðasta. Og svo er bara að bæta 6. stjörnunni við.
YNWA. áfram Liverpool.
Ágætis pistill hjá þér en ég get ekki verið sammála þér að öllu leiti. Rótering er ekki vandamál. Punktur. Ég hef aldrei skilið þetta tal um að stilla upp sterkasta liðinu og halda sig við það. Þeir dagar eru liðnir. Vandamálið í samandi við róteringuna er hreinlega mannskapurinn, Robbie Fowler, Jan Kromkamp og Bolo Zenden og fl. Þetta eru ekki beinlínis menn í sama klassa og þeir sem að ManU og Chels. hafa á sínum bekkjum. Og ekki tel ég það vera leikkerfið því að það mun virka þegar að við erum komnir með rétta menn í það. Vonandi getur Rafa loksins keypt þann mannskap sem honum finnst vera réttir fyrir kerfið frekar en mannskap sem hann hefur efni á. Og finnst mér hann nú samt hafa gert ótrúlega hluti þar. Ég hef fulla trú á því að næsta vetur munum við loksins sjá Gerrard á miðjunni þar sem hann á heima, þar sem hann fær að njóta sín vegna þess að við munum vonandi vera komnir með réttan mannskap í kerfið. Menn sem geta tekið menn á og komið boltanum inní teig. Rafa mun ekki lengur þurfa að setja Gerrard út á kant til að styrkja þar.
Hversu marga leiki sáum við í vetur þar sem Liverpool hafði alla yfirburði í leiknum bara til að tapa? Þó nokkra. Munið, Rafa er sérlega klár náungi og fínstillir liðið þannig að allir verða að sinna sinni skyldu og ekkert má klikka. Þegar að það kemur að stórliðunum þá hef ég ekkert út á það að segja, við áttum þá leiki meira og minni. Þangað til að smá hikst komst í vélina og púff, við töpum. En þar liggur munurinn enn og aftur, bæði ManU og Chelsi búa yfir þeim mannskap sem þarf til þess að klára leiki á þessu eina hiksti, við höfum Gerrard og??? Þannig ég segji, tvo kantmenn( eða spilandi bakvörð) og striker og munurinn verður gríðarlegur.
Við megum samt ekki gleyma því að við erum að fara að spila úrslitaleik í meistaradeildinni í næstu viku ! ég veit að þið eruð að tala um betra gengi í premiership og eg er alveg sammála því.. en ekkert lið/stuðningsmenn geta verið fúl með að vinna Meistaradeildina ! (ef svo gerist)
Við vorum að vissu leyti óheppnir með Kewell, Garcia og co. Gonzales var eins og drengur úr 3.flokki á Íslandi þarna inná og Bellamy á ekki að vera maðurinn sem við eigum að þurfa að treysta á í markaskorun ! Hann hefði átt að kaupa alminnilegan kantmann og striker síðasta sumar! Ég var reyndar ánægður með kaupin á Kuyt og held að hann geti náð 20 mörkum á næsta tímabili.
En ef hann segir að Gonzales verði betri í framtíðinni og þurfi 1-3 tímabil til að ná alminnilegum klassa (svipað og Ronaldo) af hverju spilaði hann honum þá ekki í öllum leikjumi í lok leiktíðar til þess að ná þroska í stað þess að nota zenden alltaf sem verður líklega látinn fara í sumar ?
En ég styð Benna alveg og hann er rétti maðurinn á brúnni. Yfirleitt veit hann betur en maður sjálfur.
Jói – auðvitað höfum við ekki gleymt leiknum í næstu viku. Ég ákvað að koma þessum pistli mínum frá, með gagnrýni á Úrvalsdeildar-Rafa, strax eftir síðasta leik … svo höfum við núna rúma viku til að hylla Meistaradeildar-Rafa, sem er gallalaus einstaklingur! 😉
Já sammála því ….. og þetta var frábær pistill hjá þér…
Bara minna á að benitez hefur næst besta vinningshlutfall af stjórum í sögu Lfc eftir seinna stríð samkv Wikipedia aðeins Dalglish hefur betur . KD 60,61. RB 56,98. Bob Paisley 56,12. Það munar ekki miklu en betra en sjálfur Paisley . Gerard Houiller hefur 51,31 og Shankley 52,19
Menn geta auðvitað rýnt í þessar framkvæmdastjóra tölur á hinum stórgóða vef LFCHistory.net 😉
http://www.lfchistory.net/managers_gamestats.asp