Liverpool 5-0 Watford

1-0 Mané (9 mínútu)

2-0 Mané (20. mínútu)

3-0 Origi (66. mínútu)

4-0 Van Dijk (79. mínútu)

5-0 Van Dijk (82. mínútu)

Það voru margir óttaslegnir þegar liðsuppstillingin var opinberuð í dag og kvörtuðu undan sköpunarleysi en leikmenn liðsins voru greinilega búnir að fá sig fullsadda af markaleysi síðustu leikja og mættu af fullum krafti í þennan leik. Við komumst yfir eftir aðeins níu mínútna leik þegar Trent átti góða fyrirgjöf inn í teiginn þar sem Sadio Mané stökk manna hæst og stangaði boltan í netið. Ellefu mínútum voru svo sömu menn aftur á ferð en Trent stakk boltanum inn á Mané sem hefði verið kominn einn á móti markmanni en fyrsta snertingin sveik hann og hann missti boltan í burtu frá markinu. Hann lét það ekki á sig fá, heldur stökk han á eftir boltanum með Foster í bakinu og lyfti boltanum yfir hann með fallegri hælspyrnu og kom liðinu í 2-0. Masina, vinstri bakvörður Watford, átti mjög erfiðan fyrri hálfleik en Mo Salah lék sér að honum á tímum og var nokkrum sinnum nálægt því að bæta í forustuna en því miður tókst það ekki og endaði því fyrri hálfleikur 2-0 fyrir Liverpool.

Það tók Liverpool síðan tuttugu mínútur að skora í seinni hálfleik. Divok Origi fékk þá boltan rétt vinstra megin við vítateiginn og tók á rás inn á teig með þrjá varnarmenn fyrir framan sig en enginn þeirra virtist vilja mæta honum svo hann hlóð bara í skot og hamraði boltanum á nærstöngina og gerði nánast út um leikinn. Besta tækifæri Watford manna kom næst og var það frekar líkt marki Leicester í 1-1 jafntefli liðanna fyrir nokkrum vikum. Robertson gerðist brotlegur úti á kanti fyrirgjöfin var hreinsuð en Masina skallaði boltan aftur inn á teig þegar varnarlína Liverpool var að pressa út en Trent spilaði André Grey réttstæðan en Alisson varði boltan aftur fyrir.

Til að toppa allt þá náðið liðið einnig að vera hættulegt úr föstum leikatriðum því á 79. mínútu var brotið á Adam Lallana og Trent tók aukaspyrnunna beint á ennið á Virgil Van Dijk sem stýrði boltanum í netið. Mark sem maður bjóst við að sjá reglulega þegar Van Dijk samdi við liðið en föstu leikatriðin ekki verið upp á marga fiska til þessa. Nokkrum mínútum síðar áttum við aðra aukaspyrnu sem fór ekki alveg jafnvel en náðum að endurheimta boltan og koma honum á Robertson sem kom með aðra fyrirgjöf sem Virgil Van Dijk skallaði í netið og kláraði markaskorun Liverpool í leiknum.

Bestu menn Liverpool

Úff, oft hefur verið auðveldara að velja en ég fagna því þegar flest allir geta gert eitthvað tilkall til þess að vera maður leiksins. Mané virtist ætla að heimta þennan titill þegar hann setti fyrstu tvö mörk leiksins og leit mjög vel út spilandi sem fremsti maður, Mo Salah vaknaði til lífsins eftir tvo dapra leiki, Van Dijk setti tvö mörk og hélt Troy Deeney alveg niðri, Fabinho var mjög öflugur á miðjunni en maður leiksins hlýtur að vera Trent Alexander-Arnold sem lagði upp þrjú af fimm mörkum liðsins og var yngsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar til að leggja upp þrjú mörk í sama leiknum. Ótrúlegt hvað drengurinn er orðinn öflugur!

Slæmur dagur

Þá kannski helst Masina sem átti mjög erfiðan dag gegn Liverpool en ef ég þyrfti að velja okkar megin þá yrði það líklega Daniel Sturridge sem var líklegast að missa af öllum möguleikum á mínútum með góðri frammistöðu Origi í dag.

Umræðupunktar

  • Mörk, mörk og aftur mörk, það er bara svo miklu skemmtilegra að horfa á fótboltaleiki þar sem mörk eru skoruð og mjög jákvætt að sjá Mané og Salah aftur svona spræka
  • Trent að sýna hvað hann er öflugur, vona að það hafi verið vegna meiðslanna sem hann var á bekknum um síðustu helgi.
  • Tottenham tapaði enn og aftur í dag og sagði að öllum líkindum bless við titilbaráttuna
  • City náði að leggja West Ham af velli 1-0 úr vítaspyrnu. Fótbotlinn er gullfiskur og allt í einu, eftir alla dómsdagaspár síðustu daga erum við in-form liðið í titilbaráttunni.

Næst mætum við grönnum okkar í Everton á sunnudaginn. Þeir náðu loks að spyrna við í gær og unnu Cardiff 3-0, það er einmitt liðið sem Watford gekk frá um síðustu helgi svo vonandi sjáum við Liverpool liðið sem mætti í dag á Guttagarði á sunnudaginn!

33 Comments

  1. Þess má geta að bakverðir Liverpool áttu 5 stoðsendingar í þessum leik.

  2. Sælir félagar

    Allt annað lið og enginn Sólskerjamóri til að pakka í Móríska vörn. Framganga Liverpool leikmanna var allt önnur en í síðasta leik og það var gott. Að vísu var andstæðingurinn heldur lakari varnarlega en MU en það segir ekki alla söguna. Leikmenn okkar léku af allt annari ákefð og sigurvilja en á móti síðasta andstæðing enda vissu þeir að sigur og ekkert annað en sigur mundi halda þeim í baráttunni. Yfirburðir liðsins voru algerir og að leggja svona mikinn mannskap á Salah losaði um Mané sem þakkaði fyrir sig. Algerir yfirburðir á öllum sviðum fótboltans.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  3. Við þurftum á þessu á halda. Bömmer að dómarinn ákvað að hjálpa City í kvöld fáránlega ódýr vítaspyrna sem þeir fengu.

  4. Langt síðan maður sá þetta Liverpool lið, sungið frá fyrstu mínútu líka. Frabær leikur og frábær liðsheild. Og takk islogi fyrir linkinn.

  5. STÓRkostlegur sigur í kvöld og ef þetta kveikir ekki upp í mannskapnum, þá veit ég ekki hvað.

    Spurs eru sprungnir eftir tvö töp í röð á einni viku, ekki græt ég það. Þreyttir Chitty þurftu, því miður, að fá þetta veika víti til að brjóta wh niður. Núna er það everton úti og ég er að segja það, mér verður hálfóglatt yfir leikjunum núna, slíkt er spennustigið hjá manni.

    Ef við höldum mannskapnum meiðslalausum þá getum við þetta, þetta er í okkar höndum!

  6. Trent maður leiksins besti ungi hægri bakvörður í heimi gæti orðið besti. Hann er orðinn einn mikilvægasti leikmaður okkar! Í vetur eru við að fá 1 stig meira að meðaltali í leik þegar hann spilar. Skora 2 sinnum fleiri mörk og fáum helmingi færri á okkur. Ég ætla ganga svo langt að segja að við hefðum unnið united 2-3 núll hefði hann spilað. Fook shitty við erum Liverpool

  7. Gleymum líka ekki að Watford voru í 7. sæti fyrir leikinn, þ.e. “best of the rest”, höfðu verið á fínni siglingu, og unnu m.a. Everton 1-0 í þarsíðasta leik. Það var því ekkert sjálfsagt mál að brjóta þetta lið niður.

    Manni sýnist ljóst eftir þennan leik hve Trent er liðinu mikilvægur. Það er lítil ógn sem kemur af miðjunni, jú eitt mark frá Wijnaldum á móti Bournemouth, en annars hefur verið lítið að frétta þaðan upp á síðkastið. En þegar Trent (og Andy) eru í stuði eins og í þessum leik, þá getum við sagt að hálft liðið séu sóknarmenn.

    Einn leikur í einu. Þessi búinn. Everton næst.

  8. Mig langar að velja Arnold mann leiksins bara vegna þess að hann átti geggjaðar sendingar í þessum leik, en Virgil,Matip, Mané og hélt að ég myndi ekki segja þetta Origi Vá Vá hvað var liðið að fá sér í vikuni það hlýtur bara vera eitthvað ólöglegt.

    þangað til næst YNWA.

    1
  9. Við skoruðum mark og þeir ætluðu að færa sig framar og var refsað með fjórum mörkum í viðbót.
    Við þurftum á svona markaveislu á að halda og á meðan þá vann Man City á vafasamri víti en við verðum bara að halda okkar striki.
    10 leikir eftir og Everton úti er næsta verkefni og væri helvíti gaman að geta klárað þann leik með 3 stigum en maður var búinn að horfa á þetta Man utd úti,Watford heima og Everton úti sem algjöra úrslitaþrennu um hvort að við ætlum að vera með í þessari baráttu allt til enda.

    YNWA

  10. Þetta var rosalega vel spilaður leikur, Fabinho var geggjaður á miðjunni og er orðinn okkar mikilvægasti miðjumaður.
    Trent Alexander með 3 sleggjur í teiginn sem skiluðu mörkum, og Mane og Van Dijk með 2 mörk hvor. Núna eru 10 úrslitaleikir eftir

  11. Við skulum hafa það í huga að næsti “útileikur” er innan við “frekar stuttu” göngufæri frá öllum heimaleikjum.

    Áfram Liverpool!!

  12. Geggjaður leikur, Virgil, Fabinho, Mane og Trent allir menn leiksins.

  13. Takk fyrir gott fólk!

    The brilliant @trentaa98 tonight became the youngest player ever at 20 years and 143 days to get 3 assists in a Premier League game.

  14. Ástæða til að hrósa Origi fyrir leikinn í kvöld. Þetta er strákur með rosalegan hraða og styrk. Held að Klopp eigi að breyta honum í monster, það er ef hann vill það sjálfur og ef hann helst heill. Og já Virgil er bara eitthvað freak……

  15. Frábær leikur. Tek undir með þeim sem lofa Origi, þótt Maggi sé ósammála okkur.

  16. Þetta var bara taktískt masterclass hjá Klopp í kvöld. Setur Origi á vinstri kant og Mané hungraðan uppá topp. Origi sprækur og Mané sýndi Firmino hvernig á að spila af aftasta varnarmanni. Var rosalega agressívur og með frábærar tímasetningar trekk í trekk. Það verður bara að segjast að Firmino má fara að taka sig vel á sóknarlega. Búinn að eiga frekar slakt season. Þessir vitringar fengu svo að éta nokkra sokka eftir leik. Sívaxandi hópur þessir sófaspekingar. https://www.caughtoffside.com/2019/02/27/there-goes-the-league-these-liverpool-fans-react-to-lineup-vs-watford-divock-origi-surprise-replacement-for-roberto-firmino/

    Annars bara skildi ég ekki afhverju Alexander Trent Arnold var ekki hent inná gegn Man Utd þegar Milner var á gulu spjaldi og Rashford spilandi í göngugrind. Liverpool er hálf óstöðvandi þegar það kemur hætta af báðum vængjum og stöðug hreyfing á liðinu. Við þurfum þessa dýnamík frá bakvörðunum til að þessi miðja virki. Í kvöld var þetta alveg stórkostlegt og Fabinho eins og kóngur í ríki sínu. Ekkert smá sem hann er að stíga upp núna. Ef Joe Gomez nær fyrri styrk í miðverðinum og Naby Keita kemur sterkur upp í lok tímabilsins tengjandi miðju og sókn þá eru verulegir möguleikar að við getum orðið Englandsmeistarar og farið langt í Meistardeildinni. Djöfull yrði það geggjað!
    Frábær sigur fyrir móralinn og nauðsynlegt fyrir útileik gegn Everton á sunnudag. Síðasti mögulega erfiði útileikurinn, Chelsea og Tottenham að brotna og svo leikir gegn miðjumoðs liðum. Við sýndum í kvöld að við getum unnið þá leiki auðveldlega.

    Ég trúi. Áfram Liverpool.

  17. Mikið rosalega söknuðum við Trent Arnold á móti Man U. Annars allir leikmenn Liverpool frábærir í þessum leik, nema Robertson, Milner og Origi, sem áttu þó sína góðu spretti. Já, enn einn markaleikurinn án Henderson.

  18. Frábær skemmtun frá upphafi til enda. Takk fyrir það. Svo tróð Origi sokk oní vælukjóaliðið sem röflar fyrir alla leiki Liverpool. Hraður, sterkur og hefur alla burði til að verða framtíðar máttarstólpi.

  19. Sæl og blessuð.

    1. Magnaður sigur.
    2. Glæpur gegn mannkyni að hafa ekki TAA á móti Mu.
    3. Eigum tak á Watford. Vonandi læra ekki hin liðin af þeim.
    4. Everton verður þungur enda liðið með marga öfluga leikmenn og áhorfendur eiga eftir að garga úr sér lungun.
    5. Origi rauk upp vinsældarlistann hjá mér.

  20. Mikið er ég glaður að sjá að Liverpool er mætt aftur til leiks. Ég var mjög neikvæður eftir leikinn við United og ekki af ósekju eins og margir gátu lesið úr mínum skrifum. Þetta var í fyrsta skipti sem ég var svo neikvæður hér á síðunni. Var sár eftir leikinn og fékk útrás fyrir tilfinningar. Ég hefði átt að anda djúpt og ekki skrifa neitt í hugaræsing strax eftir leik. Ég spurði spurninga af hverju liðið væri svo máttlaust sóknarlega og væri fyrirmunað að geta skorað mörk ss leikirnir við Bayern og United báru vitni um. Svörin fengum við í kvöld. Þetta liggur í liðsuppstillingunni einkum á miðjunni og hjá bakvörðunum. Þessi leikur sýnir okkur hversu Trend Alexander er mikilvægur liðinu og hversu mikið við höfum saknað hans í undanförnum leikjum. Fabinho sýndi einnig í þessum leik hversu öflugur hann er og að hann á heima á miðjunni ekki í vörninni eins og í þeim leikjum sem hann hefur spilað að undanförnu. Allt annað að sjá til Robertsonar sem nú spilaði boltanum fram á við en ekki þessar eilífu sendingar til hliðar og aftur á völlinn. Þegar varnarmennirnir eru ákafir eins og í þessum leik með með hjálp frá miðjunni verður dýnamíkin í sóknarleiknum allt önnur og óvæntir hlutir gerast í markteignum og tækifæri til að skora mörk skapast. Þá blómstra sóknarmennirnir og mörkin verða til. Leikur Liverpool í síðustu leikjum hefur verið svo rosalega fyrirsjáanlegur. Bæði United og Bayern spiluðu af ásettu ráði varnarsinnað til að kæfa sóknarleik Liverpool í fæðingu og óvænt marktækifæri sköpuðust ekki. X faktorin er Trent . Það var unun að horfa á strákinn í gær. Hvernig hann vippaði bollanum yfir varnarmennina beint á sóknarmenn okkar aftur og aftur. Heimsklassi. Ég get vart beðið að Gomez verði leikfær því hann er álíka mikilvægur liðinu og Trent. Við erum bara búnir að gleyma hversu vel hann spilaði og var liðunu mikilvægur vikurnar áður en hann slasaðist. Við unnum alla leki í desember með hann í vörninni. Ekkert slæmt um Matip en hann er mörgum klössum neðar. Einnig mun endurkoma Alex Oxlade Chamberlain hjálpa liðinu að leika þann sóknarbolta sem liðið sýndi i gærkvöldi. Mig langar mig að hrósa VVD. Þvílíkur leikmaður. Ég er búinn að fylgjast með Liverpool í 50 ár. Ég man ekki eftir einum einasta leikmanni sem hefur haft eins mikil áhrif á leik Liverpool til hins betra . Annar heimsklassi. Sennilega bestu kaup Liverpool á síðari “ever”. Að lokum kemst ég ekki hjá því að nefna Alisson. Næst á eftir VVD er þetta sá leikmaður sem hefur breytt leik Liverpool til hins betra. Hann er eitthvað svo ótrúlega yfirvegaður í öllum sínum athöfnum og geislar af sjálfsöryggi sem smitar út í liðið með heimsklassa vörslum nánast í hverjum leik. Eitthvað sem aðdáendur Liverpool hafa ekki átt að verjast síðan á dögum Pepe. Enn einn heimsklassi. Það er bjart framundan og Liverpool spilar alltaf best á vormánuðum. Megi þeir landa Englandsmeistaratitlinum í vor !

  21. Sælir félagar

    Það er alveg rétt sem margir segja hér að ofan að Origi stóð sig vel í þessum leik og var fyrst og fremst kraftur hans, áræðni og hraði sem gerði útslagið og svo auðvitað markið hans. Ég er nú samt sammála Magga með að Origi er ekki góður í fótbolta og það hefur hann sýnt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. það er ekki því að kenna að hann hafi ekki viljann, því hann hefur nóg af honum en hausinn er bara ekki alveg nógu góður.

    Firmino er að mínu mati besti fótboltamaður liðsins ásamt Salah og VvD. Það breytir því ekki að frammistaða Mané var frábær en mér finnst anzi margir skauta yfir frammistöðu Salah í leiknum. Hann var stöðugt ógnandi og dró til sín 1 -3 varnarmenn hvað eftir annað enda ræður enginn einn varnarmaður við hann í þessum ham. Það hefði verið gaman að sjá Shaw eiga við hann í þessu stuði og með TAA með sér á kantinum. Þá hefði sá leikur farið öðruvísi.

    Annars fannst mér allir spila vel í þessum leik en hefði samt viljað sjá Shaqiri koma inn og fá svolítið sjálfstraust í því að koma inná í svona leik. Hendo var allt í lagi og var líklega settur inn til að slá á aulakjaftæðið um leiðindi milli hans og Klopp. Annars fannst mér uppsetning Klopp á leiknum mjög góð og Watford átti ekki breik allan leikinn þó þeir hafi átt þessi slöppu skot í seinni sem Alisson át.

    Það er nú þannig

    YNWA

  22. Frábær sigur. Allt gekk upp sem fyrir var lagt enda allir að spila vel eða frábærlega. Betra hugarfar en gegn MU. Auðvitað var TAA frábær en sé ekki endilega að hann hefði gert einhvern gæfumunin gegn eyðileggingarstefnu MU. Held að núna geti komið jafnvægi á liðið sem þarf fyrir næsta leik sem verður miklu, miklu erfiðari en þessi. Slæmt að hafa ekki Firmino fyrir þann leik en Origi var bara allt í lagi svo sennilega heldur hann sæti sínu. Hendó kemur ábyggilega aftur inn nema Klopp hafi hann áfram á bekknum og sendi hann inn eins og núna. Held að styttist mjög í að Hendó missi fyrirliðabandið, sérstaklega ef hann er ekki lengur öruggur í fyrstu 11 og tekur ekki í hendina á stjóranum. Matip er nánast óaðfinnanlegur við hlið VvD svo ómeiddir Lovren verður að verma bekkinn. Mane er búinn að vera frískastur sóknarmannanna upp á síðkastið og ef hann nýtir færin eins og bestu senterar gera verður hann óstöðvandi.

  23. Verð bara að gleðjast þarna er hevý metal fótboltinn sem ég elska meira svona 🙂

  24. Origi var frábær í þessum leik og hann hélt breiddinni vel og sama hinu megin var Sala sem hélt sig úti. Sem skapaði mikið pláss fyrir Mane í teignum og við fórum í upp kantana en ekki í gegnum miðjuna sem við gerum svo mikið.

Byrjunarliðið gegn Watford

Upphitun: Heimsókn til Gylfa og félaga!