Liverpool 4-1 Luton

Liverpool vann góðan og þýðingarmikinn sigur á Luton í deildarleik í kvöld. Liðið er nú sem stendur fjórum stigum á undan Man City sem eiga þó leik til góða og munu ekki geta náð Liverpool um helgina þó Liverpool spili ekki vegna úrslitaleiks Deildarbikarsins.

Mörkin
0-1 Ogbene 12.mín
1-1 Van Dijk 56.mín
2-1 Gakpo 58.mín
3-1 Luis Diaz 71.mín
4-1 Elliott 90.mín

Hvað réði úrslitum?
Liverpool var í raun allan tíman með yfirhöndina í leiknum og byrjuðu bara strax að banka á dyrnar hjá Luton og gerðu sig nokkuð líklega til að skora. Það var svo hins vegar ein sókn Luton sem endaði með marki þegar skot úr þröngu færi skoppaði af Kelleher í markinu og sóknarmaður Luton náði að skora af stuttu færi. Luton hafði ógnað með skyndisóknum en þetta var nú töluvert gegn gangi leiksins.

Áfram reyndi Liverpool og bjó til fullt af ágætis augnablikum en náði ómögulega að ná almennilegri loka snertingu í teignum til að láta það telja. Luis Diaz átti eflaust einhver tíu nokkuð stór augnablik sem hann hefði átt að/getað skorað en tókst það ekki.

Liverpool var undir í hálfleik en byrjaði seinni hálfleikinn af gífurlegum krafti og með hausinn betur skrúfaðann á. Snemma í hálfleiknum jafnaði Liverpool loksins þegar góð hornspyrna Alexis Mac Allister rataði beint á Van Dijk sem stangaði boltann í netið, tveimur mínútum síðar fattaði Mac Allister greinilega að það væri góð leið til að búa til mark með því að þruma boltanum í höfuðið á stórum hollenskum leikmanni en hann fékk boltann frá Bradley og hamraði hann inn í teiginn á Gakpo sem skoraði með kraftmiklum skalla og Liverpool komið yfir.

Áfram hélt Liverpool að herja á Luton og ætluðu svo heldur betur að klára þetta alveg. Loksins skoraði Luis Diaz gott mark þegar hann slapp inn fyrir eftir bolta frá Andy Robertson og virtist miklu fargi létt af honum. Það var svo Harvey Elliott sem skoraði fjórða markið með flottu skoti eftir að boltinn barst til hans eftir að varnarmaður rétt náði að stöðva stungusendingu Jayden Danns, sem kom inn á í sínum fyrsta leik, á Gakpo.

Þrátt fyrir að vantaði mikið í sóknarleik Liverpool þá sköpuðu þeir sem spiluðu sér töluvert af færum sem var frábært og ef það hefði ekki verið málið hefði Liverpool ekki náð að bregðast svona vel við því að hafa lent undir og í raun svörunin við fyrsta markinu var til fyrirmyndar og Liverpool notaði momentum-ið vel.

Quansah og Van Dijk voru flottir í vörninni, Kelleher kannski pínu óheppinn í markinu en gerði annað vel. Conor Bradley fannst mér frábær, kannski seldi sig smá í marki Luton en bætti það upp með frábærum sóknartilþrifum og var í raun mjög óheppinn að skora ekki í kvöld. Gomez var flottur í vinstri bakverði og færði sig svo í hægri bakvörðinn og gerði það bara jafnvel enn betur. Gravenberch kom flottur inn af bekknum gegn Brentford og hélt uppteknum hætti í dag, það er hellingur í þessum strák og við viljum sjá meira af þessari útgáfu af honum!

Diaz var virkilega líflegur en klúðraði rosalega mikið, hann hætti þó aldrei að reyna og var mjög ógnandi og skoraði verðskuldað mark. Liverpool þarf hann í stuði á næstunni og flott að sjá hann svona – þó hann megi nú alveg nýta þessi færi sín betur!

Elliott var á margan hátt fínn en líkt og Diaz var hann stundum pínu að klúðra loka touchinu hjá sér en átti samt ekkert slæman leik og var sífellt að reyna og var í leikstjórnandahlutverki. Gakpo var flottur fannst mér, tók vel til sín en var kannski stundum aðeins of aftarlega fannst manni í fyrri hálfleik en heilt yfir solid.

Tveir bestu menn Liverpool í dag voru þó klárlega fannst mér þeir Endo og Mac Allister sem voru óaðfinnanlegir á miðjunni. Geggjaðir í hápressunni, hófu margar efnilegar sóknir, Mac Allister með tvær geggjaðar stoðsendingar og Endo óheppinn að hafa ekki bara endað með eitthvað svipað. Þeir eru virkilega góðir saman.

Danns kom inn af bekknum og hafði strax áhrif á leikinn með þessari stungusendingunni sinni, hann virðist nú eiga eitthvað í land með líkamlega partinn á þessu leveli en flottar hreyfingar hjá honum og gott að hann geti gengið mjög stoltur af velli með þessa innkomu sína. McConnell kom sömuleiðis inn á og var líflegur, líkt og Bobby Clark sem ég er að fíla svona inn af bekknum – minnir mig nokkuð á Milner í því hlutverki sem er mikið hrós. Robertson var sömuleiðis mjög góð skipting fannst mér.

Gæðamunurinn á liðunum var í raun það sem stóð upp úr – jafnvel þó það vanti næstum heilt byrjunarlið í þetta Liverpool lið!

Hvað þýða úrslitin?
Liverpool er með fjögurra stiga forskot á toppnum og komst í gegnum mikla hindrun í dag. Luton hafa reynst mörgum liðum ansi erfiðir og að mæta þeim með svona laskað lið var klárlega pínu óþægilegt en liðið leysti það bara frábærlega. Greinilega frábær andi í hópnum og allir þarna tilbúnir að leggja allt sem þeir geta af mörkum til að ná árangri. Man City og Arsenal eiga leik til góða og munu spila um helgina en geta þó ekki náð Liverpool í þeirri umferð.

Hvað hefði betur mátt fara?
Sleppa þessu óþarfa marki sem liðið fékk á sig, augljóslega. Já, og að klára þessi færi. Í raun var ekki mikið sem Liverpool gerði eitthvað sérstaklega illa í leiknum annað en bara það að hafa ekki klárað hann fyrr og hafi þurft að vinna svolítið fyrir sigrinum með því að lenda svona undir.

Næsta verkefni
Úrslitaleikur í Deildarbikarnum gegn Chelsea á Wembley um helgina. Fyrsti af vonandi fjórum titlum í boði á leiktíðinni!

46 Comments

  1. Mæli með að þið skoðið vælið í síðustu færslu og leggið á minnið nöfnin haha.

    Mætti halda að menn hafi aldrei horft á liverpool leiki áður!!

    Sturlaður sigur og þvílík barátta allan leikinn!!

    Það verða líklega bara svona 15 comment hér

    31
    • Eitt sem sumir eru ekki að sjá og virðast ekki geta lagt á minnið. Liverpool liðið er í STURLUÐU formi og ef lið sýna mótþróa og baráttu í byrjun… andið aðeins því á 65 min í öllum leikjum er andstæðingurinn bugaður og við rétt að byrja.

      Fótboltaleikir eru 90 min! Ekkert lið betra en við í seinni

      3
  2. Þungir í fyrri, frábærir í seinni. Engin meiðsli, þrjú stig, sáttur!

    12
  3. Elliot maður leiksins fyrir mér algjörlega frábær þessi drengur hættir aldrei og hengir aldrei haus !
    Frábær innkoma hjá Robbo en ungu strákarnir stálu kvöldinu fannst mér bara overall frábærir.
    Fyrirliðinn braut ísinn með frábærum skalla.
    Gakpo og Diaz gáfust aldrei upp og fengu mörkin sín !

    Áfram gakk !!!!

    YNWA

    13
    • mögulega manna bestur í seinni hálfleik.

      Gat ekkert í þeim fyrri.

      3
      • Gátu samt einhverjir mikið í þeim fyrri ? 🙂
        Tek ekkert af Mac samt algjörlega frábær líka þetta var bara mitt persónulega val.

        2
      • Jebb Mac Allister og Endó voru góðir í fyrri. Liverpool voru sterkara liðiðí fyrri hálfleik og Luton ljónheppnir að vera með forskot.

        Klopp talði um eftir leik að liðið hafi einunis spilað illa efst á vellinum í fyrri hálfleik.

        Elliott og Gakpo voru slappir í fyrri hálfleik. Diaz var heldur ekki góður þrátt fyrir að vera síógnandi þá fór hann illa með færin.

        Mac Allister maður leiksins að mínu mati. Endo og VVD frábærir.

        En vissulega var Elliott frábær í seinni hálfleik.

        Hann búinn að eiga margar góðar innkomur í vetur en oft valdið vonbrigðum þegar hann byrjar. Maður finnur þó að það styttist í að hann nái upp stöðugleika í leik sínum.

        5
  4. Þrjú orð:
    Virgil
    Van
    Dijk

    Það sem fyrirliðinn okkar er mikilvægur.

    Frábært hjá liðinu að koma til baka eftir lélegan fyrri hálfleik.

    Áfram Liverpool!

    22
  5. vill bara minna menn á að leikurinn er allavega 90 mínútur ! Þetta lið sem við elskum hefur OFT komið tilbaka í seinni hálfleik, og gerðu það enn og aftur í kvöld. Glæsilegur seinni hálfleikur, engin meiðsli og sigur. ALLT SEM ÞARF !

    13
  6. Frábær sigur, virkilega góður seinni hálfleikur. Liðið ólíkt stuðningsmönnum missti ekki trúna.

    Minn maður leiksins er Virgil van Dijk. Sannur leiðtogi þó margir vilji meina annað.

    Áfram Liverpool og áfram Klopp!!!

    11
  7. Gakpo markið minnti mig meira en lítið á hið sögufræga „corner taken quickly”!

    12
  8. Enn einn frábæri endurkomu sigurinn. Menn skiptu um gír enn og aftur í seinni hálfleik, nú með tvo fljúgandi Hollendinga. Enginn sjáanleg meiðsl núna og maður varla trúir því.

    14
  9. Sælir félagar

    Jæja þetta hafðist og ekkert nema gott um það að segja. VvD, Endo og Mac bestu menn liðsins en Diaz og Elliot bættu sig verulega í seinni. Þetta bananahýði skrapp undan liðinu og það náði jafnvægi og eftir jöfnunarmark VvD var þetta í raun og veru aldrei spurning. Krakkarnir komu verulega sprækir inn í kringum 85. mínútu og settu mark sitt á leikinn í orðsins fyllstu merkingu með því að búa til mark fyrir Elliot. Niðurstaðan góður sigur og góð 3 stig þrátt fyrir vægast sagt ömurlegan fyrri hálfleik. En sigur í höfn og ég þakka liðinu mínu fyrir það og karakterinn sem liðið sýnir með meiðsla lista sem ekki hefur átt sinn líka hjá neinu liði eftir áramót.

    Það er nú þannig

    YNWA

    14
  10. Þetta minnti á Passíusálm í fyrri hálfleik, ég viðurkenni það að ég var vel svartur. En hrósa þeim sem höfði trúna!

    10
  11. Svo má bæta því við að það var fjórföld gæsahúð að sjá Klopp fara að öllum 4 stúkunum með “þrefaldan hnefa”!

    17
  12. Það er hægt að setja tvo kjúklinga á miðjuna þegar maður hefur einn Endo til að passa upp á þá.

    9
  13. Þetta lið! Alveg einstakt, hvernig sem hlutirnir fara á næstu mánuðum.

    Barkley hefur verið einn besti maður Luton í allan vetur en maður var ekki mikið var við hann í þessum leik, þökk sé stríðsmönnunum Endo og .Mac Allister á miðjunni.

    Svo hef ég lúmskt gaman af Gravenberch, vinnur boltann ansi oft með sínum löngu leggjum og nær að hefja skyndisóknir en vissulega dró af honum þegar leið á leikinn.

    4
  14. Tek hátt minn ofan fyrir Luton sem spiluðu fótbolta og komu á Anfild til að vinna. Vona að þeir haldi sér uppi. Frábær sigur

    8
  15. Já já jaaaaaá!
    Ef frá er talið þetta eina slys þá var leikurinn alger eign Liverpool.
    Skil ekki hvernig við fengum ekki víti, en það skipti á endanum ekki máli.
    Áfram þrömmum við…….haltrandi í áttina að titlunum.

    YNWA

    6
  16. Sælir aftur félagar

    Þó Liverpool liðið hafi verið skárri aðilinn í fyrri hálfleik þá ógnuðu þeir marki Luton lítið aðallega vegna klaufagangs í Diaz og Elliot. Ég hafði því töluverðar áhyggjur af leiknum í hálfleik ekki síst þar sem bekkurinn var gríðarlega þunnur. Einnig fannst mér vanta nokkuð uppá fótbolta hugsun hjá Diaz og Elliot og Gagpo einhvern vegin alltaf aðeins of seinn. Að horfa á bekkinn var ekki uppörvandi. Engir sóknarmenn (ath. þó Robbo?!!!) á bekknum og aðrir bara unglingar, litlir og léttir

    Ég veit ekki alveg hvað Klopp getur gert við liðið sitt í leikhléum svona yfirleitt. En ennþá einu sinni getur hann með sitt laskaða lið gefið þvílíka trú að það kemur marg eflt inn í seinni hálfleikinn. Þessir galdrar Klopp eru svo magnaðir að ég hefi hvergi, í nokkru liði, séð annað eins. Hvílíkur stjóri og snillingur sem hann er. Það er líka svo að þegar leikmenn fara frá Liverpool skila þeir aldrei nema hluta af því sem þeir skiluðu hjá KLopp. Þvílíkur maður og þvílíkur stjóri. Vonandi verður Alonso svipaður þegar hann kemur.

    Það er nú þannig

    YNWA

    14
  17. Sæl og blessuð

    Vá hvað þetta var gaman, ánægjulegt, frábært. já og skemmtilegt.

    Ég leyfði mér að halda haus þótt það hafi blásið á móti í fyrri hálfleik. Minnti angistarfulla kop-verja á að svona staða hefði oft verið í vetur. Svo fá þeir knús eða hárblásara eða blöndu af þessu tvennu í leikhléi og sýna sitt rétta andlit í þeim seinni. Svo er það ekki lítið álag að liggja svona í vörn gegn ógnarsterku Liverpool liði. Luton menn voru orðnir dauðuppgefnir þegar leið á seinni hálfleikinn.

    Ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn í úrslitaleiknum á sunnudaginn!

    Geggjað!

    6
  18. Hér er brot af umræðunni á stuðningsmanna síðu Liverpool meðan á leik stóð. Þetta minnti á umræðuna hér á síðunni síðast liðið haust þegar liðið hikstaði í byrjun leikja en kom alltaf til baka.

    “ Hvað var vörnin að gera þarna” Helvítis drulla sem þetta er. Skammarlegt. Þá á ég sérstaklega við að liðið er hreint út sagt hörmulegt í færanýtingu. Þetta eru bara hálffæri. Menn eru að skjóta héðan og þaðan án þess að meina það. Búið , city klárar þetta. Búið , city klárar þetta. Geta ekki neitt. Í besta falli niðurlægjing. ótrúlegir flækjufótar, geta ekki klárað færi….. Þetta er ekkert eðlilega dapurt. Þetta eru meiri kaupin á þessum Gapko. Pælið í því að þeir taka skotæfingu á hverjum degi…. Kominn tími á að fara hitta rammann!! Af hverju eru Hollendingarnir (í sókninni) svona lengi að öllu? Ég brjálast ef Luton vinnur þennan leik! Vantar alla ákefð í Gakpo. Urgh! Eða Elliot, guð minn góður. Sorglega lélegt. Elliott, Gravenberch, Gakpo, Diaz bara virkilega lélegir, með lélegar sendingar, lélegar móttökur, léleg skot og slæma ákvarðanatöku. Þetta lítur bara alls ekki vel út því við höfum ekkert á bekknum. En ég neita að trúa því að þetta sé leikurinn þar sem liðið stimplar sig út, á móti Luton á heimavelli. Koma svo girða sig í brók djöfullinn hafi það! Það er nottla ekki í lagi hvað Diaz og Elliot eru með lélegan fótboltahaus. Hlaup og djöfulgangur ásamt endalausu og tilgangslausu klappi á boltann skila engu nema þreytu og pirringi. Taka Elliot útaf strax og setja Robbo inná og Diaz yfir á hægri, þá kemur ef til vill einhver fótboltahugsun í sóknaraðgerðir liðsins. Mac og Endo langbestu menn liðsins í fyrri og svo vona ég að Bradley fari að gera eitthvað þegar Elliot verður farinn útaf. Þetta er hreint út sagt búið að vera skelfilegt. Það er bara engin ógn frammávið, alveg steingelt. Leiðinlegt að Klopp endi sinn tíma hjá Liverpool með því að tapa deildinni og mögulega bikarkeppni svona á lokametrunum. Og þó að það sé mikið af góðum leikmönnum hjá okkur(Sem því miður virðast allir vera meiddir akkúrat núna og mögulega leikjaálagi um að kenna)þá því miður er hann að aldrei að fara vinna eitthvað með svona drasl sem er boðið uppá í þessum leik. Elliot er super sub, hefur aldrei gert neitt sem starter. Gakpo er kötturinn í sekknum. Gravenberch er ungur en alls ekki nógu góður.Þegar 11 manns eru meiddir þá eru ekki miklar líkur á að liðið geri eitthvað. Því miður. Titillinn er farinn, vegna meiðsla. Lið sem vinna titla vinna í meiðslalottóinu og við erum ekki einu sinni með miða í því lottói. Hræðileg frammistaða, þeir Gagpo og Gravenbread eru bara ekki með þetta. ÞAÐ ER ENGINN HÉR INNA AÐ FARA AÐ SKORA !!!!!!! ÞVÍ MIÐUR

    Það klóm einn með smá jákvæðni !!

    “Jæja hversu, hversu, hversu oft höfum við lent undir í leikjum í vetur? Þetta er ekkert nýtt. Höfum verið með okkar sterkasta hóp og fengið á okkur mark. Ekkert rugl núna. Hökuna upp og áfram gakk. 45 mínútur til að sýna hvað í okkur býr. Hef trú á þessu!

    Og leikurinn vannst 4-1 !!!!

    “Jæja, sum kommentin líta nú ansi illa út. Svo kalla þessir menn sig stuðningsmenn. Heimta Elliot útaf, drulla yfir Gakpo og Diaz, blása tímabilið af o.s.frv….Ussuss þvílíkir pappakassar

    Fokking væl herna!!!!
    TRÚA AÐEINS
    BOOM

    Ég trúði varla mínum augum þegar ég las þetta eftir leik. Hafa stuðningsmenn okkar ekki fylgst með Liverpooli vetur. Ég fer ekkert ofan af því en þetta er einstakur og ótrúlegur sigur fyrir Klopp og Liverpool og verður sennilega vendipúnktur tímabilsins þegar við lítum til baka í vor og leggur grunnin að sigri í deildinni. Ég elska einmitt Liverpool fyrir svona frammistöður. Maður kemur í manns stað og heildinn vinnur að lokum. Þessi sigur var langsóttur en sætur. Áfram Liverpool. Stuðningsmenn TRÚA !!!

    41
    • Las ekki comment yfir leiknum en sé núna nokkra gagnrýna neikvæð comment. Þetta fylgir spennunni að horfa á leikinn og að vera stuðningsmaður. Fólk að pústa og vera með í pirringi að vera fokking 1núll undir á móti Luton á Anfield. Saka svo fólk að vera ekki sannur stuðningsmaður er hreinlega glatað. Væru ekki inná kop.is ef þeir væru það ekki. Fólk kannski eitt heima að horfa og tekur þátt og segir hluti í hita leiksins. Þýðir ekki neitt og er partur af leiknum. Get of your fucking high horse!

      12
      • Mér finnst þetta ákaflega lúalegt hjá Guðmundi. Þetta er síða þar sem fólk fylgir liðinu sem það elskar, gegnum súrt og sætt, deilir sigrum og sorgum, upphrópunum og æsingi í hita leiksins. Hvers konar mannleysa er það sem fær kikk út úr því að gera lítið úr öðru fólki?

        9
      • Algjörlega sammála. Fólk hefur rétt á neikvæðninni og algjör óþarfi að troða orðum aftur ofan í menn þó liðið slysist til að vinna einn fótboltaleik.

        Mjög eðlilegt að sumir missi trúnna á verkefninu þegar llðið er undir í hálfleik.

        Skiptir þá engu máli þó Liverpool sé það lið sem oftast hefur komið til baka og unnið leiki eftir að hafa lent undir.

        Í hálfleik var bara eðlilegt að menn vildu tanka tímabilinu þrátt fyrir að liðið sé á leið í úrslitaleik um helgina gegn hinu ógnarsterka Chelsea liði.

        Amk verður maður tilbúinn að ríða fram á ritvöllinn og afskrifa möguleika okkar ef Chelsea komast yfir í þeim leik (er þegar farinn að sjá það gerast).

        Þess utan erum við bara með 4 stiga forskot á toppnum. City eiga samt leik inni og eru alltaf að fara að vinna þessa deild.

        Nánast óþarfi að spila rest.

        Einhverjir voru reyndar tilbúnir að afskrifa tímabilið í júní þegar þeim þóttiljóst að Mac Allister yrðu einu sumarkaupin. Úbbs nei ég ætlaði ekki að rifja það upp. Ósmekklegur getur maður verið.

        11
      • Allt saman hárrétt samantekt, svona eins og að skrifa söguna sjálfa áður en hún gleymist.
        Svo dæmir sagan um það hver hefur rétt fyrir sér; eins og hérna.
        Þessi eini sem benti á fyrri stöður í leikjum Liverpool í hálfleik – í hálfleik – ekki á 85. mín., hann hafði rétt fyrir sér.
        Hinir neikvæðu verða að þola gagnrýni – , þó þeir hafi haft rétt fyrir sér eftir 45 mín. og séu
        örugglega jafn góðir stuðningsmenn og við hin.
        Sigkarl er undanskilinn í þessu, hann er eins og prestur á leið á Kirkjuþing, þungur og áhyggjufullur í byrjun dags/leiks en fer heim sæll, glaður og kenndur í lok dags.
        Ég hef gaman af karlinum…
        Hinir verða að læra eitthvað heima um fótbolta á Anfield.

        10
      • Stuðningsmenn eru allskonar fólk sem hefur það þó sameiginlegt að það ber miklar tilfinningar til liðsins síns. Sumir hafa engann til að tala við þegar eitthvað gerist hjá liðinu t.d. við mótlæti og slæmir kaflar. Svo er líka mjög miklar líkur á að stuðningsfólk liða sèu miklar tilfinningaverur, hvað þá Liverpool stuðningsmenn. Afhverju má fólk ekki losa um tilfinningar í hita leiksins hèr í þessu samfèlagi án þess að verða fyrir aðkasti?

        6
      • Það var ekki tilviljun að Klopp hafði það markmið að breyta okkur “from doubters to believers”. Ansi margir sem efuðust og enn einhverjir eftir

        Hann náði ekki að snúa öllum en vonandi að hann nái að gera það á lokametrunum.

        Takk Klopp.

        5
      • Sko, …

        Það eru vafalaust allir hérna sannir stuðningsmenn (hef ekki fyrir því að setja gæsalappir utan um sannir en gætu vissulega gert það).

        En þið þessi sífellt arfa neikvæðu í miðjum leik, erum við hin og þá sérstaklega sameiginlegir vettvangar okkar virklega allsherjar ruslakista fyrir ykkur hin?

        Í alvöru? Ég segi fyrir mig ég fæ ekkert persónulega upplífgandi frá ykkur!!

        3
    • Ég sagði eftir mark Luton hvað vörnin hefði verið að gera þarna..þetta er ekki drull á neinn einn leikmann bara eðlileg spurning í hita leiksins. Ég nefndi svo einmitt í hálfleik “Ragnar H 21.02.2024 at 20:26
      Höfum átt helling af slæmum fyrri hálfleikjum þetta tímabil.
      Þeir hafa 45+ til að vinna þetta.
      Þurfa vanda sig betur þegar þeir eru komnir í álitleg færi.
      Robbo kemur inná og vonandi lifnar yfir þessu.
      Ekkert að koma frá Gomez vinstra meigin því miður og þeir hafa lokað á Bradley líka þetta var steingelt framávið fyrir utan eh hálf takta hjá Diaz og skot fyrir utan teig.
      Þetta er ekki búið.”

      Vill meina ég hafi einmitt verið að koma með jákvæðan póst þarna þrátt fyrir að vera marki undir gegn Luton en þú varst ekkert að minnast á það.

      Að öðru stuðningsmenn Liverpool hafa fullt leyfi til að segja hvað þeim finnst það er málfrelsi styð ekki sjálfur persónulega þegar það er verið að drulla yfir staka leikmenn en ég ætla ekki að fara gera ritgerð um það.

      Góðar stundir.
      YNWA

      8
    • Ég vil biðja félaga mína hér á síðunni afsvökunar sem ég hef sært með skrifum mínum. Það var alls ekki meiningin heldur meira að benda á þá kátbroslegu staðreynd hvernig við stuðningsmenn bregðumst við í mótlæti og þar er ég ekki undanskilinn. Ég skal bara fúslega viðurkenna að ég var í algerum baklás í hálfleik og hafði ekki mikla trú á verkefninu en þetta lið okkar kemur okkur sífellt á óvart. Ég lét ýmislegt flakka í orðum í fyrri hálfleik og var neikvæðnin uppmáluð í hálfleik. Fékk meðal annars athugasemdir þess vegna frá konu minni og börnum. Ég á bara efstu tvær línur í þessum texta svo og síðasta hlutan. Allur annar texti er skrifaður af stuðningsmönnum og sýnir að það er betra að draga djúpt andann og slaka á áður en maður ýtir á “send” hnappinn.

      8
  19. Þessi úrslit eru auðvitað bara frábær, ég er nokkuð viss um að allt Liverpool samfélagið fór inn í þennan leik á nálum. Það að lenda undir ætti svo bara ekki að koma nokkrum einasta manni á óvart, og engin ástæða til að fara að æsa sig fyrr en á 65-70. mínútu í alfyrsta lagi. Var það ekki á 85. mínútu sem liðið jafnaði gegn Fulham hér fyrir áramót og endaði svo á að vinna leikinn?

    Ég var líka sérlega hrifinn af fagninu hjá Virgil eftir jöfnunarmarkið. Ein góð “hnérenna”, og svo bara hlaupið til baka til að taka miðju, með nokkrum vel völdum hvatningaröskrum inn á milli. Þarna var greinilega fyrirliði á ferð, einn sem ætlaði að bæta fyrir klúðrið gegn Arsenal og sá sem dregur vagninn ásamt því að hvetja menn til dáða.

    Einn leikur í einu. Nú þarf bara að taka góða endurheimt, enda ljóst að það verður lítið hægt að rótera á sunnudaginn, og svo er bara að fara á Anfield South til að sækja fyrsta bikar tímabilsins. Auðvitað vill maður fá Salah og Nunez til baka fyrir þann leik, en smá skilaboð til læknateymisins: það að gefa þeim aðeins meiri tíma og hafa þá í staðinn heila á lokasprettinum er mun mikilvægara en þessi eini leikur. Jafnvel þó það sé deildarbikarúrslitaleikur.

    13
  20. Erfiður fyrri hálfleikur en þessi endurkoma sæll er sammála þessari umræðu það er einginn eins Klopp það sem hann nær úr þessum mönnum er ævintýralegt bara gleði og gaman eftir svona leiki ég og yngsti fórum syngjandi í bólið

    2
  21. Var bara sorgmæddur í hálfleik, þetta var eitthvað svo umkomulaust og dæmigert, nýttum ekki færin og þeir nýttu sitt. Sá fram á að titil vonirnar litlu yrðu að engu á heimavelli á móti liði í fallbaráttu og þessir drengir eiga það bara ekkert skilið að þetta færi svona.
    En svo kom þessi seinni hálfleikur og maður minn hvað það var gaman.
    Vel gert, vel gert.

    4
  22. Sá bara seinni hálfleik og mikið var ég ánægður að sjá liðið bregðast við hálfleiksræðu þjálfarans, miðað við ummælin þá var full þörf á.
    Það er alls ekkert sjálfgefið að taka 3 stig í þessari deild, sama þó það sé á Anfield og hvað þá í svona meiðslavandræðum sem að við erum í.
    En strákarnir stóðu sig frábærlega og vonandi fáum við allavega Salah og Nunes fyrir helgina, Szobozlai væri líka meira en velkominn.

    En einn leik í einu og það er nóg af úrslitaleikjum eftir.

    3
  23. Jahérna hér….. Guðmundur Einars, Olgeir og fleiri “gúddígæs” – hvílík og önnur eins samantekt! Þetta er nú meira djö….. vælið í ykkur! Veit náttúrulega ekkert hverjir þið eruð en eitt andartak fæ ég upp í hugann mynd að Bruno Fernandes hjá MU.

    Ég leyfði mér að setja inn athugasemd um hvort okkar menn ætluðu ekki að fara hitta á rammann þarna í fyrri hálfleik eins og ég gerði í gærkvöldi enda hvert skotið á fætur öðru ekki að reyna á markmann Luton. Enda sáu það allir (nema þið líklegast) hvað allt var þunglamalegt í fyrri hálfleik og Luton menn 0 – 1 yfir í hálfleik.

    Auðvitað verða menn pirraðir og láta ýmislegt flakka í hita leiksins og ég jafnvel þar með talinn en að þurfa svo í lok leiks að sitja undir einhverju kjaftæði um að hinir og þessir séu ekki sannir stuðningsmenn og setja sjálfan sig á háan hest í leiðinni er bara dapurt!

    Ég hef áður sagt það og segi það enn, ég er ævinlega þakklátur fyrir þessa síðu Kopverja og pistlahöfunda fyrir þeirra framlag þar sem við Púllarar höfum í gegnum tíðina gengið í gegnum súrt og sætt. Virkar eins og sálfræðimeðferð að fá að ausa úr skálum reiði okkar, pirrings, gleði og hamingu hér á þessari síðu þegar svo ber undir.

    Ég kveð ykkur að sinni, heyrumst vonandi allir kátir og glaðir þegar bikar lyft á loft næsta sunnudag. Föllumst svo í faðma þegar öðrum titli hampað í vor! :O)

    YNWA

    11
  24. Verð að vera sammála þeim sem voru að pústa í fyrrihálfleik (þó ég láti það vera í hita leiksins) – það er bara eðlilegt að vera hundfúll yfir stöðunni sem var í fyrri hálfleik og óþarfi að draga það eitthvað sérstaklega fram eftirá. Það er auk þess eitthvað vonleysi sem fylgir því að sjá að á bekknum var lítið af reynsluboltum sem líklegir væru til að laga leikinn.
    Ef menn eru viðkvæmir fyrir því að lesa þannig skrif, þá geta menn bara sleppt því að kíkja á athugasemdir sem augljóslega eru skrifaðar í hita leiksins – ég nenni allavega sjaldan að lesa slíkar athugasemdir.

    En þvílíkt lið sem við eigum, það er alveg magnað og ég ætla allavega að njóta þess í botn fram á síðustu stundu að hafa Klopp sem stjóra.
    YNWA

    6
    • Er þetta ekki bara tvær hliðar á sama peningnum?
      Ef menn láta stór orð flakka þá má búast við að einhver sé ósammála og hafi aðra skoðun og svari hér?

      Ef svarið sem þú færð er ekki að þínu skapi erum við sem erum örlítið þolinmóðri og jákvæðari þá vandamálið?

      Allir eiga rétt á sinnu skoðun og ef einhver er tilbúin að hrauna yfir leikmenn í byrjun leiks þá kannski verður viðkomandi að geta tekið einhverskonar mótbárum hér lika.

      En vonandi grátum við samt öll saman af gleði í lok tímabils
      Love

      8
      • Að mestu sammála þér, ég hef bara fyrir löngu ákveðið að láta neikvæðu raddirnar ekki fara í taugarnar á mér (þó það komi fyrir að ég svari þegar mér finnst hallað á góða menn) – ætli það sé þá ekki einhver meðvirkni í mér?
        En jú, vonandi grátum við af gleði nokkrum sinnum fram á vorið og í lok tímabils..

        3
  25. Í síðustu átta leikjum hefur liðið okkar fimm sinnum skorað fjögur eða fleiri mörk. Alls hefur liðið í þessum átta leikjum skorað 26 mörk, þar af 17 í seinni hálfleik, tæplega 2/3 markanna. Það má hafa þetta bakvið eyrað þegar pirringurinn í hálfleik er í hæstu hæðum

    11

Byrjunarliðið gegn Luton – þunnur hópur!

Gullkastið – Wembley um helgina