Liverpool-Man City

Þá er komið að því – Arabíuprinsarnir koma í heimsókn á Anfield.

Forsagan

Síðustu árin hafa leikir þessara liða verið hreint út sagt magnaðir. Pep Guardiola hefur sagt að hann hafi lært endalaust af Jurgen Klopp og út af honum og Liverpool-liði síðustu ára hafi hann stöðugt þurft að gera liðið sitt betra og betra, enda hefur árangur þessara tveggja liða verið út úr kortinu sum af síðustu tímabilum.

Nóg um það. Best að minnast líka aðeins á mennina sem eiga Man City. Best að minnast líka aðeins á 115 kærurnar, sem eru víst samt bara 8. Best að minnast líka aðeins á að Manchester City hefur keypt leikmenn fyrir mörg hundruð milljónir punda síðustu árin, mokað peningum í aðstöðu félagsins og gert auglýsingasamninga við sig sjálfa til að vega upp á móti öllum kostnaðinum. Þeir eru núna á annarri eða þriðju kynslóð City-galacticos sem hafa unnið fjölmarga titla undanfarin ár. Ég ætla ekkert að skafa neitt sérstaklega af því, þetta lið er svindl og árangurinn þeirra er svindl. Hann byggir engan veginn á eigin árangri heldur er þetta allt byggt upp á svokölluðu “sport-washing” eða sportþvotti. Fólk sem er með óhreint mjöl í pokahorninu þvær hendur sínar oft einhvern veginn þannig, svona eins og eigendur Man City gera.

Lið Man City

Það breytir þó ekki því að inni á vellinum eru Manchester City með frábært lið sem er þjálfað af frábærum knattspyrnustjóra. Hversu marga leikmenn sem Man City hafa keypt hefði maður ekki viljað sjá fara til Liverpool. Allt frá Aguero til Haaland til Gvardiol. Bara svo einhverjir séu nefndir.

Þeir hafa samt verið í miklu brasi undanfarið, hafa tapað 5 leikjum af síðustu 6 þegar þeir mæta á Anfield, þar af þremur í deild. Síðasti leikurinn þeirra var jafntefli við Feyenoord í Meistaradeildinni þar sem stuðningsmenn Feyenoord sungu nafn Arne Slot að leik loknum. Það hefur væntanlega kynt verulega undir stuðningsmönnum City fyrir leikinn á sunnudaginn. Síðasti leikurinn í deildinni var gegn Tottenham og þeim leik töpuðu þeir 0-4 á heimavelli. Það er því kjörið að mæta þeim núna fyrir Liverpool, nema að þeir séu eins og sært dýr með bakið upp við vegg – sem þeir geta alveg verið – og þannig dýr getur sannarlega bitið frá sér. Það er því alls ekkert öruggt, þessi árin er ekki séns að vera fyrirfram öruggur gegn Man City, jafnvel þótt þeir hafi tapað 0-4 fyrir Tottenham í síðasta leik. Og fyrir báða Citymennina sem koma hingað: 0-4 gegn Tottenham, 1-2 gegn Brighton, 1-4 gegn Sporting Lissabon, 1-2 gegn Bournemouth og 1-2 gegn Tottenham í bikarnum. Síðasti sigur kom fyrir réttum mánuði síðan, 1-0 gegn Southampton, 26.október. Black november much?

Meiðslalistinn þeirra er þokkalegur. Stærsta vandamálið þeirra er að brimbrjóturinn á miðjunni, Rodri, er meiddur. Þeim hefur aldrei gengið vel án hans og á undan honum gekk þeim aldrei vel án Fernandinho. Það er eiginlega kómískt að velta því fyrir sér að þeim hafi ekki dottið í hug að kaupa almennilegt back-up fyrir hann. Guardiola hefur líka talað um að hann ætli ekki að breyta neinu í taktík, sem væri kannski líka ráð – 4-2-3-1 hefur t.d. gengið alveg þokkalega hjá Arne Slot. Vonandi heldur hann sig samt við einn djúpan á miðjunni.

Einnig er vafi á því hvort John Stones verði með, en Ruben Dias er líklega klár í leikinn. Mateo Kovacic og Oscar Bobb eru einu kláru fjarvistirnar hjá þeim ásamt fyrrnefndum Rodri. Ekki er víst að De Bruyne og Jeremy Doku geti byrjað. Sem þýðir að Rodri er eini alvöru lykimaðurinn sem er örugglega fjarri góðu gamni en eitthvað er um mögulega bekkjarsetu lykilmanna.

Liðið þeirra verður væntanlega eitthvað á þessa leið:

Ederson

Walker –  Dias – Akanji – Gvardiol

Silva – Gundogan – De Bruyne

Foden – Haaland – Grealish

Talandi um afleysingu fyrir Rodri – ég hefði svosem haldið að Gundogan væri nú alveg þokkalega öflugur í djúpu miðjustöðunni.

Liverpool

Það er óhætt að segja að Liverpool sé búið að vera á myljandi siglingu undanfarið. Rétt nýbúnir að salta Real Madrid 2-0 í leik sem hefði svosem getað farið öðruvísi, en Caoimhin Kelleher varði glæsilega víti annan leikinn sinn í röð og kom í veg fyrir jöfnunarmark Real Madrid. Annan leikinn í röð fékk Andy Robertson á sig klaufalegt en vafasamt víti sem VAR ákvað ekki að snúa við þótt vafinn hafi verið ansi mikill í bæði skiptin. Það var þó ansi súrt í broti að lítið brassagerpi ákvað að reyna að tjóna eins mikið í Liverpool og hann gat með þeim árangri að Konate okkar verður frá í líklega 6 vikur. Ef við þekkjum hann rétt þýðir það líklega nær 6 mánuðum. Eins fann Conor Bradley fyrir aftanlærisveseni þannig að hann verður eflaust ekki með. En það þýðir að Quensah eða Gomez verður hent út í Maríana djúpálinn, mögulega en ólíklega þó báðum – þar sem okkar allra besti Trent er sagður klár í slaginn á ný. Eins er Kostas Tsimikas að kljást við smávægileg meiðsli. Það eru því “aðeins” þrír lykilmenn úr okkar liði frá vegna meiðsla, Alisson, Konate og Jota. Muniði – Arsenal vælið þegar Timber fékk krampa og Saliba var í banni og núna City – með 1-2 lykilmenn meidda? Þetta er bara standard hjá okkur og við vitum að það þýðir ekkert að væla. Og þetta minnir okkur líka á það að Jurgen Klopp kom b-liðinu ansi langt bæði í deild og bikurum á síðasta ári þegar nánast allt byrjunarliðið var í meiðslum vikum og mánuðum saman.

Ég giska á byrjunarliðið svona:

Vafamálin:

Gomez eða Quensah: Gomez er reyndari og hefur staðið sig betur þegar hann hefur komið inn á núna í haust og raunar hefur Quensah afar lítið spilað í haust.

Trent/Gomez/Robertson/Bradley: Bradley er tæpur – Gomez í miðverðinum, Robbo á sínum stað. Við vitum hvað Robbo getur þótt hann sé óumdeilanlega búinn að vera í töluverðri lægð undanfarnar vikur. Svo mikilli að hann er nánast búinn að missa sæti sitt sem öruggur byrjunarliðsmaður. Held að Slot sé samt frekar íhaldssamur og hann veit alveg hvað hann hefur í Trent og Robbo.

Miðjan: Curtis Jones er búinn að vera yfirgengilega góður síðustu vikurnar. Hann var magnaður á miðvikudaginn, sérstaklega í fyrri hálfleik. Sama á við um Gravenberch, hann var nánast maður leiksins gegn Southampton og MacAllister var geggjaður í seinni hálfleik gegn Real. Szoboszlai hefur átt hvað erfiðast uppdráttar af þessum fjórum sem hafa skipt með sér miðjustöðunum í haust. Elliott er auðvitað að koma inn eftir meiðsli og á nokkuð í land að eiga séns í byrjunarliðið.

Sóknin er síðan nokkurn veginn sjálfvalin, Salah auðvitað á sínum stað, ég held að Nunez byrji frammi til að keyra í plássið sem skapast fyrir aftan vörn City og svo verður Gakpo vinstra megin, kannski bara af því að Diaz byrjaði gegn Real. Og Gakpo skoraði auðvitað þar. Slot virðist skipta leikjum jafnt á milli þeirra sem er í mínum huga fullkomlega skiljanlegt. Samt gæti Diaz alveg verið í níunni.

Spáin mín: Anfield verður á yfirsnúningi eins og gegn Real Madrid. Síðdegisleikur á sunnudegi, stuðningsmenn búnir að fá sér aðeins og litlu mélkisarnir í Man City eiga eftir að brotna saman. Okkar menn eiga eftir að refsa grimmt, Salah elskar að skora gegn stóru liðunum og 3-0 verður niðurstaðan.

YNWA

12 Comments

  1. Jahérnahérjónas. Þetta er að bresta á. Úrslitaleikur um PL titil 1. desember! hver hefði trúað því?

    Ég kalla þetta úrslitaleik því ef okkur tekst ekki að vinna helsært og haltrand City á heimavelli meðan við erum á þessu sigurskriði þá er afar ólíklegt að við höfum þetta á Ethihad. Þetta er sumsé ekki 6 stiga leikur heldur 12 stiga leikur!

    Það var eftir hinu skítaliðinu í bransanum, að fólið Ancelotti skyldi senda málaliðann inn til að slasa Konate. Slot hefur ekki þorað að skipta honum út af minnugur hvernig fór fyrir City gegn hans gamla félagi. Já og sú útreið helgast að einhverju leyti af því að varaliðar voru hálfdrættingar á við þá sem yfirgáfu leikvanginn.

    Og við mætum liðinu sem komst í 3-0.

    Pep mun leggja allt undir í þessum leik. Sá sem ber ekki ugg í brjósti fyrir morgundeginum, þekkir ekki þann klækjaref.

    Það er svo gæfa og blessun að við skulum hafa þennan yfirvegaða Fríslending í brúnni. Fagmennskan í fyrirrúmi á þeim bænum og maður finnur hversu ánægðir leikmenn eru með þau bítti. Þeir þurftu tröllaknús og blóðhlaupna ástríðu á þeim tíma sem Klopp var að ýta liðinu úr kyrrstöðu. Núna er kominn tími til að skipuleggja og spila eins og þeir sem valdið hafa. Þvílík unun að horfa á þessar þversendingar meðal öftustu manna, sem skyndilega breytast í rýting sem ristir í gegnum miðju og vörn andstæðinganna.

    Má maður vera bjartsýnn? Já, ég þori það. Vinnum þetta 2-0 eins og við unnum fólin hans Ancelottis.

    12
  2. Rólegan æsing, við erum að fara að spila við liðið í 3ja sæti.

    8
  3. Heilir og sælir stuðnings menn og konur ???

    Auðvitað erum við enn með blóð í munni eftir þau 3 síðustu tímabil, ef ekki lengra aftur í tímann! ??????

    Hr. Klopp sagði sína stöðu lausa eftir að hafa verið kaffærður og ekki fengið að segja sína sögu, leikmenn hreinlega hundsaðir af óprúttnum skríl dómurum og stjórnendum FIFA OG FL… hreinlega gafst upp á þessum fíflagangi, skil hann mæta vel. En er jafnframt þakklátur fyrir hans digra og gjöfula starf ???? sakna hans alla daga ?

    Nýjar tímar og nýtt blóð er við völdin í dag og ekkert lát á MEIATARA HÀTTUM Liverpool gengisins enda erum við MEISTARAR MEISTARANNA SAMA HVAÐ HVER SEGIR ??????

    En að leikjum Liverpool á komandi dögum ???

    Shitty a morgunn, sært lið sem hefur gert ýmislegt sem önnur lið hafa hreinlega ekki haft efni à, þið getið lesið á milli línanna….

    Ég hef ALLTAF haft trú á okkar liði sama hvað og er ekkert að fara að draga í land hvað það varðar ???? Meiðsli her og þar, leikmenn koma og fara, og enn aðrir STÍGA UPP OG HREINLEGA BRILLLLLLERA ? þarf ekkert að telja þá upp hér ?

    Við spyrjum að leikslokum, og höldum höfði hàtt og hrópum ÁFRAM LIVERPOOL ??????????

    ? SIGUR OG EKKERTT ANNAÐ ? á morgunn ??

    #LIVERPOOL4LIFE #KOP.IS

    8
  4. Gundogan 2.0 er lappalaus, vonandi verður hann inná. Og vinstra hornið lak hressilega hjá Gvardiol á móti Spurs, hlakka til að sjá Salah fífla hann.

    2
  5. Sælir félagar

    Ég nenni ekki að vera að skíta eitthvað í City liðið. Það og stjórinn eiga svo sem enga sök á svindlinu heldur eru þetta bara fótboltamenn sem yfirleitt vinna sína vinnu – afburða vel. Undanfarið hefur þessu liði þó skrikað heldur betur fótur á grasinu og átt nokkra slæma leiki í röð. En það kemur því að því að Pep nær að lemja liðið saman aftur og þá er fjandanum erfiðara að eiga við það. Ég ætla samt að vonast eftir sigri í hunderfiðum leik og læt mig litlu varða hvort sá sigur vinns með einu marki eða tíu. bara sigur og ekkert nem sigur.

    Það er nú þannig

    YNWA

    18
  6. Ég verð að segja að ég er langt frá því að vera eitthvað sérstaklega sigurviss fyrir þennan leik. Held að það sé bara tímaspursmál hvenær Pep nær að stilla strengina saman á ný. Vona bara svo innilega að það verði ekki í dag. Meiðslamálin hjálpa ekki, en ég vona að Gomez komi jafn öflugur inn í miðvörðinn eins og hann kom inn í nánast hvaða stöðu sem er í vörninni á síðasta tímabili – og meira að segja eitthvað aðeins inn í djúpu miðjumannastöðuna sömuleiðis.

    Ég hef samt gríðarlega trú á mannskapnum okkar, og held að sigur okkar manna sé nú líklegri frekar en hitt, en tæpt er það og verður líklega.

    7
  7. Hvað geta everton verið lélegir?

    Þegar ég horfi á manutd þá get ég ekki annað sagt en ég hlakki til að spila við þá ef þeir verða svona. Sólknin ekki fullmótuð og pressa mjög hátt og verjast afar illa á síðast þriðjung.

    þetta gæti verið veisla fyrir lið eins og okkur eða tottenham. amk. á meðan þeir eru með þessa varnarlínu

    2
    • Everton hafa nú svosem alltaf náð að mótívera sig upp í Merseyside derby leikina, alveg sama hversu lélegir þeir hafa verið í leikjunum á undan.

      Sem betur fer dugar það sjaldnast.

      3
  8. Bradley frá í 6 vikur, Konate líka. Við fáum samt Trent aftur. Nú er að duga eða drepast. Liverpool má alls ekki tapa þessum leik. Vonandi heldur shitty áfram að spila illa, sem lengst.

    4

Konate frá fram yfir áramótin

Byrjunarliðið gegn Man City