Þetta hafðist. Þrjú stig í safnið og nú höfum við náð 13 af 18 stigum í jólaösinni svokölluðu. Þrátt fyrir hræðilegt tap gegn Chelsea held ég að við getum alveg unað sáttir við 13 af 18 stigum síðasta mánuðinn, sérstaklega ef litið er á það að við höfum núna sigrað í tveimur útileikjum í röð.
Þetta var ekki góður leikur og varla að það taki því að nefna einhver einstök leikatriði. Í fyrri hálfleik var þetta hreinlega leiðinlegt, þar sem bæði lið voru greinilega örþreytt eftir erilsaman mánuð og náðu varla að senda tvær sendingar innan liðsins áður en menn misstu boltann í innkast eða áttu lélegar fyrirgjafir eða eitthvað. Bæði lið voru einfaldlega frekar léleg.
Benítez stillti þessu svona upp:
Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock
Núnez – Gerrard – Diao – Riise
García – Mellor
Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri endaði. Við vorum slappir og þangað til á svona 55. mínútu var nákvæmlega ekkert í leik okkar manna sem benti til þess að við myndum ná að skora. En þá fékk Riise boltann á miðjunni, gaf frábæra stungusendingu á García sem var aleinn og réttstæður. Hann tók boltann í fyrsta og lyfti honum í fallegum boga yfir Green í marki Norwich, staðan orðin 1-0 og þungu fargi af okkur Einari létt (SMS-in okkar á milli urðu frekar skrautleg á tímabili) … 🙂
Fimm mínútum eða svo síðar gáfu Norwich-menn okkur svo annað mark. Einhver gæji í vörninni þeirra ætlaði að hreinsa boltann en skaut honum beint í Pongolle, sem var allt í einu kominn einn í gegn. Hann skaut með vinstri föstu skoti á markið en Green varði vel, nema hvað boltinn rann út til vinstri þar sem Riise setti hann yfir línuna af stuttu færi. 2-0, game over.
Norwich-menn skoruðu svo gott mark undir lokin og reyndu að pressa á jöfnunarmarkið síðustu 5-6 mínúturnar en allt kom fyrir ekki. Við sigruðum og þrjú dýrmæt stig komin í hús. Við erum núna í fimmta sæti, þremur stigum á eftir Everton og bara andskoti líklegir til að taka fjórða sætið að minnsta kosti.
Eins og ég sagði í byrjun þessarar skýrslu var leikur liðsins ekkert til að hrópa húrra fyrir. García og Riise gerðu báðir mjög vel í fyrra markinu og Pongolle og Riise mjög vel í því síðara en að öðru leyti sáust þeir lítið í leiknum. Okkar menn voru kannski ekkert afspyrnulélegir, mér fannst ég frekar vera að horfa á þreytta leikmenn en lélega, en þeir voru samt ekki góðir. Samt, eins og Chelsea gátu sigrað á laugardaginn þrátt fyrir að leika illa var mikilvægt að við næðum samt að hirða þrjú stig í dag, þótt við værum ekki að spila vel.
MAÐUR LEIKSINS: Fyrir mér kemur aðeins einn til greina. Jamie Carragher hefur verið einn besti leikmaður liðsins í vetur en við Einar höfum kannski ekki verið nógu duglegir að hrósa honum. Það leiðréttist hér með. Carra reddaði okkur í tvígang fyrir horn eftir að þeir komust innfyrir og áttu markið víst og þess fyrir utan var hann sífellt að berjast og vinna boltann af andstæðingunum. Hann átti mjög góðan leik í dag og það er á svona dögum þegar liðið í kringum hann á dapran dag sem maður áttar sig á því hvað við erum heppnir að hafa hann í vörninni. Frábær leikmaður.
Jæja, nú er stóru leikjatörninni lokið í bili. Geri fastlega ráð fyrir að kjúklingarnir spili bikarleikinn á laugardaginn og jafnvel líka gegn Watford í næstu viku, en á meðan munum við ylja okkur við það sem þessi vika mun bera í skauti sér, og ég veit að margir okkar hafa beðið hvað spenntastir eftir: leikmannakaup!
Látum slúðurvertíðina hefjast…
hipp, hipp húrrei :biggrin2:
vona að við fáum allavegna 2 stór nöfn á anfeild í vikunni… en græðgin í mér heimtar 3 :tongue:
Nákvæmlega tvö örþreytt lið og gott að fá 3 stig úr þessu bulli. Carragher góður eins og alltaf en hversvegna voru áhorfendur að baula á Hamann ?
Jamm, það var mikill léttir að klára þetta. Svosem ekki mikið um þennan leik að segja. Það var þó greinilegt að Flo-Po lífgaði mikið uppá spilið í seinni hálfleiknum.
Annars var þetta bara barningur. Og alls ekki nógu góður leikur, en mér er reyndar nokk sama. Það eina, sem ég vildi í dag var sigur, og það rættist, þannig að ég kvarta ekki 🙂
Eftir einn leiðinlegasta fyrri hálfleik í sögu enska boltans, voru augnlok mín farin að síga niðurfyrir höku og fljótlega í seinni hálfleik urðu þau svo þung að ég rankaði ekki við fyrr en að leik loknum.
Það er ekkert sniðugt að vera að nefna einn ákveðinn mann sem stóð upp úr eða var lélegri en annar. Málið er bara það að Jamie Carragher er ávallt bestur hjá LFC þegar liðið pakkar í vörn og reynir lítið að fara fram á við. Sú staða kom einmitt uppá í dag. Þetta hefur verið erilsamur tími hjá LFC sl 3 vikur en við erum að tala um að liðið er að spila 8 leiki á þeim tíma. Þetta er töluverður slatti af leikjum sérstaklega ef litið er yfir þunnskipaðan hópinn eftir að “Fröken Fótbrot” settist að í Liverpoolborg.
Annars vildi ég endilega sjá eitthvað gerast í málum þeirra leikmanna sem eru í útláni sem og með Diao. Ég vil að þessir leikmenn hverfi allir (nema LeTallec) svo við getum haldið áfram að fá leikmenn úr smiðju Herra Benitez. Svo væri ég alveg til í að sjá Garcia oftar á hægri kantinum og Pongolle frammi ásamt Mellor því það kemur andskoti lítið út úr Nunez á kantinum. Hann þarf tíma (og fær hann) en það hlýtur að koma eitthvað út úr honum síðar.
Já senor Nunez er ekki að skila fyrirgjöfunum nógu vel, þarf að bæta sig verulega í því. Svo finnst mér með Garcia eins skemmtilegur og hann er oft á boltanum að hann klúðrar of mörgum sendingum og færum. Eins og sendingin frá Gerrard út á Garcia, lágmark að hitta á markið en hann setur hann himinhátt yfir enginn pressa og ekki neitt. Markið hjá honum var þó gott. Pongolle finnst mér vera vaxandi með hverjum leik.
Sammála þessu með Carragher. Einfaldlega besti og stöðugasti leikmaður Liverpool það sem af er leiktíðinni. Ég var eitthvað að bulla á Liverpool spjallinu að Riise hefði verið bestur í dag. Ég er bara orðinn svo vanur að Carragher sé að spila eins og hetja. Hann er sívinnandi og er bara einfaldlega alveg frábær í miðverðinum. Svo hef ég á tilfinningunni að aðrir leikmenn beri ómælda virðingu fyrir honum. Hann er leiðtogi.
Þvílíkt mikilvægur sigur!!!
Nú verður spennandi að sjá hverjir koma til okkar í vikunni!
Ég spái: Morientes, Anelka og Beckham! :biggrin:
Já mikilvægur sigur í dag, en guð hjálpi okkur hefði andstæðingurinn ekki verið eitt af lélegri liðum deildarinnar.
Þið eruð að tala um þreytu hjá leikmönnum, ekki get ég séð eftir hvað Mellor og Diao eru þreyttir. Þeir hafa lítið spilað í þessari törn. Báðir voru mjög lélegir í dag, þó var Diao ívið betri eftir því sem leið á leikinn, en Mellor hann á heima í 1 deildar liði frekar en liði sem gerir tilkall til meistaratitils. Enda höfðu sérfræðingar enska boltans orð á því í leiknum gegn Southamton (um daginn) að Mellor væri ekki í Liverpool klassa. Ég er þeim hjartanlega sammála.
Vonandi verða 2-3 leikmenn keypir nú í janúar sem eru betri en þeir sem fyrir eru.
Kveðja
Krizzi
Veist þú eitthvað, sem við vitum ekki, Svavar? :biggrin2:
Já, svo við komum inná þessa “þreytu” umræðu leikmanna. Ég verð að viðurkenna það að tala um þreytu hjá leikmönnum er náttúrulega afskaplega skrýtin umræða þegar þessir leikmenn eru að æfa smá hluta úr deginum á meðan almennur verkamaður vinnur í það minnsta 8 tíma á dag flesta daga vikunnar (með fáum undantekningum). Þa hlýtur þá að vera andleg þreyta sem um er að ræða…eða hvað? Nú tel ég að þessir leikmenn fái nú einn og einn dag frí frá æfingum þar sem leikjaálagið er mikið þessa dagana en samt þetta með þreytuna….er orðið dálítið þreytt umræðuefni…ekki satt? EF þreyta sest í leikmenn í tuga tali eins og innflúensa á allar þjóðir heims, þá er kannski ekkert skrýtið að lið eins og Chelsea sé efst í deildinni með sín tvö aðallið.