Ég fór semsagt á Old Trafford um helgina og sá City og United spila. Hér er atburðarrásin einsog ég man hana (skal þó tekið fram að það er mesta furða hversu slæm áhrif bjór hefur á minnið mitt).
- Fyrir utan Old Trafford. Ég er þarna til vinstri, rétt áður en mér varð óglatt vegna nærveru minni við þetta illa mannvirki.
**14:00**: Tökum leigubíl að Old Trafford. Leigubílstjórinn var ekki jafn skemmtilegur og sá, sem hafði keyrt okkur á hótelið daginn áður. Besta kvótið hans var: “*United. Aaaargh, don’t say that word here. Nobody supports United in Manchester.*”
**14:30**: Það er ljóst að til að undirbúa sig undir leiðindin, sem fara fram á Old Trafford er nauðsynlegt að drekka frá sér allt vit. Ég fer því með nokkrum ferðafélögum á “The Trafford”. Þar stendur með skýrum stöfum: “No away Fans”. Ég girði því Liverpool treyjuna (sem ég er í undir peysunni) oní buxur.
**14.40**: Steminingin á The Trafford er fín. United stuðningsmennirnir byrja að syngja eitthvað um 28 ár. Það er víst tíminn frá því að City vann titil.
**14.50**: Ég borða sennilega viðbjóðslegasta hamborgara allra tíma á götustandi fyrir utan völlinn.
**15.20**: Löggan stoppar mig og segir að ég verði að klára bjórinn áður en ég held nær Old Trafford.
**15.30**: Úff, illir straumar. Ég nálgast Old Trafford.
**15.32**: Ég skelli mér á Ladbrokers og veðja 22 pundum. 20 pund á að City vinni 2-1 og 2 pund á að Robbie Fowler skori þrennu. Ég meina hey, líkurnar eru 1 á móti 100.
**15:48**: Kominn inná Old Trafford í stúkuna fyrir aftan mark City.
**16:06**: Leikurinn byrjar.
**16:17**: Ronaldo tekur 16 skæri og missir svo boltann
**16.18**: Ronaldo tekur fjögur skæri og sendir boltann svo útaf.
**16.21**: Ronaldo tekur 2 skæri og varnarmaður City tekur svo boltann af honum. Man U stuðningsmenn eru ofboðslega hrifnir.
**16.50**: Fyrri hálfleikur búinn, ekkert hefur gerst. Ég fer niður og næ mér í meiri bjór til þess að seinni hálfleikurinn verði skemmtilegri.
**16.52**: Fleiri hafa hugsað einsog ég, því biðröðin er fáránlega löng.
**17.10**: Seinni hálfleikur byrjaður og ég enn í biðröð. Ég skal fá þennan helvítis bjór!!! Þegar loksins kemur að mér er hætt að selja bjór, en ég sannfæri gaurinn að selja mér síðasta volga bjórinn.
**17.15**: Man U stuðninsmennirnir byrja að öskra Rúúni, Rúúni, Rúuni. Stuttu seinna byrjar Shrek að hita upp. Hann kemur svo inná og getur ekki neitt.
**17.30**: Samkvæmt frásögnum manna eftir leikinn var víst víti á City en ég er alltof langt frá til að sjá það.
- Ég og íslenskur Man U aðdáandi á “The Trafford” eftir leikinn. Áfengið aðeins farið að segja til sín hjá mér
**17.36**: Annar af tveim geðskjúklingum í liði United, Alan Smith er rekinn útaf. United menn fagna gríðarlega því þeir halda að það sé verið að reka City mann útaf. Þegar Smith er búinn að hlaupa að hornfánanum, þá átta United stuðningsmennirnir á þessu.
**17.50**: 5 mínútum bætt við. Demento brjálaður yfir því að aðeins 5 mínútum hafi verið bætt við.
**17.57**: Leikurinn búinn, allir United menn brjálaðir. Fergie er búinn að missa touch-ið! Við erum með enga miðju! Af hverju er Nilsteroy í banni? Heinze er lélegur! Scholes er búinn að missa það! Saha getur ekki neitt! Smith er gagnslaus!.
Þetta eru allt afsakanir, sem ég heyri á næstu tveim tímum.
**18.15**: Ég ákveð að fara með United mönnum á The Trafford. Þar lendi ég í því að tala við skynsaman United stuðningsmann (sjaldséðir hvítir hrafnar) um kosti og galla liðsins.
**19.15**: Drykkjan og umræðurnar halda áfram. Fjörið heldur svo áfram langt fram eftir nóttu. Það er þó engin sérstök ástæða að rekja áframhaldið hér 🙂
he he he, tær snilld :biggrin2:
Þú átt alla mína samúð og ég vona bara að þú munir ná þér að fullu eftir þessa hrikalegu lífsreynslu. Það er alltaf gott þegar menn lenda í helv*** en eiga samt endurkvæmt. Vonandi að þú komist til himnaríkis fljótlega kallinn minn, ég er allavega á leið þangað í lok mánaðarins 😉
Komment fært [hingað](http://www.eoe.is/gamalt/2004/11/10/21.32.17)
Jamm, SSteinn, ég set stefnuna á Anfield mjög fljótlega. Það er náttúrulega fáránlegt að maður hafi aldrei komið þangað 🙂