Liverpool-Accrington Stanley

Þá er það sú sem af sumum er talin sú elsta og virtasta, ég held þó að flestir líti á FA Cup sem skemmtilega keppni þar sem óvænt úrslit eiga sér stað öðru hvoru en oftast nær eru það nú toppliðin í úrvalsdeild sem vinna – með misskemmtilegum undantekningum þó.

FA Cup – sagan

FA Cup er elsta knattspyrnukeppni heims og hefur verið haldin árlega síðan hún var stofnuð árið 1871. Fyrsti úrslitaleikurinn var leikinn á The Oval í London, þar sem Wanderers FC sigraði Royal Engineers 1–0 og hlaut þar með fyrsta FA Cup-bikarinn. Notts County varð fyrsta atvinnumannaliðið til að sigra keppnina árið 1894. FA Cup hefur í gegnum tíðina verið vettvangur óvæntra sigra, svokallaðra “giant killings,” þar sem minni lið hafa sigrað stærri og öflugri lið. Þetta hefur gert bikarkeppnina mjög vinsæla og áhugaverða þar sem draumurinn um að allt sé mögulegt í knattspyrnu hefur oft orðið að veruleika. Það var lengi vel æðsti draumur ungra, enskra knattspyrnumanna að skora sigurmarkið í úrslitaleik FA Cup á Wembley en síðustu áratugi hefur líklega dregið töluvert úr því.

Margir eftirminnilegir úrslitaleikir hafa farið fram í keppninni og snemma á 8. áratuginum var farið að sýna úrslitaleikina beint í Ríkissjónvarpinu, þökk sé Bjarna heitnum Fel og ástfóstri hans við ensku knattspyrnuna. Á þeim árum voru lið á borð við Tottenham og Manchester United í ákveðinni lægð í deildinni en þeim tókst á vinna bikarinn og afla sér þannig fjölda stuðningsmanna á Íslandi. Hver þekkir ekki einhverja Spursara? Þau voru þó alltaf í skugganum á Liverpool þennan áratuginn sem vann fjöldan allan af titlum, ekki bara FA-cup heldur deildar- og Evróputitla auk deildarbikarsins. Liverpool spilaði tvo af eftirminnilegustu leikjum þessa tíma, unnu Everton 3-1 í Merseyside derbyleik á Wembley og svo töpuðu þeir tveimur árum síðar gegn “Crazy Gang” Wimbledon liðinu með stórleikarann Vinnie Jones í hlutverki Sergio Ramos sem head-bully og tuddara.

Bresku sjónvarpsstöðvarnar hafa haldið keppninni á lofti undanfarin ár og áratugi með því að sýna oft neðrideildarliðin spila, gjarnan gegn stærri liðunum og það verður raunin á laugardaginn þegar Liverpool tekur á móti Accrington Stanley, kl. 12:15 á laugardaginn.

Accrington Stanley

Accrington Stanley FC kemur frá samnefndum nágrannabæ Liverpool.

Í bænum búa um 35.000 manns en allnokkuð fleiri ef nágrannaþorpin eru tekin með. Accrington komst fyrst á vitorð Englendinga þegar nafn félagsins, Accrington Stanley var notað í mjólkurauglýsingu árið 1980 – who are they? Auglýsingin gekk út á að tveir ungir stuðningsmenn Liverpool voru að spjalla og annar sagði: Ef Ian Rush drykki ekki mjólk þá myndi hann spila fyrir Accrington Stanley. Hinn svarar þá “who are they?” og hinn svarar “excactly”. Upphaflega hugmyndin var þó sú að Tottenham átti að vera notað í stað Accrington Stanley en Spursarar mótmæltu…

Annars er þetta týpískur enskur smábær, þekktur fyrir Accrington Noris múrsteininn sem notaður var til að byggja Empire State bygginguna í New York. Það er eins og allir bæir hafi eitthvað svona…og það er meira því í bænum er Haworth Art Gallery, sem hýsir stærsta safn breskra Tiffany-glerlampa í heiminum. Tiffany-lamparnir eru heimsfrægir fyrir listfengi og handverk. Hver myndi ekki vilja eiga einn svona í stofuhorninu?

Bærinn er svo sem ekki þekktur fyrir neitt fleira sérstakt, það er þó hægt að ná sér í bjór á nokkrum stöðum, t.d. er Crown barinn við hliðina á velli félagsins og það er alltaf gaman að fara í neðrideildastemminguna. Völlurinn er hins vegar í úthverfi og í miðbænum er hægt að ná sér í öl t.d. á Forts Arms. Svona ef þið eigið leið um Accrington.

Accrington Stanley FC

Accrington Stanley FC var stofnað árið 1968, en nafn félagsins var tekið upp til að heiðra eldra félag, Accrington Stanley, sem hafði verið lagt niður árið 1966. Eldra liðið átti sér sögu allt frá 1891 en hafði áratugum saman barist við fjárhagserfiðleika. Því var líka oft ruglað saman við annað lið, Accrington FC, sem var eitt af upprunalegu stofnfélögum ensku deildarkeppninnar árið 1888.

Þrátt fyrir að „upprunalega“ Accrington FC hafi lagt niður starfsemi árið 1896, varð nafnið Stanley að hluta af menningu bæjarins. Íbúar vildu endurvekja knattspyrnuliðið í Accrington og ákváðu að heiðra gamla nafnið, sem er nú samt bara dregið af götunni sem heimavöllurinn stóð við – Stanley Street.

Accrington Stanley byrjaði í neðri deildum enska knattspyrnusambandsins og átti í miklum erfiðleikum að komast upp um deildir. Félagið var í fjárhagserfiðleikum í áratugi og var meira að segja sent niður í utandeildina vegna skulda árið 1962.

Félagið var endurbyggt af aðdáendum sínum og byrjaði í neðstu deildum ensku knattspyrnunnar með aðsetur á Crown Ground (síðar Wham Stadium (!)), sem enn í dag er heimavöllur liðsins. Völlurinn var vígður árið 1968 og rúmar 5.450 manns. Þetta Wham nafn hefur ekkert með George Michael eða Andrew Ridgeley úr samnefndri hljómsveit að gera heldur ber völlurinn skammstöfun fyrirtækisins What More UK Ltd. Ég hef ekki hugmynd um hvað það fyrirtæki gerir en lesendum er frjálst að kynna sér það og skrifa við í kommenti.

Eftir áratuga baráttu í neðri deildunum hóf Accrington Stanley að vinna sig upp um deildir. Árið 2006 komst félagið aftur inn í enska deildarkerfið eftir sigur í Conference National. Þetta markaði mikinn áfanga fyrir félagið og aðdáendur þess.

Árið 2018 vann liðið League Two og kom sér upp í League One (þriðju efstu deild Englands). Þetta var besti árangur félagsins frá upphafi. Eftir fimm ár í þeirri deild féllu þeir vorið 2023. Þeir sitja núna í 19.sæti League Two, fjórðu deildar enska pýramídans, rétt ofan við fall í utandeildina.

Accrington Stanley á engar sögulegar fótboltahetjur eftir því sem ég kemst næst, hafa aldrei komist langt í deild eða bikar og leikurinn við Liverpool er örugglega einn stærsti leikurinn í sögu félagsins. Liðin mættust líka fyrir næstum réttum 69 árum, 7.janúar 1956 í sömu keppni og sömu umferð, þriðju umferð enska bikarsins, líka á Anfield. Þar voru a.m.k. tveir ansi sögulegir leikmenn í liði Liverpool, þeir Ronnie Moran, sem síðar þjónaði félaginu sem þjálfari og varð hluti af hinu goðsagnakennda Boot room í áratugi, og Billy Liddell, sem skoraði bæði mörk Liverpool í 2-0 sigri. Billy Liddell er einmitt sá sem Mo Salah var rétt að komast upp fyrir á markalista Liverpool. Liddell skoraði alls 228 mörk á sínum ferli með Liverpool. Hann hefði eflaust skorað töluvert fleiri mörk á sínum ferli ef hann hefði ekki þurft að bíða í 6 ára með sinn debut-leik, því skömmu eftir að hann samdi við Liverpool, árið 1938, braust Síðari Heimsstyrjöldin út og því lék hann ekki opinberlega með Liverpool fyrr en árið 1946, einmitt í þriðju umferð bikarsins, gegn Chester, þar sem hann skoraði í 2-0 sigri. Þetta félag, Chester, komst svo löngu síðar í umræðuna þegar Liverpool keypti ungan Walesverja, Ian Rush af félaginu. The rest is history, nema hvað hringurinn lokast auðvitað með þessari mjólkurauglýsingu sem fjallað var um hér að ofan.

Lið Accrington Stanley

Síðastliðinn laugardag lék liðið á útivelli gegn Colchester í League Two. Þeir unnu sannfærandi 0-2 sigur með mörkum frá Shawn Whalley. Liðið þeirra var þannig skipað:

Crellin
Love, Rawson, Awe, Woods
Martin, Khumbeni, Woods, Hunter, Whalley
Walton
Ég ætla ekki að reyna að giska á byrjunarliðið en það er alveg ljóst að þeir koma alveg dýrvitlausir til leiks, hafa engu að tapa og eru að fara að njóta þess að spila í kannski eina skiptið á ferlinum fyrir framan 60.000 manns. Þeir stilla upp 4-3-3/4-5-1, munu eflaust liggja aftur, kannski með 6-3-1 varnarlínur og reyna að dúndra boltanum fram og hlaupa eins og óðir menn þegar þeir fá tækifæri til. Það er uppselt hjá stuðningsmönnum Accrington þannig að þeir verða líka í banastuði, eflaust hátt í 9000 manns.

Liverpool

Árið 2025 hefur ekki farið eins vel af stað og fólk vonaði. Jafntefli gegn Man Utd og tap gegn Tottenham í deildarbikarnum það sem af er ári, en 2024 endaði með þvílíkum hvelli, 14 mörkum í þremur leikjum. Eitthvað hefur verið rætt um veikindi í hópnum, Szoboszlai hefur verið veikur og Quensah þurfti að fara veikur af velli eftir um hálftíma leik gegn Tottenham. Það gæti útskýrt slappleikann í þessum tveimur leikjum, sem hafa verið óvenju slappir. Ég frábið mér tal um að Trent sé kominn til Real Madrid í hausnum og sé að missa einbeitinguna vegna þess, hann var þó mjög slakur gegn Man Utd en var geggjaður í hálftíma gegn Spurs. Það er eiginlega útilokað að spá fyrir um liðsvalið, þó ansi mikilvægur leikur gegn Nottingham Forest strax á þriðjudaginn í næstu viku og þess vegna fá einhverjir kærkomna hvíld. Eins eru þessi veikindi óútreinanleg. Slot hefur nánast alveg haldið sig við 22 manna hópinn og nánast engir unglingar hafa fengið sénsinn. Það ber líka að hafa í huga að fyrir leikinn gegn Man Utd var vikuhlé, og svo koma alveg leikir seinna í mánuðinum þar sem hægt er að rótera líka. En mín ágiskun er þessi:

Þetta er bara út í loftið, einn kaldur handa mér ef ég verð með 11 rétta.

Leikurinn verður barningur til að byrja með, lið Accrington kemur öskrandi út á völlinn en eftir 20-30 mínútur kemur fyrsta markið, svo verður þetta örugg sigling, endar 3-1 fyrir okkur, það verða engin smáræðis fagnaðarlæti þegar Accrington ná að pota inn marki.

YNWA

 

4 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Það eina sem ég hef áhyggjur af er að Slot sé aðeins of fastheldinn á sama hópinn, leik eftir leik, svona eins og hann gerði hjá Feyenoord. Van Dijk, MacAllister og Gravenberch eru allir útjaskaðir núna og eiga ekki að koma nálægt þessum Accrington Stanley leik.

    4
    • Einar Matthías er búinn að vera í samskiptum við Slot að koma nákvæmlega þessu á framfæri.

      1

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Spurs 1 – 0 Liverpool

Gullkastið – Slæm byrjun á árinu