Öfugt við það sem maður myndi kannski ætla fögnuðu heimamenn í Liverpool því ekki er Dortmund var dregið sem næsti mótherji í Evrópudeildinni. Anfield Wrap var með podcast þátt í loftinu á meðan dregið var og er óhætt að segja að þeir voru ekki hrifnir. Óánægja þeirra stafaði ekki bara af óhjákvæmilegri umfjöllum um þessa viðureign með tilheyrandi væmni tengdri Dortmund, Klopp og tengslum við Liverpool (SEKUR). Ekki heldur vegna þess að Dortmund var sterkasta liðið í boði, þeim langaði bara miklu meira til Spánar í apríl heldur en að fara aftur til Þýskalands. Stuðningsmenn Liverpool hafa ferðast til Dortmund tiltölulega nýlega og af þeim á Anfield Wrap að dæma fær borgin ekki háa einkun. Höfum þó í huga að þeir tala auðvitað ekki fyrir hönd allra stuðningsmanna Liverpool.
Dortmund – borgin
Dortmund er stærsta borg Ruhr-héraðsins og áttunda fjölmennasta borg Þýskalands með tæplega 600.þúsund íbúa. Ruhr-héraðið er jafnframt fjölmennasta þéttbýli Þýskalands með um 5,1 milljón íbúa og því óhætt að segja að íbúatala Dortmund segi ekki alla söguna um íbúafjöldan á svæðinu. Næsta borg við er Bochum í 10 km fjarlægð. Dortmund er svo þriðja stærsta borgin í Þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu á eftir Köln og Dusseldorf sem eru báðar í innan við 100 km fjarlægð. Norðurrín-Vestfalía er langfjölmennasta sambandsland Þýskalands með um 17,6 milljónir íbúa.
Ruhr-héraðið er í vesturhluta Þýskalands og er stutt þaðan að bæði landamærum Hollands og Belgíu. Ferðalagið hefði því vel getað verið miklu verra og satt að segja vorkennir maður þeim ekki neitt sem verða í stúkunni á Westfalen á fimmtudaginn. Raunar er áætlað að á hverjum deildarleik Dortmund séu um 1000 bretar sem fari þangað til að forðast hátt miðaverð í Úrvalsdeildinni og auðvitað til að upplifa stemminguna.
Byggð frá árinu 882
Saga borgarinnar nær allt aftur til 9.aldar og er stofnár borgarinnar skráð árið 882. Borgin brann til grunna á 13.öld en varð ein mesta verslunarborg Evrópu á 14.öld eftir endurreisn borgarinnar og inngöngu í Hansa verslunarsambandið. Á 15.öld (1429) lést 1/4 íbúa borgarinnar úr svarta dauða.
Á 16.öld urðu siðaskipti í Dortmund en eins og við þekkjum úr okkar sögu var bara á nokkrum árum tekið upp á því að skipta um trú, lútherstrú var núna málið frekar en kaþólska. Hvernig trúarbrögð eru ennþá tekin alvarlega núna fimm öldum seinna þarf einhver að útskýra fyrir mér.
Á 17.öld voru mikil átök á svæðinu og var Dortmund lögð nánast í rúst. Árið 1650 bjuggu þar um 2000 manns í 300 húsum og öll verslun að mestu horfin. Það tók Dortmund rúmlega öld að ná sér aftur á strik. Napóleon og félagar innlimuðu borgina í Frakkland í upphafi 19.aldar og var hún undir hans stjórn fram að Vínarfundinum 1815 er borgin varð partur af Prússlandi.
Stórborg
Dortmund fór að ná sér aftur á strik undir lok 19. aldar og með tilkomu hins 269km langa Dortmund – Ems skipaskurðar árið 1899 opnuðust gríðarleg tækifæri fyrir Dortmund og óx borgin gríðarlga hratt í iðnbyltingunni.
Íbúafjöldinn fór yfir 100.þúsund manns fyrir aldamótin og með sameiningum við næstu nágrannasveitarfélög varð Dortmund að stórborg í upphafi 20.aldar. Gríðarlega mikil iðnaðarborg rétt eins og Liverpool á sama tíma. Helstu útflutningsvörur borgarinnar voru tengdar stál- og kolaiðnaði sem og bjórframleiðslu og var Dortmund ein mikilvægasta borg Þýskalands hvað þessa vöruflokka varðaði allt fram á áttunda áratuginn.
Dortmund skiptist í 62 hverfi sem flest voru áður sér bæjarfélög sem voru innlimuð í Dortmund í upphafi 20.aldarinnar. Þetta er talin vera ástæða þess að hvert hverfi í Dortmund þykir halda sérstaklega fast í sínar hefðir og íbúar skilgreina sig mikið eftir hverfum. Auðvitað eitthvað sem er að finna í einhverjum mæli í flestum borgum.
Seinni heimsstyrjöldin – Dortmund jöfnuð við jörðu
Fáar borgir fóru verr út úr seinni heimsstyrjöldinni heldur en Dortmund, loftárásir bandamanna voru svo óskaplegar að eftir stríð voru áhöld uppi um það hvort það tæki því að byggja miðborgina upp á ný. Talið er að um 66% íbúðarhúsa borgarinnar hafi eyðilagst og um 98% af miðborginni. Dortmund-Ems skipaskurðurinn var einnig skotmark Bandamanna vegna mikilvægi hans fyrir Þjóðverja. Dortmund komst einmitt í fréttirnar á síðasta ári er 250kg sprengja úr seinni heimsstyrjöldinni fannst rétt hjá Westfalenstadion. 40.000 manns þurftu að rýma heimili sín á meðan sprengjan var aftengd.
Þann 24.maí 1943 létu Bandamenn yfir 2000 sprengjum rigna yfir Dortmund á u.þ.b. klukkutíma og er það einn svartasti dagur í sögu Dortmund. Frá 1943-1945 er talið að um 22.þúsund tonnum af sprengjum hafi verið varpað á borgina. Tilgangurinn með árásum sem þessum var bæði að eyðileggja verksmiðjur Nasista og eins til að snúa almenningi gegn stjórinni og stríðsrekstrinum. Goebbels áróðursmeistara Nasistaflokksins leyst ekkert á blikuna. Dagbókarfærsla hans frá 25.maí 1943 gefur góða mynd á það hversu rosaleg árás þetta var.
Borgin var því lítið annað en rústir einar er Bandaríkjamenn náðu henni á sitt vald 13 apríl 1945 eftir sólarhrings átök við Nasista. Dortmund var þó á því svæði sem laut hernámsstjórn Breta eftir stríð og létu Bandaríkjamenn þeim það strax eftir.
Eftir stríð voru helstu byggingar borgarinnar endurbyggðar svosem kirkjur og önnur sögufræg húsnæði en eðli málssins samkvæmt þurfti nánast að endurbyggja borgina frá grunni. Það eru því ekki margar sögufrægar byggingar í Dortmund m.v. að saga borgarinnar nær allt aftur til 9.aldar. Borgin varð þó mikilvæg iðnaðarborg áfram eftir stríð enda gríðarleg eftirspurn eftir stáli í Þýskalandi.
Hnignun
Er leið á öldina minnkaði mikilvægi Dortmund iðnaðarlega. Bjórverksmiðjurnar lokuðu hver af annari er leið á öldina. Kolaiðnaðurinn datt upp fyrir og með tilkomu álsins minnkaði eftirspurn eftir stáli það mikið að síðasta stálverksmiðjan lokaði árið 2001. Íbúafjöldi Dortmund náði hámarki 1965 og taldi þá tæplega 660.þúsund manns en var komin niður í um 570.þúsund manns árið 2012. Um 30% íbúanna eru af öðru þjóðerni en Þýsku en á blómaskeiði borgarinnar í upphafi 20.aldar fluttu þangað mjög margir frá A-Evrópu, Tyrklandi og eins frá Bretlandseyjum og Írlandi. Það er kannski við hæfi fyrir iðnaðarborgina Dortmund að enski vinabær þeirra er Leeds.
Dortmund sneri þó vörn í sókn og til að svara breyttu landslagi var í meira mæli lagt áherslu á iðnað tengdan hátækni og eru mörg slík félög með höfuðstöðvar sínar í Dortmund. Eins er Dortmund mikil háskólaborg og í dag mjög vinsæll ferðamannastaður. Knattspyrnulið borgarinnar hefur líklega hjálpað verulega til við að halda nafni Dortmund á lofti hvað það varðar. Þetta hefur orðið til þess að í takti við gengi knattspyrnuliðsins hefur borgin verið að ná sér verulega vel á strik núna í upphafi 21.aldarinnar.
Þeir á Anfield Wrap vita hvað þeir syngja þegar kemur að því að meta Evrópskar borgir út frá því hversu skemmtilegt er að lyfta sér upp og það er vel hægt að skilja að Dortmund er ekkert mest spennandi borgin sem var í boði þegar dregið var í 8-liða úrslit. Borgin er þó í dag gríðarleg verslunarborg og með eina vinsælustu verslunargötu Þýskalands, ekki að það skipti nokkru einasta máli á útileik í Evrópukeppni.
En lið Dortmund er þeim mun meira spennandi og saga þess félags er glæsileg.
Ballspielverein Borussia 09 e.V. Dortmund
Ekkert hefur komið Dortmund eins rækilega á heimskortið og knattspyrnulið borgarinnar og þá sérstaklega núna í seinni tíð. Jurgen Klopp er ekki sá eini sem hefur rifið þetta félag upp af rassgatinu. Borussia Dortmund er hægt að flokka sem trúarbrögð í borginni en liðið er í eigu 115.000 meðlima sem gefur kannski ágæta mynd af þeim áhuga sem er á liðinu.
Stofnun félagsins
Borussia Dortmund var stofnað þann 19.desember árið 1909 á Zum Wildschütz barnum. Allir stofnmeðlimir komu úr unglingaliðinu Trinity Youth en það lið spilaði á guðs vegum, þ.e.a.s. styrkt og stjórnað af Kaþólsku kirkjunni. Þjálfarinn var strangur prestur sem strákunum líkaði ekki við, guð má vita afhverju (og veit það líklega).
Franz Jacobi varaformaður þessa nýja félags útskýrði ástæðurnar fyrir stofnun félagins svona.
”I have been a member of the Trinity Youth since 1902 and since 1906 we have been playing on the ”Weissen Wiese“. We footballers have been systematically attacked and defamed by our church since 1906. We can no longer put up with this. This club is absolutely necessary.“
Faðir Dewald og fylgismönnum hans var með valdi meinaður aðgangur að stofnfundinum en hann hugðist stoppa fundinn og stofnun félagsins. Kirkjan hafi greinilega einhver ítök því af af 40 mönnum sem mættu á stofnfundinn gugnuðu 22 undan pressu kirkjunnar. Hinir 18 skrifuðu nafn sitt í sögubækurnar sem stofnendur Borussia Dortmund.
Það er þvi kannski ekki alveg tilviljun að Borussia Dortmund er “í alvöru” flokkað sem trúarbrögð?
Borussia er latnesta fyrir Prussia en Dortmund var partur af Prússlandi til ársins 1918. Nafnið var engu að síður bara dregið af nálægu brugghúsi sem hét einmitt Borussia.
Fjórum árum eftir stofnun félagsins skiptu þeir um búninga og fóru að spila í gulu og svörtu búningunum sem við þekkjum í dag.
Fyrstu árin voru ekki merkileg en félagið keppti aðallega í svæðisbundnum deildum með litlum árangri. Frá 1924-29 reyndu þeir að hækka hjá sér standardinn og fá til liðsins atvinnumenn en sú tilraun misheppnaðist illa og var félagið rétt farið á hausinn. “Hinir keyptu 11” náðu aldrei að mynda liðsheild og árangurinn var eftir því. Stuðningsmenn liðsins náðu lítið að tengja við þetta keypta lið. Eins hafði félagið komið sér í skuldir vegna endurbóta og stækkunar á Weisse Wiese upp í 18.000 manna völl. Weisse Wiese var fyrsti heimavöllur félagsins. Heinz Schwaben fyrrum forseti félagsins var dreginn fyrir dómstóla árið 1929 til að svara fyrir fjármálaóreiðu klúbbsins og endaði málið með því að greiða sjálfur upp skuldir félagsins og bjargaði því þar með.
Á fjórða áratugnum náðu Nasistar völdum í Þýskalandi og lögðu mikla áherslu á endurreisn íþrótta í landinu enda eitt af tólum þriðja ríkisins til að bæta ímynd sína. Forseti Dortmund neitaði að ganga í Nasistaflokkinn og var þá bara skipt út. Tveir aðrir stjórnarmenn notuðu skrifstofur félagsins til að útbúa áróður gegn Nasistaflokknum og voru þeir fyrir vikið teknir af lífi á lokadögum stríðsins. Það var ekki nein eiginleg deild í Þýskalandi á þessum árum heldur var hvert ríki með svæðisbundnar deildir. Schalke 04 voru í sömu deild og Dortmund og unnu öll árin frá 1934-1944. Á þessum árum myndaðist gríðarlegur rígur milli Dortmund og Schalke sem lifir enn góðu lífi í dag, Schalke er í um 31km fjarlægð frá Dortmund.
Dortmund tók fyrst þátt í deildarleik árið 1949 en liðið spilaði í svæðisbundinni deild “Oberliga West” sem var öflugasta deildin í Þýskalandi frá 1946-1963 enda á langfjölmennasta svæðinu. Fyrsti landstitlill félagsins kom árið 1956 og sá næsti strax árið eftir. Þeir komust fyrir vikið í Evrópukeppni Meistaraliða í fyrsta skipti en féllu úr leik gegn Bobby Charlton og félögum í The Busby Babes. (Margir úr því liði fórust í flugsslysi tveimur árum seinna).
Dortmund vann svo síðasta landstitilinn í Þýskalandi áður en loksins var komið á atvinnumannadeild (Bundesliga) árið 1963. Sem sigurvegari Oberliga West var Dortmund ásamt Köln sem hafnaði í öðru sæti sjálfkrafa boðið að vera stonfmeðlimir nýju deildarinnar.
Friedhelm Konietzka leikmaður Dortmund skoraði einmitt fyrsta mark deildarinnar strax á fyrstu mínútu. Þeir komu inn í nýja deild með gott lið og unnu árið 1965 í fyrsta skipti Þýska bikarinn. Það gaf þeim rétt til þess að spila í Evrópukeppni bikarhafa árið eftir þar sem þeir einmitt mættu Liverpool í úrslitaleik árið 1966 og unnu 2-1 í framlengingu. Hundruðir þúsunda flykktust út á götur Dortmund til að fagna þessum fyrsta Evróputitli félagsins er liðið kom heim frá Skotlandi þar sem leikurinn fór fram.
Dortmund var einnig rétt búið að vinna deildina 1966 en gaf eftir á lokakaflanum og töpuðu fjórum af síðustu fimm leikjum tímabilsins. Konietzka var þarna nýfarinn til 1860 Munchen og var lykilmaður þeirra er 1860 silgdi framúr á lokakaflanum og vann titlinn með þremur stigum.
Heldur fór að halla undan fæti á áttuna áratugnum, knattspyrnuliðið rétt eins og önnur starfsemi í borginni lenti í fjárhagsvandræðum sem endaði með því að liðið féll árið 1972. Það hjálpaði fjárhagnum ekki að á þessum árum stóð yfir bygging nýs leikvangs félagsins sem er nefndur í höfuðið á sínu heimahéraði Westfalen.
Westfalenstadion
Westfalen er þriðji heimavöllur Dortmund en liðið hafði frá stríðsárunum spilað á frjálsíþróttavelli (Stadion Rote Erde) sem tók mest 42.000 manns á knattspyrnuleikjum. Er Dortmund var fyrsta Þýska liðið til að vinna Evrópumeistaratitil árið 1966 var ljóst að heimavöllur félagsins þótti ekki við hæfi og því síður nógu stór. Vinsældir liðsins höfðu vaxið gríðarlega en fjárhagur hvorki félagsins né borgarinnar leyfði byggingu nýs heimavallar.
Það er óljóst hvernig saga Dortmund væri hefðu þeir ekki fengið Westfalen en fyrir hreina heppni var Dortmund kosin árið 1971 sem ein af þeim borgum sem myndi hýsa HM í knattspyrnu árið 1974. Heppni þar sem Köln hafði upphaflega orðið fyrir valinu á þessu svæði en neyðst til að draga umsókn sína til baka.
Fjármunirnir sem áttu að fara í stórglæsilegan alhliða íþróttavöll í Köln voru þess í stað settir í Dortmund en þó með þeim skilyrðum að sá völlur yrði byggður fyrir mun minna fjármagn. Því var hætt við 60.þúsund manna alhliða frjálsíþróttavöll af flottustu gerð eins og búið var að teikna í Köln. Þess í stað var byggt 54.þúsund manna fótboltavöllur. Hluti af þeim fjármunum sem áætlaðir voru í nýjan völl voru settir í fyrri heimavöll Dortmund sem var gerður að frjálsíþróttavelli og þjónar hann þeim tilgangi ennþá. Sá völlur er við hliðina á Westfalen.
Dortmund borg þurfti aðeins að greiða brotabrot af byggingu vallarins og fór fljótlega að græða á nýjum velli. Þetta gat ekki komið á betri tíma fyrir félagið enda liðið í fjárhagsvandræðum og í 2.deild er völlurinn opnaði árið 1974. Ekkert annað 2.deildar lið hýsti HM og líklega hefur það ekki oft gerst.
Fjórir leikir fóru fram á vellinum á HM 1974 en völlurinn var svo aftur notaður á HM árið 2006.
Westfalen hefur frá 1992 mjög reglulega verið endurbættur og stækkaður, aldrei meira en á árunum 2003-2005 (fyrir HM) er hann fór úr því að taka 68.600 manns í það að taka 83.000 manns. Hann tekur í dag rúmlega 81.þúsund manns á deildarleikjum og um 65.þúsund manns á Evrópuleikjum er aðeins er leyfilegt að vera með sæti.
Völlurinn skiptist í fjórar stúkur og tekur suðurstúkan fyrir aftan markið ein og sér 25.000 manns og er stærsta staka stúka Evrópu, þetta er auðvitað “Guli veggurinn” sem stuðningsmenn Dortmund hafa gert frægan á svipaðan hátt og stuðningsmenn Liverpool hafa gert Kop stúkuna fræga.
Dortmund komst aftur meðal þeirra bestu tveimur árum eftir að Westfalen opnaði en fjárhagsvandræði félagsins voru áfram í takti við efnahagsástandið í borginni í heild. Versta stund félagsins innanvallar var klárlega lokaleikur tímabilsins 1977-78 er liðið tapaði 12-0 gegn Borussia Moenchengladbach. Otto Rehagel stjóra liðsins var sagt upp störfum í kjölfarið. Liðið vann ekki bikar aftur fyrr en 1989 en
Ottmar Hitzfeld
Þar til Klopp tók við liðinu árið 2008 var það alltaf Ottmar Hitzfeld sem var helsta nútímahetja Dortmund. Hann tók við liðinu árið 1991 og reif félagið í gang. Þeir höfnuðu í 2.sæti árið eftir, Eyjólfur Sverrisson og félagar í Stuttgart unnu sinn leik með marki fjórum mínútum fyrir leikslok í lokaumferðinni og það dugði þeim til að tryggja titilinn á kostnað Dortmund.
Árið eftir hafnaði Dortmund í 4.sæti í deildinni en komst í úrslit UEFA Cup í annað skipti. Því einvígi töpuðu þeir hinsvegar samanlagt 6-1 gegn Juventus. Dortmund fékk væna summu fyrir velgengni sína í Evrópu sem þeir gátu notað til að styrkja liðið og byggja upp fyrir næstu ár.
Hitzfeld var maðurinn til að leiða það verkefni og vann titilinn tvisvar í röð árin 1995 og 1996. Dortmund vann bikarinn einnig bæði 1995 og 1996. Fyrirliði liðsins, Matthias Sammer var valin knattspyrnumaður Evrópu 1996 og fullkomið fótoltafár ríkti í Dortmund.
Næsta skref var því eðlilega að Evrópukeppni Meistaraliða þar sem Dortmund komst alla leið í úrslit árið 1997 eftir að hafa slegið Man Utd út í undanúrslitum. Úrslitaleikurinn fór fram á Ólympíuleikvangnum í München og aftur voru það Juventus sem voru andstæðingarnir.
Okkar maður Karl-Heinz Riedle skoraði tvisvar í 3-1 sigri gegn Zidane, Del Piero og félögum. Þeir kláruðu svo HM félagsliða einnig undir lok árs 1997.
Þannig að ótrúlegt en satt þá er árangur Hitzfeld með Dortmund betri en Klopp. Hann hefur hinsvegar ekki snefil af persónutöfrum þess síðarnefnda og hvað þá að standa fyrir sömu tegund knattspyrnu. Glæsileg endurkoma Dortmund undir stjórn Hitzfeld kom þeim engu að síður hressilega aftur á kortið enda hafði liðið ekki unnið deildina í 32 ár er þeim loksins tókst það árið 1995.
Sveiflur á 21.öldinni
Rétt eins og nánast allir sem standa sig vel í Þýskalandi fór Hitzfeld til FC Bayern þá um sumarið og fór að vinna titla með þeim. Dortmund fataðist flugið í kjölfarið og fór í gegnum nokkra stjóra þar til Matthias Sammer var ráðinn aldamótaárið 2000. Gamli fyrirliðinn hafði verið mikið í meiðslum undir lok ferilsins og tók þarna við liði Dortmund 33 ára gamall. Tveimur árum áður hafði leikjahæsti leikmaður Dortmund frá upphafi, Michael Zorc tekið við starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá Dortmund í kjölfar þess að hann hætti að spila, þá 36 ára gamall. Zorc réði vin sinn Sammer en þeir eru í dag yfirmenn knattspyrnumála hjá Dortmund (Zorc) og FC Bayern (Sammer).
Liðið endaði í 3.sæti fimm stigum á eftir meisturum FC Bayern á fyrsta tímabili Sammer 2000-01. Árið eftir fór Dortmund alla leið og vann titilinn eftir harða baráttu við Leverkusen sem þetta ár gekk undir nafninu Neverkusen enda lentu þeir í öðru sæti í öllum keppnum sem þeir tóku þátt. Sammer fór einnig með Dortmund í úrslit UEFA Cup þetta ár en þar töpuðu þeir fyrir Feyernoord.
Ballið búið
Þar með var ballið búið í bili og þökk sé lélegri fjármálastjórn um árabil lenti liðið í fjárhagsörðuleikum og mjög miklum skuldum. Staðan var það alvarleg að Westfalen var seldur árið 2002 til fjárfestingafélags sem leigði Dortmund hann svo aftur. Til að bæta gráu ofan á svart féll Dortmund úr leik eftir vítaspyrnukeppi í undankeppni Meistaradeildarinnar haustið 2003 og varð þar með af háum Evrópupeningum sem voru félaginu lífsnauðsynlegir.
Staðan varð í kjölfarið það slæm að FC Bayern þurfti að lána Dortmund, sínum erkifjendum €2 milljónir í tvo mánuði árið 2003 svo Dortmund gæti greitt út laun. Þetta er svona eins og ef t.d. Manchester United myndi lána Arsenal fyrir launagreiðslum.
Dortmund sem er eina lið Þýskalands á hlutabréfamarkaði var aftur rétt farið á hausinn árið 2005 er hlutafbréf í félaginu hrundu. Það varð til þess að lækka þurfti laun allra starfsmanna félagsins um 20%. Búið var að reka Sammer í millitíðinni og útlitið vægast sagt dökkt.
Til að laga skuldastöðuna var nafnarétturinn á heimavelli félagsins seldur árið 2005 til tryggingafélags sem hefur höfuðstöðvar sínar í Dortmund. Hann heitir nú Signal Iduna Park og gildir núverandi samningur til ársins 2021.
Gengi liðsins var í takti við fjárhagsstöðuna, Dortmund datt út úr toppbaráttunni og endaði jafnan rétt fyrir ofan miðja deild. Tímabilið 2006-07 var liðið lengi vel í bullandi fallbaráttu en bjargaði sér með góðum endaspretti. Þeir fóru í gegnum þrjá stjóra þetta eina tímabil en Thomas Doll sem ráðin var í mars 2007 náði að rétta liðið af og halda þeim uppi.
Næsta tímabil varð versta tímabil Dortmund í yfir 20 ár. Liðið náði reyndar í bikarúrslit þar sem það tapaði fyrir FC Bayern en 13. sæti í deild var ekki boðlegt, Thomas Doll hætti strax eftir tímabilið.
Félagið rambaði á barmi gjaldþrots 2003 og 2005, heimavöllurinn var seldur árið 2002 og nafni vallarins var breytt. Stefnan var bara í eina átt og stemmingin eftir því í Dortmund. Þeir þurftu bráðnauðsynlega eitthvað verulega sérstakt til að snúa þessari sorglegu þróun við.
Þeir fengu Jurgen Klopp.
Look at them now!
Dortmund er eitt mest spennandi lið sem Liverpool hefur fengið í Evrópu undanfarin ár. Hitum því hressilega upp fyrir þessa viðureing en í stað þess að hafa eina risafærslu brjótum við þetta niður í þrjá hluta.
Hér fer ég yfir sögu bæði Dortmund borgar og eins knattspyrnuliðs borgarinnar.
Áður var ég búinn að skoða tengsl Liverpool og Dortmund.
http://www.kop.is/2016/03/28/tengsl-liverpool-og-dortmund/
Þegar nær dregur leiknum skoðum við svo liðið þeirra í dag sem og stöðuna á okkar mönnum.
Afsakið þráðránið. Frábær pistill.
Verða Coutinho og kannski Firmino að spila í tveim keppnum í sumar. Suður Ameriku keppninni og svo OL í ágúst.
http://www.visir.is/neymar-ekki-med-brasiliu-i-sudur-amerikukeppninni-i-sumar/article/2016160409711
En það skiptir kannski ekki máli þar sem Coutinho verður sennilega bara keyptur í sumar. Strákurinn er á 75þ pundum á viku sem hann getur auðveldlega tvöfaldað víðast annarstaðar og spilað um titla.
Frábær pistill. Gefur þeim fyrri ekkert eftir. Get ekki beðið eftir þeim þriðja.
Pistilinn fær mann til að skilja aðeins betur hversu stórt afrek Klopp náði í raun og veru. Verður spennandi að sjá þessa viðureignir. Dortmund klárlega með sterkari leikmannahóp en það er það sem er svo töfrandi við evrópukeppnir. Það er alltaf möguleiki á sigri sama hversu sterkir andstæðingurinn er.
Með Klopp við stjórnvöllinn gerir allt meira töfrandi og verður spennandi að sjá hvernig viðtökur hann fær frá Dortmund. Satt best að segja finnst mér þessi viðureign meira spennandi en meirihluti viðureigna í 8-liða úrslitum CL. Er kannski ekki hlutlaus, en fréttaumfjöllunin finnst mér styrkja skoðun mína.
Hvernig sem fer þá er loksins orðið gaman að horfa á evrópuleiki hjá LFC og Klopp á stóran þátt í því. Ástríða hans fyrir leiknum smitar svo mikið út frá sér að ég lifi mig alltaf tvöfalt til þrefalt meira inn í leikinn en hjá forverum hans.
Mér hlakkar svo til, en maður á víst að ÉG hlakka…. Það er svolítið erfitt að hlusta á You’ll Never Walk Alone sungið af öðrum en þeim sem að hafa “Liverpool hjarta”. Þannig er ég bara. Fór á leik á Anfield með Celtic einhverntíman á milli WorldWar I og WorldWar II, minnir mig, og það var hræðilegt. En mikið djöfulsins, andskotans, helvítis, fokking fokk hlakka ég til leiksins á móti Dortmund. Heil Firmino!
Takk fyrir flotta pistla. Þetta verður gaman.
Úrvals pistill og heimsklassa heimildarvinna!
Kilroy: fórstu á leik Liverpool og Celtic á millistríðsárunum….? Ekki að furða annars ef þú upplifðir ekki You’ll Never Walk Alone á vellinum þar sem að menn byrjuðu ekki að syngja það fyrr en uppúr 1963 🙂
Snilldin ein þessi annar hlutur upphitunar…en ég hefði samt viljað sjá eina setningu út: ,,Hvernig trúarbrögð eru ennþá tekin alvarlega núna fimm öldum seinna þarf einhver að útskýra fyrir mér.”
Mér finnst alger óþarfi að blanda trúarbragðaskoðunum í pistla og umræður hér því ég er viss um að okkar frábæri stuðningsmannahópur innihaldi bæði trúaða og trúlausa. Biðst fyrirfram forláts ef ég er að misskilja eitthvað í skrifum Einars 🙂
Hingað til, hef ég lesið allar upphitanir hjá ykkur um leið og færi gefst.
Hvort sem maður sé staddur í tíma eða í miðju tafli við Frans páfa.
Ætla hins vegar að bíða í þetta skipti.
Þegar þríleikurinn er kominn út, mun ég fara niður í A4. Þar mun ég biðja þau um að prenta út upphitunina í heild sinni, eins og þetta væri BA ritgerð(með gormum og jafnvel kápu).
Svo verður farið á kaffihús og pantað bjór(a). Þá mun ég lesa upphitunina.
Djöfull hefur WW2 leikið dortmund grátt, vissi þetta ekki Einar frábær pistill sem gefur manni jafnvel aðra sýn á mikilvægi fótboltans
Takk Einar Matthías!
Kemur ekki 3 hluti bara í dag?
Takk fyrir þennan pistil Einar. Aldeilis flott upphitun og kynning á einu af stórliðum Evrópu. Hefði þó frekar viljað sjá okkar menn mæta þeim í úrslitum. Núna er bara spurning að leggja leikinn rétt upp gegn liði sem er á pappírunum sterkara en Liverpool. Man Utd átti líka að vera sterkara en Liverpool en þar voru leikirnir lagðir rétt upp og síðan kannski líka sú staðreynd að yfirleitt spilar Liverpool betur í Evrópukeppnninni heldur en staða þeirra segir til um. Árangur á seinni tímum t.d. 2001, 2005, 2007 og jafnvel 2009 segir allt til um það. Árangurinn allra siðustu árin hefði þó mátt vera betri.
Núna er bara að standa vörnina, það stendur allt og fellur með því. Ekki fá á sig einhver skítamörk, sjálfsmörk eða rúllubolta sem breyta um stefnu. Ekki hafa menn sem eru ekki standi eins og Skrtel, frekar nota Touré ef þarf að leysa af í vörninni. Spurning hvort Flanagan sé í standi og hafi nóga leikæfingu fyrir svona leik. Eflaust er mikill hausverkurinn hjá Klopp, hvað varðar liðsvalið, en þar sem maðurinn er engin meðalspaði þá leysir hann úr því
3 hluta upphitun – 3 bjora leikur – 3 markaskorarar
Liverpool kemur a ovart og vinna 3-2 i Dortmund. Origi, Sturridge og Coutinho.
Einu trúarbrögðin sem ég tek alvarlega er Liverpool FC. Allt annað er aukaatriði!!!
Þetta er hörku upphitun og gerir það að verkum að maður er orðin mikið meira en spenntur fyrir þesu einvígi.
Takk Einar og megi Fowler fylgja þér.
YNWA