Fyrsti æfingaleikurinn fór fram í kvöld: Liverpool vann Wrexham með tveimur mörkum gegn einu.
Anthony Le Tallec og Florent Sinama-Pongolle stálu senunni í kvöld, að mínu mati. Tony skoraði bæði mörkin í kvöld og það seinna eftir frábæran einleik Flo-Po. Tony var með betri mönnum í fyrri hálfleik en í þeim seinni, eftir að Flo-Po var kominn inná, voru þeir tveir gjörsamlega yfirburðamenn á vellinum. Frábært að sjá hvað þeir byrja undirbúningstímabilið ferskir … rétt eins og í fyrra!
Aðrir góðir: Í fyrri hálfleik voru Djibril Cissé og Carl Medjani manna frískastir, auk Tony sem jafnaði leikinn undir lok hálfleiksins. Í seinni hálfleik kom alveg nýtt lið inná, utan Tony sem spilaði allan leikinn í framlínunni. Þar voru ferskastir, að mínu mati, þeir Stephen Warnock og John Arne Riise sem náðu vel saman á vinstri vængnum (skiptust á að spila kant og bakvörð og gekk vel!), auk þess sem hinn ungi Darren Potter glansaði á miðjunni og lét Salif Diao virðast vera nýliðann á miðjunni … þótt hið öfuga sé sannleikurinn!
Á heildina litið var þetta ekki marktækur leikur, uppá frammistöðuna að gera a.m.k. Menn voru bara aðeins að hrista af sér slenið, komast í gírinn á ný og viðra nýja varabúninginn (sá guli er sveimérþá bara flottari en ég átti von á þegar maður sér hann á velli). Það var samt gaman, í fjarveru EM-stjarnanna, að sjá Benítez gefa ungu strákunum tækifæri í dag til að sanna sig. Hann leyfði þeim öllum að spila. Í fyrri hálfleik sáum við Medjani, John Welsh og Le Tallec spreyta sig en í þeim seinni fengu menn eins og Warnock, Sinama-Pongolle, Jon Otsemobor, Zak Whitbread, Darren Potter, Robbie Foy og David Raven að spreyta sig. Þannig að ljóst er að Benítez var með þessu að segja við þá: Þið fáið sénsinn til að sanna ykkur – það er undir ykkur komið hvort þið vinnið ykkur inn frekari sénsa í vetur eða ekki.
Sem sagt, góð byrjun hjá nýja þjálfaranum og björt framtíð hjá Liverpool FC – allavega ef mið er tekið af frammistöðum ungu strákanna.
Það er alltaf lítið að marka svona fyrstu leikina, en samt komst ég ekki hjá því að taka eftir því hvað Djimi Traoré í fyrri hálfleik og Salif Diao í seinni hálfleik voru daprir. Þeir áttu bara í vandræðum með að halda boltanum, komast í takt við samherja sína og ná sambandi við spilið. Þeir voru með öðrum orðum úti á þekju í þessum leik. Ef þetta er það sem koma skal geri ég fastlega ráð fyrir að sjá þá spila fyrir W.B.A. og Portsmouth í byrjun leiktíðar.
Næsti æfingaleikur er á mánudagskvöldið gegn Glasgow Celtic í Bandaríkjunum, svokölluðu Champions World-móti. Það fara ekki allir þeir sem spiluðu í kvöld með í þá ferð; held að Benítez ætli aðeins að hafa um 23 leikmenn með sér. Í kvöld spiluðu 20 menn og þess fyrir utan voru sjö hvíldir (Owen, Gerrard, Carra, Baros, Smicer, Hamann, Henchoz) sem fara pottþétt með til USA. Það gera 27 menn að berjast um svona 23 sæti til Bandaríkjanna … og ef ég á að dæma á leiknum í kvöld myndi ég skilja Salif Diao, Djimi Traoré og Robbie Foy eftir. Foy er enn of ungur, sýndist mér í kvöld, á meðan hinir tveir virtust varla hafa áhuga á að vera þarna inná.
Það vakti samt athygli í kvöld að hvorki Neil Mellor né El-Hadji Diouf voru á bekknum. Þýðir það að þeir séu á förum frá liðinu … Diouf væntanlega seldur ef hægt er og Mellor þá á langþráð lán til Crewe? Það þykir mér líklegt … ef Benítez teldi einhverjar líkur á að Diouf myndi spila fyrir Liverpool í vetur hefði hann látið hann spila í kvöld! Það er nokkuð ljóst að dagar hans (og Mellor?) eru taldir hjá Liverpool.
Menn leiksins: Anthony Le Tallec og Florent Sinama-Pongolle.
Skemmtilegasta augnablik leiksins: Þegar Djibril Cissé tók sína fyrstu snertingu og völlurinn klappaði ákaft! Æðislegt … maður hefur beðið lengi eftir þessu!
Mér finnst þú gleyma ehh :blush: Biscan (það erfiðasta sem ég hef skrifað lengi) hann er grinilega betri miðjumaður en varnarmaður og átti fínan fyrri hálfleik.
Jamm, ég nefndi ekki Biscan. Hann var fínn í þessum leik, kom á óvart að hann væri settur á miðjuna en hann stóð sig vel og Benítez hrósaði honum í leikslok. Mér bara fannst Cissé, Medjani og Le Tallec bestir í fyrri hálfleik.
En Biscan stóð sig vel, það er rétt. 🙂
Fallegur þessi guli búningur 🙂