Í dag hefst nýtt tímabil í sögu Liverpool FC. Í kvöld mætir liðið “okkar” Wrexham í fyrsta æfingaleiknum fyrir komandi tímabil. Það sem gerir þennan æfingaleik merkilegri en aðra æfingaleiki undanfarinna ára er sú staðreynd að þetta er fyrsti leikurinn fyrir bæði nýja framkvæmdarstjórann, Rafael Benítez, og nýja stjörnuframherjann okkar, Djibril Cissé, sem verður væntanlega í byrjunarliðinu í kvöld.
Ásamt Cissé er talið líklegt að Michael Owen byrji inná í kvöld, þótt hann spili eflaust ekki lengi enda nýbyrjaður að æfa, þar sem hann bað um að fá að spila á móti Wrexham … en Owen er eins og flestir vita frá Wales, hvar Wrexham-liðið er staðsett. Honum er því mikið í mun að fá að heiðra heimamenn sína með nærveru sinni. Fínt hjá honum … ég vona bara að hann meiðist ekki með því að vera að spila óþarfa leik eftir aðeins tveggja daga æfingar. Ég mun í það minnsta ekki búast við því að hann eigi stórleik í kvöld.
En eins og komið hefur fram á opinberu síðunni þá er leikurinn gegn Wrexham í beinni útsendingu á e-Season Ticket-hluta opinberu síðunnar í kvöld. Hvet alla til að stilla inn á e-Season og kíkja á fyrsta leikinn sem Benítez stjórnar. Þetta verður spennandi.
Annars las ég grein í morgun sem gerði mig svolítið pirraðan, en um leið svolítið glaðan. SoccerNet.com: ‘Mastermind’s new contestant’.
Þessi grein fjallar um taugastríðið sem þegar er hafið á milli þeirra Alex Ferguson, Arsene Wenger og hins nýtilkomna José Mourinho. Er farið ítarlega í sénsa þeirra og það sem við megum vænta þeirra á milli þegar taugastríðið hjá toppliðunum þremur fer á fullt í ágúst.
*HÓST* Toppliðunum ÞREMUR? *HÓST* :confused:
Ókei, það er að vissu leyti gleðiefni að menn skuli afskrifa Liverpool og Benítez – eða í það minnsta ekki telja þá vera jafn öfluga og hin þrjú stóru. Það mun bara gera það enn sætara þegar við endum fyrir ofan eitthvað af þessum liðum. Vinnum kannski ekki titilinn í ár (þótt maður viti aldrei) en ég er handviss um að við verðum ofar en í 4. sætinu! Handviss!!! Þannig að afskrifiði Rafa bara … you’ll see!
Fannst þetta bara fyndin grein, hvað menn eru að sleppa sér yfir Mourinho og öllu því sem hann á að geta afrekað. Ef Ranieri væri enn við stjórn hjá Chelsea myndi Benítez eflaust fá alla þessa ‘nýliða-athygli’ sem Mourinho er að fá … en þar sem þeir eru tveir nýir stjórar hjá toppliðum og Mourinho talar miklu meira en Benítez (og kaupir meira, og lofar meiru og hrósar sjálfum sér meira og … og …) þá hefur athyglin beinst í svona 90% mæli að honum, á móti 10% athygli í garð Benítez.
Sem er bara rugl. En samt gott. Fínt að leyfa okkar manni að sinna sínu starfi “í friði”. Nógu á hann erfitt þótt SkySports (nú einnig þekkt sem Chelsea TV þar sem þeir fjalla nær eingöngu um Chelsea í fréttum sínum þessa dagana) séu ekki að reyna að skemma fyrir honum. Það nýjasta frá snobbstöðinni í Lundúnum: Barcelona vilja fá Sami Hyypiä.
Áttið ykkur á því að sögusagnir um brottför Milan Baros, Michael Owen, Steven Gerrard, Dietmar Hamann, Djib Cissé á láni til Barcelona og nú síðast Sami Hyypiä eiga sér allar upptökin á sama fréttamiðlinum: Sky Sports News.
Og af hverju skyldi það vera? Augljóst: af því að þeir eru handbendi Abramovitsj sem reyndi að nota þá til að gera Gerrard órólegan og lokka hann til Lundúna … og þegar það gekk ekki eru þeir að “hefna” sín með því að gera Liverpool það erfitt að fá að vera í friði með sinn leikmannahóp. Ömurleg vinnubrögð hjá íþróttastöð sem ég bar einu sinni virðingu fyrir … í þá “gömlu, góðu daga” þegar þeir höfðu bara áhuga á Patrick Vieira og Real Madríd. Úps, sú saga er víst líka í gangi í ár … fjórða árið í röð eða svo … og enn og aftur áttu Sky Sports upptökin að þeirri slúðurepík. Eru ekki Arsenal líka í baráttu við Chelsea? Jú, og því er kannski betra að reyna að gera þá órólega líka … spurningin er bara, hvernig munu Chelsea TV, neiégmeina Sky Sports, reyna að gera ManU erfitt fyrir?
Fáránlegt. Asnalegt. Og það verður gaman að sjá Benítez stinga ofan í við alla þessa gaura í vetur. Það liggur við að ég voni að ManU og Arsenal endi líka fyrir ofan Chelsea í vetur, og þá er nú fokið í flest skjól!
Jamm, ég er dálítið sammála. Það skrítna er að gerast að ég er hálfpartinn að vona að Man U vinni Chelsea í fyrsta leik. Það myndi setja allt á annan endann hjá Chelsea, Mourinho myndi þurfa að éta ansi margt oní sig, og enska pressan myndi fríka út yfir því að uppáhaldsliðið þeirra væri að tapa. 🙂