Manchester City á morgun

Það er komið að 25. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar tímabilið 2012/13. Að þessu sinni fá okkar menn það erfiða hlutverk að heimsækja Englandsmeistara Manchester City á City of Manchester Stadium. Verkefnið er einfalt: reyna að gera það sem aðeins einu öðru liði hefur tekist síðastliðin tvö ár, að vinna City á heimavelli þeirra.

UM CITY

Meistararnir unnu deildina á markatölu síðasta vor og var það í fyrsta sinn í tæpa fjóra áratugi sem þeir unnu bikar í Englandi. Í ár hefur gengið verið aðeins lakara hjá þeim, en þó ekki mikið, og sitja þeir í dag í öðru sæti, sjö stigum á eftir nágrönnum sínum í United. United á heimaleik í dag gegn Fulham og því gætu City verið orðnir tíu stigum á eftir þegar þeir hefja leik gegn okkur á morgun.

Það má því búast fastlega við að þeir selji sig dýrt á morgun, staðráðnir í að ná þremur stigum.

Af City er það helst að frétta að þeir seldu Mario Balotelli til Ítalíu á fimmtudaginn þannig að okkar menn verða sennilega ekki manni fleiri á neinum tímapunkti í þessum leik. Þá er fyrirliði þeirra, Vincent Kompany, meiddur og missir væntanlega af þessum leik sem og Toure-bræðurnir Kolo og Yaya sem eru á Afríkumótinu með Fílabeinsströndinni. Maicon og Micah Richards eru einnig báðir frá en Pablo Zabaleta hefur verið einn þeirra besti maður í hægri bakverðinum í fjarveru hinna tveggja þannig að það kemur eflaust minna að sök. Þeir sakna Toure-bræðra og Kompany talsvert meira.

Miðað við óbreytta stöðu hjá þeim í meiðslamálum geri ég ráð fyrir að byrjunarlið City á morgun verði svipað og það var í síðasta leik þegar þeir gerðu markalaust jafntefli við QPR á þriðjudag:

Hart

Zabaleta – Garcia – Lescott – Clichy

Milner – Barry – Silva – Nasri

Aguero – Tevez

Javi Garcia fyllti inn sem miðvörður í þessum leik og City-menn eru að vonast til að Matija Nastasic verði orðinn nógu heill til að spila miðvörðinn gegn Liverpool, annars verður Garcia að halda áfram í miðverði þrátt fyrir að vera varnartengiliður. Í framlínunni er spurning hvort Edin Dzeko fær sénsinn fram yfir Carlos Tevez, sem hefur ekki skorað deildarmark síðan í nóvember. Að öðru leyti geri ég ráð fyrir frekar svipuðu liði hjá þeim.

City hafa ekki náð sömu hæðum og í fyrra en engu að síður halda þeir áfram að kreista út sigrana. Þeir hafa unnið 8 af síðustu 10 deildarleikjum þrátt fyrir að Aguero, Tevez og Dzeko hafi bara skorað 7 mörk á milli sín í síðustu 9 leikjum í deild og bikar. Lykillinn að þessum sigrum þeirra er vörnin – þeir hafa aðeins fengið á sig 19 mörk í 25 deildarleikjum, fæst allra liða í deildinni, og hafa haldið hreinu í síðustu fjórum deildarleikjum í röð og geta sett félagsmet ef þeir halda hreinu á morgun. Og það án þess að hafa Kompany eða Kolo Touré í vörninni. Vel gert.

Við getum því búist við mjög sterku, skipulögðu og þéttu liði á Etihad Stadium á morgun.

UM LIVERPOOL

Af okkar mönnum er lítið að frétta. Við stilltum upp nánast okkar sterkasta liði gegn Arsenal á miðvikudag og síðan þá hefur Colin Pascoe, aðstoðarframkvæmdarstjóri, staðfest að það eru engin ný meiðsli. Jamie Carragher var valinn umfram Martin Skrtel í hjarta varnarinnar gegn Arsenal og Brendan Rodgers nánast staðfesti í viðtali eftir þann leik að Carra yrði áfram í liðinu á morgun. Jose Enrique er hins vegar orðinn klár í að byrja leikinn og ég vænti þess að hann komi inn fyrir Andre Wisdom og það verði eina breytingin á byrjunarliðinu.

Nýi leikmaðurinn, Philippe Coutinho, er á Ítalíu að ganga frá lausum endum fram yfir helgi og tekur því ekki þátt í þessum leik.

Ég spái því þessu byrjunarliði og verður að teljast mjög líklegt að það standist:

Reina

Johnson – Carragher – Agger – Enrique

Henderson – Lucas – Gerrard

Downing – Sturridge – Suarez

Henderson skoraði í síðasta leik og heldur sæti sínu, framlínan velur sig sjálf þessa dagana nema Rodgers vilji koma Roberto Mancini á óvart og nota Fabio Borini eða Raheem Sterling í stað Stewart Downing. Ég efa það þó því hvorugur þeirra er jafn góður í hjálparvörn og Downing og með Johnson sókndjarfan á bak við sig þarf Downing að vera mjög góður í hjálparvörninni á morgun.

Þetta verður því nánast örugglega liðið sem hefur þennan leik.

MÍN SPÁ

Þetta verður þéttur leikur. City hleypa ekki mörgum mörkum í gegn, sérstaklega á heimavelli, en þeir eru án máttarstólpa í vörninni og ég get alveg séð Suarez, Sturridge og Gerrard fyrir mér stríða miðvarðarparinu Lescott og García/Nastasic. Hinum megin hafa stórstjörnurnar í framlínu City ekki verið heitar en þetta eru samt allt heimsklassamenn og Carra og Agger verða að eiga toppleik til að halda þeim frá.

Ég ætla að vera varkár og spá 1-1 jafntefli. Ef þeir skora hins vegar fyrst, og skora snemma, gætum við verið í miklum vandræðum því liðið okkar hefur ekki bara leikið vel undanfarið heldur líka sýnt á köflum að þeir eru allt of brothættir andlega þegar á móti blæs (sjá: Stoke, Aston Villa, Oldham). Ef City skora snemma á morgun gæti þetta orðið ljótt. Ef okkar menn geta hins vegar haldið hreinu og unnið sig smám saman framar á völlinn gæti þetta alveg orðið okkar dagur.

Þetta verður hörkuleikur. Ég hlakka til. Áfram Liverpool!

38 Comments

  1. Meistararnir unnu deildina á markatölu síðasta vor og var það í fyrsta sinn í tæpa fjóra áratugi sem þeir unnu bikar í Englandi

    Nei, þeir unnu nú reyndar FA bikarinn fyrir tveimur árum síðan. Smá bögg í annars flottri upphitun 🙂

    Svar (KAR): Einmitt, gleymdi því. Það er bannað að leiðrétta mig í dag. Ég skrifaði þessa upphitun sultuveikur uppí rúmi. Helvítis karlakvef. 🙂

  2. Ég væri alveg til í að fá smá breytingu á uppstillingu fyrir þennan leik og spila með 3 miðverði og bakverðina hátt.

    Reina
    Skrtel Carra Agger

    Johnson Enrique
    Gerrard Lucas
    Hendo
    Suarez Sturridge

    Þetta verður gríðarlega erfiður leikur en vonandi náum við allavega einu stigi en helst 3.

  3. Hugsa að þetta sé nokkuð öruggt byrjunarlið, ekki nema BR breyti um taktík sem ég vona ekki. Ef Manu vinnur í dag og við töpum ekki þá held ég að deildin sé svo gott sem búinn (Manu virðist ekki ætla að taka mánuð í að drulla á sig þetta tímabil, sennilega útaf Persie – ffs arsenal), bölvað að vera að setja okkur í stöðu til að hjálpa þessu liði.

    Annars vantar mikið í þetta City lið og við með fullskipað lið. Vil eiginlega bara sigur hér, þó það sé nú kannski ekki réttlætanleg krafa. Man ekki betur en að við unnum Chelsea á brúnni fyrstir liða í einhvern þvílíkt langan tíma og lékum það svo eftir næsta tímabil. Höfum oft verið að spila vel gegn City en ekki náð úrslitum í samræmi við það.

    Þokkalega bjartsýnn, svo lengi sem við höfum ekki 11 menn í okkar teig og horfum á þá spila boltanum sín á milli rétt f. utan teig, líkt og gegn Arsenal. 0-2.

  4. Ég yrði nokkuð sáttur við jafntefli í þessum leik en mér finnst City ekki hafa spilað vel á tímabilinu og púllarar eiga að geta unnið þennan leik.

  5. Líklega tapar Liverpool stórt eða gerir jafntefli, andlega hliðin á liðinu boðar ekki gott og miðað við úrslitin á tímabilinu ætti þessi leikur alltaf að tapast, maður veit þó aldrei ætli þetta sé ekki undir Suarez komið eins og vanalega. Það veitir allavega ekki af góðum leik á morgun í ljósi nýrra frétta um Andrew Carroll, það að láta hann í burtu og fá borini í staðinn er bara sorglegt!

    Reina
    Johnson Skrtel Agger Enrique
    Lucas
    Gerrard Henderson
    Sterling Sturridge Suarez

    Þetta lið á að geta staðið í City, það er leiðinlegt að segja það en lítill hluti af manni vill gefa City stig í þessum leik vegna þess að maður heldur svo innilega með þeim í baráttunni við utd.

    2-3 í skemmtilegum leik, Suarez fer á kostum, skorar þrennu og færir í leiðinni utd titilinn á silfurfati !

  6. Flott upphitun og hörkuleikur framundan.

    Já vissulega vill maður ALLS EKKI hjálpa manjú að vinna titilinn þegar 3 mánuðir eru eftir af deildinni en þeir geta ekki endalaust unnið sína leiki eins og þeir hafa verið að gera auk þess á meðan það er ennþá séns á CL-sæti fyrir Liverpool að þá er ekki séns í helvíti að við eigum að gefa það eftir. Það er of mikilvægt!

    Mín spá 1-2 fyrir okkur. Við spilum oft fantagóðan fótbolta á móti þessum liðum og þetta verður okkar dagur! Suarez með bæði mörkin…

  7. Ég hef enga trú á að Carrhager byrji þennann leik aðeins þrem dögum eftir Arsenal leikinn og ég held að hann sé en að drepast í maganum eftir þrumuna hans Podolski. Ég reikna annars með auðveldum Man City sigri en vona auðvitað að okkar menn sigri,en það mun varla gerast eins og leikirnir gegn stóru liðonum hafa spilast.

  8. Góður punktur í þessari upphitun að þetta geti farið illa ef City skora fyrst. Ef ég man rétt þá hefur þetta ágæta lið okkar ekki unnið leik á tímabilinu þar sem það hefur lent undir (í deild amk). Sjáum hvað setur en maður verður ekkert mjög bjartsýnn á framhaldið ef City menn koma marki á okkur fyrst.

  9. Menn tala um að sigri LFC leikinn á morgun að þá værum við að hjálpa MAN U að vinna titilinn í ár…… og hvað með það, eina sem mig varðar þennan leik er að það eru 3 punktar í boði og sigrum við á morg að þá er það fyrst og fremst að hjálpa LFC að ná CL sæti í ár, skítt með MAN U.

    Vil sjá sigur á morgun til að nálgast Tottenham í 4. sætinu, það er nr 1, 2 og 3!

    Fyrir mér er það það EINA sem skiptir máli á tímabilinu.

  10. En scum á leik î dag á útivelli, vona að guðirnir verði okkur hliðhollir í dag og á morgun, með öðrum orðum að bæði liðin frá manchester tapi.

  11. Kæmi mér ekki á óvart að Sturridge verði á bekknum og Suarez einn á toppnum. Að Allen verði í byrjunarliðinu eða, sem mér þykir líklegra, að Enrique verði settur á vinstri kant og Johnson áfram í vinstri bakverði og Wisdom haldi sinni stöðu. Einnig að Skertl komi inn í stað Carragher. En öllu máli skiptir að liðið komi dýrvitlaust í þennan leik og berjist frá fyrstu mínútu fram að þeirri síðust. Jafntefli er mjög ásættanlegt og sigur frábært.

  12. Við tökum þetta á morgun.Mig grunar að Skrtel byrji inn á annars sammála fínni upphitun þrátt fyrir allt karlakvef.ÁFRAM LIVERPOOL

  13. Allt annað en sigur er óásættanlegt.
    Þeir drulluðu á sig gegn Oldham og glundruðu niður 2-0 forskoti gegn Arsenal.

    Þannig að nú er kominn tími á að þeir vinni!

  14. hvernig væri að hafa suarez á toppnum, hann getur ekki varist og profa sturage á kantinum. allavega er nauðsinlegt að miðjan verði Gerand Leiva og Henderson, það er lang besta miðjan sem við höfum, sjáfsagt þarf að hafa Skirtle frekar en Carra því sóknamenn city eru fjótir en ekki stórir. skallaboltar eru minni áhyggjur en stúngusendingar.

  15. já Zárus getur illa varist, sammála Jói að Skurtull ætti frekar heima þarna í stað Karls

  16. Voðalegu börn eruð þið alltaf að spá ï manutd við eigum ekki að vera að spá ï þeim þeir eru bestir við eigum barae að spá í okkur þetta utd kjaftæði í ykkur er bara bull þeir eru langbestir maður verður að viðurkenna það þó það sé erfitt þeir eru með topp klúpp

  17. Ég hugsa að þetta reynist erfitt. Man City eru vissulega með sterkara lið en ef það er eitthvern tíman tækifæri á að vinna City, þá er það núna. Bullandi pressa á þeim að misstíga sig ekki, og enginn Kompany og Yaya. Þeir tveir leikmenn eru ótrúlega mikilvægir þessu liði.

    Ég er orðinn þreyttur á að lesa um manu hérna, Ég skil ekki það hugarfar að finnast erfið tilhugsun að vinna City í dag því þá ‘hagnast’ Manu. Þetta gildir bara um alla leiki, við gætum alveg einsog bara hætt að spila fótbolta. Manu eiga fullt af erfiðum leikjum eftir, og hvort þeir vinni titilinn eða ekki ræðst ekki á eitthverjum leikjum okkar.. nema auðvitað leikjum Liverpool við Manu.

    YNWA

  18. Bara ekki sterling þá er mér sama tökum þetta 1-2 áfram LIVERPOOL;)

  19. Varnarmaðurinn Martin Kelly hjá Liverpool hefur komið flatt upp á félagið eftir að hafa krafist 45.000 punda á viku ef hann á að vera áfram á Anfield. (Mail on Sunday)

    hvað fynnst ykkur um þetta á hann skilið að vera með 45.000 pund á viku hef ekki mikið fylgst með en er hann ekki buinn að vera meiddur bara allt seasonið ligguð við ????

  20. Hvernig er þetta með fólk eins og nr 18 “þeir eru bestir við eigum barae að spá í okkur þetta utd kjaftæði í ykkur er bara bull þeir eru langbestir ” ekki get ég séð að þetta sé alvöru stuðningsmaður, ég mun aldrei samþykkja þetta, Liverpool er einfaldlega besta og flottasta liðið og að einhver sannur stuðningsmaður geti sagt þetta er mér alveg óskiljanlegt!

  21. Ásdís, þar sem ég er Man Utd maður þá get sagt að þetta getur ekki verið Liverpool maður. ENGINN Liverpool maður myndi tala svona, þetta er örugglega stuðningsmaður annars liðs að reyna að vera fynndin og það tekst bara svona rosalega illa.

  22. Ég hef einhverra hluta vegna góða tilfinningu fyrir þessum leik í dag því ég held að City henti Liverpool vel af því að mér finnst þeir vera of hægir, þá meina ég að skipta úr vörn í sókn. Það eina sem ég hræðist eins og alltaf með mína menn í Liverpool eru föst leikatriði, en hvað um að kæru vinir þá hef það á tilfinningunni að við vinnum 1-0.

  23. Spái 1-2 fyrir Liverpool 🙂

    Hvað er annars að frétta af Oussama Assaidi er hann en þá í afríku keppninni ?

  24. Alla jafna hefur eftirfarandi regla gilt í vetur:

    Ef andstæðingurinn skorar mark fær Liverpool ekki þrjú stig.

    Einu undantekingarnar eru West Ham-leikurinn (3-2) og fyrri Norwich-leikurinn (5-2).

    Svo má líta jákvætt á þetta:

    Liverpool heldur hreinu í sigurleikjum. Sjö sinnum í vetur.

    Hér eru bæði neikvæðir og jákvæðir menn sem geta gert sér mat úr þessu.

    Að þessu sögðu spái ég 1-2 sigri okkar manna í dag.

  25. Mig dreymdi 3-0 sigur okkar manna… þannig ég held mig bara við þá spá 🙂

  26. Sælir félagar

    Ég held mig við að spá 1 – 3 í þessum leik sem öðrum. Við sjáum svo hvað setur en mín tilfinning fyrir leiknum er góð.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  27. Nei
    Ég held að það verði enginn sopcast linkur, það er erfitt að finna gott stream

Gluggavaktin: janúar 2013

Liðið gegn Man City