Arsenal á sunnudaginn

Þá er löngum og dramatískum föstudegi lokið. Síðan aftur orðin rauð á litinn og minningarstund Hillsborough-slyssins þetta árið lokið. Framundan er heil umferð í ensku Úrvalsdeildinni um helgina þar sem okkar menn sækja Arsenal FC heim en fyrst finnst mér ég ekki geta annað en deilt tvennu með þeim ykkar sem hafa kannski ekki enn séð þetta.

Minningarathöfnin á Anfield í dag var dramatísk og tilfinningaþrungin að venju en tvö atriði stóðu eiginlega upp úr í ár. Fyrst var það þegar þingfulltrúinn Steve Rotheram steig í pontu og tilkynnti viðstöddum að hann og aðrir fulltrúar Liverpool-borgar á þingi muni, fyrir tilstuðlan aðstandenda þeirra sem létust í Hillsborough-slysinu, leggja fram tillögu þess efnis að Kenny Dalglish verði aðlaður fyrir stuðning sinn við þá sem áttu um sárt að binda í kjölfar harmleiksins:

Það er náttúrulega með ólíkindum að Kenny Dalglish skuli ekki vera orðinn ‘Sir’ nú þegar. Brian Reade, blaðamaður The Mirror og gegnharður Púllari, sagði í spjalli á LFC TV eftir athöfnina að Dalglish þyrfti sennilega að vera stjóri Man Utd til að hljóta aðalstign (þýðing: Shankly, Paisley og Dalglish hafa ekki verið aðlaðir en það nægði Ferguson að vinna Evrópukeppnina ’99 til að verða þéraður). En nú virðist vera komið að því og ekki seinna vænna. Viðbrögð viðstaddra við tillögu Rotheram voru sterk í dag en Dalglish brást við eins og honum einum er lagið, af einskærri auðmýkt.

Sir Kenneth Dalglish. Ég held ég hafi aldrei verið jafn sammála nokkurri tillögu. Þetta bara hlýtur að vera samþykkt.

Enn tilfinningaríkara var það þó þegar talsmanneskja Hillsborough Justice Campaign, Margaret Aspinal (móðir James Aspinall, eins hinna 96) steig í pontu og hóf að þakka fólki. Bestu þakkirnar geymdi hún þar til síðast og viðbrögðin voru ótrúleg:

Rafa Benítez er orðinn alræmdur fyrir að geta unnið rafmögnuð einvígi og titla frá hliðarlínunni án þess að sýna tilfinningar, en allir þeir sem hafa nennt að hafa fyrir því að kynna sér manninn aðeins nánar hafa heyrt eða lesið um ástríðuna sem býr að baki yfirborðinu. Í dag sneri hann aftur á Anfield í fyrsta skipti síðan hann var rekinn síðasta sumar og átti sennilega ekki von á öðru en að taka sér sæti í Kop-stúkunni og hlýða á athöfnina. Margaret Aspinall hafði hins vegar annað í huga. Hún þakkaði Rafa fyrir einstakan stuðning við Hillsborough-baráttuna síðustu árin, og ekki síst þegar hann gaf 96 þúsund pund til þeirra sem kveðjugjöf við brotthvarfið úr starfi í fyrra, og þá loksins, LOKSINS sáum við ytra yfirborðið gefa sig.

Sko, menn höfðu skiptar skoðanir á störfum Rafa sem knattspyrnustjóri. Um það þarf ekki að rífast aftur hér. Allir þjálfarar gera mistök og hann gerði sín. En hann vann líka ótrúleg afrek með þetta lið (eða eru menn kannski ekki farnir að sakna Meistaradeildarinnar?), gaf okkur ógleymanlegar stundir, drakk í sig menningu Liverpool-borgar og klúbbsins og varð svo mikill Púllari að hann býr í dag í borginni með fjölskyldu sína, en ekki á Spáni.

Horfið á manninn í þessu myndbandi. Sjáið Kop-stúkuna syngja um hann, rísa úr sætum fyrir hann. Það er einfaldlega ekki til betra orð um hann en það sem Scouserarnir nota um þá sem þeim þykir vænst um: LEGEND.

Dagurinn tilheyrði minningu þeirra 96 sem létust fyrir 22 árum. En þetta árið tilheyrði hann Kenny Dalglish og Rafa Benítez eilítið líka.


Okkar menn eiga leik við Arsenal FC á sunnudaginn, og það á útivelli. Þetta er 33. umferð Úrvalsdeildarinnar í ár – Arsenal eiga þó leik til góða á flest lið – og fyrir leikinn eru heimamenn í öðru sæti með 62 stig en okkar menn í sjötta sæti með 48 stig.

Eins og venjulega stóðu Arsenal-menn sig frábærlega framan af tímabilinu og voru farnir að gæla við fleiri en einn bikar í febrúar. Eins og venjulega fuðraði það allt upp því þetta lið kann ekki að halda haus og nú eru þeir dottnir út úr öllum bikar- og Evrópukeppnum og halda aðeins í veika von um að ná Man Utd í toppbaráttu deildarinnar. Eins og venjulega er reynsluleysi og unggæðingshætti kennt um brostnar vonir Arsenal-manna, þótt aðeins Jack Wilshere sé undir tvítugu hjá þeim og þetta sé að miklu leyti sama lið og hefur verið að leika hjá þeim sl. 2-3 tímabil.

Vorið 2008 mættu okkar menn Arsenal þrisvar á einni viku í deild og Meistaradeild og við það tilefni skrifaði ég pistil þar sem ég fór yfir nokkrar af þreyttari mýtunum í kringum þetta Arsenal-lið sem allir keppast við að dásama þegar vel gengur og afsaka svo Wenger þegar illa gengur. Þremur árum síðar er lítið breytt eða fallið úr gildi í þessum pistli mínum – Arsenal hefur enn ekki unnið titil frá árinu 2005 og meðalaldurinn er sennilega enn hærri í dag en hann var í apríl 2008. Enn ber eitthvað á því að liðið sé afsakað með klisjum þegar illa gengur – ungir, reynslulausir, vantar betri markvörð hundraðasta árið í röð, bla bla bla – en þó virðist sem það sé að daga uppi fyrir jafnvel hörðustu Arsenal-stuðningsmönnum að Wenger verði að fara að átta sig og draga upp veskið. Ef þetta lið þeirra sem er alltaf svo nálægt toppnum í öllum keppnum myndi bæta við sig svona 2-3 burðarásum (dæmi: kaupa menn eins og Luis Suarez eða Dimitar Berbatov dýrum dómi í stað þess að vona endalaust að Nicklas Bendtner breytist skyndilega í leikmann af sama kalíberi) gæti þetta lið unnið dollu á hverju einasta tímabili.

Allavega, það er nokkurn veginn staðan hjá Arsenal í dag: sú sama og alltaf. Það er ekki ætlunin hjá mér að drulla eitthvað yfir Arsenal-liðið, enda höfum við Púllarar varla efni á að setja okkur á háan hest gagnvart jafn stabílum klúbbi og Skyttunum eftir sl. tvö ár hjá okkar félagi, en ég gat samt ekki látið þessa upphitun líða án þess að segja: I TOLD YOU SO!


Þá að leiknum sjálfum. Arsenal-menn unnu góðan útisigur á Blackpool um síðustu helgi og héldu sér í toppbaráttunni. Fyrir leik sunnudagsins er gert ráð fyrir að Wojciech Szczesny (borið fram: Vojtékk Sésní) komi aftur í markið í stað Jens Lehmann en að öðru leyti gætum við séð svipað lið og byrjaði gegn Blackpool:

Vojtékk Sésní

Eboue – Koscielny – Squillaci – Glichy

Diaby – Fabregas – Wilshere – Nasri

Van Persie – Arshavin

Eitthvað í þeim dúr. Þeir verða allavega sókndjarfir, þurfa sigur og ekkert annað í þessum leik. Þeir eru með einn heitasta framherja deildarinnar eftir áramót í Van Persie (16 mörk í 26 leikjum í öllum keppnum) og þrjá sjóðheita miðjumenn í þeim Nasri, Wilshere og Fabregas. Þá skoruðu bæði Eboue og Diaby um síðustu helgi, og svo hatar Andrei Arshavin ekki beint að spila gegn okkur, þannig að nóg er af markahættum hjá þessu liði.

Af okkar mönnum er lítið að frétta síðan í stórsigrinum á Manchester City sl. mánudag. Gerrard, Agger, Kelly og Johnson eru enn meiddir og við höfum þótt ótrúlegt megi virðast ekki fengið neinar fréttir af meiðslum Aurelio sem lék HEILAN LEIK á mánudag. Að því gefnu að ekkert sé breytt, og í ljósi spilamennskunnar á mánudag, mæli ég með að við stillum bara upp nákvæmlega sama liði og gegn City:

Þetta er bara það besta sem við höfum úr að moða í dag. Á þessu eru nokkrir augljósir vankantar: Jay Spearing hefur staðið sig vel í síðustu 2-3 leikjum og var frábær gegn andlausu City-liði en ég ætla samt ekki að fara að ljúga því að sjálfum mér að hann hafi neitt á sama knattspyrnuvöll og Wilshere, Fabregas og Nasri að gera. Ég geri ráð fyrir að það sé skrefi of langt fyrir hann og hann verði dragbítur á liðinu á sunnudag.

Þá græddum við að vissu leyti á því hvað Dalglish beið lengi með að tilkynna um byrjunarstöðu hins unga John Flanagan í hægri bakverði. “Flanno” eins og hann er kallaður vissi það ekki sjálfur fyrr en tveimur tímum fyrir leik þannig að varla gátu City-menn gert ráð fyrir honum. Þeir höfðu greinilega haldið að vinstri bakvarðarstaðan yrði frekar tæp hjá okkur í þeim leik og settu því Adam Johnson á þann kantinn frá byrjun, á meðan James Milner var hinum megin og datt meira inn á miðsvæðið í stað þess að pressa Flanno. Því miður fyrir þá var Aurelio heill og hann réði auðveldlega við allt sem Johnson bauð upp á (utan eitt skipti í fyrri hálfleik þegar Johnson sólaði hann og inná teiginn en Skrtel hreinsaði) á meðan Flanno hafði það ágætlega náðugt hinum megin. Mancini setti svo Balotelli inn og skipaði honum að ráðast á Flanno um miðjan fyrri hálfleik en Balotelli var greinilega ekki í andlegu ástandi til að spila fótbolta og því fór sem fór – Flanno stóð sig vel og sló í gegn.

Núna hafa Arsenal-menn hins vegar haft alla vikuna til að gera ráð fyrir að Flanno verði áfram í hægri bakverði hjá okkur og því geri ég fastlega ráð fyrir að Nasri, Arshavin og Clichy muni vera aðalbroddur sóknartilrauna Arsenal á sunnudaginn. Með öðrum orðum, ég myndi mæla eindregið gegn því að Flanno byrjaði þennan leik ef við hefðum einhverja aðra kosti. Því miður er hins vegar úr litlu öðru að velja – eini raunhæfi sénsinn væri að setja Kyrgiakos inn í miðja vörnina og færa Carra í hægri bakvörðinn til að loka á hættuna þaðan en eins og sá gríski hefur verið að spila myndi ég forðast að láta hann spila gegn sneggstu sókn deildarinnar.

Flanno og Spearing munu sem sagt byrja og vera veikir hlekkir, varnarlega séð. Sem betur fer erum við með þokkalega heita sóknarlínu sem er vel til þess fallin að bæta upp einhverja vankanta í vörninni á sunnudag. Luis Suarez hefur verið frábær allt frá því í fyrsta leik með liðinu, Dirk Kuyt getur ekki hætt að skora þessa dagana og síðast þegar Andy Carroll mætti á Emirates-leikvanginn gerðist þetta:

Hann skoraði sigurmark Newcastle gegn Arsenal á þessum velli í nóvember sl. og það skipir eiginlega engu máli hvort Lehmann eða Sésní er í markinu hjá þeim á sunnudaginn, Andy Carroll er einfaldlega byggður til að dóminera báða þessa markverði og líka þá Squillaci og Koscielny. Gerið ráð fyrir að Suarez, Kuyt, Meireles og félagar muni leita mikið í loftið á sunnudaginn.


MÍN SPÁ: Þetta verður opinn og spennandi leikur. Okkar menn hafa í raun engu að tapa, og ekki til mikils að vinna, þannig að þetta verður enn ein pressulaus frammistaðan hjá liði Dalglish. Síðan King Kenny tók við höfum við unnið Chelsea, Man Utd og Manchester City en lent frekar í vandræðum gegn baráttuglöðum liðum í fallbaráttunni. Gengið bendir allavega til þess að Dalglish verði með liðið rétt stemmt á sunnudaginn.

Spurningin er því kannski frekar hvaða Arsenal-lið mætir til leiks. Þeir geta verið illviðráðanlegir á góðum degi en þess á milli eru þeir allra stórliða duglegastir að skjóta sjálfa sig í fæturna.

Ég hlakka til þessa leiks, hvernig sem hann fer. Ég spái því að bæði lið skori mörk og þetta endar með 2-2 jafntefli í bráðskemmtilegum sóknarleik.

Áfram Liverpool!

44 Comments

  1. frábær upphitun og fínt að koma sér aðeins niður á jörðina eftir tilfinningaríkan dag .. verð einnig að hrósa flestum kop.is pennum fyrir að vera mjög gagnrýnir á liðið og einfaldlega segja hlutina einsog þeir eru en ekki ávallt verja allt einsog mörgum okkar hættir til , gæði hópsins í dag eru einfaldlega þannig að þau verða ekki varin , það eru bara tops 10-11 leikmenn sem eiga heima þarna og ekki meira en 5-6 byrjunarliðsmenn og rest squad players eða þeas sá klassi sem við eigum að krefjast . takk fyrir enn einn frábæran upphitunarpistil.

  2. Fá Benitez sem aðstoðarþjálfara daglish þá verðum við með óstöðvandi lið næsta ár hjartað á benitez er liverpool all the way og ég er pott þéttur að það er það sem aðdáendur vilja.En varðandi leikinn þá er þetta 3-0 sigur fyrir liverpool carrol,kuyt,suarez verða með mörkin YNWA

  3. Glæsileg upphitun að vanda.

    Verður held ég mjög opinn og spennandi leikur þar sem Arsenal spila skemmtilegan bolta og Liverpool geta spilað ennþá skemmtilegri og betri bolta á móti. Fer eiginlega allt eftir hvernig Liverpool byrjar í leiknum.

    Ef við spilum eins og gegn Manchester liðunum verður þetta 3-1 sigur en ef þetta verður enn eitt Wolves, West Brom, West Ham fíaskóið þá fer þetta illa.

    Ótrúlega erfitt að spá fyrir þessu Liverpool liði en ég vonast auðvitað eftir hárri pressu og sókn sókn sókn þangað til við komumst í 3-0. Svo bara vinna vinna vinna í vörn!!

    CMON YOU REDS!! YNWA

  4. þvílíkt props fyrir frábæra umfjöllun á hillborough slysinu hjá ykkur á kop og þá sérstaklega magga….
    ég horfði á athöfnina í kvöld og þótt maður telji sig vera karlmann og allt það… þegar ég horfði á benitez og SIR kenny þá bara einhverra hluta vegna hættu ekki tárin að streyma…..fannst einsog gullfoss væri kominn í fokking heimsókn!!!, þvílíkur unaður að sjá mann einsog benitez hylltan af liverpool aðdáendum í dag…. og einsog var talað um í pistlinum þá sýndi þetta hans innri mann…
    Og hvað þá að heyra að það á að aðla king kenny(það verður gert ekki spurning)….
    það er líka frábært að sjá hvað Benitez er gríðalega annt um þetta lið og það var hann sem fékk king kenny aftur,
    og að hann komi aftur og sýni það að sama hvað hefur gengið á í herbúðum liðsins þá er hann blóðheitur stuðningsmaður liverpool og er klárlega sá sem styður king kenny hvað mest í að stjórna liverpool í dag…

    ég er ekki í nokkrum vafa um það að það verði hjartað sem ráði í leiknum á sunnudaginn og leikmenn liverpool mæti dýrvitlausir til leiks og vinni þennan leik….
    fyrir SIR KENNY DALGLISH….
    YNWA

  5. Þar sem Arsenal telst vera eitt hinna stóru liða ætla ég að spá því að við vinnum leikinn.

    Það er alls ekki ólíklegt að Arsenal byrji leikinn betur og komist jafnvel yfir, en það er eitthvað að hjá þeim og þeir þola illa að spila gegn liði sem berst til baka.

    Það er mín skoðun að það lið sem á eftir að gangast undir mestar breytingar í sumar á eftir okkar ástsæla, er einmitt Arsenal.

    1-2 og ekki orð um það meir.

  6. Ég man nú eftir að hafa lesið pistil á lfc.tv um Flanno, veit ekki hver skrifaði hana, en allavega þá sagði hann að Flanno væri slétt sama um það hverjum hann spilar á móti, hann er ekki hræddur við neinn og fer í allar tæklingar af fullum krafti. Ég sé ekkert að því að hann byrji á sunnudaginn, ég tel það allavega betra að hafa Carra í miðverði og Flanno í bakverði en Kyrgiakos í miðverði og Carra í bak. Það er ekki hægt að bjóða upp á verra miðvarðarpar en Skrtel og Kyrgiakos.

  7. Það er nokkuð ljóst eftir gærdaginn að það er bráðnauðsynlegt að fá Rafa til baka til félagsins í einhverri mynd.Mér dettur helst í hug að hann ætti að verða einhvers lags tæknilegur ráðgjafi Dalglish, leggur upp taktík, skoðar andstæðingana, leggur upp leiki í Evrópukeppnum og slíkt. Síðan ætti hann að sitja uppi í stúku með símann við hliðina á sér, skrifblokkina og hringja reglulega í Steve Clarke (held að dagar Sammy Lee séu jafnvel taldir bráðlega) og koma með taktískar uppástungur. Veit þó ekki hvort Rafa myndi sætta sig við svoleiðis hlutverk.

    Held að við munum tapa þessum leik naumlega, 3-2. Vörnin er ansi veik gegn þessum fljúgandi sóknarmönnum Arsenal, það er aðeins ef Reina dettur niður á stórleik að við getum haldið verulega aftur af þeim. Það er rétt sem kemur fram í upphituninni að Lucas-Spearing miðjan er ekki nógu sterk gegn miðju Arsenal. Kuyt þarf að hjálpa Flanagan þannig að hann getur lítið komið inn á miðjuna að hjálpa Spearing og Lucas varnarlega og því tapa okkar menn líklega miðjunni og þar með leiknum.

  8. Virkilega gaman að sjá Benitez í þessari athöfn. Hreifði alveg við manni.

    Þessi leikur er hrikalega mikið 50/50. Mjög mörg spurningamerki í leik okkar og Arsenal liðið inniheldur frábæra leikmenn en líka miðlungs leikmenn á við Sjésný/Almunia/Kosjíelní/Lehmann, Eboue, Denílson, Diaby og Clichy. Munurinn er reyndar sá að þessir miðlungsmenn þeirra eru ungir og gætu orðið betri með tímanum.

    En leikurinn er spilaður í dag, en ekki eftir nokkur ár og því eigum við góðan séns í þennan leik ef leikmenn einsog Spearing og Flanno halda áfram á sömu braut og í síðasta leik.

    Það er veisla þessa helgina hjá okkur knattspyrnurunkurunum. City-United á eftir, el Clasico í kvöld og leikurinn á morgun.
    Toppurinn fyrir mig væri ef bæði City og United detta úr leik í bikarnum (tæmandi líkur á því reyndar, því miður), Barca snýta cronaldo og félögum aftur og Carroll sleggji inn 2-3 sköllum í fjörugum leik við nallarana.

    Góða skemmtun!

  9. Ég myndi setja allan peninginn minn á Liverpool á morgun ! Við eigum eftir að vera í flennistuði og Carroll er sko ekkert hættur að skora ! Þetta fer 0-2 og Carroll og Kuyt verða með mörkin og ef Carroll setur hann þá set ég hann aftan á nýju treyjuna mína !

    YNWA

  10. Ef einhver hefur áhuga þá er u-18 að vinna United 2-0 með mörkum frá Tony Silva
    Var að detta í HT Leikurinn er á LiverpoolTv en líka hægt að fá stream á myp2p

  11. Og já, þetta með Benitez er Liverpool í hnotskurn.. Skiptir engu máli hvort þú sért núverandi eða fyrrverandi leikmaður eða þjálfari, ef þú berð virðingu fyrir hefðum okkar og sögu þá verður þú alltaf partur af stóru fjölskyldunni okkar. Ekkert annað félag með sömu sál og þetta lið. Maður var mjög auðmjúkur og klökkur að horfa á þetta í beinni á lfctv

  12. Sir Kenny er ekki nóg. Þetta á að vera Your Royal Highness KING Kenny!

    Bara hugmynd: Cole í stað Spearing? Man þegar Cole kom þá var talað um að hann myndi vera nær miðjunni frekar en á kantinum.

  13. Þetta verður tæpur leikur á morgun en ég held að við munum vinna þennan leik 1-3 og Suarez mun eiga stjörnu leik og Aurelio setur eitt!

    Er að horfa á Stearling og félaga spila, roooosalega langar mig að sjá þennan strák spila í alvöru leik, hann minnir mann bara á þá flinkustu sem maður hefur séð, lappirnar á flegi ferð og varnarmennirnir vita ekkert hvað þeir eiga að gera.

    YNWA – King Kenny!

  14. @ 9. Ívar Örn “Held að við munum tapa þessum leik naumlega, 3-2. Vörnin er ansi veik gegn þessum fljúgandi sóknarmönnum Arsenal, það er aðeins ef Reina dettur niður á stórleik að við getum haldið verulega aftur af þeim. Það er rétt sem kemur fram í upphituninni að Lucas-Spearing miðjan er ekki nógu sterk gegn miðju Arsenal. Kuyt þarf að hjálpa Flanagan þannig að hann getur lítið komið inn á miðjuna að hjálpa Spearing og Lucas varnarlega og því tapa okkar menn líklega miðjunni og þar með leiknum.”

    ég mundi nú seygja að man shity séu með betri miðju heldur en arsenal og lucas átt þá ! og spering dreifði spilinu vel… síðan ertu greinilega búinn að bera sofandi eða eitthvað því að við erum komnir með 2 mjög öfluga framherja á móti brothættri vörn arsenal og fimtugum markmanni og smellugasið með heimþrá. vörnin okkar er bara drullugóð ! skil ekki hvað þú ert að væla

    ég get sagt ykkur það að þetta er í fyrsta skypti í langan tíma sem ég er EKKERT stressaður fyrir Arsenal ! ég held að við tökum þá létt í þetta skypið enda kominn tími til að rasskella þá

    læt þetta fylgja með fyrir þessa neikvæðu 😉 http://www.youtube.com/watch?v=d-diB65scQU

  15. Reina
    Flanagan-Skrtel-Carra-Aurelio
    Kuyt-Meireles-Lucas-Cole
    Suarez-Carroll

    spái liðinu svona og 2-1 sigri okkar manna. Arshavin kemur arsenal yfir og þannig fara fram leikar í hálfleik. Suarez kemur okkur svo yfir með flottum undirbúningi frá Carroll. Svo á 84 mín tekur Aurelio hornspyrnu sem mun lenda á kollinum á Andy Carroll sem mun skora sigurmarkið

  16. Er ekki einhver staða hjá liverpool sem benítez getur leyst? eitthvað sem tengist ekki man management beint en maðurinn er snillingur í öllu öðru

  17. Það væri náttúrulega snild ef Rafa værir aðstoðarstjóri Kóngsins! Ég var einn af þeim sem vildu hann burt þegar hann fór, og er alveg á því en þá, en maðurinn er með þvílíkt Liverpool hjarta! Hann og Kenny væri bullettproof!

    En að leiknum.. Frábær upphitun! Ég ætla að sleppa því að spá fyrir um leikinn aftur, síðast þegar ég ákvað að gera það ekki þá slátruðum við man shitty. En ég vona að liðið verði bara það sama og síðast, það gekk mjöög vel.

    Síðast en ekki síst.. Kuyt búinn að skrifa undir samning! Fyrir kannski 2 mán þá hefðu margir verið ósáttir með þetta, en miða við frammistöðu hans að undanförnu held ég að þær raddir þagni smavegis.. http://www.liverpoolfc.tv/news/latest-news/kuyt-signs-new-anfield-deal

  18. Kop.is , ég elska þessa síðu! Strákar þið eigið svo mikil hrós skilið fyrir að gefa ykkur alla í þessa síðu og gera hana að þessu meistaraverki sem hún er.

    Kuyt skoraði þrennu gegn united, hljóp heilt maraþon(42km) gegn shity, djöfull vona ég að hann geri þetta bæði á morgun.
    Ég er annars drulluhræddur við þetta Arsenal lið en veit að Sir Kenny á einhvað til að stoppa það. Mín spá er Carroll 1 – Kuyt 2, vonum bara að Arsenal skori ekki jafn mikið eða meira 😉

    YNWA!

  19. The killer instinct proved he was a Red, Carroll Carroll
    He Heads, Shoots and Crosses the ball, Carroll Carroll
    He scores a goal or one or two
    He isn‘t a traitor in Chelsea blue, Andy Carroll Liverpools number 9

  20. Þið verðið að afsaka fáfræðina í mér en hvernig virkar það með Europa League sæti og FA cup? Er Europa League sæti í boði fyrir sigurvegara FA cup? Bæði Manchester liðin eru að öllum líkindum að fara í meistaradeildina (því er ver og miður) og vilja því ekkert með Europa að gera. Hvað verður um þetta Europa sæti?

    smá plögg fyrir mig að lokum: http://sannleikurinn.com/heim/lofar-fleiri-mistokum

  21. Dabbi: Þá er ég ekki einn um það: “Þetta er bara það besta sem við höfum úr að moða í dag. Á þessu eru nokkrir augljósir vankantar: Jay Spearing hefur staðið sig vel í síðustu 2-3 leikjum og var frábær gegn andlausu City-liði en ég ætla samt ekki að fara að ljúga því að sjálfum mér að hann hafi neitt á sama knattspyrnuvöll og Wilshere, Fabregas og Nasri að gera. Ég geri ráð fyrir að það sé skrefi of langt fyrir hann og hann verði dragbítur á liðinu á sunnudag.” Bara úr skýrslunni. Ef þú rýnir í leikinn gegn City þá var nú engan veginn allt í lagi með miðjuna hjá þeim, eða leikinn almennt hjá þeim. Svo erum við á útivelli og það hefur ekki beint verið glimrandi gengið hjá okkur þar…

  22. Þráðrán; Er í nýrri tölvu og vantar link á Barca – Madrid leikinn! veit einhver? 3-1 á morgun fyrir okkur.

  23. 6-0 gegn unglingaliði þeirra illu.

    Mikið svakalega er gaman að horfa á þetta lið hans Borrell spila fótbolta. Mikið HRIKALEGA verð ég svekktur ef við erum ekki að fá upp kippu af almennilegum leikmönnum þaðan á næstu árum. Í dag var það Silva, Adorjan og Ngoo sem stálu athyglinni en allt liðið kann að spila fótbolta!

  24. Ef city vinnu FA cup og enda í 5.sæti í deild þá fara þeir í evrópukeppni gegnum fa cup og 6.sætið fær þá evrópusætið.
    Dirk Kyut góður eftir 5 ár hjá Liverpool:
    “Now i want to win trophies”

  25. Veit ekki alveg með að setja Cole inná á móti Arsenal… fór ekkert voða vel síðast.

  26. Frábær upphitun að vanda. Mig langaði mikið að vera með ykkur á fyrstu árshátíð minni en komst því miður ekki. YNWA. Rafa is a real Scouse.

  27. ívar örn : ég hefði átt að hafa þetta svona “Held að við munum tapa þessum leik naumlega, 3-2. Vörnin er ansi veik gegn þessum fljúgandi sóknarmönnum Arsenal, það er aðeins ef Reina dettur niður á stórleik að við getum haldið verulega aftur af þeim.”
    þetta með reina aðalega ég er alls ekki sammála því að þetta verði eitthver einstefna frá Arsenal og að reina verði maður leiksins.. heheh en við sjulum bara bíða og sjá hvað gerist, ótalega tilgangslaust að rífast um það fyrir leik

  28. Ekkert kjaftæði hér, auðvita vinnur LIVERPOOL og hana nú.

  29. Hvað gerir maður ekki fyrir þetta lið?

    Ákvað að sleppa fermingarveislu fyrir þennan leik. Eins gott að leikurinn verði þess virði!

  30. óbreytt lið

    The Reds team in full is: Reina, Flanagan, Aurelio, Carragher, Skrtel, Lucas, Spearing, Meireles, Kuyt, Suarez, Carroll. Subs: Gulacsi, Cole, Kyrgiakos, Shelvey, Ngog, Maxi, Robinson.

  31. Liðið er sýnist mér búið að leka á twitter og er það nákvæmlega eins og þú spáðir Kristján

    LFC: Reina, Aurelio, Flanagan, Carra, Skrtel, Spearing, Lucas, Meireles, Kuyt, Suarez, Carroll.

    Frábært tækifæri fyrir Flanagan !

  32. Ég er með áskrift að LFCTV og er búinn að hafa hana í 2-3 ár. Mjög sáttur. Er ekki með Stöð2 sport heldur læt þetta duga. Horfi á alla leiki á netinu sem ég vil frá MyP2P eða sambærilegum síðum, og fæ svo allt það aukaefni og inside info frá LFCTV. Mæli með LFCTV og þá að verða ómissandi þáttur að horfa á Countdown to Kickoff síðasta klukkutímann fyrir leik, þar sem allskonar pælingar varðandi leikinn koma fram, liðið er sýnt um leið og það er klárt ásamt viðtölum við kónginn og fleiri varðandi leikinn sem er framundan. Nú svo auðvitað ef við vinnnum þá horfir maður á þáttinn sem er sýndur strax á eftir og nýtur í botn

96

Byrjunarliðið gegn Arsenal