Hugtakið “smash’n grab” var notað svolítið mikið í síðustu viku eftir fyrri leik okkar manna gegn PSG sem fór fram í París. Og svosem ekkert skrýtið, það mætti alveg halda því fram að þetta hafi verið ósanngjörn úrslit, en þegar öllu er á botninn hvolft þá er fótbolti íþrótt þar sem það lið sem skorar fleiri mörk vinnur. Önnur tölfræði – hvort sem hún heitir xG, possession eða hvað annað, skiptir bara nákvæmlega ENGU máli.
En það er ljóst að fyrri leikurinn – þó hann hafi unnist – var stórt rautt flagg fyrir okkar menn. Það þurfti topp-heimsklassa leik hjá Alisson okkar Becker til að koma í veg fyrir að PSG næði að skora, og svoleiðis frammistaða er einfaldlega ekki eitthvað sem er hægt að stóla á. Vonandi var ekkert annað í gangi þarna en klassískur glímuskjálfti, og eins gott að hann sé horfinn núna.
Liverpool fer inn í þennan leik hafandi tilkynnt í dag að Adidas (sem af einhverjum ástæðum er bara kallað adidas með litlum staf í fréttatilkynningunni) verði opinber framleiðandi allra Liverpool búninga frá og með næsta tímabili. Þetta voru fínustu 5 ár með Nike, en það er ágætt að skipta reglulega. Það er talsvert síðan að það fóru að leka á netið myndir af búningum næsta tímabils, og þessi ráðahagur er nú eiginlega búinn að vera öllum ljós í einhvern tíma, en er loksins opinber frá og með deginum í dag. Það er talað um að líklega sé þessi samningur að skila hátt í 100M punda á ári, þá reyndar með öllum bónusum.
Andstæðingarnir
Ívar okkar fór ágætlega yfir sögu Parísar í upphituninni í síðustu viku, og sögu PSG má finna í upphituninni sem hann linkaði á. Við förum því ekki í þá sálma hér.
Það fór ekkert á milli mála að PSG liðið kom fullt sjálfstrausts inn í leikinn í síðustu viku, og hafði enda ekki tapað síðan í lok nóvember þegar þeir heimsóttu Bayern München í Þýskalandi. Þar á undan höfðu þeir síðast tapað á heimavelli þann 6. nóv þegar Atletico kom í heimsókn. Þeir eru því búnir að vera á gríðarlegri siglingu síðustu 4-5 mánuðina.
PSG spiluðu um helgina rétt eins og okkar menn, en leyfðu sér að hvíla megnið af aðalliðinu sínu þegar þeir heimsóttu Rennes á laugardaginn og fóru með 1-4 sigur af hólmi. Eftirtaldir leikmenn sem voru í byrjunarliðinu fyrir viku síðan voru ekki í byrjunarliði á laugardaginn: Donnarumma, Hakimi, Marquinos, Mendes, Vitinha, Ruiz, Kvaratskhelia og Dembélé. Pacho, Neves og Barcola sem byrjuðu á miðvikudaginn byrjuðu líka leikinn á laugardaginn, þeir Dembélé, Mendes, Vitinha og Kvaratskhelia komu inná síðasta hálftíma leiksins, en Hakimi spilaði síðasta korterið. Þeir mæta því að mestu óþreyttir í leikinn.
Munum nú samt að í Barca leiknum fræga vorið 2019, þá held ég að allt Barcelona liðið hafi hvílt helgina á undan. Stundum þá hjálpar að vera kominn í góðan rytma.
Það breytir því samt ekki að við skulum reikna með þeim að minnsta kosti jafn öflugum eins og fyrir viku, og nú mæta þeir í hefndarhug. Eru líka með bakið upp við vegg, rétt eins og strákarnir okkar voru í Barca leiknum góða. Ekkert annað í boði en að eiga toppleik gegn þeim.
Okkar menn
Slot og Jota sátu fyrir á blaðamannafundi í dag, þar kom fram að Cody Gakpo er mættur til æfinga og verður í hóp á morgun. Szoboszlai spilaði fyrri hálfleikinn á laugardaginn og var alls ekki góður, MacAllister spilaði þann seinni og var eins og hann á að sér, verandi heimsmeistarinn sem hann er. Þá er það spurningin um Gravenberch, sem spilaði megnið af leiknum á laugardaginn og fór ekki útaf fyrr en þegar 10 mínútur voru til leiksloka. Manni finnst hafa verið smá þreytumerki á honum upp á síðkastið, og ef það ætti að hvíla einhvern miðjumannanna gegn PSG þá væri það hann. En svo á hinn bóginn þá er hann náttúrulega ógeðslega góður þegar hann er í stuði. Reikna frekar með að sjá hann meðal fyrstu 11 þegar liðið verður gefið út.
Svo er það spurningin með sóknarlínuna. Eða sko, það er auðvitað engin spurning að Salah byrji, ÞÓ svo að Ramadan sé komið í gang og verði þar til í lok mars (guði sé lof fyrir að það eru ekki fleiri leikir í mars en þeir eru! Jújú það er víst einhver leikur á Wembley um næstu helgi líka…). Það að Jota skyldi mæta á blaðamannafundinn er mögulega vísbending um að hann eigi að byrja, en svo á hinn bóginn þá var hann að ströggla fyrir viku, og liðið hrökk eiginlega í gang um leið og Nunez kom inná. Talandi um þann kappa, þá stimplaði hann sig heldur betur inn á laugardaginn með þessu líka fína slútti og með því að vinna vítaspyrnu rúmlega mínútu síðar. Þarna sást í þennan Darwin sem við elskum öll, og elskum að hata eða hötum að elska þegar hann klúðrar færunum sínum. Ég ætla að veðja á að Slot gefi Nunez sénsinn, mögulega byrja þeir bara báðir, hann og Jota. Díaz er jú búinn að spila helling upp á síðkastið, og ég efast um að Gakpo verði hent út í djúpu þegar byrjunarliðið verður valið.
Annar leikmaður sem var búinn að vera aðeins úti í kuldanum en hefur stimplað sig inn síðustu vikuna eða svo er Harvey Elliott. Nú er hann búinn að eiga tvær fínar innkomur af bekknum, er það nóg til að hann byrji? Líklega ekki, og kannski hentar það honum bara vel að koma inn af bekknum gegn ögn lúnum andstæðingum.
Téður Elliott er svo einn þeirra sem er á hættusvæði þegar kemur að gulum spjöldum. Við vonum jú öll að okkar menn vinni þetta einvígi og komist í 8 liða úrslitin, en nokkrir leikmenn verða í banni þar fái þeir gult í þessum seinni PSG leik. Þetta eru þeir Elliott, Ibrahima Konate, Alexis Mac Allister, Andy Robertson og Virgil van Dijk. Semsagt, sumir verða að passa sig.
Spáum liðinu því svona:
Trent – Konate – Virgil – Robbo
Grav – Macca
Salah – Szoboszlai – Nunez
Jota
Undirritaður yrði samt ekkert hissa þó Jones, Elliott, Díaz eða Gakpo sæjust í byrjunarliði. Hissið yrði aðeins meira ef t.d. Chiesa eða McConnell myndu byrja.
Okkar menn fara í 8 liða úrslitin, segjum 2-1 sigur með mörkum frá Macca og Virgil. Myndi alveg taka jafntefli, þó svo það myndi þýða sprengitöflur síðustu mínútur leiksins.
KOMA SVO!!!!!
Þetta verður erfiður leikur og ég gæti alveg trúað því að við munum liggja mikið til baka og beita skyndisóknum.
Við náðum aðeins að hvíla miðjuna um helgina en það mun mæða mikið á henni í kvöld.
En Anfield er Anfield og evrópukvöldin þar eru engu lík. Það mun ráða úrslitum.
Áfran Liverpool!
*Áfram Liverpool!
Takk fyrir hlaðvarpið. Alltaf gaman að hlusta á ykkur og einkum þegar vel gengur!
Þetta verður þeysireið í kvöld, kynt á öllum kötlum. Parísarbúar verða jafn hungraðir í sigur og Hnjúkaselið verður á sunnudaginn. Það verður ekki létt verk að mölva þær vonir í tvígang.
Treysti á agaðan leik í kvöld. Gæti alveg trúað að þetta endi í vító. Stemmningin verður vonandi góð en hvað veit maður annars þegar borga þarf 300 kúlur fyrir sætið? Ekki víst að fína fólkið láti hátt í sér heyra.
Held að við verðum stórhætturlegir í skyndisóknunum. Getum amk. ekki verið verri en í París. Held að við setjum 2 í fyrrihálfleik með geggjuðum hraðaupphlaupum!
PSG fengu okkur á versta degi sem ég hef séð í vetur og það verður allt annað uppá teningnum í kvöld
Djöfull er maður að verða peppaður fyrir þennan leik!
Verður eitthvað, vonandi að liverpool keyri allt á þetta, full throttle.
Góða kvöldið öll.Vinkona mín sem er mikill poolari en er ekki með áskrift að meistaradeildinni og langar að sjá leikinn.Er einhver með góðan link a leikinn og krefst ekki mikillar tæknikunnáttu?:)