Laugardagsheimsókn til Bournemouth

Eftir að B-liðið skrapp til Hollands í miðri viku, þá er komið að því að A-liðið heimsæki suðurströndina og mæti þar einu heitasta liði deildarinnar í augnablikinu.

Í upphafi leiktíðar voru sjálfsagt ekki margir sem áttu von á að stórleikur síðustu umferðar yrði leikur Bournemouth og Nottingham Forest. Því síður að sá leikur færi 5-0 fyrir heimaliðið, svona í ljósi þess að Forest kom inn í þann leik sem liðið í 3ja sæti yfir þau lið úrvalsdeildarinnar sem höfðu fengið fæst mörk á sig það sem af er leiktíðar. En svona er þetta og því má alveg færa rök fyrir því að stórleikur morgundagsins verði þessi leikur, enda um að ræða liðin í 1. og 7. sæti deildarinnar. En svo er nú ansi stór leikur á sunnudaginn þegar liðin í 2. og 4. sæti mætast, og úrslitin í þeim leik gætu alveg spilað allstóra rullu í toppbaráttunni sömuleiðis.

Andstæðingarnir

Eins og áður sagði eru Bournemouth eitt heitasta lið deildarinnar um þessar mundir, enda nýbúnir að vinna liðið í 3ja sæti (Forest) 5-0, og liðið í 5. sæti (Newcastle) 1-4 á útivelli. Jafnframt tóku þeir sig til og unnu City (4. sæti) í byrjun nóvember og Arsenal (2. sæti) um miðjan október, ásamt því að gera jafntefli við liðið í 6. sæti (Chelsea) núna í janúar. Þá er orðið talsvert síðan liðið tapaði leik í öllum keppnum, en það gerðist 23. nóvember þegar þeir lutu í gras fyrir Brighton á heimavelli.

En þeir hafa vissulega tapað í haust, og þar á meðal á Anfield seinnipartinn í september, þegar okkar menn skoruðu 3 mörk gegn engu marki gestanna. Svo það er hægt að vinna þetta lið, bara fjarri því að vera eitthvað sjálfgefið.

Þjálfari félagsins er hinn 42ja ára gamli Spánverji Andoni Iraola. Það var enginn annar en Richard Hughes sem réði hann til Bournemouth þarsíðasta sumar, eftir að Bournemouth höfðu endað í 15. sæti deildarinnar vorið 2023 undir stjórn Gary O’Neil sem var látinn fara í kjölfarið. Iraola stýrði þeim svo í 12. sætið í vor, og félagið hefur aldrei náð í jafn mörg stig á einu tímabili eins og þá, þegar þeir náðu sér í 48 stig. Núna er liðið í 7. sæti með 40 stig og eiga eftir að spila 15 leiki. Uppgangurinn dylst því engum, og nokkuð ljóst að stigamet félagsins mun falla aftur í lok leiktíðar.

Iraola hóf þjálfaraferilinn árið 2018 hjá kýpverska félaginu AEK Larnaca, kannski má tala um að “fall sé fararheill” því hann var rekinn þaðan eftir 7 mánuði þegar liðið hafði ekki unnið leik í 2 mánuði samfellt. Þaðan fór hann í næstefstu deild á Spáni, fór svo til Rayo Vallecano árið 2020, og kom svo þaðan til Bournemouth sumarið 2023. Stjarna hans er farin að skína það skært að maður yrði ekkert hissa að sjá hann fara til einhvers allnokkuð stærri klúbbs fljótlega.

Bournemouth hafa gert sniðug kaup í síðustu gluggum, sumarið 2023 kom Milos Kerkez frá AZ Alkmaar á 15 milljón pund, Tyler Adams frá Leeds á 22.5m pund og Justin Kluivert frá Roma á 9m pund sumarið 2023, og síðasta sumar kom Dean Huijsen frá Juventus á tæpar 13m punda, bara svo örfáir séu nefndir. En svo eru þeir líka með öfluga leikmenn sem hafa verið lengur hjá félaginu, þannig er t.d. Ouattara sem skoraði þrennu gegn Forest í síðustu umferð búinn að vera hjá þeim síðan sumarið 2022. Við höfum séð þetta oft áður að stundum detta ensku klúbbarnir í þann gír að hitta á nægilega marga til þess að gera ódýra en efnilega leikmenn, búa til umhverfi fyrir þá þannig að þeir ná að blómstra, og ná þannig annaðhvort að hífa sig upp töfluna eða í versta falli selja þá með góðum afgangi. Sem betur fer er þetta fjarri því að vera sjálfgefin eða auðfáanleg uppskrift, og hægt að finna allmörg dæmi þess að klúbbar hafi fallið gjörsamlega á þessu prófi *hóst*United*hóst*.

Nóg um andstæðingana í bili. Það er a.m.k. alveg ljóst að þetta eru verðugir andstæðingar og okkar menn þurfa að hafa sig alla við.

Talandi um okkar menn…

Okkar menn

Já það var ungt og ferskt lið sem spilaði í Meistaradeildinni á miðvikudaginn, á meðan megnið af aðalliðinu sat heima og safnaði vopnum sínum. Allnokkrar tilraunir voru gerðar í þeim leik, eins og að spila Robbo í miðverði. Sú tiltekna tilraun var ekkert endilega að ganga upp í fyrstu atrennu, en á móti kemur líka að þegar um er að ræða lið sem hefur lítið spilað saman þá er það nú oft alveg nóg til að þýða að hrynjandinn í liðinu fýkur veg allrar veraldar. Það voru líka aðrar tilraunir eins og að spila Danns uppi á topp, og þó það hafi kannski ekki skilað sér í vikunni þá er engin ástæða til að afskrifa þann efnilega leikmann.

Af byrjunarliðinu sem má reikna með að byrji á morgun voru það aðeins Robbo og Gakpo sem spiluðu í miðri viku, og voru báðir komnir útaf á 65. mínútu. Nunez átti væntanlega að byrja gegn PSV en veiktist fyrir leik. Tsimikas spilaði allan leikinn og verður því sjálfsagt á bekk á morgun. Það er því nokkuð ljóst hvernig liðið mun líta út:

Alisson

Trent – Konate – Virgil – Robbo

Gravenberch – MacAllister

Salah – Szoboszlai – Gakpo

Díaz

Auðvitað gætu veikindi eða eitthvað slíkt breytt þessum plönum, en þar fyrir utan er ansi líklegt að þetta verði byrjunarliðið.

Slot sagði í morgun að Jota, Gomez og Nunez hefðu allir mætt til æfinga í dag, en það var ekki ljóst hverjir þeirra verði leikfærir á morgun. Hugsanlega verða einhverjir þeirra á bekk, en það hljómaði líka eins og Slot hefði alls ekki hugsað sér að henda neinum þeirra of snemma út í djúpu laugina, enda er breiddin í hópnum í raun með albesta móti og nóg af öðrum leikmönnum til taks. Í reynd hefur hópurinn líklega aldrei verið jafn breiður og jafn vel staddur hvað meiðsli varðar á þessum tíma árs, í minningunni er a.m.k. ansi langt síðan meiðslalistinn var svona stuttur. Það er semsagt bara Jones sem er frá og nokkuð ljóst að hann verði ekki á bekk. Vissulega er þá miðjan kannski sá hluti liðsins sem er hvað þynnstur, en mögulega er þá að opnast gluggi fyrir McConnell sem sýndi í leiknum á miðvikudaginn að það er ýmislegt í hann spunnið. Reyndar svo mikið að Slot talaði um að hann myndi fyrir vikið alls ekkert senda hann út á lán á seinni hluta leiktíðarinnar, svo kannski verður hann á bekk.

Salah skoraði ekki í fyrri leik liðanna, og brennur alveg örugglega í skinninu að setja a.m.k. eitt mark á morgun. Enda er það svo að ef hann ætlar að bæta eigið met (sem hann á með Thierry Henry) að skora hjá flestum liðum deildarinnar á einu tímabili, þá verður hann að gjöra svo vel að skora á morgun því annars nær hann ekki að skora hjá fleirum en 17 liðum að hámarki – sem er núverandi met. Þ.e. það að hafa ekki náð að skora gegn Forest þýðir að nú er enginn slaki upp á að hlaupa.

Er þetta leikur þar sem við yrðum sátt við jafntefli? Mögulega… ég held að það sé samt þannig að í öllum jafnteflisleikjum tímabilsins þá vitum við að liðið hefði alveg átt að geta gert betur og náð í stigin þrjú. Tilfinningin er sú að ef menn mæta vel stemmdir til leiks, og ef orkustigið verður hátt, þá eiga okkar menn mjög góðan möguleika á að koma heim með 3 stig í farteskinu. Það er bara svo alls ekki sjálfgefið.

Spáum því nú samt að þetta endi 1-3, með mörkum frá Salah, Gakpo og MacAllister.

KOMA SVO!!!!!

Ein athugasemd

Skildu eftir athugasemd

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Gullkastið – Meistara-deildarmeistarar