Ítalir hafa alið af sér marga af þekktari og mikilvægari persónum sögunnar. Galíleó Galilei, Michelangelo, Marco Polo, Machiavelli, Pavarotti, Ferrari, Fellini, Verdi, Da Vinci og að sjálfsögðu Silvo Berlusconi svo að nokkrir af handahófi séu nefndir. Enginn þeirra var þó mikilvægari en Raffaele Esposito frá Napoli, maðurinn sem kom flatbökunni á kortið.
Ítalir voru auðvitað ekkert þeir fyrstu til að baka brauð og líklega ekki heldur til að fletja það út með þessum hætti. Pizza er til í einhverjum fornsögulegum bókmentum en sósan er það sem gerði útslagið og pizza í þeirri mynd sem við þekkjum í dag á uppruna sinn í Napólí. Orðið pizza kemur fyrir í heimildum frá 16.öld í Napoli og var þá verið að lýsa flatböku. Eftir að Evrópubúar fundu Ameríku og komust í kynni við innfædda þar fóru þeir að vinna með þeirra hugmyndir um tómatsósu sem breytti leiknum. Pizza var þekkt sem matur fyrir fátæka og var ekki matreiddur á veitingastöðum lengi vel. Ekki eru til nákvæmar heimildir um þróun pizzugerðar í Napolí á þessum tíma en til eru heimildir fyrir því að þegar árið 1807 voru til 54 pizzastaðir í Napolí og fjölgaði þeim í 120 á seinni hluta aldarinnar. Pizzugerð var því að þróast í Napolí og á Suður-Ítalíu í nokkrar aldir áður en Raffaele Esposito blessaður kom til sögunnar.
Þjóðsagan segir að veitingamaðurinn Raffaele hafi viljað heiðra eiginkonu Umberto I Ítalíukonungs er þau heimsóttu Napolí 11.jún 1889. Hann bjó til pizzu með tómatsósu, mozzarella osti og basil og skartaði hún þannig fánalitum Ítalíu. Nafnið á pizzununni hafði hann í höfuðið á Ítalíudrottningu, Margherita af Savoy.
Fyrir mörgum ítölum er þetta ásamt einni annarri fornri (en svipaðri) útfærslu heimamanna einu alvöru pizzurnar og enn eru til veitingastaðir sem selja eingöngu þessar tegundir af pizzum.
Ítölsk matargerð er auðvitað eitthvað sem hefur þróast í gegnum aldirnar og er pizza engin undantekning þar. Ítalir eru engu að síður taldir hafa setið nánast einir að henni allt fram á miðja síðustu öld er landið var hernumið af bandamönnum. Fram að því höfðu það aðallega verið ítalir heimafyrir sem og ítalskir innflytjendur í öðrum löndum sem bökuðu sér pizzu.
Þetta breyttist eftir seinni heimsstyrjöldina þegar herir bandamanna staðsettir í Ítalíu komust á bragðið á ítalskri matargerð. Þessi fátækramatur fór að laða túrista til Napolí sem flykktust í fátækari hverfin til að fá sér þennan gómsæta rétt heimamanna.
Síðast þegar Liverpool fór til Napolí fórum við yfir sögu félagsins, borgarinnar og komumst að þessu með pizzuna. Eitt varð þó eftir í þeirri yfirferð sem áhugavert er að kynna sér í tengslum við knattspyrnulið Napoli, það er vægast sagt skrautlegur eigandi félagsins.
Aurelio De Laurentiis
De Laurentiis er einn helsti kvikmyndaframleiðandi Ítalíu og kemur af frægri ætt kvikmyndaframleiðenda og skapaði auð sinn í þeim bransa. Hann er vægast sagt umdeildur innan knattspyrnuheimsins, jafnvel meðal stuðningsmanna Napoli og hreinlega talar í fyrirsögnum. Hann er 69 ára og sannarlega af gamla skólanum en það er undir hverjum og einum að meta hvort það sé jákvætt eða neikvætt.
Undanfari – Hnignun Napoli
Maradona féll á lyfjaprófi á meðan HM á Ítalíu fór fram árið 1990. Hann hafði spilað í sjö ár hjá Napoli fram að mótinu en spilaði aldrei aftur með sínu heittelskaða Napoli. Maradona var miklu meira en bara besti leikmaður félagasins í augum stuðningsmanna liðsins og ljóst að það yrði erfitt að halda sama dampi án hans. Napoli vann deildina vorið fyrir HM og var með ágætt lið árin á eftir en hægt og bítandi fóru fjárhagsvandræði að segja til sín og í framhaldi af því vandræði innanvallar. Félagið fór í gegnum nokkur eigendaskipti á stuttum tíma með tilheyrandi óstöðugleika og deilum sem endaði með því að liðið féll í fyrsta skipti í 32 ár vorið 1998. Það tímabil vann liðið aðeins þrjá leiki, skipti fjórum sinnum um stjóra og þrisvar um yfirmann knattspyrnumála. Napoli komst strax upp aftur eftir sigur í umspili árið eftir en féll jafnharðan aftur.
Vandræðin héldu áfram að magnast og var félagið á endanum lýst gjaldþrota í ágúst 2004 með €79m í vanskilum. Knattspyrnuyfirvöld sendu félagið niður í Seria C1 með þeim afarkostum að stofnað yrði nýtt félag sem byrjaði frá grunni. S.S.C. Napoli (Società Sportiva Calcio Napoli) var ekki lengur til og saga þess félags horfin með því.
Endurkoman
De Laurentiis má sannarlega eiga það að hann bjargaði Napoli og byggði liðið aftur upp frá grunni. Hann hefur ítrekað sagt frá því sjálfur. Það voru engir leikmenn eftir enda nýtt félag stofnað og fyrrum leikmenn Napoli frjálsir ferða sinna (og flestir of góðir fyrir Seria C), það voru engar skrifstofur, starfsmenn eða neitt.
De Laurentiis áttaði sig á að hann þyrfti að setja töluverðar fjárhæðir í að byggja liðið hratt upp til að ná í lið fyrir mót og gerði það. Fyrsta verk var að ráða Pierpaolo Marino frá Udinese sem yfirmann knattspyrnumála. Hann réði hinn gamalreynda Edy Reja sem þjálfara og saman byggðu þeir upp lið sem samanstóð af ungum leikmönnum Napoli, lánsleikmönnum frá Seria A liðum og gömlum kempum sem komnir voru á lokametrana. De Laurentiis setti sér það markmið að koma liðinu aftur í hóp þeirra bestu á fimm árum sem var ágætlega metnaðarfullt miðað við byrjunarreitinn.
Napoli er gríðarlega mikil fótboltaborg og ná vinsældir liðsins töluvert út fyrir borgina enda er liðið eiginlega eina alvöru mótvægi Suður-Ítalíu við risunum í noðurhluta landsins. Það er gríðarlegur rígur milli þessara landshluta og var hrun Napoli heimamönnum svakalegt áfall. Það segir töluvert um karakter borgarbúa að á fyrsta leik þessa nýja liðs í Seria C1 mættu 60.000 manns og fylltu San Paolo völlinn. Þetta er að sjálfsögðu met í þessari deild.
Þrátt fyrir alla ringulreiðina í byrjun mótsins tókst Reja að berja saman lið og var rétt búinn að koma liðinu upp í fyrstu tilraun en liðið tapaði í umspili við Avellino. Árið eftir rústaði Napoli deildinni og var því komið í Seria B. Stuðningsmenn liðsins héldu áfram að fjölmenna á völlinn og var aðsókn á leiki Napoli sú þriðja mesta á Ítalíu þrátt fyrir að liðið væri í Seria C1. Aðeins San Siro liðin fengu fleiri áhorfendur.
De Laurentiis var komin af stað í vegferð sinni að endurheimta heiður Napoli og steig annað stórt skref þetta sumar er hann greiddi €32m til að endurheimta nafn félagsins og þannig sögu þess og verðlaunasafn. Società Sportiva Calcio Napoli hét liðið því sem mætti til leiks í Seria B en ekki Napoli Soccer sem fór upp úr Seria C1.
Seria B hafði aldrei í sögunni verið sterkari en hún var tímabilið 2006/07 enda Juventus eitt af liðunum þar eftir Calciopoli mútuhneykslið sem skilaði þeim þangað. Napoli var á sínum lægsta punkti þegar mútuhneykslið skók ítölsku risana og gat því ekki nýtt sér það líkt og Inter og Roma gerðu. Napoli tókst engu að síður að fara beint upp um deild aftur ásamt Juventus og Genoa. De Laurentiis tókst ætlunarverkið á þremur árum.
Napoli var svo ekki í neinum vandræðum á fyrsta ári í Seria A og endaði í efri hluta deildarinnar. De Laurentiis viðurkenndi að vandræði annarra liða í kjölfar Calciopoli skandalsins hefðu hjálpað Napoli en ítalski boltinn í heild var þarna á miklum lágpunkti.
Liðið komst í Evrópukeppni í gegnum Intertoto Cup en vann sér svo sæti í Europa League árið eftir er liðið endaði í sjötta sæti í deildinni. Það skilaði þeim m.a. leikjum við Liverpoolv undir stjórn Roy Hodgson (hrollur).
Napoli var á innan við 1000 dögum komið aftur í Evrópukeppni sem var reyndar ekki eins mikið stórmál í huga okkar manns og ætla mætti. Hann lét hafa eftir sér einu sinni að honum væri drullusama um Europa League, þökk sé Blatter og Platini þá væri sú keppni einskis virði.
Rekstur félagsins var í frábærum málum og liðið eitt af fáum á Ítalíu sem skilaði hagnaði á þessum tíma.
Stjórar Napoli
Edy Reja hafði stýrt Napoli úr Seria C1 upp í Seria A (og Evrópu) og var skiljanlega vinsæll meðal stuðningsmanna liðsins. Það stoppaði ekki okkar mann í að reka hann í mars 2009 eftir slæmt gengi. Líklega er ekki alltaf auðvelt fyrir stjóra að vinna undir stjórn De Laurentiis, árið áður eftir 2-2 jafntefli við Lazio lenti hann í hörkurifrildi við Reja sem endaði þannig að De Laurentiis sagði að hann myndi ekki berja Reja þar sem hann væri orðinn gamall… en hann myndi reka hann.
Sama ár var hann spurður út í mögulega brottför fjögurra lykilmanna (Lavezzi, Hamsik, Gargano og Maggio) til Englands. Svarið var einfalt:
“If these players piss me off then, OK, they can piss off to England. But they need to understand this: the English live badly, eat badly and their women do not wash their genitalia. To them, a bidet is a mystery.”
Enginn af þeim fór það sumarið, raunar er Hamsik ennþá hjá Napoli og Maggio var að hætta sl. vor 36 ára gamall.
Roberto Donadoni fyrrverandi landsliðsþjálfari kom í staðin fyrir Reja en De Laurentiis stoppaði ekki þar heldur lét hann Marino (yfirmann knattspyrnumála) einnig fara. Manninn sem m.a. fékk Hamsik og Lavezzi til félagsins. Kaupin á þeim dugðu ekki til að réttlæta kaup á fjölmörgum lélegum leikmönnum. De Laurentiis var að smíða nýtt fimm ára plan fyrir félagið.
Riccardo Bigon ný yfirmaður knattspyrnumála byrjaði með látum og fékk Edinson Cavani til liðsins frá Palermo á €4m lánssamningi í eitt ár með klásúlu upp á €12m sumarið eftir. Klárlega kaup tímabilsins og leikmaður sem tók Napoli upp um eitt level. De Laurentiis viðurkenndi hinsvegar að það hefðu verið mistök að reka Reja þegar ljóst var að Donadoni var ekki að standa undir væntingum og var hann ekki langlífur hjá Napoli. Walter Mazzarri kom frá Sampdoria, hann er miklu betri en Jose Mourinho stjóri Inter sagði De Laurentiis þegar Mazzarri var kynntur til leiks, einstaklega hógvær að vanda.
Mazzarri stóð aldrei undir þessum væntingum en var alltaf með Napoli liðið í Evrópusætum þau fjögur tímabil sem hann var stjóri. De Laurentiis bakkaði Mazzarri nokkuð vel upp á markaðnum og var nettó eyðsla Napoli €102m á hans tíma hjá félaginu (178,5 – 76,3)
Rafa Benitez tók við af honum 2013 og náði sama árangri þau tvö tímabil sem hann stýrði liðinu. Það var engu að síður komið að ákveðinni endurnýjun þegar Benitez tók við því Cavani fór þá um sumarið og Lavezzi hafði farið sumarið áður. Báðir til PSG. Inn komu menn eins og Higuain, Jorginho og Mertens.
Napoli liðið var alltaf gott en De Laurentiis hefur oft verið sakaður um að stíga ekki skrefið til að ná Juventus sem hefur drottnað yfir deildinni undanfarin sjö ár. Ósanngjörn gagnrýni að mörgu leiti ef skoðað er nettó eyðslu.
Sarriball
Napoli hefur aldrei farið eins nálægt því að vinna deildina aftur og á síðasta tímabili er liðið var frábært allt mótið, náði í 91 stig en það bara dugði ekki til gegn ógnarsterku liði Juventus. Arkitektinn af því var Maurizio Sarri sem kom í stað Benitez 2015.
Sarri var starfsmaður í banka til rúmlega fertugs og hafði aðeins stjórnað atvinnumannaliðum í um 10 ár er honum bauðst starfið hjá Napoli. Hann hafði komið smáliði Empoli upp í Seria A og hélt þeim uppi sem var þó nokkuð afrek, svo mikið að honum bauðst draumastarfið, en Sarri er fæddur og uppalinn í Napoli.
Napoli náði öðru sæti fyrsta tímabil Sarri en var aldrei í samkeppni við Juventus. Higuain var markahæstur að vanda og gríðarlega vinsæll þar til Juventus virkjaði klásúlu í samningnum hans.
Sarri fékk um €100m úr að moða og leysti brotthvarf Higuain vel. Liðið bætti stigasöfnun milli ára en endaði samt í þriðja sæti þar sem Roma átti einnig frábært tímabil. Juventus engu að síður ennþá óvinnandi múr.
Napoli hefur jafnan verið skemmtilegt lið skipað gæðaleikmönnum í tíð De Laurentiis en aldrei eins skemmtilegt og undir stjórn Sarri sem varð fyrir vikið gríðarlega vinsæll í sinni heimaborg. Stuðningsmenn Napoli eru vel meðvitaðir um hvað De Laurentiis hefur gert fyrir Napoli, mikið til vegna þess að hann hættir ekki að minna á það sjálfur. Hann hefur skoðun á öllu og öllum og fer oft yfir strikið. Þeim fjölgar hratt virðist vera stuðningsmönnum Napoli sem hafa fengið nóg af De Laurentiis og finnst hann eiga sinn þátt í því að Sarri fór.
Strax á öðru tímabili Sarri fóru viðvörunarbjöllur að hringja hvort De Laurentiis myndi hrekja hann í burtu og eyðileggja þannig bestu von þeirra um titilinn. Þegar Evrópumeistarar Real Madríd slóu Napoli út í Meistaradeildinni 2017 gagnrýndi De Laurentiis leikmenn liðsins harkalega. Sarri fékk sinn skerf líka fyrir liðsuppstillingar sínar og fyrir að nota ekki leikmenn sem keyptir voru fyrir tímabilið. Þetta fór öfugt ofan í Sarri sem og stuðningsmenn liðsins enda aldrei jákvætt þegar eigandinn er farinn að gaspra með þessum hætti um hluti sem hann lætur fagmenn um að stjórna. Því var jafnvel haldið á lofti að De Laurentiis væri öfundsjúkur út í Sarri og vinsældir hans.
Real Madríd leikurinn er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um afskipti okkar manns af stjórnun liðsins. Endalok Sarri hjá Napoli og samband hans við De Laurentiis koma manni verulega spánskt fyrir sjónir nokkrum mánuðum eftir besta tímabil Napoli í tíð De Laurentiis. Sarri yfirgaf draumastarfið er Chelsea bauð honum til London og tók besta mann Napoli með sér. Versti ótti stuðningsmanna Napoli var þar með staðfestur og þegar fréttir bárust af því á dögunum að De Laurentiis hefði keypt D-deildar lið Bari vildi hluti stuðningsmanna að hann færi alfarið þangað sjálfur og seldi Napoli.
De Laurentiis hefur svarað stuðningsmönnum fullum hálsi og sagði m.a. að þeir sem vildu að hann setti meiri pening í nýja leikmenn væru mikið til stuðningsmenn sem keyptu fake Napoli búninga, svindluðu sér inn á völlinn og skiluðu félaginu þannig ekki nægum tekjum til að kaupa leikmenn.
Meirihluti stuðningsmanna Napoli gerir sér engu að síður grein fyrir að grasið er ekkert alltaf grænna hinumegin og meta það starf sem De Laurentiis hefur unnið. Inter og AC Milan eru stærri lið en Napoli og hafa verið í vandræðum með að finna ríka eigendur undanfarin ár og eru nú í skugga Napoli. De Laurentiis hefur skoðun á öllu og er mjög opinn fjölmiðlum, þetta gerir hann oft að auðveldu skotmarki og hjálpar hann sér þannig alls ekki sjálfur. Yfirlýsingagleði hans er svosem ekkert einsdæmi á Ítalíu og líklega deilda stuðningsmenn Napoli með a.m.k. tveimur þegar eigandinn fer að tjá sig.
Ancelotti snýr aftur heim til Ítalíu
De Laurentiis hefur farið mikin eftir að Sarri fór til Chelsea og m.a. talað um að hann hafi ekki skilað neinum titlum þrátt fyrir skemmtilegan fótbolta. Hress spuni það enda Napoli með 91 stig á síðasta tímabili.
Ancelotti er alvöru arftaki og telja margir á Ítalíu öflugt hjá Napoli að landa honum. Fáir ættu að vera eins vel undirbúnir því að vinna undir stjórn karakters eins og De Laurentiis enda hefur Ancelotti á sínum ferli starfað fyrir menn eins og Berlusconi, Moggi, Abramovich og Perez.
Napoli eru engu að síður mesta áhætta sem hann hefur tekið á sínum þjálfaraferli og ástæðan fyrir því að ég hef ekkert sérstaka trú á honum hjá Napoli er sú sama og ég vildi ekki fá hann til Liverpool þegar Rodgers var rekinn. Hann hefur alltaf verið stjóri hjá liðum sem voru afgerandi langbest og ríkust í sinni deild eða a.m.k. annað tveggja liða sem báru af hvað þetta varðar. Þrátt fyrir það hefur hann unnið tiltölulega fáa deildarmeistaratitla á sínum ferli m.v. liðin sem hann hefur stjórnað. Meistaradeildina hefur hann hinsvegar unnið þrisvar, en spáið í því að þetta AC Milan lið sem hann fór þrisvar með í úrslit þeirrar keppni vann deildina á Ítalíu bara einu sinni undir hans stjórn! Hann vann hvorugt árið sem hann var stjóri Juventus.
Ancelotti yfirgaf Ítalíu fyrir níu árum og fór fyrst til Chelsea þar sem hann var í tvö ár og stóð sig heilt yfir frábærlega. Chelsea vann tvöfalt fyrra árið og bætti markametið í deildinni en rétt missti af titlinum árið eftir. Ancelotti var rekinn tveimur tímum eftir lokaleik tímabilsins. Guð má vita afhverju.
Næsta stopp var hið nýríka PSG í desember 2011 en þeir réðu ekki við risana í Montpellier sem vann deildina. Titlalaust tímabil hjá PSG! Það var leiðrétt árið eftir. Hann bað hinsvegar um að fá að fara eftir eitt og hálft ár í París til að taka við Real Madríd af Jose Mourinho.
Real mann Meistaradeildina og bikarinn á fyrsta ári Ancelotti en endaði í þriðja sæti í deildinni. Fyrsta skipti sem Real var ekki eitt af efstu tveimur liðunum síðan 2004. Þeir enduðu í öðru sæti árið eftir og það var nóg fyrir Perez sem rak Ancelotti. Virkilega harkalegt.
Enn á ný flakkaði Ancelotti milli ríkustu liðanna og næsta stopp var FC Bayern. Þar er ekki hægt að vinna ekki deildina og gerði hann það 2017. Engu að síður var hann rekinn strax í september sama ár eftir 0-3 tap gegn PSG í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Hann er sagður hafa tapað klefanum hjá FC Bayern en lykilmenn höfðu ekki trú á taktíksum hugmyndum hans. Tímanna tákn að risanafn eins og Ancelotti sé látinn víkja frekar en að tekið sé til í leikmannahópnum.
Hann var því ekki starfandi stjóri allt síðasta tímabil og þó Napoli hafi vissulega verið eitt albesta lið Ítalíu síðasta tímabil er hann alls ekki að vinna með álíka samkeppnisforskot og hann hefur gert mest allan ferilinn.
Lið Napoli
Jorginho er að sýna það ágætlega í byrjun tímabilsins á Englandi hversu mikið högg það er fyrir Napoli að missa hann. Hann er sérstaklega mikilvægur leikstíl Sarri og ekki víst að hann yrði jafn stór partur af plönum Ancelotti. Napoli keypti nokkra leikmenn í sumar en engin stór nöfn. Mestur peningurinn fór í Fabian Ruiz 22 ára miðjumann Real Betis og Simone Verdi hægri kantmann frá Bologna.
Pepe Reina sagði einnig skilið við Napoli í sumar og í hans stað fengu þeir tvo markmenn, David Ospinna frá Arsenal sem hefur byrjað mótið og Alex Meret einn efnilegasta markmann Ítala. Hvorugur þeirra var fyrsti kostur og fór De Laurentiis eins og vanalega ekki leynt með óánægju sína þegar hann missti af sínum fyrsta kosti og sakaði m.a. Roma og Liverpool um samsæri:
“I always had the doubt in my mind that the real owner of Liverpool is the same that owns Roma. A little bird told me that a few years ago.
“If that were the case, and therefore the two clubs owned by the same people, they couldn’t play in the Champions League.
“I offered €60m for Alisson, but then realised he would end up going to the Reds regardless.”
Stuðningsmenn Napoli nenna margir ekki að hlusta á svona kjaftæði frá eiganda félagsins og horfa mun frekar í það hversu óspennandi glugginn var og hvernig liðið kemur út í plús fjárhagslega og án bæði síns besta leikmanns og besta stjóra félagsins í áratugi eftir tímabilið sem þeir áttu í fyrra.
Ancelotti hefur samt byrjað ágætlega, liðið er í öðru sæti eftir sjö umferðir rétt eins og Liverpool en sex stigum á eftir toppliði Juventus. Þessi lið mættust um helgina þar sem gamla konan vann 3-1 eftir að Napoli hafði komist yfir. Sampdoria gekk einnig frá Napoli fyrir stuttu 3-0 í leik þar sem Napoli liðið leit svipað vel út og þegar Liverpool vann þá 5-0 í æfingaleik fyrir mót. AC Milan komast í 0-2 forystu í annarri umferðinni á San Paolo vellinum áður en Napoli skipti um gír og vann 3-2.
Hreint engin flugeldasýning hjá þeim í byrjun og 0-0 jafntefli í Serbíu var líklega töluvert áfall enda vont að missa stig gegn liðinu í fjórða styrkleikaflokki í svona sterkum riðli. Meistaradeildin er engu að síður ennþá heimavöllur Ancelotti og ekki hægt að vanmeta hann á því sviði.
Umdeildur heimavöllur
Það var áberandi meðal vina okkar í Liverpool borg að strax eftir að ljóst var hvaða lið yrðu í riðlinum voru mjög margir á því að þeir myndi sleppa útileiknum á Ítalíu. Ítalir hafa orð á sér fyrir að vera ömurlegir heim að sækja í Evrópukeppnum og fer ekkert betra orð af stuðningsmönnum Napoli en t.d. stuðningsmönnum Roma sem við höfum fjallað um áður. Síðast þegar liðin mættust voru þrír stuðningsmenn Liverpool stungnir og fjórir aðrir leituðu á sjúkrahús eftir fjölmörg slagsmál. Það voru nokkur dæmi um að ultras hópar sætu fyrir stuðningsmönnum Liverpool og gerðu skyndiárásir ekki ósvipaða þeirri sem stuðningsmenn Roma gerðu fyrir utan Anfield. Það segir sína sögu að mjög margir vilja miklu frekar fara til Belgrade heldur en Napoli. Yfirvöld ætla klárlega að reyna hafa hemil á stuðningsmönnum liðanna, sérstaklega eftir árásina á Sean Cox í vetur en m.v. sögurnar á Ítalíu er löggan þar oft litlu skárri en stuðningsmenn heimamanna. Eitt útspilið er að stuðningsmönnum er bannað að vera með belti á leikdegi. Er þá ekki frekar að fara skoða það hvort Ítalir séu hæfir til að hýsa Evrópuleiki þegar ekki er lengur hægt að treysta fólki til að vera með belti?
Heimavöllurinn sjálfur, San Paolo er gríðarlegt þrætuepli milli De Laurentiis og borgaryfirvalda og hefur okkar maður eins og vanalega haldið aftur af sér í þeim deildum:
“I’m tired of saying that San Paolo is falling by the wayside and they’re not doing what they can to make it happen. Instead of improving it, the stadium looks more and more like a toilet.”
Heimavöllurinn er í eigu borgaryfirvalda sem leigja hann til Napoli. De Laurentiis hefur ítrekað talað um að hann ætli sér að byggja nýjan völl. Hann hefur enda eitthvað til síns máls, völlurinn er alls ekki í góðu standi þó þar geti myndast mögnuð stemming og skapar félaginu alls ekki nægar tekjur m.v. hvað önnur lið af sama kaliberi í Evrópu búa við.
Fyrir tímabilið talaði De Laurentiis m.a.s. um að sækja um leyfi til að færa heimaleiki Napoli í Meistaradeildinni til Bari 250km í burtu og bauðst til að borga rútu undir stuðningsmenn liðsins á leikina.
Það er ekki mannvirkið sem skiptir öllu í svona leikjum heldur stuðningsmenn liðsins og Napoli má eiga það að þeir styðja hressilega við bakið á sínum mönnum. Klopp þekkir þessa stemmingu, hann fékk bann eftir síðustu heimsókn sína til Napoli!
Liverpool
Síðast þegar Liverpool spilaði Evrópukeik í Napoli flaug hópurinn með Bruce Dickinson söngvara Iron Maiden til Ítalíu. Það var samt ekkert rokkstjörnubyrjunarlið sem Roy Hodgson stillti upp í þessum leik:
Liverpool's team the last time they played Napoli away ??? pic.twitter.com/uCWcJ8h8dH
— Liverpool FC News (@LivEchoLFC) October 1, 2018
Reina, Kelly, Carragher, Skrtel, Konchesky, Poulsen, Spearing, Jovanovic, Shelvey, Babel, Ngog. Bekkurinn var ennþá verri: Jones, Kyrgiakos, Aurelio, Wilson, Maxi, Cole, Eccleston.
Leikurinn fyrir átta árum var annar leikurinn sem Liverpool spilaði eftir að NESV (FSG) keypti félagið sex dögum áður. Það er því ágætt að nota þessa viðureign núna til að bera saman muninn á Liverpool undir stjórn FSG. Að sjálfsögðu er Liverpool búið að losa sig við alla þá sem voru á mála hjá félaginu 2010 og flesta fyrir löngu síðan. Fyrstur til að fá reisupassann var auðvitað Roy Hodgson en það segir samt sitt um hversu lítið eigendur Liverpool vissu um fótbolta að hann fékk að hanga fram yfir áramót.
Marek Hamsik er sá eini sem er eftir hjá Napoli sem spilaði þennan 0-0 leik fyrir átta árum og er væntanlega farinn að búa sig undir öllu erfiðara próf að þessu sinni. Hópurinn hjá Liverpool var reyndar ekki alveg svona slakur 2010 enda hvíldi Hodgson nokkra leikmenn en Klopp gæti einmitt gert það líka í þessum leik. Liverpool er í svakalegu leikjaprógrammi og á mikilvægari leik um helgina heldur en þennan.
Chelsea um helgina tók verulega á enda mjög gott lið og með Man City ætla ég að giska á þetta byrjunarlið:
TAA – Matip – Gomez – Robertson
Wijnaldum – Keita – Henderson
Shaqiri – Sturridge – Firmino
Klopp skipti alveg um varnarlínu í deildarbikarleiknum og mögulega koma fleiri inn heldur en Matip. Ef að Van Dijk er eitthvað örlítið tæpur ennþá vill ég alls ekki taka séns með hann fyrir City leikinn. Svo er spruning hvort hann vilji láta bakverðina hlaupa alla þrjá leikina eða rótera þeim eitthvað í þessum leik.
Milner spilaði báða Chelsea leikina og er væntanlega fyrsti maður á blað í plönum Klopp fyrir City leikinn. Tippa á að hann víki fyrir Keita en útiloka alls ekki að Fabinho fái einnig séns líkt og gegn Chelsea.
Mané eins og Milner spilaði báða Chelsea leikina og Salah gæti haft gott af smá hvíld. Sturridge á a.m.k. skilið að byrja þennan leik og Shaqiri ætti að fá séns einnig.
Fjórar breytingar frá síðasta leik, er það ekki nokkuð raunhæft?
Spá:
Napoli eru skíthræddir við þetta Liverpool lið og hafa ekki farið leynt með það. De Laurentiis vildi fá útskýringar frá UEFA hvernig það gæti gerst að Napoli fái Liverpool úr þriðja styrkleikaflokki, lið sem fór í úrslit í fyrra. Ekkert mál að skilja hvað hann meinar en sýnir hugarfarið einnig.
Það er aðeins erfitt að meta þetta Napoli lið, Liverpool rústaði þeim 5-0 fyrir mót og slapp Napoli vel með þau úrslit. Eini leikurinn sem ég hef séð þá spila var 3-0 tap gegn Sampdoria og þeir unnu ekki Rauðu Stjörnuna í Belgrade. Af því sem ég hef séð til þeirra er Liverpool bara miklu betra lið en Napoli en auðvitað veit ég að þessi dæmi segja ekki alla söguna. Heimavöllurinn á stórum Evrópukvöldum telur einnig rétt eins og Anfield gerir hjá okkur. Með þetta í huga held ég að Liverpool vinna bara 1-4, sama hvernig Klopp stillir þessu upp.
Úff, smellti á linkinn yfir á upphitun fyrir síðasta leik Liv og Napoli á heimavelli napolí …. http://www.kop.is/2010/10/20/napoli-a-morgun/
Hodgson í brúnni og sjáið þið miðjuna okkar: Konchesky; Spearing, Poulsen; Rodríguez ….
Ngog og Babel frammi.
Það eru heldur betur breyttir tímar.
Takk fyrir þetta Einar, klassalestur eins og allt annað á þessari síðu.
Ég er ekki alveg eins kokhraustur fyrir þennan leik, þrátt fyrir að ég hafi óbilandi trú á okkar mönnum. Ancelotti er með þrusugóðan hóp í höndunum. Þeir eru með þónokkra leikmenn sem maður hefur á einhverjum tímapunkti viljað til Liverpool, Koulibaly, Hamsik, Zielinski, Mertens, Insigne til að nefna einhver nöfn.
Þess fyrir utan er Klopp pottþétt ekki að fara að stilla upp sínu sterkasta liði – Trent, Robertson, Milner, Wijnaldum, Mané og Salah verða sennilega allir hvíldir og kæmi ekki á óvart ef Bobby verður rólegur í leiknum – með City leikinn í hausnum.
Allison – Clyne, Gomez, Matip, Moreno – Henderson, Fabinho, Keita – Shaqiri, Sturridge, Bobby
Svona verður liðið held ég. Þrátt fyrir að nokkrir lykilmenn séu hvíldir er þetta byrjunarlið ekki samanburðarhæft við það lið sem byrjaði síðasta leik Liverpool í Napoli.
Vinnum leikinn með eins marks mun.
Ef þetta væri rétt lið hjá þér Doremí þá ætti mr K að hugleiða að vea með 3 miðverði og færa Morena fram á miðjuna. Hann er ágætur framávið en ekki í vörninni. Nú eða setja no 7 í vinstri bak…
Koma svo, nenni ekki að vera neikvæður. þetta fer 0-5 fyrir okkur.
YNWA
De Laurentiis má eiga það að hann er skrautlegur karakter þó mér finnist yfirlýsingar hans yfirleitt frekar digurbarkalegar og fullar litlu meira en lofti. En skondnar engu að síður. Eitt get ég tekið heilshugar undir með honum.
“vildi fá útskýringar frá UEFA hvernig það gæti gerst að Napoli fái Liverpool úr þriðja styrkleikaflokki, lið sem fór í úrslit í fyrra”
Ég hreinlega skil það ekki að Liverpool er í þriðja styrkleikaflokki. Liðið ætti að minnsta kosti að vera einum styrkleikaflokki ofar og jafnvel í fyrsta styrkelikaflokki. í það minnsta tel ég Liverpool sterkara á blaði heldur en Napoli þó það segi nátturulega ekki allt. Þetta gæti orðið hörkuleikur og Liverpool þarf að sýna sinn allra besta leik til að ná fram góðum úrslitum. Sigur væri vel þeginn en jafntefli á erfiðum útivelli væri alveg ásættanlegt.
Allison – Clyne, Gomez, Matip, Moreno – Henderson, Fabinho, Keita – Shaqiri, Sturridge, Salah
Mo þarf að keyra sig í gang og ekkert betra en leikur á ítalíu þar sem hann þekkir sig, hann byrjar og tekur fyrstu 60 mínúturnar og skorar 3…áður en Bobby kemur og klárar síðustu 30.
Það er mjög einfalt mál af hverju Liverpool er í þriðja styrkleikaflokki. 1. styrkleikaflokkur eru liðin sem unnu sína deild (6 sterkustu deildir Evrópu) ásamt sigurvegurum meistaradeildarinnar og evrópudeildarinnar. Því næst er liðum raðað í röð eftir gengi liðanna í evrópu síðustu 5 ár. Liverpool hefur ekki riðið feitum hesti í evrópu á þessum tíma að undanskildu síðasta ári og 15/16, þess vegna var Liverpool í 3. styrkleikaflokki í síðasta drætti.
Eins og er er Liverpool í 22.sæti á þeim lista en fer vonandi ofar á þessu tímabili.
Hér er hægt að skoða listann miðað við síðustu 5 ár; https://www.uefa.com/memberassociations/uefarankings/club/#/yr/2018
Enn einn epískur evrópupistillinn frá EM. TAKK!
Spái (og vona heitt og innilega) að Klopp muni hvíla lykilmenn og sé fyrir mér að við munum ná sterku 2-2 jafntefli á brútal útivelli.
Áfram Liverpool!
PS. Pizzasagan í byrjun var awesome!
Sælir félagar
Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja. Mér finnst það gæti verið nauðsynlegt að hvíla Salah því hann hefur verið dálítið þungur í haust miðað við í vor. Hann gæti ef til vill þurft hvíld og þá ekki síst andlega eftir erfitt sumar. Þessir drengir eru nefnilega menn en ekki vélar. Hitt er svo annað að þetta gæti verið leikurinn sem kemur honum í gang ef hann næra að skora og /eða leggja upp. En hvað veit ég sosum. Ég legg til að Liverpool vinni þennan leik örugglega svona 0 – 2 eða 1 – 3.
Það er nú þannig
YNWA
Það er nú hægt að fyrirgefa greinahöfundi fyrir þau mistök að skauta framhjá mönnum eins Mussolini, Armani, Versace, Verdi, og jafnvel Kristófer Kólumbusi eða Marco Póló, í þessari upptalningu á merkum Ítölskum einstaklingum þarna í byrjun…. en að nefna ekki einu sinni Dossena eða Fabio Borini í þessari upptalningu er ekkert annað en í besta falli gleymska !!! Svo ekki sé talað um Aquilani eða sjálfan M.Balotelli !!!! 😉
Það var mér alveg kristalljóst, að þegar greinahöfundur var að hripa þessa einstaklinga niður, var hann löööngu farinn að hugsa um Flatbökurnar sem hann ætlaði að skrifa næst um… og gerði reyndar listilega vel.
En þessi leikur getur farið á alla vegu. Erfiður útivöllur, mikið álag á okkar mönnum, evrópuleikur.. og svona mætti lengi telja. En þetta er nú samt Liverpool, og við getum líka unnið alla leiki. Ég ætla að sýna hógværð og skjóta á að við tökum þetta 0-2, og hleypum aldrei of mikilli spennu í leikinn.
Insjallah
Carl Berg 🙂
Mussolini frændi þinn komst ekki á blað enda skyggir Berlosconi algjörlega á hann í sama embætti. Marco Polo og Verdi eru hinsvegar báðir á sínum stað!
Viðurkenni hinsvegar klúður að hafa ekki Aquilani með.
Takk fyrir þessa fínu upphitun. Skemmtilegt lið með karakter og mikla sögu á öllum stigum, hátt uppi og langt niðri. Vona að þeir verði jarðbundnir gegn okkar liði og sýni ekki neina takta. Veit ekki hvort rétt verður að taka einhverja sénsa gegn svona liði með því að stilla ekki rétt upp og “hvíla” fyrir næsta leik. Hópurinn okkar er góður en slaknar samt verulega þegar markmaður nr 2 er kominn, vinstri bakv nr 2 og miðvörður nr 4 er kominn. Framávið slaknar liðið ekki eins mikið þó menn sem eru rankaðir neðar séu inná og núna spila Shagiri eða Sturridge 90 mín. Getur orðið snúinn leikur en heggur ekki Sturridge á hnútinn og þá opnast …………..
FRÁBÆR pistill, skotheld upphitun!
Taka bara 0-1 á þetta Sturridge supersub kemur inná á 89 min. eazy peazy japaneazy
Haha höfundur er grínari með meiru. Enda á ekki alvaran að vera alls ráðandi, þá væri allt svo grátt. En varðandi pizzuna, þá segjir sagan að einhver baronessa, man ekki nafnið, vildi eithvað algerlega nýtt í matin, bakað var brauð með kryddaðri tómatsósu og skinku sem sló í gegn. Þetta er ekki ósvipuð saga, og sagan um Sandwich, breskan aðalsmann sem vildi blanda saman kjöti og grænmeti milli tveggja brauðsneiða, og heitir á okkar ylhýra samloka. En að bera svokallaðan upphafsmann pizzunar við Da Vinci er orðum aukið, eða Verdi, Michelangelo etc. En lengi lifi gamanið!!!
YNWA
Já það eru ófáir snillingar frá Ítalíu sem hafa leikið fyrir Liverpool, en engin þeirra slær þó Dominic Matteo við.
Hendi í ekta Napoli pizzu í kvöld.
Geri ráð fyrir sterku liði.
Salah fer kannski á bekkinn, myndi samt vilja sjá hann byrja. Vanur loftslaginu. Shaqiri þá inn í staðinn.
Milner á bekk og Keita inn. Sammála því. City aðgerð.
Clyne fyrir TAA.
Annað óbreytt. Það á ekkert að grínast neitt.
Vinnum þetta í kvöld.
YMWA
PS. Raulið þetta fyrir betri helminginn.
In Napoli where love is king
When boy meets girl here’s what they say
When the moon hits your eye like a big pizza pie
That’s amore
When the world seems to shine like you’ve had too much wine
That’s amore
Bells will ring ting-a-ling-a-ling, ting-a-ling-a-ling
And you’ll sing “vita bella”
Hearts will play tippy-tippy-tay, tippy-tippy-tay
Like a gay tarantella
When the stars make you drool just like a pasta fazool
That’s amore
When you dance down the street with a cloud at your feet
You’re in love
When you walk down in a dream but you know you’re not
Dreaming signore
‘Scuzza me, but you see, back in old Napoli
That’s amore