Það er mikið rætt um þátttöku Liverpool í Heimsmeistarakeppni Félagsliða í Japan í desember n.k., svokallaðan ‘Toyota Cup’ þeirra hjá FIFA. Skv. fréttum í dag mun Liverpool draga sig úr þátttöku í þessari keppni, og Sepp Blatter, forseti FIFA, var ekki lengi að svara því.
Í frétt Echo segir að Liverpool séu ekki skyldugir til að taka þátt í ‘Toyota Cup’ í Japan, en Sepp Blatter segir hins vegar í sinni frétt að Liverpool verði að spila, það standi í samningum þeirra. Þarna skarast greinilega orð beggja aðila, og ekki ætla ég að segja ykkur hvor er að segja satt … en ef Liverpool eru samningsbundnir til þátttöku og reyna að hætta við að mæta, þá er næsta víst að FIFA refsa þeim fyrir.
Annars er uppáhalds fréttin mín í dag svo hljóðandi: Nando welcomes UEFA decision!
Muniði eftir Fernando Morientes? Nei, ég bara spyr … því stundum finnst mér hann nánast gleymast í öllum umræðum um Peter Crouch og Dirk Kuyt, og vangaveltum um framtíð Milan Baros og legginn á Djibril Cissé. Já, og Michael Owen.
Staðreyndin er samt sú að við eigum Fernando Morientes, sem hefur unnið Meistaradeildina með Real Madríd og verið markakóngur hennar með Mónakó. Hann er ekkert að tvínóna við hlutina, aðspurður um næsta tímabil:
>”I want to be top scorer in the competition again, as I was with Monaco, and win the trophy with Liverpool.”
Jámms. Veistu, Fernando? Ég ætla ekki að mótmæla þér … ég efast ekki um að þú ert bara déskoti líklegur til að skora heilt vörubílahlass af mörkum fyrir Liverpool á næsta ári, og gildir þá engu hvort Milan Baros, Peter Crouch eða Dirk Kuyt verður á bekknum, þar sem þið Djib-master Cissé verðið örugglega hættulegasta sóknarpar Úrvalsdeildarinnar á næsta vetri.
Ég sé fyrir mér markakeppni á næsta ári: Djib vs. Moro. Jú, það er spennandi að pæla í kaupum sumarsins og alltaf er maður jafn spenntur fyrir því að fá nýjan framherja inn … en við skulum ekki gleyma því hverjir eru nú þegar hjá okkur. 🙂
Sepp Blatter er nú aldrei að spara stóru orðin.
Það er löngu kominn tími á þessa risaeðlu í fótboltaheiminum. Hann heldur að hann sé einræðisherra. Í það minnsta finnst mér stundum tala þannig.
Ég hef enga trú á því að Liverpool sé að draga sig út úr þessari keppni nema af því að þeir geta það.