Ég er nokkuð snjall maður, svona stundum. Ég hef vit á sumu, hellings vit á öðru og jafnvel ofurvit á einu eða tvennu. Þess utan veit ég ekkert um mýmörg málefni, en knattspyrna er ekki eitt þeirra. Ég hef jafnan litið svo á að ég hafi sennilega eins mikið vit á knattspyrnu og hægt er að hafa, utan þess að hafa þjálfað eða spilað íþróttina á hæsta stigi. Ef hægt er að tala um sófasérfræðinga hlýt ég að teljast í Meistaradeildarklassa þeirrar stéttar.
Eða svo hélt ég.
Þetta tímabil hefur verið með eindæmum skrýtið. Og þá meina ég ekki bara hikstið á okkar mönnum, heldur almennt. Átti einhver von á því að Dortmund yrðu í fallsæti í Þýskalandi um miðjan nóvember? Hélt einhver að Manchester City yrðu neðstir í sínum riðli í Meistaradeildinni? Grunaði einhvern að Southampton gætu svarað því að missa stjórann sinn og fjórar stjörnur úr liðinu með því að breytast í Atletico Madrid Englands? Hver spáði því að Newcastle og West Ham, undir stjórn Alan Pardew og Big Sam Allardyce, hrykkju í gang og færu að spila skemmtilegan fótbolta og vinna fleiri leiki í röð? Hélt einhver að Chelsea myndu bara grínast með toppbaráttuna í Úrvalsdeildinni, deild sem hefur yfirleitt boðið upp á a.m.k. tveggja liða baráttu fram í maí á hverju ári?
Ég botna bara ekkert í þessu. Og ofan í þetta undarlega landslag Evrópuknattspyrnunnar ákveður okkar lið svo að leggjast á bakið og láta hvert liðið á fætur öðru valta yfir sig án mikillar sýnilegrar mótstöðu. Og eins svekkjandi og það er þá er það í raun mest svekkjandi að mjög fáir, ef nokkrir, sáu þetta fyrir. Í sumar spáði Kop.is Liverpool 2. sætinu í deildinni; helmingur okkar spáði liðinu 1. sæti en hinn helmingurinn (ég þar á meðal) spáði okkur 3. sæti, þannig að meðaltalið var 2. sæti.
Ég var sem sagt einn af bölsýnismönnunum en ég hafði samt trú á að Liverpool yrðu „best of the rest“, eins og ég orðaði það, og næði 3. sætinu á eftir augljósum toppliðum Chelsea og Man City.
Liverpool er í dag í 11. sæti, með meira en helmingi færri stig en toppliðið, og á eftir öllum keppinautum sínum um Meistaradeildarsæti, utan Tottenham. Sú staða verður enn ömurlegri þegar við skoðum gengi keppinauta okkar: Man City hafa verið í mikilli lægð og eru langt frá forminu í fyrra, samt 7 stigum á undan okkur. Arsenal gerðu bestu leikmannakaup sumarsins í Alexis Sanchez og væru í virkilega slæmum málum ef hans nyti ekki við, samt 3 stigum á undan okkur. Við höfum á köflum hlegið að Manchester United í vetur, menn þar á bæ hafa átt erfitt með að réttlæta þá staðreynd að Louis Van Gaal gengur ennþá verr með liðið en David Moyes gerði í fyrra, samt 2 stigum á undan okkur. Meira að segja Everton, sem hafa bara unnið 3 af fyrstu 11 leikjum sínum, eru fyrir ofan okkur á markatölu.
Liverpool er í 11. sæti (það er neðri hluti töflunnar) með 14 stig eftir 11 leiki, eða 1,27 stig að meðaltali í leik. Yfir 38 leiki myndi þetta gengi gefa okkur 48 stig sem rétt nægir til að vera um miðja deild áfram. Til að ná 84 stigunum sem liðið var með í lok síðustu leiktíðar þarf 70 stig í næstu 27 leikjum, eða 2,59 stig að meðaltali í leik. Til samanburðar þá eru Chelsea búnir að ná í 2,63 stig í leik það sem af er tímabili.
Finnst ykkur líklegt að Liverpool breytist í Chelsea á næstunni? Nei? Þá getum við bara afskrifað titilinn núna strax. Og hvað með 4. sætið? Í vor þurfti Arsenal 79 stig til að tryggja sér 4. sætið og jafnvel þótt við gerum ráð fyrir að lægð margra liða þýði að færri stig en 79 dugi til að ná 4. sætinu í vetur er liðið samt í mikilli brekku. Segjum að það þurfi bara 72 stig, þá þarf Liverpool 58 stig í næstu 27 leikjum eða 2.15 stig að meðaltali. Það er gengi upp á 81 stig yfir heilt tímabil og Liverpool hefur aðeins þrisvar náð slíku gengi síðan 3-stiga reglan var tekin upp í Englandi.
Finnst ykkur líklegt að Liverpool nái 72 stigum í vetur? Það er alls ekki líklegt á þessum tímapunkti, og jafnvel þótt það næðist gæti vel verið að það nægði samt ekki. 79 stigin eru enn langsóttari.
Þýðing: það er ekkert endalaust hægt að segja að þetta séu „bara“ 3 stig eða 4 stig eða 6 stig eða 7 stig í Meistaradeildarsætin. Á einhverjum tímapunkti verður liðið að fara að byrja að brúa þetta stigabil og í dag eru níu lið í þessari baráttu fyrir ofan okkur (tel Chelsea ekki með, þeir eru farnir…).
Erum við að fara að standa okkur betur en 7 af þessum 9 liðum fram á vorið, sem er það sem þarf til að komast upp í 4. sætið?
Ég er ekkert sérstaklega bjartsýnn. Ég hef von, en enga bjartsýni. Það er munur þar á.
Hér á eftir fylgir listi yfir hluti sem ég skil ekki við gengi Liverpool í vetur:
Leikmannakaupin
Luis Suarez fór í sumar. Ég veit, ég veit, ég veit. Það var bakslag, heldur betur, en það eitt og sér afsakar ekki allt sem á eftir kom. Við vissum að það þyrfti að auka breiddina í liðinu og við vissum að það þyrfti að kaupa leikmenn, í fleirtölu, til að fylla skarð Suarez, þar sem það er aðeins til eitt eintak af honum. Síðan var farið út og leikmenn keyptir fyrir 100m punda plús og allir sáttir. Þangað til liðið fór að spila.
Það er auðvitað allt of snemmt að ætla að fella lokadóm um nokkurn einasta leikmann. En það er ekki þar með sagt að það megi ekki gagnrýna. Í liðið sem náði 4. sæti á síðustu leiktíð vantar 4 leikmenn í dag – Suarez, Sturridge, Agger og Flanagan. Í þeirra stað komu margir en enginn hefur náð að fylla skarð neins þeirra að mínu mati, hingað til.
Menn afsaka gengið með því að segja að það sé erfitt að dæma liðið í fjarveru Sturridge en ég segi á móti að ef liðið bara getur ekki fúnkerað án Sturridge þá er liðið ekki nógu sterkt. Hvað hafa margir meiðst hjá Arsenal í vetur? Þeir eru fyrir ofan okkur. Hvað hefur United vantað marga í upphafi móts, þ.m.t. Shaw, Herrera og Falcao, sum af þeirra stærstu kaupum, og á köflum markamaskínuna Van Persie, og nánast alla vörnina? Og var Rooney ekki frá í 3ja leikja banni? Þeir eru fyrir ofan okkur. Hvað með City? Hrynja þeir án Aguero, eins góður og hann er? Nei, þeir eiga leikmenn sem stíga upp og liðið heldur dampi.
City er að mínu mati nokkuð góður samanburður. Ef við værum þar sem City eru núna, með 21 stig, gætum við talað um að meiðsli Sturridge þýddu að liðið væri ekki á fullu gasi og því ekki jafn gott og eftir 12 leiki í fyrra (24 stig).
Það sem við erum að horfa á núna er talsvert meiri lægð en bara svo að Sturridge útskýri hana. Ég meina, Roy Hodgson gerði betur í fyrstu 12 leikjum sínum heldur en Rodgers er að gera núna, og samt skrifaði SSteinn pistil fyrir nákvæmlega 4 árum þar sem hann kallaði eftir því að Hodgson færi, eftir einmitt 12 leiki. Svo slæmt þótti gengið þá, og það er verra núna.
Staðreyndin er einfaldlega þessi í dag: Agger og Suarez fóru í sumar, Sturridge og Flanagan meiddust í upphafi tímabils. Í þeirra stað voru keyptir átta leikmenn sem áttu að geta fyllt skarð þeirra, og enginn þeirra hefur komist nálægt því. Balotelli er með 0 deildarmörk í 10 leikjum. Lambert er jafnvel verri en það. Markovic virðist langt frá því tilbúinn í enska knattspyrnu og eins og staðan er í dag virðist Dejan Lovren ætla að verða einhver dýrustu mistök í sögu Liverpool. 20 milljónir punda í miðvörð sem lætur Kolo Touré líta út eins og 24 ára gamlan Kolo Touré í samanburði. Can, Moreno, Manquillo og Lallana virka skömminni skárri en eru þó mjög misjafnir og Rodgers virðist einfaldlega ekki treysta þeim tveimur síðarnefndu.
Talandi um: hvers vegna í ósköpunum fær Adam Lallana ekki að spila meira? Hann kostaði 25 milljónir punda, okkar dýrustu kaup í sumar og næstdýrustu í sögu félagsins. Sóknin er gjörsamlega steingeld en samt fær Lallana aldrei tvo leiki í röð.
Hver er tilgangurinn með að eyða háum upphæðum í leikmenn sem eru á besta aldri en fá svo ekki að spila?
Ég skil ekkert í þessu.
Liðsuppstillingin
Ég veit ekki með ykkur en mér leið kjánalega þegar byrjunarliðið var birt í hádeginu sl. laugardag. Eftir að hafa varið liðsvalið gegn Real í síðustu viku var maður hafður að fífli þegar allir þeir sem misstu verðskuldað sæti sitt eftir Newcastle-tapið komu aftur inn í liðið. Það var ljóst að leikurinn gegn Real hafði verið gefinn upp á bátinn, þar átti að hvíla menn og leggja allt kapp á að ná úrslitum gegn Chelsea. Svo gekk það ekkert betur og eftir situr sár sannleikur: Liverpool er bara ekki nógu gott lið til að keppa við bestu lið Englands/Evrópu, sama hverjir eru valdir í liðið.
Ég skil ekkert í þessu.
Knattspyrnustjórinn
Allar þessar spurningar, allt mitt skilningsleysi, leiðir í sömu áttina: til Brendan Rodgers. Við vissum að hans biði ærið starf í vetur. Meðal áskorana hans fyrir þessa leiktíð voru þessar:
- Fylla skarð Luis Suarez í sókn liðsins
- Bæta varnarleik liðsins
- Auka breiddina með gæðaleikmönnum
- Láta Gerrard ekki spila hverja mínútu
- Höndla aukið álag Evrópukeppni á deildina
- Sýna að Liverpool ætti heima í Meistaradeild
Það er alveg sama hvernig þið lítið á það, Rodgers er að fá falleinkunn í öllum sex atriðunum hér að ofan. Framherjarnir fjórir (sem allir voru keyptir í tíð Rodgers) hafa skorað 1 deildarmark samtals, og Sturridge skoraði það í fyrstu umferð áður en hann meiddist. Sá eini af hinum þremur sem ekki virkar vonlaus er Borini og hann fær varla séns hjá Rodgers. Vörnin er verri en nokkru sinni fyrr, þrír af topp 10 verstu varnarmönnum deildarinnar koma frá Liverpool (Lovren, Moreno, Skrtel) og tveir í viðbót eru rétt utan topp 10 (Mignolet, Sakho). Gerrard hefur leikið nánast hverja mínútu í Úrvals- og Meistaradeild, fyrir utan Real-leikinn í síðustu viku sem var klárlega gefinn upp á bátinn af Rodgers. Breiddin er engin sem sést á því að Rodgers er almennt að gera færri skiptingar og seinna í leikjum en í fyrra, og hann hefur ekki trú á tveimur dýrustu leikmönnum sumarsins til að bæta sóknarleikinn (Lallana og Markovic, 45m punda samanlagt) né fyrsta manninum sem lögð var áhersla á að fá í sumar (Lambert). Aukið álag hefur ekki skilað sér í meiri róteringu nema í Deildarbikarnum og það hefur engu skilað: liðið er að byrja verr en jafnvel Hodgson afrekaði í deildinni og hefur í fyrsta skipti í sögu félagsins tapað 3 leikjum í röð í Evrópu.
Ég sagði í nýlegum pistli að það væri allt of snemmt að kalla eftir því að Rodgers sé látinn fara. En það þýðir ekki að við megum ekki gagnrýna hann, og það harkalega, þegar staðan er jafn bágborin og hún er nú. Og höfum það alveg á hreinu að ef ástandið batnar ekki í vetur getur Rodgers lítið sagt við því ef skipt verður um stjóra næsta vor.
Maggi skrifaði góðan pistil sl. sunnudag þar sem hann talaði um að ekki þýddi að bera núverandi lið endalaust saman við fortíðina. Ég er sammála Magga með þann pistil en ef við megum ekki bera þetta lið saman við liðið á síðustu leiktíð og nota það til að gagnrýna Rodgers þá má heldur ekki nota síðustu leiktíð sem ástæðu þess að við eigum bara að leyfa Rodgers að vera súkkulaðikleina í allan vetur.
Ef síðasta leiktíð skipti engu máli í dag væri SSteinn farinn að skrifa aðra yfirlýsingu eins og þá sem hann skrifaði um Hodgson fyrir fjórum árum.
Svona horfir Rodgers við mér: hann átti erfiða byrjun fyrir tveimur árum, vann sig upp úr því og skilaði prýðisgóðri knattspyrnu, en þó engum árangri í neinni keppni, á sinni fyrstu leiktíð. Liðið var farið að leika betur og var skemmtilegra undir hans stjórn. Á síðustu leiktíð blómstraði þetta starf hans mikið fyrr en nokkur þorði að vona og það skilaði næstum því ótrúlegum deildarsigri í hús í vor. Næstum því, en ekki alveg.
Auðvitað gefur gengið á síðustu leiktíð Rodgers svigrúm til að laga stöðuna en það er algjört metnaðarleysi að ætla að láta eins og það sé bara allt í lagi ef hann nær ekki í Meistaradeildarsæti í vetur. Né heldur að það sé bara allt í lagi að hann geri ekki meira við Meistaradeildarsætið en liðið hefur gert hingað til í þessum riðli. Ljósið í myrkrinu er að þar sem hin stórliðin eru flest að hiksta líka er baráttan um Meistaradeildarsæti enn galopin (þótt liðið þurfi að bæta sig talsvert í stigum, eins og ég kom inná hér að ofan) og eins að þrátt fyrir 3 töp í röð í Meistaradeildinni eru örlög liðsins enn í þeirra eigin höndum, tveir sigrar í lokaleikjunum koma okkur áfram.
En þessi slæma byrjun hefur núna þróast út í slæmt haust og er loks orðið að slæmri leiktíð, almennt. Það er þriðjungur tímabilsins búinn, við erum á þriðja landsleikjahléi og enn er ekkert lífsmark með Liverpool. Ég hef hvorki fulla né enga trú á Rodgers og þessu liði, ég veit ekkert hvað ég á að halda um þetta lið og þennan þjálfara lengur, en eitt er ljóst: hann verður dæmdur af því hvernig honum gengur að snúa þessu gengi við og engu öðru. Annað sætið í fyrra mun ekki skýla honum fyrir FSG (sem hafa sýnt með Hodgson og Dalglish að þeir óttast ekki breytingar og tilfinningasemi spilar litla rullu hjá þeim) ef liðið hrynur aftur niður í sama farið og síðustu ár, það held ég að sé alveg á hreinu. Við þurfum því ekkert að rökræða hvort við styðjum hann eða ekki, hvort við viljum reka hann í gær eða gefa honum fimm ár til að þroska þetta lið, mín tilfinning fyrir FSG er sú að hann verður farinn í vor ef hann skilar ekki árangri.
Þá er rétt að vara menn við því að vonast eftir einhverri töfralausn í janúarglugganum. Við biðum í fleiri ár eftir að sjá hvað FSG gæti gert á markaðnum þegar liðið væri komið í Meistaradeild. Það gerðist loks í sumar og við sáum afraksturinn: enginn séns á Costa og Fabregas, ekki hafði Falcao áhuga, reyndum ekki við Di Maria eða Mandzukic og Sanchez valdi Arsenal af öllum liðum fram yfir okkur vegna Lundúnaborgar. Eigum við að byrja að prenta Marko Reus-treyjur strax eða bíða aðeins?
Þannig horfir þetta við mér. Það er ansi langt síðan ég birti svona svartsýnan (og langan) pistil en ég get ekki annað en verið hreinskilinn. Það hafa allt of margir leikmenn valdið mér vonbrigðum í vetur, og knattspyrnustjórinn hefur svo sannarlega gert það líka. Staðan er sú sem hún er í dag og þótt ég geri ráð fyrir að liðið rétti aðeins úr kútnum eftir þrjá tapleiki á viku þá sýnir stigaútreikningurinn hér að ofan að það er ekki nóg að rétta aðeins úr kútnum, menn þurfa nánast meistaraform héðan í frá til að nálgast þann stigafjölda sem venjulega skilar Meistaradeildarsæti. Og það er langur vegur í slíkt form hjá Liverpool í dag.
Ég skal glaður éta hatt minn og sokka ef þessi pistill hljómar hlægilega eftir nokkrar vikur. Ég er bara ekki bjartsýnn á það. Umfram allt skil ég ekki hvernig liðið gat lent í þessari stöðu. Heppni og ytri aðstæður spila alltaf inní (Suarez, Sturridge) en þegar litið er á allt annað sem hefur verið illa skipulagt, illa framkvæmt og illa unnið frá því að liðið var best spilandi lið Englands í vor er ómögulegt annað en að spyrja stóru spurninganna.
YNWA
Þessi pistill minn byrjaði sem glasið hálffullt/hálftómt pistill. Ég ætlaði að skoða það neikvæða og það góða líka, reyna að finna björtu hliðarnar innan um það neikvæða. En svo bara fann ég ekkert neikvætt, og nú hef ég verulegar áhyggjur af því hvert þetta tímabil stefnir.
Vonandi er ég ekki að eyðileggja vikuna (meira) fyrir mörgum. Ef þið finnið björtu punktana, endilega bendið okkur hinum á þá. Ég sé þá ekki í dag.
Mér finnst vanta eitt í leikmannakaupin. Af hverju var ekki keyptur like-for-like leikmaður í stað Suarez? Ég veit að það er enginn jafn góður, en af hverju ekki eins eða svipaðan leikmann? Var Sanchez bara eini kosturinn? Nei, því trúi ég ekki. Og ekki koma með “nefndu þá hvern” spurninguna, ég er ekki að vinna fyrir félagið í að finna þessa leikmenn. Fyrir hvað er þessi njósnadeild okkar að fá borgað fyrir? Við sjáum fullt af sumarkaupum brillera í ensku deildinni núna,og þau kostuðu ekki öll Fabregas/Costa peninga.
Einnig, þá átti að kaupa sóknarmann sem er líkur Sturridge, einmitt útaf meiðslahættunni hans. Loic Remy klikkaði, en af hverju var Balotelli keyptur? Við lentum í tímapressu, ok, en af hverju er ekki plan-b sett í gang á fullu þegar Remy klikkaði? Fyrir vikið erum við að spila allt öðruvísi en í fyrra, og það helmingi verr – og með “vitlausa” leikmenn sem mér finnst ekki passa inn í stílinn okkar.
Einnig, þessi “Suarez týpa” hefði alveg mátt kosta 50 milljónir punda til dæmis, það hefði til dæmis verið hægt að sleppa Balotelli og Markovic (vonandi láta þeir mig éta þessi orð seinna) og halda Ibe, en vera með alvöru mann þarna frammi.
Einnig, hrós á síðuhalda fyrir góða umræðu, sem og notendur síðunnar fyrir góð og málefnaleg ummæli undanfarið.
Mjög góður pistill Kristján Atli og full ástæða til að horfa á stöðunum gagnrýnum augum.
Ég deili áhyggjum þínum. Liðið er að spila mjög illa og árangurinn í samræmi við það. Ég er engan veginn að kaupa það að þetta muni allt reddast þegar Sturridge kemur til baka. Vandamál liðsins er miklu, miklu dýpra en það. Þess fyrir utan þá er það klárt veikleikamerki á liðinu í heild sinni ef það er algerlega háð einum leikmanni upp á árangur að gera.
Ég er alls ekki að segja með þessu að það eigi að reka BR, af og frá. Hann er hins vegar langt í frá hafinn yfir gagnrýni og þessi uppákoma hans í tengslum við liðsval fyrir leikina á móti Real og Chelsea var ekki til þess fallin að auka traust mitt á honum.
Ég er líka sammála þér Kristján með að það er dæmi um algert metnaðarleysi stuðningsmanna að voga sér að halda því fram að það sé bara “allt í lagi” eða “eðlilegt” að liðið verði ekki í topp 4 í lok móts. Það væri verulegt skref niður á við fótboltalega séð sem og fjárhagslega fyrir klúbbinn. Í ljósi þess hversu eigendurnir eru búnir að fjárfesta í klúbbnum er ég alls ekki viss um að BR fengi annað ár með liðið fari svo að topp 4 sæti náist ekki. Þetta er harðsnúnir bissness-menn sem sætta sig ekki við einhverja meðalmennsku.
Ljósið í myrkrinu er samt það að það er mikið eftir af mótinu (meira en 2/3) og flest önnur lið sem vil viljum máta okkur við hafa líka farið illa af stað, en Fowler minn góður hvað þarf margt að breytast hjá okkur til þess að markmið okkar um topp 4 náist.
Það sem mér hefur fundist undarlegast er þessi þrjóska Rodgers að nota ekki tvo framherja þó svo að Sturridge sé meiddur. Það er eins og hann sé bara að bíða eftir að hann komi til baka til að geta farið í tígulmiðjuna sína. Eins og það sé ekki til nein önnur lausn.
Ég myndi td. vilja sjá Borini fá meiri séns með Balotelli og sjá hvort það virki ekki betur en að hafa Balo einan frammi leik eftir leik.
Eða Borini og Lambert þessvegna þó svo að ég hafi ekki mikla trú á að öskubusku ævintýri Lambert verði mikið lengra.
Mér fannst frábært þegar hann stokkaði vel uppi í liðinu fyrir Real leikinn og varð fyrir miklum vonbrigðum þegar hann valdi liðið gegn Chelsea.
Ég vona að hann stokki vel upp fyrir næsta leik.
Eini ljósi punkturinn í þessu er að þetta getur varla versnað 🙂
Sælir félagar
Ég deili áhyggjum með þeim sem hér hafa tjáð sig. Liðið spilar einfaldlega illa og virðist ekkert lát þar á – eða hvað. Mér fannst liðið þó sýna einhvern karakter og baráttuvilja í síðasta leik. Eitthvað sem maður hefur ekki séð í neinum leik þar á undan svo heitið geti á leiktíðinni. Það vekur smá vonir.
Annað sem veldur mér verulegum áhyggjum og reyndar mestum áhyggjum. Það er frammistaða BR. Hann virðist ekki hafa nein svör, engar hugmyndir og liðsval hans í síðasta leik (ég var einn af þeim sem samþykkti liðsvalið á móti RM) settu punktinn yfir i-ið. Að maðurinn skyldi ekki setja einhverja af þeim sem sýndu lit í RM leiknum í liðið á móti Chel$ky er mér óskiljanlegt.
Það virðist benda til að BR sé þrotinn af hugmyndum og áræði. Sama árangurslausa uppstillingin leik eftir leik, sama skipulag og sama niðurstaða. Það er þetta sem veldur mér áhyggjum fyrst og fremst. Þegar stjórinn er þrotinn af hugmyndum og kröftum þá er ekki von að liðið leiki vel. Ef stjórinn er búinn að gefast upp þá gefst liðið líka upp. Eftir höfðinu dansa limirnir það er bara þannig.
En samt – vonandi er þetta ekki svona. Vonandi nær BR sér og snýr taflinu sér í vil. Það er það eina sem getur bjargað ástandinu að blessaður maðurinn reisi haus og stappi stálinu í sína menn, sendi þá trítilóða inn á völlinn eftir langt landsleikjahlé og – geri þær breytingar sem þarf til að lemja liðið upp úr þessu djúpa hjólfari sem það er í. Því það versta sem gerst gæti er að BR brotni algerlega og stjóraskipti verði upp á borðinu á næstu vikum.
Það er nú þannig
YNWA
Góð greining á liðinu – verður vonandi til þess að kippa mönnum niður af ljósbleika skýinu sem þeir hafa flogið um á síðan á síðasta tímabili.
Ég held að mönnum sé orðið ljóst að Brendan Rodgers á næsta leik – tap í næsta leik setur þunga og virkilega óþægilega pressu á hann.
Fín pistill en Kristján samt ekki ljóst að langstærsta vandamálið að liðið hefur mest verið að spila á 3 framherjum þetta tímabil og þeir hafa samanlagt skorað 0 mörk i deildinni. Við fórum úr því að hafa tvo markahæstu leikmenn í deildinni yfir í það að hafa 3 framherja sem hafa ekkert skorað og það sem verra er þeir virðast ekki einu sinni vera líklegir til að skora. Margir gætu sagt á móti að það sé ósanngjarnt að kenna þeim um allt en er það samt frekja að ætlast til þess að þeir skori allavega eitt mark i deildinni
Frábær pistill og vel rökstuddur. Lykilatriði í honum eru eftirfarandi þættir:
Fylla skarð Luis Suarez í sókn liðsins
Bæta varnarleik liðsins
Auka breiddina með gæðaleikmönnum
Láta Gerrard ekki spila hverja mínútu
Höndla aukið álag Evrópukeppni á deildina
Sýna að Liverpool ætti heima í Meistaradeild
Og höfundur kemst að þeirri niðurstöðu að í öllum þessum atriðum fær stjórinn falleinkunn. Eins og staðan er núna þá er hann jú undir 5 en hann er samt bara búinn með þriðjung prófsins. Hann hefur sýnt það undanfarin ár að liðið nær betri árangri eftir því sem líður á tímabilið.
Aðalástæðan er sú að lykilmenn, sem hann hefur treyst til þess að ná árangri alls ekki staðið sig nógu vel. Í tveimur verstu tilfellunum, Balotelli og Lovren, nýir leikmenn sem eiga að bæta verulegum gæðum í liðið, gera þeir það ekki hingað til.
Ég vil samt gefa Rodgers meiri tíma. Ég vil að hann fái að klára þetta tímabil og það er alveg rétt sem sagt er í pistlinum að allt utan Meistaradeildar eru vonbrigði og kallar enn á miklar breytingar á leikmannahópnum. Tímabilið styttist smátt og smátt og tíminn sem Rodgers hefur minnkar og minnkar. Hann þarf að fara að taka afdrifaríkar ákvarðanir mjög fljótlega, hvort hann ætli að halda áfram að treysta á sitt byrjunarlið (í deild) eða hvort hann fari að skipta mönnum út. Hann virkar íhaldssamur á mig þannig að ég á síður von á miklum breytingum.
ég hef alltaf sagt það að BR er ekki rétti maðurinn fyrir LFC en hef líka sagt að vonandi hafi ég ragnt fyrir mér en því miður virðist það ekki vera
Það sést best á því hvaða menn hann er að fá í liðið og hverjir eru að neita að koma það er alveg ljóst að ef það hefði einhvert þekkt nafn komið þá væri þessi staða ekki.
Það sést best með því að líta aðeins til baka eftir sumar gluggann í fyrri þá spurði maður” af hverju eru ekki keyptir betri og þekktari menn ” svari var nær undantekningalaust því við erum ekki í meistaradeiltinni en svo komumst við í hana og hvað gerist menn velja að fara til MU frekar sem dæmi og ekki hef ég verið var við þá í MD þeir hafa mann í brúnni sem leikmenn hafa trú á þó gengið sé ekki uppá marga fiska eins og er en hann dregur til sín menn það hefur bara allt að segja hvernig gekk MU að fá til sín menn í fyrra þegar Moyes var þar ( eða hvernig sem þetta nafn er skrifað) honum gekk ekkert að fá þekta leikmenn
Um leið og menn opna augun og sjá hvað er að gerast og hætta að sjá það sem þeir vilja sjá þá sjá fl það að hann á að fara því miður
takk fyrir
YNWA
Loksins komið landsleikjahlé ( hef aldrei sagt þetta áður).
En að hinu liðinu,,,
þá var ég ekki svo bjartsýnn fyrir tímabilið og spáði okkar mönnum 5.sæti
en vonaðist eftir 4.sæti, því maður á alltaf að setja markið hærra.
Ég var mjög ánægður með liðshræringuna í RM leiknum og það nærri skilaði sér.
En af hverju er Hr.BR ekki að lesa kop.is ?
Hér er nóg af lausnum.
Og af hverju er hann alltaf svona góður?
Ég vil fara að sjá hina hliðina á honum.
Ekki þetta enda- og innihaldslausa hrós í allar áttir, hann þarf að fara að urra og rótera hópnum. Menn eiga ekkert að vera með yfirfullar pampers úti á túni í leik eftir leik.
Og svo bjartsýnin…
Jahh, miðjumoðið í þessari deild er nokkuð dreift og jafnt og programmið fram að
áramótum er ekki alslæmt.
Crystal Palace 17.sæti Úti
Stoke City 9.sæti Heima
Leicester 18.sæti Úti
Sunderland 14.sæti Heima
Manchester United 7.sæti Úti
Arsenal 6.sæti Heima
Burnley 20.sæti Úti
Swansea 5.sæti Heima
Og svo eigum við Sturridge inni og hann og Balo verða frábærir saman….
Verðum í 4.sæti um áramótin.
Áfram LFC og Ísland.
Sálfræði 503, takk Kristján Atli, ég er þá ekki einn í svartnættinu og skil ekki neitt í neinu.
Þetta er hörmungin ein.
Ég hef sagt það áður og held því fram að BR átti að kaupa færri leikmenn með gæði, heldur enn að spreða seðlunum í minni nöfn með ágætis gæði, sem og vera með Arsenal syndromið að kaupa unga leikmenn sem munu að vera þroskast næstu 3-5 árin uppá von og óvon að þetta verði góðir spilarar.
Það er þrennt sem stendur uppúr sem gallar BR.
1) liðið getur ekki varist núna frekar enn síðasta tímabil.
2) liðið kann ekki að halda forystu, gjörsamlega kunna ekki þá list.
3) BR er slakur á leikmannamarkaðnum, ótrulegt drasl sem hann hefur fjárfest í sem endað hefur að làni eða hann ekki treyst í byrjunarliðið.
Sjón er sögu ríkari ótrúlega fáir gert góðu hluti þrátt fyrir 212 mill punda eyðslu.
http://www.lfchistory.net/Transfers/ByManager/25-1
Hreint frábær pistill, ég næstum því grét.
Þetta tímabil er vonbrigði, það verður að viðurkennast. Hluta má kenna Rodgers um og hluti skrifast á leikmenn sem ekki hafa stigið upp í mótlætinu. Ég vil engu að síður gefa Brendan meira en eitt tímabil í viðbót þrátt fyrir að ná ekki meistaradeildarsæti á þessari leiktíð.
Þetta gengi kemur mér einfaldlega ekkert á óvart. Klúðruðum hlutunum í sumar einfaldlega meira heldur en Spurs gerðu í fyrra, a.m.k. höfðu þeir enga Meistaradeild til sannfæra menn og klúbburinn langt frá því að vera eins stór og Liverpool.
Fannst við einfaldlega vera að kaupa einhverja leikmenn héðan og þaðan. Leikmenn sem maður þekkti varla fyrir 1-2 árum. Þegar okkur vantaði klárlega gæðaleikmenn sem þekktu það að spila á hæsta kaliberi Evrópufótboltans.
Ég á einfaldlega erfitt með að “pikka” út gæðaleikmenn í þessum leikmannahópi okkar í dag. Framherjinn okkar, Daniel Sturridge, ætti að teljast slíkur en það er erfitt þegar hann missir af þriðjungi hvers tímabils. Það er hinsvegar auðvelt að finna gæðaleikmenn í liðum keppinauta okkar ef við skoðum það nánar í fljótu bragði:
Arsenal: Alexis Sanchez og Mesut Özil
Chelsea: Thibaut Courtois, Eden Hazard, Cesc Fabregas, Diego Costa…. gæti haldið áfram.
City: Yaya Toure, Sergio Aguero, David Silva, Vincent Kompany… gæti haldið áfram.
Uninted: Wayne Rooney, RVP, Angel Di Maria, Juan Mata.
Við misstum mann sem var betri en allir þeir sem ég nefndi hér og við gerðum einfaldlega ekkert til að bæta upp fyrir það. Höfum svo einn sem var í fremstu röð, Steven Gerrard, en hann verður 35 ára í vor og kominn yfir sitt besta. Þá er R. Sterling of ungur og óstöðugur en nær klárlega í fremstu röð í framtíðinni.
Málið er einfaldlega þannig að okkur skortir leikmenn í hæsta gæðaflokki.
P.S. Gengi Chelsea kemur mér einfaldlega ekkert á óvart. Þeir gerðu einfaldlega það sem þeir þurftum. Þeim vantaði vinstri bakvörð, miðjumann og framherja enda enginn að skora nógu reglulega fyrir þá í fyrra. Gerðu sér þá lítið fyrir og kræktu í Felipe Luiz, Cesc og Diego Costa. Allt stórkostlegir leikmenn.
Mér finnst soldið vanta í þessa grein að fjalla meira um fyrirliðann okkar, getur verið að partur af því að vörnin lýtur illa út að Gerrard er ekki að verja hana vel. Lovren átti mjög gott tímabil með Southampton en þá var hann líka með Wanyama fyrir framan sig, Skrtel leit líka miklu betur út þegar hann hafði Mascherano fyrir framan sig. Er ekki alveg ljóst að það sem þetta lið vantar mest er alvöru varnarsinnaður miðjumaður og fleiri einn framherji sem getur skorað
Frábær pistill Kristján Atli, sammála nánast öllu sem þú segir.
Frábær pistill hjá Kristjáni Atla, einn af þeim betri sem ég hef lesið hér á KOP.IS
Það eru nokkur atriði sem við verðum að taka inn í þetta þó að nokkur veðmál hafi tapast.
1. Meistaradeildin tekur ALLTAF nokkur stig af þeim félögum sem eru í henni. STAÐREYND
í fyrra vorum við nánast ekki neinum keppnum, þetta er alveg nýtt fyrir BR. (sterkasta hlið RB) Sjáið bara milljónalið City, geta ekki neitt í þessari keppni.
2. Það er pressa að byrja að spila með Liverpool, sérstaklega ef þú kemur úr minni klúbbi. Sumir geta þetta strax, sumir þurfa tíma. hóst hóst hóst Henderson. Gefum Lovren og co smá tíma.
3. Framherja kaup eru ALLTAF áhættusöm !
Torres til Chelsea, á að skjóta stjórann ? Dýrustu kaup Everton nokkurnímann, Lakuku, skjóta stjórann ? Dýrustu kaup Moyes síðasta ár, Fellani, reka stjórann. Balotelli til Liverpol reka stjórann ? osfr osfr osfr
Engu að síður virðist BR vera þrjóskur maður, og það er ekki gott. Hann er uppfullur af sjálfum sér og finnst gaman að heyra sjáfann sig tala. (grennt sig, nýjar tennur, losað sig við gömlu kerlinguna osfr ) ERGO: EGOISTI DAUÐANS. Sem er bara fint meðan hlutirnir virka. En nú verður hann að sýna að hann hafi það sem þarf. Ég hef trú á honum en hann verður að standa upp núna, sýna hreðjarnar og vera maður. Annars verður hann að taka afleiðingunum og taka sinn poka. En það verður aldrei fyrr en næsta sumar.
PS: Næsta ár verða Sturridge og Origi frammi, það veit á gott.
Góður pistill sem nær vel utanum fabúlasjónir margra Púlara að mínu viti. Ástandið á liðinu er lítt skiljanlegt og því beinist athyglin að fótboltastjóranum. Brendan Rodgers er á svipuðum launum og forstjóri Apple svo dæmi sé tekið. Menn geta rétt ímyndað sér hvernig hluthafar Apple myndu bregðast við ef þetta öflugasta markaðsfyrirtæki heimsins færi á hliðina á örfáum mánuðum. Það þarf ekki doktorspróf í skammtaeðlisfræði til að skilja hvað þá færi í gang.
Án þess að ég vilji þreyta lesendur þessarar síðu með fræðisnakki þá er til hugtak í tölfræði og ákvörðunar/fjármálafræði sem nefnist regression to the mean. Hugtakið er yfir 100 ára gamalt og sá sem kom fram með kenninguna heitir Francis Galton sem ég ætla ekki að rekja nánar hér.
Í dag er það mest notað til að lýsa því hvernig að stakir atburðir vekja með mönnum ofurbjartsýni sem villir þeim sýn um raunverulegt ástand. T.d. þegar að sölumaður selur einn mánuðinn eins og vitlaus væri. Sölumaðurinn heldur að hann sé að ná svona frábærum árangri og telur að næsti mánuður verði jafn góður eða jafnvel enn betri. En þá er honum kippt til jarðar. Tölfræðin segir nefnilega að miklu líklegra sé að góðum mánuði fylgi slæmur mánuður. Góði mánuðurinn var s.s. tilviljun en ekki ávísun á varanlega velgengi. Allt leitar jafnvægis til “eðlilegs ástands”.
Ég er sammála KAR um að erfitt er að skilja þessi ósköp t.d. ef litið er til fjárfestingar í leikmönnum eða ytri aðstæðna. Þetta á ekki að geta gerst ef allt er eðlilegt. Því verður áleitin sú spurning hvort að Brendan hafi ekki hreinlega grísast á frábært tímabil en regression to the mean hafi núna kikkað inn? Raunveruleg geta Rodgers til að stýra stóru félagi er því ekki rönnið í fyrra heldur í hittifyrra og í ár.
Það verður allavega að segja að nákvæmlega ekkert á þessu leiktímabili bendir til að Brendan sé starfinu vaxinn. Ekkert. Ég get skilið að það taki nokkur ár að byggja upp meistaralið en Rodgers var ekki að byrja með liðið. Þetta er 3ja tímabilið hans með fótboltaheimspekina títtnefndu, hann hefur haft úr nægum fjármunum að spila og keypt 25 leikmenn fyrir næstum 300 milljónir evra. Þess má geta að ekkert lið í á Spáni (skv. minni), Ítalíu eða Þýskalandi hefur fjárfest annað eins. Dortmund hefur t.d. fjárfest t.d. fyrir um milljónir evra á þessu tímabili og mig minnir að Bayern hafi verið um 120 millur sl. 2 ár. Man þetta ekki 100% en þetta er ekki fjarri lagi. Juventus hefur gefið út að heildarfjárfesting í leikmönnum yfir 3 ár verði ekki meiri en 120 milljónir evra. Brendan Rodgers og Liverpool er hreinlega í öðru stjörnukerfi en mörg topplið Evrópu ef litið er á hvaða möguleika hann hefur haft fjárhagslega til að byggja upp gott lið.
En hver er uppskeran? Ráðvillt miðlungslið þegar þriðjungur mótsins er að baki með 40% vinninghlutfall í PL er 5 stig frá fallsæti og í standandi vandræðum í CL. Er virkilega boðlegt að reiða á að Sturridge bjargi málunum loks þegar/ef hann getur spilað vegna eilífra meiðsla?
Sad but true.
Sjálfur vona ég innilega að ég hafi rangt fyrir mér. Ég vona innilega að regression to the mean virki á hinn veginn. Þ.e. að núna formdippið sé tilviljun frekar en árangurinn í fyrra. Samt verður maður að spyrja og búast við hinu versta að mínum dómi.
Maður verður samt að spyrja til að vita.
Það eru vonbrigði hvað lítið hefur verið hægt að nota Lambert, ég hélt að hann yrði notaður til að leysa Sturridge af. Markovic hefur síðan ekki fengið neina leiki og Brendan yfirleitt tekið Coutinho, Sterling eða Lallana fram yfir. Það er svo sem skiljanlegt og nokkuð góð breidd. Miðjan er líka mjög vel skipuð með Gerrard, Henderson, Allen, E.Can og Lucas.
Það er allt morandi af miðjumönnum í liðinu og eiginlega skrítið hvað það hefur gengið illa. Ég held að enginn hafi spáð þessu eins og Kristján bendir á. Brendan er ennþá nokkuð kokhraustur í viðtölum og hugsanlega sjáum við nýjan framherja í janúar. Eiginlega skrítið hvað það er búið að vera lítið slúður um það í blöðunum.
Ég veit síðan ekki hvað er málið með vörnina. Það er einkennilegt að mjög solid leikmenn hafa verið keyptir þar en sjálfstraustið er skelfilegt. Sumir segja að það vanti leiðtoga en það er frekar eins og það vanti skipulag…af æfingasvæðinu hugsanlega?
Það er allt of langt til vorsins en vonandi fer þetta að hrökkva í gang…er ekkert meiriháttar bjartsýnn á það fyrr en Sturridge spilar…þá kemur liðið í ljós.
Fràbær grein. Þori ekki að segja meira:)
Eitt sem ég hef verið að velta fyrir varðandi þessu stjörnukaup sem margir nefna. Hvenær kom leikmaður til Liverpool sem var með sanni hægt að kalla stjörnuleikmann sem var á hátindi ferilsins? Suarez var ekki þannig leikmaður þegar hann kom. Einhver sem var svona Costa týpa.
Torres sá eini sem mér dettur í hug en man ekki hversu mikið nafn hann var þegar hann kom.
Það sem ég á við með þessu að það virðist ekki vera nein hefð fyrir því að fá stjörnur til félagsins. Má vera að menn sem eru betur inni í þessum málum geti þulið upp fleiri fleiri nöfn en þetta er nú bara það sem mér finnst.
Kolo Toure er eini sem mér dettur í hug Styrmir.
Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að mitt glas er stútfullt og ég er alveg handviss um að BR er rétti maðurinn fyrir þetta lið. Langbesti stjóri sem við höfum haft í tugi ára. En mikið rosalega væri ég til í að hann myndi hvíla Gerrard svolítið. Og úr því að maður er farinn að óska sér þá held ég að Mascherano væri mín óskaviðbót í þetta lið – eins og staðan er í dag. Allavega ef hann spilaði eins og hann gerði á HM í sumar. Þar var alvöru DM á ferðinni. Maður má láta sig dreyma. YNWA.
Ég sá nú bara síðustu tuttugu mínúturnar af Real Madrid leiknum með báðum (horfði á hitt með öðru í vinnunni) en það sem mér fannst örla á þar var nokkuð sem ég hef ekki séð í deildarleikjum það sem af er vetri – eða barátta…
Mér hefur oft fundist að þar sem liðið náði það góðum árangri í fyrra þá sé það sjálfsagt og fyrirhafnarlaust að vinna “minni” liðin í deildinni. Menn hreinlega leggja sig ekki nógu mikið fram! Suarez var auðvitað einsog óður geitungur sem fyrsti varnarmaður og menn fylgdu með. Henderson með tímabil lífs síns og Sterling sömuleiðis. Þeir voru á fullu alla leiki allan leikinn. Þessa greddu hefur vantað!
Nú var í fyrra sálfræðingur að vinna með leikmönnum, Peters minnir mig að eftirnafni. Er hann enn hjá klúbbnum? Því andlega virðast menn hreinlega ekki höndla álagið. Rogers finnst mér einna helst hafa náð því útávið en hann verður að standa og falla með gengi liðsins. Ekki það, ég er þolinmóður og vil gefa honum góðan tíma.
En það er ekkert útséð með neinn af þessum leikmönnum sem keyptir hafa verið og hafa þeir allir fulla möguleika á að verða að góðum leikmönnum. Ég hef t.d. fulla trú á Markovic og vona að ég hafi rétt fyrir mér (pun intended)! Mér finnst því varhugavert að ætla Origi að verða einhver lausnari á næsta tímabili. Hann er 19 eða 20 ára og eru allar líkur á að hann þurfi sinn tíma líka. Jafnvel Neymar þurfti tíma með Barca.
Þetta eru svona einhverjar hugleiðingar útí loftið, takk fyrir góðan pistil (og pistla) og fína umræðu hér við.
Flott grein, sannleikur út í eitt.
Það er bara erfitt að skilja gengi okkar mann núna eða trúir maður því bara ekki að fallið geti verið svona mikið á stuttum tíma.
Sælir félagar.
Þetta er fljótt að breytast. Vissulega deili ég áhyggjum pistlahöfundar með þessa byrjun, sérstaklega Markovic sem virðist hafa verið nafni leikmanns sem eitthvað getur og vakti athygli scoutana.
Hins vegar er ég algjörlega “blindaður” af fyrra seasoni. Það sem Rodgers púllaði þar var að mínu mati stórkostlegasta afrek síðan Istanbul og ég veit ekki hversu langt eftir það.
Lovren hefur byrjað afleitlega, menn tala eins og við hefðum átt að styrkja vörnina með annarri 20 millj. sleggju. En hvaða sleggju ? Arsenal, Utd, Tottenham og PSG voru öll á eftir alvöru miðverði sem getur borið boltann út úr vörninni. Milli þessara liða var Luiz keyptur á 50 millj. Það er lítið framboð af þessum leikmönnum, og veit sófa hálfspekingurinn ég ekki hvern hefði átt að kaupa í staðinn. Vermalen ? Rojo ?
Jafnvel spretta fram umræður um að við höfum keypt rangan miðvörð frá Southampton, þegar vörnin þar nýtur skjóls Schneiderlein og Wanyama ( örugglega vitlaust skrifuð bæði) en Liverpool vörnin nýtur skjóls hjá … Hef ekki í mér að fara lengra hérna, en með tvo bakverði sem spila svona hátt þarf a.m.k. að veita honum aðstoð.
Rodgers hefur enn ekki keypt leikmann í meistaradeildarklassa, nema kannski Balo. Hann hefur viljað það. Ég man eftir honum sótrauðum þegar við misstum af Willian. Hann reyndi Sanchez, Costa og þið þekkið öll söguna og rumsuna. Spursmál mitt er hvað af því er honum að kenna. Willian fór til hæstbjóðanda, eins og Dí María. Haldið þið í eina mínútu að hann hefði sleppt að fá þá því einhver excel formúla hjá FSG segði þá ofmetna ? Spurning, ég held ekki. Hann neyðist til að spila eftir ramma FSG sem er mun þrengri en hinir stjórar keppinauta okkar þurfa.
Hann hefur hins vegar mjög lélegt transfer record, neita því ekki. Persónulega held ég t.d að Berahino hefði toppað öll transfer þessa glugga.
Hann gerði liðið samt næstum að meisturum á ári 2. Nú eru 11 leikir búnir eða 30% mótsins og erum 2 stigum á eftir Utd og 3 á eftir Arsenal. Ef það kallar á einhverja hreinsun hjá klúbbnum, myndi Rodgers verða síðastur þar út. Ömurleg byrjun, ömurleg vörn og allt það, stefnir jafnvel í ömurlegt tímabil. Ég get samt ekki séð nokkurn mann sem ég vildi frekar stýra liðinu eftir það.
Hef trú á því að Sturridge bakki mig nú samt upp eftir landsleikjahlé og haltur leiði blindann eins og þeir segja. Það þarf svo lítið til að detta á run, sjáið Pardewinn.
Það vonast auðvitað allir til að hlutirnir lagist þegar Sturridge kemur aftur. Maður þarf samt að spyrja sig: hvert er planið þegar Sturridge meiðist næst? (Það er nefnilega ekkert “ef” þarna).
Ég venjulega svartsínn undir lélegu gengi liðsins. Enn í þetta skiftið er ég bara mjög bjartsýnn og fatta ekki afhverju.
Það á eftir að gérast hellingur þetta tímabil.
Eftir hlé förum við á ‘run’, komumst áfram í meistaradeildinni með sigri á Basel, vinnum alla leiki framm að jólum og klifrum upp í 4. Sætið, þar sem west ham og saints detta niður. Kaupum heimsklassa leikmann/menn í janúar sem liftir öllu liðinu, og höldum áfram góðu gengi út tímabilið. Endum þetta maraþon í 3. sæti og ekkert bull.
Mark my words
Á þessum tímapunkti í fyrra vorum við með samtals 16 mörk frá Suarez og Sturridge, 8 mörk hvor. Markahæstur á þessu tímabili er Raheem Sterling með 3 mörk en næst á eftir honum í skorun eru einhver þrjú sjálfsmörk. Sorglegt.
Var bara að velta fyrir mér, er verið að fara kaupa leikmann/leikmenn í janúar.
Ég held allavega ekki.
66halldor #31
Ég er nokkuð viss um að verði kaup í Janúar. Mikil pressa/fókus er búið að vera á Rodgers gagnvart leikmannakaupum undanfarið, þannig að ég held að hann gérir stórkaup. Þá er ég að hugsa um leikmenn eins og Reus eða Pedro.
Og vonandi varnasinnaðan miðjuman í stað Gerrards.
Þessi 15 ára gamli Normaður væri heldur ekki svo slæmt 🙂
Frábær pistill nafni, þú hittir sko sannarlega naglann á höfuðið. Það er margt sem maður átta sig ekki á t.d. kaup sumarsins í ljósi þess að liðið er í meistaradeild og nýbúið að spila sitt flottasta tímabil í mörg ár. Hvernig stendur á því að dýrasti maður sumarsins 25 milljón punda leikmaðurinn Lallana er ekki notaður í hverjum leik. Hvernig getur 20 milljón punda miðvörðurinn Lovren verið versti varnarmaður deildarinnar so far. Afhverju voru Balotelli og Lambert keyptir þegar augljóst er að þeir passa engan veginn inn í hugmyndafræði liðsins, í það minnsta ef miðað er við síðasta tímabil þ.e. pressa hátt, stutt spil, hlaup án bolta og sækja hratt á andstæðinginn.
Afherju ákveður Brendan ekki hver er hans besta vörn og spilar á henni leik eftir leik svipað og Chelskí er að gera, Mourinho breytir ekki öftustu 4 nema í neyð. Hvernig stendur á því að Liverpool getur ekki varist föstum leikatriðum á 3 tímabili BR.
Vonandi finnur Brendan lausn á þeim mörgu vandamálum sem blasa við honum annars verður tímabilið hjá Liverpool búið í janúar.
Jæja Sturridge byrjaður að æfa á fullu. Verið að tala um að hann gæti náð næsta deildarleik. Nú er bara að vona að hann haldi sér heilum í einhvern tíma. Sturridge og Balotelli upp á topp á móti Crystal Palace takk.
http://www.mbl.is/sport/enski/2014/11/12/sturridge_byrjadur_ad_aefa_a_fullu/
Ég er sammála öllu svartsýnistali hérna en verð samt að benda á einn punkt varðandi þessi leikmannakaup. Öll liðin sem þið eruð búin að bera saman við Liverpool hafa verið í meistaradeildinni í fleiri ár – sem þýðir að ekki voru þessi lið einungis með meiri breidd, heldur virkilega gæðabreidd. Nenni ekki að fara yfir öll liðin en Chelsea er skýrasta dæmið, þeir keyptu þrjá leikmenn á góða summu, bara quality ekkert quantity, en það er líka það sem þá vantar (eða lúxus).
Á síðasta tímabili gat Liverpool nánast bara gert eina skiptingu i hverjum leik því þeir höfðu engan annan og það var nánast bara í deildinni. Þeir keyrðu basicly á sama liðinu út allt tímabilið. Langbesti leikmaðurinn fór og við komin í meistaradeildina, hvað gera bændur? Annaðhvort kaupa þeir fáa gæðaleikmenn (enginn vill koma) og við hefðum ekki verið stakk búnir fyrir allar þessar keppnir eða fleiri leikmenn til að koma í manns stað en gæðin minni. Þeir þurfa breiddina en vilja gæðin svo þeir kaupa marga unga og efnilega leikmenn – þeir taka áhættu, áhættu sem þarf tíma til þess að sjá maximum uppskeru.
Það er gjörsamlega óþolandi að sjá menn rífa sig því Liverpool kaupi sér ekki bara breidd og gæði á einu bretti og allt sé að ganga eins og í ævintýri. Hvað ef þessi einstöku gæðakaup hefðu síðan meiðst? þá bara sama lið minus Suarez og enginn hefði skilið í Rodgers að kaupa ekki meiri breidd! Hefði hann keypt 28+ stöðuga miðlungsbreidd þá væru allir æfir því langtímavisionið sem allir eru búnir að rúnka sér yfir er flogið út um gluggann! Öll þessi wildcard sem BR er búinn að kaupa eiga að lofa góðu, ekki bara skv honum heldur nánast öllum öðrum sem þekkja til þeirra.
Liðið er að spila ömurlega, langt undir pari, ég vil sjá meiri takta frá þeim – en svona er áhættan, ómögulegt að segja hvenær uppskeran hefst en fólk mátti búast við þessu.
Varðandi þessa DM stöðu þá eigum við leikmann sem spilar þá stöðu mun betur en Gerrard og það er Lucas leiva nokkur, sem spilaði þessa stöðu allt framm í Febrúar og gerði það svo vel að menn urðu mjög áhyggjufullir þegar hann meiddist en Brendan Rodgers ákvað að setja Gerrard þar í staðinn til að leysa þau meiðsli.
Þetta er ekkert voðalega flókið stærðfræði dæmi, LUCAS í DM og gerrard þar fyrir framan þegar hann spilar og rodera honum með :Allen, Can og Henderson.
Frábær pistill og ég er sammála nánast hverju einasta orði í honum. Ég er farinn að halda að bæði leikmenn og þjálfari, án þess að viðurkenna það, hafi einfaldlega gefist upp þegar titillinn klúðraðist á síðasta tímabili. Það var fyrsta rothöggið og síðan kom næsta rothögg þegar Suarez fór. Þá misstu menn endanlega trúna á að geta unnið deildina.
Rodgers virðist ekki hafa nein svör við leikkerfum andstæðinga okkar, virkar hugmyndalaus og er orðinn “dull” ef svo má að orði komast. Það er nefnilega andstæðan við þann Rodgers sem stýrði liðinu á síðustu leiktíð. Í fyrra vissi maður aldrei hvort að Rodgers myndi stilla upp í tígul eða 4-3-3 og hvort að Coutinho eða Allen myndi starta. Það var aðeins í einum leik í fyrra sem ég man eftir að Rodgers hafi tapað taktíska einvíginu þegar Aston Villa mættu á Anfield og fram fór taktísk slátrun í fyrri hálfleik þar sem að Weimann var í skugganum hans Gerrard hverja einustu sekúndu. Í þeim leik gerði Rodgers breytingar í hálfleik sem færði Liverpool aftur yfirhöndina taktískt séð.
Á þessu tímabili hefur Rodgers aðeins tvisvar sinnum unnið taktískan sigur. Í 0-3 leiknum á White Hart Lane og fyrstu 50 mínúturnar á Etihad þar sem að liðið lék á alls oddi. Af hverju eru menn eins og Alan Pardew, Steve Bruce og Sam Allardyce allt í einu byrjaðir að líta út eins og taktískir snillingar gegn Rodgers? Eina mögulega útskýringin sem mér dettur í hug er að hann hafi ekki trú á verkefninu lengur. Tapaði titlinum á einstaklingsmistökum og missti besta leikmanninn sinn í sumar. Persónulega skil ég hann vel. Það er örugglega mjög erfitt að koma til baka eftir að hafa verið svona nálægt því að komast á spjöld sögunnar með Liverpool einungis til að sjá alla þína drauma fjúka út í vindinn þegar Gerrard rann.
Ég held að það nákvæmlega sama sé að hrjá Gerrard. Uppgjöf. Maður er búinn að sjá það hvernig hann hefur spilað í vetur. Hann hefur aldrei verið jafn lélegur. Það var átakanlegt að sjá Hazard labba framhjá honum trekk í trekk gegn Chelsea. Gerrard elskar þetta lið og vill ekkert meira en að lyfta bikarnum einu sinni en eftir að það tókst ekki á síðasta tímabili var hans eina von á deildartitli að Suarez myndi vera áfram. Maður getur talað um vonbrigði Rodgers á síðasta tímabili. Síðan getur maður margfaldað þau vonbrigði með googol og þá fær maður mögulega vonbrigði Gerrards eftir síðasta tímabil. Hef oft séð skrifað að Gerrard muni jafna sig á síðasta tímabili og koma tvíefldur til leiks. Mér finnst menn gleyma því að Gerrard er mannlegur, eins og hann sýndi þegar hann rann. Það að hann sé mannlegur gerir það margfalt erfiðara að koma til baka eftir svona atvik. Það þarf kraftaverk að gerast svo að Gerrard fái aftur trú á verkefninu og ég held að það sé ekki að fara gerast.
Auðvitað eru atriði eins og að geta ekki varist föstum leikatriðum og að sóknarmennirnir skori ekki neitt veigamikil. En þegar bæði stjórinn og fyrirliðinn, herra Liverpool, eru búnir að gefast upp, þá er ekki hægt að búast við neinum bætingum af hálfu liðsins.
Mín spá er sú að allt tímabilið verði svona ef að Rodgers nær sér ekki og tekur Gerrard ekki út úr liðinu. Rodgers verður að sýna að hann sé rétti maðurinn í verkið með því að prufa sig áfram með ný leikkerfi og nýja leikmenn þangað til við förum að ná réttum úrslitum. 4-3-3 er ekki að virka með núverandi leikmannahóp, sóknarleikurinn er fyrirsjáanlegur, vörnin míglekur og Gerrard getur ekki spilað að eilífu og það virðast allir vera búnir að átta sig á því nema Rodgers. Það er ömurlegt að segja þetta en svona er blákaldur veruleikinn, allavega eins og ég sé hann.
Það er reyndar mjög algengt að stórlið lenda í stögli eftir að stórstjarna yfirgefur félagið og nýjir leikmenn eru fengnir til að fylla skarð hennar. Góðu fréttinar eru að það á ekki að vera skortur á gæðum um þessar mundir hjá Liverpool heldur virðist vandinn liggja í því að þeir leikmenn sem voru keyptir hafa ekki aðlagast aðstæðum nægjanlega vel og því ætti leikur liðsins að batna sjálfkrafa ef leikmenn á borð við Lovren, Lambert, Balotelli, Lallana taka upp á því að fara að spila leiki samkvæmt eðlilegri getu.
Það sem ég er helst gagnríninn á Rodgers er að hann virðist ekki aðlaga leikstílinn að þeim framherjum sem við erum með í boði hverju sinni. T.d eru Balotelli og lambert eru ekki með sama sprengikraftinn og Sturridge og Suares og verður því aðlaga leikstílinn eftir þeirra eiginleikum á meðan Sturridge er fjarri góðu gamni.
Sælt veri fólkið smá off topic en eru menn bjartsýnir á þennan origi, hann er með hörmulegt record með lille 6 mörk í 40 leikjum í töluvert veikari deild en ensku úrvalsdeildinni, Tökum sem dæmi “super” mario var með 26 mörk í 43 leikjum með ac milan sem er fjórfalt betri tölfræði og meira að segja lord bendter er með mun betri tölfræði ég gæti talið endalaust áfram martin skrtel skoraði 7 í fyrra í 36 leikjum !! ég veit að náunginn er fæddur árið 1995 en samt sem áður þá er þetta enginn úrvalslausn
#39
Origi er reyndar með 9 mörk í 53 leikjum fyrir Lille í öllum keppnum en það gerir um 0,17 mörk í leik.
Af þeim 53 leikjum hefur hann aðeins byrjað inn á í 25.
Tímabilið 14/15 er hann búinn að byrja 13 leiki og koma inn á í 3 fyrir Lille og skora í þeim 5 mörk og leggja up 1, en það gerir 0,31 mark í leik.
Umtalsverð bæting á drengnum enda keyptur fyrir framtíðina og enginn tilviljun að hann sé eitt ár enn hjá Lille að bæta sig enn frekar áður en hann kemur til Liverpool.
Ég horfði á landsleikinn í gær og hann var mjög kröftugur og áræðin, leist vel á piltinn.
#40 já en 0.17 -0.30 er skelfileg tölfræði miðað við framherja en flott að hann sé að bæta sig strákurinn, finnst bara oft margir hérna vera að tala um að fá origi strax til okkar í janúar sé bara brilliant lausn til að losna við markaþurðina 😉
Sælir
Ég er Newcastle maður vara svo allir séu með það á hreinu.
Mín skoðun á BR er súa að hann VAR frábær á síðasta tímabili með tígulmiðju leikkerfið, en í dag er hann með eitthvað vonlaust leikkerfi þar sem hann hefur einn upp á topp og sá maður heitir Balotelli, sem er eitthver latasti sóknarmaður í sögunni. Mér finnst BR tala í viðtölum eins og hann sé að stýra Burnley. Alan Pardrew er ekki einusinni jafn sáttur og BR þegar hann gerir jafntefli gegn eitthverju 8.sætis liði
Alan Pardrew hendir alltaf bara í solid leikerfi með powerfull leikmenn á kanntinum og svo einn skapandi á miðjunni. Hann er með varnarmenn sem eru tilbúnir í að deyja fyrir liðið og háxnann og sterkann markvörð sem hirðir allt!
Eins gott að Liverpool sé ekki að fara að krækja í höfðingja Pardrew
É reyndar las í The Times að Origi væri ekkert ósvipaður Balotelli. Þar var gengið út frá leik Lille og Everton. Hann væri ekki vinnusamur og biði frekar eftir tækifærunum heldur en að reyna að skapa þau. Sel það ekki dýrara en é keypti.
Af hverju eru þið alltaf að pæla í Reus? hvaða líkur eru á því að hann komi, hann er að fara í stórlið enda einn albesti leikmaður heims…
Hann er ekki að fara til Liverpool
Takk fyrir góðan pistill.
Sjálfstraustið í liðinu er ekkert því framherjarnir eru að klikka og BR veit ekki hvernig hann á að redda því.
Alltaf sama sagan Balló einan upp á topp og ekkert gerist.
Svo gerðu menn lítið úr því fyrir tímabilið að ég vildi fá Tevez til að bjarga málum meðan við finndum framtíðar mann.
Fokk! það vildi ég að hann væri hjá okkur núna.
Las snögglega yfir eina grein áðan um að Balotelli sé á einhverskonar láni hjá okkur ?(einhvernveginn í gegnum þriðja aðila) Hafiði eitthvað heyrt um þetta?
Þráðrán eins og maður orðar það: Var að horfa á vináttuleik Íslands og Belgiu, hef aldrei áður fagnað því að fá mark á okkur frá mótherjanum, en í gær gerðist það, Origi nokkur kom og sýndi okkur poolurunum afhverju við vildum fá hann til okkar. Og hann á bara eftir að bæta sig, eflaust hefði markmaðurinn okkur átt að gera betur en skotið var bara nokkuð flott hjá honum fyrir því!
#45 ertu að tala um sama Tevez og neitaði að spila fyrir City og fór í sjálfgefið frí til að vera nálægt fjölskyldu sinni? Hann er góður í fifa, er með hann í Ultimate liðinu mínu þar, en hann kemur ekki aftur til Englands.
#48 jebb ég er að tala um hann. 25 mörk í 36 leikjum fyrir Juve. BR ætti að getað dílað við hann eins og Balotelli. Duglegur skorari. 😀
Nr. 42
Hjartanlega sammála þér. Sko varðandi þetta
Annars ætti Steini að vera með nýjan pistil í ofninum sem kemur væntanlga inn á næstunni.
Haldið’ann Kolo Toure hafi ekki verið að skora fyrir Fílabeinsströndina í undankeppni Afríku-keppninnar í dag.
Sælir Liverpool félagar við erum hérna góður hópur vinna sem höfum haft það til siðs. Að halda einsskonar kalla kvöld þar sem við höfum verið með bingó og uppboð á ýmsum hlutum sem okkur hefur verið lagt til af fyrirtækjum og einstaklingum. höfum við látið ágóðan renna óskertan til Barna spítala hringsins. Þar sem nokkrir okkar þekkja það af eigin reynslu að hafa þurft að eyða löngum stundum . Og fengið að upplifa hversu frábær þessi stofnun og starfsfólk þess í raun er. höfum við haldið þessu við sem þakklætisvot fyrir okkar nánustu. En tveimur okkar langar að reyna bæta við leikjatölvu og tilheyrandi upp á stofugang. Þanning að okkur langar til að reyna selja saman 10 bjórkort sem við fengum í vinning. Þau hljóða upp á 10 stóra af krana af eigin vali á heimavellinum okkar Spot og er því hvert kort að verðmæti allt upp í 10-12000 kall miðað við almenna verðið á barnum þar í dag. Svo endilega þeir sem vilja leggja okkur lið mega senda mér póst á karlkopur@outlook.com með magni og hvað þeir séu til í að borga fyrir miðann. Er ekki í nokkrum vafa um að mínir menn verða ekki lengi að losa þetta kær kveðja Karl og Alvar
Mér finnst menn gagnrýna BR of mikið fyrir leikmannakaupin. Skoðum hvaða leikmenn hann vildi kaupa en fékk ekki bæði vegna þess að þeir vildu ekki koma og fjárveiting fékkst ekki. Þessir leikmenn eru Konoplyanka, Isco Pedro,Costa,Salah,Sanchez og örugglega vantar hér marga fleiri í sama gæðaflokki + þá sem hafa farið.
Ég held að menn verði að taka nokkur skref til baka og anda aðeins.
Fabregas, Costa, Sanchez, Di Maria ofl. komu ekki til okkar! Það er bara staðreynd. Ég held að allir toppleikmenn hefðu verið smeykir að ganga í lið sem hefur verið fyrir neðan 4. sæti í fimm ár og loks þegar eitt tímabil gekk vel er BESTI leikmaðurinn seldur!!!
Mér er minnistæður sá tími þegar við seldum Torres um árið. Mikið myrkur hvíldi yfir liðinu þá og kannski eina ljósið að keyptur hafði verið spennandi leikmaður sem ég hélt að myndi spila með Torres upphaflega. Sá leikmaður var keyptur í Janúar glugganum og spilaði 13 leiki og skoraði 4 mörk. Ég man að ég var fyrir pínu vonbrigðum með kaupin undir lok tímabilsins. Næsta tímabil var heldur engin flugeldasýning eða 11 mörk í deild og 6 í bikar. Á þessu tímabili var hann einnig dæmdur í 8 leikja bann og ég man eftir að hafa hugsað með mér “kannski er þessi Suarez ekki nógu góður”… ótrúlegt svona eftirá að hyggja því tímabilið eftir það fóru hjólin að snúast hjá leikmanninum og næsta tímabil þar á eftir var hann orðinn einn allra besti framherji í heiminum!!!
Þessi saga ætti að benda mönnum á að nýjir leikmenn “Detta” bara ekki inn í liðin og verða bestir!! Það tekur alltaf einhvern tíma fyrir menn að aðlagast og finna sig í liðinu og þá sérstaklega þegar miklar breytingar eru gerðar á liðinu.
Staðreyndin er sú að við erum með eftirfarandi sóknarlínu menn í boði:
Sturridge (25) – 20 til 30 marka maður ef hann er heill
Sterling (19) – Heitasta efni enska boltans og bara eftir að vera betri
Coutinho (22) – Rosalega skemmtilegur og efnilegur leikmaður
Balotelli (24) – Alls ekki byrjað vel en allir vita hvað í honum býr
Lallana (26) – Mjög fær og teknískur leikmaður sem heillaði rosalega síðasta tímabil
Markovic (20) – Einn af efnilegustu kanntmönnum í Evrópu
Rosalega ungur og efnilegur hópur. Ef við bætist einn alvöru og þá meina ég ALVÖRU framherji sem er svona Sturridge/Suarez/Sanchez týpa þá er þetta mjög flottur hópur.
Þessi hópur ætti alltaf að skora mikið af mörkum. Það er síðan uppúr Brendan komið að gera eitthvað úr þessum hóp. Hann stendur og fellur með því.
Vildi bara snúa þessu í aðeins jákvæðari tóna 🙂