Josemi – Carragher – Hyypiä – Riise
Finnan – Gerrard – Hamann – Kewell
García – Cissé
Svona var byrjunarliðið í 3-0 sigrinum gegn W.B.A. um helgina og maður hlýtur að spyrja sig: er þörf á að breyta liði sem spilaði jafn vel og raun bar vitni?
Auðvitað ekki. Jú, nema þú sért með menn á bekknum sem heita Xabi Alonso og Milan Baros. Þá þarftu kannski að íhuga breytingar á byrjunarliðinu einu sinni enn, til að vera viss.
Þetta er sú klemma sem Rafa Benítez stjóri stendur frammi fyrir þegar hann hripar ellefu nöfn niður á blað á morgun og tilkynnir hópnum byrjunarliðið fyrir leikinn á morgun. Og spurningarnar eru nokkar:
1: Þarf að breyta sigurliði? If it ain’t broke, don’t fix it…
2: Var Rafa að hvíla Xabi Alonso? Og ef svo er, hverjum á að fórna til að hann komi aftur inn í liðið?
3: Á Milan Baros endilega að koma aftur inn í byrjunarliðið þegar liðið skoraði þrjú mörk án hans? Er ekki nóg að García og Cissé hafi brillerað frammi?
Þetta eru allt erfiðar spurningar og í raun er ég feginn að eiga ekki völina. Rafa Benítez veit þetta allt manna best og ég er viss um að hann kemst að réttri niðurstöðu. Þannig að menn láta það vonandi ekki koma sér á óvart þótt við sjáum t.d. Finnan fara út fyrir Baros og Hamann fara út fyrir Xabi Alonso fyrir þennan leik gegn Mónakó. Ef þær breytingar verða gæti liðið litið svona út:
Josemi – Carragher – Hyypiä – Riise
García – Gerrard – Alonso – Kewell
Baros – Cissé
Þetta er talsvert sókndjarfara byrjunarlið en ef Hamann og Finnan væru þarna inni. Hins vegar er ekki af þeim tekið að Finnan skoraði frábært mark og var rosalega góður á kantinum, auk þess sem Hamann hefur almennt byrjað tímabilið mjög vel að mínu mati og kórónaði það á laugardaginn með því sem ég vill meina að hafi verið hans besta frammistaða fyrir Liverpool í laaangan tíma.
Þannig að sá á kvölina sem á völina. En þetta er allavega góð kvöl fyrir Rafa, það er alltaf gott að vita að maður hefur breidd og fleiri en bara 11 leikmenn sem geta staðið fyrir sínu í Meistaradeildinni.
Þá má ekki gleyma því að Chris Kirkland er nú loksins orðinn heill heilsu og sest því væntanlega á bekkinn gegn Mónakó. En það þýðir að Dudek er búinn með mölligan-valkostinn. Hann má ekki gera fleiri mistök, það bíður landsliðsmaður eftir að hirða af honum stöðuna.
Hvað mótherjana í Mónakó varðar þá er lítið að segja. Þeir komust í úrslit Meistaradeildarinnar sl. vor og voru almennt taldir leika skemmtilegasta fótboltann í keppninni síðasta vetur.
Síðan þá hafa þeir misst eftirtalda leikmenn: Fernando Morientes, Dado Prso, Ludovic Giuly, Jérome Rothen, Edouard Cissé svo nokkrir séu nefndir, og alls átta af þeim leikmönnum sem byrjuðu úrslitaleikinn í maí gegn Porto. Það er engin smá blóðtaka!
Í staðinn hafa þeir ekki fengið mikið. Miðjan er ennþá vandamál enda hurfu þar Cissé á miðri miðjunni, Giuly fyrirliði á hægri kantinum og Rothen á vinstri vængnum. Í staðinn fengu þeir einn Grikkja eða svo, sem eru engan veginn jöfn skipti.
Framherjarnir tveir, Dado Prso og Morientes fóru og í staðinn fengu þeir Mohammed Kallon frá Internazionale og Javíer Saviola frá Barcelona. Reyndar er Saviola í banni í þessum leik en hann fékk rauða spjaldið í leik Barca gegn Glasgow Celtic í Evrópukeppni Félagsliða í apríl sl., og byrjar því þessa Evrópukeppni í banni. Okkur til mikils léttis.
Þetta Mónakó-lið er hins vegar sýnd veiði en alls ekki gefin. Didier Déschamps sannaði það í fyrra að hann kann að ná því besta út úr sínum leikmönnum og hefur jafnan hvatt lið Mónakó til að spila frjálsan og flæðandi sóknarbolta. Því mun eflaust mæða mikið á varnarmönnum okkar í þessum leik, ekki síst gegn Kallon sem er feykilega sterkur, ekki ósvipaður Yakubu hjá Portsmouth.
Mín spá: Ég tel okkar menn hins vegar eiga fulla möguleika á að sigra í þessum leik og held að eins lengi og engin stórslys eiga sér stað snemma leiks (eins og að fá á sig klaufamark í byrjun eða eitthvað álíka) þá eigi Liverpool bara að leika út sinn taktíska leik og klára dæmið, ekkert ósvipað og þeir gerðu gegn W.B.A. um helgina.
Hins vegar er Mónakó-liðið talsvert sterkari andstæðingur en W.B.A. og því er ljóst að þeir munu refsa fyrir minnstu mistök okkar manna. Um það snýst þetta jú, þetta er Meistaradeildin – keppni þeirra bestu – og þar eru öll liðin stórhættuleg!
Ég hlakka bara til að sjá þennan leik. Eftir tveggja ára fjarveru er Liverpool FC loksins snúið aftur í keppni þeirra bestu og ég er fullur bjartsýni!
Lokastaða: 2-0 eða 2-1 fyrir okkar mönnum, fer eftir því hvort þeir ná að komast yfir snemma eða ekki. En ég held að við höfum þetta á endanum. Ég ætla þó ekki að spá fyrir um markaskorara enda hefur það í gegnum tíðina bara reynst bölvun á þeim mönnum sem mér finnst líklegir. Eigum við ekki bara að segja að Dudek skori bæði mörkin eftir hornspyrnur? 😉
Talandi um leikinn í kvöld og hvað Monaco misstu af framherjum og hverja þeir fengu þá held ég að það megi ekki gleyma Chévanton sem þeir fengu frá Lecce og mörg af stærstu liðum Ítalíu vora að reyna að fá. Hann gæti vel minnt á sig í kvöld enda frábær framherji.
Fór Chévanton til Mónakó? Ég bara vissi það ekki … gott að vita af því, frábær framherji þar á ferð. Þetta verður þá kannski spennandi eftir allt saman :tongue: