Derby County á morgun

Útúrdúr: Ég hitti nýverið góðan félaga sem fór á eigin vegum á Anfield um daginn, sá Liverpool vinna Leicester. Ég spurði hann hvernig nýi völlurinn liti út og hann sagði einfaldlega, „Kristján, ég veit að þú hefur farið oft út en þú verður að sjá þetta. Farðu í túrinn, farðu og skoðaðu nýju stúkuna alla á leikdag, gefðu þér tíma til að sjá nýja svæðið. Þetta er ógeðslega flott!“

Ég varð bara þvílíkt spenntur, og í beinu framhaldi af því minni ég á að SALA Í HÓPFERÐ HAUSTSINS ER Í FULLUM GANGI OG FER HVER AÐ VERÐA SÍÐASTUR.

KOMDU MEÐ KOP.IS Á „NÝJA“-ANFIELD Í NÓVEMBER!
FRÁBÆRT VERÐ, FRÁBÆRT LIÐ, FRÁBÆR SKEMMTUN!
SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR

Hvað um það, eftir tvo góða sigurleiki í deildinni er komið að Deildarbikarnum og nú er það þriðja umferðin eða 32-liða úrslit þar sem okkar menn heimsækja Hrútana í Derby County á Pride Park. Í síðustu umferð unnu okkar menn 5-0 sigur á Burton sem sitja nokkrum sætum ofar en Derby í Championship-deildinni í dag þannig að á pappír mætti kannski búast við auðveldum sigri. Það er þó ekki alltaf svoleiðis í bikarnum.

Derby County

Hrútarnir hafa ekki verið meðal þeirra bestu síðan þeir féllu vorið 2002 eftir nokkur ár í efstu deild. Reyndar komu þeir einu sinni upp aftur 2007 en féllu strax á eftir með 11 stig og einn sigur í 38 leikjum í Úrvaldeild sem er ennþá met yfir lélegan árangur þar í landi, þannig að varla er hægt að segja að þeir hafi verið á meðal þeirra bestu þá heldur. Síðan þá hefur liðið verið í Championship-deildinni, nálægt falli úr henni á köflum en síðustu þrjú ár hafa þeir náð 3. sæti, 8. sæti og 5. sæti en ekki komist upp eftir umspil þótt þeir færu nálægt því fyrir tveimur árum. Í dag er liðið í 20. sæti af 24 liðum og með aðeins einn sigur í fyrstu átta deildarleikjunum. Það er sem sagt blússandi vesen á Hrútunum á leiðinni inn í þennan leik. Þeir náðu reyndar jafntefli um helgina á útivelli eftir þrjú töp í röð í deildinni þannig að kannski grétu menn sig ekki í svefn í gærkvöldi, það er þó eitthvað.

Í Deildarbikarnum hafa þeir komist áfram úr tveimur umferðum, fyrst unnu þeir Grimsby 1-0 á heimavelli og svo mörðu þeir Carlisle 14-13 í vító eftir markalaust jafntefli í síðustu umferð, einnig á heimavelli. Bæði Grimsby og Carlisle eru í League Two eða tveimur deildum neðar en Derby og því ekki rismikið gengið í þessari keppni hingað til. En nú fá þeir alvöru verkefni, eitt af heitari liðum Úrvalsdeildarinnar, og spurning hvort menn vakna aðeins við spennuna sem því fylgir.

Við þekkjum nokkra leikmenn í þessu liði. Okkar gamalkunni Scott Carson, sem eitt sinn slátraði Juventus í Meistaradeildinni á Anfield sælla minninga og fékk sennilega Meistaradeildarmedalíu það vorið í Tyrklandi, er á milli stanganna hjá þeim. Þá er ungstirnið Will Hughes, sem var þrálátlega orðaður við Liverpool í tíð Brendan Rodgers, á miðjunni hjá þeim á meðan lánsmaðurinn James Wilson frá Manchester United er í framlínunni. Þá er gulldrengurinn Tom Ince á mála hjá félaginu en hefur ekki verið að komast í liðið í síðustu leikjum og því spurning hvort við sjáum mikið af honum.

Á hliðarlínunni stendur svo Nigel Pearson, sá er Leicester skipti út fyrir Claudio Ranieri fyrir rúmu ári.

Liverpool

Af okkar mönnum er það helst að frétta að Jürgen Klopp segir Roberto Firmino vera leikfæran eftir að hafa misst af um helgina. Þá er Mamadou Sakho óðum að komast í form en Klopp segir að það fari eftir honum, ekki Sakho, hvenær sá franski spilar á ný. Það má búast við að Klopp geri einhverjar breytingar á liðinu, t.a.m. er fastlega búist við að Loris Karius fái sinn fyrsta leik eftir meiðsli annað kvöld, en miðað við liðsvalið gegn Burton í síðustu umferð myndi ég ekki búast við algjöru varaliði.

Ég ætla að skjóta á nokkrar breytingar:

Karius

Clyne – Matip – Lovren – Moreno

Henderson – Lucas – Wijnaldum

Firmino – Origi – Ings

Sem sagt, Karius í markið, Moreno í vörnina, Lucas hvílir Lallana á miðjunni og svo þrír sóknarmenn í stað þeirra þriggja sem byrjuðu síðasta leik. Í raun er ég bara efins um Ings þarna, gæti vel verið að Coutinho eða Mané spili ef Klopp telur Ings ekki enn vera tilbúinn að byrja leik. Ég vona þó að Ings geti byrjað þennan leik, honum veitir ekki af leikæfingunni og hann fær ekki mikið fleiri sénsa til þess fram að áramótum en í þessum Deildarbikar.

Mín spá

„Á pappírnum“ er eins mikið okkar liði í hag og hægt er að hugsa sér fyrir þennan leik. Það bendir nákvæmlega allt til þess að við vinnum þennan leik auðveldlega og ég ætla einnig að spá því, þó með þeim fyrirvara að bikarinn getur blásið lífi í jafnvel vonlausustu lið. Þannig að ég segi að við vinnum 1-4 útisigur, Hrútarnir komast óvænt yfir úr föstu leikatriði snemma leiks en svo segir gæðamunurinn til sín og okkar menn sigla þessu auðveldlega heim. Eins myndi ég þiggja tvö eða fleiri frá Origi á morgun, það væri fínt að fá hann almennilega af stað á þessu leiktímabili.

YNWA

28 Comments

  1. Hvar er Marko Grujic? Er hann meiddur?

    Ég var að vona að maður fengi að sjá hann

  2. Vitið þið hvort leikurinn er sýndur?

    Svar (KAR): Stöð 2 sýna Leicester – Chelsea (eðlilega) annað kvöld og ég sé þennan leik ekki á dagskrá hjá neinni erlendri stöð. Það verður þó eflaust hægt að finna e-r streymi á netinu í harðindum.

  3. Hann gæti spilað á morgun, ég væri alveg til í að sjá Grujic líka. En ég held bara að Klopp vilji ekki gera of margar breytingar í einu og að þá sé Lucas einfaldlega á undan í goggunarröðinni. Sjáum til.

  4. fegurðin við breiddina á liðinu er að við gætum þessvegna skipt út öllu byrjunarliðinu í síðasta leik.

    Karius

    Gomez – Klavan – Lucas – Moreno

    Stewart – Can – Grujik

    Ings – Firmino – Origi

    Ég myndi telja þetta lið þónokkuð sterkt en set spurningamerki við Gomes vegna þess að hann er að skríða úr meiðslum. Clyne gæti spilað í hans stað eða Alexsander Arnold og Sakho gæti verið í stað Lukasar.

    En líklega er ekki leikjaálag vandamálið fyrst tímabilið er aðeins rétt byrjað og því kannski rökréttast að stilla upp okkar besta liði.

  5. því ætti derby county að skora a móti LFC?? sé það bara ekki gerast.

  6. Ég vona að við gefum Clyne smá hvíld en er ekki viss um hver ætti að spila í staðinn.

    Karius fær að spila sinn fyrsta alvöru leik með liverpool.
    Moreno leysir Millner af.
    Steward/Can koma inn á miðsvæðið fyrir Lallana/Winjaldum.
    Ings/Firminho/Origi koma inn fyrir Coutinho, Sturridge og Mane.

    Ég veit að Klopp langar að leggja áherslu á að vinna þessa keppni því að óþarfi að hvíla menn of mikið en menn eins og Ragnar, Grujik, Gomez, Ings og Steward verða að mínu mati að fá tækifæri í svona leik. Bara til þess að minna á sig(held reyndar að Gomez sé ekki tilbúinn eftir meiðsli).

  7. Ég myndi vilja sjá mikla breytingu og gefa þeim tækifæri sem minna hafa spilað.

    ………………….Karius
    Arnold….Matip….Lovren….Moreno
    ………..Can…..Lucas…..Grujic……….
    ………Origi…….Ings……Coutinho

    Þetta lið ætti að vera nægilega sterkt til þess að klára þetta verkefni.
    Ég myndi vilja sjá miðverðina halda sér enda þurfa þeir að spila eins mikið saman of hægt er.

    Ég held að þetta verði nokkuð þægilegur 0-3 sigur

  8. Er eitthvad hægt ad skoda alla stukuna a leikdag ef madur fær mida i centenary stand eda Kop ?

    Er annars drullu spenntur ad fara í þessa ferd og fer ad sjalfsofdu med hòpnum í tùrinn 🙂

  9. þeir sem vilja sjá alexander arnold í bakverðinum á morgun verða sennilega fúlir þar sem hann er að spila með u23 liðinu í kvöld, annars vona ég að breytingarnar verði miklar og meðal annars grujic, moreno, lucas, ejaria,ings og origi fái að byrja.

  10. Vàà hvad er dapurt ef stod 2 sport synir ekki leikinn. Þo ad þeir seu elad syna Chelsea – Leicester þa hefdi madur haldid ad þeir myndu syna fleiri en einn leik

  11. #12, sammála, dapurt, súrt og svekkjandi.

    Hvernig er best að horfa ef ekki á stöð2sport ?

  12. Er mjööög spenntur fyrir þessum leik!

    Klopp segir að Karius verði í markinu þannig að það er klárt. Vona innilega að Grujic fái sénsinn ásamt Ings, Moreno og einhverjum kjúllum sem hafa ekki fengið mikil tækifæri hingað til.

    Það er gaman að sjá Physioroom núna, bara 4 meiddir og tveir af þeim, Emre og Bobby útskrifast í dag. Það þýðir að það verða bara tveir skráðir meiddir á morgun, svo framarlega sem þetta verði ekki Rugby-leikur í kvöld!

    Hef trú á að við rúllum yfir þetta Derby-lið og að veislan muni halda áfram. Segjum 0-3. Alveg sama hverjir skora.

  13. Stod 2 Sport veit alveg að Liverpool (og Man Utd) eru stærstu kúnnahóparnir þeirra.

    það er bara þannig með þennan blessaða deildarbikar að þeir senda yfirleitt bara út einn leik í beinni og englendingarnir eru greinilega spenntari fyrir Chelsea Leicester í kvöld

  14. BeIn sports 11 HD sýnir leikinn…

    ég nældi mér í áskrift hjá streamtvbox og þessi rás er þar..

    4-0 okkur í vil..

  15. Skv Echo:
    Liverpool’s League Cup tie is NOT being televised. But there will be highlights on Wednesday (not tonight) through Channel 5’s new EFL Cup (dreadful name) show which starts at 11.05pm

  16. Þess má til gamans geta að við munum sýna leikinn á Ölveri í kvöld kl.18:45

  17. Ágætt að þessu sinni að Einar Matthías hafi ekki skrifað þessa upphitun. Þá hefði hann eflaust sagt ranglega eina ferðina enn að Derby hafi fallið “Skallagríms-style” úr deildinni 😉

Uppgjör helgarinnar – Góð byrjun

Derby 0 – Liverpool 3 (leik lokið)