Harry Kewell: ömurlegur?

harrykewell.JPGÞetta var flottur sigur um helgina, fyrsta sinn í fimm ár sem að Liverpool náði að sigra á Anfield eftir að hafa lent undir. Fimm ár. Spáið í því!?!?

En allavega, einhverra hluta vegna hefur Harry Kewell verið gagnrýndur alveg svakalega á spjallborðum sem og í fjölmiðlum eftir leikinn á laugardag. Þetta hefur gengið svo langt að Dave Prentice hjá Liverpool Echo fann sig knúinn til að skrifa grein um ömurleika Harrý.

Þegar þetta er svona langt gengið hlýtur maður að spyrja sig: Var Harrý virkilega svona lélegur gegn City á laugardaginn? Er Harrý virkilega búinn að vera svona arfaslakur þetta fyrsta ár sem hann hefur spilað fyrir Liverpool?

Allir með viti held ég að svari því á sama hátt: NEI!

Ókei, Kewell hefur ekki skorað jafn mikið eftir áramót og hann gerði á seinni hluta ársins 2003. Og hann hefur ekki enn átt nema eina stoðsendingu á þessu tímabili (sem er jafnmikið og Ryan Giggs hefur átt, en það gagnrýnir hann enginn).

Þannig að ég spyr: hvað hafa menn svona mikið á móti Kewell? Hann lék meiddur á seinni hluta síðustu leiktíðar og því var ekki við miklu að búast. Hann kom inní leikina með mikilvæg mörk og nokkrar góðar stoðsendingar á tíma þegar við þörfnuðumst hans sárlega og uppskeran var Meistaradeildarsæti á annars vonbrigðaleiktíð.

Nú í haust, þegar Benítez hefur ekki sýnt neina miskunn í að henda í burt “illgresinu” innan liðsins hefur hann látið Harry Kewell byrja inná í hverjum einasta leik það sem af er tímabils. Og það gildir líka um æfingaleikina.

Ef Benítez – sem er greinilega mjög harður þegar kemur að frammistöðu leikmanna – hefur svona mikla tröllatrú á Kewell … af hverju er þá verið að gagnrýna hann?

Þeir sem eiga leikinn frá því á laugardag á spólu, endilega horfið á hann aftur. Þið munið sjá að Kewell var einn af þeim fáu sem voru að gera eitthvað skapandi í fyrri hálfleik. Við áttum þann hálfleik og pressuðum stanslaust en vorum ekki að skapa nóg. Kewell var sá eini sem skapaði eitthvað, hann átti tvö dauðafæri, eitt gott langskot og tvær stórhættulegar fyrirgjafir. Ef hann hefði verið heppinn hefði hann getað verið kominn með þrennu og tvær stoðsendingar í hálfleik.

Í seinni hálfleik kom svo allt annað lið út á völlinn og við yfirspiluðum City á öllum svæðum. Þar átti Kewell hvað síst hlut að máli … en hann var síógnandi á kantinum. Hann var búinn að fara nokkrum sinnum framhjá Danny Mills – og fiska á hann gult spjald í fyrri hálfleik – og því bjóst Mills við að hann myndi reyna að sóla hann í seinni hálfleik líka. En Kewell sýndi snilli sína og notaði ógn sína á annan hátt.

Oft sá maður hann draga til sín tvo menn, ógna fyrirgjöfinni en gefa boltann þess í stað út á Steven Gerrard sem kom aðvífandi á teignum. Það var einmitt þessi hreyfing sem gaf Gerrard dauðafærið í Tottenham-leiknum, þegar við áttum að fá víti eftir að Ifill togaði Gerrard niður í teignum.

Þetta bara aftur árangur í leiknum gegn City, þótt Kewell hafi ekki verið maðurinn með stoðsendingarnar. Horfið aftur á leikinn – vegna ógnar Kewell á vinstri vængnum náði hann jafnan að draga til sín tvo leikmenn. Ef það var miðjumaður sem kom að hjálpa Danny Mills losaði það nær undantekningarlaust um Gerrard eða Hamann … og Kewell sendi nær undantekningarlaust á þá. Ef það var hins vegar miðvörður var voðinn vís því þá voru Baros og Cissé komnir tveir á móti einum.

Það var einmitt slík hreyfing sem bjó til plássið þegar Baros jafnaði. Gerrard kom á fullum hraða að vítateig City með boltann og virtist ætla að gefa á Kewell. Kewell sá þetta og tók strikið út á vænginn … og tók með sér tvo menn. Allir aðrir City-menn voru með augun á Gerrard og Kewell en það kom þeim í opna skjöldu þegar Gerrard sendi þess í stað á Baros.

Horfið á þetta aftur og takið sérstaklega eftir hlaupunum, sendingunum og þátttöku Kewells í miðjuspilinu. Og þá sjáið þið nákvæmlega hvers vegna Rafael Benítez hefur tröllatrú á Ástralanum knáa.

Mörkin munu koma hjá Kewell. Hann er þegar kominn með eina stoðsendingu (seinna mark Gerrard í Austurríki fyrir tveim vikum) og þeim á eftir að fara fjölgandi líka. Liðið er enn að venjast breyttum venjum og siðum, nýir leikmenn eru að koma inn í liðið á næstu dögum og leikskipulag Rafael Benítez er enn í mótun.

Því þarf þá endilega að vera að krossfesta Harry Kewell fyrir að skora ekki þrjú og leggja upp tvö í hverjum leik … þegar við þurfum að sýna honum nákvæmlega sömu þolinmæði og öðrum leikmönnum í liðinu?

Harry Kewell er lykilmaður í þessu liði, það segi ég og skrifa, og mér finnst þessi gagnrýni sem hann hefur verið að fá vægast samt ósanngjörn!

Skrifa svo meira á morgun þegar nær dregur leik.

9 Comments

  1. Skil ekki að menn séu að gagnrýna Kewell fyrir leik sinn gegn City. Tvímælalaust einn af albestu mönnum liðsins í leiknum.

  2. Ég er hjartanlega sammála þér í þessu máli. Harry Kewell er einn með þeim betri kantmönnum í boltanum í dag, ef ekki sá besti!

    Ég tel að vegna þess að það koma svona leiðinleg komment um að Harry Kewell sé lélegur og skorar fá mörk að það er svo mikið um smábörn á þessum spjöllum. (Þótt ég geti alveg flokkast undir það :biggrin2: .)

    Strax á fyrstu sekúndunum í leiknum á laugardaginn, byrjaði Harry Kewell að ógna varnarmönnum City og byrjaði að láta vita af sér.

    Harry Kewell er frábær leikmaður og mun reynast Liverpool mjög vel í vetur.

  3. Á þessi fimm ára statistík ekki bara við um það að við höfum ekki náð að vinna leik þegar við höfum verið undir í hálfleik? Ég las það a.m.k. einhvers staðar… Finnst frekar ólíklegt að við höfum ekki náð að vinna upp mun á Anfield í fimm ár, en nenni ekki að renna yfir statistík til að bakka þetta upp.

  4. Jú, mér sýnist þú hafa rétt fyrir þér Kiddi.

    Í [þessari grein í Echo segir](http://icliverpool.icnetwork.co.uk/0500liverpoolfc/0100news/tm_objectid=14563181&method=full&siteid=50061&headline=hamann-is-up-for-the-fight-name_page.html):

    >Liverpool overturned a first half deficit for the first time five years at Anfield.

    Þetta er hreint ótrúlega mögnuð staðreynd. FIMM ÁR án þess að vinna upp mun í hálfleik. Maður vissi reyndar alltaf að liðin hans Houllier voru slöpp í því að vinna upp forskot, en ég átti ekki von á því að þetta væri svona slæmt.

    Það væri gaman að vita hversu oft við höfum unnið upp forskot á útivöllum.

  5. Já, og svo er þessi gagnrýni á Kewell náttúrulega fáránleg. Er alveg sammála þessum skrifum þínum um Kewell, Kristján. 🙂

  6. Man nú ekki hvar ég las það (gæti þessvegna hafa komið fram á þessari síðu), en Liverpool unnu 5 leiki síðust 4 ár eftir að hafa lent undir einhverntíman í leiknum. Sem er nú ekkert sérstök statistík (nema hjá liði sem lendir aldrei undir augljóslega).

  7. Á statistíkvef Football365 (sem er mjög hentug þegar maður hefur ekkert að gera) er hægt að finna töflu yfir það hversu góð liðin eru í því að kría út stig þegar þau lenda undir. Hér er linkurinn á síðasta tímabil: [Football 365](http://stats.football365.com/2004/ENG/PR/ptsgain.html) og svo má skoða næstu tímabil á undan með því að breyta ártalinu. Eins og sjá má eru okkar menn nær alltaf fyrir miðju eða þar fyrir neðan…

  8. Kiddi, þetta er hárrétt hjá þér. Ég las þetta bara vitlaust … en þetta er s.s. fyrsta skiptið í fimm ár sem við vinnum leik á Anfield eftir að hafa verið undir í leikhléi. Fáránleg tölfræði og í raun segir hún okkur meira um leikaðferðir Houlliers en nokkuð annað.

    Houllier var nefnilega meistari í einu og það var að komast yfir … og halda forystunni. Þessi taktík var það sem þrennan vannst á árið 2001 en á seinni árum Houlliers fór að halla undan fæti. Andstæðingarnir voru farnir að kunna á þessa taktík okkar … og þá kom í ljós hversu takmarkað leikkerfi Houlliers var.

    Ef þessi leikaðferð gekk ekki upp, þá gátum við ekkert. Það var aldrei neitt ‘Plan B’, ef svo má segja. Og Gvöð forði því ef við lentum undir, það þýddi að liðið þurfti að fara fram á völlinn og pressa hvern einasta bolta. Og liðið, undir stjórn Houlliers, var bara ekki nógu vel undirbúið fyrir pressubolta.

    Á laugardaginn sáum við tvenns konar taktík hjá Benítez, sem er meira en við sáum hjá Houllier. Í fyrri hálfleik spiluðum við varkáran og þolinmóðan sóknarbolta. City-menn lágu í vörn og það var ljóst að Liverpool-liðið ætlaði að gefa sér góðan tíma í að brjóta varnarmúrinn á bak aftur. Þetta gekk ekkert allt of vel þar sem við náðum ekki að skapa okkur nein færi, en vorum þó algjörlega einráðir á vellinum… þangað til Anelka skoraði.

    Seinni hálfleikur, við undir og góð ráð dýr! Það kom allt annað lið út í seinni hálfleik, það var blóðbragð í hverjum einasta kjafti og við spiluðum eins og óðir menn. Baros tók eitthvað brjálæðiskast og hljóp út um allt, sólaði alla og var ótrúlega ógnandi um leið og Gerrard hafði verið gefinn laus taumurinn. Innan um þetta var Harrý Kewell sem hafði verið okkar mest ógnandi leikmaður í fyrri hálfleik en beitti skynseminni í seinni hálfleik, þar sem hann var tekinn úr umferð, og var duglegur að koma samherjum sínum í góðar stöður með boltann.

    Sem sagt, frábær sigur, við unnum eftir að hafa verið undir í hálfleik og Harry Kewell á fullt hrós skilið fyrir þennan leik … þótt hann hafi hvorki skorað né átt “stoðsendingu”.

  9. Eins og stutt skoðun á síðunni hjá football365 leiddi í ljós hafði ég barasta rétt fyrir mér, 5 sigurleikir eftir að hafa lent undir á 4 árum. Vonandi lendum við samt sem sjaldnast undir 😀

L’pool 2 – ManCity 1

Leikur við Graz í kvöld!