Aston Villa 0 – Liverpool 1

Snjókoma, skítakuldi, lið rúið sjálfstrausti og hefur verið á stöðugu hiksti, leikbönn og meiðsli að hrjá það. Mótherjinn búinn að tapa einum leik á heimavelli og fyrir utan slakt gengi í síðasta leik verið á feikna ferð OG slátraði okkur í fyrri leiknum í vetur.

Satt að segja var ég drullu-, drullukvíðinn! Sagði við félaga mína að þessi leikur snerist um það að refsa mistökum sem aðstæður kvöldsins buðu uppá.

Byrjum á byrjuninni, liðinu í kvöld

Reina

Johnson – Carragher – Agger – Insua

Lucas – Aquilani
Kuyt – Gerrard – Benayoun

Torres

Á bekknum voru: Cavalieri, Skrtel, Aurelio, Kyrgiakos, Babel, Ngog, Spearing.

Fyrri hálfleikur kvöldsins var að mínu mati flottur fótboltaleikur tveggja gæðaliða, þ.e. úti á vellinum en afar fá færi sem voru sköpuð. Okkar besta var “dipping” skot fyrirliðans sem Friedel varði vel en besta færi hálfleiksins féll Villa í skaut þegar Kuyt klikkaði á svæðisvörninni í horni og Downing skaut þrumuskoti af stuttu færi sem Reina bjargaði vel. Það var ekkert augljóst að verja þetta skot, karlinn pollrólegur og stóð það af sér vel og fallega, bjargaði. Eins og klassa markmenn eins og hann eiga að gera.

Mér fannst við sterkari aðilinn í spilinu en bitlítið kantspil (hefur það heyrst áður) þýddi of oft það að lítið varð úr alvöru sóknarleik.

Aðeins dró úr snjókomunni í seinni hálfleik en þó dugði það ekki skónum hans Reina, sem sennilega eru vanir spænska hitanum og ansi skemmtileg uppákoma varð þegar hann þurfti að skipta um vinstri skóinn við lítinn fögnuð Villafólks. Var ekki Reina annars í lopapeysu innanundir búningnum, með hálskraga og allez!?!?

En áfram fannst mér við vera sterkari úti á vellinum, útlitið á liðinu fínt, komið ákveðið sjálfstraust í varnarleikinn og Lucas, Aquilani og Gerrard stjórnuðu umferðinni vel. EN, kantana einfaldlega vantaði og á 60.mínútu sagði ég við félaga mína að nú væri kominn tími á að Torres færi útaf, örþreyttur!

Þreyta Torres og skortur á því að við héldum boltanum uppi á topp þýddi það að á 70. – 80.mínútu leiksins voru Villa menn sterkari, bombarderuðu háum boltum sem við þurftum að verjast og gerðum vel, utan þess að Carew skallaði rétt framhjá úr horni.

Ryan Babel kom inná fyrir Aquilani sem mér fannst eiga solid leik, Captain Fantastic settur niður á miðjuna. Enn kom von í brjóst manns að þetta væri leikur fyrir Babel, bleyta og þreyttur andstæðingur. Hann virtist ætla að verða skúrkurinni í kvöld, þegar hann hitti ekki boltann í dauðaskallafæri eftir flottan undirbúning Insua.

Í blálok leiksins urðu Villa-menn ákafir og við urðum að verjast kröftuglega – maður var bara að sætta sig við ágætt stig.

ÞEGAR. Mistökin sem réðu leiknum komu. Á þriðju mínútu uppbótartímans!

Boltinn barst upp á völlinn og Villa menn gerðu slæm sendingarmistök, Benayoun elti boltann og einhver annar snillingur úr heimaliðinu renndi sér fótskriðu (elska Bjarna Fel) og sendi stungusendingu inná Torres (sem ég vildi hafa á bekknum þarna muniði) og sá SNILLINGUR gerði engin mistök. Frábær afgreiðsla hjá El Nino og við tókum sauðaþjófinn á Villa Park, stálum lærinu klukkan hálf sex á aðfangadagskvöld.

Viðbrögð O’Neill og hversu hratt Villa Park tæmdist eftir lokaflautið sagði margt um mikilvægi þessa leiks.

Mér fannst leikur kvöldsins áframhald Wolves leiksins. Liðið okkar kom á hunderfiðan útivöll einbeitt og til í að berjast til síðasta blóðdropa. Auðvitað þurftum við heppni sem virtist enn ekki ætla að verða þegar við fengum ekki augljósa vítaspyrnu í fyrri hálfleik en þú þarft að vinna fyrir heppninni þinni og það gerðu okkar menn í kvöld.

Varnarleikurinn var flottur, vorum í vandræðum í set-piece sem öll lið sem leika við Villa lenda í, en að öðru leyti fékk Villa bara ekki færi. Miðjan þeirra Lucas, Aquilani og Gerrard var að gera það sem til er ætlast, ég er á því að Alberto verði frábær viðbót við liðið og það er bara allt annað að sjá Lucas karlinn spila þessa stöðu, holding midfielder sem fær að bera upp boltann annað slagið, en þegar hann og Masch eru saman.

Kuyt og Benayoun áttu erfitt, en þáttur Benayoun í markinu var mikill. Torres er enn hálfu skrefi of seinn en sýndi það að Rafa gerði rétt með að halda honum örþreyttum inná og kláraði leikinn.

Mest finnst mér skipta að “mænan” í liði kvöldsins var flott. Reina, Carra, Aquilani, Gerrard og Torres voru að vinna fyrir kaupinu sínu og þá erum við með hörkugott fótboltalið. Mann leiksins vel ég af þessum drengjum Jamie Carragher sem ég vona að verði í þessu standi áfram. Frábær drengur þar á ferð. Ómælanlega mikilvægur í svona leik við svona aðstæður.

EN……

Nú er að byggja ofaná! Við skutum okkur inn í baráttuna um Meistaradeildarsætið aftur og þessir tveir síðustu leikir hafa gefið liðinu mikið, mikið sjálfstraust. Héldum aftur hreinu og vorum sterkari gegn flottu liði. En það er langt í lok tímabilsins og við þurfum miklu fleiri svona leiki ef vel á að fara!

Ég segi enn að ef við ætlum okkur stórt í baráttunni þurfum við öflugra kantspil, strax, og meira bakkup fyrir Torres. Ef Aquilani heldur svona áfram verður miðjan okkar fljótt og örugglega miklu meira en nógu góð.

Mér finnst líka flott að sjá að það er komin heildarmynd á liðið aftur og það er merki um að þjálfarar, leikmenn og félagið séu að vinna á sama svæði við sömu verk. Nokkuð sem þarf til að ná árangri.

Frábært kvöld og nú verður gaman á sprengjutímanum!!!

You will never walk alone. Ekki gleyma því í gleðinni elskurnar!!!

Sorry, gleymdi einu. Næsti leikur er á Madejski Stadium í Reading gegn Íslendinganýlendu heimamanna. Laugardaginn 2.janúar klukkan 17:15. Ívar og Gylfi eru Liverpoolmenn innvið beinið held ég!!! Svo Tottenham 10.janúar, alvöru leikur þar á ferð eftir úrslit kvöldsins!

65 Comments

  1. Kraftaverk á jólunum. Maður fyllist von og hugsar að kannski náum við fjórða sætinu. Bara snilld.

  2. Engan veginn sannfærandi en 3 stig engu að síður, það er það sem telur! LIVERPOOL !!!!!!!!

  3. Váááááá…ÞAÐ ER SVO GOTT AÐ FÁ SMÁ ÚTRÁS Í FAGNI…..Þvílík ánægja..

  4. torres ég elska þig drengur þú ert bestur,lelegur leikur hja honum en váááááááá þvilikur striker til hamingju með þennan sigur félagar loksins getum við brosað nuna á að opna nokkra bjóra fyrir torres 🙂

  5. Liverpool var ekki síðri aðilinn en Villa-menn sköpuðu sér hættulegri færi.

  6. Liverpool might not have played that well tonight, but I can’t help but feel Villa were less deserving of something from that game. Despite being the home team, they never really gave it a proper go – and when you play for a 0-0 on your own patch, you’re always risking getting done.”

    Tekið af beinni lýsingu BBC á leikjum kvöldsins, og ég er alveg sammála. Okkar menn stjórnuðu leiknum megnið af tímanum, Villa áttu þó kannski hættulegri færi (þökk sé stressi í vörn okkar og skelfilegum fyrirgjöfum/stunguboltum hjá sókn okkar) en á endanum voru það þeir sem gerðu mistökin.

    Við settum Babel inná til að reyna að vinna leikinn, þeir svöruðu því með því að setja Sidwell inn til að þétta miðjuna og vernda Dunne & co. Þegar þú spilar upp á jafntefli á heimavelli áttu ekkert betra skilið en tap. Villa höfðu tækifæri í kvöld til að sýna að þeir verðskulduðu að vera kallaðir stórlið og þeir duttu aftur í litlaliðsgírinn.

    Ergo = sanngjarn sigur. Við sóttum til sigurs, þeir ekki. Við héldum haus í snjónum, þeir ekki. Við erum með Torres, þeir ekki. 🙂

  7. Þetta var sannarlega erfið fæðing, en króinn kom nú samt í heiminn. Mér fannst fyrri hálfleikur skelfilegur hjá Liverpool, varnarmennirnir gerðu ekki annað en dúndra boltanum fram og ekkert spil á miðjunni. Greinilegt að Benitez hefur talað við menn í hléi, því Aquilani var hafður mun meira með í spilinu í seinni hálfleik, fékk meir að segja að taka aukaspyrnu!! Og Torres er nú betri en enginn, sko.

  8. Takk kærlega fyrir þessa jólakveðju Fernando Torres.

    Vorum betri aðilinn í leiknum og áttum þetta skilið. Rafa fær hrós frá mér fyrir þessa liðsuppstillingu og fyrir það að setja inná sóknarmann til að reyna að vinna leikinn í stað þess að reyna að spila uppá jafntefli.

  9. Það var kominn tími á þetta að við stálum leik í uppbótartíma !
    Ég elska þennan Torres.
    Ekki besti boltinn sem ég hef séð LFC leika en sigur.
    Aquilani kom bara ágætlega út. Vonandi rætist úr þessu hjá kaupa.
    YNWA!

  10. Sælir félagar

    Ég er ekki sammála mörgum hér fyrir ofan. Mér fannst þetta besti leikur liðsins í langan tíma. Okar menn stjórnuðu leiknum að stórum hluta. Það eina sem olli áhyggjum er hvað Johnson var slappur. Hann hlýtur að vera í einhverju basli með meiðsli eða eitthvað.

    Kærkominn sigur í leik sem gat fallið hvoru megin sem var. Allur annar bragur á liðinu í þessum leik. Og áfram svo og taka rest.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  11. Æðislegt að vinna á svona marki. Skelfilegur sóknarleikurinn okkar samt og nákvæmlega engin vídd eða fjölbreytileiki í sóknarleiknum. En tveir sigrar í röð hlítur að hjálpa sjálfstraustinu og nú er bara að halda þessari hrinu áfram.

  12. Ég held að það sé engin ástæða til annars eftir þennan leik en að gleðjast og fagna og allt tal um að við höfum verið verri aðilinn eða ekki átt þetta skilið er bara neikvæðni á háu stigi. Við fórum á mjög erfiðan útivöll á móti liði sem hefur spilað vel í vetur í aðstæðum sem bjóða uppá mistök og óöryggi.
    Liverpool sýndi karakter sem það hefur ekki sýnt í vetur og það er vel, annar sigurinn í röð og markið helst hreint.
    Frábær sigur, nú er bara að klára Reading og Tottenham og helst þá leiki sem eftir eru. Ég segi þetta frekar sem hvatningu en í einhverju bjartsýniskasti þar sem þessi leikur er ekki nóg til að sannfæra mig um við munum rífa okkur uppúr ládeyðunni en þetta er í það minnsta jákvætt spor í þá átt.

  13. Var að lesa á Soccernet að Torres er sá sneggsti, af öllum LFC leikmönnum að pota 50 mörkum í netið 🙂 Bara snilld.

  14. Ég kýs Reina mann leiksins, ekki bara vegna þess að varði vel á köflum heldur líka vegna þess að hann bjó til þessar uppbótarmínútur sem Torres nýtti svo vel.

    Annars var ég líka ánægður með fyrirliðann okkar, hann er allur að koma til. Insua fannst mér líka frískur sem og Lucas en aðrir síðri.

    Johnson var áberandi slakur.

    Annars var þetta auðvitað bara skítasigur á skítaliði;)

  15. Guð minn góður hvað við Liverpool aðdáendur þurftum á þessu að halda! Þetta gefur okkur það sem við þurftum; von.

  16. Ég sakna Andriy Voronin þann snilling hefði verið gott að hafa í kvöld 😉

  17. His armband proved he was a red, torres, torres
    Youll never walk alone it said, torres, torres
    We got the boy from sunny spain, give him the ball hell score again
    Fernando Torres, Liverpool No. 9

    Na, na, na, na….Torres

  18. Sammála Helga J #17, Reina var maður leiksins og Insua og Lucas að spila vel.
    Torres gerði svo það eina sem hann er beðinn um að gera… klára leikinn 🙂

  19. Fínn leikur. Við pressuðum meira en við höfum gert í síðustu leikjum og fannst mér að það hafi gert það að verkum að við náðum að stjórna leiknum. Liðið spilaði líka loksins einsog lið en ekki hópur af einstaklingum sem er of hræddur við að taka af skarið.

    Minn maður leiksins er Lucas. Hann vann vel í vörninni, átti góðar sendingar (stuttar já, en þær skiluðu sér nær alltaf á samherja), hjálpaði mikið bakvörðunum og drap miðjuna hjá Aston Villa. Ég meina, munið þið eftir því að hafa séð mikið af R. Koker eða Petrov????

  20. Virkilega sátur við þennan leik og mér fannst Liverpool miklu betri aðilinn í leiknum og ég hefði orði fúll að fá 1 stig úr þessu. Mér fannst spilamennskan vera mjög góð miðað við undanfarna leiki og vonandi að það sé hægt að byggja á þessu g komast á skrið og setja smá pressu á hin liðin.
    En ég ætla samt ekki að missa mig í fagnaðarlátum því þetta tímabil er búið að vera ömurlegt og þetta voru bara 3 stig.
    Betur má ef duga skal og núna hljóta menn aðeins að vakna.

  21. jæja það var kominn tími að maður kom með eitthvað jákvætt hérna. Þetta var besti leikur Liverpool i mjög langan tíma og það var mjög gaman að horfa á fyrirliða Liverpool i dag Gerrard var mjög góður i dag og það var kominn barátta og svona i hann svo var hann að skjóta nokkrum skotum á markið og það var mjög langt siðan að hann gerði það. mér fannst bara allt Liverpool liðið vera svona meira en þokkalegt i dag og vorum miklu betri en á móti Wolves mér fannst eins og þetta væri ekki sama liði en nú er að vona að við séum kominn á einhverja góða braut og fáum einhverja i janúar en núna fagnar maður þessum sigri

  22. Fínn leikur og við vorum betra liðið nánast allan tímann, fyrir utan svona 5 mínútna kafla í kringum mínútu 70 þar sem að Villa átti hættuleg tækifæri. Ég er ekki að segja að allt sé frábært, en þetta var góður sigur á gríðarlega erfiðum útivelli og hlýtur að gefa mönnum aukna tiltrú – svo eigum við Tottenham næst í deildinni og getum þá stimplað okkur almennilega inn í baráttuna um 4. sætið.

    Er 100% sammála kommentinu hans Kristjáns Atla #7 – það var eitt lið sem spilaði til sigurs og það var Liverpool. Ég átti alveg von á því að þetta myndi enda sem jafntefli (sem hefðu ekki verið slæm úrslit) en þetta mark var fáránlega sætt. Ég hef ekki fagnað svona mikið og vel lengi. Ég var næstum því búinn að gleyma því hvernig var að vinna svona leiki á síðustu sekúndunum. Það er allavegana mjööög gaman.

  23. Skelfilega sætt að stela þessum þremur stigum svona í lokin í leik sem við áttum lítið meira en jafntefli skilið úr.

    Reina by far maður leiksins eftir nokkrar góðar markvörslur og líklega markvörslu ársins þar á meðal eftir að vörnin bara sleppti því að dekka MANNINN Á FJÆRSTÖNG í horni! (djöfuls heimska sem það nú var).

    Annars er kannski ekki sanngjarnt að meta frammistöðu liðsins eftir þennan leik enda aðstæður alls ekki eðlilegar en langar samt aðeins að kommenta á okkar leikmenn. Vörnin hélt allavega hreinu og við vorum að sleppa við að fá mark á okkur úr föstu leikatriði gegn sterku Villa liði. Þetta var ansi skrautlegt á köflum samt og Glen Johnson gat afskaplega lítið í þessum leik þó hinir þrír hafi staðið sig vel.

    Miðjan var ekki með fyrr en eftir tæpar tíu mínútur en eftir það voru þeir ágætir, Lucas klárlega betri í leiknum en Aquliani var sæmilegur og alltaf að reyna menn fyrir framan sig. Villa pressaði samt gríðarlega stíft og völlurinn var hræðilegur þannig að það sást vel í lokin að ítalinn var alveg sprunginn í lokinn og sendi varla sendingu rétt í restina. Gerrard var síðan sæmilegur í dag og þó nokkuð í baráttunni þó hann hafi ekki farið að skipta almennilega máli fyrr en við skiptum í 4-4-2.

    Kantarnir voru síðan einfaldlega hræðilegir í leiknum, Kuyt sem ég er alveg gjörsamlega hættur að þola gat ekki blautan í þessum leik og gerði mest lítið af viti á meðan ég bara veit ekki hvernig Benayoun var að spila því að ég spurði án gríns félaga minn á svona 85.mín hvort ísraelinn væri nokkuð ennþá inná, ég sá hann aldrei í seinni hálfleik. Þetta er eitt af aðalvandamálum okkar þessa stundina, það kemur rosalega lítið út úr köntunum og nákvæmlega ekkert í dag.

    Fernandi Torres var síðan af þessum sökum að spila einn á móti svona þremur mest allann leikinn og gat ekki neitt. Hann fékk engu að síður eina heppnis sendingu innfyrir frá vörn Villa (enda var miðjan hjá okkur ekki að fara finna hann) og það er nóg. Svona kallar eiga það til að hverfa í 90.mín en taka samt allar fyrirsagnirnar eftir leik. Hvar værum við án Fernando Torres, úff.

    Að lokum fannst mér frábært að sjá Babel koma inná og sjá Rafa loksins skipta í 4-4-2 með Babel frammi til að hjálpa sóknarleiknum með hraða sínum, ekki Babel á kantinn þar sem hann á ekki eins vel heima með Kuyt upp á topp til að hindra sóknarleikinn.

    Ég hef ennþá ekki misst trúna á Babel og finnst hann mjög góð lausn sem sóknarmaður þegar við stillum upp 4-4-2 (eða þegar Torres er ekki með). Liðinu skortir grátlega mikið hraða og Babel er fljótastur í Liverpool liðinu.

    Þetta var fyrsti sigur okkar með marki í uppbótartíma á þessu tímabili svo ég muni, mikið afskaplega er það góð tilbreyting frá því að vera að fá þessi mörk á sig.

  24. Frábær sigur og afar nauðsynlegur ! Torres sást sama og ekkert í kvöld en hverju skiptir það þegar hann klárar leiki svona, 50 mörk í 72 leikjum, það er þokkalegt hlutfall. Reina var klárlega maður leiksins.

    Næstu leikir:

    10.01.2010 Liverpool Tottenham Enska Úrvalsdeildin Anfield
    16.01.2010 Stoke City Liverpool Enska Úrvalsdeildin Brittannia Stadium
    26.01.2010 Wolves Liverpool Enska Úrvalsdeildin Molineux
    30.01.2010 Liverpool Bolton Enska Úrvalsdeildin Anfield
    06.02.2010 Liverpool Everton Enska Úrvalsdeildin Anfield
    10.02.2010 Arsenal Liverpool Enska Úrvalsdeildin Emirates Stadium

    21.02.2010 Man City Liverpool Enska Úrvalsdeildin City of Manchester

    Klára Tottenham takk og síðan koma nokkrir leikir þar sem við eigum að taka þrjú stig – þurfum því að vinna næstu fimm leiki, rífum sjálfstraustið í gang og tökum síðan Arsenal þann 10. feb og city þar á eftir þegar sjálfstraust og form verður komið í hæstu hæðir…….
    maður má nú leyfa sér að vona á þessum síðustu og verstu !

  25. Vorum betri aðilinn, en Bennajón,,,,, vá hvað sá maður getur verið tíndur stundum eins og hann er oft þrusugóður, en 3 stig, gott mál.

  26. Jafntefli hefði verið sanngjarnt. Villa var betri aðilinn í leiknum ef eitthvað var. Ekkert að gerast hjá þessu liverpool liði sóknarlega, enda sást það í markinu. Það skapaðist ekki af einhverri snilldarútfærslu miðjumanna liverpool heldur af klaufagangi Villa, fyrst Warnock að renna og svo Sidwell að tækla hann innfyrir. Liverpool getur þakkað Reina og Sidwell fyrir stigin 3.

  27. Falleg jólagjöf frá Torres. Virkilega kærkomin sigur og góð þrjú stig. Hvað er eiginlega langt síðan Liverpool vann tvo deildarleiki í röð? Ég held að Liverpool sé hægt og rólega að vinna sig uppúr þessari lægð sem liðið hefur verið í og ef við vinnum Reading og Tottenham þá erum við komnir á virkilega góða siglingu.

  28. Sleppti mér algerlega þegar Torres skoraði. Langt langt síðan að maður hefur getað glaðst svona yfir fótbolta. Vonandi bætir þetta vel í sjálfstraustið hjá liðinu. En fyrir utan úrslitin þá fannst mér liðið enn vera undir pari.

    Yfir pari:
    Reyna

    Á pari:
    Carragher, Lucas, Insua, Aquilani,

    Undir pari:
    Gerrard, Torres, Kuyt, Benayoun,Johnson, Agger

    Jákvætt að sjá Aquilani vaxa og hann leit vel út fyrri hluta leiksins. Virkaði þreyttur í síðari hálfleik. Frábær úrslit , tökum svo Tottenham og þá er allt að gerast.

  29. Ég stökk upp úr sófanum og fagnaði gríðarlega þegar að Torres skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Hann var mjög slakur í kvöld en maður fyrirgaf honum allar syndir þegar hann skoraði markið. Insua er minn maður leiksins því mér fannst hann mjög öflugur í dag, þorði meira að gera hluti upp á sínar eigin spýtur, átti fyrirgjöfina þegar að Babel hitti ekki boltann úr algjöru dauða skallafæri og var að skila sínu varnarlega. Lucas var líka góður, Reina var góður og Gerrard er greinilega að koma til baka. Sáu þið hvað spilið okkar breyttist þegar hann fór á miðjuna eftir að Aquilani fór útaf ?? Allt annar bragur á spilinu okkar og miklu meira öryggi og hætta. Johnson var slakastur LFC manna í kvöld að mínu mati en það eru einhver meiðsli að hrjá hann og því miður fór hann útaf í kvöld meiddur. Vonandi ekki alvarlegt. Ég hélt síðan að ég myndi brjálast þegar að bæði Skrtel kom inná völlinn og líka þegar hann braut klaufalega af sér rétt fyrir utan teig. Þar hélt ég að Villa myndi skora sigurmarkið á okkur. Svei mér þá ég hefði heimtað sölu á Skrtel ef svo hefði farið.
    Þetta er samt kærkomið og 3 stig sem skipta öllu máli.
    Forza Liverpool.

  30. vorum heilt yfir betri og ,,in control” eins og Rafa segir eftir nánast hvern einasta leik en Villa fékk betri færi, því verður ekki neitað… þetta var baráttusigur í miklum baráttuleik og ótrúlega sætt að sjá boltann í netinu í uppbótartíma, kominn tími til að lukkudísirnar séu með liðinu eins og einu sinni… Carra og Pepe sennilega bestir og Kuyt barðist vel og mér fannst Insua koma ágætlega frá þessum leik, aðrir töluvert frá sínu besta

  31. Ertu að grennast, þegar Ag-eitthvað-hor komst í gegn, kallaðu það ekki færi.

  32. klárt mál að við stálum þessum leik…og er það ekkert nema gott. Bestu liðin vinna 50/50 leikina.

    Fannst Aquilani & G.Johnson vera hrikalegir í leiknum, einnig var benayoun ekki að finna sig í þessum aðstæðum. Hinsvegar var Reina frábær ásamt lucas og carra. Insúa var einnig að standa sig vel.

    Ég segi hvíla Aquamann í næsta leik og setja hann svo inn á þegar við mætum aðstæðum þar sem hann getur haft boltann í löppunum.

    En allt í allt frábær sigur!

  33. Kuyt og Johnson voru á hælunum í kvöld fannst mér. Fæ það á tilfinninguna að það sé búið að skamma Johnson fyrir að vera að flækjast of mikið fram, virðist óöruggur og tregur.

    Agualini kom ekki nógu vel út og lét taka sig í bólinu nokkrum sinnum en kallinn er eflaust enn að venjast hraðanum í enska boltanum. Allt annað að sjá fyrirliða okkar í síðustu tveim leikjum, virðist vera mun meiri hugur í honum.

    Torres gat ekket, virkaði hægur, þreyttur, áhugalaus og að honum væri bara kalt greyinu, þar til að hann skoraði þetta líka fína mark.

    Hjartanlega sammála færslu nr7 Villa liðið virtist ætla að sækja jafntefli á heimavelli í þessum leik. Það var algjörlega röng taktík hjá Oneill og þeir þurftu að borga fyrir það í dag með snilli Torres.

    PS: Skil enn ekki afhverju Gerrard má ekki spila á miðjunni, liðið virkar 10x betur þannig. Nota svo Benna í holuna, Riera á kantinn vinstra meginn og svo kaupa kantmann á hægri í janúar. (babel)

    ps2: Kútur getur ekki tekið á móti bolta og væri kannski ágætis varamaður.

  34. Langar að benda mönnum hér á að ein ástæða þess að Gerrard hefur leikið betur í síðustu tveimur leikjum er að mínu mati sú að Aquilani fer framar á völlinn en Masch/Lucas gera þegar þeir spila saman og í þessum tveimur leikjum hefur boltinn flotið afar vel í gegnum miðjuna okkar, ekki var nokkur maður að reikna með flugeldasýningu Aquilani í kvöld, hann þarf enn MIKLU meiri tíma til þess. En þessi miðja lítur allt öðruvísi út en áður en Alberto kom inn.

    Svo er Gerrard fyrir framan miðjuna svo hann komist í skallafærin eins og hann skoraði úr gegn Wolves og þurfi ekki að verjast eins mikið.

  35. Framför frá síðustu leikjum en vá hvað Kuyt er endalaust lélegur. Hvað á þessi maður að fá mikinn spilatíma. Handónýt fyrsta snerting og fáránlega seinn. Vil sjá Babel fá fleiri tækifæri á hægri kanti í næstu leikjum, negla bara Kuyt við helvítis bekkinn!!

  36. Þúst ef hann gæti tæklað eða e-ð, þá væri hann örugglega skárri þar.

  37. Yeeeeeeeeeeeehaaaaaaaaaaaaa ÞRÍR sigrar í röð, er staddur í Svíþjóð í mígandi gaddi eða 22.8 gráður í MÍNUS, henti mér á íshokkey leik og með Liverpool treyjuna undir, Leksand vann öruggann sigur 4 – 0 og þá sagði ég að Liverpool myndi vinna, henti mér svo á pöbbinn sem er innbygður í Íshokkey-höllina, reif mig úr Leksands treyjunni og setti mig í gírinn með 80 Leksands áhorfendum sem voru nánast allir Liverpool aðdáendur líka, fékk mikið hrós fyrir að vera í minni treyju undir Leksands treyjunni 😀 😀 😀 Margir komu til mín og sögðu mér að vera bara rólegum (ég var nefninlega MJÖG æstur) Liverpool myndi í versta falli halda jöfnu, en ÉG sagði þeim að Torres myndi koma með eitt fallegt svona rétt fyrir nýja árið 😀 😀 😀 og hvað gerðis – ég gjörsamlega trilllllllllltis, hoppaði upp og hrópaði og ….. ég fékk mikið klapp fyrir fögnuðinnnnnnnnn

    ÁFRAM LIVERPOOOOOOOOLLLLLLLLLLL – VARÐ BARA AÐ DEILA ÞESSU MEÐ YKKUR YEEEEEEEEEEEEEEHAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA

    AVANTI LIVERPOOL – R A F A – http://www.kop.is

    PS: eins og ég hef áður sagt – mér er nokk sama hvernig við vinnum leikina – bara að við vinnum og það gerði TORRES FYRIR OKKUR MEÐ STÆL

  38. Ég sagði fyrir leikinn að úrslitin myndu ráðast á 90 mín og Gerrard myndi skora sigurmarkið. Sætti mig alveg við 93 mín og Torres. Ég taldi að tækifæri Liverpool myndu liggja í síðustu mínútum leiksins þar sem það myndi draga verulega af leikmönnum Villa eftir því sem myndi líða á leikinn enda spilaði liðið fyrir aðeins tveimur dögum gegn Arsenal. Það kom á daginn, það sem ég sagði að úrslitin myndu ráðast á þessum aukadegi í hvíld sem Liverpool fékk.
    Eftir góða rispu Villa í kringum 70 mín var allur vindur úr þeim. Benitez gerði góða skiptingu með Babel og frískaði uppá sóknarleikinn og liðið setti aukna pressu á Villa með að koma framar á völlinn. Það skilaði sér í að Liverpool refsaði Villa eftir röð mistaka í varnarleik heimaliðsins. Virkilega mikilvægur og sætur sigur. Ég sagði jafnframt að þetta myndi verða turning point leikur og vonandi að það verði rauninn.

    Eins og búast mátti við þá reyndu Villamenn að halda tempóinu niðri í leiknum og beittu skyndisóknum. Það verður að viðurkennast að þeir fengu bestu færi leiksins en Reina varði tvívegis frábærlega einn á móti einum í fyrri og síðari hálfeik eftir mistök hjá Kuyt og Carra.

    Reina var klárlega maður leiksins í kvöld, steig ekki eitt feilspor við erfiðar aðstæður.

  39. Góð leikskýrsla Maggi en ég vil útfæra eitt sem þú sagðir. Þú talaðir um að liðið hefði verið í vandræðum með föstu leikatriði Villa-manna. Ég er því algjörlega ósammála. Við lentum, þrátt fyrir mýmargar fyrirgjafir, aukaspyrnur og hornspyrnur heimamanna, aðeins tvisvar í vandræðum:

    Í fyrra skiptið gerir Kuyt mistök, ruglast á því hvaða svæði hann á og dettur inn á teiginn í einhverju gaufi. Fyrir vikið er Downing einn á fjær-markteigshorninu en Reina ver, og flippar svo út á Kuyt í kjölfarið.

    Í seinna skiptið skallar Carew rétt framhjá úr horni um miðjan seinni hálfleik en í endursýningunni sést klárlega að Carew ýtir Agger frá sér áður en hann skallar. Klárt brot þar.

    Þess fyrir utan stóð vörnin sig hetjulega í föstu leikatriðunum gegn því liði sem er hvað sterkast í því í þessari deild. Fyrir mér skrifast þessi leikur fyrir vikið sem velgengni fyrir vörnina okkar og svæðisvörnina margrómuðu. 😉

    Annars er maður bara hæstánægður með sigurinn. Þetta er það sem hefur vantað undanfarnar vikur – að fylgja sigrum á United eða Everton eftir með harðsvíruðum baráttusigri í kjölfarið. Nú höfum við loksins tvo sigra í röð sem ætti að gefa mönnum rými til að anda léttar.

  40. Það var margt mjög jákvætt í leik liðsins í kvöld, sérstaklega ef maður miðar það við spilamennskuna undanfarnar vikur. Mér fannst miðjan hjá okkur virka vel í kvöld, Lucas og Aquilani voru að dreifa boltanum vel sín á milli. Einnig voru batamerki á Gerrard, er smám saman að skríða saman. Þó var Torres í 91 mínútu, en þegar hann er kominn í betra leikform þá er voðinn vís.
    Ef það var eitthvað sem vantaði í leik okkar manna var það ógn frá köntunum, Yossi og Kuyt voru slakir að mínu mati.

    En ef við höldum áfram að bæta okkur, þá fer smám saman sjálfstraustið að aukast og þá hefur maður fulla trú a að við getum náð þessu 4. sæti, vonandi komist ofar en það. En klassasigur í kvöld!!!

    • Don Roberto er maður commentanna!

    Amen, ákaflega hressandi og ánægður með þig í réttum klæðum! Spurning hvort það hafi verið eitthvað svona sem kom fyrir þig (DR) þegar Torres skoraði ?

    og Nr.44. Grétar
    Þúst maður segir ekki þúst, maður skilur ekki þúst! 😉

    Já og kudos Maggi á góða skýrslu

  41. Við höfðum heppnina og Torres með okkur !

    Maðurleiksins var að mínu mati Reina

    ÁFRAM LFC

  42. ZERO; það verðu bara að segjast að það vantar að menn hjér já HJÉR kasti sér í átta að hamingjunni þegar vel gengur og hreinlega láti það F L A K K A rétt eins og ég gerði og upp skar mikið lófaklapp 😀 😀 😀

    BABU; njeeeeeee ekki alveg en svona til að hafa það á hreinu þá er ég með það alveg klárt hversvegna ég lét það F L A K K A – HERRA NR. 9 SKORAÐI Á HREINT BJÚTÍFÚLLLL MÍNÚTU og geri aðrir betur heheh.

    … og bæ ðe vei núna er bara -19.5 gráður, er að undirbúa mig fyrir -30 sem eiga að vera á morgunnn brrrrrrrrrrrrrrrrrrrr………

    AVANTI LIVERPOOL – R A F A – T O R R E S – http://www.kop.is

    PS. … Torres, takk fyrir síðbúna jólagjöf, markið var kjærkomið og brosið þitt líka 😀 😀 😀 😀 😀 😀 😀 😀 😀 LIVERPOOL NR. 9

  43. Torres er núna búinn að spila 15 af 20 leikjum okkar í deildinni og skora í þeim 12 mörk…
    Nokkuð gott fyrir mann sem er að berjast við að koma sér í form 🙂

  44. Aquilani var hræðiliegur, ef Lucas ætti svona leik þá væru komnar 120 færslur við þetta blog.

  45. Albert Aquilani var kanski ekki hræðilegur, en hann verður að gera mörgum sinnum betur en þetta og Gary Lineker(ath stafs.) sagði að þetta séu verstu kaup ársins, en vonandi fer hann að sýna að hann sé peningana virði. Annars var þetta ágætis leikur í kulda og snjókomu. Kuldi og snjór??? Já,,, á bara að vera upp á fjöllum. 😉

  46. Athyglisverð úttekt á köntunum okkar í gær: http://www.thisisanfield.com/2009/12/30/analysis-vs-villa-comparing-wingers/ Staðfestir það sem flestir hafa sagt hér (sá því miður ekki leikinn sjálfur) um að kantarnir hafi verið steingeldir í gær, en ótrúlegt að sjá að Benayoun og Kuyt hafi einungis náð EINNI sendingu inn í vítateig allan leikinn!

    Ég hef verið dyggur stuðningsmaður Kuyt eftir flott tímabil í fyrra, en það er morgunljóst að þetta tímabil hefur verið algjör stinker fyrir hann…

  47. Það er sem betur fer ennþá lífsmark með liðinu okkar. Algjör snilld að stela sigrinum svona í lokin. Torres er snillingur!!!!!!!!!!!!

    ÁFRAM LIVERPOOL NÁUM 4. SÆTINU!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

  48. Ég vil fá Babel á kantinn í næsta leik enda gengur ekki að spila endalaust kerfi sem byggir á kantmönnum en vera ekki með neina kantmenn í liðinu.
    Yossi er frábær leikmaður en hann er alls enginn kantmaður og leitar því alltaf inná miðjuna og því nýtast kantarnir ekkert og í leik eins og þessum þá fara bakverðirnir ekki mikið fram og þá fáum við aldrei krossa fyrir markið.
    En ég er sáttur við þennan leik og vonandi að þeir nái að byggja á þessu.

  49. Aquilani gerði suma af litlu hlutunum vel, lét boltann rúlla vel og fljótlega á milli manna og slíkt en það sást að hann vantar enn talsverða snerpu og form til að geta látið að sér kveða. Hins vegar ættu allir að vita að það er einfaldlega til of mikils ætlast af honum að spila af fullum krafti og styrk svona snemma. Þetta var aðeins þriðji leikurinn sem hann byrjar fyrir liðið, og ég held að hann hefði 100% ekki spilað þennan leik frá byrjun ef Mascherano hefði verið til taks.

    Engu að síður, þrátt fyrir lélega frammistöðu Aquilani, unnum við miðjuna frekar auðveldlega í gær. Hvernig gæti það verið? Gæti hugsast að félagi Aquilani á miðjunni hafi átt góðan leik? 😉

  50. Ég er sammála um að Reina hafi verið maður leiksins og það hefur komið vel fram hverjir voru lélegir og hverjir góðir,en mér vinnst vannta fleiri menn inn í teig nokkru sinnum í leiknum þá er Torres kominn með boltan á skrið en getur ekkert sent á neinn og snýr við og sendir til baka.
    Mér er sama hvað leikkerfið kallast en það bara verða að vera fleiri í teignum.
    Kannski eðlilegt á móti Villa á úti velli en þetta var svona líka í wolves leiknum,þarf ekki endilega að nota annann framherja bara að kanturinn á móti komi í teiginn og Gerrard aðeins meir.
    En frábær úrslit í fínum leik og mikil bata merki á vörninni aðalega.
    Vona að meiðsli Glennarans verði ekki alvarleg og seti strik í reikninginn.
    Koma svo Áfram Liverpool

  51. Úr því menn eru farnir að ræða Aquilani þá verð ég bara að segja að þetta er flottur spilari með gæði. Það sést langar leiðir.

    Ég vil bara sjá hann spila örlítið framar og svo sést hvað miðjan virkar mun betur með Alberto og svo Lucas að halda fyrir aftan hann.

    Aquilani getur spilað með fyrstu snertingu, fyrsta option er fram á við hjá honum, hann kom með nokkrar flottar sendingar í gær en það er augljóst að hann er ekki kominn í toppstand, sem er bara mjög eðlilegt.

    Ég er viss um að hann á eftir að reynast okkur vel og vonandi í vor fáum við að sjá hann á fullum krafti.

  52. Við vorum betri aðilin í þessum leik börðumst vel, en það vantar samt smá upp á hreifingu manna án bolta menn verða að bjóða sig eina helst Aquilani sem gerði það. Torres var ekki mikið áberandi, en málið er að hann er bara finisher og það er bara þannig að ef lið gleimir að dekka hann eitt augnablik þá refsar hann, þvílík snild…. sangjörn úrslit af mínu mati…. og nú er bara að halda uppteknum hætti á nýju ári…. hef fulla trú á þessu liði… Áfram Liverpool…

  53. Ég er því algerlega ósammála að Aquilani hafi verið hræðilegur eins og sumir segja hérna, hann var kanski ekki sá besti en langt frá því að vera hræðilega lélegur… og við hverju bússt menn eftir alla þá fjarveru frá fótbolta sem hann hefur þurft að þola, hann er að mér finnst stöðugt að koma til og á bara eftir að verða betri, og spilið á bara eftir að verða hraðara og það sem meira er allt fram á við… mjög skapandi sendingar sem bjóða upp á einna sendinga svörun… (nema þegar sent er á Kuyt)…

Byrjunarliðið komið

Gullmaðurinn Fernando Torres!