KOP.IS – pennar eru búnir með spána sína í ár!!!
Eins og fyrri ár ætlum við að rúlla yfir það hvernig við spáum um lokastöðu ensku deildarinnar vorið 2019. Við röðum allir liðunum upp í sætin frá 1 – 20 og fá þau “öfuga stigatölu”, þ.e. liðið í 1.sæti fær 20 stig og það í 20.sæti 1 stig. Við leggjum svo stigin saman til að búa til þessa sameiginlegu spá okkar.
Ég held að við séum ekkert að fara yfir okkar spádómsgáfur í gegnum árin, enda þetta algerlega til gamans gert, en þó henti það í fyrra í fyrsta sinn að lið vann þessa spá með fullu húsi stiga. Um var að ræða Manchester City lið sem að setti svo met að vori…svo að eitthvað vissum við þá!
Í síðari hlutanum rúllum við yfir liðin frá 10.sæti og upp til meistaratitils…að þessu sinni ætla ég að uppfæra eftir hvert sæti…hafa svona eins konar “live feed” ef einhver skyldi vera að lesa núna.
Leggjum af stað…
10.sæti Wolves 81 stig
Nýliðarnir frá Wolverhampton, portúgalska nýlendan í enska boltanum er fyrsta liðið á blað þegar við horfum til efri hluta deildarinnar. Nuno Espirito Santo er klókur stjóri sem bjó til afskaplega skemmtilegt fótboltalið sem að fór býsna létt í gegnum Championshipdeildina. Í sumar hafa þeir styrkt liðið all duglega, með a.m.k. 9 öflugum leikmönnum sem margir hverjir eru landsliðsmenn öflugra landa. Markvörðurinn Rui Patricio, kantmaðurinn Diego Jota og Joao Moutinho á miðjunni bætast við nýlenduna, Armand Traore kemur á kantinn auk nokkurra annara. Liðið ætlar sér í efri hluta deildarinnar og við teljum að svo verði, nokkuð sem ætti að gleðja fyrirliðann þeirra, Scouserinn Conor Coady sem uppalinn er hjá LFC.
9.sæti Leicester 92 stig
Meistararnir frá 2016 enda í 9.sætinu í vetur, nokkuð ofan við Úlfana ef okkar spá reynist rétt. Franski refurinn Claude Puel er öflugur stjóri sem mun þó þurfa að díla við að missa stjörnuleikmanninn Ryad Mahrez, auðvitað verður það lykillinn að þeirra velgengni. Í stað Mahrez fjárfestu þeir í nokkrum leikmönnum sem eru spennandi, dýrastur sóknarmiðjumaðurinn James Maddison sem kemur frá Norwich, portúgalski bakvörðurinn Pereira kemur frá Porto og gaman verður að sjá tyrkneskan hafsent að nafni Caglar Söyüncü sem kemur til liðsins frá Freiburg, sá var undir smásjá stórliða og valdi Leicester. Hryggjarsúlan er sterk í þeim Schmeichel, Maguire, Ndidi og Vardy, það mun skila þeim í efri helminginn en þó ekki í Evrópusæti.
8.sæti West Ham 100 stig
Fyrsti mótherji okkar í deildinni, Hamrarnir frá London enda í sæti númer átta. Þeir ákváðu að losa sig við David Moyes þó hann hafi náð að halda þeim nokkuð duglega uppi og fengu í staðinn rótgróinn meistara, Manuel Pellegrini, til að stýra liðinu. West Ham hafa lengi haft stórliðsdrauma, eru komnir með geggjaðan völl á flottu markaðssvæði í London og þessi árangur er klárlega lágmarksárangur í huga eigendanna. Liðið hefur styrkt sig duglega í sumar, vængmennirnir Felipe Anderson og Yarmolenko eiga að skaffa hraða og vídd, framherjinn Lucas Perez á að skora, Lukas Fabianski verður með hanskana og til að verjast betur sóttu þeir öflugan Frakka, Issa Diop og miðjumanninn Carlos Sanchez. Stóra sagan var svo kannski að Jack Wilshere er mættur á miðjuna hjá klúbbnum sem hann studdi sem barn, töluvert gert úr því. Bætum Manuel Lanzini í jöfnuna og við erum með fínt skipað lið…og stjóri sem kann öll trikkin. West Ham verður alvöru lið.
7.sæti Everton 108 stig
Gylfi Sig og félagar enda í 7.sæti – sem gefur möguleika á Evrópusæti. Þeir létu Sam Allardyce fara þrátt fyrir að hann hafi náð að halda þeim uppi (okkur pennunum til mikillar ógleði) og sóttu í staðinn Marco Silva sem hefur náð fínum árangri í Englandi. Hann þarf að gjörbreyta leikstíl liðsins sem var beinlínis “hit and hope” í fyrra og til þess sótti hann sex leikmenn, vængmennina Richarlison og Bernard, bakvörðinn Digne, sóknarmiðjumanninn André Gomes, bakvörðinn Lucas Digne og miðverðina Kurt Zouma og Yerry Mina. Gylfa er víst ætlað hlutverk á miðju félagsins, allt þetta leiðir okkur til þeirrar ályktunar að liðinu muni ganga býsna vel og ná sínu klassíska toppsæti. Þeir ætla sér miklu stærri skref í framtíðinni vissulega en þetta ætti að gleðja þá í bili…satt að segja held ég að þeir hafi náð sínum draumum þegar Allardyce var látinn fara!
6.sæti Arsenal 127 stig
Wenger horfinn frá, eftir tæplega 30 ár. Það verður stórt hjá skyttunum í Norður London og nokkuð sem margir stuðningsmenn biðu eftir. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með Arsenal eftir Wenger og getur farið í allar áttir. Stjórinn er auðvitað þrælreyndur og hörkuflottur, Unai Emery hefur unnið titla þar sem hann hefur verið og hefur reynslu af toppslag. Kaupin þeirra í sumar minna svolítið á LFC fyrir Klopp, verið að reyna að finna óslípaða demanta í hillunni þar sem að þarf að leita. Vissulega eru Lucas Torreira, Bernd Leno, Sokratis og Lichtsteiner leikmenn sem hafa verið í stórum liðum og/eða deildum en þeir eru engir ásar svona að sjá fyrirfram. Árangurinn mun ráðast hvernig tekst að virkja og svo finna stöðugleika hjá sóknarmönnununm Özil, Lacazette, Aubemyang og Mkhitaryan. Ef þeir verða í standi munu Arsenal gera atlögu að Meistaradeildarsæti. En það mun ekki ganga…eyðimörk Arsenal hverfur ekki með Wenger.
5.sæti Chelsea 130 stig
Annar Lundúnarisi teljum við að verði utan Meistaradeildar. Chelsea ákvað að reka Antonio Conte eftir lengsta skilnaðarferli fótboltasögunnar. Sá kvaddi Chelsea eftir að hafa skilað meistaratitli og bikar. En það var öllum ljóst að allt var gallsúrt hjá bláum í fyrravor, Roman var hundfúll að horfa á liðið sitt spila fótbolta og stjórinn var grautfúll með starfsumhverfið. Maurizio Sarri var sóttur til Napoli, stjóri sem vill að sín lið spili hápressu sóknarfótbolta…jább…nefnilega það. Það verður verk fyrir hann eftir Mourinho og Conté! Stóru kaupin voru dýrasti markmaður knattspyrnusögunnar, Kepa Arrizabalaga sem á að baki eitt tímabil í La Liga og á að fylla í skarð Courtois og síðan tveir býsna öflugir miðjumenn, þeir Jorginho og Mateo Kovacic. Serri virkar býsna hress og flottur gaur sem ætlar sér svo sannarlega að uppfylla óskir eigandans um árangursríkan OG áferðarfallegan fótbolta. Þar mun margt standa og falla með því að fá Eden Hazard til að vera með…við reiknum með að það takist en það muni ekki duga Chelsea til að ná sæti í Meistaradeildinni 2019.
4.sæti Tottenham 133 stig
Sigurvegari Lundúnadeildarinnar í vetur verð Tottenham. Eins og þið sjáið munar býsna litlu í spádómsstigunum milli þessara þriggja liða svo að við teljum að þau muni berjast hatrammlega um síðasta sætið sem enska deildin gefur í Meistaradeildinni. Tottenham breytti einfaldlega engu í sumar. Missti engan sem máli skipti og keypti engan. Samt höfum við trú á þeim. Ástæðan er einföld…Mauricio Pochettino. Þar fer stjóri sem við höfum mikla trú á og alger lykill að öllu hjá Spurs. Fótboltinn sem hann spilar er afar skemmtilegur og leikmenn njóta þess að spila fyrir hann. Vissulega mega þeir lítið við meiðslum lykilmanna eins og Kane, Alli, Erikson, Dier og Lloris en á sama hátt er hörkuflott lið á ferð þegar þessir eru allir heilir. Við munum opna nýja völlinn þeirra, sá hefur áhrif á kaupgetu liðsins en ætti að skila þeim fleiri stigum en Wembley gerði. Spurs komast í Meistaradeild en munu missa Pochettino til Spánar í kjölfarið.
3.sæti Manchester United 138 stig
Já. Mourinho og félagar falla um eitt sæti milli ára. Gríðarlega sterkur leikmannahópur, sá dýrasti í deildinni og fullur af hæfileikamönnum en mixið er skrýtið. Stjórinn virðist hafa borðað skipsfarm af súrum gúrkum og hent öllum hárvörunum sínum í sumar og opinbert rifrildi við yfirmenn hans í lok gluggans tóku mikið pláss. Kannski var Móri bara að blása upp leikþátt til að berja sínum mönnum orku í brjóst, hver veit. Hins vegar held ég að allir séu sammála um það að United var ekki að styrkja lið sitt á þeim stöðum eða með þeirri týpu af leikmönnum sem við reiknuðum með. Ef að Pogba, Sanchis, Martial, Lukaku…getum haldið áfram töluvert…ná að uppfylla sína hæfileika verður United ofar og gæti tekið titilinn. Til þess þurfa allir að toga í sömu átt. Það virðist alls ekki vera á ferðinni, United endar í 3.sæti og Mourinho klárar ekki tímabilið á Old Trafford. Zidane bíður eftir símhringingunni….
2.sæti LIVERPOOL 153 stig
Jebb. Allverulega ofan við United, Spurs, Chelsea og Arsenal en náum ekki titlinum. Við erum allir óskaplega ánægðir með sumargluggann með Fabinho, Keita, Allison og Shaqiri…kannski mest því að missa engan stórlax…og höfum óbilandi trú á Klopp og þjálfarateyminu. Við munum gera alvöru atlögu að titlinum og vinna eina bikarkeppni á meðan, en erum ekki alveg tilbúnir að verða meistarar. Það eru þó tveir okkar sem trúa á titilinn, þeir Beardsley og Einar Matthías. Vonandi munu þeir hafa rétt fyrir sér!
1.sæti Manchester City 158 stig
Fáum á óvart auðvitað. City bætti bara við sig einum stórum, fengu Ryad Mahrez frá Leicester en þeir halda sama liði, leikmann fyrir leikmann, sem settu öll met möguleg í ensku deildinni og með síhungraðan Pep Guardiola við stjórnvölinn munu þeir ná að verja titil sinn, sem ekki hefur gerst lengi á Englandi. Þeir munu hins vegar þurfa að hafa miklu meira fyrir því en í fyrra og ef þeir misstíga sig ætlum við að grípa gæsina um leið og hún gefst – en þó höfum við ekki trú á að það muni gerast. Ljósbláir vinna.
Og þar með má þetta hefjast. Fyrsta upphitun fyrir leik er rétt undan og fjörið byrjar á sunnudag.
Þetta verður ROSALEGT!!!!!
Er von á 8 til 1 fljótlega?
Ps. Það tók united 3mín að fá jafnmargar vítaspyrnur og Liverpool fékk á síðasta tímabili
Hvaða neikvæðni er þetta erum við ekki búnir að vinna þá í síðustu 4 leikjum
höldum því bara áfram
Spár eru alltaf góðar, en sá aðeins manu-lei, sagði við sjálfan mig jæja þá eru silfurfötin klár fyrir manu, fengu auðvitað víti á silfurfati nema hvað. Þetta er hætt að vera fyndið í alvöru. Það liggur við að maður fái Indriða í málið. 4-0
YNWA
Pele hefur trú á að Liverpool vinni deildina núna.
Áfram Liverpool
Fokk it hvað er þar?
Liverpool vinnur þetta og það örugglega.