Liverpool liðið núna minnir svolítið á Spice boys liðið hans Roy Evans sem var frábærlega mannað fram á við en féll á varnarleiknum. Ef eitthvað er var varnarleikurinn aðeins betri þá og er Nei Ruddock t.a.m. með betri tölfræði varnarlega en Lovren og Sakho núna. Vörnin er ca. á pari við tímabilin tvö (´97-´99) þegar James var í marki með Bjorn Tore-Kvarme og Phil Babb fyrir framan sig. Liðið er að skora töluvert á móti á þessu tímabili rétt eins og liðið gerði undir lok síðustu aldar en ekki nærri því nóg til að það dugi. Sókn vinnur leiki, vörn vinnur titla. Það er millivegur á þessu en þetta á ennþá við.
Klopp hefur alls ekki fundið jafnvægi milli varnar-og sóknarleiks liðsins. Ástæðan er ekki svo einföld að varnarmenn liðsins séu einfaldlega ekki nógu góðir, margir þeirra eru að spila hlutverk sem hentar þeim bara ekki vel. Ef að þú skilur miðverði eins og Sakho, Lovren, Skrtel, Carragher o.s.frv. eftir berskjaldaða gegn áhlaupum er engin tilviljun að þeir gera óvenjumörg ljót varnarmistök sem láta þá líta hræðilega út. Sakho er eins og klettur núna hjá Palace þar sem hann er nánast að bjarga þeim frá falli í Sam Allardyce fótbolta með hjálparvörn í allar áttir. Lovren var frábær hjá Southamton sem spilaði engu orkuminni fótbolta en Liverpool en alltaf með tvo varnartengiliði til að verja vörnina. Báðir voru keyptir á metfé til Liverpool.
Ef að þú leggur bakvörðunum fyrir að spila meira sem kantmenn heldur en varnarmenn en hefur engan alvöru varnartengilið til að hreinsa upp fyrir þá er engin furða að þeir skilji oft eftir svæði sem kostar hættulegar sóknir þegar liðið missir boltann. Allir andstæðingar Liverpool leggja upp með að herja á þennan veika blett liðsins og hvorki Clyne og Milner hafa bætt nokkrum sköpuðum hlut við varnarleik Moreno frá því í fyrra. Liðið fær á sig jafn mörg mörk og það er oftar en ekki lagt upp með að sækja á bakverðina og plássið sem þeir skilja eftir.
Aðalvandamál varnarinnar er samt óstöðugleikinn. Liðið hefur af og til sýnt að það er kannski ekki svo langt í það að þetta jafnvægi finnist milli varnar og sóknar. En gjörsamlega alltaf þegar slík bjartsýni grípur mann eitt augnablik er hægt að bóka að einn af fjörum öftustu í kjarna varnarinnar verður fjarverandi í næsta leik (markmaður, miðverðir eða varnartengiliður). Það hvílir bölvun á stöðu varnartengiliðs hjá Liverpool og líklega hefur sú bölvun smitast í miðvarðastöðurnar.
Miðvarðaparið
Klopp fór inn í þetta tímabil með gríðarlega þunnan hóp, sérstaklega varnarlega og hann hefur bara heldur betur fengið það í smettið. Matip er á sínu fyrsta tímabili og krafan var að hann kæmi engu að síður beint inn í liðið til að mynda miðvarðapar með eina alvöru klassa miðverði félagsins sem velkominn var á æfingar. Klavan er uppfyllingarefni líkt og öll lið hafa í sínum röðum. Joe Gomez er unglingur með enga reynslu og búinn að vera meiddur í meira en ár og Lucas Leiva er ekki miðvörður, hann er ennþá meira til vara en Klavan. Dejan Lovren og Joel Matip þurftu báðir að vera 34+ leikja menn í deildarleikjum á þessu tímabili og við töluðum ítrekað um þetta í sumar.
Núna 33. umferðum seinna er staðan sú að þeir hafa spilað 14 leiki saman í vörninni og í aðeins 12 leikjum hafa þeir báðir spilað allar 90 mínúturnar. Liverpool hefur ekki tapað neinum af þessum leikjum og fengið 30 stig af 42 mögulegum.
Liverpool's form in the Premier League when Joel Matip and Dejan Lovren have started the game this season:
DWWDWWDWDDWDWW
Unbeaten. ? pic.twitter.com/K2w8oWGPG7
— Squawka Football (@Squawka) 16 April 2017
Þetta eru þeir 12 leikir sem Lovren og Matip hafa spilað allar 90 mínúturnar.
Tottenham úti 1-1
Chelsea úti 2-1
Swansea úti 2-1
United heima 0-0
WBA heima 2-1
Palace úti 4-2
Southampton úti 0-0
Sunderland heima 2-0
Chelsea heima 1-1
Everton heima 3-1
Stoke úti 2-1
WBA úti 1-0
Þessir leikir sýna gríðarlega vel hversu mikilvægt það er að hafa stöðugleika í þessari stöðu. Lovren hefur spilað 23,5 leiki á meðan Matip hefur spilað 22 leiki. Eins og áður segir voru aðeins 12 af þessum leikum með þá saman í hjarta varnarinnar allan leikinn eða um 38%. Þetta er nákvæmlega það sem Liverpool mátti alls ekki við fyrir þetta tímabil.
Samstarf Matip og Lovren lofar sannarlega góðu þegar þeir spila saman, sérstaklega ef miðað er við þá leiki sem um ræðir. Annarhvor þeirra (eða báðir) hafa verið fjarverandi gegn flestum af “veikari” liðunum. Þau lið stóla oft meira á líkamlegan styrk sóknarþenkjandi manna og til að mæta þeim er sérstaklega mikilvægt að hafa okkar turna aftast. Fimm tapleikir og 27 mörk fengin á sig gegn neðstu liðunum segir sína sögu hjá Liverpool. Liverpool er tapleikjum gegn Hull, Swansea og unnum leik gegn Borunemouth (x2) frá því að vera í titilbaráttu ennþá. Þannig að já, þetta kostar!
Sem dæmi þá spiluðu Henchoz og Hyypia báðir um 55 leiki tvö tímabil í röð frá 2000-02. Carragher líka í vinstri bakverði á meðan Babbel náði bara annað tímabilið að spila 60 leiki (alvarlega veikur seinna tímabilið). Hamann og Gerrard fyrir framan þá spiluðu 50-60 leiki bæði tímabilin einnig. Annað tímabilið vann Liverpool þrjár af fjórum keppnum sem þeir tóku þátt í og hitt tímabilið var liðið í titilbaráttu og fékk á sig 30 mörk. Hvar væri núverandi lið með svona stöðugleika lykilmanna? Þeir eru ekki að spila nema 2/3 af þeim leikjafjölda sem liðið var að spila í kringum aldamótin.
Þessi óstöðugleiki hefur verið viðvarandi hjá Liverpool síðan Carragher og Hyypia voru í hjarta varnarinnar. Það var alltaf stutt í næstu meiðsli hjá Agger þegar hann var okkar besti miðvörður, Sakho og Lovren voru nákvæmlega eins og Matip og Lovren eru núna og við vorum að spila allt of marga leiki með okkar þriðja, fjórða og fimmta kost í hjarta varnarinnar.
Möguleikar í sumar
Það er ekkert útilokað að Klopp fari inn í nýtt tímabil með Matip og Lovren sem sína helstu valkosti. Hver framtíð Joe Gomez er undir hans stjórn mun líklega einnig hafa áhrif á möguleg leikmannakaup en það er ljóst að Liverpool mun kaupa a.m.k. einn miðvörð. Líklega hugsaðan beint í byrjunarliðið eða til að veita Lovren alvöru samkeppni. Lovren, Matip, Lucas og Gomez eru allir með vonda meiðslasögu og sala á Sakho skapar það svigrúm sem þarf til að kaupa alvöru gæði í þessa mikilvægu stöðu.
Það ætti að vera töluvert til af miðvörðum að spila á meginlandi Evrópu sem vilja ólmir koma til Liverpool. Tveir af þeim væru t.d. Baskarnir Inago Martinez hjá Soceidad og Laporte hjá Bilbao. Báðir eru þeir meðal eftirsóttari miðvörðum í boltanum en Liverpool (sérstaklega ef liðið kemst í Meistaradeildina) er mjög heillandi fyrir leikmenn þessara liða. Martinez er 25 ára og Laporte er 22 ára. Frakkinn er 189cm á meðan hinn er 181 cm en þetta grunar mig að Klopp hugsi út í eftir þetta tímabil enda engin tilviljun að öll litlu liði spila háum boltum á Liverpool og ná (of) oft árangri.
Alessio Romagnoli 22 ára miðvörður AC Milan og Ítala er annar spennandi leikmaður hjá liði sem er ekki að gera merkilega hluti. Victor Lindelöf í Portúgal er annar sem reyndar mun líklega kosta gríðarlega fjárhæð. Hann hefur verið mikið orðaður við United en það er ekkert lögmál að hann fari endilega þangað.
Á Þýska markaðnum veit Klopp líklega allt um Jonathan Tah sem er 21 árs og 194 cm. Sömuleiðis Niklas Süle sem er 21 árs og 195 cm. Andreas Christiansen 21 árs lánsmaður frá Chelsea hefur sömuleiðis verið tvö tímabil á láni hjá Borussia Mönchengladbach og staðið sig mjög vel. Allir eru þeir gríðarlega efnilegir en mögulega ekki það sem Liverpool ætti að fara treysta á strax næsta tímabil.
Á Englandi eru tveir kostir sem Liverpool er meira en líklegt til að skoða. Virgil van Dijk hefur verið töluvert orðaður við Liverpool sem og önnur lið. Verðmiðinn á honum er líklega sá hæsti sem varnarmaður fer á í sumar og persónulega er ég ekki sannfærður um að hann sé nógu góður til að réttlæta það. Held að hann hafi litið frábærlega út hjá Southampton á svipuðum forsendum og Lovren. Liðið spilar gríðarlega varnarsinnaðan bolta þar sem hann hefur hjálparvörn í allar áttir. Þeir hafa samt fengið á sig töluvert af mörkum og skorað ennþá minna. Hefði viljað hann þegar hann kom frá Skotlandi.
Hinn kosturinn á Englandi er gamli United maðurinn Michael Keane. Hann er 24 ára og hefur verið frábær í vörn Burnley í vetur. Það er spurning hvort hann sé nógu góður til að taka skrefið upp í eitt af stóru liðunum. Hann minnir mig smá á Gary Cahill þegar hann var hjá Bolton og ég spái að hann fari svipaða leið og hann. Það er líka spurning hvort niðurstaða brexit geri menn eins og Keane (og Englendinga yfir höfuð) ennþá verðmætari?
Þetta eru auðvitað bara nokkur nöfn sem ég tók út við yfirferð á liðunum í helstu deildum Evrópu en allt leikmenn hjá liðum sem eru mun neðar en Liverpool i fæðukeðjunni.
Varnartengiliður
Vandamál Liverpool varnarlega hverfa ekki við að eitt að kaupa nýja miðverði, það þarf meira til og það þarf stöðugleika á fleiri stöðum. Óstöðugleiki í varnarleiknum hefur haldist grunsamlega vel í hendur við það þegar við höfðum síðast alvöru varnartengilið í byrjunarliði Liverpool í hverjum leik. Hyypia og Hencheoz hefðu ekki litið jafn vel út í vörn Liverpool núna og þeir gerðu 2000-02. Carragher leit svo sannarlega ekki jafn vel út. Það er allt of lítil áhersla á þessa stöðu hjá Liverpool ár eftir ár og um leið og einhver eignar sér stöðuna í einhverri mynd meiðist hann.
Jordan Henderson sem aftasti maður í þriggja manna miðju held ég að sé nálægt því að fylla þetta skarð ágætlega haldist hann heill. Hann hefur vaxið mikið í þessari stöðu eftir því sem leið á tímabilið en hann er núna eins og allt of margir á sínu öðru ári í þrálátum meiðslum. Það er gríðarlegt áhyggjuefni. Emre Can held ég að sé sömuleiðis nógu góður til að leysa þetta hlutverk hjá Liverpool fái hann tíma í þessari stöðu, eitthvað sem hann hefur alls ekki fengið undir stjórn Klopp. Lucas fyrir hnémeiðslin 2011 var nákvæmlega dæmi um svona leikmann. Aðalatriði er að finna einhvern nógu góðan sem er nógu hraustur til að spila nánst allt tímabilið og mynda hjarta varnarinnar með miðverði sem spilar oftar saman en 38% af heilu tímabili
Klopp hefur sýnt það með Henderson og Can að þetta þarf ekki endilega að vera sú fastmótaða tegund af varnartengilið sem við þekkjum frá t.d. Hamann og Macsherano en það vantar einhvern þarna sem hefur það hlutverk að verjast og spilar nánast alla leiki.
Kem betur inn á þetta í kaflanum um miðjumenn.
Bakverðir
Tölfærðilega hafa bakverðir Liverpool á þessu tímabili litlu bætt við það sem við fengum frá bakvörðum Liverpool á síðasta tímabili. Leikaálagið núna er miklu minna reyndar en liðið fær á sig jafn mikið af vondum mörkum og oftar en ekki er herjað á svæðið sem sóknarþenkjandi bakverðir Liverpool skilja eftir sig. Breytingin milli ára er að Milner kom inn fyrir Moreno. Hann er auðvitað miklu skynsamari leikmaður og betri knattspyrnumaður að flestu leiti en hann er litlu sjaldnar gripinn í landhelgi en Moreno var og hefur heilt yfir bætt litlu við varnarlega að mínu mati. Oft sakna ég hraða Moreno fram yfir Milners. Milner er auðvitað ekki bakvörður að upplagi og því síður örfættur.
Varnarlega finnst mér báðir núverandi bakverðir töluvert ofmetnir, það er eins og það hjálpi þeim hvað helst að hvorugur þeirra er Moreno sem ansi margir hreinlega hata. Rétt eins og í fyrra held ég að bakverðir Liverpool væru heilt yfir góðir í stöðugu liði. Ef þeir hefðu nánast alltaf sama miðvarðaparið fyrir framan sig og sama varnartengiliðin til að sópa er nokkuð ljóst að bakverðir liðsins myndu koma mikið betur út. Meðan þeir hafa ekki þess hjálp frá hryggsúlunni er ósanngjarnt að gera kröfu á þá um fullkominn varnarleik á sama tíma og þeim er uppálagt að spila nánast sem kantmenn. Þetta á jafn vel við núna og það átti á síðasta tímabili.
Stærri veikleiki er að hvorugur er sérstaklega hávaxinn og þeir nýtast því lítið þegar kemur að því að verjast föstum leikatriðum. Milner er reyndar bókstaflega hættulegur hinumegin líka því föst leikatriði hans (fyrir utan víti) enda oftar en ekki með skyndisókn andstæðinganna. Föst leikatriði andstæðinganna er aðalvandamál Liverpool og liðið er eitt það lágvaxnasta í deildinni. Mig grunar að þjálfari horfi fyrst á vörnina þegar hann skoðar hæð liðsins. Lítill bakvörður þarf að vera gríðarlega góður ef hann á að vinna upp þennan veikleika. Veit ekki hvort Milner og Clyne núlli þetta út.
Við vissum ekki að Milner væri bakvörður þegar tímabilið byrjaði, líklega verður hann það áfram í byrjun næsta tímabils en Liverpool verður að fara inn í næsta tímabil með betri breidd en gert var á þessu tímabili. Moreno getur ekki annað en farið og það þarf gæða leikmann í hans stað. Hægra megin verður Clyne klárlega áfram en Trent Alexander-Arnold er farinn að anda í hálsmálið á honum.
Það ættu alveg að vera til leikmenn þarna úti sem Liverpool gæti horft til. Hvað þá ef Klopp ætlar að halda áfram að láta menn breyta um stöðu.
Danilo hjá Real Madríd er t.a.m. gæða leikmaður á besta aldri sem fær lítið að spila. Mattia De Sciglio er sömuleiðis á besta aldri. Hann er landsliðsmaður Ítala og spilar fyrir AC Milan sem er í 6.sæti og í engum séns á Meistaradeild.
Líklega er komið gott af spænskum vinstri bakvörðum en Jose Gayá er mikið efni. Hann er 21 árs leikmaður Valencia. Reyndar er hann aðeins 172 cm og bætir því líklega lítið við það sem við eigum fyrir.
Jeremy Toljan er 22 ára sókndjarfur bakvörður Hoffenheim sem hefur verið að banka á landsliðssæti hjá Þjóðverjum. Hann er einnig gjaldgengur í landslið Bandaríkjanna og Króata en hefur hafnað tilboðum þeirra.
Ricardo Rodríguez er á besta aldri (24 ára) að spila hjá Hoffenheim sem er í neðri hluta Þýsku deildarinnar. Jonas Hector var mikið orðaður við Liverpool í fyrra. Veit ekki hvað hann er spennandi kostur en þetta er klárlega leikmaður sem Liverpool hefur skoðað. Sead Kolasinac er samningslaus í sumar. Þar er á ferðinni 23 ára vinstri bakvörður Schalke.
Liverpool var orðað við Ben Chilwell í fyrra og er mjög mikið orðað við hinn 16 ára Ryan Sessegnon hjá Fulham. Persónulega held ég að hvorugur þeirra myndi bæta breiddina nokkurn skapaðan hlut fyrir næsta tímabil frá því sem við eigum núna. Spennandi kostir til framtíðar samt.
Að lokum er svo Porto með góðan 24 ára Brassa í vinstri bakverði, Alex Telles.
Allt finnst mér þetta vera raunhæfir kostir og margir þeirra spennandi fyrir Liverpool í sumar. Njósnaranet Liverpool nær svo auðvitað miklu víðar en þetta.
Markmenn
Þetta var stærra mál fyrir ári síðan og ekki eitthvað sem Liverpool kemur til með að horfa á í sumar. Ekkert að því að mínu mati eins og staðan er núna enda styrking í öðrum stöðum mikilvægari.
Mignolet hefur aldrei spilað með stöðuga varnarlínu fyrir framan sig hjá Liverpool. Hann gerir eins og þeir fyrir framan sig allt of mikið af mistökum en ég held að hann gæti léttilega verið markmaður Liverpool í liði sem fær á sig 30 mörk eða minna á einu tímabili ef vörnin fyrir framan hann er í lagi. Það er engin þörf á nýjum markmanni miðað við formið sem hann er í núna undanfarið en hann hefur áður spilað vel á köflum. Markmaður Liverpool þarf að gera það stöðugt yfir heilt tímabil. Vonandi þróast Mignolet eins og t.d. David James og Brad Fridel og batar mikið um þrítugt. Hvorugur þeirra var hjá Liverpool þegar það gerðist og satt að segja held ég að þannig fari einnig fyrir Mignolet á endanum. Hann minnir mig á Sander Westerveld sem var einmitt í marki Liverpool um aldarmótin með Hyypia og Henchooz fyrir framan sig í liði sem fékk tvisvar aðeins 30 mörk á sig.
Loris Karius var líklega keyptur í fyrra til að taka sæti Mignolet og hann gerði það er hann kom til baka úr meiðslum. Hann byrjaði alls ekki vel og bæti engu við það sem Mignolet var að gera og missti sæti sitt réttilega en ég stórefast um að þjálfarateymi Liverpool sé búið að gefast upp á honum. Hann mun veita Mignolet harða samkeppni í sumar held ég.
Sömuleiðis Danny Ward, þar á Liverpool gríðarlega efnilegan markmann sem í þokkabót hefur verið hjá klúbbnum síðan hann var 18-19 ára og telst vera uppalinn. Klopp veit allt um frammistöður hans hjá Huddersfield í vetur og hefur líklega þrjá góða kosti í sumar. Nota hann hjá Liverpool í samkeppni við Mignolet eða Karius. Lána hann aftur til Huddersfield eða selja hann. Hann ætti að skila einhverju í kassann.
Að lokum gæti verið stutt í alvöru gæði úr akademíunni, Kamil Grabara er sagður vera mun meira efni en við höfum áður séð þar. Hann er samt bara 18 ára núna og svo ungir markmenn fá ekki séns í liði eins og Liverpool nema undrabörn eins og Buffon, Donnaruma eða Casillas.
Klopp skaut a.m.k. niður alla orðróma um Joe Hart og bara markmannskaup í sumar yfir höfuð. Núverandi markmenn Liverpool eiga skilið að spila fyrir aftan stöðuga vörn svo hægt sé að meta þá almennilega.
Hér eru stærstu vandamál Liverpool að mínu mati og verður mjög spennadi að sjá hvert verður horft í sumar.
Sjá einnig:
Hvar þarf að styrkja liðið: Sóknarmenn
Er ekki svolítið sterkt til orða tekið að segja menn hati Moreno ? Mér persónulega finst ægilega vænt um hann enn samt meira svona þegar hann er utan við liðið :-).
Enn góður pistill og segir nánast allt sem segja þarf um stöðuna á okkar ástkæra liði.
Takk fyrir.
Mjög góður pistill en ég verð ósammála því að Milner sé ekki sterkari varnalega en Moreno held það alveg ljóst að það er mun erfiðara fyrir kantmenn að fara framhjá honum en Moreno og þar að auki gerir hann mikið færri varnarmistök og er ekki að gefa vítaspyrnur hvað eftir annað eins og Moreno er duglegur að. Þar að auki er Milner búinn að skora sjö mörk á vítpunktinum og það telur alveg að hafa leikmann sem klikkar ekki á vítaspyrnum. Í síðan má bæta við fyrst þú varst að tala um hæð varnamanna þá er milner stærri og sterkari i loftinu en Moreno.
Milner er mun betri varnamaður en Moreno það er nokkuð ljóst. Moreno fékk tækifærið til að byrja með og er mjög viltur og oft úr stöðu sem gerir það að verkum að það er erfit að treysta á hann.
Sóknarlega er Moreno betri en Milner, hann er sókndjarfari og mun fljótari svo að því leitinu til þá er hann sterkari. Milner er samt mun öruggari kostur og þar sem liverpool hafa verið duglegir að skora þá gefur það auga leið að betra er að hafa traustari mann í þessari stöðu.
Liverpool þarf einfaldlega heilsu og það verður ekki keypt en það má vera fleiri valmöguleikar.
Liðið vantar annan vinstri bakvörð til að keppa við Millner og annan miðvörð ef liðið ákveður að taka ekki Sakho tilbaka.
Mér finnst hægri bakvarðastaðan nokkuð traust með Clyne/Arnold og ég trúi ekki að ég sé að skrifa þetta en markvarðastaðan Mignolet/Karius er bara nokkuð save.
Þetta stenst bara ekkert sérstaklega vel skoðun og tölfræðin bakkar þetta enganvegin upp.
Hér er góð grein um Moreno
https://www.theanfieldwrap.com/2016/08/alberto-moreno-little-perspective/
“It’s not that Moreno makes loads and loads of mistakes, it’s just that when he does, he makes damn sure it’s a memorable one.”
Ég er ekki að segja að ég sé mikill aðdáandi Moreno, óþol flestra gagnvart honum finnst mér hinsvegar verkulega ýkt og að mínu mati hefur það sem komið hefur í staðin í vetur ekkert bætt varnarleik liðsins frekar en sóknarleik. Eins held ég að hann muni bæta sig helling á næstu árum líkt og nánast allir bakverðir/varnarmenn gera með aldrinum.
Mér finnst gríðarlega vanmetið að hafa góðan markmann. Ef Mignolet spilar eins og maður síðustu leikina á tímabilinu þá á hann skilið að fá sjéns á næsta tímabili annars þarf að kaupa einhvern alvöru. Ég meika ekki enn eitt tímabilið þar sem mikilvægasta staðan á vellinum er eitthvað vafasöm.
Sælir félagar
Takk fyrir frábæran pistil Einar Matthías og ég get í raun skrifað undir allt sem þarna er sagt og líka það sem sagt er um Moreno og Milner. Hitt er það að mér finnst ýmislegt ósagt um Clyne. Clyne er ekki nema sæmilegur varnarmaður og það sem bjargar honum þar er hraðinn sem oftar en ekki hefur nýst honum til að bjarga annars lélegri varnarvinnu.
En hraði Clyne ætti líka að nýtast okkur í sókninni og þar eru veikleikar hans augljósir þrátt fyrir mikinn hraða og sæmilega sparkgetu. Nærri fullkominn skortur á áræðni (sem hefi þó örlítið batnað) og endalausar sendingar til baka í flestum stöðum sem koma upp á vellinum gera hann að afar lélegum sóknarmanni. Hann er nánast eins og batti við hliðarlínuna enda man ég ekki eftir nema einni stoðsendingu frá honum.
Að þessu sögðu er hann sá maður næst á eftir Origi sem mér finnst ofmetnastur í þessu liði okkar og ég vil frekar fá nýjan mann í hans (AAT) stöðu heldur en vinstra meginn. En þar sem ég er sammála Einar Matthíasi um allt þá vita menn hvað mér finnst um vinstri stöðuna og vörnina. Hvað varnartengiliði varðar þá er Hendo of mikið meiddur til að hægt sé að treysta á hann og þar vantar okkur einn Mascara.
Það er nú þannig
YNWA
Er ekki FC Bayern búið að tryggja sér Sule?
Varðandi Moreno þá vil ég bara nefna að með hann í byrjunarliði (Arsenal úti og Crystal Palace úti) er Liverpool með 100% árangur í deild. #TeamMoreno
YNWA
Flottur pistill Babú. Mikilvægar pælingar.
Í fyrsta lagi er þó rangt hjá þér að Can hafi ekki fengið tíma undir Klopp til að spila sem varnartengiliður. Mjög fljótlega eftir komu Klopps var Can settur sem defmid og var frábær allt til loka síðasta tímabils. Byrjaði einhverra hluta vegna ( t.d. koma Gini og seinn til baka frá EM) á bekknum. Ég kom inná þetta í lof / pepp pistli mínum um Can um daginn og bjóst við því að þegar hann fengi fleiri leiki í þessari stöðu eftir að Hendo meiddist myndi hann sýna hvað hann gæti og það hefur hann svo sannarlega gert. Vonandi skrifar hann undir nýjann samning sem fyrst.
Í öðru lagi aðeins um miðvarðarstöðuna. Ég er Sakho maður, bara til að koma því til skila og leiður yfir stöðu hans gagnvart LFC. Ég geng svo langt að segja að þetta vesen sem kom upp síðasta sumar og afleiðingar þess geri það að verkum að LFC er ekki í titilbaráttu núna. Reynið að sannfæra mig um annað. Auðvitað ber Sakho ábyrgðina en leikmaður á þessu kalíberi og á þessum launum á að vera í liðinu nema ef Klopp hefði brugðist við og keypt Ramos eða Chiellini o.s.frv.
Mér finnst orðræðan núna gagnvart Sakho vera að hann passi ekki inn í leikaðferð Klopps og sé bara að standa sig vel núna sé af því að Palace verjist svo mikið og að það henti honum svo vel. Djöfulsins kjaftæði! Liverpool mun ekki spila við Burnley alltaf á næsta tímabili þar sem LFC er með 70-80% possession. Auk þess hefur Sakho tölfræðina með sér varðandi sendingar heppnaðar á samherja, unnin einvígi og skallaeinvígi. Hann myndi seint teljast hægur og les leikinn nokkuð vel. Einnig er hann leiðtogi , sigurvegari og massívur karakter inní klefa. Viðurkenni að hann lítur stundum út eins og belja á svelli og reynir hluti sem honum er ofviða en frekar vill ég sjá Sakho og Klopp leysa málin en að sjá klúbbinn eyða 50 millz í Van Dyke. Í draumaheimi væri samt rosalegt að vera með Matip, Lovren, Sakho og Van Dijk alla í hópnum. Eiginlega væri það samt nauðsynlegt að vera með svona miðvarðarfernu til að keppa um titla á öllum vigstöðum.
jú jú það alveg rétt Moreno er ekki versti bakvörður í heimi en það versta við hann að hann lærir ekki af mistökum og hann gerir mistök á ögurstundu. Sem dæmi eftir mistökin á móti Sevilla hefði hann átt að nýta sumarið í að læra af þeim mistökum en í staðinn mættir hann í fyrsta leik tímabilsins á móti Arsenal ekkert lært og heldur áfram á að gera sömu mistök. Þetta eru einfaldlega mjög mikilvægir leikir og ég hef ekki séð Milner vera gera svipuð mistök en ekki misskilja mig þannig að það sé ekki hægt að finna betri vinstri bakvörð en Milner.
Spurning hvað gerist núna þegar Sakho hefur verið hreinsaður af öllum ásökunum… Á Liverpool og/eða Sakho rétt á skaðabótum fyrir þetta svokallað lyfjamál. finnst þetta amk vera afskaplega ömurleg vinnubrögð hjá UEFA.
Flottur pistill og sömuleiðis flott pod-cast.
Veit að pistillinn er fyrst og fremst vörnin og ég býð spenntur eftir skoðun ykkar á framherjastöðinni hjá klúbbnum.
Algerlega sammála að það þurfi að fá einn öflugan hávaxinn hafsent og bara plís, enga fokking tilraunastarfsemi þar. Bara rock solid reynslubolta út þýska boltanum. Hef lítið fylgst með þýska boltanum en treysti Klopp fullkomlega í þessum efnum. Matip og Lovren eru allt of mikið frá vegna meiðsla og alls ekki fyrirsjáanlegt að það muni eitthvað breytasta á næsta tímabili. Vil ekki sjá Klavan aftur í byrjunarliðinu hjá okkur.
Varðandi varnarmiðjuna þá vil ég alls ekki selja Lucas. Þurfum á breiddinni að halda og hann býr yfir reynslu sem við þurfum á að halda á næsta tímabili. Hey, vissuð þið það að eftir sigurleikinn á móti WBA um síðustu helgi þá erum við ÖRUGGIR með að vera í Evrópukenni á næsta ári þrátt fyrir að enn séu 5 leikir eftir af tímabilinu?! Ansi magnað. Ég vona samt svo innilega að það verði ekki fucking fimmtudagsleikir á næsta tímabili.
https://kassiesa.home.xs4all.nl/bert/uefa/qual2017.html
Einnig vil ég fá vinstri bakvörð. Milner er rock solid leikmaður og duglegur……en hann er enginn vinstri bakvörður! Clyne er, eins og einhver ykkar orðaði það svo skemmtilega, litblindur, og er engan veginn nægilega sterkur sóknarlega. Held að Trent Arnold muni slá hann út úr liðinu fljótlega. Ekki að mínu mati í forgangi að styrkja þá stöðu.
Svo smá þráðrán í lokin þá vil ég fá alvöru striker, þ.e. einhvern sem skorar steady 20 mörk á tímabili. Tel þessar tvær stöður, þ.e. hafsentastaðan og striker-staðan, vera í algerum forgangi fyrir næsta tímabil.
Væri svo ekki leiðinlegt að fá eitt stykki af Kante-klóni á miðjuna og eins og áður segir vinstri bakvörð.
Nr. 10 LFC Forever
http://www.kop.is/2017/04/14/hvar-tharf-ad-styrkja-lidid-soknarleikmenn/
Við þurfum góðan framherja!!!!!!!!!!!!! Áfram Liverpool.
#11 Úps 🙂
Það sem mér fannst persónulega verst við Moreno voru alls ekki mistökin sem hann gerði heldur það að honum virtist fara aftur með hverri einustu viku sem hann spilaði.
Takk fyrir þennan fína pistil. Sammála mörgu sem rætt er um. Veit svosem ekki hverjir hata Moreno en ég er nokkuð ánægður með hann að mörgu leiti. Eftir þennan pistil langar mig til að velta upp nokkrum spurningum varðandi liðið.
Væri liðið ekki í alvöru baráttu um titilinn ef það væru eðlilegri (ef meiðsli eru einhverntímann eðlileg) og minni meiðsli hjá lykilmönnum? Ef varnamenn meiðast, sem þeir gera mikið í herbúðum okkar félags, er þá ekki vont að þurfa að stilla upp mönum trekk í trekk út úr stöðu eins og með Lucas og eins má segja um Milner? Ég er alveg viss um að þegar Milner kom til Liverpool þá hefur ekki hvarflað að honum að hann ætti eftir að spila tugi leikja í bakverði. Þarf ekki hreinlega að leggja leikinn aðeins öðruvísi upp þegar Matip og Lovren eru ekki saman í miðverðinum? Eins og þú bendir á Einar er árangurinn með þá saman innanborðs mjög góður. Þá á eg við með því að hafa leikmenn sem sópa upp miðjuna nær miðvörðunum og jafnvel að láta bakverðina ekki keyra svona hátt. Hreinlega spila varnarsinnaðri bolta og verjast á minna svæði. Er ekki helsta áhyggjuefnið fyrir næsta vetur að menn þoli hreinlega ekki að spila þennan djöflabolta Klopp 15-20 fleiri leiki en í vetur, hafi bara ekki úthald í það?