Upphitun: Chelsea í deildarbikar

Fótboltaguðirnir blessuðu okkur með því að draga Liverpool  gegn Chelsea í 32-liða úrslitum  enska deildarbikarsins. Eflaust finnst sumum það bölvanlegt en ég kýs að líta jákvæðar á að fá slíka stórlaxa á snærið. Það gleðilega við þennan risadrátt er í fyrsta lagi að leikurinn er á heimavelli og sá þriðji í röð af heimaleikjum sem hjálpar til við að minnka ferðaálag og að hámarka góða stemmning meðal áhangenda. Í annan stað þá er ekkert endilega verra í samhengi tímabilsins að mæta toppliði við fyrsta mögulega tækifæri í bikarkeppni. Annað hvort sláum við beinan samkeppnisaðila um deildarbikarinn út úr keppninni eða að við erum snemma lausir við þungbærar skuldbindingar um slakasta bikarinn sem er í boði og getum einbeitt okkur að deild og Evrópu í kjölfarið. Í þriðja lagi þá er mun skemmtilegra að fá toppslag í stórgóðri stemmningu á Anfield gegn Chelsea í staðinn fyrir gefins leik gegn Chesterfield eða Cheltenham. Lið með sjálfstraust fagnar stórleikjum í stað þess að hræðast þá og því er fínt að fá bláliðana frá London í snemmbúna heimsókn.

Sjálfur er ég rómantíker í mér á kostnað pragmatíkinnar og vil endilega að Liverpool vinni allar silfurdollur sem í boði eru á hverju tímabili en að sjálfsögðu ekki sama hvað það kostar. Deildarbikarinn á að vera keppni þar sem ungir leikmenn og bekkjarsetumenn fá tækifæri til að sýna sig og sanna og breidd hópsins er nýtt til hins ítrasta. Ef að stutt fer að verða í úrslitaleikinn þá er um að gera að senda okkar öflugustu menn til leiks og freista þess að landa einum bikar meira í safnið. Fátt er skemmtilegra fyrir áhangendur en að komast í hátíðlega stund á Wembley og vonandi hefst það á þessu tímabili (7,9,13). En til þess þarf fyrst að hita upp!

Mótherjinn

Chelsea hefur unnið deildarbikarinn næst oftast í sögu keppninnar eða 5 sinnum og deilir því sæti með Aston Villa, Man City og Man Utd. Þrír af þessum 5 deildarbikartitlum komu undir José Mourinho sem lagði mikla áherslu á að landa bikarnum til að byggja upp sigurhefð innan liðsins og segja má  í ljósi sögunnar að það hafi svínvirkað. Í einum af þeim úrslitaleikjum sem Mourinho vann þá varð Liverpool fórnarlamb Chelsea í framlengdum leik og 3-2 tapi árið 2005. Sælla minninga þá hefndum við ófaranna gegn þeim í undanúrslitum CL sama ár með draugamarki og stráðum salti í sárin með kraftaverkinu í Istanbúl. Á þessum árum var sem Liverpool væri alltaf að mæta Chelsea í öllum keppnum og var komin ansi mikil bardagaþreyta í þau einvígi. Þrátt fyrir þau þrátefli hefur Liverpool bara mætt Chelsea 7 sinnum í heildina í deildarbikarnum og síðast í undanúrslitum árið 2015 í leikjum heima og heiman en þar höfðu bláliðar betur í framlengingu og hömpuðu bikarnum eftir úrslitaleik gegn Tottenham. Úrslit þessara 7 deildarbikarleikja milli liðanna skiptast hnífjafnt með 3 sigra á hvort lið og eitt jafntefli til viðbótar.

Áhugaverðasta breytan í samhengi þessa einvígis er auðvitað sú umtalaða staðreynd að liðin eru að fara að mætast aftur í deildinni á Stamford Bridge núna um næstu helgi. Chelsea tapaði stigum í jafntefli gegn West Ham síðasta sunnudag og sýndu það að Evrópudeildar-þynnkan gæti orðið vandamál hjá þeim þegar að líður á tímabilið. Leikurinn var spilaður degi eftir sigurleik Liverpool gegn Southampton og þeir þurfa að mæta á útileik í deildarbikarnum þannig að ekki er óeðlilegt að álykta Chelsea muni rótera hraustlega og taka sénsinn á B-liðsuppstillingu. Það er þó ekki alveg gefið því að auðvitað er einnig ákveðinn sálfræðisigur í boði fyrir uppgjör tveggja toppliða í deildinni síðdegis á laugardaginn kemur.

En Chelsea eru klárlega ekki að fara að spila Hazard frá upphafi í leiks og mun meiri líkur eru á að einkavinur LFC og Sigursteins sérstaklega, herra Ross Barkley, spili í staðinn ásamt ýmsu samansafni af kjúklingum og varamönnum. Einnig er von á fyrrum Púlaranum Victor Moses í byrjunarliði andstæðinganna sem og Willy Caballero sem var okkur óþægur ljár í þúfu í vítaspyrnukeppni úrslitaleiksins við Man City árið 2015. Talandi um vítaspyrnukeppni þá má því bæta við að hún verður beint í framhaldi af venjulegum leiktíma ef að leikar standa jafnir og verður ABBA-fyrirkomulagið notað með lagið “The winner takes it all” á fóninum.

Að öllu ofangreindu er mín spá um uppstillingu Chelsea eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Chelsea í leikkerfinu 4-3-3

Liverpool

Liverpool hefur að sjálfsögðu unnið deildarbikarinn langoftast eða 8 sinnum og væri ágætt að bæta ögn í það forskot til að halda öðrum liðum í hæfilegri fjarlægð. Að því sögðu þá ætti þetta að vera kærkomið tækifæri til þess að gefa þeim leikmönnum séns sem hafa lítið eða jafnvel ekkert spilað í byrjun tímabils. Liverpool hefur sjaldan haft jafn mikla breidd í hópnum og einhvern tímann verða jaðarmennirnir að fá sín tækifæri til blómstra. Klopp mun hugsanlega ljóstra upp einhverju um meiðslastöðu og sinn þankagang á blaðamannafundinum um hádegisbil en fram að þeim tíma þá verðum við að gerast gáfulegir og gægjast í kristalskúluna.

Í framlínunni ætti Daniel Sturridge að fá sénsinn eftir flottan leik og mark gegn PSG í CL í síðustu viku. Einnig ætti að Shaqiri að byrja eftir að hafa átt einn öflugasta fyrri hálfleik sem endaði með meiðslalausri útafskiptingu í hálfleik í sögu fótboltans! Klopp skuldar honum smá klapp á bakið og ég geri ráð fyrir að hann taki allar auka- og hornspyrnur leiksins enda besti spyrnumaður liðsins í föstum leikatriðum að mínu mati. Til að fylla sóknartríóið þá ætla ég að giska á að Origi eða Solanke fái sénsinn ef þeir eru á annað borð leikfærir en stórstjörnurnar Mané, Firmino og Salah verði til taks á bekknum ef á þarf að halda.

Á miðjunni hlýtur Fabinho að fá sinn fyrsta byrjunarliðsleik eftir góðan aðlögunartíma og með því fær Klopp tækifæri til að athuga hvort hann sé kominn í takt við sitt leikskipulag og kerfi. Keita hefur spilað minna í síðustu leikjum eftir að byrja leiktíðina vel og hlýtur að fá þennan leik til að spreyta sig. Í ljósi þess að Milner spilaði bara einn hálfleik um helgina þá spái ég því að hann verði reynsluboltinn með þeim Fabinho og Keita til að halda þéttleika og skipulagi á miðjunni ásamt sínu 12-13 kílómetra framlagi.

Vörnin verður væntanlega með Matip og Gomez í hjarta varnarinnar í ljósi meiðsla VVD og líklega verður Lovren ekki orðinn klár í þennan leik þó hann sé byrjaður að æfa eðlilega að nýju. Bakverðirnir Clyne og Moreno hafa beðið þolinmóðir á hliðarlínunni meðan að TAA og Robertson hafa brillerað en ættu að hljóta náð fyrir augum herr Jürgen að þessu sinni. Síðast en ekki síst þá er líklegt að Mignolet mæti í markið ef markvarðamynstur síðustu ára í bikarkeppnum er eitthvað að marka. Eina spurningamerkið við það er hvort að það sem Símon sagði um sín sölumál sé nægileg synd til að Klopp kenni honum lexíu en honum var kurteislega tjáð að viðra ekki slíkar vangaveltur opinberlega í framtíðinni. Mamadou Sakho ætti að geta upplýst Mignolet um að það sé ekki til eftirbreytni að storka stjóranum um of.

Liðsuppstilling Liverpool gæti því litið út eitthvað á þessa leið:

Uppfært eftir blaðamannafund Klopp í hádeginu: Stjórinn staðfestir að Simon Mignolet muni standa á milli stanganna en var að öðru leyti dulur á áform sín um breytingar á liðinu frá síðasta leik og vildi í raun ekkert gefa upp um sín plön.  Lagði áherslu á að ekki yrði ljóst fyrr en á morgun hvaða hóp Chelsea myndi taka með sér á útileikinn og því vildi hann ekki sýna sín spil að neinu öðru leyti en að Mignolet verði í markinu.

Hann upplýsti að Dejan Lovren hefði náð fjórum æfingum með liðinu og væri tilbúinn til að spila, en hvort að svo verði í þessum leik kemur í ljós. Það er eflaust freistandi að nota þennan leik til að spila Lovren í form en ég ætla að halda mig við fyrri spá um hafsenta. Divock Origi er hins vegar of tæpur af sínum ökklameiðslum og verður ekki orðinn heill fyrr en í næstu viku og sama gildir um Lallana sem er byrjaður í léttum æfingum með liðinu en ekki kominn á fullt skrið. Hins vegar er Dominic Solanke fullfrískur og ég ætla því að leyfa mér að skipta á honum inná í minni liðsuppstillingu fyrir hinn meidda Origi.

Klopp var bráðskemmtilegur á blaðamannafundinum að vanda og var spurður um Mario Götze og fleira áhugavert. Vel þess virði að horfa á og hér er blaðamannafundurinn í heild sinni (byrjar eftir u.þ.b. 10 mínútur).

Spakra manna spádómur

Generalprufan fyrir uppgjörið um næstu helgi verður með líflegasta móti. Margir leikmenn í báðum liðum sem munu vilja sýna sig og sanna og eru óþreyttir til slíkra dáða eftir mikinn hvíldartíma það sem af er leiktíðinni. Þá verður taktískur bardagi milli Klopp og Sarri ekki síður áhugaverður en spurning er hvort að Sarri þori sömu sókndirfsku og hefur einkennt byrjun hans með Chelsea. Anfield verður faktor í útkomunni og í ljósi frábærrar byrjunar á leiktíðinni og því hver andstæðingurinn er þá heimta ég hámarks hávaða og stemmningu á heimavelli til að hræða úr þeim líftóruna. Þetta er óvenju gott tækifæri til að gefa skæðum keppinaut sálfræðilegt glóðarauga og ég spái því að okkar menn gefi þeim góðan gúmorren með 3-1 sigri. Mörkin munu koma frá Shaqiri, Sturridge og Keita og fögnin verða til fyrirmyndar.

YNWA

26 Comments

  1. Mane Firmino Salah
    Wijnaldum Hendo Can
    Moreno Lovren Matip TAA
    Mignolet

    Upphafsliðið í byrjun síðasta timabils. Skipta inn Sturridge, Shaquiri, Fabinho og Clyne. Það er litið síðra lið, eða ekki síðra..! Amk. nóg til að vinna bikarleik.

  2. Langt síðan ég hef verið svona spenntur fyrir litlabikarsleik. Að sjá Fabinho, Keita og Shaqiri saman á vellinum ásamt (mögulega) upprisnum Sturridge er meira en nóg til að draga mig að skjánum.

    Roðflettum Chelsea, 4-1

  3. Sælir félagar

    Ég held að þetta sé rétt uppstilling hjá Magnúsi nema að ef Lovren er farinn að æfa eðlilega þá kemur hann inn fyrir Gomes í byrjunarliðið. Það verður ekkert nema skemmtun að horfa á þennan leik hvernig sem fer og hvernig sem liðunum verður stillt upp.

    Það er líka þannig að Klopp vill nýta öll tækifæri til titlasöfnunar og þetta er eitt þeirra svo hver veit? Samt held ég að sé á hreinu að hvorugur stjóranna vill sýna á spilin sem þeir ætla að spila á í deildarleiknum svo þetta verður eins konar gægjugat fyrir þann leik.

    Byrjunarliðsmenn í þessum leik munu sumir hverjir ekki byrja í deildarleiknum. Áhugasamir munu því nota þennan leik til að geta sér til um hverjir spili deildarleikinn sem verður einn af 8 úrslitaleikjum deildarinnar. Einn þeirra er búinn (T’ham Liv) með sigri okkar manna og það þarf að gerast aftur. Ef við ætlum að vinna deildina þurfum við að vinna þessa leiki á heimavelli og gera amk. jafntefli á útivelli.

    Það er nú þannig

    YNWA

  4. Takk fyrir flotta upphitun.

    Mér finnst við mega alveg fara dýpra í yngri kynslóðina til að nota í þessum leik.
    Camacho, Curtis Jones og Nathaniel Phillips koma þá efst í hugann. Finnst þessi leikur, þó mikilvægur sé síðri en deildarleikurinn sem kemur á eftir.

  5. Ég vil sjá varaliðið eins og það leggur sig til að spila þennan leik en sleppa með öllu að spila leikmönnum sem eru tæpir. Breiddin er það mikil að það ætti að vera hægt að stilla upp leikmönnum sem hafa verið að spila lítið undanfarið. Það er ótrúlegt að hugsa sér að varliðið gæti verið svona ef þessir menn eru heilir.

    Solanke- Sturridge- Shaqiri.
    Keita- Fabinho- Lallana
    Moreno- Lovren – Matip- Clyne
    Mignolet.

    Að þetta sé varalið Liverpool er hálf óraunverulegt í samanburði við þá breidd sem var hjá Liverpool fyrir um 3-4 árum síðan. Þetta er lið sem væri líklega í topp 10 baráttunni á Englandi og ef varaliðinu gengur vel, þá fær það að spila alla leiki fram að úrslitaleik. Það verður að gera þetta til að dreifa leikjaálagi og til þess að halda mönnum á tánum. Meistaradeildin og deildin eru mikilvægustu titlarnir.

  6. Það er í raun bara leikur að stilla upp liði fyrirfram af okkur sófaspekingum, en örugglega verða þarna obbinn af þeim sem hafa verið taldir upp. En pottþétt, þar sem bæði lið eiga erfiðan deildarleik um helgina, ss sömu lið, þá fara Klopp og Sarri nokkuð varfærnislega í þennan leik hvað mannaval varðar, það er næsta víst. En standi spáin um leikmenn, þá gæti þessi leikur samt orðið hin mesta skemmtun. Hvað sem verður, þá fer 3-1.

    YNWA

  7. Tek undir með Sigga #4 um ungu leikmennina.

    Vil gjarnan sjá amk. Curtis Jones í liðinu.

  8. Það er klárt að Mignolet verði í markinu.
    En ég vona að hann gefi ansi mörgum sénsinn á morgun.
    Væri til i þetta lið.

    —————Mignolet
    Clyne—Matip—Gomez—Moreno
    —Keita—–Fabinho—–Milner
    —Shaqiri—Sturridge—Mane

    Þetta er mjög sterkt lið og gefur ansi mörgum langþráð tækifæri á að sýna sig.

  9. Harry Wilson sem er á láni hjá Derby frá okkur var að skoða GEÐVEIKT aukaspyrnumark gegn Man utd 🙂

  10. Þvílíkur gullmoli sem við eigum í Wilson. Það var svo ekki leiðinlegt að gamla Liverpool kempan Scott Carson (Reyndar ekki nema 33 ára) sá um að klára United sem stillti upp nánast sínu sterkasta liði í kvöld.

  11. Ok, á persónulegum nótum Magnús þá er þetta þín besta umfjöllun sem ég hef lesið.

    En úff, þú ert samt allt of róttækur fyrir minn smekk :-), það eina sem ég væri til að prófa í þessum leik með miðju og framlínu væri samstarf Keita og Sturridge +/- Shaqiri dansandi í kringum þá (sem hann á reyndar virkilega skilið). Þetta er jú Chelsea og það vill til að þeir sitja í 2-3 sæti í alvörunni.

    Í vörninni vil ég í mesta lagi sjá bara eina breytingu frá bestu uppstillingu í boði. Þetta er jú Chelsea eins og áður sagði.

  12. #16 Það hlýtur að vera, eftir gærkvöldið má segja um hann: mission accomplished 🙂

  13. Hvernig er annars staðan á Lallana kallinum er hann orðinn leikfær ? En annars er ég þvílíkt spenntur að sjá Fabinho og vona innilega að hann fái að byrja þennan leik.

  14. Nr. 19
    Þetta segir í færslunni:

    Divock Origi er hins vegar of tæpur af sínum ökklameiðslum og verður ekki orðinn heill fyrr en í næstu viku og sama gildir um Lallana sem er byrjaður í léttum æfingum með liðinu en ekki kominn á fullt skrið.

  15. Ég er alveg rólegur yfir þessari keppni þótt ég vilji auðvitað vinna hana eins og allar aðrar keppni, það eru tvær ástæður af hverju ég vill vinna þennan leik, önnur er sú að ég vill vinna bara hvaða dollu sem er til að koma mönnum á bragðið og leyfa þeim að kynnast því að vinna Dollu og væri fínt að byrja á þessari í febrúar sem kemur mönnum vonandi á bragðið til að vinna aðra keppni í maí deildina eða meistara deildina en hin ástæðan er sú að ég vil halda áfram að safna sigrum í röð þar sem núna höfum við unnið alla 7 keppnis leikina á þessu tímabili.

    Klopp mun klárlega gera margar breytingar sem er fullkomlega eðlilegt sérstaklega þar sem við spilum aftur gegn Chelsea á laugardaginn í deildinni. En eins og margir hér að ofan segja þá er alltilagi þótt Klopp geri margar breytingar því breiddin er mikil og klárt að liðið verður samt sem áður sterkt og mjög hungrað því þeir leikmenn sem spila i kvöld vilja sanna sig til þess að fá fleiri mínútur á næstunni. Verður gaman að sjá menn eins og Sturridge, Shaqiri og vonandi Fabinho og Clyne. Ég átti von á því fyrir tímabilið að Clyne fengi slatta af leikjum og myndi jafnvel spila haug af leikjum á móti Arnold eins og Gomez og Arnold gerðu í fyrra en þá voru þeir að skipta þessu Soldið á milli sín en nei nei Arnold bara alveg búin að eigna sér þessa stöðu og svo sem á það alveg skilið en Clyne átti þessa stöðu fyrir meiðslin sín, spilaði alltaf hverja einustu mínútu og var í landsliðinu. Clyne var nánast okkar stoðugasti leikmaður fyrir þessi meiðsli sem héldu honum frá allt síðasta tímabil. Clyne neflilega var aldrei meiddur , spilaði alltaf allar mínútur, var aldrei slakur og aldrei frábær heldur meira bara alltaf góður og rosalega stoðugur í sínum leik. Vonandi fáum við að sjá meira af Clyne á næstunni því hann er mjög góður leikmaður og enn besta aldri.

    En allavega ég er spenntur fyrir þessum leik og hlakka til að sjá þá leikmenn sem við höfum minna séð af í vetur og vonandi mæta þeir glorhungraðir og æstir i að sanna sig og vinna leikinn.

    Ég spai 3-1 .. Shaqiri, Sturridge og Milner úr viti.

  16. Er einhver sem getur frætt mig um þetta fimmu fagn sem Harry Wilson henti í í gær. Fyrir hva? stendur þetta?

  17. Frabaer upphitun. Jafnvel betri heldur en ad fara inn a fotbolti.net og sja Mourinho missa high five vid pogba. Vinnum Chelsea og Moreno vinur minn setur i eina neglu hann a tad skilid.

  18. Nr 22. Hann var bara að minna man u hvað við værum búnir að vinna meistaradeildina oft.

  19. Væri til i þetta lið.

    —————Mignolet
    Clyne—Matip—Gomez—Moreno
    —Keita—–Fabinho—–Milner
    —Shaqiri—Sturridge—Mane

    Þetta er mjög sterkt lið og gefur ansi mörgum langþráð tækifæri á að sýna

    Var með allt rétt nema Lovren

  20. @Siggi Garðars #4
    @KingKenny #15
    @Dude #18

    Kærar þakkir fyrir hrósið 🙂

    Beardsley

    YNWA

Kvennaliðið heimsækir Brighton

Gullkastið – “Van Dijk gæti gert Moreno að miðverði”