Nóg komið af bölmóði…

Janúar mánuður var óþægilega líkur öllu síðasta tímabili hvað leikjaálag og óstöðugleika varðar. Mig langar að taka saman nokkra random punkta í tilefni af því að þessi mesta leikjaálagshrina tímabilsins klárast á laugardaginn.

  • Liverpool er með nákvæmlega tvö stig að meðaltali í leik yfir allt tímabilið. Yfir allt mótið í fyrra var liðið með 1,58 stig og 1,63 árið áður. Leicester vann deildina í fyrra með 2,13 stig að meðaltali í leik og var eina liðið með meira en 2 stig að meðaltali.

  • Liverpool er með sjö stigum meira núna en miðað við sömu eða sambærilegar viðureiginr í fyrra. Janúar fór illa með okkur í þessari deild, andstæðingar okkar í næstu fimm leikjum gáfu bara sex stig á síðasta tímabili.

  • Coutinho besti leikmaður Liverpool hefur aðeins spilað 55% af deildarleikjum Liverpool í vetur og 49% í öllum keppnum. Mane missti af rétt tæplega átta leikjum vegna Afríkumótsins, þar af tæplega þremur í deildinni, enginn af þeim vannst.

  • Joel Matip hefur spilað 56% af deildarleikjum Liverpool og 50% af öllum leikjum. Hann er okkar langbesti miðvörður.

  • Firmino spilaði ígildi 7,8 leikja frá 31.des til 31.jan. Er það furða að hann virki aðeins þreyttur? Hann hefur spilað 94,5% af deildarleikjum Liverpool.

  • Firmino er búinn að skora 9 mörk og er með 4 stoðsendingar. Mætti vera meira en hafa ber í huga að hann er líklega besti varnarmaður liðsins, skapar mjög mikið pláss fyrir aðra og það eru 15 leikir eftir. Tölfræði hans væri líklega nær þeim sem skora mest fengi hann að taka vítin líka. Þar að auki er hann alls ekki alltaf að spila frammi þar sem hann er bestur. Mörk eru líka að dreifast vel á allt liðið. Til samanburðar skoraði Drogba 10 mörk 2005 og 12 mörk 2006 en liðið helling (95 mörk annað árið).

  • Okkar fremstu fjórir (Coutinho, Mané, Firmino og Lallana) hafa ekki spilað saman síðan í nóvember er Liverpool vann Watford 6-1. Leikur liðsins hefur ekki verið svipur á sjón síðan miðað við hvernig hann var fram að þeim leik.

  • Liverpool var ekkert fyrst að mæta liðum sem bakka strax frá byrjun í desember, með okkar bestu menn og miklu meinna leikjaálag var liðið bara að vinna betur úr þessum varnarleik andstæðinganna.

  • Daniel Sturridge sem við bundum miklar vonir sl. tvö tímabil er klárlega búinn sem leikmaður Liverpool. Hann hefur spilað 25% af deildarleikjum liðsins í vetur en öfugt við undanfarin ár er það ekki bara vegna meiðsla. Hann hefur verið að spila svipað mikið undanfarin tímabil en þá oftast vegna meiðsla. Hann er allt of dýr leikmaður til að nýtast svona illa. Hvað þá þegar hann er ekki einu sinni að skora og virkar sem lúxusleikmaður í leikkerfi Klopp.

  • Liverpool hefur tapað 12 stigum gegn liðum í neðri hluta deildarinnar en 11 stigum gegn liðunum í efri hluta deildarinnar, Burnley er eitt af þeim liðum!

  • Liverpool hefur líka unnið sjö leiki gegn liðunum í neðri hluta deildarinnar og unnið þar 21 stig ofan á þrjú stig sem komið hafa úr þremur jafnteflisleikjum. M.ö.o. þrátt fyrir að við hræðumst orðið “litlu” liðin töluvert hefur Liverpool ennþá fengið helmingi fleiri stig í þessum leikjum en það hefur tapað.

  • Liverpool hefur líka fengið helmingi fleiri stig en það hefur tapað gegn liðunum í efri helmingi deildarinnar. 22 stig fengið en 11 stig farið í súginn.

  • Þegar talað er um að leikmenn hafi vel getað spila marga leiki í röð í gamla daga án þess að væla eins mikið og nú er gert er fínt að hafa í huga að leikurinn er miklu hraðari núna og leikmenn hlaupa að meðaltali rúmlega helmingi meira.

  • Liverpool hefur einu sinni áður verið með meira en 46 stig eftir 23 umferðir í Úrvalsdeildinni (25 ár). 08/09 var liðið með 48 stig og 2013/14 var liðið einnig með 46 stig á sömu tímamótum.

  • 2013/14 náði Liverpool í 38 stig í síðustu 15 umferðunum eða 2,5 stig að meðaltali. 2008/09 náði liðið í 40 stig úr síðustu 15 umferðunum eða 2,7 stig að meðaltali í leik (sem er fáránlegt). Samt er því ennþá haldið fram að Liverpool hafi tapað titlinum þarna þar sem Bentiez fór yfir nokkrar staðreyndir varðandi Ferguson!

  • Það er ekki beint búist við 2,5 stigum að meðaltali frá okkar mönnum núna enda deildin sterkari en oft áður. Engu að síður er Liverpool búið með stærstu útileikina, er úr leik í báðum bikarkeppnum, ekki í Evrópu og vonandi að endurheimta alla sína bestu leikmenn. Útlitið hefur oft(ast) verið verra þrátt fyrir mjög erfiðan og pirrandi janúar mánuð.

  • United á framundan úrslitaleik í deildarbikar ásamt leikjum í FA Cup og Evrópudeild sem þeir ættu að öllu eðlilegu að klára nokkuð örugglega. Þeir hafa vissulega hóp til að takast á við mikið álag en þeirra bestu menn hafa ekki mikið lent í meiðslum það sem af er móti.

  • Arsenal gæti fallið strax úr leik í Meistaradeildinni en þeir verða áfram í bikarnum. Þeir gætu tekið töluvert skrið í deildinni núna á lokakaflanum.

  • Tottenham fer líklegast áfram í bæði FA Cup og Evrópudeildinni. Það tók því að sóa Meistaradeildar sæti á þá á síðasta tímabili! Tottenham hafa verið mjög sterkir í vetur rétt eins og í fyrra en svipað leikjaálag og er núna beit þá í rassinn undir lok móts á síðasta tímabili. Þá lentu þeir líka ekki neitt í meiðslum.

  • Man City voru scary í síðasta leik sóknarlega. Hjálpar reyndar að vörn West Ham hefur ekkert getað en Guardiola er líklega eitthvað að finna taktinn með þá á ný. Þeir eru ennþá í bæði FA Cup og Meistaradeildinni sem vonandi tekur eitthvað frá þeim.

  • Chelsea er bara í FA Cup aukalega og fátt virðist geta stoppað þá í vetur. Þeir hafa reyndar ekki neitt lent í meiðslum í vetur. Það er helst að Luiz og Alonso hafi ekki spilað nánast alla leiki tímabilsins en það er vegna þess að þeir voru kepytir seint í sumar. Willian og Pedro hafa skipt með sér tímabilinu hvað mínútur varðar og þeir eiga Fabregas sem fastamann á bekknum. Spurning hvort þeir verði jafn heppnir með meiðsli allt mótið eins og Leicester í fyrra. Liðið var a.m.k. að hiksta töluvert í upphafi tímabilsins þegar þeir voru án nokkurra leikmanna sem hafa síðan verið lykilmenn.

  • Vandamál Liverpool undir stjórn Klopp (og ekki bara hans) er augljóst. Varnarleikurinn er alls ekki nógu þéttur og tölfræði gegn neðri helmingi deildarinnar er eitthvað sem vel er hægt að laga og það tiltölulega hratt.

  • Annað “vandamál” og eitthvað sem vantar í Liverpool

  • Framundan er svo þeir tveir mánuðir sem hafa verið Liverpool bestir heilt yfir síðustu 25 ár.

9 Comments

  1. Ánægður með jákvæðnina í þessum pistli þrátt fyrir dapurt gengi LFC í jan. Það hjálpar ekki klúbbnum að úthúða leikmönnum eða stjóranum og vera brjálaður yfir hlutum sem maður hefur enga stjórn yfir. Ekkert frekar en það hjálpi að vera jákvæður en það fer betur með blóðþrýstinginn og skapið. En ég verð hinsvegar alveg snar þegar farið er frjálslega með merkingu orðsins helmingi meira (sem er +50%) og ekki hjálpar að segja tvöfalt meira (+200%). En annars bara takk fyrir að vera til og njótið lífsins

  2. Þetta er það jákvæðasta sem ég hef heyrt og lesið frá Mr. Einari lengi og að mínu viti full inni hjá okkar liði. Það gleður mig alltaf smá skammtur af góðri tölfræði og margir athyglisverðir punktar hér að ofan.

    Svolítið andstæðukennt að sjá hjá Einari að við höfum oft verið sterkir á síðustu mánuðum síðastliðinna leiktímabila (13/14 og 08/09 sérstaklega) en svo á móti kemur “Mr.Numbers” og bendir á aðeins 1,51 stig pr.leik í maí (út frá síðustu 60 maí-leikjum LFC) sem er algerlega ódrekkandi og erfitt að horfa til.
    Lykill af okkar velgengi í vor verður eins og bent er á að sleppa við meiðsli og hafa að einhverju að keppa í maí, oft sem áhugi leikmanna dvínar í maí þegar við reynum að halda 7. eða 8. sætinu og vel skiljanlegt að erfitt getur verið að mótivera leikmenn í slíkum aðstæðum.
    Í ár vorar vel í Liverpool borg, ég trúi því og vona.

  3. Góður pistill og ég er sammála um að það er tilefni til bjartsýni frekar en bölsýni.

    Fyrir tímabilið var enginn að tala um titilinn en maður er samt einhvern veginn hálfsvekktur af því að liðið náði að blása svoleiðis ofurbjartsýni í mann í byrjun tímabils. Ef maður horfir blákalt á stöðuna í dag þá er hún frábær, liðið í bullandi baráttu í topp 4 og ég ætla að leyfa mér að vera mjög vongóður um meistaradeild á næsta ári, því hefur ekki verið að skipta síðustu ár og það væri mjög góð niðurstaða fyrir liðið að ná topp 4 sæti í ár.

    Gleymum því líka ekki að við erum með einn besta stjóra í heiminum og án efa þann sem er með bestu ferilskrána í að byggja upp öflug lið án skrilljón billjóna eyðslu, svona fyrir utan það hvað hann er skemmtilegur.

    Áfram Liverpool og megi febrúar vera betri en janúar!

    P.s. Hvað lesið þið í ummæli Klopp um Sakho? Er hann bara að reyna að halda verðinu uppi eða á hann möguleika á að verða framtíðarmaður hjá liðinu? Mín skoðun er að hann væri lykilmaður í liðinu ef hann hefði ekki velt bátnum fyrir tímabil.

  4. Nr. 4

    Afhverju ætti Klopp að útiloka Sakho fyrir framan fjölmiðla? Það hjálpar Liverpool nákvæmlega ekki neitt þó allir viti að hann á gjörsamlega enga framtíð hjá Klopp.

  5. Nr. 5

    Já, það var einmitt það sem ég var að pæla, Liverpool myndi ekkert græða á að útiloka hann opinberlega. En Klopp sagði líka að Sakho hefði sýnt framfarir í viðmóti í einn mánuð og þyrfti að taka restina af tímabilinu með trompi. Líklegt að hann sé bara að vera dipló en ég væri amk alveg til í að fá Sakho aftur inn, held að hann myndi styrkja liðið, hann er háklassa miðvörður að mínu mati og hlýtur að hafa eitthvað á milli eyrnanna miðað við hvað hann hefur lengi og oft verið fyrirliði sinna liða, þrátt fyrir að það virðist hafa orðið eitthvað skammhlaup fyrir tímabilið.

    Hann er líklega ekkert að fara að spila aftur fyrir Liverpool en það má vona.

  6. Takk fyrir jákvæðan og uppbyggilegan pistil. Þessi síða er vitanlega tóm snilld og þessir drengir allir með tölu miklir meistarar. Langar samt að koma með smá fræðilegt innlegg sem víkur að hugarfari.

    Heili okkar er frá náttúrunnar hendi víraður til að vera neikvæður. Ástæðan er rakin til þess að forfeður okkar og formæður á sléttum og skógum Afríku fyrir rúmum 3 m ára áttu mjög undir högg að sækja. Þessi apategund var smávaxin og ekki líkamlega sterk, gat ekki hlaupið hratt, sá hvorki eða heyrði vel, o.s.frv. M.ö.o. var ekki vel til þess fallin frá náttúrunnar hendi til að lifa af hættur frá öðrum dýrum merkurinnar sem voru líkamlega öflugri.

    Þessi mannapi er oft kallaður Lucy (það er vegna þess að vísindamennirnir sem rannsökuðu steingervingana héldu mikið upp á Lucy in the sky with diamonds með Beatles. Sko, komin Liverpool tenging)

    Lucy formóðir okkar var sem sagt hálfgerður aumingi en átti samt tvö trikk uppi í erminni sem skiptu sköpum.

    Í fyrsta lagi þumalputtann sem gerði að verkum að þessi dýrategund gat t.d. smíðað og notað verkfæri. Í annan stað gat heilinn á Lucy geymt minningar og framkallað rökrétt viðbrögð við þeim. Þennan hæfileika notaði Lucy til að búast ávallt við hinu versta sem var henni nauðsynlegt til að lifa af í hörðum heimi. Hún lærði sem sagt að láta óvissuna gjalda efans en ekki njóta.

    Þetta er sem sagt ástæðan fyrir því að enn í dag erum við fremur neikvæð heldur en jákvæð. T.d. er sterkari tilfinning fyrir að tapa en að vinna. Ef hjón rífast einu sinni tekur fimm gæðastundir að vinna upp traust að nýju. Ef kennarinn hrósar krakkanum okkar fyrir níu atriði en gerir athugasemd við eitthvað eitt hjá barninu stendur það neikvæða iðulega eftir í huga okkar o.s.frv. Þetta kallast “negative bias” og er eitt helsta viðfangsefni leiðtoga- og stjórnunarfræða okkar samtíma enda engin ástæða til að vera neikvæður á okkar dögum á sama hátt og Lucy kerlingin. Það er líka miklu skemmtilegra að sjá það jákvæða og reyna að vera besta útgáfan af sjálfum sér. Klopp er raunar ágætis dæmi um nútíma leiðtoga sem reynir yfirleitt að sjá björtu/spaugilegu hliðina og er sífellt að láta gott af sér leiða með jákvæðu hugarfari.

    Þetta er nú langur aðdragandi að örlítilli athugasemd sem er sett fram af mikilli virðingu og kærleika í garð þeirra meistara sem halda úti þessari síðu.

    Það vottar fyrir aðeins of mikilli neikvæðni á köflum að mínum dómi bæði í skrifum og töluðu máli. Þessi neikvæðni er kannski skiljanleg en ég held að hún sé ástæðulaus. Það hefur vissulega ekki allt farið eins og við helst vildum en eins og kemur fram í þessum afbragðs góða pistli hér að ofan er ekkert að óttast nema óttann sjálfan. Klopp og hans fólk er að mestu leyti að gera stórkostlega hluti fyrir Liverpool og við sem elskum þetta fornfræga félag getum látið okkur hlakka til þess sem koma skal.

    Það sem tók steininn úr hvað mig varðar þegar að aðalmaður þessarar síðu sér ástæðu til að gera Emre Can að fyrirsagnarefni líklega af því að hann telur þennan 23 ára strák svo lélegan að hann eigi það skilið. Sjálfum finnst mér það ekki vera svo og hef tröllatrú á Can og sé nákvæmlega ekkert tilefni til að vilja hann burt frá Liverpool.

    Elskum Livepool og tölum ávallt af virðingu um leikmenn, starfsmenn, aðdáendur og eigendur félagsins. Þegar við gagnrýnum gerum það á sanngjarnan hátt án hleypidóma, fordæminga og beiskju í garð einstakra leikmanna.

    Ás og friður og góða helgi.

  7. Góður pistill og góð athugasemd hjá Guderian.

    Það er nú þannig

    Ynwa

Podcast – Allt nema Emre Can

Það er af sem áður var