Kristján Atli vs Tryggvi Páll

Um helgina fer fram stórleikur erkifjendanna. Það þarf ekkert að kynna þann leik frekar á þessari síðu og það þarf ekkert að útskýra fyrir ykkur af hverju þessi leikur, þetta árið, er stærri fyrir Liverpool FC en hann hefur verið í mörg, mörg ár.

Það þarf heldur ekkert að tíunda fyrir lesendum Kop.is hver staðan er hjá Manchester United núna.

Af því tilefni ákváðum við Tryggvi Páll hjá Rauðu Djöflunum að spjalla aðeins saman framan af vikunni um allt sem tengist málefnum beggja liða. Úr varð þetta langa og ítarlega spjall sem við viljum deila með ykkur. Okkur fannst þetta fínasta upphitun fyrir stóra helgi hjá okkur og okkar félögum – vonandi hitar þetta einhver ykkar upp líka.

20130902_Rodgers_Moyes_reuters

KRISTJÁN ATLI: Velkominn til leiks, Tryggvi. Fyrst langar mig að nefna aðeins risapistil sem þú skrifaðir á heimasíðu ykkar United-manna á Íslandi um ástæður þess hvers vegna gengi Manchester United hefur verið svona slappt í vetur. Þetta er náttúrulega stærra hrun en menn óraði fyrir við stjóraskiptin síðasta sumar og þú færir góð rök fyrir því að þetta er að sjálfsögðu ekki allt saman David Moyes að kenna. En eru menn ekki samt í þeirri stöðu að það verður að laga það sem hægt er að laga? Það er, eigendurnir eru ekki á förum og aðgerðarleysi Ferguson í að endurnýja hópinn síðustu 3-4 ár verður ekki breytt úr þessu, og þá stendur eftir að endurnýja hópinn í sumar og/eða skipta Moyes út fyrir reyndari sigurvegara í brúna.

Hljóðin sem koma frá æðstu mönnum United eru þau að Moyes sé ekki í neinni hættu og ef maður trúir þeim virðist sem hann fái að endurnýja hópinn í sumar áður en menn fara að saka hann um eitthvað í genginu. Getur verið að Ferguson og stjórnin hafi áttað sig á því síðasta sumar, og enn betur í vetur, að það hafi verið mistök að hafa ekki endurnýjað hópinn fyrr og því telji þeir kannski bara sanngjarnt að Moyes fái tækifæri til að endurnýja í sumar áður en honum er slátrað fyrir lélegt gengi? Eða er hann í þeirri stöðu að t.d. slæmt gengi gegn Liverpool, Olympiakos og City í þessari krúsjal leikjahrinu fram undan muni innsigla örlög hans? Á hvaða tímapunkti hætta afsakanirnar að gilda og erum við nálægt þeim tímapunkti?

TRYGGVI PÁLL: Eru ekki allir pottþétt búnir að lesa þessa langloku? Moyes gæti hiklaust staðið frammi fyrir því að vera atvinnulaus eftir leikinn gegn City ef illa fer í þessum þremur risaleikjum framundan. Hann er einfaldlega búinn að grafa sína gröf það djúpt og menn nenna ekki lengur að hlusta á einhverjar afsakanir.

Ég fór yfir það í pistlinum hvernig liði hann tók við og af hverju hann hefði alltaf lent í ákveðnum erfiðleikum til þess að byrja með en það hefur engum órað fyrir því hversu djúpt Manchester United er sokkið undir hans stjórn. Það vissu allir að þetta tímabil gæti orðið strembið en gengi liðsins eftir áramót hefur verið alveg sérstaklega slæmt. Þetta myndi kannski sleppa ef Moyes væri að reyna að láta liðið spila skemmtilegan fótbolta en í dag er liðið að spila einhvern tröllabolta sem ég er ekki einu sinni viss um að hann hafi reynt hjá Everton.

Ef hann stendur í lappirnar í þessum þremur leikjum, kemur úr skelinni, tekur smá séns og sýnir eitthvað sem bendir til þess að hann ráði við það að vera knattspyrnustjóri Manchester United ætti hann að fá næsta tímabil. Ef hann mætir til leiks með tröllataktíkina er ekkert sem bendir til þess að hann ráði við þetta risaverkefni. Ef hann fær næsta tímabil þarf hann að vera sneggri en Gunnar Nelson að klára sumarkaupin og losa sig við þá leikmenn sem höndla ekki að spila ekki undir Sir Alex Ferguson. Þá gæti blásið til betri tíðar. Við vitum meira um það á sunnudaginn.

Talandi um sunnudaginn? Hvað er langt síðan Liverpool mætti á Old Trafford sem sigurstranglegri aðilinn?

KRISTJÁN ATLI: Ég var einmitt að hugsa um þetta nýlega (ókei, alltaf – ég er ALLTAF að hugsa um það að Liverpool sé núna orðið betra lið en United). Síðan United unnu deildina fyrst undir stjórn Ferguson (vorið ’93) hefur Liverpool aðeins einu sinni endað fyrir ofan United í deildinni. Það var vorið 2002 þegar Arsenal unnu titilinn á Old Trafford. Liverpool var á toppnum um haustið en missti svo flugið en kom aftan að United með góðum endaspretti og hirti annað sætið af þeim í næstsíðustu umferðinni.

Einu sinni á tuttugu og einu tímabili. Hitt skiptið á öllum þessum árum sem Liverpool náði öðru sæti var United auðvitað liðið sem stóð þeim fyrir dyrum og hirti titilinn. En allavega, fyrir það fyrsta er þetta ótrúlega sorgleg staðreynd sem lýsir bæði mestu eyðimerkurgöngu í sögu Liverpool síðan liðið fór að vinna titla og um leið mestu sigurgöngu í sögu United.

Sem gerir þetta tímabil sem við erum að upplifa svo einstakt. Liverpool er í dag í öðru sætinu, ellefu stigum á undan United. Það er ekki verið að laumast fram úr ykkur núna heldur er verið að skilja ykkur eftir í rykinu, og það er í raunar í fyrsta sinn síðan 1991 sem það gerist. Þá endaði Liverpool í 2. sæti (árið eftir síðasta titil sem við unnum) á meðan United endaði í 6. sæti, 17 stigum á eftir Liverpool. Það var þó ekki beint ávísun á það sem koma skyldi á næstu árum fyrir bæði lið og spurning hvort tímabilið í ár verði einsdæmi líka.

Við erum sem sagt algjörlega óvanir því að fara á Old Trafford í þessari stöðu. Þessir leikir eru, eins og klisjan segir, þess eðlis að formið og deildartaflan segir ekki allt og yfirleitt er heimaliðið talið vera líklegra burtséð frá deildargengi. Það er bara þegar annað liðið er sérstaklega lélegt (t.d. ’91 þegar United voru í ruglinu eða 2010 þegar Liverpool var með Hodgsonitis) sem manni finnst annað liðið eiga að vinna báða leikina, og jafnvel þá gekk það eftir í hvorugt skiptið.

Með öðrum orðum, það er skrýtin tilfinning að fara inn í leik á Old Trafford og finnast eins og mínir menn eigi að vinna, en jafnvel núna gef ég lítið fyrir þá tilfinningu þar sem sagan sýnir að þetta eru alltaf galopnar viðureignir og jafnvel þegar munurinn á liðunum var enn meiri en í dag gat “litla” liðið (það tímabilið) yfirleitt strítt því stærra.

Þannig að ég tek að engu sem gefnu í þessum leik.

Er ég að gefa þér smá trú á þessum leik með söguupprifjuninni eða ertu að búa þig undir það versta?

Einnig: af hverju í fjandanum er þessi leikur í hádeginu á sunnudegi? Liverpool var í fríi um helgina og United spiluðu í hádegi á laugardag gegn West Brom. United er að leika duga-eða-drepast leik í Meistaradeildinni á miðvikudag í næstu viku og gætu alveg þegið aukadag til að búa sig undir Olympiakos. Af hverju í andskotanum er þessi leikur þá á sunnudegi? Er enska Úrvalsdeildin eina deildin sem verndar ekki Meistaradeildarliðin sín? Þetta virðist koma upp á hverju ári, pirraði mig jafnan þegar Liverpool var í Meistaradeildinni og mun eflaust pirra mig þegar við snúum þangað á ný næsta haust. Hvað er að þessari deild?

TRYGGVI PÁLL: Það skiptir eiginlega engu máli hver er talinn vera sigurstranglegri í þessum viðureignum, þetta eru þannig leikir að form, uppstillingar og allt það virðast nánast aukaatriði. Það sem stressar mig fyrir þennan leik er að Moyes velji öruggu leiðina og detti aftur í tröllaboltann eftir verulega fína og léttleikandi frammistöðu gegn WBA um síðustu helgi. Ef hann gerir það endar þetta illa fyrir United.

Nú er Liverpool nánast öruggt inn í Meistaradeildina á næsta ári. Maður þarf ekki að horfa lengra en á bekkinn ykkar um hverja helgi til þess að sjá þið eruð með þunnskipaðan hóp. Stór ástæða fyrir því að ykkur gengur svona vel er að liðið mun enda með að spila aðeins rétt rúmlega 40 leiki á þessu tímabili og getið keyrt á færri mönnum en ella. Hvernig munið þið höndla næsta tímabil og aukið leikjaálag og pressu sem fylgir Meistaradeildinni?

KRISTJÁN ATLI: FSG vita hvað þeir eru að gera. Þeir styrkja hópinn í sumar og við spjörum okkur, ekki síst ef United og Spurs fara í Evrópudeildina og eru því ekkert í neitt betri málum hvað varðar leikjaálag en við. Annars ulla ég á þig fyrir að gefa í skyn að Liverpool sé bara að ná þessum árangri af því að það er ekki í sama leikjaálagi og hin liðin. Það er fullmikil einföldun.

Stærsta ástæðan fyrir gengi Liverpool í vetur er sú að með nýjan markvörð og vörn og miðju í stöðugum meiðslavandræðum hefur sóknarleikurinn tekið fáránlegum framförum. Suarez og Sturridge eru báðir að tvöfalda nær alla tölfræði sína (og hafa báðir tekið svona NBA Jam “On Fire” tarnir þegar hinn hefur vantað) og þeir Sterling og Henderson hafa blómstrað í algjöra ása í þessu liði. Það er náttúrulega hrikalega öflugt að nítján ára strákur skuli allt í einu blómstra og stimpla sig inn sem 20m punda vængmaður, það sparar bæði peninga og áhættu á leikmannamarkaði. Þið þekkið það, United-menn, Januzaj virðist vera svipuð sprengja og Sterling sem bara bíður eftir að springa á næsta eða þarnæsta vetri.

Þannig að ég hef litlar áhyggjur af næsta vetri. Liverpool mun styrkja sig í sumar og bæta breiddina, taka lánsmenn eins og t.d. Fabio Borini og Suso til baka, og láta slag standa næsta vetur. Ef United og Spurs styrkja sig á ný verður baráttan um Meistaradeildarsætin áfram grimm og fá lið örugg um sæti þar eftir ár en hvort Liverpool heldur sæti í Meistaradeildinni að ári (að því gefnu að það hafist nú í vor, sem er ansi líklegt en enn ekki tölfræðilega öruggt) mun ekki ráðast á því hvort liðið er að spila fleiri leiki en í vetur.

Hvað með ykkur? Látum vera að ræða Moyes, í hvað stefnir á leikmannamarkaðnum í sumar? Vidic er að fara til Inter, Rio hlýtur að hætta eða fara í minna lið ef hann vill spila áfram. Evra? Giggs? Hernandez? Kíktu í kristalkúluna og segðu mér hverjir fara í sumar. Ég vil heyra nöfn.

TRYGGVI PÁLL: Einföldun eða ekki. Þú getur gleymt því að Liverpool væri í þessari stöðu ef liðið væri t.d. í Evrópudeildinni. Mikil hvíld á milli leikja, minna álag á lykilleikmenn, meiri tími til að vinna í leikskipulaginu og allt það. En það er auðvitað ekkert að því, menn spila bara með þau spil sem eru gefin og Rodgers hefur spilað afskaplega vel úr sínum spilum. Þetta tímabil á örugglega eftir að reynast ómetanlegt fyrir Rodgers, hann hefur fengið mikinn tíma til þess að drilla leikmannahópinn í sinni knattspyrnuheimspeki og það virðist vera að virka. Næsta tímabil verður hinsvegar alvöru prófsteinn á Rodgers og allt félagið allt frá eigendum, lykilmönnum og niður í þá leikmenn sem eru að spila minna. Það er nefnilega ekkert grín að ætla sér að vera í toppbaráttu og að keppa í Meistaradeildinni á sama tíma.

Hjá United verða a.m.k þrír leikmenn að fara. Vidic fer til Inter og Rio Ferdinand og Evra þurfa að yfirgefa liðið. Fregnir herma að þeir Rio og Evra séu ósáttir við Moyes og þeir hafa báðir verið afskaplega daprir á þessu tímabili. Þeir tveir eru miklir leiðtogar innan hópsins og ef Moyes vill hafa fullkomna stjórn á hópnum þarf hann að skera þessa tvo leikmenn í burtu og fá sína menn inn í staðinn. Flestir stuðningsmenn vilja einnig sjá Ashley Young fara, hann er á svívirðilega háum launum og er afskaplega illa liðinn á meðal stuðningsmanna fyrir síendurtekinn leikaraskap og lélega frammistöðu á vellinum. Giggs mun líklegast segja þetta gott eftir tímabilið og færa sig alfarið yfir í þjálfarastarfið.

Ég er líka smám saman að komast að þeirri niðurstöðu að Robin van Persie verði að yfirgefa liðið í sumar a la Ruud van Nistelrooy.

KRISTJÁN ATLI: Ég ætla að svara þessu í myndmáli:

1: Ég held að við Liverpool-menn nær og fjær vitum ágætlega hvernig á að keppi í bæði deild og Evrópu. Við höfum unnið þann stóra fimm sinnum.

2: Evra mikill leiðtogi?

3: SELJA VAN PERSIE?!? Af því að þið getið fengið eitthvað betra staddir utan Meistaradeildarinnar?

Þökkum Phil Dunphy fyrir svörin.

Nei í alvöru talað þá er nokkuð ljóst að það verður að selja hjá United. Ég myndi bara fara varlega í að heimta að einhver af stjörnunum fari því eins og við Liverpool-menn höfum komist að (og fleiri lið, spurðu bara t.d. AC Milan, Lyon, PSV eða Inter – stór og sigursæl lið sem eiga erfitt með að laða þá bestu í sínu landi að sér utan CL). Van Persie hefur kannski ekki náð sér á strik í vetur (frekar en flestir aðrir) en það er ekki þar með sagt að það sé auðvelt að finna betri staðgengil.

Mitt álit, væri þess óskað: það er kominn tími á Giggs og Rio, Vidic fer og þið seljið Hernandez, Nani og Evra. Reynið svo að finna 3-4 up-and-coming leikmenn, þ.e. ekki orðnar stórstjörnur en á leiðinni (eins og Liverpool gerði með Coutinho og Sturridge fyrir ári) og setjið svo allt kapp á ein risakaup. Segjum Toni Kroos á miðjuna fyrir allan peninginn og svo hungraða, hæfileikaríka stráka með honum og þá getið þið farið að stíga skref í rétta átt á næstu leiktíð.

Auðvitað vona ég að enginn sé að hlusta á mig. Þetta eru allt of góðar hugmyndir hjá mér.

Það skrýtna er að þrátt fyrir velgengnina er Liverpool í svipuðum málum. Það er, það er fram undan ærin tiltekt í varnarlínu liðsins. Agger, Skrtel, Johnson, Enrique og lánsmaðurinn Cissokho eru allir líklegir eða mögulegir út um dyrnar í sumar og erfitt að giska á hvaða fjórir munu mynda varnarlínuna í byrjun næsta tímabils. Sá eini sem ég myndi hengja mig á að verði þar er Mamadou Sakho, ef hann verður loksins orðinn heill. Hver er þín skoðun á varnarlínu Liverpool sem utanaðkomandi aðila? Þetta er mikið tilfinningamál hjá Púllurum, sérstaklega með Skrtel og Agger sem eru vinsælir og/eða hataðir á víxl virðist vera. Hefurðu álit á þeim tveimur? Á Liverpool að halda öðrum eða báðum eða selja þá og finna nýjan félaga með Sakho? Hvað finnst þér um Sakho?

TRYGGVI PÁLL: Þetta er ekki svo galið hjá þér. En það vill reyndar svo til að í dag á Manchester United svo svívirðilega mikinn pening þökk sé ofvirkrar auglýsingadeildar að ég held að þetta tímabil utan Meistaradeildar verði ekki vandamál í að laða leikmenn til liðsins. Leikmenn og umboðsmenn vita alveg að Manchester United getur hæglega þrefaldað launin þeirra.

Hvar endaði Liverpool svo í deildinni síðast þegar liðið vann Meistaradeildina? Í 5. sæti tæplega 40 stigum á eftir sigurliðinu?

Varnarlína Liverpool á stóran þátt í velgengi Liverpool á tímabilinu. Sóknarmenn Liverpool vita að þeir verða að skora 2-3+ mörk í leik ef liðið á eiga séns í að vinna leik þar sem vörnin getur ekkert. Agger og SKRTL eru svona eins og Rio og Vidic fátæka mannsins (Þegar þeir tveir gátu eitthvað). Annar spilandi og hinn grjótharður. Þeir eru fínir varnarmenn en samt of mistækir til þess að geta myndað miðvarðarpar hjá toppliði, tala nú ekki um þegar Kolo Toure er að flækjast eitthvað með þeim. Lykilatriði er að finna miðvarðapar sem hentar leikstíl Rodgers. Þeir mega ekki vera of hægir og gamlir enda höfum við t.d. sé þá Rio og Vidic toga United-liðið neðar á völlinn undanfarin ár vegna þess að þeir hafa misst allan hraða. Það hefur áhrif á allan leik liðsins. Rodgers vill spila hápressu og þá verður hann að finna miðverði sem treysta sér í að skilja eftir mikið pláss fyrir aftan sig. Treysta Agger og SKRTL sér í það? Getur Sakho spilað þannig?

Ég veit ekki með Sakho enda séð takmarkað af honum en miðað við það sem maður hefur heyrt gæti þetta verið miðvörður ykkar nr.1 næstu árin. Lykilatriði er því að finna einhvern með honum sem treystir sér að spila hátt uppi á vellinum. Er næsti Carragher ekkert á leiðinni upp úr unglingastarfinu? Maður hefur mikið heyrt talað um þetta unglingastarf ykkar undanfarin ár, Benitez hafi nútímavædd starfið og fengið nýja þjálfara og nýjar áherslur á svæðið. Hvar eru allir þessir leikmenn? Afhverju eru Michael Owen, Steven Gerrard og Jamie Carragher einu nöfnin sem maður kannast við úr unglingastarfi Liverpool?

KRISTJÁN ATLI: Ég myndi í alvöru skrá það sem stærra afrek að hafa unnið Meistaradeildina með liði sem átti ekkert erindi í Meistaradeildina, heldur en að hafa verið með yfirburðalið Englands í 25 ár og aðeins unnið hana tvisvar. 🙂

Varðandi unglingastarfið þá er ekki nema von að þú spyrjir því það kom ekki rassgat upp úr þesu starfi í rúman áratug. Owen, Carragher og Gerrard skiluðu sér upp úr unglingastarfinu í kringum ’97-’98 og á sama tíma kom David Thompson upp. Síðan gerðist ekkert þar til svona 2003 þegar Stephen Warnock kom upp. Hann var hluti af Meistaradeildarliðinu 2005 og lék 1-2 landsleiki með Englandi þannig að hann telst með, þó hann hafi ekki verið lengi hjá Liverpool. Síðan þá … ekkert. Einn og einn strákur sem léku 2-3 leiki fyrir liðið og voru svo seldir í neðri deildir. Þar til FSG keyptu félagið og gerðu fljótlega stórar breytingar á uppsetningu unglingastarfsins, auk þess sem Rafa hafði verið að vinna markvisst unglingastarf bak við tjöldin síðustu tvö árin sín hjá Liverpool.

Sú breyting hefur skilað því að Rodgers hefur getað gefið hátt í 30 uppöldum tækifæri með aðalliðinu á aðeins tveimur árum. Auðvitað spjara sig ekki allir af þeim en það er að detta inn ný kynslóð. Sterling, Flanagan og Kelly eru stór hluti af leikmannahópi í dag á meðan Andre Wisdom, Suso, Jack Robinson, Ryan McLaughlin, Conor Coady og mitt uppáhald, Jordon Ibe, eru allir á láni í ár og megnið af þeim ætti að skila sér til baka í leikmannahópinn í sumar eða eftir ár. Þá eru leikmenn eins og Brad Smith, Jerome Sinclair og Jordon Lussey allir búnir að vera í leikmannahópi í vetur þrátt fyrir að vera bara 16-17 ára og þeir fara væntanlega á lán á næsta tímabili til að sækja reynslu.

Ef ekki nema 2-3 af þessum strákum komast alla leið eins og Raheem Sterling og Jon Flanagan eru að gera núna er það rosalega dýrmætt fyrir liðið, eins og öll lið. Og algjör viðsnúningur frá 15 ára eyðimerkurgöngu í þessum efnum. Ég veit ekki hvað gekk á á þeim tíma en það virðist ekki hafa verið mikið af viti.

Hitt er svo annað mál að enginn af þeim sem ég taldi upp hér að ofan er miðvörður. Þess vegna er Liverpool að fara að versla a.m.k. einn slíkan í sumar.

Hvað með ykkur? Er Januzaj það eina á sjóndeildarhringnum eða eru einhverjir fleiri ungar nálægt því að detta í séns hjá Moyes? Var ekki Nick Powell í láni? Hann á að vera talsvert efni, ekki satt? Eða teljast Rafael, Anderson, Welbeck og Cleverley ennþá vera efnilegir?

TRYGGVI PÁLL: Ef við ætlum eitthvað að fara að ræða stærð afreka þá er ekkert sem toppar þrennuna góðu árið 1999. Ekkert. Það þarf ekkert að ræða þetta meira.

Rafael er löngu orðinn góður leikmaður og verður hægri bakvörður Manchester United næstu 10 árin, Cleverley er alveg ágætur, klárlega ekki jafn hörmulegur og menn vilja meina en þó ekki mikið meira en miðlungsleikmaður sem er allt í lagi að hafa í hópnum. Anderson-skipið er því miður siglt til Ítalíu og mun líklega stranda þar. Ég gleymi því aldrei fyrsta tímabilinu hans þegar hann mætti sem einhver silky-smooth framliggjandi miðjumaður. Ferguson hélt nú ekki og lét hann spila sem afturliggjandi miðjumaður og hann gjörsamlega át menn eins og Fabregas, Mascherano og Gerrard eins og skyndibita. Því miður var það ekki það eini skyndibitinn sem hann hafði list á.

Ég bind miklar vonir við Danny Welbeck enda búinn að vera hjá félaginu frá því að hann var ungabarn, fæddur steinsnar frá Old Trafford. Held að hann eigi góðan séns á því að meika það hjá United og er hann einn af fáum í liðinu sem er búinn að eiga gott tímabil.

Hvað varðar nánustu framtíð koma tvö nöfn strax upp og það eru miðjumennirnir Nick Powell og Jesse Lingard. Þeir hafa báðir verið að tæta upp Championship-deildina, Powell með Wigan og Lingard með Birmingham og Brighton. Powell er markahæsti leikmaður Wigan á tímabilinu með 12 mörk og Lingard skoraði fernu í sínum fyrsta leik með Birmingham. Þeir munu báðir klárlega vera viðloðandi hópinn á næsta tímabili eða jafnvel fara á láni til annars úrvalsdeildarliðs. Powell býr yfir dýrmætri reynslu úr Evrópudeildinni eftir að hafa spilað í henni með Wigan á tímabilinu, það mun koma sér vel á næsta tímabili. Þetta eru allavega þau tvo nöfn sem menn ættu að leggja á minnið.

Svo er ein gersemi í unglingaliði Manchester að nafni James Wilson,19 ára framherji sem fróðir menn segja að sé á svipuðum stað og Januzaj var á í fyrra sem er að vera algjör yfirburðaleikmaður í öllum þeim leikjum sem hann spilar í á unglingastiginu. Kannski fáum við að sjá eitthvað af honum á næsta tímabili. Svo má nefna fleiri leikmenn eins og Andreas Pereira og Ben Pearson en þessir þrír ofantöldu, Wilson, Powell og Lingard eru þeir leikmenn sem eru líklegastir til þess að geta spilað stórt hlutverk hjá United í framtíðinni.

Hvernig sérðu þróun deildarinnar fyrir þér næstu árin? Eru Chelsea og Mourinho að fara að einoka þennan titil eins og síðast þegar hann kom í deildina eða erum við að fara að detta inn í tímabil þar sem titilinn mun fara á marga mismunandi staði næstu árin?

KRISTJÁN ATLI: Þessi mynd af Welbeck er frábær. Það ætti að sýna öllum leikmönnum félaganna svona myndir svo þeir hafi í huga að ungu strákarnir sem þeir gefa smá tíma af og til gætu orðið liðsfélagar þeirra seinna meir. Hvað ætli Giggs hafi lagt upp mörg færi fyrir Welbeck? Grunaði það örugglega ekki þarna.

Þetta er svipað og með Jon Flanagan. Það er eðlilegt að stuðningsmönnum þyki sérstaklega vænt um leikmenn sem alast bókstaflega upp í grennd við völlinn. Jafnvel þótt það sé engin leið að sjá að Welbeck verði næsti Rooney eða að Flanagan verði næsti Carragher þá heldur maður eðlilega meira með slíkum leikmönnum.

Hvað deildina varðar loka ég aftur augunum, læt hugann reika og sé Liverpool fyrir mér vinna þrennuna fimm ár í röð. Svo slæ ég mig fast utan undir, vakna aðeins aftur og man hver staðan er í raun og veru. Ég held að fyrst og fremst getum við slegið því á föstu að það verður ekkert lið jafn dóminerandi næstu 10-20 árin og United hefur verið síðustu 20, ekki einu sinni United sjálfir. Ef United-menn eru að vonast eftir öðru slíku tímabili án Ferguson sé það borin von.

Líklegra er að United eigi feril í líkingu við Real eða Bayern, Juve eða Ajax. Risar sinna landa vinna kannski 2-3 titla á hverjum áratug og af og til (eins og t.d. Bayern núna eða Barca síðasta áratug) koma gullkynslóðir sem skila óvenju mörgum titlum á fáum árum og jafnvel Evrópusigrum núna. En þar sem þið eruð að klára eitt slíkt (óvenju langlíft) tímabil sem innihélt eins og 2-3 gullkynslóðir í röð myndi ég búa mig undir að það gerist ekki aftur á næstunni.

Ég held að þessi deild muni spilast þannig að fjársterkir United, vel fjármagnaðir City og Chelsea og svo mögulega líka vel reknir Arsenal og Liverpool-klúbbar gætu jafnvel allir unnið deildina á næstu tíu árum. Hverjir vinna oftast og svo framvegis kemur í ljós en ég yrði eiginlega hissa ef allavega 4 af þessum 5 klúbbum skila ekki deildarsigri á næstu 10 árum.

Chelsea eru líklegastir með Mourinho við stjórnvölinn, svona um fyrirsjáanlega framtíð, en sjáum hvað hann endist lengi í þessu starfi. Mér líst samt vel á stöðu Liverpool til næstu ára og fagna því aðallega að þeir dagar að United hirði 7 af hverjum 10 titlum per áratug séu (vonandi)(örugglega)(er það ekki annars?) taldir.

Snúum okkur þá að sunnudeginum. Þitt verkefni er einfalt: sannfærðu mig um að United sé að fara að vinna þennan leik. Gerðu mig skíthræddan. Lof mér að heyra smá gorgeir.

TRYGGVI PÁLL: Ég skal sko segja þér afhverju við erum að fara að rústa þessum leik á sunnudaginn. Þetta byrjar allt með því að Carrick, Cleverley, Smalling og Jones munu sparka boltanum á milli sín í 20 mínútur, þaðan berst boltinn á Evra sem kemur honum strax á Ashley Young sem mun dúndra boltanum strax inn í teiginn. Fyrsta fyrirgjöfin mun líklega lenda á Anfield en næsta fyrirgjöf, hún á sko talsverðar líkur á því að lenda á hægri kantinum hjá Antonio Valencia, hann mun taka á móti boltanum, hætta við að taka vinstri bakvörðinn ykkar á, gefa hann aftur til baka á Rafael, sem kemur honum á Cleverley sem kemur honum á Carrick sem kemur honum á Smalling sem kemur honum á Jones sem kemur honum á Cleverley sem kemur honum á Carrick og þaðan berst boltinn aftur til Young og nákvæmlega sama ferli hefst aftur nema í eitt skipti á þessm 90 mínútum mun Young slysast til þess að gefa skítsæmilegan bolta fyrir og þaðan mun Robin van Persie koma aðvífandi og skalla boltann af gríðarlegu afli, beint í slánna. Rooney fylgir svo á eftir og skorar. Lokatölur algert fokking 1-0 rúst.

Hvernig ætlið þið að eiga séns í þetta taktíska masterplan?

KRISTJÁN ATLI: Uss, maður svitnar bara við að lesa um allar þessar fyrirgjafir. Sem betur fer fyrir ykkur þá er Liverpool-vörnin vonlaus í að verjast fyrirgjöfum og stórkarlabolta í vetur þannig að það er kannski komið að því að Moyes vinni stórleik á Old Trafford (teljum Arsenal ekki með, þú þarft að hafa unnið dollu sl. áratug til að teljast stórleikur).

Okkar taktíska meistaraplan er ofureinfalt. United stilltu upp sókndjörfu og ungu liði gegn West Brom um síðustu helgi, sóttu framarlega og unnu 3-0 sigur. Sannfærandi, og í kjölfarið kom krafa frá stuðningsmönnum um að svona skyldi Moyes stilla upp gegn Liverpool á Old Trafford líka. Engan varnarbolta, engan stórkarlabolta, bara sókn, sókn, sókn! Vandinn fyrir United er sá að Liverpool hefur verið að taka þessi stórlið sem sækja framarlega á þá og slátra þeim í vetur. Spurs reyndu þetta á White Hart Lane; Liverpool stóðu af sér fyrstu tíu mínúturnar og átu þá svo, 0-5. Everton og Arsenal reyndu þetta á Anfield, þeir leikir enduðu samanlagt 9-1 fyrir Liverpool. City reyndu þetta á Etihad í desember, unnu við vafasamar kringumstæður (deyðu, Lee Mason, deyðu) og Liverpool voru betri aðilinn nær allan leikinn.

Veistu hvaða stórliði hefur gengið best gegn Liverpool í vetur? Chelsea á Stamford Bridge … og United á Anfield í september. Bæði liðin voru varnarsinnuð með fimm manna miðju og þrengdu að Liverpool á eigin vallarhelmingi. Í báðum tilfellum átti Liverpool erfitt með að finna pláss fyrir sóknarmennina sína.

Niðurstaðan er þessi: ef United blæs til sóknar er það algjört sjálfsmark. Gerrard og Henderson sitja þá bara fyrir framan vörnina og mata svo Suarez og Coutinho á boltum út úr vörninni þegar United tapar boltanum. Þeir eru svo snillingar í að finna raketturnar okkar, Sturridge og Sterling, í stunguboltum eða maður-á-mann stöðu og þar eru United í stórkostlegum vandræðum. Ekki halda að þið hafið varnarmenn sem ráða við Suarez, Sturridge og Sterling maður-á-mann. Það hefur enginn ráðið við það í vetur. Chelsea vissu betur og fjölmenntu fyrir aftan boltann og létu vörn Liverpool um að “self destruct” og gefa þeim leikinn.

Það ætti United að gera. En það má Moyes ekki gera því hann á að vera sókndjarfur á Old Trafford. Og þess vegna munið þið tapa.

Annars förum við að segja þetta gott í bili, Tryggvi. Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri að lokum?

TRYGGVI PÁLL: Ekki mikið annað en mitt uppáhaldsmark frá mínum uppáhaldsleikmanni:

KRISTJÁN ATLI: Andskotinn. Ég var á vellinum þegar O’Shit skoraði þetta mark. Þetta var fyrir neðan beltisstað hjá þér.

Ég get ekki annað en svarað þessu.

Djöfull vona ég að Vidic spili á sunnudag.

Tryggvi, takk fyrir spjallið. Megi mun betra liðið (Liverpool) vinna og megi Manchester United verða næsta Nottingham Forest.

TRYGGVI PÁLL: Það talar enginn illa um O’Shea í minni návist. Þessu samtali er slitið!

30 Comments

  1. fróðlegt og skemmtilegt spjall hjá ykkur drengir, vona svo innilega að Liverpool vinni en get ekki sagt að ég sé mjög bjartsínn, svo eru svona 95 % líkur á að Suarez á eftir að meiðast í þessum prjónuðu fótboltaskóm sem hann ætlar víst að spila leikinn í, hvað er það?

  2. djofull hafði eg gaman að þessu spjalli ykkar og þetta var klarlega að hita mig vel upp…

    eg var einmitt buin að hugsa þetta eins og Kristján atli og það er óskandi að united reyni að sækja þvi þa skjota þeir sig allrosalega i baða fótleggina.. eg held samt þótt að Moyes se nautheimskur þa verði hann valla svo vitlaus að reyna sækja i þessum leik. man utd munu verjast i leiknum með 10-11 menn fyrir aftan boltann og reyna svo að sækja hratt a okkur, það mun samt ekki skipta máli þvi suarez, sturridge , sterling og coutinho ef þeir byrja leikinn allir munu opna þessa handónytu vörn united uppa gátt þo þeir liggi allir til baka..

    Maður er allavega vel spenntur fyrir þessum leik, bæði skíthræddur en samt bjartsynn i bland.. vinni okkar menn leikinn þa verður setfnan sett a að vinna þessa dollu bara en tapi okkar menn leiknum þa gætum við alveg ovart hleypt sma spennu um þetta meistaradeildarsæti…

  3. Bolludagurinn, aðfangadagurinn, lokadegir glugganna og svo þeir dagar sem þessi lið mætast í deildinni. Þetta er rjóminn af árinu !

  4. Björn nr 4 …

    13.03.2014 at 21:08

    Bolludagurinn, aðfangadagurinn, lokadegir glugganna og svo þeir dagar sem þessi lið mætast í deildinni. Þetta er rjóminn af árinu 

    BOLLUDAGURINN ?

    eg er sammála þessu öllu hja þer nema hja mer set eg uppstigningardag i stað bolludags ..

  5. Flott spjall. Ég hjó sérstaklega eftir þessu hér að neðan hjá Tryggva í ljósi þeirra sem drógu vagninn hjá þeim á gullöldinni… hvar eru þeir og hverjir hafa komið síðan?: “Afhverju eru Michael Owen, Steven Gerrard og Jamie Carragher einu nöfnin sem maður kannast við úr unglingastarfi Liverpool?”

    Annars yljaði þetta video frá KAR í restina mest, dásemdin ein og þetta verður bara að vera á svipuðum nótum á sunnudaginn. Geri orð Kristjáns að mínum í lokin: „Vinnum á Old Trafford því ég nenni ekki öðru.“

  6. Tryggvi Páll skoraði 1 – 0 með uppskrift af sigri MU, góður. En okkar maður, Kristján Atli, var þéttari á miðjunni og sókndjarfari. Lokatölur 1 – 3.

  7. YNDISLEGT!

    Takk fyrir þessa upphitun, ég þekki aðeins sögurnar á bakvið þessi tvö lið og ég hef gert mitt besta til þess að fræða bæði LFC og MU stuðningmenn og þá til þess að fá menn og konur til að kíta heldur en að hreita í hvorn annan… þannig á það að vera og þannig veður það ALLTAF af minni hálfu 😉

    Hef verið stuðingsmaður frá 1975 og því er bara ekkert að ljúka, var á LFC V Fullham síðasta “haust” sem var jafnframt mín fyrsta heimsókn til LIVERPOOL og þvílíkur leikur að maður bara mamamamammaammmmmm…. fjégur kvekendi lágu í netinu!

    Vonandi einn daginn næ ég að slást í með í hóp ykkar KOPMEISTARA og taka með ykkur einn, tvo, þrjá… kalda beint af krana í hinni mikklu MEKKA – LIVERPOOL BORG.

    Vil að lokum vitna í einn góðann vin minn á klakanum góða (ég bý í Noregi bæ ðe vei) hann Sverrir Jón Gylfason, sem hefur haldið í allt það sem ég kalla að vera alvöru LIVERPOOLSTUÐNINGSMAÐUR (MÍN SKOÐUN)

    „ Varstu í Istanbul?“ / „Ertu fáviti?“

    Þakka enn og aftur fyrir öll skrifin YKKAR hér á http://www.kop.is

    – ÁFRAM LIVERPOOL – LFC4LIFE – IN – BRENDAN – WE – TRUST – JUSTICE4THE96 –
    [img]/Users/ellenogrobert/Desktop/1385188_10201301195505307_2084067248_n.jpg[/img]

  8. Flott, ein viðbót í spjallið ykkar. Ef LFC hefði verið í meistaradeild þá væri meiri peningur til í að styrkja hópinn sem hefði líklega verið gert. Það er því fulllangt gengið að ætla að LFC hefði verið með sama hóp í evrópukeppni og ekki. Mögulega tóku FSG sénsinn á hópnum miðað við fjölda leikja og því er staðan eins og hún er.

  9. Mjög skemmtileg lesing og format á þessu. Ætla að taka nokkra punkta á lofti.

    David Moyes.
    Mjög margt til í þessu hjá Tryggva Pál með að hann var ekki settur í góða stöðu, sambærilegt að mörgu leiti því sem Benitez gekk í hjá Inter fyrir utan að United liðið getur ekki falið sig bak við það að allir hafi verið meiddir og Moyes hefur svo sannarlega fengið pening til að styrkja liðið og hjá flestum væru Fellaini og Mata (eða menn á þessu verði) það sem sker á milli. Hvað þá ef við bætum við efni eins og Januzaj.

    Moyes er mjög fær stjóri og hefur alveg sannað það en líkt og Hodgson var hjá okkur (og Inter) þá er hann fullkomlega out of his league hjá United og hugmyndafræði hans í fótboltanum virkar eins og hún sé meira frá síðasta áratug heldur en þessum (og þá er ég að miða við að núna er árið 2004).

    Moyes er ákaflega stór partur af vandamálinu hjá United og leikmenn liðsins virðast ekki hlusta á hann og sumir virðast ekki hafa virt hann frá upphafi. Menn eins og Ferdinand og RVP hafa ekki einu sinni farið leynt með það.

    Ég er alveg handviss og hef verið það í dágóðan tíma að Moyes verður farinn áður en einn leikmaður verður keyptur fyrir næsta tímabil rétt eins og ég er öruggur á því að Tim Shearwood verður ekki lengur stjóri Tottenham en út þetta tímabil, ef það.

    United er með mannskap til að spila fótbolta sem er mun nær nútaímanum en þann sem Moyes er að reyna innleiða og í sumar fá þeir inn alvöru nafn til að gera það, einhvern sem megnið af þessum mannskap virðir. (Óttast að sá maður verði Klopp eða De Boer)

    Vörnin er orðin gömul og lúin þó þeir reyndar eigi næstu kynslóð að mestu klára á bekknum. Miðjan er allt of veik og Fellaini hefur ekkert fengið að spila þá stöðu sem gerði hann að þessu skrímsli sem hann var hjá Everton.

    Rooney og RVP passa svo afar illa saman frammi í liði sem spilar svona kristilegan sóknarleik. Þessi notkun á krossum toppar flesta öfgatrúarhópa. Með Rooney frammi með RVP eða fyrir afan er hann að spila í því hlutverki sem Fellaini var að spila sem mest hjá Everton og eins í því hlutverki sem bæði Mata og Kagawa sköpuðu sér nafn í boltanum.

    Vonandi verður það ofan á að spila Fellaini framar og bæta fleiri tröllköllum á við hann í lið United. Óttast mjög að þeir fái inn stjóra sem nýtir hæfileika Mata (og Kagawa) töluvert betur en nú er gert. Fyrir leikinn um helgina óttast ég þó Fellaini töluvert enda hann okkur jafnan mjög erfiður, en yfir heilt tímabil óttast ég menn eins og Mata/Kagawa meira séu þeir notaðir rétt.

    Vinni Moyes um helgina, taki svo Olymiakos (sem ég býst við) og nái svo í úrslit gegn City gæti hann tryggt stöðu sína eitthvað en ég efast um að það dugi til, hann verður farinn í sumar.

    Sigurstranglegri aðilinn
    Óttast það töluvert að fara á OT með meiri væntingar á bakinu en oft áður. Á móti er Liverpool með lið sem ég hef meiri trú á þarna en maður hefur jafnan haft. Liverpool liðið er miklu öflugra núna en það lið sem vann á Anfield í byrjun tímabilsins og eins það lið sem tapaði á Old Trafford í deildarbikarnum. Óttast samt að þessi leikur verði líkur þeim leik.

    Liverpool náði oft í úrslit þegar liðið var í svipaðri stöðu og United er núna. Það er samt kominn tími á sigur á OT, allt of langt síðan síðast og sénsinn hefur sjaldan verið betri.

    Leiktíminn
    Leiktíminn er síðan eins og KAR kemur inná alveg galin frá sjónarhóli United og með ólíkindum að ekki hafi verið hægt að færa hann. Hef oft pirrað mig á svonalöguðu áður. FA gerir bara eins og sjónvarpsstöðvarnar segja. Flestar aðrar deildir taka vetrarfrí og raða einnig leikjum betur niður þegar það er hægt. Moyes ætti auðvitað að vera með annað augað á Olympiakos leiknum og passa að hafa sína bestu menn 100% klára fyrir þann leik. Sá leikur er miklu mikilvægari fyrir United heldur en þessi leikur gegn Liverpool.

    ATH: Ég er samt alls ekki að leggja til að EPL taki upp vetrarfrí, hvað í andskotanum ætti maður þá að gera um og eftir jól?

    Aukið álag
    Liverpool hefur alveg tekið þátt í evrópukeppnum áður, meira að segja undanfarin 5 ár. Þetta hefur auðvitað áhrif og getur haft mjög slæm áhrif en lið sem eru í Meistaradeildinni hafa jafnan meistaradeildarhópa, ekki Europa League hópa sem eru ansi mikið veikari alla jafna og erfiðara að smíða þannig hóp með gæðamönnum sem sætta sig við takmarkaðan spilatíma, eitthvað sem er auðveldara þegar lið eru í meistaradeildinni.

    Bæði stjóri Liverpool og eigendur gera sér grein fyrir að ekki er hægt að fara aftur inn í tímabil með svona þunnan hóp eins og fyrir þetta mót. Liverpool er með mjög þunnan hóp og hefur á einhverju stigi missti alla leikmenn liðsins í bann eða meiðsli.

    Ég fagnaði því mjög mikið að vera ekki í Europa League, sú deild er ekkert nema tímasóun fyrir lið sem eiga að vera í CL og hindrun frekar en annað. Krefst þess að lið eru með stóran hóp en ágóðinn af því að taka þátt borgar enganvegin laun bestu leikmannanna í boltanum. Myndi alltaf setja nánast bara varaliðið í Europa League leiki.

    Liverpool er því vonandi að taka öflugt gap year frá Evrópu sem skilar sér vonandi í meistaradeildarbolta frekar en Europa League. Hárrétt hjá Tryggva að Liverpool væri líklega ekki í sömu stöðu og liðið er núna með jafnmörgum aukaleikjum og Tottenham er að taka á þessu tímabili en í mun betri stöðu til að styrkja sig nægjanlega vel fyrir næsta tímabil til að geta keppt á öllum vígstöðum. Menn eins og Borini, Kelly, Wisdom og Suso gætu allir komið inn í hópinn á næsta ári og sparað kaup á öðrum leikmönnum. Sama á við að hluta um Ilori, Coates, Reina og Assaidi sem annað hvort koma aftur inn í hópinn eða fara fyrir pening sem hægt er að nota í kaup á mönnum í staðin fyrir þá.

    Ef 3-4 af þeim sem við eigum fyrir og erum ekki að nota núna koma inn plús 3-4 sumarkaup í meistaradeildarklassa og við erum að tala um nokkuð keppnis hóp. Það sem við eigum fyrir er að mestu ungt lið sem fer að nálgast hátind í fótboltaaldri.

    Af þeim sem fara sjáum við vonandi næsta klassa fyrir ofan koma í staðin. Fyrir Cissokho og Moses koma t.d. menn í meistaradeildarklassa.

    Sorry Cissokho, ég meinti þetta ekki.

    Rodgers var óskrifað blað þegar kom að Úrvalsdeildinni og virðist kunna að synda. Við höfum ekki séð hann stjórna liði í Meistaradeildinni og bara ein leið til að breyta því. Vonandi heldur hann áfram að líkjast t.d. Jurgen Klopp.

    Breytingar hjá United
    Ferdinand, Vidic og Evra eru alls ekki að finna sig hjá Moyes og eru allir komnir vel yfir síðasta söludag og líklega á allt of háum launum. Verð hissa ef þeir fara ekki allir. Giggs er furðu góður ennþá blessaður en hann er búinn á þessu leveli. Mistök hjá honum held ég að hætta ekki með Ferguson (og á titli). Það er meira en að segja það að skipta þessum mönnum út enda allir með mjög glæstan feril hjá United og smita frá sér sigurhefð sem erfitt gæti orðið að fá í staðin. Nauðsynlegar breytingar engu að síður og þó fyrr hefði verið.

    Nani og Young fara líklega ef boð kemur í þá, ekki nema nýr stjóri komi inn og geti nýtt þeirra hæfileika betur.

    RVP hlýtur svo bara að fara, hann er kominn á aldur en gæti átt einn góðan samning eftir á meginlandi Evrópu. Hann hefur alls ekki fundið sig í vetur og gagnrýnt stjórann og félagana. Líklega er hann ennþá með WAZZZZZZZZZZZZZZZZ UP grínið sitt sem sló í gegn hjá Arsenal.

    Eins held ég að Hernandez hljóti að fara. Sérstaklega ef Moyes verður áfram. Moyes er ekki nógu powerful nafn til að halda góðum leikmönnum eins og Hernandez (o.fl.) í aukahlutverki hjá United, hvað þá ef liðið er ekki í meistaradeild og titilbaráttu. Ekki eins og Ferguson gat.

    Markmaður United er mjög efnilegur og þeir eiga varnarmenn sem gætu myndað góðan kjarna í mörg ár (Rafael, Jones og Evans/Smalling). Á miðjunni eru að koma upp gríðarlega efnilegir leikmenn ofan á Mata, Fellaini, Carrick og hinn vinsæla Cleverley.

    Rooney er svo klárlega að fara verða leiðtogi liðsins (með Jones tippa ég á) og virkar nú þegar stærri en United m.v. launaseðilinn, hann er engu að síður þeirra besti leikmaður og stærsta nafn. Welbeck er síðan gríðarlega efnilegur sóknarmaður sem gæti alveg spurngið betur út.

    Það er allt og snemmt að tala um dánarfregnir af United en þeir eru klárlega á tímamótum núna og þurfa að endurnýja hópinn sinn verulega. Þeir losna við menn á góðum launum og eiga sand af seðlum til að fara í þessar aðgerðir og það hjálpar verulega.

    Samkeppnin verður samt engu minni á næsta tímabili og það má lítið klikka hjá þeim, könnumst við það að hellast aðeins úr lestinni.

    Vörn Liverpool
    Þetta var síðan það sem ég kinkaði mest kolli yfir (frá Tryggva)

    Lykilatriði er að finna miðvarðapar sem hentar leikstíl Rodgers. Þeir mega ekki vera of hægir og gamlir enda höfum við t.d. sé þá Rio og Vidic toga United-liðið neðar á völlinn undanfarin ár vegna þess að þeir hafa misst allan hraða. Það hefur áhrif á allan leik liðsins. Rodgers vill spila hápressu og þá verður hann að finna miðverði sem treysta sér í að skilja eftir mikið pláss fyrir aftan sig. Treysta Agger og SKRTL sér í það?

    Þetta er sama vesen og í fyrra og þar sem Agger er ekki að ná að sannfæra mann í þessu hlutverki og Skrtel er ekki þannig leikmaður held ég að miðvörður með Sakho sé ofarlega á lista hjá Rodgers. Persónulega held ég að Caulkner hjá Cardiff verði mjög ofarlega á þeim lista. Carragher var ágætur í fyrra og skilaði sínu en liðið var líka að spila mjög aftarlega fyrir vikið. Kolo Toure er svo tíu árum of seinn til að koma til greina. Kelly er ekki að þróast í þetta heldur og Wisdom er of ungur ennþá.

    Annað hvort Skrtel eða Agger fer í sumar tippa ég á (ekki öruggt) ásamt Toure og Coates. Vonandi kemur inn betri leikmaður í staðin og úr verður hópur fjögurra mjög góðra miðvarða. Set þetta svona upp:
    1. Sakho
    2. Nýr leikmaður
    3. Agger eða Skrtel (mögulega báðir)
    4. Veit ekki. Kelly/Ilori/Wisdom/Tore/Coates – eða nýr leikmaður

    Efnilegir hjá Liverpool.
    Líklega hefur Liverpool bara aldrei í sögunni átt eins marga mjög efnilega á sama tíma. Þeir eru nú þegar farnir að skapa sér nafn í aðalliðinu og maður vonar innilega (og trúir) að við erum að fara sjá 1-2 koma upp núna á hverju ári næstu tímabil. Slíkt gæti skapað gríðarlegan pening. Auðvitað komast ekki allir upp úr akademíunni en margir þeirra ætti að geta farið á láni í góð lið og farið á góðan pening. Mun meiri en við höfum verið að selja okkar efnilegu menn á áður.

    Sterling er búinn að spila sig inn í liðið og Suso var ansi nálægt því í fyrra og er alls ekkert gleymdur. Kelly er einhver sem maður gerir sér ennþá smá vonir með en þær fara dvínandi. Flanagan hefur tekið ótrúlegt tímabil m.v. hvar hann var þegar það byrjaði.

    Það búast allir við því að Wisdom verði framtíðar leikmaður hjá okkur. Hann hefur aldrei orðið sér til skammar í liði Liverpool og er mjög öflugur í Championship deildinni núna.
    Jack Robinson var á tíma yngsti leikmaður til að spila fyrir Liverpool og er núna á lánssamningum sem segja okkur vonandi eitthvað um það hvort hann sé framtíðarleikmaður Liverpool eða ekki. Hann spilar þá stöðu sem ætti að vera hvað auðveldast að brjótast inn í aðalliðið en ég efa að hann hafi það sem þarf.
    Það hefur mikið verið látið með McLaughlin sem er reyndar alltaf meiddur, margir segja hann mesta efnið hjá klúbbnum í hægri bakverði.
    Conor Coady hefur verið undir smásjánni í mörg ár og virtist hafa staðnað mikið. Hann er að spila mjög vel núna hjá Sheff United og að spila hlutverk þar sem menn blómstra ekki alltaf 20 ára gamlir. Hann hefur verið fyrirliði í yngri landsliðum Englands og kæmi ekki á óvart ef hann fær svipaðan séns og Flanagan til að sýna hvort hann geti synt á meðal þeirra bestu. Vona ennþá að hann komist í gegn og verði mun betri en sá sem var á undan honum, Jay Spearing.
    Jordon Ibe er litlu minna efni en Sterling og nú þegar kominn í hóp (áður en hann var lánaður).
    Veit ekki mikið um Brad Smith og Lussey en Sinclair, Harry Wilson og Rossiter eru síðan nöfn sem flestir eru nokkuð vissir um að brjóti sér lið í liðið í framtíðinni, einhver mestu efni sem Liverpool hefur haft lengi.
    Þá erum við ekki einu sinni byrjuð að ræða Canos, Texeira og Chiravilla sem komu frá Spáni og Portúgal með töluvert orðspor.
    Svona spennandi hefur þetta aldrei verið hjá okkur áður held ég. Oft 1-2 svona góðir en ekki svona margir í einu.

    Ef FSG heldur áfram á sömu línu bætist líklega töluvert við þennan hóp á næstu árum. Hvað þá þegar liðið er að gefa þessum strákum séns.

  10. Kemur þessi upphitun einhverntíman út á hljóðbók? 🙂
    En öllu gríni sleppt hefði ekki verið gráupplagt að búa til nýjan dagskrálið á kop.is? þ.e.a.s. taka upp viðtal við stuðningsmann andstæðingana og setja það hér á síðuna. Ég held að það yrði frábær viðbót við annars frábæra síðu hjá ykkur félögunum.

  11. Þetta fer 0-7. Ekkert minna er ásættanlegt lol… Án gríns þá held ég að annaðhvort rústum við þessu eða bíðum algjört afhroð.. Þetta tímabil hjá okkur hefur verið svo mikil geggjun að mín spá gæti alveg gengið eftir 🙂

  12. Þessi leikur skiptir öllu máli fyrir þetta tímabil, ég held ef við töpum verði strögl að halda meistaradeildarsæti, ef við vinnum verðum við í bullandi samkeppni við City um annað sætið.

  13. HaukurJ (#7) segir:

    „En okkar maður, Kristján Atli, var þéttari á miðjunni og sókndjarfari.“

    Þetta er besta leið sem ég hef séð til að segja að ég sé feitari en Tryggvi. Vel gert. 🙂

  14. Gary Neville ógeðslegur þarna að fagna marki O´shea.. sem og rauðnefur á hliðarlínunni ( eins og retharður )

  15. Sorry, Babú en ég næstum hætti að lesa þegar þú fórst, upp á þitt einsdæmi, að tala niður Cissokho og hans tilverurétt hjá liðinu. Þetta verður ekki liðið og verður tekið fyrir á næsta agafundi hjá stjórninni! #TeamCissokho

  16. Snilldar spjall, virkilega gaman að lesa svona kryddað með smá ögrunum og meting en samt málefnalegt með 🙂
    Og frábær pistillinn um united, fyrsta skipti sem ég les pistil um Rauðu djöflana og það var bara heljarinnar lesning 🙂

  17. Nr. 17

    Þarf aðeins að reyna klóra í bakkann með þetta og ítreka að ég meinti þetta ekki. Sögusagnir sem ennþá eru óstaðfestar herma að Cissokho verði ekki hjá okkur á næsta tímabili. Ég er að miða við það og ef hann fer kemur vonandi inn maður í meistaradeildarklassa. Fyrir mér er Cissokho auðvitað sá maður og rétt rúmlega sá karakter.

  18. Erum hrikalega heitir þessa dagana, vikurnar og mánuði. Sé enga ástæðu til að finna fyrir minnimáttarkennd gagnvart þessu hundleiðinlega liði manjú. Þeir eru í tilvistarkreppu og það er nánast öruggt í mínum huga að moyes verður látinn fara í sumar, því miður. Gjörsamlega elska að hafa hann þarna! 🙂

    Vinnum þetta 1-3 og besti leikmaður febrúar mánaðarins verður stór partur af þeim sigri!
    http://www.bbc.com/sport/0/football/26574101

  19. Frábært spjall hjá ykkur félögunum.

    Mikið hrikalega er Riera annars með kynþokkafullan spænskan framburð!

  20. Eins og fleiri segja er maður hræddur við að fara inn á Old Trafford sigurstranglegri. Við höfum séð það í gegnum árin að það skiptir ekki máli hvar lið standa þegar að það er rival-slagur.
    Segjum bara að Liverpool fari með þá eins og Tottenham og málið er dautt!

    Ásgeir Trausti er með tónleika í Liverpool í apríl, það væri ekki leiðinlegt að gera sér ferð til Liverpool til þess að horfa á leik með Liverpool og horfa síðan á íslenskan tónlistarmann!

  21. Sælir, ég horfði á þetta myndband og ef ykkur langar að fá gæsahúð þá er þetta myndband alveg fulkomið fyrir það. ég meina ég fékk allavegana góða gæsahúð með að horfa á þetta og hlusta á tónlistina og lýsenduna. svaka gott fyrir svona leik vs Man Utd https://www.youtube.com/watch?v=rSr0TuyTAX0

  22. Jæja, það er bara eitt sem ég hef alltaf haft gríðarlegar áhyggjur af… og það er þegar Kristján Atli ætlar að fara spá fyrir um leiki Liverpool 🙂

    Það var nefnilega þannig að í upphafi þessa tímabils spáði ég Liverpool í 3. sætinu á eftir Man City og Chelsky og að Arsenal yrðu í 4. sæti. Þá ákvað Kristján að kalla mig ,,þennan ofurbjartsýna púllara” 🙂 enda Kristján einstaklega svartsýnn maður 🙂 þannig að það er alltaf eitthvað sem hræðir mig þegar Kristján fer að spá fyrir um leiki 😀

  23. 1-3 fyrir Liverpool. Suarez setur eitt og leggur upp eitt fyrir Sturridge svo held ég að M16 skori þriðja markið 🙂 Því miður þá verður markið hjá manu sjálfsmark hjá skrölta!

  24. Sælir félagar

    Takk fyrir skemmtilega tilbreytingu í upphitun og þó ég sé svo einhverfur að ég vil hafa allt í sömu kössunum alltaf þá hafði ég gaman af. Þó fór MU metingurinn í taugarnar á mér því ég þoli ekki MU-menn vera að monta sig, bara alls ekki.

    En hvað um það ég tel að ef við vinnum þennan leik á morgun og Arse sinn leik sé í raun búið að gera út um meistaradeildarsætin. Það verður bara spurning um hvernig fjögur efstu liðin raðast í þau sæti. Þar verðum við að berjast um hvern þumlung í töflunni og naga okkur eins hátt upp og mögulegt er.

    Eftir leik morgundagsins verður allt svo kýrskýrt og ljóst í þessum efnum og gaman gaman. Þar sem ég veit ekkert eins skemmtilegt í veröldinni eins og að vinna MU þá spái ég sigri. Þetta verður hefðbunndinn sigur hjá okkar mönnum 1 – 3 og koma svo.

    Það er nú þannig

    YNWA

  25. Gaman að þessu! Alltaf gaman að fá aðra sýn á hlutina, er sérstaklega sammála honum Tryggva með þá félaga, Skrtel og Agger.

    En að morgundeginum.

    Meistararnir, á útivelli, og mönnum finnst bara sjálfsagt að við vinnum 2-4 marka sigur. Einmitt. Menn eru að gleyma því að við höfum oft unnið þetta Manchester lið í gegnum tíðina, sérstaklega á Anfield, en samt verið ítrekað langt langt langt fyrir neðan þá í deildinni. Við Liverpool menn ættum því að vita að stigataflan er engin ávísun á sigra ein og sér.

    En verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum. Ég spái okkur tapi á morgun, og ekki bara tapi heldur skorum við ekki mark. 2-0 sigur Utd manna, því miður. Mér finnst bara skrítið að fara á OT og menn að tala um okkur sem favorites og er ekki bjartsýnn.

    Sigur væri bíjond frábært og myndi endanlega stimpla okkur allhressilega inn í titilbaráttunni. Tap væri enginn heimsendir, enda þegar maður horfir á leikjaprógramið í upphafi hverstímabils þá er stig, fyrirfram, ágætis úrslit á OT. Og plís, ekki koma með þessi rök að þeir séu búnir að vera slakir þetta tímabilið, það hefur bara haft nákvæmlega ekkert með þessa leiki að gera í gegnum tíðina. Það er ekki eins og Rooney og co velti sér bara á hliðina og láti okkur rúlla yfir sig á heimavelli, þetta verður bardagi, blóð, sviti og tár og ræðst vonandi af dagformi/spilamennsku, ekki dómara leiksins.

    Koma svo! Get. Ekki. Beðið.

  26. Vá hvað ég man eftir því þegar Albert Riera, sá mikli höfðingi, Gersamlega át Ronaldo í leikjunum sínum gegn United, en svo tókst honum að vera slakur í nánast öllum öðrum leikjum sínum fyrir Liverpool. En vonandi verður þetta smá repeat af 1-4 sigrinum, og ég er að reyna að horfa á þennan leik frá raunverulegu sjónarhorni og ég segji ekkert minna en 1-5 Liverpool í vil.

    In BRendan We Trust!

One Ping

  1. Pingback:

Kop.is Podcast #54

United á morgun!