Nýja Breiðholt, skáldsaga eftir Kristján Atla

Kristján Atli og Nýja BreiðholtKæru lesendur. Þið fyrirgefið mér vonandi sjálfsmarkaðssetninguna hér en ég má til með að segja ykkur að fyrsta skáldsagan mín, NÝJA BREIÐHOLT, kemur í verslanir næsta mánudag 3. október, og jafnvel fyrr eða um helgina á höfuðborgarsvæðinu. Hún kemur í allar bókabúðir og stakar aðrar verslanir líka.

Þessi bók hefur verið lengi á leiðinni. Ég hef alltaf stefnt á að skrifa og gefa út skáldsögu og nú er loksins komið að því. Það hefur tekið tíma og frestast, meðal annars af því að það hefur verið svo gaman að skrifa á þessa síðu, sem ég stofnaði og hef rekið í rúm tólf ár núna ásamt félögum mínum, ykkur til góða. Allan þann tíma höfum við ekki beðið um neitt í staðinn en í þetta skiptið ætla ég að brjóta þá reglu og gera nokkuð sem ég kann ekki við sjálfur: ég ætla að betla smá.

Ef þið hafið haft gaman af síðunni og metið það starf sem við höfum unnið í gegnum árin, endilega íhugið að styðja þá við annan af stofnendum síðunnar með því að kaupa eintak. Það skiptir nýliða á bókamarkaði miklu máli að selja vel af fyrstu bók upp á framhaldið og því myndi ég þiggja allan stuðning frá stórum lesendahópi síðunnar. Ef þið hafið gaman af því að lesa lofa ég að þið verðið ekki svikin af skáldsögunni, en ef ekki þá getið þið kannski gefið einhverjum bókaormi sem þið þekkið eintak eða haft bókina í huga undir jólatréð í vetur.

Betlun lokið. Nánar um bókina:

Þið getið lesið fyrsta kafla bókarinnar frítt á netinu.
Þið getið líkað við Facebook-síðu bókarinnar og fylgst með framvindu mála þar.

NÝJA BREIÐHOLT er óvenjuleg og spennandi skáldsaga eftir Kristján Atla sem kannar hvert íslenskt nútímasamfélag stefnir.

Lýsing: Reykjavík er í sárum. Helmingur þjóðarinnar flúði land og skildi eftir borg án stjórnkerfis, skipulags og yfirvalda. Þau sem eftir eru reyna að bjarga sér með því sem þau hafa en þurfa að berjast fyrir sínu og jafnvel útdeila eigin réttlæti.

Þrjátíu árum eftir flóttann gengur raðmorðingi laus og þegar hann rænir ungri stúlku úr Breiðholtinu þarf einstæður faðir að leggja allt í sölurnar til að bjarga henni en gjörðir hans ógna viðkvæmum stöðugleika borgarinnar og gætu leitt til blóðugra átaka valdaafla á milli.

Bókin verður komin í allar bókabúðir mánudaginn 3. október og verður á góðu verði, jafnvel fyrr (um helgina) á höfuðborgarsvæðinu.

Í næstu viku verður svo útgáfuhóf og mun ég láta vita af því hér á síðunni. Allir eru velkomnir og mun ég árita eintök hvar sem þið hittið mig og veifið penna.

Nýja Breiðholt

YNWA
Kristján Atli

25 Comments

  1. Þá má benda á ítarefni um söguna, en ég skrifaði tvo pistla í sumar:

    Að skrifa skáldsögu – um það ferli sem ég fór í gegnum við skrif sögunnar.

    Um heimsendabókmenntir – þar sem ég útskýri muninn tvenns konar framtíðarsögum (vísindaskáldskapur bætir við, heimsendasögur taka frá).

    Þá birtist í síðustu viku eftir mig smásagan Æðar í steini á vefriti Starafugls, fyrir þá sem vilja lesa meiri skáldskap eftir mig.

    YNWA

  2. Ertu að selja bókina einhversstaðar beint t.d. á Netinu (þannig að þú fáir allt milliliðalaust í vasann þinn) eða er bókin bara fáanleg í bókaverslunum?

  3. Nei hún er í bókaverslunum eins og almennt þykir. Ég er með útgáfusamning við bókaforlag sem gefur hana út fyrir mig, ég er ekki í þessu sjálfur. Ég fæ nóg þar ef þú kaupir bókina í bókabúð, þakka samt tillitssemina. 🙂

  4. Ég get staðfest að fyrsti kaflinn er magnaður og lofar góðu fyrir framhaldið. Ég mun óhikað kaupa nokkur eintök, bæði fyrir mig sjálfan og til jólagjafa.

  5. Var að lesa fyrsta kaflann. Hann lofar góðu fyrir framhaldið. Til hamingju með bókina.

  6. Hvað mun svo gripurinn kosta út úr búð? Innilega til lukku með þetta 🙂

  7. Lofar Góða og mun verða lesið! En hérna…

    “…rænir ungri stúlku úr Breiðholtinu þarf einstæður faðir að leggja allt í sölurnar til að bjarga henni…”

    Fékkstu nokkuð aðstoð við skrifin frá Liam Neeson? 😉

  8. Þessi verður keypt, þó ekki væri nema fyrir þessa frábæru síðu!

  9. Ég er ekki kominn með listaverð en það verður í kringum 3.500 kr. sem er uþb helmingur þess sem nýjar, íslenskar skáldsögur kosta yfirleitt á þessum tíma árs. 😉

    Björn H. (#11) spyr:

    Fékkstu nokkuð aðstoð við skrifin frá Liam Neeson? 😉

    Nei, en við skulum segja að þetta sé ekki óvart. Það er ekki allt sem sýnist. Lestu bókina og þá skilurðu hvað ég meina. 😉

  10. Var að lesa fyrsta kaflann, langar að lesa næsta! Hlakka til að sitja með þessa í húsbóndastólnum 🙂

    Verður skemmtileg að sjá (í huganum) hvernig hverfið sem ég ólst upp í og þekki eins og handarbakið á mér sem hefur breyst og aðrir staðir bæjarins sem koma fyrir í sögunni.

  11. Ég kann að meta vinnuna sem þið leggið í þessa síðu, gef altaf eitthverjar bækur í jólagjöf þá þarf ég ekki að velja þetta árið. Gangi þér vel og takk fyrir gott starf.

  12. Gangi þér vel með þetta! Mun mjög trúlega versla þessa í jólabókaflóðinu 🙂

  13. Mikill bókaormur og einlægur aðdáandi þessarar síðu. Verður klárlega keypt og lesinn spjaldana á milli. Ynnilega til lukku með bókina, og einnig þessar frábæru síðu.

    Kær kveðja

  14. Til hamingju! Næsta vonarstjarna eftir að Chuck Palahniuk hætti að skrifa góðar bækur.

Hvað vitum við?

Swansea á morgun