Jæja, hið óumflýjanlega virðist vera að gerast: Milan Baros hefur samþykkt að ganga til liðs við Schalke í Þýskalandi! Nú eiga liðin tvö aðeins eftir að komast að samkomulagi um verð, en þar sem Schalke-menn vita nákvæmlega hversu mikið Liverpool vilja fá fyrir kappann (7m punda) þá ætti það ekki að taka langan tíma. Schalke-menn eru ekki vitlausir, þeir væru ekki komnir svona langt í samningaviðræðunum ef þeir ætluðu sér svo ekki að borga uppsett verð. Þannig að ég býst fastlega við að sjá Baros í Schalke-treyju í síðasta lagi á föstudag, með tilliti til þess að þýska deildin hefst um næstu helgi.
Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur, ég mun sjá stórlega á eftir Baros. Hvort að hann skilur eftir sig skarð í liðinu eða ekki verður bara að koma í ljós, en við skulum aðeins kíkja á hvað framherjahópurinn okkar hefur upp á að bjóða, nú í fjarveru Baros:
1. Fernando Morientes er allur að koma til. Við vitum að hann skorar mörk, við vitum að hann er góður spilari og mjög alhliða, og leikir hans í júlí hafa gefið mér mikið sjálfstraust. Til að mynda var frammistaða hans eftir að hann kom inná gegn Kaunas mjög, mjög góð og þá var hann frábær gegn Wrexham. Hann á pottþétt eftir að standa sig í vetur, efast ekki um hann í sekúndu.
2. Djibril Cissé er nú orðinn næst markahæsti leikmaður okkar á undirbúningstímabilinu, á eftir Gerrard, og virðist vera orðinn okkar aðalframherji. Mig grunar sterklega að Cissé verði markahæsti leikmaður LFC á komandi leiktíð og að eftir rúmlega hálft ár verði menn farnir að tala um þessar 14m punda sem við eyddum í hann sem “kjarakaup” … ég hef tröllatrú á þessum strák.
3. Peter Crouch. Tveir leikir, tvær stoðsendingar og góð spilamennska almennt fyrir Liverpool. Hvort það er byrjunarheppni eða hvort að hann er virkilega svona góður, á eftir að koma í ljós, en eins og alltaf þegar nýr framherji kemur til liðsins verður hann dæmdur af (a) getu sinni til að skora mörk og (b) getu sinni til að skapa fyrir aðra. Crouch hefur greinilega eiginleikana til að gera bæði, en það á algjörlega eftir að koma í ljós hvort hann stendur undir álaginu. Er enn á báðum áttum.
4. Neil Mellor, Florent Sinama-Pongolle og Anthony Le Tallec. Í alvöru, er eitthvað lið í Úrvalsdeildinni með þrjá jafn hæfileikaríka, unga framherja sem varaskeifur fyrir sína fyrstu þrjá kosti eins og við? Einfalt svar: nei! Mellor er ekki sá flinkasti en hann skorar mörk, svo einfalt er það. Pongolle er ótrúlega flinkur, fimur og á sennilega mestan séns á að verða fullgildur aðal-framherji hjá okkur af þessum þremur, á meðan Le Tallec er einnig einstaklega hæfileikaríkur og vantar bara örlítið sjálfstraust og/eða grimmd til að verða mjög góður. Þrír framherjar sem er gott að hafa fyrir utan hópinn.
Sem sagt, sex framherjar hjá Liverpool í dag. Tveir þeirra eru að mínu mati pottþéttir, einn er nýkominn og verður spurningamerki þangað til annað kemur í ljós, og þrír stórefnilegir til vara. Spurningin er bara: er það nóg?
Ég veit það ekki. Ef við lendum ekki í sömu meiðslahremmingum og í fyrra, og ef framherjarnir okkar spila skv. því sem ætlast er til af þeim, þá munum við öll vera búin að gleyma því hver Milan Baros er/var um jólin (rétt eins og Milan fékk okkur til að gleyma Owen fyrir ári síðan) en ef við lendum í markaþurrð og/eða vandræðum með getu framherjanna, þá er alveg ljóst að Rafa verður dæmdur harkalega af þessari sölu, enn harkalegar en af Owen-sölunni sem var á sinn hátt óumflýjanleg.
Milan Baros hefur verið einn uppáhalds leikmaður okkar Einars síðan hann kom til Liverpool. Hann átti stóran þátt í Evróputitli okkar á síðustu leiktíð, ekki bara með því að skora mikilvæg mörk heldur einnig með því að hlaupa maraþon í hverjum einasta leik og vinna ótrúlega vanþakklátt starf. Hann var jafnan sakaður um að spila bara fyrir sjálfan sig – og vissulega var hans helsti galli eigingirni í teignum – en það er fáránlegt að maður sem vinnur jafn vel og Milan og hleypur jafn mikið fyrir liðið geti verið kallaður sjálfselskur bara af því að hann gefur boltann ekki í færi.
En á endanum þá er það Rafa Benítez sem ræður þessu og við treystum honum. Ef Houllier hefði selt Baros og keypt Crouch hefði ég orðið snarbrjálaður, en með fullri virðingu fyrir honum þá vann hann ekki Meistaradeildina á sínu fyrsta tímabili með okkur. Rafa gerði það, og verðskuldar því traust okkar. Milan Baros er farinn og Peter Crouch er kominn, ef það er það sem Rafael Benítez telur að sé Liverpool fyrir bestu þá er það líka það sem ég tel Liverpool fyrir bestu.
Bless Milan, takk fyrir minningarnar og mörkin! Ef það er einhver leikmaður sem ég mun halda með fyrir utan Liverpool þá er það Baros – ég ætla að vona að hann verði markakóngur í Þýskalandi í vetur og svo vona ég að hann rústi HM á næsta ári. Enda ætti hann að vera orðinn vanur þýskum völlum fyrir næsta sumar. 😉
Gremjuleg tíðindi, frábær leikmaður. Vona að Rafa sé að gera rétt. Maður veit ekki hvað gengur á bakvið tjöldin.
Hef ekki trú á því að þetta sé satt.. Og hreinlega vona ekki…
Sorglegt !
En Baros, erum við að tala um að þú takir núna upp nafnið Crouch ? 🙂
Góð tíðindi. Aldrei verið hrifinn af stelpunni. Höfum þrjá topp framherja sem hafa uppá mikið að bjóða. Þrjá peyja til vara… hmmm… ég er sáttur…
Milan Baros… 😡
Good riddance! Bæ bæ Baros.
það er pottþétt einhver maðkur mysu milan baros. hann var með fullt af leiðinda commentum í vor og benitez nennir ekki að standa í slíku. mitt mat.
Ég var hrifinn af Baros en hann olli mér miklum vonbrigðum síðasta tímabil og kommentin hans sum voru ekki til þess að breyta vonbrigðum mínum. Hann sagði eitthvað á þá leið í vor að hann vildi að þjálfarinn “vildi sig”, annars væri ekki gaman að vera í liðinu. Attitúdið var ekki gott (sbr. rauða spjaldið sem hann fékk á móti…Everton … minnir mig). Hann ýjaði að ýmsu. Tölfræðin hans er ekki svakalega merkileg (mörk skoruð í spiluðum leikjum), þannig að ég tel að tímasetningin sé rétt: tökum séns á þessum frábæru framherjum sem við höfum og segjum bless við Baros án þess að halda að við séum að missa af einhverjum stórkostlegum. Crespo sökkaði hjá Chelsea, brilleraði hjá AC Milan, og spurningin er með hann í vetur. Hvort sem Baros brillerar eða ekki hjá Schalke, þá megum við ekki gráta hann. Hann fékk sín tækifæri fannst mér. Nú þarf Crouch að sýna sig og ég legg til að við gefum honum séns.
Get ekki sagt að ég gráti Baros. Vil ekki mann í mitt lið sem finnst orðið ,,liðsfélagi” vera framandi!!!
Já Hafliði, þetta setur mig í vanda. Mér líst vel á Crouch sem leikmann en reikna með að halda Baros nafninu. Ef ég breyti þá verður það McManaman… Hvað er annars að frétta af þeim ágæta kappa? Er hann hættur? Sá að samningi hans var rift hjá man.city.
Tvífarar vikunnar…
Hekla daðadóttir (systir Rikka Daða)
http://www.ibvsport.is/albums//album19/adt.jpg
og
Milan Baros..
http://www.allsportgallery.co.uk/previews/52589992_8ca.jpg
Þetta er frekar sorglegt. Loksins þegar það er kominn maður sem gæti virkað eins og Jan Koller þá selur hann Baros 🙁 hefði viljað sá hann fá eins árs framlengingu á samningnum og þ.a.l. eitt ár í viðbót til að sanna sig…
Ég er ekki alveg dús við þessa ákvörðun Rafa. Ég hef svona smá ónot yfir þessu. Ég hef aldrei verið neinn sérstakur Baros aðdáandi en þessi strákur býr yfir ótrúlegum hraða og þoli og einhvernveginn finnst mér ótrúlega skrítið að við skulum ekki geta nýtt hann. Mér finnst Rafa einmitt hafa verið snillingur í að nýta hæfileika sinna manna þannig að þeir ganga hreinlega endurnýjun lífdagana. Samanber Traore og Carragher. Já eða Biscan sem átti sennilega sína bestu leiktíð í vetur sem hann var hjá Liverpool.
Kannski er bara ekki hugarfarið rétt hjá Baros og ef til vill gengur þeim ekki nógu vel að vinna saman, Rafa og Benites.
En svona er þetta……….
In Rafa we trust…..!
Arrrrrg! Ég veit ekki hvað ég geri ef ég sé Owen spila fyrir man utd.! :confused: 🙁 😯 :rolleyes: 😡
Mér finnst núna ekki lengur bara vera forgangsatriði hjá Benitez að fá miðvörð og hægri kant…heldur líka Michael Owen! :tongue:
Fyrst að Baros er á förum þá yrðu Cissé, Morientes, Crouch og Owen fyrstu fjórir framherjarnir inn. Svo sé ég Pongolle fyrir mér sem þann fimmta, Mellor sjötta og Le Talec sjöunda….(ef þeir nenna þá að hanga þarna áfram).
Hljómar þetta ekki betur heldur en án Owen? 😉