Í byrjun júní skrifaði ég pistil þar sem ég hafði orð á því í hversu undarlegri stöðu Brendan Rodgers er þetta sumarið. Nú, tveimur mánuðum síðar, hefur sú skoðun mín ekki breyst. Það er búið að veðja ansi hraustlega á Rodgers í sumar og það er fullkomlega eðlileg krafa hjá okkur að hann launi það traust strax.
Vandamálið er bara að það er líka ansi margt í sumar sem bendir til þess að við þurfum að gefa þessu liði tíma. Ég skal tíunda nokkrar helstu ástæðurnar:
8 leikmenn
Þetta er fjöldi þeirra leikmanna sem hafa verið keyptir í sumar, eða sjö plús Origi svo þetta sé nákvæmt hjá mér. Gildir einu, það eru átta ný andlit að finna sér heimili í Liverpool, leggja hlutina á Melwood á minnið og læra nöfnin á starfsfólkinu (og sumir að læra nýtt tungumál líka). Það má skipta þessum leikmannakaupum svo; fjórir sem ættu að fara beint í byrjunarlið (Clyne, Milner, Firmino, Benteke), þrír sem fá mikinn spilatíma í vetur (Ings, Origi, Gomez) bæði af bekk og í byrjunarliði og ein varaskeifa (Bogdan).
Mín skoðun á glugganum er sú að þar hafa verið unnin fín störf. Í nær öllum tilfellum hafa leikmannakaup styrkt stöður fráfarandi leikmanna:
Brad Jones » Adam Bogdan – Ekki styrking, varaskeifa fyrir varaskeifu. Hefði viljað fá betri mann til að þrýsta á Mignolet hér.
Glen Johnson » Nathaniel Clyne – Styrking, bæði yngri og betri leikmaður á lægri launum.
Jose Enrique » Joe Gomez – Gomez er mikið efni, verður þó að koma í ljós hvort þetta er styrking. Á lægri launum, samt.
Steven Gerrard » James Milner – Styrking, 29 ára Milner betri en 35 ára Gerrard.
Raheem Sterling » Roberto Firmino – Missum helstu vonarstjörnu okkar en fáum brasilískan landsliðsmann í staðinn? Þoli það. Á pari hér þar til annað kemur í ljós.
Rickie Lambert » Divock Origi – Yngri, á lægri launum og sennilega betri. Mjög góð skipti hér fyrir okkur.
Fabio Borini » Danny Ings – Yngri, sennilega betri. Verður að koma í ljós eins og með Origi en á pappír jákvæð styrking.
Mario Balotelli » Christian Benteke – Sko, tíminn verður að leiða í ljós hversu góður Benteke er en hann er pottþétt upgrade frá Balotelli, enda varla hægt að gera mikið verr sem aðalstriker Liverpool.
Stóra styrkingin hérna er í sókninni. Blindi bletturinn er sá að Mignolet fær ekki aukna samkeppni og miðvarðastaðan er ennþá í veseni. Martin Skrtel, sem í mörg ár var ekki öruggur með sæti sitt í liðinu, er núna klár kostur nr. 1 og við hliðina á honum berjast meiðslapésinn Sakho og vonbrigðakisinn Lovren um stöðuna. Ég veit að ég talaði í vor um að ekkert skipti mig máli nema sóknarkaup og ég er því bölvaður hræsnari hérna, en í dag er ég allt í einu skíthræddur við vörnina okkar.
Nýtt þjálfarateymi, stækkun Anfield o.sv.frv.
Átta nýir leikmenn er slatti, en það er margt annað sem gæti flokkast undir “þurfum að gefa liðinu tíma”. Í fyrsta lagi skipti Rodgers nær alveg um þjálfarateymi sitt í sumar og það getur tekið tíma fyrir nýjar áherslur nýrra þjálfara að sýna sig. Þá er verið að vinna í stækkun Anfield sem mun hafa áhrif á aðsókn á fyrstu heimaleiki (og mögulega stemningu fyrir vikið).
Loks er það svo leikjaplanið sem var okkur heldur betur erfitt í þetta skiptið. Það hefur sennilega ekki farið framhjá neinum að fyrstu sjö útileikir liðsins eru með erfiðasta móti; Stoke, Arsenal, Man Utd, Everton, Tottenham, Chelsea, Man City. Þetta er leikjahrina sem gæti hæglega rústað þessu tímabili áður en það hefst og tryggt að okkar menn séu eftir á í deildinni frá byrjun. Með átta nýja leikmenn, nýja þjálfara og þetta leikjaprógram finnst mér nánast ómögulegt að ætlast til einhverra kraftaverka strax í haust. Ég myndi svona fyrirfram þiggja 2 sigra, 3 jafntefli og 2 töp í þessum leikjum, sennilega er mikilvægast að tapa sem fæstum af þeim svo að keppinautarnir hirði ekki öll stigin á okkar kostnað.
Á móti eru heimaleikirnir auðveldari á pappír; Bournemouth, West Ham, Norwich, Aston Villa, Southampton, Crystal Palace, Swansea. Hér ætti maður í raun að geta gert þá kröfu að liðið vinni hvern einasta leik, jafnvel þótt það verði aldrei raunin, en 5 sigrar og 2 jafntefli eru lágmark úr þessum leikjum ef liðið ætlar sér að gera eitthvað í vetur.
Segjum það. 5 sigrar og 2 jafntefli heima, 2 sigrar og 3 jafntefli úti. Það gera 26 stig af 42 úr fyrstu 14 umferðunum, en í fyrra voru aðeins þrjú lið með þann árangur eftir 14 umferðir. Ég myndi þiggja það í ár og telja það geta lagt grunninn að (óvæntri) velgengni í deild í vetur.
Þetta er samt ansi stór pöntun. Bara tvö töp í 14 umferðum innan um Evrópudeild, nýja leikmenn, stækkun vallar, nýja þjálfara og svo framvegis? Úff.
Rodgers
Lykillinn í þessu öllu er áframhaldandi vera Brendan Rodgers á hliðarlínunni. Með allar þær breytingar sem hafa verið gerðar í sumar, ef það hefði bara verið skipt um knattspyrnustjóra líka væru menn pollrólegir í dag og klisjurnar væru á flugi. “Ancelotti þarf tíma,” “Klopp þarf að læra á enska boltann,” “Allardyce er með ungt lið í höndunum” (ekki æla). En af því að Rodgers fékk að vera áfram, þegar flestir töldu að hann myndi missa starfið og meirihluti stuðningsmanna var sennilega kominn á þá skoðun að hann ætti það skilið, er staðan sú að liðið má bara ekki við því að byrja hægt.
Fyrstu tveir leikirnir eru gegn Stoke úti og Bournemouth heima. Hér þarf liðið að ná að lágmarki 4 stigum af 6, annars verða löngu hnífarnir strax dregnir úr slíðrum.
Ég er einfaldlega mjög stressaður yfir þessari stöðu. Ég man ekki hvenær ég var síðast jafn lítið spenntur og jafn mikið hræddur við upphaf tímabils og núna. Allt sem hefur farið fram í sumar hrópar á mig að þetta lið þurfi tíma og að við verðum að anda rólega þótt liðið byrji hægt en á sama tíma veit ég að það verður enginn tími gefinn, ef liðið t.d. vinnur ekki leik í ágúst verður allt orðið vitlaust strax um næstu mánaðarmót. Út af því að Brendan Rodgers er ennþá þarna.
Þetta er sérstök staða, það er ekki spurning. Rodgers virðist ætla að gera hlutina á sinn hátt – nýtt þjálfarateymi, Lovren fram yfir Sakho, átján ára strákur í bakverði á meðan Moreno situr á bekk, aldrei varnartengiliðir, og sv. frv. – og það er aðdáunarvert. Hann hefur fengið frábæran stuðning yfirmanna sinna í sumar og fær að setja þetta tímabil upp eins og hann vill. Hann mun ekki hafa neinar afsakanir ef þessi vetur fer illa. Sviðsljósið er á honum og í þetta sinn lýsir það af fullum styrk.
Ég er skíthræddur um að þetta klikki allt saman. Það er samt alls ekkert víst að þetta klikki.
Tímabilið 2015/16, vertu velkomið. Farðu varlega með viðkvæma stuðningsmenn Liverpool, vinsamlegast.
YNWA
“Ég er skíthræddur um að þetta klikki allt saman. Það er samt alls ekkert víst að þetta klikki.”
Súmmerar þetta allt saman upp.
Ég er hræddastur við þetta box-to-box upplegg Rodgers, að það geri ómannlegar kröfur til miðjumannanna tveggja og það eigi einfaldlega ekki eftir að virka. Sama með nýju mennina, hverjir smella strax, hverjir af kaupunum í fyrra munu ná að blómstra?
Spennandi, en samt mikið óvissutímabil framundan. 5. sætið á að vera krafa, 4. sætið væri flott, þriðja enn betra, en liðin fyrir ofan okkur, Tottenham meðtalið, eru ekki að fara að gefa nokkurn skapaðan hlut.
Sæl og blessuð.
Ég spái ekki taplausu hausti.
Ég skil ekki afhverju allir halda að Bogdan sé ekki styrking frá Brad Jones, Bogdan skutlar sér allavegna í áttina sem boltinn er að fara í.
Hann hefur gert fínustu hluti hjá Bolton og auk þess spilað fyrir landslið Ungverja, ekki jafn slæmur og menn halda.
Ég er sammála með áhyggjur með varnarleikinn.
Hefur verið okkar hausverkur undanfarin ár. Það hversu góður sóknarleikur okkar var fyrir tveimur árum, setti grímu á veikleikana þar. Auðvitað áttu kaupin á Lovren að stoppa í það gat, en því miður þá gekk það ekki upp í fyrra.
Kannski þarf sá maður smá sjálfstraust, losna við pressuna á kaupverðinu og það að vera “lausnin” á vandanum til að vera sá leikmaður sem flest okkar bjuggust við…… en höfum við þolinmæði fyrir slíkt?
Þolinmæði er vandamál í boltanum í dag, og okkar lið ekki undanskilið. Hvaða skilaboð haldið þið að séu til ungra stráka sem spila þarna að það sé ávallt árleg uppstokkun á liði ef að allt er ekki vín og rósir? Nokkuð viss að undir slíkri pressu þá reyna menn yfirleitt allskonar krúsídúllur til að sýna hversu “frábærir” þeir eru. En það eru einmitt þessar krúsídúllur sem ég þoli ekki. Eigingjarnir leikmenn, spilla fyrir liðinu og slíkt ástand skapar eigingjarna og sjálfhverfa stemningu.
Ef maður horfir yfir hópinn þá er þetta hreint fínasta lið á pappír. Eina sem mig hefur fundist vanta undanfarið er þessi “ryksugu Roy Keane” týpa á miðjuna. Sérstaklega eftir að Lucas missti getuna vegna meiðslanna. En með réttu hugarfari og góðri þjálfun þá getur þetta lið algerlega gert atlögu að topp fjórum.
Aðeins útúrdúr.
Kóðinn í fantasy deild kop.is er
1880140-430948
http://fantasy.premierleague.com/
Fyrir spá áhugamenn þá tók Eco saman spá helstu fjölmiðla á Englandi
og til þess að gera langa sögu stutta. Sleppum þessum tímabili allir eru samála að 5.sæti sé okkar 🙂
http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/liverpool-fc-2015-16-preview-9795437
Alltaf vill maður sínu klúbbi vel og meira að segja svo vel að maður fer að færa rök fyrir því að þessi og þessi leikmaður sé á lægri launum og þess háttar þó svo að maður hafi ekkert með útgjöld eða rekstur félagsins að gera.
Spái því að það verði farið varlega í breytingar í haust og Milner, Benteke, Clyne og jafnvel Gomes þurfi ekki að aðlagast enska boltanum líkt og td. Friminio sem verður líklega skiptimaður fyrstu leikina. Það eru samt 4-5 nýjir leikmenn að byrja á sunnudag fyrir okkur Annars er það svo að virkilega góðir leikmenn þurfa ekki að aðlagast svo mikið. Ings er klárlega vanmetinn af mínu viti og er hrifinn af drengnum og hans hreyfingum inn á vellinum.
Spái okkur í 3.-4. sætið og verðum vonandi allan tímann í og við toppinn.
Held að Lallana og Lovren verði Brodgie að falli. Finnst stundum einsog hann sé bara að spila 4-2-3-1 svo talsmaðurinn hans Lallana geti verið í liðinu. Skil ekki af hverju hann notar ekki 442 demantinn sem er besta kerfi sem hann hefur notað við notuðum það einu sinni í fyrra þegar við slátruðum tottenham 0-3. Getum notað benteke,origi,ings,studge og firmino frammi. Efst í demantnum coutinho,firmino,ibe og markovic. Á miðjunni coutinho,henderson,can,milner. Neðst í demantnum can,allen og lucas. Annars hef ég enga trú á Brodgie virðist með of stórt egó og alltof þrjóskur. Ef þú nærð ekki að fá liðið þitt til að spila sinn besta leik þegar að goðsögn einsog Gerrard er að spila sinn síðasta heimaleik þá ertu ekki góður þjálfari punktur
Ekki vanmeta gary mcallister. Hann a eftir ad gera gagn tarna
Vantrú á BR er til staðar. En maður verður að treysta eigendunum. Liðið virðist mun sterkara nú á pappír en ég hef samt alltaf áhyggjur af því að okkur vantar almennilegan DM sem minnir á Hamann eða Mascherano.
BR á eftir að koma sterkur út eftir 10 fyrstu leikina.
Við erum í allra hugum underdogs í upphafi, erfitt prógramm o.s.frv en það hentar okkur vel og við troðum sokkum.
Það er frábært að allir hafi þá skoðun að fyrstu fjögur séu frátekin því það hjálpar til með mindsettið á okkar mönnum og ég er klár á því að BR mun nýta það.
Það er 100 % öruggt að eitthvað af þessum fjórum munu klikka. Ég spái City og Chelsea verður svo óvænt í vandræðum líka.
Þetta verður skemmtilegt haust.
YNWA
Brendan var álitin galdramaður á þar síðasta tímabili. Hann hefur varla versnað sem stjóri eftir það, eða hvað? Hann er fullkomlmega innií plönum FSG og verður okkar stjóri áfram og ég styð það. Traustari yfirlýsingu um slíkt frá eigendunum eins og hann fékk í sumar er afar sjáldséð. FSG og Brendan vita allveg hvert þeir eru að fara og LFC risinn er að vakna!!!
Rodgers er undir mikillri pressu en hvað er raunsæ krafa fyrir árið í ár ? Ég myndi segja að allt meira en 5 sæti er viðunandi árangur og allt undir því er óásættanlegt.
Mér finnst samt að aðhangendur verði að vera sanngjarnir. Liverpool gæti verið í algjöru miðju moði í upphafi tímabilsins en samt að ná það góðum árangri því það er búið að mæta öllum sterkustu andstæðingunum og er í raun búið að leggja grunn að meistaradeildarsæti.
Ég er þér sammála að mestu leyti Kristján, liðið er að fara inn í óvissu tímabil þar sem hafa orðið afar miklar breytingar á mannskap, bæði í leikmannahóp ásamt þjálfarateyminu.
Hins vegar langar mig til að bæta inn einu atriði varðandi BR, hann hefur staðið í heiftarlegum skilnaði við fyrrum konu sína þar sem öll samskipti fara fram í gegnum lögfræðinga.
Án þess að fullyrða neitt þá hljóta svona hlutir að hafa neikvæð andleg áhrif á þá sem standa í þessu, skilnaðurinn hefur staðið yfir síðan síðasta sumar og stendur í hámarki þessa stundina.
Er nú ekki alveg sammála um að Rodgers sé undir mikilli pressu, þ.e. eins og ég skil fyrirbærið. Rodgers hefur einn og stakur séð um að fáir búast við miklu af honum. Ég hef ekki enn séð blaðamann spá Liverpool ofar en 5 sæti. Það er helst að menn veðji um hversu lengi Rodgers heldur starfinu.
Pressan er a.m.k. ekki frá fjölmiðlum um árangur á fótboltavellinum enda, eins og bent er á í greininni, ekki einfalt að samþætta samtímis 8 nýja leikmenn og þjálfarateymi.
Brendan Rodgers hefur tapað mikilli virðingu bæði aðdáenda og sérfræðinga. Hann getur því pressulaust unnið að því að endurheimta orðspor sitt ef hann þá er maður til þess.
Ég hef einnig áhyggjur af stöðunni.
A. Við höfum keypt góða menn, jafnvel mjög góða – en ekki heimsklassa menn eins og ætti að vera hjá Liverpool. Breiðari hópur góðra leikmanna, betri en í fyrra en ekki sá heimsklassi sem Liverpool á að vera í.
B. Það er búið að hypa þennan Stoke leik alveg fáránlega upp. Munum leiðrétta mistökin frá í vor / svörum fyrir okkur í leiknum / o.s.frv. Stressfactorinn orðinn allt of hár.
C. Ungt og mjög efnilegt lið – nákvæmlega það: ungt og efnilegt !
D. En …… YNWA
Að allt öðru. Stórskemmtileg auglýsing fyrir FIFA 16 með okkar einstaka Carrager í aðalhlutverki. Einhver gamall hægri bakvörður frá the scum leikur aukahlutverk.
https://www.youtube.com/watch?v=dzogfrv-WUw
Ég er á því að mestu mistök Rodgers í sumar hafi verið að fá sér ekki aðstoðarmann sem heitir Hammerstein.
Hef enga trù á Rodgers. Hann verdur farin fyrir 1. Okt.
Við skulum sjá hvernig fer á móti stoke. Ég er sammála að það sé allt undir hjá BR. FGS hefur stutt hann vel í leikmannakaupum og það er fyrir löngu komið að honum að skila árangri í hús.
Þó svo að manutd sé með stærri leikvöll og allt það þá skulum við átta okkur á því að við erum að eyða svipuðum upphæðum og þeir í leikmenn.
Daníel 18
Persónulega þykir mér meira varið í Rodgers & Hart. Skemmtilegri í alla staði. Hammerstein var alltaf dálítið yfir strikið.
Hef sjaldan verið jafnslakur í byrjun leiktíðar í enska boltanum og nú. Kannski vegna þess að eftir síðasta tímabil geri ég ekki eins miklar kröfur til liðsins og áður sem þýðir þá væntanlega að mér sé nokk sama þó liðið endi í 7.-8. sæti. En auðvitað er ekki svo. Liverpool er langbesta félagslið í heimi og heldur áfram að vera það í mínum huga, sama hvernig gengur. Vitanlega á maður eftir að bölsótast út í leikmenn liðsins og þjálfara í vetur, en það er bara eins og það er og óþarfi að leggjast í svartsýniskast áður en ferðin hefst. Leggjumst á eitt.
vantar í sumarkaupin, varnarlega á miðjuna. Ég vildi Brendan burt eftir síðasta tímabil og vill það enn. Nýjir menn sér við hlið og ný kaup breyta engu. Hann hefur engu breytt, sést á þessum æfingarleikjum. Hann verður farinn fyrir jól !!!
#17 gott stöff. Þeir Carragher og Neville eru stórskemmtilegt dúó. Það var frábært að fylgjast með þeim á monday night fótboltaþættinum – mæli með þeim þáttum á komandi leiktímabili. Kom mér mest á óvart að það virðist vera þónokkuð mikið til í kollinum á Neville.
Þetta er góður gluggi – klár styrking í Clyne, Firminho, Benteke og svo á reynsla Milner eftir að nýtast okkur vel þó mér hafi alltaf fundist hann hundleiðinlegur leikmaður þegar hann klæddis lillabláa búningnum. Ings gæti svo orðið bónusvinningurinn.
Sammála kommentum um að það hefði verið gott að fá ‘topp’ varnasinnaðan miðjumann – sá sem maður hefði helst viljað fá fór í vitlaust lið, þ.e.a.s. Schneiderlin.
Sorglegast við þettta sumar var þó hegðun og loks brotthvarf Sterling til annars liðs í Premiere League – hefði alltaf kosið að selja hann út úr Englandi fyrir jafnvel minni pening en það er víst ekki alltaf í stöðunni. Ég tel þó að Ibe muni stíga upp og springa út.
Flottur pistill eins og alltaf hjá KAR.
Ég er reyndar á því að í þessari upplistun á leikmönnunum sem hafa komið inn í hópinn að þar séu bætingar í öllum stöðum.
Sérstaklega í varamarkmannstöðunni, Bogdan er svo miklu betri milli stanganna en Jones er.
Svo er ég reyndar alveg viss um að nú þegar er Gomes betri en Enrique….ég er betri en Enrique 🙂
Það er eins hjá mér og svo mörgum hérna að ég fer inn í þetta tímabil í nokkur hlutlausum gír.
Mín tilfinning er sú að Liverpool eigi betra tímabil framundan en það síðasta, en þessi útileikja hrina í upphafi tímabilsins mun væntanlega reyna á taugarnar.
Okkar fyrrum stórkostlegi fyrirliði horfinn á braut og eflaust verður það til þess að aðrir stíga upp til góðra verka.
Bring on Stoke.
Y.N.W.A.
Mín spá: Við töpum “óvænt” fyrir Stoke, allt fer í háaloft, Brendan rekinn með skömm í nóvember, Klopp reynist ekki langa nógu mikið í eitthvað svona drama og við endum með einhvern nóboddí úr búttrúminu sem þjálfara sem reynist svo standa sig alveg prýðilega. Lendum í 7. sæti, enginn sáttur en til í að gefa nýja þjálfaranum séns þar sem aðstæður eru erfiðar og jadda jadda jadda. Næstu þrjú ár verða svo endurtekning á BR-tímabilinu, strögglum á næsta ári, náum óvæntum árangri árið eftir og svo með allt niður um okkur á þriðja árinu. Repeat, ad infinitum.
Eða við vinnum Stoke. Ég er svona hálfpartinn að vona það.
#24 Satt best að segja er Neville að mínu mati einn besti pundit’inn í sjónvarpi í dag. Hann er með mjög mikinn fótboltaheila og spáir oft í hlutum sem aðrir gera ekki. Þó hann sé fyrrum leikmaður Utd væri fáránlegt að líta á hann sem einhvern jólasvein (er ekki að segja að þú gerir það en sumir stuðningsmenn Liverpool gera það).
—————————–
Varðandi pressu á BR í vetur, hún er til staðar svo sannarlega, án efa sá stjóri í deildinni sem mest pressa er á ásamt kannski Pellegrini (af öðrum ástæðum þó). Óheppnin er þó með honum í ljósi leikjauppröðunar, útileikirnir okkar fram í Nóvember er eins og allir vita brútal. En standist hann prófið held ég að margir verði aftur komnir á Rodgers lestina, af sama skapi mun fjölga í hópi þeirra sem vilja losna við hann endi það þannig að við verðum neðar en 5-7. sæti eftir þessa törn.
Ég bíð ennþá eftir að fleiri leikmenn komi inn, við VERÐUM að fá inn varnartengilið og við VERÐUM að fá inn vinstri bakvörð. Ef ekki núna þá í allra síðasta lagi í janúar.
En ég get ekki beðið eftir að deildin byrji að rúlla, og vonandi að fyrsti leikur endi á jákvæðan hátt. Vonum bara að Rodgers noti það sem honum er hrósað mikið fyrir oft sem er man management og að hann nái að draga úr stressi fyrir leikinn gegn Stoke.
Let the games begin!
Satt best að segja ótrúlega spenntur fyrir komandi tímabil og finnst þessi hópur ótrúlega spennandi. Við erum með mikið að ungum strákum sem eru mjög flottir en að sjálfsögðu getur brugðið til beggja vonar, þar sem reynsluleysi og stöðugleika mun örugglega há okkur eitthvað en ef þolinmæði verður við völdin er aldrei að vitað hvað getur gerst. En fyrst og fremst langar mig að hrósa þessari síðu. Ekkert smá flottir pistlar sem eru póstaðir hérna þar sem farið er frekar hlutlaust yfir málin og gerir mann enn þá spenntari fyrir tímabilið. Endilega haldið áfram að pósta.. Y.N.W.A.
sælir
Ég á ekki von á neinni flugeldasýningu í upphafi móts, liðið hefur lítið spilað saman með sína toppmenn í æfingaleikjum og það sem hefur sést í æfingaleikjunum er ekki sannfærandi. Ég held í raun að einstakir leikmenn í vörn séu ekki stóra vandamálið (fyrir utan moreno sem verður að bæta varnarleik sinn til þess að honum sé treystandi fyrir byrjunarliðssæti) miklu frekar er það skortur á varnarleik miðjumanna en þeir klikka ítrekað á því að sitja eftir og loka svæðum þegar bakverðirnir þeysast upp kantana. Þetta hefur verið vandamál lengi. Það eru alveg menn sem geta spilað þetta hlutverk þó svo að við höfum engan náttúrulegan í því nema helst Lucas og það eru einfaldlega mörg ár síðan maður talaði um að hann væri í toppstandi. Mér fannst margt til í því sem Lovren sagði að þetta væri vandmál liðsins en ekki miðvarðanna þó svo að þeir hafi líka alveg gert fullmikið af einstaklingsmistökum en þetta helst allt í hendur.
Horfandi aftur þá er ljóst að ótrúleg frammistaða Suarez og Sturridge fyrir tveimur árum færðu þetta lið okkar mörgum skrefum framar en við áttum von á. Að sama skapi féll liðið til baka um mörg skref í fyrra við brotthvarf LS og meiðsli Sturridge ásamt því að nýjir liðsmenn náðu ekki að setja mark sitt á liðið. Kaup FSG í sumar eru hinsvegar alveg í takt við fyrri stefnu þeirra og í mínum huga er verið að halda áfram með fyrri stefnu.
Ég held að við verðum heppnari með nýju mennina í vetur heldur en í fyrravetur og jafnvel gæti reynst bónus ef menn eins og lallana og lovren spila stærra hlutverk ásamt því að Can haldi áfram að bæta sig. Ég á í raun von á betra tímabili en það þarf samt ekki endilega að enda með titlum eða CL sæti. Ég held að menn ættu að horfa til jóla og meta stöðu þjálfarans þá þ.e. hvort ástæða sé til hrókeringa, er pínu spenntur að sjá hvort hann hafi náð að nota síðasta tímabil í reynslubankann og komi sterkari til leiks í vetur.