Oj barasta! Hafiði séð það ógeðslegra? Ég er bara orðlaus, þetta var svo ógeðslega, ógeðslega, viðbjóðslega ÖMURLEGT að ég á ekki til orð! Þvílíkur skandall að ég hef bara aldrei séð annað eins! Ooooooooohhhhhh!!!!
Sem sagt, ótrúlegt að Milan Baros skyldi ekki ná að skora úr hjólhestaspyrnunni þarna. Það hefði orðið mark ársins. 🙂
Annars er yfir litlu að kvarta varðandi þennan leik. Xabi Alonso og Milan Baros sáu til þess að við fáum að fagna jólunum með bros á vör hvað uppáhalds-liðið okkar varðar, og um leið þá held ég að þeir hafi endanlega kálað þeirri vitleysu að við séum Eins-Manns-Lið, eins og sumir meðlimir bresku pressunnar hafa gefið í skyn.
Steven Gerrard átti ágætis leik í kvöld, en hann var samt ekki einu sinni einn af fimm bestu leikmönnum Liverpool. Við hefðum getað haft Love Guru þarna á miðjunni með Alonso í dag og það hefði engu máli skipt. Jamie Carragher og Steve Finnan voru frábærir í vörninni og eftir slakan fyrri hálfleik voru Hyypiä og Riise líka frábærir eftir hlé. Á miðjunni var García furðulega frískur á hægri kantinum, miðað við að þetta var hans fyrsti leikur eftir meiðsli og á vinstri kantinum var Harry Kewell byrjaður að sýna okkur sitt gamla, góða form. Undirbúningur hans fyrir þriðja markið hjá Baros var algjör snilld og það var ekki laust við að maður fagnaði því aðeins meira, bara af því að Kewell átti heiðurinn af því. Vonandi eru gagnrýnisraddirnar endanlega þagnaðar núna, Harry er kominn aftur!
Frammi skoraði Neil Mellor gott mark (hans fimmta í tíu leikjum, geri aðrir betur) og barðist rosalega vel. Enn og aftur þá er hann enginn Owen eða Cissé þarna frammi, en hann spilar með hjartanu og gerir sitt besta … og hann skorar mörk. Það hefur reynst okkur ómetanlegt í framherjaþurrðinni í haust.
En hann féll samt algjörlega í skuggann á manni sem var, að öðrum ólöstuðum, maður leiksins. Ef Milan Baros hefði ekki verið þarna inná hefði Xabi Alonso sennilega hlotið þá tign en vá … er hægt að finna flottari framherja í ensku deildinni en Baros þessi misserin? Mér dettur eiginlega bara Thierry Henry í hug, sem getur talist betri. Baros er einfaldlega snillingur, hann var út um allt í dag, pyntaði og píndi þá Andy O’Brien og Titus Bramble í heilar 90 mínútur. Þvílíkur leikur hjá honum, og hann er svo sannarlega kominn aftur inn í þetta lið á fullu núna!
Hann vann sennilega einhverjar 5-6 hornspyrnur fyrir okkur í þessum leik, átti að fá eitt víti, fiskaði tvö gul spjöld og svo lagði hann alveg frábærlega vel upp markið fyrir Neil Mellor: sneri Bramble af sér og fann Mellor í auðu svæði, þar sem hann gat stýrt boltanum framhjá Given í markinu.
Og í þriðja markinu sýndi Baros okkur síðan af hverju hann er einn sá allra besti í boltanum í dag. Hann fékk frábæran bolta niður með miðjunni frá Harry Kewell og gaf bara í með hann, vörn Newcastle átti aldrei séns á að ná honum. Hann tók hann framhjá Given með einni einfaldri hreyfingu og lagði hann með vinstri í tómt markið. Eins einfalt og það gerist, en ekki á færi allra að framkvæma.
Það var í raun og veru bara tvennt sem var neikvætt við þennan leik: að hjólhestaspyrnan hans Baros skyldi fara vitlausum megin við stöngina (skandall!!!! segi ég og skrifa) og síðan fyrsta mark leiksins, sem Newcastle skoruðu gegn gangi leiksins. Riise klikkaði þar illilega, gaf Bowyer rosalega mikið pláss á vængnum og síðan spilaði Finnan hann réttstæðan og þeir komust yfir eftir að hafa legið í vörn allan leikinn.
En eftir á að hyggja held ég að þetta mark hafi í raun verið það besta sem gat komið fyrir okkar menn í þessum leik. Fram að markinu var þessi leikur að spilast mjög svipað og leikurinn gegn Portsmouth: við vorum með boltann, í sókn allan tímann en vorum ekkert að skapa neitt að ráði. En eftir að við lentum undir var eins og menn væru orðnir andsetnir, við óðum í færum og menn sýndu virkilega grimmd upp við mark Newcastle. Og við uppskárum þrjú mörk fyrir vikið.
Þannig að í dag var bara góður dagur hjá okkar mönnum, þeir léku allir sem einn mjög vel í dag (sumir þó betur en aðrir) og við náðum í þrjú dýrmæt stig.
Framundan eru gleðileg jól og svo tveir leikir á milli jóla og nýárs, við W.B.A. úti og Southampton heima. Ef við náum að fylgja sigrinum í dag eftir með sigrum í þeim tveim leikjum þá ætti allt að vera á suðupunkti fyrir heimaleikinn gegn Chelsea á nýársdag … en eins og Rafa Benítez segir gjarnan, bara einn leikur í einu.
Næst: W.B.A. úti á annan í jólum. Og mig hlakkar til!
**Uppfært (Einar Örn)**: Jæja, ég er aðeins að jafna mig af þynnku, sem skýrir hversu seint ég er að skrifa mína skoðun á þessum leik.
Einsog lesendur þessarar síðu vita, þá hef ég gagnrýnt 4-5-1 aðferðina, einsog Benitez hefur stillt upp að undanförnu, fyrst og fremst vegna þess að ég tel að Hamann gagnist lítið í sókninni. Því varð ég alsæll í morgun þegar ég sá að Rafa hafði ákveðið að stilla upp 4-4-2
Finnan – Carra – Hyypiä – Riise
García – Gerrard – Alonso – Kewell
Mellor – Baros
Þetta er að mínu mati besta uppstilling Liverpool í dag fyrir utan það að ég tel Flo-Po vera mun betri framherja en Neil Mellor. En Mellor skoraði, þannig að það var gott mál.
Ég held að það sé einnig ekki tilviljun að við náum að skora 3 mörk loksins þegar við skiptum aftur í 4-4-2. Við vorum að vísu að spila á móti einni lélegustu vörninni í Úrvalsdeildinni, en við höfum hins vegar verið í basli með ansi slappar varnir í undanförnum leikjum.
Allavegana, [Baros talaði líka um það eftir leikinn](http://www.soccer365.com/EUROPEAN_NEWS/Premiership/page_99_87399.shtml) að hann væri mun hrifnari af því að vera með félaga með sér þarna frammi, þótt að hann virði náttúrulega allar ákvarðanir Benitez.
En þetta var semsagt mjög góður leikur. Ég mun aldrei skilja á hvaða lyfjum stjórn Newcastle var þegar þeir ákváðu að Graeme SOUNESS væri betri kostur en Bobby Robson í þjálfarastöðunni, en ég efast um að ég hafi séð Newcastle leika jafn illa. Liverpool var miklu betra liðið allan tímann.
Xabi Alonso var stórkostlegur í leiknum. Hann stjórnaði öllu á miðjunni og sendingarnar hans voru frábærar. Ég hefði valið hann mann leiksins, en auðvitað var Milan Baros líka frábær í leiknum.
Dudek fær líka góða einkunn fyrir þennan leik. Hann var mjög öruggur og varði vel frá Robert. Hann átti engan sjens í markinu, svo ég var sáttur við hann. Einnig var Finnan mjög sterkur. Ég hef gagnrýnt þessa tvo, en þeir eiga hrós skilið fyrir leikinn í dag.
Já, og tókuði eftir því að Gerrard brosti í leiknum í dag? Mikið var það nú gaman að sjá. Það er alltaf nauðsynlegt að vinna síðasta leik fyrir jól. Núna höfum við pottþétt tækifæri til að vinna 3 leiki í röð fyrir Chelsea leikinn. Við verðum að klára það. Ég vona að Benitez haldi sig við 4-4-2 á útivelli og reyni að brjóta niður þessa útivallagrýlu okkar.
Ég var mjög sáttur við uppstillinguna í dag. Held þetta sé það sterkasta sem Liverpool hefur uppá að bjóða.
Menn eins og Joesmi, Nunes, Pongolle, Traore, Biscan, og hvað þeir heita allir, eru bara ekki nógu góðir.
Selja þá bara alla kaupa Morientes, Aimar, og einhvern til að bakka upp fyrir hafsentana.
Þá er þetta fínt.
Má reyndar alveg selja Kirkland fyrir slikk, og gefa axlarpúðana hans.
Þetta var bölvað rangstöðumark sem Newcastle skoraði, Kluivert var kolrangstæður þegar fyrsta sendingin kom og það skal enginn reyna að ljúga því að mér að maður sem er að hlaupa í áttina að markinu (og skorar svo) hafi engin áhrif á leikinn!
alveg sammála daða með markið hjá newcastle… þetta er rangstaða og ekkert annað…
ekki alveg sammála hagnaðinum… nunes er að koma sterkur inn sem varamaður fyrir garcia og pongolle er mikið efni… þarf bara að fara í svipaða meðferð og ronaldo hjá man.utd, læra hvenær á að sóla og hvenær ekki… og að læra að klára færin sín 😉
josemi get ég verið sammála um, ef hann fer ekki að taka sig á… en traore og biscan, og þá sérstaklega traore, eiga alveg skilið að vera þarna sem varamenn…
Tapað Fundið
Fundist hefur ástralskur vinstrifótar kantmaður í góðu ásigkomulagi. Sást síðast yfirgefa heimili sitt á Elland Road en hefur lítð sést síðan. Kantmaðurinn fannst á Anfield Road í dag og munu eigendur hans vitja hans þar um ókomna tíð.
Velkominn aftur Harry Kewell. :laugh:
Mjög góð úrslit, nú er nauðsynlegt að sigra næsta leik á útivelli gegn WBA.
Tóku menn eftir því að Josemi var ekki í leikmannahópi okkar í gær. Þetta er hið besta mál. Varðandi markið hjá Newcastle þá var það nátturulega rangstæða. Kluivert hagnaðist af stöðu sinni, hann var 2 metra fyrir innan vörnina þegar stungan á L. Bowyer kom. Slakur línuvörður þar á ferð.
Kveðja
Krizzi
Josemi var í banni í gær… Annars hefði hann komið inn á á 88. mínútu og leikurinn farið 3 – 3… :rolleyes:
Kiddi, uss! Ekki svona rugl… í alvöru, verða menn aldrei þreyttir á þessu?
Þreyttir á hverju? að Josemi spili jafn illa og hann hefur verið að gera? Finnan átti mjög góðan leik og skilaði boltanum mjög vel frá sér sem er annað en hægt er að segja um Josemi í undanförnum leikjum. Finnan virkar miklu meira solid heldur en Josemi sem virkar bráður og vill losa boltann út í buskann meira. Það er allt í lagi að vilja gefa Josemi tíma og leyfa honum að aðlagast en við verðum að viðurkenna að hann hefur átt slappa leiki að undanförnu
Nei, þreyttir á að berja á Josemi.
Já, hann hefur ekki leikið vel að undanförnu, en come on, þessi gagnrýni er hætt að vera fyndin. Þetta fer að líkjast Kewell gagnrýninni í upphafi tímabilsins. Þá sögðum við fólki að bíða aðeins með að gagnrýna Harry, og ég held að það væri sniðugt að menn gerðu það sama varðandi Josemi núna.
Sorrý, maður… Þetta átti bara að vera nett grín. Kannski kom “rolleyes” smælíinn því ekki almennilega til skila. 😉
Annars, svona fyrst maður er í þessu svakalega grínstuði, þá bendi ég mönnum á að smella hér til að sjá ansi skemmtilega mynd af Mellor að fagna í gær… :blush: