Leikmenn sem höfða til manns.

Þegar maður hefur haldið með Liverpool í c.a 32 ár þá hefur maður séð marga stórkostlega leikmenn. t.d Dalglish, Hansen, Barnes, Rush, Fowler, Gerrard, Alonso, Torres, Suarez, Van Dijk, Alisson, Mane og Salah til að nefna nokkra. Það hefur verið auðvelt að hrífast með þessum goðsögnum og hafa allir átt stóran þátt í árangri Liverpool í gegnum árum og líklega skilað góðum tekjum í búningasölu. Það er auðvelt að dýrka og dá þessa leikmenn (já, Owen er farinn af þessum lista) en stundum gerist það að ákveðnir leikmenn sem seint verða talinn goðsagnir vinna hug manns og hjarta.
Þetta geta verið leikmenn sem eru ekki alltaf í sviðsljósinu og vinna sína vinnu þegjandi og hljóðalaust án þess að selja treyjur í stórum stíl og eru jafnvel ekki það vinsælir hjá stuðningsmönnum liðsins. Þetta geta verið leikmenn sem hafa átt góða spretti en meiðsli hafa hamlað þeim í að ná að slá í gegn. Þetta geta verið leikmenn sem maður tengir við eitthvað ákveðið augnablik sem iljar manni um hjartarætur. Þetta geta verið leikmenn sem maður telur vera vanmetna og kannski ekki fengið það lof sem þeir eiga skilið.

Ég ætla aðeins að fara yfir nokkra leikmenn sem ég hef fylgst með í gegnum árin sem ég flokka ekki sem stórstjörnu eða jafnvel lykilmann í liðinu en ég hélt aðeins extra upp á.

Jerzy dudek: 186 leikir 2001 -2007
Ég ætla að byrja á smá svindli. Þessi leikmaður er auðvitað goðsögn hjá Liverpool því að hann átti stóran þátt í því að liðið vann meistaradeildina 2005. Hann var samt einn af þessum markvörðum sem var alltof óstöðugur. Hann gat virkað heimsklassa í einum leik og í næsta þá var hann að gefa mörk. Virkaði mjög viðkunnanlegur og maður fann til með honum þegar illa gekk hjá honum. Ekki besti markvörður í sögu Liverpool en hann stimplaði sig heldur betur inn.

Danny Murphy: 249 leikir 1997-2004
Leikmaður sem fékk ekki alltaf lofið sem hann átti skilið. Teknískur og með góðar sendingar en gat líka verið grjótharður inn á milli. Hann átti nokkur sigurmörk gegn Man utd sem bjargaði nánast 90s tímanum fyrir okkur Liverpool stuðningsmenn og fyrir það er maður þakklátur. Það var svo auðvelt að halda með honum en þetta var leikmaður sem keyptur var frá Crewe en náði samt að stimpla sig inn í stórt hlutverk hjá sterku Liverpool liði en líklega ekki margir sem áttu von á því þegar hann var keyptur. Mér fannst sárt þegar hann fór og hefði alveg vilja gefa honum 1-2 tímabil í viðbót.

Adam Lallana: 178 leikir 2014-2020
Þegar hann kom til Liverpool fannst mér hann frábær og menn kannski gleyma því að áður en hann fór að hrynja í meiðsli var hann lykilmaður hjá Liverpool og Englandi. Hann var þessi tekníska týpa sem gat skapað en það sem heillaði mig var endalausu hlaupinn sem hann tók bæði í vörn og sókn. Klopp var mjög hrifin af honum sem leikmanni bæði innan vallar sem utan. Utan vallar var hann í algjöru leiðtoga hlutverki og kom það kannski best í ljós hversu stór partur hann var af liðinu þegar verið var að kveðja hann og allir fóru að tala um mikilvægi hans í klefanum. Ég er á því að ef þessi meiðsli hefðu ekki verið að skemma svona mikið fyrir honum þá hefði hann getað fengið stærra hlutverk en hann fékk á endanum en menn gleyma er að hann skoraði 8 mörk og lagði upp 7 önnur 2016/17 tímabilið áður en meiðslin skemmdu (værum við ekki til í svoleiðis tölfræði í dag frá miðjumanni?). Svo dýrka ég hann fyrir að hafa jafnað gegn Man utd undir lokinn meistaratímabilið okkar sem gerðu það að verkum að þeir urðu ekki fyrstir til að sigra okkur.

Jari Litmanen: 43 leikir 2001-2002
Við vorum með Owen, Fowler og Heskey í frammi en mér fannst samt alltaf gríðarlega spennandi þegar Jari spilaði því að hann skapaði svo mikið í kringum sig og var algjör töframaður með boltann. Ég var á því að hann hefði átt að fá fleiri tækifæri því að þegar hann spilaði þá fannst mér hann alltaf standa sig og það elskuðu allir að spila með honum enda hann alltaf að leita af færum fyrir samherja sína. Í dag hefði hann líklega fengið meira frjálst hlutverk fyrir aftan framherjana en á þessum tíma var hann oftast settur bara upp á topp.

Vladimír Smicer: 184 leikir 1999-2005
Þessi er þarna út af tveimur ástæðum. 1. Hann er eins og Dudek virkar mjög viðkunnanlegur og maður sá alveg að það vantaði ekki hæfileikana. 2. Hann skoraði sigurmark í blálokinn gegn Chelsea 2002 á Anfield í mínum fyrsta leik á þeim merka stað og kom Liverpool á toppinn þegar lítið var eftir af mótinu.
Smicer er samt einn af þessum næstum því leikmönnum. Menn tala um að ef hann væri eins í leikjum og hann var á æfingum værum værum við að tala um Liverpool goðsögn en hann er auðvitað pínu goðsögn fyrir að hafa skorað gegn Milan bæði í venjulegum leiktíma og í vító.

Craig Bellamy: 79 leikir 2006 -2007 og 2011-12
Þessi var snarklikkaður og það var það sem ég dýrkaði við hann. Höfuðið var ekki alltaf rétt skrúfað á en það var aldrei hægt að efast um hjartað eða viljann hjá þessum manni. Ef fleiri höfðu barist eins og hann þá hefði árangurinn verið betri en hann var samt stundum sinn versti óvinur og því var kannski hans Liverpool feril ekki eins langur og hann hefði getað orðið en golfsveiflan á Nou Camp mun seint gleymast.

Peter Crouch: 134 leikir 2005-2008
Það er bara ekki annað hægt en að dýrka þennan leikmann. Innan vallar sem utan þeir sem muna eftir honum vita um hvað ég er að tala.

Titi Camara: 37 leikir 1999-2000
Þegar maður hugsar um Titi þá kemur orðið skemmtun og sorg strax upp. Þrátt fyrir að spila ekki mikið fyrir Liverpool þá varð hann eiginlega strax fan favorite því að hann var með þetta extra sem stuðningsmenn elska. Hann var mjög leikinn og fór oft illa með andstæðingana og hann gerði það með bros á vör. Orðið sorg tengir maður við hann einfaldlega af því að hann missti föður sinn en ákvað samt að spila sama dag gegn West Ham. Á 43 mín skoraði hann í leiknum og var fagnið innilegt og kom svo í ljós síðar hvað hann var að ganga í gegnum. Það var auðvelt að hrífast með þessum strák.

Martin Skrtel: 320 leikir 2008-2016
Þessi hefur mér alltaf fundist vanmetinn af stuðningsmönnum Liverpool. Mér fannst hann frábær þegar við urðum næstum því meistara 2014 þar sem hann var eins og tröll í miðverðinum og skoraði auk þess sjö mörk í deildinni.
Fljótlega eftir að hann kom til Liverpool þá sá ég hann spila á Anfield og hann virkaði eins og algjört skrímsli inn á vellinum. Hann fór upp í alla skallabolta og lét finna vel fyrir sér og náði hann eiginlega að sigra mann strax í þessum leik. Svona leikmaður sem er tilbúinn að deyja fyrir klúbbinn.
Hann verður líklega ekki flokkaður sem goðsögn enda átti hann misjöfn tímabil með Liverpool en þegar hann var upp á sitt besta þá var hann einfaldleg frábær miðvörður. Hann átti líka meiðsla tímabil og léleg tímabil þar sem hann var inn og út úr liðinu en maður gat fyrirgefið honum margt því að maður sá að Liverpool skipti hann miklu máli en hann er en þá gallharður stuðningsmaður í dag.

Hver er þinn svona leikmaður?

33 Comments

  1. Henchos, leit alltaf út fyrir að vera á síðustu metrunum frá fyrstu mínútu. Myndaði samt flott par með Sami Hypia

    9
    • Igor Biscan !!!
      Geggjað traustur, var ekki alltaf vaknaður þegar hann kom inná !
      Svo má ekki gleyma Lucas Leiva sem hefði alveg getað verið að moka skurði endalaust, 10 ár mjög vanmetinn leikmaður.

      7
      • Menn gleyma því að Biscan byrjaði heima og úti gegn Leverkusen, juventus og Chelsea í meistaradeildinni 2005.

        6
    • Ég var búinn að gleyma svissneska ostinum!
      Titi camara hafði þetta extra, væri gott að hafa einn titi á bekknum núna.

  2. Mjög sammála þessum lista. Myndi bæta við skóflumeisturunum Lucas Leiva og Dirk Kuyt. Og ef einhver er költhetja (en kannski ekki vanmetinn) þá er það Hames Milner.

    3
  3. Didier Hamann (1999-2006) fannst mér alltaf magnaður leikmaður. Grjótharður og áreiðanlegur í lykilhlutverkinu vanmetna – aftarlega á miðjunni.

    Tek líka undir Lucasar-lofið, annar DM, en það kom best í ljós þegar hann meiddist tímabilið 11-12 hversu mikið skarð hann skildi eftir sig í liðinu.

    Bæti Mascerano við þennan lista – leikmenn í þessari stöðu eru ekki alltaf mest áberandi en mikið hrikalega er það ómissandi að vera með öflugan afturliggjandi miðjumann!

    5
  4. Ég er alltaf hrifinn af bakvörðunum og þar eru nokkrir , Stig inge björneby , jason mcateer og auðvitað Steve Finnan ! Vá hvað hann var eitthvað solid leikmaður , sennilega alltaf fyrstur á blað fyrir leiki hja þjálfaranum og bara rólegur og góður leikmaður ! Átti nokkrar góðar stoðsendingar og einn sem stendur uppúr , þegar hann sendi á peter cruoch sem afgreiddi boltan með hjólhest í netið a móti calatasary í CL !! Geggjað mark !

    4
  5. Terry Mcdermott, Ray og Alan Kennedy, (ekkert skyldir). Okkar super sub David Fairclough sem skoraði yfirleitt alltaf þegar hann kom inná og náði þá í sigur eða jafntefli fyrir LFC. Stan Collymore, sem var góður þegar hann var ekki meiddur, eða frá ;-)Riise, Dossena ( fyrir mörkin á móti utd ) Aurelio, Kuyt fyrir endalausa baráttu og mörk. Svona gæti ég haldið endalaust áfram 🙂 Garcia, (draugamark)

    Það eru svo margir leikmenn sem hafa gefið manni svo margar gleðistundir. Þessir eru auðvitað fyrir utan aðalmennina,

    4
  6. Svo má ekki gleyma að á tímabili voru all nokkrir framkvæmdarstjórar við völdin. Einn sá möguleika í einhverjum, meðan sá næsti sá hann ekki. Sagan segjir að Benites hafi hrakið Alonso í burtu frá okkur fyrir man ekki nafnið, sem hann ekki fékk á endanum. Alonso vann hinsvegar allt, enda stórkostlegur leikmaður. Listinn annars sæmilegur og á sjálfsagt rétt á sér:)

    YNWA

    2
  7. Daníel Agger var dýrari týpan af miðaverði og einn af mínum uppáhalds. Ekki skemmdi það fyrir þegar að Barcelona reyndu að ná honum og gerðu honum tilboð þá svaraði hann því með að húðflúra YNWA á hnefan á sér. Alltaf með hugarfar uppá 10.

    5
  8. Dirk Kuyt varð uppáhald hjá mér í fyrstu innákomunni sinni.
    Hann hljóp útum allan völlinn þessar mínotur sem hann var inná…síðan hætti hann reyndar aldrei að hlaupa ?
    Þar á undan var það Danny Murphy.
    Setti hann aftaná treyjuna mína fyrir United leik til að minna tvo vini mína á hvaða leikmaður hafði skorað sigurmarkið árið áður í innbyrgðis viðureign liðanna.
    Æji hann setti bara aftur sigurmarkið úr geggjaðri aukaspyrnu ?

    2
    • Gunni ég gleymi bara aldrei þessum tveimur sigurmorkum Murphy a old Trafford I röð.djifull var gaman ta og kom ekki alllavega annað eða bæði í lok leikjanna minnir það en komin 20 ár og minnið kannski eitthvað að klikka enn held ég sé nálægt þessu samt 🙂

      2
  9. Sami Hyypiä er minn uppáhalds leikmaður ásamt hinum snarklikkaða sí svanga bitvargi Suarez.
    Hyypiä stóð alltaf fyrir sínu traustur og stapill leikmaður.
    Eins mikið og ég þoli ekki Suarez eftir að hann fór frá okkur þá get ég ekki annað en dýrkað kvikindið fyrir þann tíma sem hann var hjá okkur.
    Það má heldur ekki gleyma
    Bruce Grobbelaar, hann var langt frá því að vera besti markvörður í heimi en hann sá til þess stressstuðulinn
    var alltaf í hæðstu hæðum með sínum glórulausu skógarferðum.

    2
  10. Gary Mcallister, var mjög eftirminnilegur leikmaður sem virtist eldast eins og gott Rauðvín, ótrúlegt úrval af flottum leikmönnum sem við höfum átt í gegn um tíðina og hreint með ólíkindum að það skyldu þurfa að líða 30 ár milli stóru titlanna miðað við oft á tíðum einvalalið. Uppáhaldsleikmaður minn er og verður alla tíð Stevie G. Þessi drengur hefði kastað sér á spjót fyrir klúbbinn ef óskað hefði verið eftir því og synd að hann hafi ekki fengið að lyfta þeim stóra (englandsmeistarabikarnum)

    2
  11. Steve nokkur Mcmanaman. Liverpool stal honum ungum frá Everton sem gerir það bara enn betra. Gerði ótrúlega margt gott fyrir Liverpool. Þegar hann og Fowler voru heitir þá fannst maður Liverpool geta unnið hvaða lið sem er. Var ótrúlega lunkinn og með frábæran leikskilning, setti líka boltann í netið. Bara hlýjar minningar um kauða. Fór svo til Real og vann tvisvar dolluna á Spáni en Barca var búið að semja við hann en sviku hann á lokametrunum þegar þeir sömdu við Rivaldo í staðinn en þá stökk Real á kauða. Endaði að lokum því miður hjá City en hver man eftir því. Fyrir mér mikið legend. Kom ungur eða 18 ára til Liverpool og var hjá okkur í níu ár. Lét oft andstæðingana líta illa út og átti risa þátt í því að Fowlerinn náði sínum ferli sem algjört legend.

    10
  12. en hvað með Mario Balotelli ? 🙂 Eru allir búnir að gleyma honum ? Ég hefði svo viljað að honum hefði vegnað vel hjá okkur því hann var svo skrautlegur persónuleiki en verr og miður var tími hans með Liverpool hreinasta hörmung.

    2
  13. Án vafa þá nefni ég Nathaniel Phillips. Veit það að maðurinn á einungis að baki eitt tímabil með LFC en hvílík innkoma sem heillaði mann upp úr skónum. Algjör draumur að rætast hjá kappanum og ENGINN trúði því að hann yrði í jarn stóru hlutverki hjá LFC. Sá á mikinn þátt í því að Liverpool tryggði sér CL sæti eftir ömurleg meiðsli. Hann spilaði með hjartanu og þrátt fyrir stuttan tíma þá er kappinn dýrkaður og daður á Anfield.

    4
  14. Fernando Morientes, Christian Ziege, Boudewijn Zenden,
    Markus Babbel, Maxi Rodríguez, Nick Barmby Sander Westerweld.

    Jú get svosem haldið àfram en get ekki talið endalaust upp. Morientes, Ziege og Zenden góðir leikmenn en fundu sig aldrei hjá okkur eða fengu of stuttan tíma?

    Maxi varð uppáhalds leikmaður okkar allra þegar hann tók upp à því að skora og skora.

    Westerweld var bara alltaf í uppáhaldi þegar ég var yngri, skemmir samt fyrir að hann à leiki fyrir Everton seinna meir.

    Barmby er svona die for the team týpa og varð að fljóta með.

  15. Afsakið þráðránið en er þessi frétt inni á Mbl ekki eitthvað djók? “Meina lykilmönnum úrvalsdeildarliða að spila um helgina” Ef þeir hefðu farið til rauðra landa þá hefðu þeir verið í sótthví og hvort eða er mist af leikjum helgarinnar vegna sótthví ! Er þetta eftirá ákvörðun eða var þetta alltaf ákveðið áður en landsleikja glugginn brast á það skipti að mínu viti öllu máli.

    YNWA

    2
    • Ef þetta var vitað fyrirfram að þá hafa menn litið svo á að það er skárra að missa menn í fimm daga frekar en 10 daga.
      En manni sýnist samt á öllu að þetta sé eftirá geðþótta ákvörðun hjá Brasílíska sambandinu. Væri flott hjá leikmönnum núna að standa í lappirnar og tilkynna sambandinu að ef þetta er raunin að þá muni þeir ekki gefa kost á sér aftur í landsliðið.

      4
      • Auðvitað eiga leikmenn landsliðsins að koma með sameiginlega yfirlýsingu og fordæma þessa framkomu hjá knattspurnusambandinu í Brazilíu.
        Þetta er algjörlega galið að ætla að refsa bæði leikmönnum og félagsliðum á tímum eins og eru núna.
        Það er skellur fyrir okkur að Missa Alisson, Fabinho og Firmino á móti Leeds.
        eina liðið sem græðir á þessu er manutd því að þeir geta ekki notað Fred.

        5
      • Svo líka annað var ekki Firmino í meiðslum á að refsa mönnum í meiðslum vegna þess að þeir mættu ekki til Braselíu á hækjum þetta hlýtur bara að vera eitthvað klikkfrétta kjaftæði hjá mbl ruslinu.
        “Eina liðið sem græðir á þessu er manutd því að þeir geta ekki notað Fred” algjörlega ha ha ha.

        YNWA

        2
  16. Dirk Kuyt einn sá mesti vinnuhestur sem ég hef séð spila í rauðu treyjunn, gríðarlega vanmetinn leikmaður.
    Hætti aldrei að hlaupa, reyna að vinna og gefa liðinu og klúbbnum 110% í hvert skipti sem hann var á vellinum. Ótrúlegur drifkraftur hans til að reyna að gera gæfumuninn fyrir liðið og jafnvel þótt hann átti lélegan leik þá hengdi hann aldrei haus eitthvað sem margir leikmenn ættu að taka sér til fyrirmyndar að gefa allt í 90 mín.

    2
  17. Afsakið þráðaránið og þessar frábæru umræður hér. En hvað er þetta með Bellingham og möguleg 80m kaup Liverpool á honum? Yrði þá dýrasti leikmannakaup Liverpool. Býr þessi drengur yfir þessum gæðum verð að viðurkenna ég veit ekki mægjanlega mikið um hann.

    1

Hvernig hefur samkeppnin breyst í sumar?

Alisson og Fabinho í banni gegn Leeds?