Næsta verkefni: Toppliðið

Ath: Við ætlum ekki að vera með hefðbundna gluggavakt á “Transfer deadline day” í dag. Einfaldlega því það virðist ekkert vera í gangi og stórleikur framundan. Við munum taka upp podcast í kvöld þar sem við gætum þá brugðist við ef eitthvað mjög óvænt kemur upp.

Það er 2.febrúar 2016 og Liverpool liðið er að fara í leik þar sem toppliðið er á ferðinni.

Tvennt kannski rekur maður sig á varðandi það að í leik Liverpool og Leicester sé að finna topplið;

a) Liverpool er ekki toppliðið af þeim tveimur.

b) Leicester er toppliðið af þeim tveimur!!!

Án nokkurs hroka þá fullyrði ég það að ef umræða hefði orðið síðasta haust um það að þessi leikur myndi innihalda topplið þá hefði 100% aðspurðra tippað á okkar lið sem það lið. En svo er aldeilis ekki, það eru lærisveinar Claudio Ranieri sem eru efstir í ensku Úrvalsdeildinni þegar 15 umferðir eru eftir. Það er óhætt að fullyrða að Claudio karlinn sé að fá mikla uppreisn æru, enskir hafa löngum hrist hausinn yfir honum, ekki síst þegar tilkynnt var um ráðningu hans í kjölfar brottreksturs enska harðhaussins Nigel Pearson. Ekki yrði möguleiki fyrir Ranieri að halda áfram uppbyggingu liðs sem spilar gamaldags enskan fótbolta sem byggist á 4-4-2 og löngum boltum langt umfram stutta spilið.

Öðru nær. Ranieri keypti inn í þetta lið af skynsemi og hefur náð að halda dampi alla leiktíðina. Bólan sem átti að vera löngu sprungin er í fullu formi og virðist ekkert láta á sjá. Hann tók meðvitaða ákvörðun um að leggja litla áherslu á FA bikarinn þegar hann hvíldi lykilmenn í leik þar sem Tottenham slógu hans albláa her út svo að verkefnið er einfalt. Fimmtán deildarleikir eftir og þeir ætla sér í draumalandið. Auðvitað ætla þeir sér titil verandi í þessari stöðu og þurfa ekkert að hræðast, en þeir eru í dag 10 stigum ofar við liðið í fimmta sæti og með heilmikla von um Meistaradeildarsæti a.m.k.!

Eins og áður hefur verið upp talið byggir liðið upp á þéttum varnarleik og hröðu uppspili. Varnarleiknum er stjórnað af mulningsvélinni N’Golo Kante sem hefur verið “find of the season” í mínum huga. Grjótharður varnarmiðjumaður sem ver hafsentaparið Huth og Fuchs auk þess að hafa náð góðum tökum á að koma boltanum einfalt á sóknarteiknarana Drinkwater og lipurfætlinginn Mahrez sem fer langt með það að vinna leikmann ársins, hafandi í dag skorað 13 mörk í deild og átt 8 stoðsendingar. Berið það aðeins saman við ALLA okkar miðjumenn…eða nei bara annars, gerum það ekkert! Uppi á topp bíður svo markahæsti leikmaður deildarinnar, Jamie Vardy reiðubúinn að hlaupa inn í eyðurnar á varnarleik okkar, magnaður gamaldags breskur klárari – eldfljótur og grimmur.

Leicester eru lið sem spilar alls staðar eins, hafa náð betri árangri á útivelli en heimavelli, aðeins lent á smá vegg þar í deildinni og einungis unnið einn af síðustu þremur á King Power Stadium. Ef við svo bætum við þeirri staðreynd að næstu tveir leikir þeirra eru býsna eftirtektarverðir, útileikir gegn City og Arsenal þá gætum við velt því upp að mögulega sé pressan á þeim mikil og eitthvað muni nú undan láta, við förum bara þarna og hirðum stigin þrjú og gefum okkur með því von á að keppa aftur um Meistaradeildarsætið. Á móti hafa Leicester nú fengið 10 daga hvíld milli leikja og bíða örugglega fnæsandi í startholunum að hefna fyrir annað tveggja tapa sinna í vetur sem vissulega kom á Anfield.

Eins og áður í vetur held ég að þessi leikur ráðist alfarið af okkar liði. Við áttum klárlega einn af okkar bestu leikjum í fyrri viðureign þessara liða og sýndum þá að við ráðum vel við þetta fótboltalið. Hins vegar verður ekki látið eins og við bara séum þekktir fyrir það að fara á útivelli ensku deildarinnar og stútum liðum. Tveir sigrar í síðustu sex útileikjum, gegn Sunderland og Norwich…og á móti býsna ljót töp á þeirri leið. Við vitum hins vegar vel af útileikjum á Etihad, Stamford og jafnvel Emirates. Svo við getum alveg staðið okkur ef sá haus er skrúfaður á liðið.

Leikjaálagið á klúbbnum frá desemberbyrjun er ekkert að hjálpa. Ég veit að við höfum róterað liðinu nokkuð ágætlega svo að líkamleg þreyta núna ætti ekki endilega að vera stærsta málið þar sem flestir sem hefja leik á morgun hafa fengið viku hvíld. Það er hins vegar pottþétt þannig að langflestar æfingar þessa dagana fara í endurheimt og undirbúning fyrir næsta leik. Lítið hægt að spila liðið saman af einhverjum krafti eða byggja upp nýjar áherslur. Í dag lítur út fyrir að það bara takist ekkert á þessu tímabili og sumarið fari alfarið í það.

Svo til að draga þetta allt saman þá held ég að við sjáum í Leicester sama upplegg og við höfum séð í undanförnum deildarleikjum og verðum bara að vona að menn dragi fram silkiframmistöðuna. Miðað við fréttir að undanförnu hefur ekki bæst í leikmannahópinn frá helginni, Coutinho enn bara í startholunum og Skrtel og Origi ekki enn farnir að reima á sig skóna, um Sturridge nenni ég ekki að ræða.

Mér finnast tvær spurningar vera um okkar lið, annars vegar hvort að Hendo er í nægilega góðu standi til að spila þennan leik í gegnum sársaukamúrinn og hvort að Klopparinn treystir Dejan Lovren til að spila tvo leiki með svo stuttu millibili eftir meiðsli.

Ég ætla að henda þessu inn sem spá um byrjunarlið:

Mignolet

Clyne – Kolo Toure – Sakho – Moreno

Henderson – Lucas – Can

Milner – Firmino – Lallana

Semsagt sama lið og vann Norwich um síðustu helgi, ég sjálfur myndi vilja sjá Lovren inni og Allen fyrir Can, en ég held að Klopp haldi sig við það lið sem hann hefur að mestu notað undanfarnar vikur.

Spá: Ég spái aldrei LFC tapi…en í dag er ég nálægt því. Ég held að Ranieri leggi gríðarlega áherslu á sigur í þessum leik áður en hann fer inn í risaleikina framundan og hafi teiknað liðið sitt upp til að ná árangri gegn okkur. Það gæti þó vissulega gefið okkur tækifæri ef að það þýðir að Leicester fari ofar á völlinn en þeir oft gera og í bjartsýniskasti ætla ég að tippa á að við tökum stig gegn Leicester, leikurinn fer 2-2 eftir að við komumst tvisvar yfir, Leicester jafna í blálokin en þó er möguleiki á að við höngum á 1-2 sigri.

KOMA SVO!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

20 Comments

  1. Við höldum áfram að stríða toppliðunum og vinnum þetta 1-3 með þvílíka sýningu eins og á móti shitty 🙂

  2. Þeir hjá Sky Bet voru að taka út möguleikann á því að tippa á Teixeira??

  3. Myndi tippa á að Caulker komi inn fyrir Toure. Fannst hann góður í vikunni og hann ætti ekki að vera svo þreyttur þótt hann hafi spilað á laugardaginn. Hann er sneggri en Toure og ætti að hafa meira í Vardy heldur en Toure að mínu mati.

  4. Er verið að grínast með rólegan lokaglugga ?
    Það er nákvæmlega ekki neitt að gerast hjá liðinu.

    Eru menn þarna bara sáttir með stöðuna, Benteke og Firmino sjá bara um sóknarlínuna út tímabilið.
    Algjörlega galið að það sé ekki reynt að fá einhverja menn á láni sem þurfa að sanna sig fyrir EM og fá lítin spilatíma hjá sínu liði.
    Kantmaðurinn hjá Real myndi slá Ibe út á stundinni og hann fæst á láni en menn ekkert að reyna neitt.

    Ég átti von á að Klopp myndi ekki sætta sig við svona.

  5. Er engin ef okkar Strikerum heill, ég bara næ ekki að fylgjast nógu vel með.
    Sturridge,Origi..osfrv.

    Kannski einhver sem veit allt um meiðsla mál gæti upplýst mig aðeins.

    kv. Ingi.

  6. Benteke og Firmino eru heilir. Síðan ættu, Sturrige, Coutinhio, Origi og Skrtel allir að byrja aftur að æfa í vikunni.

  7. Svo ef allt er eðlilegt þá ætti Sturridge að verða aftur meiddur trúlega 2 dögum áður en hann verður heill.

    Þá eigum við Firmino, Origi og Benteke og við að spila í 4 keppnum.

  8. Enrique vill ekki fara, er með 65,000 pund á viku. Hann ætlar að cash out enda veit hann það sem öll veröldin veit að hann mun ALDREI fá slíkan samning á ný.
    Bogdan, einhver umræða var um að hann gæti farið en hvert? Utandeildina?

    Hefði viljað sjá kaup, lán… en það er deginum ljósara að Klopp hefur ekki átt “séns” í þá leikmenn sem hann vill enda janúar erfiður og jú hann hefur trollatrú á hópnum sem er fyrir. Við erum að fá menn inn og vonandi haldast menn heilir fram á sumar.

    Við erum aldrei að fara að ná 4.sætinu í PL (eftir tapið á morgun gegn Leicester – já maður vonar jafnvel að Leicester vinni, vill sjá þá sem meistara) og því á að einblína á bikarkeppnirnar og Evrópu.

    Yrði það ekki magnað að fá að mæta Man Udt í Euroleague og slá þá út – vinna svo bikarinn og tryggja okkur CL sæti, Van Gaa og co sitja eftir með sárt ennið! Það myndi gera þetta tímabil fullkomið…jú og vinna Carling Cup með $terling sem mótherja….

    sjáum hvað setur

    Mín spá

    Leicester 3-2 Liverpool (mun ekki grenja mig í svefn )

  9. Ásmundur hann mokar inn 65.000 á viku !! Hann er btw ekki að moka þeim inn hann fær það fyrir að spila fífa eins og svo oft hefur sést

  10. Mín skoðun er Caulkner í stað Kolo, vona ég að Klopp sé mér sammála.

    Annars er ég sammála félaga Oddi #12 um þá stöðu sem okkar ástkæra lið er komið í…
    CL er ekki raunhæfur möguleiki miðað við stöðu liðsins í deild nú þegar 15 leikir eru óspilaðir. Þess vegna þurfum við að gera okkar besta í deild (að sjálfsögðu) en leggja mikla áherslu á árangur í einni eða fleirum bikarkeppnum (Europa League, Carling og FA cup). Með árangri þar vinnur liðið dollur og hefur meiri möguleiki á CL sæti í gegnum EL tel ég því í EL erum við að tala um færri leiki ásamt því að Liverpool þarf ekki að treysta á hagstæð úrslit úr öðrum leikjum (eins og í tilfelli PL).

    Ég er líka orðinn svo hungraður í bikar sjálfur…

    YNWA

  11. Ef við vinnum Leicester á morgun þá getur allt gerst.
    Eins og bent hefur verið á áður þá eru margir innbyrðis leikir toppliðanna framundan og ef við förum fram úr væntingum næstu 6 vikurnar þá gætu hlutir orðið heitir.

    En menn þurfa að fara að detta inn úr meiðslum og standa undir nafni svo slíkt geti gerst.

    Ég hef ekki misst neina von ennþá.
    YNWA

  12. 15# algjörlega sammála sturluð staðreynd dagsins er að ef við vinnum næstu 4 leiki þá erum við komnir í top 4 (eða 1 stigi frá því) fer eftir því hvernig allar hinar innbyrgðis viðureignirnar spilast. þetta eru leikir gegn Lester,Aston villa,Sunderland, og Man city ætla að spá þessu 3-0 bursti og þessi skrambans lester bóla hvellspringi

  13. Glugginn lokaður.

    Game on – með þennan hóp restina af tímabilinu. Ef Klopp nær CL sæti og einum bikar þá er það kraftaverk með þennan hóp.

    Sjáum hvað setur

  14. Sælir er hægt að sjá hópinn sem ferðaðist til Leicester fyrir kvöldið?

  15. Er sammála Oddi #12 hér að ofan að ég vona að Lecister fari alla leið. Mega mín vegna vinna alla leiki héðan í frá BARA EKKI í KVÖLD. Við vinnum þá aftur og verðum eina liðið á þessari leiktíð sem vinnur þá heima og heiman.
    Benteke meira að segja skorar í kveld.

  16. 18# þú veist samt að okkar raunhæfasta leið er að ná meistaradeildarsæti á kostnað lester (þó þier séu á toppnum) þá get ég allveg séð þetta lið fara á loosing streak og tapa 4 í röð og það er einhvað sem gerist ekki fyrir Arsenal,City eða spurs

Ferðasaga – Kop.is ferð janúar 2016

Engin Kop.is ferð á úrslitaleikinn