Upphitun: Titilslagur á Anfield

Það verður gríðarlega mikið undir á sunnudaginn þegar hinir himinnbláu Manchester City-liðar mæta til leiks á Anfield. Líkt og allir sem þessa síðu lesa vita unnu þeir einvígi liðanna um Englandsmeistaratitilinn í fyrra með eins stigs mun og réðst sú rimma í innbyrgðis einvígum liðanna þar sem Man City unnu á heimavelli og gerðu jafntefli á Anfield. Það er ekkert annað í kortunum en að deildin í ár verði aftur kapphlaup milli þessara tveggja liða og því gríðarlega mikilvægt að ná úrslitum á sunnudaginn.

Flestir muna eftir atvikinu á Etihad í fyrra þegar Sadio Mané var 11 millimetrum frá því að koma boltanum yfir línuna og ef það hefði verið eina breytingin á síðasta tímabili hefði það dugað til að koma boltanum á Anfield. Auðvitað aldrei hægt að segja svona þar sem það er aldrei að vita hvernig liðin hefðu brugðist við markinu og mikið eftir af tímabilinu á þessari stundu en þetta sýnir kannski hversu mikið er undir í þessum vaxandi ríg milli liðanna eins og stendur.

City lennti í smá skakkaföllum í miðri viku í Meistaradeildinni þegar þeir gerðu jafntefli við Atalanta þegar markmaður liðsins Ederson fór meiddur af velli í hálfleik og hefur Guardiola þegar lýst því yfir að hann muni ekki ná leiknum gegn Liverpool, þó við trúum því ekki alveg fyrr en liðsuppstillingin verður gerð opinber. Það er ekki langt síðan við spiluðum leik gegn grönnum þeirra Man United þar sem David De Gea átti ekki að vera í markinu en spilaði svo leikinn. Fyrir utan Ederson er ljóst að hvorki Zinchenko né Laporte spila leikinn og eru David Silva og Rodri báðir ólíklegir til að vera með.

Þjálfarar liðanna gerðu tilraun til að fara í hugarstríð fyrir leik helgarinnar þegar Guardiola sakaði Mané um að vera að reyna blekkja dómarana með að dýfa sér en Klopp svaraði því með að benda á að dómarar væru búnir að vera frekar linir á tæknileg brot City manna en í miðri viku baðst Guardiola afsökunar á ummælum sínum og eftir það fóru þeir aftur í að tala hvorn annan upp, sem er eitthvað sem við þekkjum vel milli þessara kappa.

Þó það hafi lítið að segja um helgina þá hefur City gengið frekar illa á Anfield. Liðið hefur ekki unnið þar síðan í maí 2003 þegar Anelka skoraði bæði mörkin í 2-1 sigri en síðan þá hafa þeir tapað ellefu og gert fimm jafntefli. Auk þess hefur Liverpool ekki tapað á heimavelli gegn ríkjandi Englandsmeisturum á heimavelli síðan 2007.

Bæði lið hafa verið veikari varnarlega í ár en í fyrra og eru fjarverur í vörn beggja liða. Það er líklegt að leikurinn muni ráðast á vængjunum. Trent og Robertson hafa verið mjög mikilvægir í sóknarleik okkar manna en þeir þurfa þó að eiga við Sterling og líklega Mahrez því verður áhugavert að sjá hvernig okkur gengur að losa þá til að koma með í sóknarleikinn og því líklegt að við sjáum vinnuhestana okkar á miðjunni. Ég ætla að skjóta á að þetta verði liðið sem þeir himinnbláu ferðist með niður M62 til Liverpool.

Hjá okkur er lítið nýtt að frétta á meiðlalistanum. Þar eru Shaqiri, Clyne og Matip en Jordan Henderson var einnig eitthvað fjarverandi í vikunni vegna veikinda en geri ráð fyrir að hann byrji leikinn ef hann er orðinn nægilega góður og geta þá átt sóknarsinnaðari miðjumennina okkar á bekknum ef það þarf að breyta leiknum í seinni hálfleik.

Það verður áhugavert að sjá hvernig við mætum í leikinn því það gæti orðið erfitt fyrir sjálfstraustið að missa forustuna gegn City niður í þrjú stig, þó mótlæti virðist bara hafa styrkt þetta lið undanfarin ár. Það er ekki ólíklegt að við sjáum varfærnislegan leik líkt og á Anfield í fyrra þar til fyrsta markið kemur og það mun breyta leiknum, sama hvort liðið skorar. Ég ætla því að skjóta á að Klopp haldi sig við þá ellefu sem við höfum séð hvað mest af, allavega til að byrja með.

Það verður svo áhugavert að sjá hvernig hann bregst við eftir því hvernig leikurinn spilast. Chamberlain hefur verið gríðarlega öflugur í markaskorun þegar hann hefur fengið sín tækifæri og Origi hefur átt góðar innkomur inn af bekknum og gefur það okkur ýmsa kosti.

Ég spá því að við fáum hörkuleik þar sem við komumst snemma yfir en City jafnar og við stelum svo sigrinum á lokamínútunum þar sem Mané og Firmino skora okkar mörk en De Bruyne þeirra.

KOMA SVO!!!

YNWA

Leikurinn hefst klukkan 16:30 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð. 

16 Comments

  1. Lömbin hans Lampards eru aldeilis á rönni! Chelski komið í annað sæti…

    3
  2. Ég er á þeirri skoðun að OX eigi að byrja, veit ekki af hverju en er bara eh tilfinning

    6
    • Sammála. Ef við byrjum með Gini, Hendo og Fab inná miðujunni er ég hræddur að Pep sé búinn að lesa Liverpoolskipulagið uppá 110% núþegar og 150% ef hann Milner kæmi inn fyrir Gini
      ( kemur i ljós ef Klopp er hræddur um að tapa á morgun) og ef Hendo og Milner byrja á Miðjunni þá fer titillinn til city. Ox verður vonandi óvænti x-factorinn á morgun sem við þurfum. Annars er Klopp því miður ekki vanur að koma á óvart, spilar með sama liðið 80% og skiptir ekki út mönnum fyrr en á 70 mín. En við ætlum að taka þetta, koma svo YNWA.

      2
  3. Sæl og blessuð.

    Held City spili með þrjá ívörn og tvo frammi. Pínu ves hjá Klopp að reyna að ráða fram úr þessu. Best að vera með öfluga tíu ef þetta verður planið hjá Pep og þarf skapandi miðju svo hægt sé að komast í gegnum varnarmúra og/eða skapa svigrúm fyrir bakverði.

    Chambo og Keita knýja dyra.

    Held við séum að tala um óvænta uppstillingu í þessari stórmeistaraskák sem stefnirí.

    4
  4. Hefði haldið að menn væru í ham að tjá sig á spjallinu fyrir þennan RISA leik….kanski er bara best að halda kjafti þá þarf maður ekki að éta sokk….sjálfur er ég frekar rólegur yfir þessum leik, liðið okkar er orðið það sterkt að ég trúi á sigur á morgunn sem kæmi okkur í frábæra stöðu fyrir framhaldið….liðið verður mjög líklega einsog kemur fram í góðri upphitun hér að ofan….

    3
  5. Það hefur margt verið að falla með okkar mönnum í aðdraganda þessa stórleiks. Við fengum tiltölulega þægilegan CL andstæðing á heimavöllinn á þriðjudegi á meðan MC voru í allskonar vandræðum á útivelli á miðvikudegi. Mikilvægir leikmenn meiddir í Laporte og Ederson (ef satt reynist með kauða) sem og David Silva auðvitað. Okkar menn hafa engar afsakanir í aðdragandanum og vonandi klára þeir þetta með sigri. Að sama skapi er hópurinn hjá City nógu sterkur til að vinna Liverpool á sunnudaginn, þrátt fyrir að það vanti fyrrnefnda lykilmenn.

    Ég sé samt ekkert annað en jafntefli í þessum leik. Það er bara svo óliverpúlskt að vinna svona sex stiga leiki og gera sér lífið auðveldara á einhvern hátt. Sama á við um væntanlegt einvígi við Napoli í CL, það er alltaf að fara að enda í jafntefli bara svo við verðum örugglega með bakið upp við vegg í lokaleiknum. Annað væri bara ekki í anda félagsins.

    3
  6. Og Jon Moss tókst að finna stórutáarnögl í VARsjánni sinni, svo að hann gæti dæmt mark og sigur af Sheffield. Þeir eru hreint út sagt ömurlegir þessir gömlu ensku bjálfadómarar.

    5
  7. Sælir félagar

    Það er nú þannig að spennan fer að hlaðast upp á morgun. Mikið hefði ég gaman af því að sjá MC fara í 4. sæti inn í landsleikjahléið. En hvað verður veit enginn. Þessi leikur getur farið í allar áttir, vinningur, jafntefli eða tap. Markasúpa eða markalaust og guð veit hvað. En vonin blundar í manni að við vinnum á morgun og þá þolum við jafntefli eða tap í útivallarleiknum. ÉG treysti Klopp og félögum fyrir uppstillingunni betur en mér.

    Það er nú þannig

    YNWA

    9
  8. Er eiginlega alveg viss um það að Klopp stillir upp SÍNU sterkasta liði. En auðvitað er nauðsýnlegt að spá og spekúlera, það sem mér líst best á, er spá Sigkarls, við vinnum, töpum eða gerum jafntefli, nær er ekki hægt að komast, en ég vona að leikurinn endi 3-1.

    YNWA

    4
  9. Geri ráð fyrir því að ManCity horfi til ManU leiksins og byrji með 3-4-3 og verjist með 5-3-2. það gekk vel upp hjá MU að loka á Trent og Robinson sem eru svo stór hluti af sóknarþunga lfc.
    Hvort að klopp byrji bara eins og vanalega 4-3-3 og breyti síðan í 4-2-4 eða eitthvað annað. Ég vona bara að við sjáum flottan fótboltaleik með 2 bestu liðum Englands og að Liverpool fari með sigur.

    Salah þarf að girða upp um sig miðað við síðustu leiki, hef fulla trú á því að hann muni reynast okkar gullmoli í dag.

    YNWA

    2
  10. Vildi að ég hefði sofið fram að leik. Þetta er óbærileg bið.

    1

Gullkastið – Peaky Bastards

Liðið gegn City