Endurnýjun sóknarlínu Liverpool

Liverpool liðið á hátindi Jurgen Klopp sem stjóra var skipað einni allra bestu sóknarlínu í heimi, Salah, Mané og Firmino. Þeir báru auðvitað hvað mest ábyrgð á markaskorun liðsins en auk þess sluppu þeir betur en flestir samherja sinna við meiðsli sem er vanmetið mikilvægur partur af jöfnunni. Jafnvel þau tímabil sem Liverpool gekk illa var hægt að treysta á að sóknarlínan gerði sitt, leikur liðsins hrundi frekar aftar á vellinum.  Það er ekkert grín að endurnýja þessa sóknarlínu og líklega var ekki raunhæft að Liverpool myndi reyna að gera það með alveg eins leikmönnum. Því síður væri það endilega besta aðferðafræðin.

Það er engin ein rétt aðferð til að vinna titla. Liverpool liðið í vetur skoraði sem dæmi einu marki meira en Liverpool liðið sem vann deildina með 99 stigum árið 2020. Eins fékk liðið núna aðeins átta mörkum meira á sig en það lið. Þetta raðaðist bara ekki nógu vel yfir tímabilið. Vonlausa 67 stiga tímabilið 2022-23 skoraði Liverpool 75 mörk sem er ekkert algalið. En 22 af þeim komu í þremur leikjum þar sem Liverpool skoraði 6-9 mörk.

Hátindur liðsins og sóknarlínunnar var ca frá 2017-2022. Yfir þetta fimm ára tímabil spilaði Salah 87% deildarleikja Liverpool, Mané 80% og Firmino 72% Þessir þrír leikmenn komu að meðaltali að 70 mörkum á ári með beinum hætti yfir heilt tímabil (mörk og stoðsendingar). Hluti af því eru auðvitað stoðsendingar frá þeim á annan sóknarmann.

Þetta er flott tölfræði fyrir þá en það voru líka veikleikar sóknarlega á liðinu annarsstaðar fyrir vikið. Ein ástæða þess að þeir spiluðu svona mikið er sú að breiddin var alls ekki góð. Ferill Divock Origi er sem dæmi ótrúlegur í ljósi þess að hann spilaði að meðaltali minna en 500 mínútur í deild og alls aðeins um 14% af deildatleikjum Liverpool meðan hann var leikmaður liðsins. Fyrir utan kraftaverkin voru nokkrir leikir þar sem hann gat sannarlega ekki neitt. Sturridge var sömuleiðis leikmaður Liverpool fyrstu fjögur ár Klopp og spilaði raunar meira hlutfallslega en Origi á þeim tíma (18% af deildarleikjum liðsins).

Miðjan var jafnan skipuð þremur vinnuhestum sem bættu afskaplega litlu við sóknarlega og um leið og félagið keypti sóknarþenkjandi miðjumann var sá hinn sami sendur með sjúkrabíl á bráðadeild um leið. Það er sem dæmi magnað að bera spilaðar mínútur sóknarmanna Liverpool við miðjumenn liðsins á sama tíma. Wijnaldum var sá eini sem spilaði meira en 80% leikja liðsins af miðjumönnunum yfir heilt tímabil.

Bakverðirnir nutu líka góðs af þessu uppleggi sóknarlega og spiluðu meira sem kantmenn en varnarmenn stóran hluta af hverju tímabili og komu einnig að fullt af mörkum með beinum hætti, aðallega þá með stoðsendingum.

Liverpool 2.0

Ef að þú ætlar að endurnýja þetta lið er líklega best að horfa meira til þess að fá meira framlag frá miðjumönnum liðsins og dreifa markaskorun liðsins. Eins er spurning hversu raunhæft það er að reyna kaupa Bobby Firmino 2.0 sem var verulega óhefðbundin nía og jafnvel mikilvægari varnarlega en sóknarlega.

Diogo Jota kom inn sem fjórði maður 2020 og var fyrsti alvöru góði fjórði maður í sóknarlínunni síðan Coutinho fór. Hann kom þegar Sturridge loksins varð samningslaus og leysti í raun Minamino og Origi af til að byrja með frekar en að vera arftaki einhvers af Salah, Mané eða Firmino. Jota spilaði 32% af deildarleikjum 2020/21.

Firmino sem hafði spilað bróðurpartinn af öllum tímabilum fór að lenda í meiðslum 2021-22 og þá kom Jota inn í liðið og lofaði verulega góðu þó hann væri vissulega ólíkur Bobby.  Liðið spilaði til úrslita í öllum bikarkeppnum í boði og tapaði titlinum með 92 stig, einu minna en 115 City. Jota skoraði 15 mörk sem er jöfnun á því besta sem Firmino gerði fyrir framan markið. Það er vissulega ósanngjarnt að bera þá saman þar sem mikilvægi Firmino var mun meira en bara fyrir framan markið, á móti var hann nía sem skoraði ekki mjög mikið í liði þar sem miðjan skilaði mjög litlu fyrir framan markið.

Af 68 mörkum Liverpool 2020-21 komu aðeins sex þeirra frá miðsvæðinu eða aðeins 9% Árið eftir skoruðu miðjumenn Liverpool 8 mörk af 94 mörkum eða líka 9%

Titiltímabilið skoruðu miðjumenn Liverpool 25% af mörkum liðsins en þau dreifðust líka á níu leikmenn. Núna í vetur fengum við 14 mörk frá miðsvæðinu, sóknarlínan bætti sig um 17 mörk milli ára einnig. Engu að síður geta líklega allir verið sammála um að bæði sóknarlínan og miðsvæðið á nóg inni til að gera mun betur á næsta tímabili. Miðja og sókn var að tengja mun betur saman en árið á undan en vonandi er þetta bara byrjunin enda mjög miklar breytingar gerðar síðasta sumar. Liðið fann í raun aldrei fyrir alvöru taktinn síðasta vetur.

Fyrsta brottförin

Diogo Jota var ekki keyptur sem arftaki Firmino heldur var hann viðbót við sóknarlínuna og kom mun frekar í stað Origi, Minamino og Sturridge sem allir spiluðu nánast ekkert. Kaupin á Luis Diaz í janúarglugganum 2022 voru hinsvegar stór vísbending um að Sadio Mané væri mögulega á útleið þá um sumarið.

Síðustu þrjú tímabil Mané hjá Liverpool skoraði hann 18 – 11 – 16 mörk og lagði slatta upp líka. Ef að Diaz er beinn arftaki hans er hann töluvert mikið drop off með sín 4 – 4 –  8 mörk undanfarin þrjú tímabil. Jota sem líka getur leyst þessa stöðu vel er búinn að skora 15 – 7 – 10 mörk undanfarin þrjú tímabil en tók líka eitt ár án þess að skora á þeim tíma. Báðir hafa lent í langtímameiðslum sem við bara lentum ekki í með Mané. Fyrsta tímabilið eftir að Máné fór var Diaz meiddur 2/3 af tímabilinu og Jota spilaði litlu meira, samanlagt spiluðu þeir tæplega 24 leiki. Til að bæta gráu ofan á svart náði Firmino svipað miklum leiktíma og samanlagt fylltu þeir upp í leiktíma eins leikmanns.

Önnur brottförin

Til að fylla skarð Firmino var einnig eiginlega fengið inn tvo leikmenn. Darwin Nunez kom sama sumar og Mané fór og tók eitt tímabil með Bobby. Cody Gakpo var svo bætt víð í janúar enda fáránleg meiðslavandræði í sóknarlínunni.

Darwin Nunez spilaði 50% af leikjum liðsins og setti 9 mörk og var með 3 stoðsendingar. Nokkuð góð tölfræði á blaði en þar vantar inn í að hann var rangstæður oftast allra og klúðraði afskaplega mörgum dauðafærum. Hrár en spennandi leikmaður. Gakpo skapaði sér nafn á vinstri vængnum hjá PSV en var ætlað að fylla skarð Firmino hjá Liverpool sem þessi óhefðbundna nía.

Af því sem við höfum fengið að sjá eru Nunez og Gakpo töluverð veiking á liðinu samanborið við Firmino þegar hann var á sínum hátindi hjá Liverpool.

Mörk frá miðjunni / Svigrúm til bætinga

Undanfarin fimm tímabil hefur Liverpool mest fengið 21 mark frá þeim leikmönnum sem flokkaðir eru sem miðjumenn. Hluti af þeim mörkum komu úr vítum. Þrisvar á síðustu fimm tímabilum hefur miðjan skilað 6-8 mörkum yfir heilt tímabil. Þetta er bara hundlélegt og skilur eftir töluvert svigrúm fyrir Arne Slot að bæta. Miðjan sem Jurgen Klopp er að skilja eftir sig núna er töluvert betri sóknarlega en miðjan sem Klopp var með flest árin.

Sóknarlínan á síðsta tímabili skoraði aðeins 55 mörk af 86 mörkum liðsins eða um 64% Tímabilið á undan skoraði sóknarlína Liverpool 57 mörk af 75 (76%) Tímabilið 2022 skoruðu sóknarmenn Liverpool 66 af 94 mörkum liðsins er 70% Það er því ljóst að markaskorun var að dreifast aðeins meira síðasta vetur en undanfarin ár.

Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig Arne Slot sér núverandi leikmannahóp Liverpool fyrir sér og þá sérstaklega hvort hann færi ekki einhverja leikmenn meira í sínar náttúrulegu stöður.

  • Cody Gakpo spilar á vinstri vængnum fyrir landsliðið og verður tæplega áfram að spila sem ódýr útgáfa af Bobby Firmino hálfpartinn á miðjunni.
  • Fáum við Harvey Elliott meira á vænginn eða í holuna? Þar gætum við átt miðjumann sem getur skilað +10 mörkum á tímabili.
  • Fáum við inn alvöru varnartengilið sem fækkar mínútum Mac Allister aftast á miðjunni? Hann skoraði 10 mörk fyrir Brighton tímabilið áður en hann fór til Liverpool. Hann tók reyndar vítin fyrir þá líka og mætti alveg endilega gera það hjá Liverpool.
  • Fáum við að sjá Diaz og Nunez eitthvað nær því sem þeir voru að gera í Portúgal áður en þeir komu til Liverpool?
    • Nunez var með 19,2 xG deildinni í Portúgal tímabilið 2021-22 en skoraði 26 mörk! Hjá Liverpool í vetur var hann líka með 19,2xG en skoraði bara 11 mörk. Gæti sóknarupplegg Slot hentað hans leikstíl betur? Hann þarf að bæta sig smá í nokkrum stöðum til að stökkbreyta allri sinni tölfræði. Þetta dæmi er sama xG en fimmtán marka sveifla!
    • Diaz var með 14 mörk en bara 9,9xG þetta hálfa tímabil áður en hann fór til Liverpool. Núna í vetur var hann með 8 mörk en 12,9xG. Reyndar skoraði hann 9 mörk í vetur til að gæta sanngirnis,.
    • Eitthvað nálægt þessari nýtingu þeirra í Portugal frá öðrum hvorum eða báðum. Það er ekki eðlilegt að vera þarna með tvo leikmenn sem eru samtals í -13xG. Bara þar eru helvíti mörg stig farin í súginn.
  • Szoboszlai skoraði 6 og lagði upp 8 tvö tímabil í röð hjá Leipzig áður en hann kom til Liverpool. Hjá Salzburg gerði hann 9 mörk og lagði upp 10 í 27 leikjum. Hjá landsliðinu skorar hann í ca fjórða hverjum leik að meðaltali. Hann skoraði bara 2 hjá Liverpool og lagði upp 3 síðsta vetur. Hann á HELLING inni og þarf kannski betur skilgreint hlutverk?
  • Diogo Jota hefur spilað aðeins 33% af síðustu tveimur tímabilum. Þar áður náði hann 70% af tímabilinu. Nær Arne Slot að halda honum meira innan vallar? Hann réði a.m.k. alls ekki við æfingaprógramm Klopp. Jota skoraði 10 mörk í vetur þrátt fyrir að spila bara 1/3 af mótinu, eini sóknarmaður liðsins með fleiri mörk en xG segir til um sem er jafnan normið hjá góðum sóknarmönnum.
  • Alexander-Arnold skoraði þrjú mörk og lagði upp fjögur í vetur, það er hægt að fá miklu meira frá honum en það. Hann hefur fram til nú nánast alltaf verið í tveggja stafa tölu bara í stoðsendingum. Eins verður fróðlegt að sjá hvert hans hlutverk verður, hann var sem dæmi bókstaflega í búningi númer 8 hjá landsliðinu og spilaði með Declan Rice á miðjunni.
  • Kemur Fabio Carvalho aftur í leikmannahóp Liverpool?
  • Hvernig vinnur Slot úr ungu strákunum? Verður einhver af Danns, Clark, Doak, Gordon eða Nyoni break-out stjarna næsta tímabils? Það eru mörk í öllum þessum strákum.

Svona er tölfræðin undanfarin ár fyrir sóknarmenn Liverpool.

Fyrst og fremst þurfum við aftur stöðuga leikmenn eins og Salah – Mané og Firmino voru.

Salah er augljóslega kominn yfir sinn hátind sem leikmaður og hefur ekki alveg sömu sprengju og hann hafði áður. Hann hefur samtals spilað 20.746 mínútur í deildinni hjá Liverpool eða 87% leikja liðsins að meðaltali síðan hann kom. Síðasta tímabil var það fyrsta þar sem hann lendir í meiðslum og spilaði hann því aðeins 74% Það er erfitt að sjá hann fyrir sér sem kantmann næsta vetur m.v. hvernig Slot notar þá stöðu hjá Feyenoord og spurning hvort hann fari því ekki meira fremst eða jafnvel í holuna? Honum verður klárlega fundið hlutverk og haldist hann heill getum við vonandi treyst áfram á 20-30 mörk frá Salah næsta vetur. En Liverpool verður að fara fá fleiri sem draga vagninn með Salah, Mané var sem dæmi að gera það vel og Jota einnig tímabilið sem hann var heill.

Nunez og Gakpo hafa sloppið ágætlega við meiðsli ennþá en spila ekki alla leiki einfaldlega vegna samkeppni. Jota og Diaz hafa hinsvegar verið miklu meira áhyggjuefni. Helst mætti skoða strax í sumar að endurnýja annanhvorn eða báða en ef ekki verðum við að fá miklu meira frá þeim.

Satt að segja á ég erfitt með að sjá Liverpool gera breytingar á sóknarlínunni í sumar heldur verður Slot ætlað að tweek-a því til sem þarf til að bæta framlag þessara manna næsta vetur. Helst væri það þá að fá inn framtíðar arftaka Salah líkt og gert var 6-12 mánuðum áður en Mané og Firmino fóru.

4 Comments

  1. Takk fyrir þetta.
    Þetta rennir stoðum undir það sem ég hef verið að ræða um við þá sem ég þekki.
    Að endurnýjungin þarna fremnst á vellinum hefur mistekist ef við horfum á markaskirun og jafnvel fleir þætti vallarins.
    Fab,gini,hendo. Finnst mér jafnvel sterkari en endo,mac og sobo ef við einföldum myndina en mér finnst breiddinn meiri þar í dag.
    Vörnin er alltaf sú sama en það verður fróðlegt að sjá hvort við fáum miðvörð inn í sumar.

    Eins og þið Kopverjar hafið sagt í mörg ár núna í þáttunum ykkar þá er ekki sjálfgefið að liverpool sé að vinna og berjast um alla titla og menn njóti á meðan er.
    Nú er þessi Klopp era að ljúka og mikið af þeim mönnum sem voru með honum á þessari ferð að ljúka störfum. Og hann sjálfur farinn að ræða 2.0

    Liverpool liðið í dag er ekki líklegt til afreka.
    Besta styrkingin er sú sem við vorum búin að missa í fólkinu á bakvið tjöldin og èg vona innilega að Edwards og co séu með nýtt masterplan.
    Og að Slot sé maður sem nær því allra besta út úr þessum mönnum sem eru nú til staðar líka.

    Ég horfði á Holland í gær og þessi Gakpo gæi er allt annar leikmaður en hjá Liverpool.
    Hann var mikið í boltanum oft að taka menn á og ogna á markið. Fyrir utan markið hans.
    Þessi gæi gæti gert helling fyrir Liverpool.

    Svo sér maður á úrslitasíðum að Nunez er að raða.

    Þessa gæja þurfum við.hjá Liverpool ekki þessa skugga sem spila allar helgar hjá okkur.

    6
    • Finnst niðurstaðan alls ekki endilega segja okkur að endurnýjunin hafi mistekist, dómur ekki alveg fallinn með það ennþá. Liðið skoraði meira á síðsta tímabili en Liverpool liðið sem vann titilinn 2020 þannig að markaskorun var ekki risavandamál og xG hjá 4/5 af sóknarmönnum liðsins er vel undir eðlilegum væntingum sem bendir til að þessi hópur ætti að eiga töluvert inni.
      Það þurfti að endurnýja miðjuna síðasta sumar og þær breytingar hafa klárlega hjálpað sóknarlega. Það þarf hinsvegar að klára dæmið og finna síðasta púslið svo að liðið fúnkeri líka varnarlega. Liverpool þarf mikið frekar að einbeita sér að því í vetur að fá 10-15 mörkum minna á sig en að skora 10-15 mörk í viðbót næsta vetur.

      7
      • Já dreg til baka að þetta hafi misstekist.
        Auðvitað er endanlegur dómur ekki fallinn.
        Ég er t.d en spenntur fyrir þessum strákum.

        En sjáum hvað verður. Þetta dæmist allt á endanum á bikurum og árangri

        1
  2. Ég hef fulla trú á þessum hóp sem er hjá Liverpool núna, þótt eflaust mætti styrkja liðið eitthvað.

    Það litla sem ég hef kynnt mér Arne Slot þá lofar hann góðu, hann virðist vera klókur í því að halda mönnum heilum og dreifa álagningu á menn betur en Klopp gerði því eins mikið og ég held uppá meistara Klopp þá átti hann til að vinda allt úr mannskapnum.

    Bara það að geta haldið okkar bestu mönnum heilum ætti að bæta liðið talsvert.
    En svo er alltaf spurning með okkar helstu menn sem eru að nálgast það að detta á aldur hversu lengi eigum við að halda þeim svo sem Salah og Van Dijk sem báðir færu á fínan pening nú í sumar en svo er annað mál hvort það sé hægt að finna menn með svipuð eða meiri gæði sem geta leyst þá af.

    2

Hvernig var tímabilið?

Gullkastið – Hvað gera hin liðin í sumar?