Hvað þarf Liverpool helst að kaupa í sumar er stóra spurningin um þessar mundir á eftir vangaveltum um það hvar liðið mun lenda í deildinni auðvitað. Allir helstu fjölmiðlar Englands með góð sambönd við félagið sögðu frá því í síðustu viku að Klopp hefði að öllum líkindum úr £200m að moða á leikmannamarkaðnum í sumar. Eins hefur það legið fyrir síðan í haust að stækka þyrfti hópinn aftur nú þegar þáttaka í Evrópukeppni er aftur á dagskrá. Eins þarf að kaupa menn í staðin fyrir þá sem fara í sumar og þeir verða nokkrir.
Sóknarmenn
Fyrirfram hefði ég sagt að hæsta kaupverðið ætti að fara í mörk sem klára litlu liðin. Sóknarmann sem gerir það sama og Costa, Kane, Lukaku, Zlatan og jafnvel Giroud eru að gera. Þetta stenst hinsvegar enga skoðun þegar maður rýnir í tölurnar fyrir þetta tímabil. Heilt yfir er Liverpool að skora meira en nóg í leikjunum gegn liðunum í neðsta þriðjungi töflunnar eða 33 mörk í 13 leikjum. Liverpool er með öðrum orðum að skora 2,5 mörk að meðaltali í leik gegn neðstu liðum deildarinnar en hefur aðeins unnið sjö af þessum leikum. Þessi lið hafa skorað 21 mark á móti.
Sóknarleikurinn er ekki vandamál hjá liði sem skorar rúmlega 2,5 mörk í leik, það segir sig alveg sjálft. Heilt yfir allt tímabilið er liðið að skora 2,13 mörk í leik eða mest allra. Liverpool er bara að gera þetta öðruvísi en hin liðin. Það er enginn 20+ marka maður að skila okkur í baráttu á toppnum heldur er markaskorun að dreifast vel á marga.
Auðvitað viljum við öll þennan “alvöru” sóknarmann sem skorar reglulega en hann er alls ekki nauðsynlegur á meðan liðið skorar eins og það er að gera í vetur. Líklega er þessi 20 marka maður nú þegar á mála hjá Liverpool. Hann heitir Daniel Sturridge en hentar bara leikstíl liðsins ekki nógu vel og er þar fyrir utan alltaf meiddur. Eins væri líklega hægt að fá nálægt 20 mörkum frá Origi væri hann að spila alla leiki og taka vítin. Ástæðan fyrir því að Klopp leggur ekki ofuráherslu á þessa leikmenn er sú að það kæmi bara niður á sóknarleik liðsins í heild að reyna spila upp á þessa menn.
Það er ekki eins og Liverpool sé langt á eftir öðrum liðum hvað þetta varðar.
This may surprise some.
Players with 20 goals or more 16/17
Serie A (4)
Bundesliga (3)
La Liga (2)
Ligue 1 (2)
Premier League (1)— Adam Summerton (@adamsummerton) 4 April 2017
Ef við skoðum markaskorun í deildinni
Mané er með 13 mörk og 5 stoðsendingar
Firmino er með 10 mörk og 6 stoðsendingar og stefnir hratt í að verða með 10+ í báðum flokkum.
Coutinho er með 9 mörk og 6 stoðsendingar og stefnir líka í að ná 10+ í báðum flokkum þrátt fyrir að hafa spilað um 800 mínútum minna.
Lallana er með 7 mörk og 7 stoðsendingar.
Milner er með 7 mörk úr vítum og 3 stoðsendingar
Origi er með 6 mörk og 3 stoðsendingar á aðeins þúsund mínútum. Hann er með 10 mörk í öllum keppnum. Það er þátttaka í marki á 121 mínútna fresti. Samt eru hellingur af stuðningsmönnum ekki með þolinmæði fyrir honum!
Wijnaldum er með 5 mörk og 6 stoðsendingar.
Can er með 4 mörk og tvær stoðsendingar.
Henderson er með 1 mark og 4 stoðsendingar.
Sturridge er bara með 2 mörk og eina stoðsendingu í 565 mínútum af fótbolta í vetur. Heilt yfir í öllum keppnum er hann með 6 mörk og 2 stoðsendingar á innan við 1000 mínútum af fótbolta sem gerir einnig þáttöku í marki á 121 mínútna fresti.
Kaup á old school sóknarmanni eru því að mínu mati líklega ekki efst á listanum í sumar. Firmino er líklega mikilvægari fyrir liðið í heild með 10-15 mörk og svipað af stoðsendingum heldur en 25 marka sóknarmaður.
Engu að síður held ég að Klopp kaupi eins og einn sóknarmann. Sturridge þarf að koma sínum ferli af stað aftur og það gerir hann ekki hjá Liverpool, eini sénsinn að hann verði áfram er ef ekkert lið leggur í launapakkann hans. Hann hefur spilað mínútufölda sem samsvarar rúmlega sex leikjum í vetur sem er svipað og undanfarin tvö tímabil.
Eins þarf Liverpool líklega að fylla skarð Danny Ings, fjarvera hans hefur bitið okkur illa á vissum köflum þessa tímabils og hefur hann núna verið meiddur meira og minna í yfir tvö tímabil. Hann fær ekki þann spilatíma hjá Liverpool sem hann þarf til að koma sér aftur í gang. Nógu er nú stökkið stórt að koma til Liverpool frá Burnley.
Sturridge og Ings hafa nýst Liverpool hrikalega illa undanfarin 2-3 ár og félagið hefur ekki efni á einu tímabili til viðbótar með þá á sjúkrabekknum. Þurfum sambærileg gæði og þessir leikmenn bjóða uppá til staðar og heila heilsu.
Liverpool ætti að eiga séns á fjölmörgum ólíkum mönnum fari þeir á markaðinn. Til gamans skoðaði ég aðeins hópana hjá helstu liðum Evrópu og fann nokkur dæmi um leikmenn sem hægt væri að horfa til. Mis raunhæft auðvitað.
Real Madríd er reglulega með heimsklassa leikmenn sem einhverra hluta vegna komast ekki að hjá þeim. Alvaro Morata er mögulega svona dæmi, hann er 24 ára en hefur spilað tæplega 1000 mínútur í vetur. Þar er leikmaður sem á að vera gera miklu stærri hluti á þessu stigi ferilsins. Hann er samt með 11 mörk í vetur og 2 stoðsendingar.
Timo Werner er 21 árs Þjóðverji sem spilar með RB Leipzig, hann hefur skorað 15 mörk í vetur og lagt upp fjögur. Ég veit ekkert um leikmanninn en þetta er fín tölfræði, FSG aldur og leikmaður sem spilar fyrir lið sem Liverpool ætti að geta keypt leikmenn frá.
Lacazette væri alvöru statement frá klúbbnum rétt eins og Morata. Frakkinn myndi líklega passa mikið betur inn í leikstíl Klopp. Lyon er ekki að fara í Meistaradeildina á næsta tímabili og það er ljóst að þessi 25 ára leikmaður verður einn heitasti bitinn á markaðnum í sumar. Hann er með 24 mörk og 2 stoðsendingar það sem af er þessu tímabili.
Sá sem ég væri hvað mest spenntur fyrir og ætti alveg að vera séns er Marco Icardi. Hann er 24 ára að spila fyrir Inter sem hefur ekkert getað í vetur og verður ekki í Meistaradeildinni á næsta ári. hann er með 20 mörk og átta stoðsendingar það sem af er ári.
Marco Reus er eins og venjulega spennandi nafn þó mögulega sé hann farinn að dala vegna meiðsla. Hann hefur bara spilað 760 mínútur í vetur. André Silva hjá Porto er 21 árs framherji með 15 mörk og 5 stoðsendingar í vetur. Sardar Azmoun er 22 ára og var orðaður við okkur (og fleiri lið) í janúar. Hann hefur verið góður í Europa League
Þetta voru bara sjö hugmyndir um leikmenn sem ég tel að Liverpool ætti alveg að eiga séns í vilji þeir á annað borð fá þá.
Kantmenn
Aðalmálið sóknarlega næsta sumar er mikið frekar annar Mané og þar hugsa ég að Liverpool sé helst til í að setja stóru fjárhæðirnar (ekki samt £35m fyrir Ox-Chamberlain hjá Arsenal). Mögulega yrði bara keypt einn vængmann ásamt því að einhver af U23 ára liðinu fái séns í aðalliðinu þegar leikjaálagið fer að þéttast.
Hvað eigum við fyrir
Harry Wilson hefur verið að bæði banka og sparka á dyrnar hjá aðalliðinu í vetur. Hann er aðeins 19 ára og því að spila móti öllu eldri leikmönnum allajafna. Hann er engu að síður fyrirliði U23 ára liðsins. Hann er með frábæran vinstri fót en spilar á hægri kantinum þar sem hann hefur skorað 27 mörk og lagt annað eins upp og er á góðri leið með að ná 30 mörkum í vetur. Hann er uppalinn hjá félaginu frá unga aldri og ef hann fær ekki séns fljótlega skil ég hreinlega ekki stefnu Liverpool og því síður tilgang U23 ára liðsins. Hann er einfaldlega eitt mesta efnið í boltanum í sínum aldursflokki. Það var mikið meira gert úr Pacheco, Suso og Sinclair þátt fyrir að þeir hafi spilað fyrir U21 árs liðið og afrakað helmingi minna þar en Wilson er að gera í U23 ára bolta.
Sheyi Ojo var fyrir tímabilið einhver sem við horfðum töluvert til sem valkostar á kantinum. Hann hefur verið í meiðslum í vetur en ekki komist í hóp eftir að hann jafnaði sig á þeim. Wilson er líklega kominn langt framúr honum núna. Auk hans eru Markovic og Kent ennþá á mála hjá Liverpool en þeir verða allir að teljast ólíklegir til að eiga mikla framtíð hjá klúbbnum.
Ben Woodburn er ekki hreinn kantur en hann hefur verið á undan þessum strákum undanfarið og byrjaði sinn fyrsta deildarleik í þessari viku 17 ára gamall.
Klopp mun að ég tel hafa þessa stráka í huga þegar hann fer á leikmannamarkaðinn í sumar. Þeir ættu að spara honum töluverðar fjárhæðir sem þá gætu nýst í færri og betri leikmenn. Það er engu að síður gríðarlega erfitt fyrir þessa ungu stráka að fá sénsinn í Úrvalsdeildinni, það sjáum við ágætlega hérna:
Total league appearances by teenagers so far in 2016/17:
Ligue 1 – 546
Serie A – 284
Bundesliga – 284
La Liga – 271
Premier League – 130— OptaJoe (@OptaJoe) 7 April 2017
Hvaða leikmenn á Liverpool möguleika á að kaupa.
Það eru öllu fleiri valkostir í boði hvað kantmenn varðar þó skilin milli kantmanns og framherja séu alltaf að verða óljósari.
Efstur á lista Liverpool er klárlega Julien Brandt tvítugur kantmaður Leverkusen. Leverkusen hefur ekkert getað í vetur og ætti Brandt því alveg að vera falur þaðan en vandamálið er að Liverpool er ekkert eitt um að vilja fá hann. FC Bayern var sagt vera búið að kaupa hann fyrir stuttu sem var síðar dregið til baka. Þetta er samt alls ekkert fullmótaður leikmaður ennþá, hann er ári eldri en Wilson.
Iñaki Williams er annar sem var mikið orðaður við Liverpool og einhver sem ég væri meira til í að fá. Hann spilar fyrir Athletic Bilbao sem er ekki á leið í Meistaradeildina á næsta ári. Það er klárlega kominn tími á næsta skref fyrir Williams en mögulega er það vandamál að hann er fæddur í Bilbao og það er allt annað en auðvelt að kaupa uppalda leikmenn þaðan. Bilbao liðið í dag inniheldur aðeins einn erlendan leikmann, það er miðvörðurinn Laporte sem er frakki ættaður úr Baska héröðunum.
Riyad Mahrez verður líklega á faraldsfæti í sumar og myndi styrkja lið Liverpool töluvert. Hann er 26 ára og núna með reynslu af því að vinna deildina.
Kingsley Coman er annar leikmaður hjá einum af ofurklúbbunum sem Liverpool ætti að skoða. Hann er 20 ára og klárlega eitt mesta efnið í boltanum en hefur ekki komist mikið í liðið hjá Bayern. Hann hefur bara spilað 622 mínútur. Mögulega hefur hann verið meiddur en ég held að hann sé bara á eftir gömlu jálkunum í liðið. Ef að þeir eru að kaupa Brandt líka væri enn frekar tilefni.
Max Meyer hjá Schalke er einn af þeim sem hefur verið orðaður við Liverpool. Kannski ekki mest spennandi nafnið og hann hefur lítið gert í vetur en á framtíðina fyrir sér enda aðeins 21 árs.
Aðrir sem Liverpool ætti alveg aðeins möguleika á væru t.a.m. Javier Pastore hjá PSG, hann hefur lítið spilað þar í vetur en er kannski ekki eins pennandi kostur og hann var áður. Lorenzo Insigne væri hinsvegar mjög spennandi leikmaður sem hefur verið mjög góður í vetur. Quincy Promes var mikið orðaður við okkur í janúar, hann hefur verið góður í Rússlandi í vetur. Wilfried Zaha er á góðri leið aftur með að verða sá leikmaður sem United keypti á sínum tíma. Hann væri meira spennandi kostur en Ox-Chamberlain ef kaupa á Englending. André Schurrle er ennþá aðeins 26 ára. Hann er hreinræktaður vinstri kantur, hávaxinn og á mála hjá stóru liði þar sem hann fær lítið að spila. Yacine Brahimi hjá Porto var orðaður við Liverpool í fyrrasumar, reyndar fyrir einhverja fáránlega fjárhæð en mögulega er hann ennþá á listanum.
Eins eru svo ungir leikmenn sem gætu heillað eins og Gabriel Barbosa hjá Inter sem var orðaður við okkur í janúar, Demarai Gray hjá Leicester eða Breel Embolo hjá Schalke. Enginn af þeim er þó tilbúinn í Liverpool strax og myndu líklega ekki styrkja liðið mikið á næsta tímabili.
Nöfnin sem ég tók sem dæmi hér eru bara brotabrot af markaðnum henta alls ekki allir leikstíl Liverpool. En vonandi verður stefnan að kaupa einn Williams á þá fjárhæð sem þarf rétt eins og gert var með Mané í fyrra frekar en að kaupa einn Downing, einn Assaidi og fá Moses á láni og vona að einhver af þeim virki.
Þetta verða líklega 2-3 pistlar fram að sumri enda varnarleikurinn mikið meira aðkallandi vandamál.
Flottur pistill!
Þetta yrði flottur hópur fyrir næsta season að mínu mati:
Markmenn:
Simon Mignolet
Loris Karius
Danny Ward
Varnarmenn:
Trent Alexander-Arnold
Nathaniel Clyne
Dejan Lovren
Joel Matip
Virgil Van Dijk (50m pund)
Joe Gomez
Ragnar Klavan
James Milner
Alberto Moreno
NÝR VINNSTRI BAKVÖRÐUR (10-20m pund)
Miðjumenn:
Jordan Henderson
Emre Can
Adam Lallana
Georginio Winjaldum
Naby Keita (30m pund)
Marko Grujic
Lucas Leiva
Sóknarmenn:
Sadio Mane
Roberto Firmino
Philippe Coutinho
Oxlade-Chamberlain (35m pund)
Julian Brandt (25m pund)
Divok Origi
Selja:
Daniel Sturrigde (20m pund)
Kevin Stewart (5-8m pund)
Mamadou Sakho (25-30m pund)
Auðvitað eru þessar tölur ekkert heilagar en bara svona til viðmiðunar þá erum við að tala um að eyða 150-160m pundum og selja fyrir 50-58m pund.
Þetta lið í meistardeildinni með Klopp sem þjálfara yrði skemmtilegt season!
Ahhhh…skemmtilegur pistill Einar Matthías.
Gaman að velta þessu fyrir sér og líka fínt komment hjá Lúðvíki Kemp.
Auðvitað er ekki hægt að vera sammála, en hvort FSG fari Moses/Assaidi/Downing leiðina eða bæti einfaldlega við 1-2 mjög sterkum leikmönnum verður fróðlegt að sjá. Þótt þetta hafi augljóslega verið djók þá er þetta samt “the Liverpool way” síðustu árin og í sjálfu sér alveg við þessu að búast.
Eitt atriði sem þú nefnir Einar, og ég er ósammála, er að sóknarleikurinn hafi gengið vel í vetur. Hann hefur á köflum gengið mjög vel en í desember og janúar kom mikið hikst sem gerði út um vonir okkar á titlinum. Á þeim kafla leit út fyrir að liðið ætti mjög erfitt í sóknarleiknum ef einhvern af Lallana, Coutinho, Mane eða Firmino vantaði. Það sem þarf er því fleiri leikmenn af þessu kalíberi til að taka ábyrgðina á sóknarleiknum af herðum þessara fjögurra. Leikmann sem getur gert tilkall til byrjunarliðssætis, leikmann sem Klopp á erfitt með að hafa utan byrjunarliðs. Sóknarmann, ekki striker, kannski einhvern sem getur leyst miðjuna líka. Skapandi leikmaður. Þið þekkið týpuna. Ég veit ekki hvort einhver af þessum nöfnum sem þú nefnir séu þessi týpa. Helst vildi ég tvo svona.
Nöfnin sem þú nefnir eru mörg spennandi og í anda stefnu FSG að kaupa unga og efnilega leikmenn sem eru þó með mikla reynslu miðað við aldur. Ég sé fram á að Sturridge og Ings verði ekki hjá liðinu næsta vetur, mögulega vill Origi líka fara þar sem honum hefur ekki tekist að stíga upp á næsta þrep.
Þannig að sóknarlína Liverpool næsta vetur verður vonandi einhvern veginn svona:
Coutinho, Firmino, Mane, Coman?, Werner?, Wilson, Woodburn, Ojo.
Þá eru komnir 5 “senior” (samt ungir) og spennandi leikmenn auk 2-3 ungra sem geta vel koverað þessar stöður. Með svona uppleggi ætti varla að koma upp leikur þar sem við værum í vandræðum með mönnun þrátt fyrir mikið leikjaálag og meiðsli. Það er ekki víst að sóknarleikurinn myndi verða mikið betri en hópurinn væri mun betri að takast á við skakkaföll. Því þegar við stillum upp Coutinho, Firmino, Mané og Lallana þá eru fáar varnir sem standast þeim snúning.
Takk fyrir þennan pistil svo og podcastið hjá ykkur um daginn. Um að gera að ræða af yfirvegun um hlutina og fara yfir stöðuna eins og hún er. Ef liðið getur skorað 2+ mörk að jafnaði í leik þá þurfum við ekki sóknarmann eða -menn. Helst þurfa þó þessir sóknarmenn að vera í heilu lagi amk kosti megnið af tímabilinu. Held að Firmino og Mane geti verið stöðugir í 15+ mörkum jafnvel vel yfir það. Vonandi verður ekki lagt púður í Oxelade-Chamberlain því við höfum ekkert með fleiri meiðslapésa að gera. Hverjir fara svo er líka spurning. Ef Couthino fer þurfum við mann af svipuðu kaliberi. Hvernig er svo staðan á Lucas, Sturridge, Moreno og Klaven. Einhverjir í liðinu verða seldir, eða látnir fara, það er pottþétt. Næsti vetur gæti verið með 10+ fleiri leikjum en í vetur og einhverntímann hlýtur Liverpool að verða heppið með lítil meiðsli.
Ludvik; er hægt að selja Sturridge á 20 millur í dag?
Sælir félagar
Takk fyrir pistilinn Einar Matthías fróðlegar og skemmtilegar pælingar og ég hlakka til hinna pislanna sem eru á leiðinni. Þar eikna ég með að Einar Matthías taki fyrir mögulega varnarmenn, mogulega miðjumenn og það annað sem verður á döfinni í framtíðinni.
Það kemur fram í slúðri að Barca sé komið í alvöru við ræður vil LFC um kaup á Coutinho. Það er lítið fagnaðarefni og ef LFC selur hann verður verðmiðinn að vera 100+ millur. Miðað við verðið á Pogba ætti Kúturinn að vera ca. 30 millum dýrari. (mitt mat). Hitt er svo annað að auðvitað á ekki að selja leikmanninn. Hann er í reynd ómetanlegur.
Annað sem kemur fram í slúðri er að Klopp segir að CP hafi enga klásúlu til að byggja á kauprétt á Sakho. Mér finnst það benda til að Klopp sé amk. að hugsa um að taka hann til baka. Varnarleikurinn hefur verið höfuðverkur liðsins í nokkur ár og ótrúlegt hvað það gengur ílla að byggja upp sterka vörn innan þess leikstíls sem Klopp spilar. Það hlýtur að vera hluti af leikskipulaginu og Klopp hlýtur að hafa svör við því sem líklega kosta töluverða peninga.
En hvað sem öllum pælingum líður þá eru leikirnir tveir á sunnudaginn líklega það sem ræður úrslitum um hvaða menn við kaupum og hvaða menn við eigum möguleika á að kaupa. Takist okkur að vinna WBA og MU tapa eða gerir jafntefli vil Chelsea þá er LFC komið með aðra hendina á 3. til 4. sæti. Þá aukast möguleikar á leikmannamarkaði til muna. En sem sagt ég hlakka til næstu pistla.
Það er nú þannig
YNWA
Held að það sé engin FSG leið lengur. Þeir spyrja bara Klopp og hann ræður. Hver myndi ekki gera það!???
Það þarf að koma alvarlega góður leikmaður inn til að slá út Coutinho – Firmino – Mane
Ég held og vona að þeir þrír byrji næsta tímabil, þeir geta slátrað hverjum sem er. Ég gæti trúað að Klopp reyni að kaupa einhvern svipaðan leikmann og þeir, þ.e.a.s. einhvern sem getur spilað, sólað og spilað í hvaða stöðu sem er. Við erum með Lallana og Origi einna helst að leysa af frammi eins og er, Gini W. hefur sömuleiðis oft spilað frammi líka. En trixið verður að fá einhvern sem er tilbúinn að verma bekkinn talsvert en er nógu góður. Nokkuð vandmeðfarin lína.
Væri alveg til í einn Griezmann 🙂 höfum nú áður keypt einn ágætan frá Atletico þannig við höfum númerið
Skemmtileg þessi Origi tölfræði, við nánari skoðun kemur einnig fram að í þeim deildarleikjum sem hann byrjar er hann með 5 mörk og 3 stoðsendingar, alls ekki slæmt fyrir leikmann sem verður 22 ára í næstu viku! 🙂
Ég held að það skipti mjög miklu máli hvort við lendum í 3. eða 4. sæti ef við náum í meistaradeildina.
Ef við förum í undankeppnina þá vilja eigendur líklega bíða og sjá áður en stór kaup fara í gegn. Sem eyðileggur fyrir undirbúningstímabilinu og mögulega missum við af stærstu bitunum sem fara fyrst.
Sælir félagar
Ég vona að mér verði fyrirgefið en ég skil ekki athugasemd #9. Það er erfitt að vera svona vitlaus en þetta er bara svona.
Það er nú þannig
YNWA