Þegar þessi leiktíð hófst var vitað að nokkrir leikir yrðu erfiðari viðfangs en aðrir: City úti, Tottenham á Wembley, og Swansea úti. Og mikið rétt, þessir leikir töpuðust allir. Sem betur fer hefur náðst að rétta okkar hlut með því að vinna City heima, og Svanirnir máttu líka lúta í gras á Anfield. Nú er komið að því að svara fyrir þriðja tapið, því seinnipartinn á sunnudaginn mæta Kane, Eriksen, Alli og félagar, og freista þess að ná einhverjum úrslitum á Anfield.
Þetta er klassískur 6 stiga leikur, en með aukinni vikt því Spursarar hafa verið þeir sem helst hafa andað ofan í hálsmálið á okkar mönnum í baráttunni um Wenger bikarinn fjórða sætið. Frækinn sigur Eddie Howe og félaga hjá Bournemouth á Chelsea í síðustu umferð gerði það vissulega að verkum að Rauði herinn færðist upp í 3ja sætið á kostnað þeirra bláklæddu, en það eru bara 2 stig sem aðskilja þessi 3 lið, og nóg eftir í pottunum. United menn eru svo auðvitað bara í seilingarfjarlægð, svo þetta er barátta þriggja liða um sæti 2-4 eins og staðan er núna. Þessi lið mega svo lítið misstíga sig því Arsenal skyldi síst vanmeta.
Andstæðingarnir
Tottenham mæta á Anfield eftir frækinn sigur á United í síðustu umferð, þar sem Eriksen skoraði 3ja fljótasta markið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, eða eftir 11 sekúndur. Sá leikur var á miðvikudaginn meðan okkar menn spiluðu á þriðjudaginn. Skiptir það máli? Ég efast um það, 5 daga hvíld hjá öðru liðinu vs. 4 dagar hjá hinu ætti ekki að skipta sköpum, en útilokum samt ekkert. Allavega, þeir yfirspiluðu djöflana og fóru heim með öll 3 stigin, þó það hefði e.t.v. hentað okkur betur ef leikurinn hefði endað með jafntefli. Þýðir ekki að gráta það núna.
Þá hefur nýr liðsmaður bæst í hóp andstæðinganna: Lucas Moura sem var keyptur frá PSG fyrir einhverjar 25 millur sem eru auðvitað bara smáaurar nútildags. Hvor honum verði hent út í djúpu laugina strax á sunnudaginn er ekki gott að segja, skv. þessari grein ku Pochettino hafa sagt að hann reikni síður með að spila honum.
Formið hjá Coys í síðustu leikjum verður að teljast bara ágætt. Sigrar á United, Everton og Swansea í síðustu 5 leikjum, auk tveggja jafntefla gegn Southampton og West Ham. Þeir töpuðu síðast leik gegn City þann 16. desember sl., og þar á undan þurftu þeir að lúta í gras gegn Leicester í lok nóvember. Semsagt, þeir eru á ágætis rönni og eru bara alls ekkert árennilegir. Kane er auðvitað markahæsti leikmaður deildarinnar í augnablikinu, og er tveim mörkum fyrir ofan hinn Egypska Messi Mohammad Salah. Það vekur athygli að þeir eru báðir að skora með 98 mínútna millibili að meðaltali. Salah er hins vegar með fleiri stoðsendingar.
Þar sem greinarhöfundur er að öðru leyti alls enginn sérfræðingur í því hvernig téður Pochettino stillir upp sínum liðum, þá verður ekki gerð nein tilraun til að spá fyrir um þeirra lið. Held að það megi einfaldlega reikna með feikisterku liði sem mætir á Anfield, væntanlega með Hugo Lloris í markinu, Harry Kane frammi, og svo fullt af sterkum leikmönnum þar á milli.
Okkar menn
Á blaðamannafundi fyrr í dag talaði Klopp aðeins um það hvernig staðan á hópnum væri. Það styttist í Clyne (sem var skráður til leiks í seinni hluta Meistaradeildarinnar, ásamt Ings og van Dijk, en það er önnur saga), þó hann sé ekki farinn að æfa með liðinu ennþá. Lallana er að æfa, en hvort honum verði hent í byrjunarliðið skal ekkert fullyrt um. Í öllu falli virðist hann ekki vera kominn í 100% líkamlegt ástand. Umræðan um van Dijk er búin að vera mjög skrýtin. Bæði var frammistaðan hjá honum í leikjunum á móti Swansea og WBA ekkert endilega til að hrópa húrra yfir þó svo hann hafi klárlega verið slakasti maður liðsins í hvorugum leiknum. Hitt er svo annað mál að hann er kynntur til sögunnar í byrjun janúar, þá er liðið búið að vera að spila saman síðan í júlí og hann þarf að venjast fullt af nýjum liðsfélögum, breyttum áherslum í leikstíl, og þar að auki venjast gagnrýni á holdafar sitt frá Carragher (sem Klopp svaraði síðan með því að taka undir það að Carra mætti örugglega létta sig eitthvað). Í öllu falli er afskaplega eðlilegt að hann þurfi sinn tíma til að aðlagast og smella almennilega inn í liðið. Kannski gerist það ekki fyrr en í haust, kannski fyrr. Undirritaður hefur fulla trú á að van Dijk verði einn af máttarstólpum liðsins áður en langt um líður.
Væntanlega eru samt áhangendur ólmir í að sjá Virgil aftur í rauðu treyjunni, og hann var a.m.k. að æfa í dag ef marka má myndir frá æfingu á Facebook síðu klúbbsins. Ég ætla því að veðja á að við sjáum hann í byrjunarliðinu á sunnudaginn. Reyndar spái ég ekkert svo mörgum breytingum á liðinu frá síðasta leik, ætla að spá því að Oxlade-Chamberlain komi inn í staðinn fyrir Milner og van Dijk inn fyrir Lovren. Það mætti líka alveg færa rök fyrir því að Lovren ætti að fá að halda sæti sínu, enda er hann búinn að vera frekar öflugur upp á síðkastið þegar hann hefur spilað. En svona er spáin:
Gomez – van Dijk – Matip – Robertson
Can – Henderson – Chamberlain
Salah – Firmino – Mané
Bekkur: Mignolet, TAA, Lovren, Moreno, Winjaldum, Ings, Solanke
Á bekkinn vantar bæði Milner, Klavan og Lallana, mögulega fær Milner frekar að setjast þar í stað Moreno. Kannski ætti Ward líka að vera á bekknum í stað Migs, enda er ég sammála Magga í síðasta podcasti þar sem hann talaði um að hausinn á Mignolet sé kominn annað.
Og úrslitin? Þetta verður auðvitað hörkuleikur, en það hefur vissulega alltaf verið þannig að Tottenham hafa verið frekar sókndjarfir gegn okkur, og það hefur oftast hentað ágætlega. Eigum við ekki að segja að okkar menn haldi dampi frá síðasta leik, og að Salah setji eitt í hvorum hálfleik? 2-0 takk fyrir, og þá verðum við öll sátt. Á sama tíma væri rosalega gaman ef Wagner og co. hjá Huddersfield standa sig á laugardaginn, og þá mega Watford alveg krækja í eins og eitt stig eða þrjú á mánudaginn (ég leyfi lesendum að finna út við hvaða lið þessi eru að fara að spila).
Að lokum óska ég þess að Gemma Bonner nái sér sem allra fyrst af sínum meiðslum, enda má kvennaliðið alls ekki við því að missa fyrirliðann, ekki frekar en karlaliðið.
YNWA!
1-0 Firmino
Veikasti hlekkurinn í þessari uppstillingu er að mínu mati hinn mistæki Gomez. Hlakka virkilega til að sjá Clyne á ný í liðinu sem allra fyrst. Ég myndi bara alls ekki treysta Lovren á móti Kane, þó að hann geti vissulega átt góða leiki. Svo vil ég fara sjá Mané gera betur og nýta færin eins og hann gerði svo vel. Þetta verður hörku leikur, enda barátta um meistaradeildarsæti undir.
Pogba 10 assist 3 mörk á tímabilinu
Mane 9 mark 6 assist á tímabilinu
Talað um að mane sé að eiga svo skelfilegt tímabil og á móti hvað Pogba er búinn að vera æðislega goður mane er líka með betri tolfræði á þessu timabili en á því síðasta þegar að kemur að mark/stoðsendingar á mínútu við erum bara of upptekin að dast að því hvað Firmino,Salah eru búnir að vera fáránlega góðir á þessu tímabili mane er líka með 2 crucial mörk í þessum mánuði markið á moti city og markið á móti burnley.
Sælir félagar
Þetta verður hörkuleikur og að mínu viti verður hann ójafn. Annaðhvort liðið mun vinna þennan leik 4 -1 Þá er það bara spurningin hvort þeirra gerir það. Leikir þessara liða hafa undanfarin misseri verðið markaleikir þar sem markamunur hefur verið töluverður í þeim flestum. Ég held að svo verði í dag. Anfield ætti að gera gæfumuninn og því spái ég að Liverpool vinni þennan leik 4 – 1.
Það er nú þannig
YNWA
Rannóknarefni að LFC hafi ekki reynt við Aubameyang. Þetta er einfaldlega framherji í fremstu röð og strax kominn á blað. Ódýrari en Van Dijk.
Ég ætla að spá steindauðu markalausu jafntefli, finn það á mér, veit ekki af hverju, annað mál… ég er að horfa á beina frá Ars-Eve og verð að segja……MIKIÐ SVAKALEGA ER EVERTON lélegt fótboltalið…………..sorry Gylfi þú hefðir átt að fara annað 🙁
#6
Eftir að hafa horft á þessi lið spila í vetur þá er meiri líkur á 3-3 en 0-0 . Þessi lið sækja og skapa mikið. Liverpol á reyndar í meiri vandræðum með að verjast en Tottenham en á móti kemur þá skapar Liverpool oftar fleiri færi.
Steindauður leikur á ekki við um liverpool og þótt að leikurinn gæti endað 0-0 þá er ég viss um að bæði lið fá nokkur góð færi, það verður hraði í leiknum og engir 11 manna varnarmúrar sjáanlegir.
Þetta er þannig leikur að Anfield þarf að vera á fullu blasti þannig að leikmenn Spurs verði hálf heyrnarlausir og meðvitundarlausir korteri eftir YNWA.
Þeir hafa stundum átt erfitt undir slíku andrúmslofti.
Okkar menn verða að vera eins og Bolt uppúr blokkunum og keyra á þetta frá fyrstu mínútu.
Taktískur leikur þar sem menn bíða eftir mistökum andstæðingsins væri banabiti fyrir okkur þar sem við munum tapa slíkri baráttu.
Keyra á þá á fullu blasti, on and off field og við tökum þetta.
YNWA
Smá Gomez pæling. Er búin að láta það út úr mér að strákurinn sé eitt mesta varnar efni félagsins í langan tíma. Margir að afskrifa hann núna og vilja TAA eða Clyne frekar í hægri bakvörðinn. Sem betur fer að mínu mati er Klopp að hugsa til framtíðar með hann og gerir það sem allir þjálfarar ættu að gera, leyfa stráknum að gera mistök. Við lærum mest á þeim mistökum sem við gerum og spái ég því að Gomez verði eitt af akkerum Liverpool-varnarlínunnar um ókomin ár. TAA er efnilegur líka og gríðarlegt efni en vantar þennan líkamlega styrk sem Gomez hefur. Einn á einn er Gomez stórkostlegur miðað við aldur og sjálfstraustið sem hann hefur skemmir ekki fyrir honum. Þolinmæði er það sem ungir varnarmenn þurfa og Klopp er rétti maðurinn fyrir þessa stráka eins og allt félagið í heild.
4:0
Líklega uppstilling nærri lagi. Þó þætti mér líklegra að Lovren spili frekar en van Dijk.
YNWA
Mín spá er 5-4 í hreint frá bærum fótboltaleik þar sem vörnin verður skilin eftir heima og sóknin fær að njóta sín, hér verður engin helvítis rútubolti á ferðinni og allt tal um Klopp út og það eigi að henda þessum eða hinum deyr vonandi út fyrir fult og allt.
Ég held að við töpum sannfærandi og allt fari á hliðina.
Svo vinnum við cirka rest og endum í topp lagi í vor.
Ég vill að umfram allt að við höldum hreinu ! En það er ekki að fara að gerast þessa vegna spái ég að við tökum þetta 3-2. Firmino með tvö og Salah eitt. 🙂
Tökum þetta 2-0 þar sem Salah og Mané skora mörkin. Vonandi verður Matip eða Klavan með Dijk í miðverðinum því Lövren hefur ekki taugar í svona leiki.
Góð upphitun!
Sá spurs keyra yfir scums og þeir virkuðu á mig eins og þeir væru með cruise-control. Þeir munu vonandi ekki ná þeirri stillingu í gang á móti okkur enda erum við mjög ólíkir mótorkjaftinum og hans guttum.
4-2 fyrir okkur þar sem Mané, Salah, Firminho og Chamberlain skora okkar mörk.
Sigur í þessum leik yrði algjörlega frábært og góð upphitun fyrir CL-mótið sem framundan er.
Vinnum þetta 2-1. Salah og Firmi með mörkin. Og að sjálfsögðu skorar . . . . fyrir þá hvítu.
Er btw. Skíthræddur við þennan leik!!
Liverpool vinnur 2-1, Firmino, Salah og Alli
Sæl og blessuð.
Þessi leikur er tilefni ærlegs þvagleka. Ég segi ekki meira. Er skíthræddur við þá hvítklæddu og við þurfum á gæfu að halda ef ekki á illa að fara.
En liði sem nær að sigra City, er auðvitað ekkert um megn. Svo við lifum í voninni að takist að kreista út þrjú stig.
Annar óvissuþáttur er svo auðvitað hinn ofurdýri VvD og hvað verður gert með hann. Ætli búið sé að útskýra fyrir honum grunnþætti boltans eins og þeir rauðklæddu spila?
Já, hvort mætir Dr. Jeykil til leiks eða Mr. Hyde?
Spurs er hörkulið en langt í frá ósigrandi. Þeir hafa heldur ekkert verið stórkostlegir á útivelli. Jafntefli á móti Southampton og Watford . Töp á móti Manchester-liðunum, Arsenal og Leicester.
Er sammála uppstillingu skýrsluhöfundar á byrjunarliðinu nema ég vil frekar sjá Lovren en Matip með Virgil.
Þetta verður rosalegur leikur, tökum þetta 3-1 (Salah 2, Firmino og Kane).
Skrítin uppstilling ! miðjan Milner- Can og Hendó
Furðulegt að kaupa mann á 75 þús og nota hann ekki neitt. Og enþá furðulegra að selja besta manninn og kaupa ekki neinn í staðinn og vera svo bara rosa sáttur með þetta. Fyrirgefið en það sjá allir aðrir en Liverpoolmenn að þetta eru mjög furðuleg vinnubrögð og þetta skrifast á Flopp og engan annan.
Ég spái því að við vinnum samt þennan leik enda erum við bestir gagnvart stóru liðunum og getum ekki rassgat í bala gegn þeim litlu.
Jæja Dijk er víst með.