Liverpool-Man City

Þá er komið að því – Arabíuprinsarnir koma í heimsókn á Anfield.

Forsagan

Síðustu árin hafa leikir þessara liða verið hreint út sagt magnaðir. Pep Guardiola hefur sagt að hann hafi lært endalaust af Jurgen Klopp og út af honum og Liverpool-liði síðustu ára hafi hann stöðugt þurft að gera liðið sitt betra og betra, enda hefur árangur þessara tveggja liða verið út úr kortinu sum af síðustu tímabilum.

Nóg um það. Best að minnast líka aðeins á mennina sem eiga Man City. Best að minnast líka aðeins á 115 kærurnar, sem eru víst samt bara 8. Best að minnast líka aðeins á að Manchester City hefur keypt leikmenn fyrir mörg hundruð milljónir punda síðustu árin, mokað peningum í aðstöðu félagsins og gert auglýsingasamninga við sig sjálfa til að vega upp á móti öllum kostnaðinum. Þeir eru núna á annarri eða þriðju kynslóð City-galacticos sem hafa unnið fjölmarga titla undanfarin ár. Ég ætla ekkert að skafa neitt sérstaklega af því, þetta lið er svindl og árangurinn þeirra er svindl. Hann byggir engan veginn á eigin árangri heldur er þetta allt byggt upp á svokölluðu “sport-washing” eða sportþvotti. Fólk sem er með óhreint mjöl í pokahorninu þvær hendur sínar oft einhvern veginn þannig, svona eins og eigendur Man City gera.

Lið Man City

Það breytir þó ekki því að inni á vellinum eru Manchester City með frábært lið sem er þjálfað af frábærum knattspyrnustjóra. Hversu marga leikmenn sem Man City hafa keypt hefði maður ekki viljað sjá fara til Liverpool. Allt frá Aguero til Haaland til Gvardiol. Bara svo einhverjir séu nefndir.

Þeir hafa samt verið í miklu brasi undanfarið, hafa tapað 5 leikjum af síðustu 6 þegar þeir mæta á Anfield, þar af þremur í deild. Síðasti leikurinn þeirra var jafntefli við Feyenoord í Meistaradeildinni þar sem stuðningsmenn Feyenoord sungu nafn Arne Slot að leik loknum. Það hefur væntanlega kynt verulega undir stuðningsmönnum City fyrir leikinn á sunnudaginn. Síðasti leikurinn í deildinni var gegn Tottenham og þeim leik töpuðu þeir 0-4 á heimavelli. Það er því kjörið að mæta þeim núna fyrir Liverpool, nema að þeir séu eins og sært dýr með bakið upp við vegg – sem þeir geta alveg verið – og þannig dýr getur sannarlega bitið frá sér. Það er því alls ekkert öruggt, þessi árin er ekki séns að vera fyrirfram öruggur gegn Man City, jafnvel þótt þeir hafi tapað 0-4 fyrir Tottenham í síðasta leik. Og fyrir báða Citymennina sem koma hingað: 0-4 gegn Tottenham, 1-2 gegn Brighton, 1-4 gegn Sporting Lissabon, 1-2 gegn Bournemouth og 1-2 gegn Tottenham í bikarnum. Síðasti sigur kom fyrir réttum mánuði síðan, 1-0 gegn Southampton, 26.október. Black november much?

Meiðslalistinn þeirra er þokkalegur. Stærsta vandamálið þeirra er að brimbrjóturinn á miðjunni, Rodri, er meiddur. Þeim hefur aldrei gengið vel án hans og á undan honum gekk þeim aldrei vel án Fernandinho. Það er eiginlega kómískt að velta því fyrir sér að þeim hafi ekki dottið í hug að kaupa almennilegt back-up fyrir hann. Guardiola hefur líka talað um að hann ætli ekki að breyta neinu í taktík, sem væri kannski líka ráð – 4-2-3-1 hefur t.d. gengið alveg þokkalega hjá Arne Slot. Vonandi heldur hann sig samt við einn djúpan á miðjunni.

Einnig er vafi á því hvort John Stones verði með, en Ruben Dias er líklega klár í leikinn. Mateo Kovacic og Oscar Bobb eru einu kláru fjarvistirnar hjá þeim ásamt fyrrnefndum Rodri. Ekki er víst að De Bruyne og Jeremy Doku geti byrjað. Sem þýðir að Rodri er eini alvöru lykimaðurinn sem er örugglega fjarri góðu gamni en eitthvað er um mögulega bekkjarsetu lykilmanna.

Liðið þeirra verður væntanlega eitthvað á þessa leið:

Ederson

Walker –  Dias – Akanji – Gvardiol

Silva – Gundogan – De Bruyne

Foden – Haaland – Grealish

Talandi um afleysingu fyrir Rodri – ég hefði svosem haldið að Gundogan væri nú alveg þokkalega öflugur í djúpu miðjustöðunni.

Liverpool

Það er óhætt að segja að Liverpool sé búið að vera á myljandi siglingu undanfarið. Rétt nýbúnir að salta Real Madrid 2-0 í leik sem hefði svosem getað farið öðruvísi, en Caoimhin Kelleher varði glæsilega víti annan leikinn sinn í röð og kom í veg fyrir jöfnunarmark Real Madrid. Annan leikinn í röð fékk Andy Robertson á sig klaufalegt en vafasamt víti sem VAR ákvað ekki að snúa við þótt vafinn hafi verið ansi mikill í bæði skiptin. Það var þó ansi súrt í broti að lítið brassagerpi ákvað að reyna að tjóna eins mikið í Liverpool og hann gat með þeim árangri að Konate okkar verður frá í líklega 6 vikur. Ef við þekkjum hann rétt þýðir það líklega nær 6 mánuðum. Eins fann Conor Bradley fyrir aftanlærisveseni þannig að hann verður eflaust ekki með. En það þýðir að Quensah eða Gomez verður hent út í Maríana djúpálinn, mögulega en ólíklega þó báðum – þar sem okkar allra besti Trent er sagður klár í slaginn á ný. Eins er Kostas Tsimikas að kljást við smávægileg meiðsli. Það eru því “aðeins” þrír lykilmenn úr okkar liði frá vegna meiðsla, Alisson, Konate og Jota. Muniði – Arsenal vælið þegar Timber fékk krampa og Saliba var í banni og núna City – með 1-2 lykilmenn meidda? Þetta er bara standard hjá okkur og við vitum að það þýðir ekkert að væla. Og þetta minnir okkur líka á það að Jurgen Klopp kom b-liðinu ansi langt bæði í deild og bikurum á síðasta ári þegar nánast allt byrjunarliðið var í meiðslum vikum og mánuðum saman.

Ég giska á byrjunarliðið svona:

Vafamálin:

Gomez eða Quensah: Gomez er reyndari og hefur staðið sig betur þegar hann hefur komið inn á núna í haust og raunar hefur Quensah afar lítið spilað í haust.

Trent/Gomez/Robertson/Bradley: Bradley er tæpur – Gomez í miðverðinum, Robbo á sínum stað. Við vitum hvað Robbo getur þótt hann sé óumdeilanlega búinn að vera í töluverðri lægð undanfarnar vikur. Svo mikilli að hann er nánast búinn að missa sæti sitt sem öruggur byrjunarliðsmaður. Held að Slot sé samt frekar íhaldssamur og hann veit alveg hvað hann hefur í Trent og Robbo.

Miðjan: Curtis Jones er búinn að vera yfirgengilega góður síðustu vikurnar. Hann var magnaður á miðvikudaginn, sérstaklega í fyrri hálfleik. Sama á við um Gravenberch, hann var nánast maður leiksins gegn Southampton og MacAllister var geggjaður í seinni hálfleik gegn Real. Szoboszlai hefur átt hvað erfiðast uppdráttar af þessum fjórum sem hafa skipt með sér miðjustöðunum í haust. Elliott er auðvitað að koma inn eftir meiðsli og á nokkuð í land að eiga séns í byrjunarliðið.

Sóknin er síðan nokkurn veginn sjálfvalin, Salah auðvitað á sínum stað, ég held að Nunez byrji frammi til að keyra í plássið sem skapast fyrir aftan vörn City og svo verður Gakpo vinstra megin, kannski bara af því að Diaz byrjaði gegn Real. Og Gakpo skoraði auðvitað þar. Slot virðist skipta leikjum jafnt á milli þeirra sem er í mínum huga fullkomlega skiljanlegt. Samt gæti Diaz alveg verið í níunni.

Spáin mín: Anfield verður á yfirsnúningi eins og gegn Real Madrid. Síðdegisleikur á sunnudegi, stuðningsmenn búnir að fá sér aðeins og litlu mélkisarnir í Man City eiga eftir að brotna saman. Okkar menn eiga eftir að refsa grimmt, Salah elskar að skora gegn stóru liðunum og 3-0 verður niðurstaðan.

YNWA

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Konate frá fram yfir áramótin