Deportivo 0 – L’pool 1

biscandepor.jpg Jessssss!!!

Þetta var nákvæmlega það sem við þurftum, útisigur í Meistaradeildinni! Þrátt fyrir að hafa leikið án manna eins og Xabi Alonso, Steven Gerrard, Djibril Cissé og Antonio Nunez í kvöld þá skelltum við okkur til Spánar og unnum Deportivo la Coruna, og í raun bara sanngjarnt!

Þessi leikur var ekki mikið fyrir augað, í hreinskilni sagt. Við skoruðum á 14. mínútu þegar Jorgé Andrade setti boltann í eigið net eftir fyrirgjöf frá Riise. Ef hann hefði ekki gert það var Baros í dauðafæri og hefði skorað, þannig að það skipti engu. Það flottasta við markið var samt aðdragandinn: Carragher vann skallabolta á miðjum vellinum, boltinn barst til Igor Biscan sem lék á þrjá Deportivo leikmenn og sendi svo frábæran bolta út á vítateigshornið til Riise. Biscan skapaði markið með frábærum leik og það var ekki laust við að maður þyrfti að fullvissa sig um það hvort þetta væri ekki bara Alonso í vitlausri treyju! 😀

Að öðru leyti þá var ekki mikið að gerast í okkar leik. Við vorum frábærir varnarlega í kvöld og Deportivo-liðið náði í raun aldrei að ógna okkur almennilega, þrátt fyrir að hafa sótt mestallan síðari hálfleikinn. Þá fengum við nokkur algjör dauðafæri, bæði í fyrri og seinni hálfleik, til að gera út um leikinn en það tókst ekki. Engu að síður þá hélt vörnin og við unnum, 1-0.

En allavega, liðið í kvöld var svona:

Kirkland

Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Biscan – Hamann – Riise

Kewell – Baros

Eins og ég sagði, þá vorum við ekkert að spila nógu góðan sóknarbolta í kvöld. Sköpuðum hættulegri færi en Deportivo, en samt ekki að sækja nógu vel sem lið. En það skipti engu, vörnin var súpergóð og allt liðið varðist eins og órjúfanleg heild í kvöld.

Það er freistandi að velja Igor Biscan mann leiksins, þar sem hann var frábær í kvöld, en í rauninni verð ég að útnefna nokkra leikmenn sem eiga skilið að vera nefndir. Þeir Traoré, Hyypiä, Carragher og Josemi voru ógeðslega góðir í þessum leik. Josemi lenti í smá vandræðum með Alberto Luque á fyrsta kortérinu, en eftir það pakkaði hann honum saman það sem eftir lifði leiks. Þeir Carra & Hyypiä pökkuðu Walter Pandiani saman í leiknum, og eftir að hann fór útaf og Diego Tristán kom inná í staðinn, þá pökkuðu þeir honum bara saman líka.

Og Djimi Traoré afrekaði það að taka Victor, einn hættulegasta hægri kantmann í Evrópu, og búa til ávaxtasultu úr honum … tvo leiki í röð. Í alvöru, Victor hlýtur að fá martraðir eftir þessa tvo leiki við tilhugsunina um að þurfa einhvern tímann aftur að mæta Traoré á velli. Ótrúlega flottur varnarleikur hjá þeim franska, sem er hér með orðinn lykilmaður í liði Liverpool. Ekkert flóknara en það.

Á miðjunni voru Hamann og Biscan frábærir. Hamann sinnti því sem hann gerir best – varnarvinnunni – af stakri snilld (sá einhver Valerón í þessum leik? ) og fyrir vikið gat Biscan ráfað um allt miðjusvæðið og skapað og stjórnað spilinu. Og hann gerði það af stakri snilld … í raun var hann ekkert verri í kvöld en Alonso hefur verið í sama hlutverki í undanförnum leikjum. Það er nokkurn veginn hæsta hrós sem ég gæti gefið Igor Biscan, og ef hann ætlar að spila svona þá verður hann áfram í herbúðum Liverpool næstu árin. Frábær leikur.

Frammi barðist Milan Baros eins og ljón og var óheppinn að skora ekki a.m.k. eitt mark (sérstaklega í byrjun leiks). Þegar leið á leikinn sá maður þó að hann var orðinn þreyttur og svo var hann tekinn útaf, fyrir Sinama-Pongolle sem var líka frískur þegar hann kom inná.

Já, og Chris Kirkland er markvörður #1 hjá Liverpool. Það var augljóst í kvöld af hverju.

Þá eru eftir þrír leikmenn sem ég verð að segja að ollu mér örlitlum vonbrigðum í kvöld. Það þarf ekkert að fjölyrða um það af hverju eða neitt slíkt, en þeir Riise og García á vængjunum og Kewell í holuni fundu sig bara engan veginn í þessum leik. Því miður, og fyrir vikið vorum við ekki nógu sterkir framávið og Baros var allt of oft aleinn og einangraður gegn Deportivo-vörninni.

Allir þrír börðust vel fyrir liðið í kvöld og unnu sína varnarvinnu með stakri prýði – auk þess sem Kewell var duglegur að láta brjóta á sér í fyrri hálfleik – en fram á við virtust þeir engan veginn ná sambandi hver við annan og þeir gáfu bolta allt of auðveldlega frá sér, sérstaklega García og Kewell.

Þetta var vissulega erfiður útileikur – og ég er rosalega feginn að við unnum – og því ætla ég ekkert að fella stóra dóma um þessa þrjá. Þeir voru daprir í kvöld en ég geri ráð fyrir að þeir spili allir sömu stöður gegn Birmingham á laugardaginn, og þá vona ég að þeir verði allir í essinu sínu. Það er svo mikilvægt fyrir Liverpool – sérstaklega án Gerrard á miðjunni – að þeir García og Kewell séu að skapa tækifæri fyrir sig og samherja sína.

En nóg um það. Þeir verða góðir á laugardag, ég er viss um það. Þessi leikur var bara rosalega mikilvægur fyrir okkur – við erum nú á toppnum í riðlinum með 7 stig og tveir leikir eftir. Næsti leikur í Meistaradeildinni er á útivelli gegn Mónakó, held ég, og þá er að duga eða drepast. En þessi sigur í kvöld léttir talsverðri pressu af okkur, nú megum við alveg við því jafnvel að tapa gegn Mónakó og samt vera í einu af tveimur efstu sætunum fyrir lokaleikinn gegn Olympiakos á Anfield.

Eftir kvöldið í kvöld eru verulegar líkur á að við förum áfram úr þessum riðli. 😀 Guði sé lof fyrir það!


**Uppfært (Einar Örn)**: Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta, en mikið var þetta sætur sigur. 4 stig gegn Deportivo er flottur árangur. Í 180 mínútur sköpuðu þeir varla alvöru marktækifæri. Við áttum þetta svo innilega skilið.

Mig langar bara að skrifa eftirfarandi málsgrein:

**Menn leiksins: DJIMI TRAORE OG IGOR BISCAN** Já, lesið þetta aftur ef þið þurfið. Þeir, sem sáu ekki leikinn eiga ábyggilega ekki eftir að trúa okkur, en þeir tveir voru FRÁBÆRIR!!! Biscan stjórnaði miðjunni einsog herforingi og Djimi Traore tók hinn frábæra Victor og PAKKAÐI HONUM SAMAN! Þvílíkur leikur hjá Traore. Ég held að ég hafi sjaldan séð leikmann ná boltanum jafn oft með skriðtæklingu. Þeir eiga hrós skilið fyrir leikinn, sem og nánast allir nema þessir þrír, sem Kristján minntist á.

En ég nenni ekki að vera neikvæður. Við fórum til Spánar án okkar þriggja dýrustu og bestu leikmanna og við unnum í fyrsta skipti á Spáni í **21 ár**. Og til að toppa þetta þá voru Biscan og Traore bestu mennirnir. Við getum ekki beðið um mikið meira 🙂

12 Comments

  1. Þessi leikur var öruggur allan tímann! Mér fannst meira vera spurning um hvenær LFC skoraði aftur en hinir að jafna. Ég get varla gert upp á milli leikmanna í þessum leik en ég var fjandi hrifinn af Traore í bakverðinum. Hann verður vonandi áfram hjá okkur sem og Biscan en þeir áttu stórleik. Carragher var þéttur eins og ávallt og Hyypia einnig. Æji, ég get ekki tekið svona menn út þar sem það er óréttlátt þar sem liðsheildin skapaði þennan örugga 0-1 sigur. Frábært!

  2. Djöfull var þetta mikilvægur sigur!!! Áttum þetta svo sannarlega skilið miðað við fyrri viðureignina á Anfield!

    Gaman að sjá þjálfara Depor á svipinn reglulega, eins og hann væri með hægðatregðu. Liverpool sýndu mikinn karakter í þessum leik og það er meira en að segja það að taka öll 3 stigin gegn þessu liði sem komst í undanúrslit í fyrra í þessari keppni!

    Traore, Biscan og Hyypia menn leiksins að mínu mati! Rafael er að sýna okkur hversu magnaður þjálfari hann er með því að virkja þessa leikmenn sem flestir voru búnir að afskrifa (þ.m.t. ég líka).

    Munum síðan að versla við Atlantsolíu kæru púllarar!!!!

  3. Þvílíkur leikur hjá Biscan. Alveg ljóst sem ég sagði hérna áður að hann á skilið mun meira en að sitja á bekknum fyrir Diao og Hamann. Nú seljum við Diao. Einnig verðum við að losa okkur við Riise fljótlega, afleitur leikmaður. En þvílíkur munur að sjá Liverpool liðið eftir að Húlli fór og Heskey og Owen fóru úr sókninni. Ég myndi aldrei skipta á Owen og Baros. Þvílíkur gæðamunur. Frábær leikmaður Baros. Djöfull er ég líka að fíla Kirkland, klárlega markvörður í meistarliði. Svona spauglaust, sjáið þið einfætta harðsperrunorsarann Riise fyrir ykkur sem miðjumann á vinstri vængnum í meistaraliði? Mynduð þið vilja kaupa hann ef hann léki með öðru liði en Liverpool? Djöfull held ég að Rafa eigi eftir að selja hann eins og rottu í rúgmjölsverksmiðju.

  4. Tilvitnun í Kristján:
    “við erum nú á toppnum í riðlinum með 7 stig”

    Ehh, við erum nú reyndar í öðru sæti á eftir Olymiakos. Þó við séum með betra markahlutfall þá eru það innbyrgðisviðureignir sem telja fyrst 😉 …ég veit að þetta er titlingaskítur hjá mér, en rétt skal vera rétt :tongue: 😉 🙂

  5. Ég fór líka að spá í það, Depor á alveg séns ennþá.

    Þeir verða reyndar að vinna báða leiki sína, og fá þá átta stig. Ef við vinnum báða okkar leiki, og Depor sína báða, þá eru þeir áfram ásamt okkur. Myndu þá enda með 8 stig, einu meira en Olympiakos og tveimur meira en Monaco. Ég veit að þetta er erfitt fyrir þá og þeir þurfa að treysta á okkur líka, en ekki bara sjálfa sig, en þetta er alveg möguleiki fyrir þá.

  6. varð einhver annar en ég hræddur þegar kirkland rotaðist???
    úff hvað ég sá fyrir mér enn ein meiðslin hjá þessum snilldarmarkmanni… en drengurinn stóð bara upp og kláraði leikinn eins og ekkert hafi í skorist… :biggrin2:

    en í alla staði frábær leikur… útisigur og það á spáni… verður vart betra 😉

  7. Já, það var rosalegt að sjá endursýninguna á því þegar hann rotaðist. En þarf pottþétt þurft meira en smá meðvitundarleysi til að Kirkland fari útaf vellinum. Hann *ætlar* sko að halda sinni stöðu.

    Og “Baros”. Mæli með því að menn skrifi undir nafni. Þú kemur með góð innlegg hérna og því engin ástæða til að skrifa ekki undir nafni 🙂

    Annars er ég ósammála því að Riise sé svona slappur. Mér hefur einmitt fundist hann hafa spilað vel á þessari leiktíð fyrir utan þennan leik gegn Deportivo.

  8. Tek undir það Einar. Mér hefur fundist Baros vera einn þeirra sem hefur komið hvað mest á óvart í haust. Hann brilleraði framan af hausti í bakverðinum og minnti mann á það hvernig hann lék fyrsta tímabilið sitt fyrir okkur. Síðan var hann færður á kantinn og hefur skorað þar tvö mörk og búið til nokkur í viðbót. Það er frábær frammistaða, að mínu mati.

    Ég myndi segja að hann hafi verið ágætur í gær, en ekkert súper. Þá fannst mér hann hreinlega slappur í tapleiknum gegn Chelsea. Að öðru leyti hefur hann verið rosalega góður í hverjum einasta leik. Frábært að sjá hann vera kominn á svona skrið…

  9. Riise er enginn heimsklassa leikmaður en hann er mjög frambærilegur bakvörður. Sem kantmaður er hann þokkalegur en ég tel samt að við ættum alls ekki að selja hann. Frábært að Traore sé sýna okkur það hvað Houllier sá í honum og greinilega Rafa einnig því ekki vildi hann selja hann heldur. Ennfremur að Biscan sé LOKSINS farinn að spila eins og sá leikmaður sem öll stórlið evrópu vildu kaupa á sínum tíma.
    Tel samt að við verðum að fá 2 kantmenn til okkar, líkt og Duff eða Robben hjá Chelsea. Kewell hefur verið arfaslakur, Garcia sýnir takta inná milli en okkur vantar meiri breidd á kantana. Hvað varðar Smicer þá verður hann aldrei meira en varaskeifa í liði sem ætlar sér meistaratitillinn!!!

    Bottomline: Frábær sigur og gríðarlega mikilvægur! Þá er það bara næsti leikur í deildinni og hann verður að vinnast… Keep up the good work guys… topp síða!

  10. Það má nú samt ekki gleyma því að Depor voru djöfulli slappir í þessum leik. Okkar menn fengu oft á tíðum að dúlla sér með tuðruna á miðjunni án þess að fá alvöru pressu á sig. Þeir voru enda farnir að hengja haus snemma í leiknum sem soldið lýsti þeirra leik. En það leikur náttúrulega enginn betur en andstæðingurinn leyfir og allt það. Ég held við höfum svosem alveg not fyrir Riise áfram þó svo að hægri fóturinn á honum sé nú bara til stuðnings og djöfull var gaman að sjá Traore rúlla upp sínum manni trekk í trekk. Biscan frábær, Carragher góður og Hamann gerði það sem hann er langbestur í að gera. Það er akkúrat í svona leikjum sem er gott að hafa Hamann. Baros góður en Kewell og Garcia fundu sig ekki alveg í þessum leik. Hvað finnst ykkur annars um Kewell er hann ekki að passa í þetta lið eða hvað. Hvers vegna fáum við ekki að sjá gamla Kewell sem var að brillera með Leeds um árið. Það vita allir að hæfileikarnir eru til staðar en þeir bara koma ekki nógu reglulega í gegn. Væri frábært að sjá hann springa út núna. En frábær úrslit og frábær síða. :biggrin2:

  11. Takk, Kristinn.

    Varðandi Kewell, þá hefur maður sífellt meiri áhyggjur af honum. Það virðist eitthvað vera að. Ég er þó algjörlega á móti þeim, sem hafa verið að rakka niður Kewell á þessu tímabili.

    Það er spurning hvort sjálfstraustið sé eitthvað að bjaga hann eftir öll þessi meiðsli. Benitez verður allavegana að komast að því hvað er að hjá honum og reyna að leysa úr þeim málum. Við vitum öll hvað Kewell getur gert. Þegar hann spilar einsog hann best getur eru hann í algjörum heimsklassa. Vandamálið er bara að það er ansi langt síðan hann átti toppleik.

    Þetta er verðugt verkefni fyrir Benitez og víst hann getur fengið Traore og Biscan til að spila vel, þá er ég sannfærður um að hann nái meira útúr Kewell. 🙂

Deportivo í kvöld!

Manchester