Joel Matip til Liverpool í sumar (staðfest!)

Liverpool Echo segir frá því í dag að Joel Matip kemur til Liverpool á frjálsri sölu í sumar frá Schalke í Þýskalandi. Klúbburinn má sjálfur ekki staðfesta svona fyrr en þegar leikmaðurinn skrifar undir en þetta er nú orðið ljóst og því setjum við (staðfest!) í fyrirsögnina. (Uppfært: Þeir mega það bara víst!) Matip er 24 ára miðvörður sem getur einnig leikið sem varnartengiliður. Hann er frá Kamerún.

Þá vitum við um tvö nöfn sem koma til Liverpool í sumar, Matip og Marko Grujic. Þeir eiga það sameiginlegt að vera stórir strákar. Þetta verða pottþétt ekki einu nöfnin í sumar en það er ljóst að Klopp er ekkert að sóa tímanum við að móta leikmannahópinn eftir sínu höfði næsta sumar.

Velkominn Joel. Við sjáum myndband (lækkið í hátölurunum, tónlistin hér er hryllingur eins og venjulega á YouTube):

YNWA

31 Comments

  1. Kenningin “það líta allir vel út á youtube” er fallin!!! Jesús hvað þetta var ekki að heilla mig. Hann virtist vera betri í því að gefa aukaspyrnur en Lucas og þá er nú mikið sagt 🙂

    En mér er sama. Ef Klopp er spenntur þá er ég það. Við þurfum hæð og grimmd.

    Þetta verður fyrsti leikmaðurinn í sögunni sem er betri en youtube-recordið hans. (STAÐFEST)

  2. Það er reyndar mjög erfitt að gera “best of”-myndband fyrir miðverði. Voða lítið að sjá nema bara þegar hann potar boltanum í innkast og vinnur skallaeinvígi. Og svo örfá mörk.

    Eins og venjulega þýðir ekkert að dæma hann fyrr en í rauðu treyjuna er komið. En Klopp virðist hafa verið ákveðinn í að fá hann frá því að hann tók við þannig að það er jákvætt að hann hafi fengið sinn mann.

  3. Jæja, hann kemur alla vega frítt.
    Eina sem ýtir undir örlitla jákvæðni er að Klopp er líklega búinn að sjá mikið til þessa leikmanns undanfarin ár. Þessir 15 leikir sem hann missti út í fyrra eru smá áhyggjuefni, en það eru reyndar nánast einu meiðsli hans á ferlinum.

  4. Í ljósi þess að Klopp var stjóri hjá Dortmund þá hefur ábyggilega ekkert lið fyrir utan Munchen verið leikgreint jafn ýtarlega og Schalke. Það segir mér að Klopp ætti að þekkja vel til þessa leikmanns, þannig að ég er bara sáttur við þessa ráðningu.

  5. Sælir félagar

    Youtube myndbönd segja ekki mikið í reynd. Þau eru í besta falli samantekt af sjaldgæfum tilvikum á ferli leikmanna. Hin endalausa vinna sem góðir leikmenn leggja á sig á vellinum öllum er það sem sker úr um hversu góður leikmaðurinn er og er ástæða árangurs á heimsmælikvarða. Samt dugar það oft ekki til. Hæfileikar og þetta “töts” sem leikmenn verða að hafa þarf að vera til staðar svo menn nái hinum hæstu hæðum.

    Luis Alberto Suárez Díaz, okkar ástkæri snillingur er gott dæmi um þetta. Endalaus vinnusemi og ódrepandi ástríða er lykillinn að árangri hans og svo koma til að auki nánast ótakmarkaðir hæfileikar.

    Það er nú þannig

    YNWA

  6. Það er nú grínið í þessu Sigkarl… Við skulum vona að i þessu tilfelli séu þetta EINMITT SAMANTEKT AF SJALDGÆFUM TILVIKUM 🙂

    Í þessu stutta myndbandi tekst honum að gefa víti, brjóta hva 8 sinnum af sér, hreinsa í horn þegar enginn var í honum, fá boltann óvart í sig 3.

    Ég hef aldrei séð hann spila og veit ekkert, ég hef trú á því að hann nýtist okkur ef Klopp vill hann. Ég er einfaldlega að gera grín af þessu blessaða myndbandi sem brýtur blað í sögunni 🙂

  7. Hahaha. Einhversstaðar núir óvinur Matip saman höndum illkvitnislega í hvert sinn sem þetta myndband er spilað.

  8. Bestu miðverðirnir láta nú oft lítið yfir sér. Ungur hávaxinn miðvörður sem mikla reynsla á frjálsri sölu. Það er nú eiginlega ekki hægt að vera neikvæður. Það eina sem mér finnst að er að hann valdi að leika fyrir landslið Cameroon og þarf því mögulega að skreppa í Afríkukeppnina næsta vetur.

  9. Kemur ekki á óvart að Klopp leitar til Þýskalands þar sem hann þekkir vel til. En spurningin er, eins og margir hafa velt fyrir sér. Er þetta nógu stór kappi til að bæta lið eins og Liverpool. Liðið þarf ekki fleiri næstum því mjög góða leikmenn. Liðið þarf tvo til fjóra rosagóða, Suarez, Gerrard, Carragher klassa, amk sem næst því. Kannski er þessi Matip mjög góður leikmaður og ég treysti Klopp til þess að gera það besta. Hann er mjög klókur að þefa uppi góða leikmenn.

  10. #12. Algerlega sammála. Það er pottþétt góð
    ástæða fyrir því að Klopp vill fá hann. Ég treysti Klopp fullkomlega. Vörnina þarf að styrkja, það er morgunljóst. Þetta er rétt svo byrjunin. Ég vil líka fá stóran, öflugan og creative miðjumann sem getur skorað mörk. Svo 2 almennilega kantmenn sem kunna að gefa almennilegar sendingar inn í boxið. Einnig alvöru stræker og markmann. Annars er ég bara góður sko ?

  11. Mitt mat er það að þar sem maður hefur alveg heyrt þetta nafn áður en það var orðað við Liverpool segir ágæta sögu – allavega fyrir mig. Ég þekki ekkert allt of mörg nöfn úr Evrópuboltanum og ef eitt þeirra nafna er að ganga til Liverpool er ég allavega ánægður. Yfirleitt eru þessir gæjar einhverjir sem maður hefur aldrei heyrt neitt um. En ég bíð eftir áliti frá Þýskalandsspekingum síðunnar.

  12. Leikmaður á frjálsri sölu frá stórliði í Þýskalandi, keyptur af Jurgen Klopp og félögum sem þekkja þann markað út í gegn hljómar bara töluvert betur fyrir mér heldur en t.d. Dejan Lovren á £20m eftir eitt gott ár á Englandi eða Sakho á £16m keyptur af leikmannanefnd óháð því hvort stjórinn vildi leikmanninn eða ekki. Mér leist ekki illa á hvorki Sakho eða Lovren en þeir spiluðu undir stjóra sem vissi ekkert hvernig hann næði því besta frá þeim, mig grunar að Matip lendi alls ekki í því sama hjá Klopp. Já og hann hljómar líka betur en Skrtel og Toure / Caulker og Ilori.

    Skoðið leikmannakaup Dortmund undir stjórn Klopp og félaga. Hversu margir á þeim lista voru þekkt nöfn er þeir fóru til Dortmund? Hvernig komu þeir út á youtube?

    Helsti gallinn við Matip er að hann hafi valið landslið Kamerún þar sem hann er fæddur og uppalin í Þýskalandi (hefur verið hjá Schalke frá því hann var 6 ára). Kamerún er gott landslið og hann algjör lykilmaður og því væntanlega alltaf frá í 4-6 vikur þegar bölvuð Afríkukeppninn er.

    En leikmannakaup held ég að verði töluvert minna áhyggjuefni með þýska tríóið að stjórna innkaupum heldur en þann hrærigraut sem hefur séð um þetta fyrir félagið undanfarin ár. Tveir komnir, annar er samlandi Buvac og hinn samlandi Klopp.

    Vonandi eru þeir báðir a.m.k. betri kaup en Jean-Michel Ferri og Frode Kippe, Josemi og Nunez eða Fabio Borini og Joe Allen. Fyrstu tvö kaup Houllier, Benitez og Rodgers.
    Hodgson keypti Joe Cole og Poulsen.

    (Vá þetta var verra en ég óttaðist áður en ég fór að skoða þetta).

  13. Borini og Allen hefur vinninginn. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort Klopp sé að gera betur. Vonum það.

  14. Loksins einhver sem gerir árás á boltann í staðinn fyrir að fara í störukeppni.

  15. Mjög spennandi þó svo að þetta jútjúb vidjó virki ekkert spennandi en það segir nú lítið eins og menn hafa talað um hér.

    Ég var og er gríðarlega spenntur fyrir unga serbanum sem kemur í sumar (ef pabbi hans leyfir honum að fljúga yfir) og svo bætist Matip við. Hann er aggressívur varnarmaður sem hentar mjög vel í enska boltann, stór og sterkur í loftinu, tæklari og vinnusamur.

    Áfram svona, fáum nokkra leikmenn á Bosmanreglunni eða ódýrt og kaupum svo 2-3 sem þarf að borga einhverjar summur fyrir. Svo má vel reikna með því að einhverjir verði seldir í sumar þó svo að ég reikni ekki lengur með stórum hreinsunum eins og ég var farinn að halda um daginn.

    Ég treysti Klopp 110% fyrir liðinu okkar og er mjög spenntur fyrir næstu tímabil, eftir þetta stóra ,,æfingatímabil”.

    YNWA!

  16. Bæði leikmannahópur Leicester og einnig leikmannahópur Dortmund. sem Klopp var með á sínum tíma, sanna, að kaup á leikmönnum þurfa ekki að snúast kaup á stórum nöfnum, heldur leikmönnum sem passa inn í leikstíl liðsins.
    Ef þessi gaur er í sama gæðaflokki og Lovren og Sakho, þá segir sig sjálft að þetta er hálfgerð himnasending, því þá geta kaupin í sumar snúist um miðjumenn eða sóknarmenn, með verulega mikil gæði.

  17. ég treysti Klopp algjörlega og trúi því að þetta séu super kaup.

  18. Um daginn voru ýmsir hér að fara á límingunum yfir Brassa sem síðar valdi að fara til Kína. Mér líst mun betur á þessi kaup, hér er þó allavegana leikmaður sem vill spila með okkar liði og veit hvað Klopp stendur fyrir. Klopp og hans menn vita sennilega líka mjög vel hvað leikmaðurinn stendur fyrir.

  19. Fréttir af launum kappans benda til þess að það sé alveg málið að fara á bosman. Matip og Milner virðast nokkuð úr takti við aðra (nema Benteke auðvitað).

  20. Nr. 25

    Þessi Brassi var nú ennþá að tala um hvað honum langað mikið til Liverpool eftir að hann fór til Kína. Spurning hvað hann hafði mikið um þetta að segja sjálfur?

  21. Skemmtilegt þetta blinda traust á Klopp en hann sagði sjálfur fyrir stuttu að hann væri ekki töframaður. Ég held að næsta ár verði barátta um 4. sætið ekki meir. Held að Klopp þurfi þrjú ár til að búa til sigurhugsun á ný á Anfield en þá ætti að vera komið lið sem spilar um titla.
    In Rodgers we trust eða þannig

  22. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að þetta séu massíf kaup. Það litla sem maður veit er að hann stór, sterkur og fljótur. Hljómar alls ekki illa!

    Svei mér þá ef Klopp sé búinn að ná í tvo sterka leikmenn fyrir nánast ekkert!!

    Ef Serbinn er “góður” þá vantar bara 2 leikmenn í viðbót: klassa creative miðjumann og alvöru striker (helst eitthvað ljón).

    Vá hvað maður er fljótur að fara frá svartsýni yfir í bjartsýni! !

    Inn Klopp I trust! !!!!!

  23. Takk fyrir frábæran pistil.

    Það verður enginn hvíldur fyrir þennan leik annað kvöld. Þetta er ekki keppnin til að hvíla menn. Þetta er KEPPNIN okkar þetta tímabil. Getum svo hvílt leikmenn í þessari boring deildarkeppni. 32 lið eftir og einungis sigur í Euro-league tryggir okkur í meistaradeildina á næsta tímabil. Miði er möguleiki og þetta er EINI möguleikinn okkar á sæti í meistaradeildinni á næsta tímabili.

    Vil sjá menn mæta brjálaða í leikinn annað kvöld og helst klára þetta einvígi strax.

Aston Villa 0 Liverpool 6

FC Augsburg